Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2016
Lykilorð
- Skuldabréf
- Tryggingarbréf
- Veðréttur
- Fyrning
- Skipti
- Kröfuréttur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2016. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að fjárnámskrafa hans verði lækkuð. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms, þó þannig að upphafstími dráttarvaxta miðist við 28. júlí 2011. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf Teknís ehf., sem síðar fékk heitið MH-44 ehf., út skuldabréf 26. júní 2007 í þremur erlendum gjaldmiðlum til Glitnis banka hf., að jafnvirði 95.000.000 krónur, en lánið mun hafa verið tekið í þeim tilgangi að fjármagna viðbyggingu við fasteign félagsins að Miðhrauni 8 í Garðabæ. Í skuldabréfinu var ákvæði þess efnis að yrðu vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af því eða aðrar vanefndir væri heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar.
Hinn 9. júní 2008 leysti Glitnir banki hf. viðbygginguna að Miðhrauni 8 úr veðböndum, en mun jafnframt hafa krafið áfrýjandann Jón Þór um frekari veðtryggingar fyrir áðurnefndri skuld Teknís ehf. Af því tilefni gáfu Teknís ehf. og áfrýjandinn Jón Þór degi síðar út tryggingarbréf með allsherjarveði til tryggingar greiðslu skulda við Glitni banka hf., samtals að fjárhæð 40.000.000 krónur, og skyldi fjárhæðin bundin vísitölu neysluverðs miðað við tiltekna grunnvísitölu. Í tryggingarbréfinu sagði að það væri til „tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum mínum/okkar og/eða síðar tilgreinds aðila, nú eða síðar, við Glitni banka hf. ... eða þann sem bankinn vísar til, í hvaða formi eða gjaldmiðli sem skuldbindingarnar eru eða verða á hverjum tíma, allt eftir vali bankans og hvort sem um er að ræða höfuðstól, verðbætur, gengismun, dráttarvexti, innheimtukostnað eða annan kostnað, hverju nafni sem nefnist.“ Með tryggingarbréfinu var bankanum sett að veði með 4. veðrétti og uppfærslurétti fasteignin Dverghamrar 1 í Reykjavík. Undir tryggingarbréfið ritaði áfrýjandinn Jón Þór sem útgefandi og þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar og áfrýjandinn Margrét sem þinglýstur eigandi og maki útgefanda. Í tryggingarbréfinu var kveðið á um að yrðu vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuld eða skuldum, sem bréfinu væri ætlað að tryggja, væri „heimilt að fella alla skuldina/skuldirnar í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar“ og ganga að veðinu.
Fyrrgreint skuldabréf skyldi endurgreiðast mánaðarlega með 180 afborgunum og var fyrsti gjalddagi þess 1. ágúst 2007. Bréfið var í vanskilum frá og með gjalddaga 1. febrúar 2010 og gjaldfellt 30. apríl sama ár samkvæmt áðurgreindri heimild í því. Einkahlutafélagið MH-44 var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 19. janúar 2011 og lýsti stefndi kröfum í búið, samtals að fjárhæð 262.703.116 krónur. Þar af nam krafa samkvæmt skuldabréfinu frá 26. júní 2007 samtals 243.013.338 krónum. Skiptum í búinu lauk 26. júní 2012 án þess að stefndi fengi fullnægt kröfu sinni á hendur félaginu samkvæmt skuldabréfinu.
Stefndi, sem tekið hafði við réttindum og skyldum Glitnis banka hf., höfðaði 12. nóvember 2012 mál á hendur áfrýjendum til viðurkenningar á veðrétti sínum fyrir eftirstöðvum skuldarinnar ásamt dráttarvöxtum og til að þola að fjárnám yrði gert í fasteigninni að Dverghömrum 1 til tryggingar skuldinni, auk dráttarvaxta. Með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 576/2014 var málinu vísað frá héraðsdómi og framhaldi af því höfðaði stefndi mál þetta 20. apríl 2015. Gerði hann sömu kröfur og í fyrra máli að því frátöldu að fjárhæð sú, sem hann krefst viðurkenningar á að tryggð sé með fyrrgreindu tryggingarbréfi, var hækkuð úr 47.672.329 krónum í 48.071.928 krónur. Þá hefur stefndi fyrir Hæstarétti fært upphafsdag dráttarvaxta frá 30. apríl 2010 til 28. júlí 2011.
II
Ákvæði 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, um fyrningarfrest krafna, sem greiðast ekki við gjaldþrotaskipti, eða eftir atvikum þann hluta þeirra sem ekki fæst fullnægt, geta eftir eðli sínu aðeins tekið til einstaklinga. Helgast það af því að lok gjaldþrotaskipta á búi lögpersónu leiða til þess að hún er endanlega afmáð, nema skiptum hafi verið lokið með nauðasamningi eða kröfur verið afturkallaðar, sbr. 1. og 2. mgr. 154. gr. laganna. Getur því eftir eðli málsins ekki reynt á þessa ábyrgð lögpersónu eftir skiptalok.
Þótt tilvist MH-44 ehf. hafi lokið þegar skiptum lauk í þrotabúi þess 26. júní 2012 og ekki reyni samkvæmt framansögðu á ábyrgð félagsins á skuld þeirri, er hér um ræðir, leiddi það ekki til þess að krafan hafi sjálfkrafa og samtímis því liðið undir lok eins og áfrýjendur halda fram. Kemur þá til úrlausnar hvort önnur atvik standi því í vegi að stefndi geti sótt greiðslu kröfunnar á hendur áfrýjendum, en varnir þeirra í því sambandi eru meðal annars á því reistar að krafan sé fyrnd.
Í samræmi við almennar reglur kröfuréttar stofnaðist krafa stefnda samkvæmt skuldabréfinu 26. júní 2007 við útgáfu þess. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda öðluðust þau gildi 1. janúar 2008 og eiga einvörðungu við um þær kröfur, sem stofnuðust eftir gildistöku laganna. Af því leiðir að um fyrningu kröfu þeirrar, sem um ræðir í málinu, gilda ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í 1. tölulið 4. gr. þeirra kemur fram að kröfur samkvæmt skuldabréfi fyrnast á 10 árum og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna er meginreglan sú að fyrningarfrestur telst frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram sú sérregla að fari gjalddagi skuldar eða annarrar kröfu eftir undanfarandi uppsögn af hálfu kröfueiganda telst fyrningarfresturinn frá þeim degi er skuldin í fyrsta lagi gat orðið gjaldkræf eftir uppsögn. Samkvæmt þessu byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar að líða þegar stefndi 30. apríl 2010 neytti heimildar sinnar samkvæmt skuldabréfinu til að gjaldfella ógreiddar eftirstöðvar þess. Var krafan því ófyrnd þegar stefndi höfðaði mál þetta. Gildir þá einu hvort heldur miðað er við málshöfðunina 12. nóvember 2012 eða 20. apríl 2015. Hið sama gildir um vexti af kröfunni, sbr. 1. tölulið 3. gr. laganna, svo sem kröfugerð stefnda fyrir Hæstarétti er háttað. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að upphafstími dráttarvaxta er frá 28. júlí 2011.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. janúar sl., var höfðað 20. apríl 2015.
Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2 í Reykjavík.
Stefndu eru Jón Þór Sigurðsson og Margrét Jóhannsdóttir, bæði til heimilis að Dverghömrum 1 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að þola viðurkenningu á 4. veðrétti í fasteigninni Dverghömrum 1, Reykjavík, fastanr. 203-9155, fyrir 48.071.928 krónum samkvæmt tryggingarbréfi nr. 537-117807, útgefnu 10. júní 2008, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2010 til greiðsludags og til að þola að fjárnám verði gert í fasteigninni Dverghömrum 1, Reykjavík, fastanr. 203-9155, fyrir 48.071.928 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Þess er sérstaklega krafist að málskostnaðarkröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en verði henni ekki vísað frá dómi er þess krafist að stefndu verði sýknuð af henni. Til vara er þess krafist að fjárhæð fjárnámsins, sem krafist er að stefndu skuli þola, verði lækkuð verulega. Þá krefjast stefndu í öllum tilfellum hvort um sig málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts.
I
Með tryggingarbréfi nr. 537-117807, útgefnu 10. júní 2008 af stefnda Jóni Þór Sigurðssyni og Teknís ehf., síðar MH-44 ehf., var fasteignin Dverghamrar 1, fastanúmer 203-9155, sett að veði með 4. veðrétti og uppfærslurétti til tryggingar á skuldum útgefenda við Glitni banka hf. með samþykki stefndu Margrétar. Réttindi Glitnis Banka hf. samkvæmt tryggingarbréfinu fluttust til Íslandsbanka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Tryggingarbréfið var upphaflega að fjárhæð 40.000.000 króna, verðtryggt með vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu sem var þá 300,3 stig og stóð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum útgefenda við Glitni banka hf., í hvaða formi eða gjaldmiðli sem skuldbindingarnar væru eða yrðu á hverjum tíma og hvort sem um væri að ræða höfuðstól, verðbætur, gengismun, dráttarvexti, innheimtukostnað eða annan kostnað hverju nafni sem hann nefnist.
Fjárhæð stefnukröfu er uppreiknaður höfuðstóll tryggingarbréfsins 30. apríl 2010 við gjaldfellingu á skuld þeirri sem krafist er viðurkenningar á að sé tryggð með tryggingarbréfinu miðað við vísitölu neysluverðs sem þá var 360,9 stig. Skuldin er tilkomin vegna skuldabréfs nr. 101575 sem var gefið út 26. júní 2007 af Teknís ehf. til Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf. Einkahlutafélagið Teknís var í eigu stefnda Jóns Þórs. Skuldabréfið ber heitið „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“ og er skuldin tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, 559.262 svissneskum frönkum, 111.896.349 japönskum jenum og 112.679 evrum, að jafnvirði 95.000.000 króna. Skuldabréfið er í vanskilum frá 1. febrúar 2010 og var gjaldfellt 30. apríl 2010 með heimild í 10. gr. skilmála þess. Skuldina bar samkvæmt upphaflegum skilmálum að endurgreiða með 180 afborgunum á eins mánaðar fresti ásamt vöxtum, í fyrsta sinn 1. ágúst 2007. Vextir skyldu reiknast frá kaupdegi og vera LIBOR-vextir fyrir lánshluta í öðrum myntum en evrum en EURIBOR-vextir fyrir lánshluta í evrum. Fyrsta vaxtatímabilið voru vextir af lánshluta í svissneskum frönkum 2,66917% auk 2,25% fasts vaxtaálags. Vextir af lánshluta í japönskum jenum voru fyrsta vaxtatímabilið 0,74719% auk 2,25% fasts vaxtaálags og vextir af lánshluta í evrum voru fyrsta vaxtatímabilið 4,158% auk 2,25% fasts vaxtaálags. Vegnir meðaltalsvextir fyrsta vaxtatímabilið voru því 3,914865%.
Andvirði skuldabréfsins var greitt inn á reikning Teknís ehf. þann 26. júní 2007. Greitt var andvirði lánshluta í 559.262 svissneskum frönkum að frádregnu 1% lántökugjaldi 0,5% stimpilgjaldi og þóknun vegna skjalagerðar. Alls voru greiddir út 550.799,07 svissneskir frankar á genginu 51,07 eða samtals 28.129.309 krónur. Andvirði lánshluta í 111.896.349 japönskum jenum að frádregnu 1% lántökugjaldi og 0,5% stimpilgjaldi var alls 110.217.904 japönsk jen á genginu 0,5095 eða 56.156.022 krónur. Andvirði lánshluta í 112.679 evrum að frádregnu 1% lántökugjaldi og 0,5% stimpilgjaldi var alls 110.988,81 evra á genginu 84,4 eða 9.367.456 krónur. Samtals voru því 93.652.787 krónur lagðar inn á reikning félagsins.
Þann 22. desember 2008 var undirrituð breyting á skilmálum skuldabréfsins þannig að eftirstöðvarnar að fjárhæð 509.550 svissneskir frankar, 101.950.013 japönsk jen og 102.663 evrur, án vaxta, skyldu framvegis endurgreiðast með sex vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2008 og 164 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. júní 2009. Vextir skyldu reiknast frá síðasta greidda gjalddaga. Önnur skilmálabreyting var gerð 21. september 2009 þannig að eftirstöðvar skuldabréfsins að fjárhæð 503.336,12 svissneskir frankar, 100.707.218,14 japönsk jen og 101.411,02 evrur skyldu endurgreiðast með sex vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. ágúst 2009 og 162 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. febrúar 2010. Vextir skyldu reiknast frá 1. júlí 2009.
Skuldabréfið var gefið út vegna láns sem Teknís ehf. tók til að fjármagna viðbyggingu við fasteign félagsins að Miðhrauni 8 í Garðabæ. Viðbyggingin var leyst úr veðböndum og gekk til félagsins Icelandic Hydrogen ehf. sem stefndi Jón Sigurðsson greindi frá að hefði verið stofnað af Teknís ehf. og öðrum aðila. Við veðbandslausnina var fasteign stefndu að Dverghömrum veðsett með framangreindu tryggingarbréfi.
Teknís ehf., síðar MH-44 ehf., var úrskurðað gjaldþrota 19. janúar 2011. Stefnandi lýsti kröfum í þrotabúið samtals að fjárhæð 262.703.116 krónur. Stefnandi leysti til sín fasteign þrotabúsins að Miðhrauni 8 í Garðabæ á veðhafafundi 28. júlí 2011 og var verðmæti eignarinnar, 87.000.000 króna, ráðstafað upp í áhvílandi lögveð og veðskuldir, þ.m.t. framangreint skuldabréf. Fjárhæðin var miðuð við meðaltal verðmats tveggja fasteignasala, annars vegar að fjárhæð 84.000.000 króna og hins vegar 90.000.000 króna. Þannig var 8.263.524 krónum ráðstafað til greiðslu fasteignagjalda, 249.112 krónum ráðstafað til greiðslu brunatrygginga, 397.600 krónur fóru í greiðslu stimpil- og þinglýsingargjalda, 14.468.048 krónur fóru til uppgreiðslu á skuldabréfi 537-74-969031, 5.896.050 krónur fóru til uppgreiðslu á tékkareikningsskuld vegna reiknings 537-26-500490, en mismunurinn, 57.725.666 krónur, var greiddur inn á skuldabréf nr. 101575. Skiptum í þrotabúinu lauk 26. júní 2012. Eftirstöðvar skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu voru 305.516.255 krónur þann 10. apríl 2015.
Stefnandi höfðaði mál gegn stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem þingfest var 13. desember 2012 og var fallist á kröfur stefnanda með dómi héraðsdóms 8. apríl 2014. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar en með dómi hans 12. febrúar 2015 í málinu nr. 576/2014 var málinu vísað frá héraðsdómi.
II
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann njóti tryggingarréttinda í fasteign stefndu vegna framangreindrar skuldar samkvæmt skuldabréfi nr. 101575. Skuldabréfið sé í vanskilum frá 1. febrúar 2010 og hafi verið gjaldfellt 30. apríl 2010. Þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla á gjaldfellingardegi í samræmi við 10. gr. skilmála skuldabréfsins.
Á gjaldfellingardegi hafi eftirstöðvar lánshluta í svissneskum frönkum, samkvæmt legg nr. 853102, verið 494.015,09 svissneskir frankar, umreiknað í 58.738.394 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins 118,9. Áfallnir vextir frá 1. apríl 2010 hafi verið 929,23 svissneskir frankar eða 110.485 krónur. Ógreiddir gjaldfallnir gjalddagar hafi verið 8.140,24 svissneskir frankar eða 978.354 krónur miðað við gengi svissnesks franka á hverjum gjalddaga fyrir sig. Samtals hafi eftirstöðvar lánshluta 853102 því verið 59.827.233 krónur.
Eftirstöðvar lánshluta í japönskum jenum, samkvæmt legg nr. 853103, hafi verið 98.842.266,70 japönsk jen umreiknað í 134.395.830 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins 1,3597. Áfallnir vextir frá 1. apríl 2010 hafi verið 191.393,69 japönsk jen eða 260.238 krónur. Ógreiddir gjaldfallnir gjalddagar hafi verið að fjárhæð 2.469.040 japönsk jen eða 3.484.709 krónur miðað við gengi japansks jens á hverjum gjalddaga fyrir sig. Samtals hafi eftirstöðvar lánshluta 853103 því verið 138.140.777 krónur.
Þá hafi eftirstöðvar lánshluta í evrum, samkvæmt legg nr. 853104, verið 99.533,02 evrur umreiknað í 16.955.450 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins 170,35. Áfallnir vextir frá 1. apríl 2010 hafi verið 212,32 evrur eða 36.168 krónur. Ógreiddir gjaldfallnir gjalddagar hafi verið 1.698,43 evrur eða 294.882 krónur miðað við gengi evru á hverjum gjalddaga fyrir sig. Samtals hafi eftirstöðvar lánshluta nr. 853104 því verið 17.286.500 krónur.
Heildarskuld samkvæmt skuldabréfinu hafi því verið 215.254.510 krónur á gjaldfellingardegi þess 30. apríl 2010.
Skiptum hafi lokið á þrotabúi MH-44 ehf. þann 26. júní 2012, án þess að frekari greiðslur en andvirði fasteignarinnar að Miðhrauni 8 bærustu upp í lýstar kröfur. Stefnandi njóti tryggingarréttinda í fasteign stefndu vegna skulda félagsins. Stefndu séu eigendur hinnar veðsettu eignar. Þar sem skuld félagsins við stefnanda hafi ekki fengist greidd að fullu þrátt fyrir innheimtutilraunir sé stefnanda nauðsynlegt að nýta veðrétt sinn samkvæmt tryggingarbréfinu.
Þar sem tryggingarbréf stefnanda hafi ekki beina uppboðsheimild samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta til viðurkenningar á réttindum hans í fasteign stefndu og staðfestingar á því að tryggingarbréfið tryggi þá skuld sem tiltekin sé í stefnu og til þess að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni svo unnt sé að gera fjárnám í eign stefndu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Aðeins á þeim grundvelli geti stefnandi öðlast beina uppboðsheimild gagnvart stefndu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. nauðungarsölulaga.
III
Stefndu reisa sýknukröfu sína meðal annars á því að lán samkvæmt skuldabréfi nr. 101575 sé gengistryggt ólögmætt lán sem hafi ekki verið endurútreiknað. Á skuldabréfinu komi fram að lánið hafi verið að fjárhæð 95.000.000 íslenskra króna. Óumdeilt sé að það hafi verið greitt út í íslenskum krónum og greitt hafi verið af því með sama gjaldmiðli. Þá sé vísað til þess í skuldabréfinu að lánshluti í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti. Lánið hafi því verið í íslenskum krónum en gengistryggt í þeim gjaldmiðlum sem taldir séu upp í bréfinu.
Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að lán sem bundin væru við gengi erlendra gjaldmiðla færu í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndu telji það sama eiga við í þessu máli. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 155/2011 hafi verið staðfest að þessi sjónarmið ættu einnig við um lán vegna fjármögnunar á rekstri. Stefndu telji því óumdeilt að lán samkvæmt skuldabréfi nr. 101575, sem liggi til grundvallar kröfu stefnanda, sé í íslenskum krónum með gengistryggingu sem stríði gegn 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001.
Stefnandi hafi ekki endurútreiknað framangreint lán sem veitt hafi verið Teknís ehf. Kröfulýsing stefnanda í þb. MH-44 ehf., stöðuyfirlit vegna innheimtumáls og önnur gögn stefnanda um þróun lánsins og yfirferð hans um það í stefnu fái af þeim sökum ekki staðist og verði ekki lögð til grundvallar í máli þessu. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á hver sé staðan á umræddri skuld eða hvort skuldin sé yfirhöfuð til staðar. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að hann eigi viðurkenningarrétt samkvæmt tryggingabréfi nr. 537-117807 eða að veðrétturinn eigi að standa fyrir meintri kröfu stefnanda á hendur þb. MH-44 ehf. að því marki sem hámarksfjárhæð tryggingabréfsins nái til.
Stefndu telji að sýkna beri þau af framangreindum sökum en þó sé hugsanlega um vanreifun á viðurkenningarkröfu stefnanda að ræða sem varðað geti frávísun málsins af sjálfsdáðum, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi ekki bætt úr málatilbúnaði sínum eftir að fyrra máli aðila hafi verið vísað frá dómi, m.a. á þeim grunni að óljóst væri hverjar hefðu verið eftirstöðvar lánsins eftir 18 afborganir og eftir ráðstöfun 57.725.666 króna vegna sölu Miðhrauns 8 inn á það. Engin tilraun sé gerð til þess í stefnu að skýra stöðu lánsins eftir framangreindar ráðstafanir inn á það. Því sé ljóst að jafnvel þótt fallist væri á að um væri að ræða löglegt lán í erlendri mynt sé fjárhæð lánsins engu að síður ennþá vanreifuð.
Krafa stefnanda um fjárnám grundvallist á meintri fjárkröfu stefnanda á hendur þrotabúi MH-44 ehf. samkvæmt skuldabréfi nr. 101575. Stefndu byggi á því að þessi fjárkrafa sé fyrnd. Í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé kveðið á um fyrningu krafna sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotaskipti. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskipti og ekki fengist greidd sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Í 3. mgr. sömu greinar segi svo að fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði mál á hendur þrotamanninum innan fyrningarfrests og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma.
Ákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 gildi jafnt um einstaklinga og félög. Í 2. mgr. 1. gr. laganna segi að ef átt geti við og annað sé ekki tekið fram sé orðið þrotamaður í lögunum bæði notað um einstaklinga og félög. Svo sé um flest ákvæði laganna. Það sé eingöngu í fáum ákvæðum sem nokkurs konar eðlisbundinn ómöguleiki undanskilji félög, sbr. t.d. 3. mgr. 132. gr. um fjárslit þrotamanns og maka. Svo sé hins vegar ekki farið í 165. gr. laganna.
Ljóst sé að ákvæði 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og það hafi verið áður en því hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010, hafi átt jafnt við um einstaklinga og félög. Í því hafi verið kveðið á um fyrningarfrest krafna eftir gjaldþrotaskipti með þeirri einföldu reglu að hafi kröfu verið lýst við skiptin en ekki fengist greidd hafi fyrningu hennar verið slitið gagnvart þrotamanninum og nýr fyrningarfrestur þá byrjað að líða við skiptalok. Með lagabreytingu árið 2010 hafi reglunni verið breytt þannig að kveðið hafi verið á um tveggja ára fyrningarfrest og nauðsyn málshöfðunar til að rjúfa frestinn. Löggjafinn hafi engan fyrirvara gert um að nýju ákvæðin giltu ekki um félög eða að mismunandi fyrningarreglur ættu að gilda í kjölfar gjaldþrots einstaklings og félags. Verði því ekki dregin önnur ályktun en sú að tveggja ára fyrningarfrestur gildi jafnt um einstaklinga og félög og hann verði ekki slitinn nema með málshöfðun gegn þrotamanninum, sbr. 3. mgr. 165. gr. laganna.
Engu breyti þótt ákvæði 1. mgr. 116. gr. sömu laga kveði á um að mál verði ekki höfðað í héraði gegn þrotabúi nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum. Löggjafanum hafi verið í lófa lagið að mæla fyrir um slíka heimild til að hægt væri í reynd að rjúfa fyrningu gagnvart gjaldþrota félögum í samræmi við breytingu löggjafans á 165. gr. laga nr. 21/1991, en það hafi hann ekki gert.
Skiptum á þrotabúi MH-44 ehf. hafi lokið 26. júní 2012. Krafan hafi því verið fyrnd 26. júní 2014, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi hafi ekki höfðað mál til viðurkenningar á fyrningarslitum og hafi ekki gert slíka kröfu í þessu máli. Auk þess uppfylli stefnandi ekki skilyrði 3. mgr. 165. gr. laganna um sérstaka hagsmuni og líkur á fullnustu.
Hvað sem heimild til málshöfðunar og kröfugerð stefnanda líði sé í öðru lagi ljóst að mál til slita á fyrningarfresti hefði samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 átt að höfða gegn hinu gjaldþrota félagi. Um aðildarskort sé því að ræða, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ef stefnandi hugðist slíta fyrningarfresti kröfunnar í þessu máli.
Ef ákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 gilti ekki um félög sé ljóst að engin sett fyrningarregla gildi um kröfur á hendur þrotabúum félaga sem fáist ekki greiddar við gjaldþrotaskipti. Með lagabreytingunni árið 2010 hafi enda þágildandi regla um að nýr fyrningarfrestur byrjaði að líða við skiptalok verið afnumin. Því sé með engu móti hægt að halda því fram að sú regla ætti á ólögfestum grunni að gilda áfram að því er félög varði. Ef ákvæðið gildir ekki um félög standi tveir skýringarkostir eftir; annað-hvort falli slíkar kröfur niður við skiptalok eða þær hafi engan fyrningartíma. Síðari kosturinn sé augljóslega ótækur. Fyrri kosturinn hljóti því að verða ofan á. Samkvæmt því sé ljóst að ef 165. gr. laga nr. 21/1991 gildir ekki um félög, og þar með ekki um ógreidda kröfu stefnanda á hendur þrotabúi MH-44 ehf., hafi sú krafa fallið niður og liðið endanlega undir lok við skiptalok búsins 26. júní 2012.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður byggi stefndu á því að víkja beri tryggingarbréfi nr. 537-117807 í heild til hliðar þar sem það sé ósanngjarnt af stefnanda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig gagnvart stefndu, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í 2. mgr. 36. gr. komi fram að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Þá beri einnig að líta til þess hvaða forsendur hafi búið að baki hjá stefndu sem loforðsgjöfum og hvort loforðsmóttakandi hafi mátt vita af þeim forsendum.
Með framangreindu tryggingarbréfi hafi heimili stefndu verið sett að veði til tryggingar á skuld einkahlutafélags, en það hafi verið Glitnir banki hf., forveri stefnanda, sem hafi lagt til að málum yrði hagað með þeim hætti. Bankinn hafi, sem fjármálmálastofnun, verið í óyggjandi yfirburðastöðu gagnvart stefndu. Það eigi sérstaklega við um stefndu Margréti sem sé öryrki og hafi ekki verið útivinnandi í yfir 20 ár. Hún hafi ekki sérstaka þekkingu á fjármálum og hafi ekkert komið að rekstri Teknís ehf.
Þá beri að líta til forsendna þess að tryggingarbréfið hafi verið gefið út. Það hafi verið bæði veruleg forsenda og ákvörðunarástæða af hálfu stefndu, sem stefnandi hafi mátt vita um, að um væri að ræða tímabundna ráðstöfun sem eingöngu væri til komin vegna veðflutninganna og að staðið yrði við loforð stefnanda um endurskoðun veðbanda og afléttingu tryggingarbréfsins um leið og þau mál væru leyst. Þetta fái meðal annars stoð í tölvupóstsamskiptum stefnda Jóns Þórs við starfsmann stefnanda. Þessar forsendur hafi brugðist þegar stefnandi hafi ekki staðið við loforð sitt um endurskoðun og látið tryggingarbréfið hvíla áfram á eigninni. Stefndu telji að aðstæður til að aflétta tryggingarbréfinu hafi í síðasta lagi skapast þegar dæmt hafi verið að gengistryggð lán væru ólögmæt. Hefði þá átt að endurskoða veðböndin en ekkert hafi orðið úr þeirri endurskoðun þrátt fyrir loforð stefnanda.
Við mat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 verði einnig að taka tillit til þess að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða og ósanngjarnt að stefnandi geti sótt rétt á grundvelli slíks láns án endurútreiknings. Varðandi atvik sem síðar hafi komið til megi einnig líta til þess að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi staða Teknís ehf. veikst umtalsvert sem á endanum hafi leitt til þess að félagið hafi farið í þrot. Stefndu hafi því verið gerður bjarnargreiði með því að félaginu hafi verið lánað til framkvæmda og heimili þeirra sett að veði til að mæta kröfum stefnanda við veðflutningana.
Einnig sé byggt á því að ólögfestar reglur samningaréttar um brostnar forsendur leiði til þess að tryggingarbréf nr. 537-117807 sé ógilt og að engu hafandi gagnvart stefndu. Stefnandi hafi ekki staðið við loforð sitt um endurskoðun veðbanda Dverghamra. Stefnandi hafi mátt vita af þeirri forsendu stefndu og ákvörðunarástæðu að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. Það væri auk þess ekki ósanngjarnt gagnvart stefnanda að ógilda tryggingarbréfið á þessum grundvelli, m.a. vegna þess að stefnandi hafi þegar gengið að eignum sem hafi staðið til tryggingar skuldinni. Það sé knýjandi nauðsyn fyrir stefndu að fá sig leyst undan tryggingarbréfinu, enda sé heimili þeirra að veði.
Þá byggi stefndu á því að þegar hafi verið gengið að eignum sem hafi staðið til tryggingar allri skuld Teknís ehf. Fasteignin að Miðhrauni 8 í Garðabæ hafi verið lögð að veði til tryggingar skuldbindingum Teknís ehf. og stefnandi hafi leyst hana til sín. Fasteignin án viðbyggingarinnar hafi verið metin á 165 milljónir króna 10. apríl 2007. Rétt sé að miða við það verðmat sem hafi legið fyrir þegar eignin hafi verið sett að veði, enda hafi aðilum verið ljóst að sú eign stæði fyllilega undir skuldbindingum Teknís ehf. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að leysa hana til sín á mun lægra verði eða 87 milljónir króna og verði því að bera hallann af því að hafa vanrækt að leitast við að fá rétt markaðsverð fyrir fasteignina. Þá beri að miða við að hluta af söluandvirði vegna sölu á minni eignahluta að Miðhrauni 8, nr. 01 0104, sem hafi verið í eigu Icelandic Hydrogen ehf., hafi átt að ráðstafa inn á skuldabréf nr. 101575. Beri því að líta svo á að þegar hafi verið innleyst fullnægjandi trygging fyrir allri skuld Teknís ehf. og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Stefndu mótmæli kröfum stefnanda um dráttarvexti og málskostnað.
Varakrafa stefndu um lækkun dómkrafna stefnanda vegna fjárnáms byggist á því að upphæðin sé of há. Stefndu reisi kröfuna m.a. á sömu málsástæðum og aðalkröfu, t.a.m. vegna leiðréttingar á endurútreikningi ólögmæts gengistryggðs láns. Þá sé ráðstöfun söluandvirðis fasteignarinnar að Miðhrauni 8 í Garðabæ mótmælt. Stefnandi geti ekki byggt viðurkenningarétt sinn á skuld samkvæmt skuldabréfi óháð því hvernig hann hafi kosið að ráðstafa söluandvirði fasteignarinnar, svo sem með uppgreiðslu á skuldabréfi nr. 537-74-969031 og tékkareikningsskuld. Greiða hafi átt inn á allar skuldir Teknís ehf. í jöfnum hlutföllum miðað við fjárhæð. Skuld samkvæmt skuldabréfinu nr. 101575 eigi því að miðast við það og fjárhæð fjárnámsins að lækka sem því nemi að því gefnu að fjárhæð skuldarinnar rúmist innan marka tryggingarbréfsins.
Málskostnaðarkrafa stefnanda beinist að „hinu stefnda félagi“ en ekki sé útskýrt hvaða félag sé átt við. Engu félagi sé stefnt í málinu heldur tveimur einstaklingum. Málskostnaðarkrafan sé því vanreifuð og uppfylli ekki skilyrði um skýran og ljósan málatilbúnað samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum d- og e-lið. Beri því að vísa málskostnaðarkröfunni frá dómi. Þá sé og ljóst að dómurinn geti ekki dæmt stefndu til að greiða stefnanda málskostnað eins og stefnandi hagi kröfugerð sinni, sbr. 1. mgr. 111. gr. laganna.
IV
Stefnandi krefst þess í málinu að viðurkenndur verði 4. veðréttur í fasteigninni Dverghömrum 1 í Reykjavík fyrir 48.071.928 krónum samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu af stefnda Jóni Þór og Teknís ehf. og samþykktu af stefndu Margréti 10. júní 2008 og til að þola að fjárnám verði gert í fasteigninni fyrir sömu fjárhæð.
Stefndu reisa sýknukröfu sína einkum á því að skuldabréf það sem standi til grundvallar skuld þeirri sem stefnandi krefst viðurkenningar á að sé tryggð með framangreindu tryggingarbréfi, sé lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar verður við úrlausn á því hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim gerningum. Í dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2012 í málinu nr. 524/2011 segir að við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum sé fyrst að líta til heitis skuldabréfsins sem deilt sé um í málinu. Í öðru lagi verði litið til tilgreiningar á lánsfjárhæðinni. Í þriðja lagi verði litið til þess að vaxtakjör séu í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða. Þá verði í fjórða lagi litið til skilmálabreytinga skuldabréfsins. Þá segir í dómi Hæstaréttar frá 7. maí 2015 í málinu nr. 835/2014 að við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis hafi í dómaframkvæmd réttarins fyrst og fremst verið byggt að skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hafi gengist undir. Önnur atriði við lánveitinguna komi ekki til álita ef textaskýring tekur af skarið um efni skuldbindingarinnar að þessu leyti.
Heiti skuldabréfsins sem um er deilt í málinu er „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Lánsfjárhæðin er tilgreind í erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum og þar á eftir jafnvirði í íslenskum krónum. Þá eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða, en þeir eru tilgreindir LIBOR-vextir vegna lánshluta í öðrum myntum en evrum og íslenskum krónum og EURIBOR-vextir vegna lánshluta í evrum. Ekki skiptir máli þótt í skilmálum skuldabréfsins komi fram að lánshluti í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti, en ekki var um það að ræða í þessu tilviki. Þá er til þess að líta að skuldabréfið er samsvarandi því sem um var deilt í máli Hæstaréttar nr. 524/2011. Í fjórða lagi er fyrirsögn tveggja skilamálabreytinga „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum og/eða innlendum gjaldmiðlum“. Er þar getið upphaflegrar lánsfjárhæðar og eftirstöðva í erlendum gjaldmiðlum en ekki er getið jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að leggja til grundvallar að um hafi verið að ræða gilt lán í erlendum gjaldmiðlum.
Stefndu telja það vanreifað hver sé staða skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu, en stefnandi hafi ekki bætt úr málatilbúnaði sínum eftir að Hæstiréttur hafi vísað fyrra máli aðila frá dómi. Í stefnu er ítarlega greint frá stöðu skuldarinnar eftir þær innborganir sem voru inntar af hendi og lögð fram gögn því til staðfestingar. Einnig er greint frá því hvernig innlausnarverð fasteignarinnar að Miðhrauni 8 í Garðabæ hafi verið fundið og hvernig því hafi verið ráðstafað auk þess sem lögð hafa verið fram gögn varðandi það. Þá er gerð grein fyrir stöðu skuldarinnar á gjaldfellingardegi og 10. apríl 2015, eða skömmu fyrir málshöfðun. Verður því ekki fallist á það með stefndu að um vanreifun sé að ræða.
Stefndu telja að krafa stefnanda um fjárnám grundvallist á fjárkröfu sem sé fyrnd, sbr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 2. mgr. 165. gr. segir að hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskipti og ekki fengist greidd við þau sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Skiptum í þrotabúi MH-44 ehf. lauk 26. júní 2012. Stefnandi höfðaði mál gegn stefndu 12. nóvember 2012 og var dómur kveðinn upp 8. apríl 2014. Stefndu skutu málinu til Hæstaréttar sem kvað upp dóm 12. febrúar 2015 og vísaði málinu frá héraðsdómi. Stefnandi höfðaði svo mál þetta 20. apríl 2015. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nú 22. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gat stefnandi höfðað nýtt mál innan sex mánaða þótt fyrningarfrestur væri liðinn. Var krafa stefnanda því ekki fyrnd er mál þetta var höfðað. Þá verður ekki talið að um aðildarskort sé að ræða.
Stefndu byggja jafnframt á því að víkja eigi tryggingarbréfinu til hliðar þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefndu telja að stefnandi hafi haft yfirburðastöðu gagnvart þeim, sérstaklega stefndu Margréti, og það hafi verið hann sem hafi lagt til að heimili stefndu yrði sett að veði. Þá vísa stefndu til þess að það hafi verið forsenda fyrir útgáfu tryggingarbréfsins að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða. Stefndu hafa vísað um þetta til tölvupóstsamskipta við útibússtjóra bankans. Af gögnum málsins og framburði stefndu verður ráðið að fasteign stefndu hafi verið veðsett þar sem veðtryggingar stefnda Jóns og Teknís ehf. urðu minni en áður vegna þess að viðbygging var skráð á nýjan eiganda, Icelandic Hydrogen ehf., og sá eignarhluti leystur úr veðböndum. Í framangreindum tölvupóstsamskiptum kemur fram að bankinn hafi verið tilbúinn til þess að endurskoða veðböndin á fasteign stefndu ef breytingar yrðu á lánastöðunni, svo sem ef hún lækkaði vegna gengisbreytinga. Ekkert liggur fyrir um að slíkar aðstæður hafi skapast. Verður því ekki ráðið af gögnum málsins að önnur forsenda hafi verið fyrir útgáfu tryggingarbréfsins en sú að viðbyggingin við Miðhraun 8 í Garðabæ yrði leyst úr veðböndum. Þá verður ekki séð að bankinn hafi nýtt sér yfirburðastöðu þannig að veðsetningin yrði ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að stefndu hafi sýnt fram á einhver þau atvik sem leiði til þess að talið verði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning aðila fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki verður heldur fallist á að forsendur fyrir útgáfu tryggingarbréfsins hafi brostið enda verður, eins og að framan greinir, ekki séð að bankinn hafi brotið loforð til stefndu um endurskoðun veðbanda á fasteign þeirra.
Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá lögmanni stefndu að ósanngjarnt væri að bera tryggingarbréfið fyrir sig þar sem greiðslumat hafi ekki verið framkvæmt, sbr. samkomulag um notkun ábyrgð á skuldum einstaklinga, en ekki er vikið að þessari málsástæðu í greinargerð stefndu. Lögmaður stefnanda mótmælti málsástæðunni sem of seint fram kominni. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Kemur þessi málstæða því ekki til álita í málinu.
Stefndu byggja á því að þegar hafi verið gengið að eignum sem hafi staðið til tryggingar skuld Teknís ehf. við stefnanda. Stefndu hafa ekki rökstutt hvers vegna miða eigi við verðmat frá því fasteignin hafi verið veðsett árið 2007 en hvorugt það mat sem fór fram 2011. Þá þykir sýnt að jafnvel þótt miðað hefði verið við þá fjárhæð hefði það ekki lækkað skuldina það mikið að það hefði áhrif á ábyrgð stefndu samkvæmt tryggingarbréfinu. Engin rök eru heldur færð fyrir þeirri fullyrðingu að miða beri við að hluti af söluandvirði vegna sölu á minni eignahluta að Miðhrauni 8, sem var í eigu Icelandic Hydrogen ehf., hefði átt að ráðstafa inn á skuldabréf nr. 101575. Er stefndu því ekkert hald í framangreindum málsástæðum.
Varakröfu stefndu, um lækkun fjárhæðar vegna fjárnáms sem þeim verði gert að þola, reisa þau á sömu málsástæðum og aðalkröfu, sem hefur þegar verið hafnað. Þá telja þau að söluandvirði fasteignarinnar að Miðhrauni 8 í Garðabæ hafi átt að ráðstafa inn á allar skuldir Teknís ehf. í jöfnum hlutföllum miðað við fjárhæð. Samkvæmt tryggingarbréfinu settu stefndu fasteign sína að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Teknís ehf. og stefnda Jóns við stefnanda í hvaða formi og gjaldmiðli sem skuldbindingarnar eru, allt eftir vali bankans og hvort sem um er að ræða höfuðstól, gengismun, dráttarvexti, innheimtukostnað eða annan kostnað. Engin rök standa því til þess að ráðstafa hafi átt söluandvirðinu inn á skuldir félagsins í jöfnum hlutföllum miðað við fjárhæð.
Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á dómkröfur stefnanda og viðurkenndur 4. veðréttur í fasteign stefndu að Dverghömrum 1 í Reykjavík og stefndu gert skylt að þola fjárnám í fasteigninni. Andmæli gegn dráttarvaxtakröfu stefnanda eru ekki studd neinum málsástæðum. Með vísan til þess sem að framan greinir um fyrningu kröfunnar verður fallist á dráttarvaxtakröfuna eins og hún er sett fram.
Í stefnu málsins krefst stefnandi þess að „hið stefnda félag“ verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts, en við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnanda því að um mistök væri að ræða og að krafist væri málskostnaðar óskipt úr höndum stefndu. Stefndu krefjast þess að málskostnaðarkröfunni verði vísað frá dómi þar sem krafan beinist að „hinu stefnda félagi“. Í málinu er stefnt tveimur einstaklingum, en engu félagi. Það er þannig ljóst að mistök hafa verið gerð við framsetningu kröfunnar. Á hinn bóginn eru settar skorður við því í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hægt sé að breyta kröfum undir meðferð máls. Í 1. mgr. 111. gr. laganna segir að kröfu sem komi ekki fram í stefnu skuli vísað frá dómi nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Þar sem málskostnaðarkrafa á hendur stefndu kom ekki fram í stefnu málsins og stefndu hafa ekki samþykkt að hún komist að í málinu verður að vísa kröfunni frá dómi.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkenndur er 4. veðréttur stefnanda, Íslandsbanka hf., í fasteigninni Dverghömrum 1, Reykjavík, fastanúmer 203-9155, fyrir 48.071.928 krónum samkvæmt tryggingarbréfi nr. 537-117807, útgefnu 10. júní 2008, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2010 til greiðsludags. Stefndu, Jóni Þór Sigurðssyni og Margréti Jóhannsdóttur, er skylt að þola að fjárnám verði gert í framangreindri fasteign fyrir 48.071.928 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2010 til greiðsludags.
Málskostnaðarkröfu stefnanda er vísað frá dómi.