Hæstiréttur íslands
Mál nr. 284/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Fasteign
- Hefð
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 284/2003. |
Sævar Magnússon(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Ara Laxdal og Sigurlaugu Sigurðardóttur (Ólafur Björnsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Fasteign. Hefð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A og S var heimilað að fá SM borinn með beinni aðfarargerð út af tiltekinni landspildu úr landi N. Fallist var á það með héraðsdómara að SM hefði ekki sýnt fram á að hann hefði fengið hina umdeildu landspildu að gjöf. Á hinn bóginn hefðu A og S heldur ekki sannað að landspildan hefði með samningi verið látin af hendi til afnota tímabundið eða þá til hve langs tíma. Þótt réttur til nota af landspildunni kynni í öndverðu að hafa verið samningsbundinn til ákveðins tíma, gæti það eitt og sér ekki staðið því í vegi vegna ákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð að SM gæti hafa unnið eignarrétt yfir henni fyrir hefð með óslitnu eignarhaldi á henni í 20 ár að umsömdum afnotatíma loknum. Að þessu virtu varð með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 að hafna kröfu A og S um heimild til að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út af landspildunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. júní 2003, þar sem kveðið var á um að sóknaraðila bæri að „víkja af tæplega 10 hektara landspildu úr landi Ness í Grýtubakkahreppi, ásamt öllu sem honum tilheyrir.“ Heimild til að kæra þennan úrskurð, sem ætla verður að feli í sér heimild handa varnaraðilum til að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út af umræddri landspildu, er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði eiga varnaraðilar jörðina Nes. Óumdeilt er að innan marka hennar samkvæmt landamerkjalýsingu er landspilda, tæplega 10 hektarar að stærð, sem sóknaraðili hefur nýtt, en hann mun vera ábúandi jarðarinnar Syðri-Grundar. Varnaraðilar kveða þessi afnot hafa staðið frá árinu 1965 þegar faðir sóknaraðila, Magnús Snæbjarnarson, sem þá hafi búið á Syðri-Grund, hafi samið um þau munnlega við þáverandi eiganda Ness. Hafi þá verið ákveðið að Magnús fengi not af landspildunni í 20 ár án þess að greiða fyrir hana leigu, en að þeim tíma liðnum skyldu ræktun og girðingar á henni falla endurgjaldslaust til eiganda Ness. Eftir að þessu tímabili var lokið hafi sóknaraðili haldið áfram að nota landspilduna án þess að greiðsla kæmi fyrir. Hafi varnaraðilar boðið honum í janúar 2001 að gera samning um leigu á spildunni, en hann neitað því. Sóknaraðili heldur því á hinn bóginn fram að á árinu 1965 hafi afi hans, Grímur Laxdal, sem þá hafi búið á Nesi og átt helming jarðarinnar á móti syni sínum, gefið sér þessa landspildu, en um það hafi ekkert verið skjalfest. Kveðst sóknaraðili allar götur síðan hafa haft vörslur spildunnar og nýtt hana einn, en engar kröfur hafi verið gerðar um endurgjald fyrir afnotin eða athugasemdir um nýtingu spildunnar fyrr en á árinu 2002. Sóknaraðili andmælir því að réttur til afnotanna hafi verið tímabundinn eða að um leigu hafi verið að ræða á spildunni.
Fallast verður á með héraðsdómara að í málinu hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi fengið hina umdeildu landspildu að gjöf á framangreindan hátt. Á hinn bóginn hafa varnaraðilar heldur ekki sannað að landspildan hafi með samningi verið látin af hendi til afnota tímabundið eða þá til hve langs tíma. Þótt réttur til nota af landspildunni kynni í öndverðu að hafa verið samningsbundinn til ákveðins tíma, getur það eitt og sér ekki staðið því í vegi vegna ákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð að sóknaraðili gæti hafa unnið eignarrétt yfir henni fyrir hefð með óslitnu eignarhaldi á henni í 20 ár að umsömdum afnotatíma loknum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. nóvember 2002 í máli nr. 482/2002. Með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 verður að þessu virtu að hafna kröfu varnaraðila um heimild til að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út af landspildunni.
Dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Ara Laxdal og Sigurlaugar Sigurðardóttur, um að þeim verði heimilað að fá sóknaraðila, Sævar Magnússon, borinn með beinni aðfarargerð út af spildu úr landi Ness í Grýtubakkahreppi.
Varnaraðilar greiði í sameiningu sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. júní 2003.
Mál þetta barst dóminum 2. ágúst 2002 með aðafararbeiðni Ólafs Björnssonar hrl., dagsettri 30. júlí sama ár.
Málið var þingfest hinn 6. september 2002 en tekið til úrskurðar 23. maí 2003. Þá hafði málið verið á fresti frá 3. október 2002 skv. sameiginlegri ósk aðila.
Sóknaraðilar máls þessa eru Ari Laxdal og Sigurlaug Sigurðardóttir til heimilis að Nesi, Grýtubakkahreppi. Varnaraðili er Sævar Magnússon til heimilis að Syðri-Grund, Grýtubakkahreppi.
Krefjast sóknaraðilar dómsúrskurðar um að varnaraðili verði látinn víkja, ásamt öllu því sem honum tilheyrir, af landspildu úr landi Ness í Grýtubakkahreppi og sóknaraðila fengin umráð landspildunnar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Kröfur varnaraðila í málinu eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Sóknaraðilar kveða málsatvik þau að árið 1951 hafi Grímur Laxdal selt syni sínum Jóni helming jarðarinnar Ness í Grýtubakkahrepi og árið 1970 hinn helminginn og Jón, faðir sóknaraðila Ara, þá orðið einn eigandi jarðarinnar. Með kaupsamningi dags. þann 31. desember 1996 og afsali útgefnu þann 5. júlí 1999 hafi sóknaraðilar síðan keypt jörðina af Jóni Laxdal.
Sóknaraðilar segja jörðinni Nesi tilheyra tæplega 10 hektara spilda sem ábúandi jarðarinnar Syðri-Grundar hafi haft til afnota síðan 1965, en spildan hafi verið stækkuð í þremur áföngum. Á þeim tíma hafi Magnús Snæbjarnarson, faðir varnaraðila, verið ábúandi á Syðri-Grund. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um þessi afnot en samkomulag verið um not af landinu leigulaust í 20 ár en að þeim tíma loknum skyldu bæði ræktun og girðing vera eign leigusala án þess að sérstakt gjald kæmi fyrir. Leigukjör hafi átt að vera sambærileg þeim sem sé að finna í framlögðum leigusamningi milli Jóns Laxdal og Guðmundar og Sigurðar Þórissona sem gerður hafi verið á svipuðum tíma.
Leigutíma segja sóknaraðilar skv. framansögðu löngu útrunninn en varnaraðili hafi haldið áfram að nýta landið. Með bréfi dags. 19. janúar 2001 hafi sóknaraðilar sent varnaraðila nýjan leigusamning til undirritunar enda hafi þau ætlað að leigja spilduna áfram ef semdist um leigukjör. Varnaraðili hafi hins vegar neitað að skrifa undir leigusamninginn þar sem hann telji sig vera eiganda spildunnar, hana hafi hann fengið að gjöf frá Grími Laxdal, afa sínum. Sóknaraðilar vísa þessari fullyrðingu varnaraðila á bug og halda því fram að spildan hafi einungis verið leigð til föður varnaraðila og svo til varnaraðila sjálfs en henni hafi aldrei verið afsalað frá jörðinni Nesi.
Landið sem um er deilt segja sóknaraðilar vera innan landamerkja jarðarinnar Ness og land þetta hafi ekki verið skilið frá jörðinni. Greiði sóknaraðilar fasteignagjöld af landinu.
Sóknaraðilar kveðast án árangurs hafa reynt að fá varnaraðila til að gera nýjan leigusamning um landspilduna en því verið hafnað af varnaraðila. Þar sem áframhaldandi not spildunnar séu varnaraðila heimildarlaus sé sóknaraðila nauðsynlegt að fara fram á að varnaraðili verði látinn víkja af spildunni og honum þannig meinuð afnot hennar án samþykkis sóknaraðila.
Um lagarök vísa sóknaraðilar til 78. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför, sbr. 72. gr. sömu laga. Einnig er vísa þeir til ákvæða 72. gr. stjórnarskrár, sem mæli fyrir um friðhelgi eignarréttarins, en þá lagagrein segja sóknaraðilar verða að skýra með hliðsjón af 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að hann sé í raun eigandi umræddrar landspildu. Aðallega heldur varnaraðili því fram að afi hans, Grímur Laxdal, hafi gefið honum umrædda landspildu persónulega með munnlegum gerningi. Til vara byggir varnaraðili á því að hann hafi öðlast eignarrétt að spildunni fyrir hefð.
Varnaraðili vísar á bug þeim fullyrðingum sóknaraðila að faðir hans hafi nokkurn tíma haft afnot af umræddri landspildu og að leigusamningur hafi verið gerður við hann. Varnaraðili hafi frá upphafi einn haft öll umráð og nytjar af spildunni. Ekki hafi komið fram nein athugasemd eða véfenging á eignarrétti hans að landinu frá eigendum eða ábúendum Ness eða krafa um leigu eða endurgjald af nokkru tagi fyrr en með bréfi sóknaraðila, sem stílað sé á Félagsbúið Syðri-Grund og dagsett þann 19. janúar 2001.
Varnaraðili mótmælir einnig þeirri fullyrðingu sóknaraðila að þeir hafi greitt fasteignagjöld af landinu, a.m.k. sé að hans mati ljóst að hann hafi greitt fasteignagjöld af ræktuninni en það sjáist ef bornar séu saman stærðir á túnkortum og hektarafjöldi skv. fasteignamati. Varnaraðili segir að ástæða þess að fyrsta ræktaða túnlandið á spildunni, 0,83 hektarar, sé sagt vera leigt land samkvæmt spjaldskrá Búnaðarsambands Eyjafjarðar frá árinu 1971 sé byggð á skilningi utanaðkomandi manns en ekkert liggi fyrir um á hvaða upplýsingum sá maður hafi byggt. Allar þær nýræktir sem gerðar hafi verið á spildunni næstu ár á eftir hafi verið skráðar á spjaldSyðri-Grundar. Á túnkorti sem unnið sé af Ræktunarfélagi Norðurlands sé ræktun á spildunni teiknuð á sérstakt blað en talin tilheyra Syðri-Grund.
Niðurstaða:
Samkvæmt fyrirliggjandi afsali dags. 5. júlí 1999 eru sóknaraðilar eigendur jarðarinnar Ness. Afsali þessu var þinglýst hjá sýslumanninum á Akureyri 30. júlí 1999. Ljóst er af landamerkjaskrá að hin umdeilda landspilda er innan landamerkja nefndrar jarðar. Fullyrðingar varnaraðila þess efnis að umrædd landspilda sé hans eign fyrir gjöf eða vegna hefðar eru engum gögnum studdar en samkvæmt framlögðu skjali frá Fasteignamati ríkisins hefur varnaraðili ekki borgað fasteignagjöld af landspildunni. Það eitt og sér að varnaraðili hafi haft leigulaus afnot af umræddri landspildu víkur ekki til hliðar þeim ótvíræðu gögnum um eignarrétt sóknaraðila sem áður eru nefnd.
Af fenginni ofangreindri niðurstöðu er það álit dómsins með vísan til áðurnefndra gagna, sem bera með sér eignarrétt sóknaraðila, að honum hafi tekist að sýna fram á eignarrétt sinn með nægilega skýrum hætti í skilningi 78. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför. Þykir því með vísan til nefndrar lagagreinar, sbr. 72. gr. sömu laga, verða að fallast á þá kröfu sóknaraðila að varnaraðila verði gert að víkja af umræddri landspildu með beinni aðfarargerð. Þá þykir rétt að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Með vísan til úrslita málsins þykir rétt að úrskurða varnaraðila til að greiða sóknaraðilum óskipt kr. 160.000 í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Varnaraðili, Sævar Magnússon, skal víkja af tæplega 10 hektara landspildu úr landi Ness í Grýtubakkahreppi, ásamt öllu sem honum tilheyrir.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum, Ara Laxdal og Sigurlaugu Sigurðardóttur, óskipt kr. 160.000,- í málskostnað.