Hæstiréttur íslands

Mál nr. 689/2015

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 16. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að henni verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 19. október 2015, kl. 16:00, og að henni verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Kærða mótmælir kröfunni. Hún krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögregla hafi til rannsóknar innflutning kærðu á ætluðum ávana- og fíkniefnum. Þann 1. október 2015, hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, vegna gruns um að kærða kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum. Hafði kærða verið að koma með flugi [...] frá London Heathrow. Við gegnumlýsingu og leit tollvarða á farangri kærðu fundust pakkningar, sem svöruðu jákvætt við kókaíni. Voru þau falin í hljómflutningstækjum, sem samanstóðu af tveimur litlum hátölurum og bassaboxi. Í kjölfarið var kærða handtekin og færð á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ. Frumgreining tæknideildar lögreglu hefur nú leitt í ljós að hin ætluðu fíkniefni reyndust vera samtals 988,3 g af kókaíni. Óljóst er með styrkleika þeirra á þessari stundu en von sé á styrkleikamælingu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Kærða hafi neitað að hafa haft vitneskju um hin ætluðu fíkniefni. Hafi hún að mati lögreglu, gefið ótrúverðugar skýringar á för sinni hingað til lands. Kærða kvaðst hafa keypt miða hingað til lands og hér hafi hún ætlað að vinna í tvo mánuði. Hún kvaðst hafa pakkað sjálf niður farangri sínum og innritað í flug, frá [...] og til Íslands með viðkomu í London. Við lendingu hafi hún átt að setja sig í samband við [...], sem átti að sækja hana. Hafi hún ætlað að gista hjá honum og [...], samlöndum sínum, sem hún gaf vart frekari upplýsingar um. Benti hún lögreglu á að hún hefði símanúmer þess fyrrnefnda vistað í skilaboðahólfi farsíma síns en ekki nafnaskrá. Þá sagði hún að umrædd hljómflutningstæki hefði hún keypt notuð, á útimarkaði í [...], fyrir um tveimur vikum. Þau hefði hún tekið með til að hlusta á tónlist hér á landi.

II

Fram kemur í beiðni lögreglustjóra að rannsókn málsins sé í fullum gangi sem miði að því að kærða hafi flutt töluvert magn ætlaðra ávana- og fíkniefni hingað til lands og að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Á þessum tímapunkti beinist rannsóknin lögreglu m.a. að því að upplýsa um tengsl kærðu við vitorðsmenn hér á landi og erlendis. Telji lögregla einsýnt að hún hafi ekki staðið ein að innflutningi á því magni ætlaðra fíkniefna sem um ræðir. Þá beinist rannsóknin að því að rannsaka nánar skipulagningu og hlutverk kærðu í innflutningnum, aðdraganda hans og loks fjármögnun ferðarinnar hingað til lands. Lögregla telji sig þurfa svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hefur undir höndum og upplýst geta um framangreind atriði auk þess sem fyrir liggur gagnaöflun hér á landi og erlendis um þau atriði og önnur. 

Verið sé að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafa verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst brotleg við ákvæði laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Mál þetta snúi að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna sem ljóst megi telja að kærða stóð ekki ein að.

Að mati lögreglustjóra eru lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar. Megi ætla að kærða kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Að sama skapi sé hætta á að kærða kunni að verða beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana, af hendi samverkamanna hér á landi eða erlendis, gangi hún laus.

Lögregla vinni nú að því að afla upplýsinga um aðila sem málinu tengjast hér á landi. Hafi lögregla ráðist í frekari rannsóknaraðgerðir, til að afla upplýsinga um samverkamenn kærðu og til að hafa upp á þeim, t.a.m. með símhlustun og e.a. húsleitum. Taka verði mið af eðli málsins þegar svigrúm lögreglu til rannsóknaraðgerða sé metið auk þess að hafa verði í huga að lögreglu beri að aflétta þvingunarráðstöfun þegar hennar gerist ekki lengur þörf.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknar- og refsivörsluhagsmuni standa til þess að fallist verði á kröfuna og kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 19. október 2015, kl. 16:00.

Þess er einnig krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan gæsluvarðhaldi stendur með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna. 

III

Með vísan til framangreinds og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Rannsókn málsins hófst fyrir rúmri viku og er í fullum gangi samkvæmt framlögðum gögnum. Ætla verður lögreglu nokkuð svigrúm til þess að rannsaka aðdragandann að ferð kærðu hingað til lands og möguleg tengsl hennar við vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis. Gangi kærða laus má ætla að hún muni torvelda rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu um að kærðu verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, fædd [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. október  nk., kl. 16:00.

Kærðu er gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.