Hæstiréttur íslands
Mál nr. 394/2001
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 18. apríl 2002. |
|
Nr. 394/2001. |
Runólfur Gíslason(Gestur Jónsson hrl.) gegn Vestmannaeyjabæ (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Aðild.
R, sem ráðinn hafði verið framkvæmdastjóri kertaverksmiðju með samningi við fjármálaráðuneytið, var sagt upp störfum og krafði í framhaldi af því sveitarfélagið V um bætur, en V hafði tekið við rekstrinum sem reynslusveitarfélag með samningi við félagsmálaráðuneytið á grundvelli laga nr. 82/1994. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna skyldi engin breyting verða á ráðningarstöðu ríkisstarfsmanna við tilflutning verkefna ríkisins til reynslusveitarfélaga og var R því ekki unnt að beina kröfum sínum í málinu gegn V, þar sem sveitarfélagið var ekki aðili að fyrrgreindum ráðningarsamningi, enda var litið svo á að það hefði sagt R upp störfum í umboði ríkisins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.042.292 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.189.574 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður fallist á með stefnda að hann hafi ekki verið aðili að ráðningarsamningi áfrýjanda í starf forstöðumanns Kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar, verndaðs vinnustaðar í Vestmannaeyjum, þegar áfrýjanda var sagt upp störfum 28. febrúar 1999. Um þá málsástæðu, sem áfrýjandi hélt fyrst fram við munnlegan flutning málsins í héraði og getið er um í hinum áfrýjaða dómi, er til þess að líta að henni var hreyft til andsvara við málsvörn stefnda um aðildarskort og gafst því ekki tilefni til að hafa hana uppi við meðferð málsins fyrr en raun varð á, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessi málsástæða áfrýjanda fær á hinn bóginn í engu breytt niðurstöðu málsins, enda veittu fjármálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið bréflega samþykki sitt 1. og 3. febrúar 1999 fyrir því að áfrýjanda yrði sagt upp störfum, sem stefndi hefur þannig gert í umboði ríkisins. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. júlí 2001.
I.
Mál þetta, sem var þingfest hinn 13. desember sl. en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 22. júní sl., hefur Runólfur Gíslason, kt. 310550-3109, Brekastíg 26, höfðað gegn Vestmanneyjabæ, kt. 690269-0159, Ráðhúsinu Vestmannaeyjum.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
„Aðallega krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 3.042.292,-, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1999 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 1.189.574,- , auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 sem hér segir:
af kr. 172.506,- frá 01.08.99,
af kr. 172.506,- frá 01.09.99,
af kr. 172.506,- frá 01.10.99,
af kr. 172.506,- frá 01.11.99,
af kr. 183.957,- frá 01.12.99 og
af kr. 315.592,- frá 01.01.00,
í hverju tilviki til greiðsludags.”
Bæði í aðalkröfu og í varakröfu er til viðbótar krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II. Málavextir
Stefnandi var ráðinn forstöðumaður vinnustaðarins Heimaeyjar, kertaverksmiðju, í júní 1993. Áður hafði stefnandi verið starfsleiðbeinandi í kertaverksmiðjunni óslitið frá því í september 1991. Kertaverksmiðjan er verndaður vinnustaður fyrir fatlaða og rekin samkvæmt 9. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Kertaverksmiðjan heyrði undir Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi, en hinn 3. janúar 1997 gerðu félagsmálaráðuneytið og reynslusveitarfélagið Vestmannaeyjabær með sér samning í samræmi við lög nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, um að Vestmannaeyjabær tæki að sér að veita fötluðum, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, þá þjónustu á vegum félagsmálaráðuneytisins sem þeir eiga rétt á að þeim sé veitt samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Samningurinn fól því í sér að stefndi tæki að sér verkefni Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi gagnvart íbúum sveitarfélagsins. Samkvæmt 4. gr. samningsins tók stefndi að sér rekstur kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar. Í kjölfar samningsins var skipuð sérstök stjórn í kertaverksmiðjunni. Með bréfi dagsettu 28. febrúar 1999, undirrituðu af Hönnu M. Siggeirsdóttur stjórnarformanns kertaverksmiðjunnar, fyrir hönd stjórnar kertaverksmiðjunnar og Heru Einarsdóttur, félagsmálastjóra, fyrir hönd félagsmálaráðs Vestmannaeyjabæjar, var stefnanda sagt upp störfum. Í bréfinu hafði uppsagnarástæðan verið tilgreind sem „endurskipulagning í rekstri og stjórnskipulagi kertaverksmiðjunnar”. Uppsagnarfrestur var til 31. maí 1999. Aðila greinir á um hvort stefnandi hafi unnið út uppsagnarfrestinn. Þrátt fyrir uppsögnina munu hafa staðið yfir viðræður milli aðila um áframhaldandi störf stefnanda í kertaverksmiðjunni, en án árangurs.
Deilan í máli þessu snýst um það hvort stefnanda hafi verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti eða hvort um niðurlagningu á stöðu hans hafi verið að ræða þannig að stefndi beri á því fébótaábyrgð.
Stefnandi getur þess sérstaklega í málavaxtalýsingu sinni að í 6. gr. áðurnefnds samnings milli félagsmálaráðuneytisins og stefnda hafi verið áréttað að starfsmenn skyldu á gildistíma samningsins vera í þjónustu stefnda án þess að formbreyting yrði á ráðningarsamningum starfsmannanna. Efnislega hafi falist í þessu að starfsmennirnir hafi haldið áfram að vera ríkisstarfsmenn en stefndi fengið framseldar valdheimildir gagnvart starfsmönnum og tekið að sér skyldur gagnvart þeim, þar á meðal stefnanda. Um málavexti vísar stefnandi sérstaklega til framlagðra bréfa í málinu þar sem fram komi m. a. eftirfarandi:
1. Að stjórn Heimaeyjar, kertaverksmiðju, hefði undanfarið unnið að endurskipulagningu rekstrar og stjórnskipulags verksmiðjunnar.
2. Að á árinu 1999 hafi verksmiðjan verið rekin með einu stöðugildi forstöðumanns, auk þess sem þurft hefði að kaupa hálft stöðugildi framkvæmdastjóra af Þróunarfélagi Vestmannaeyja þar sem stefndi hafi ekki talið stefnanda ráða við stjórnun verksmiðjunnar.
3. Að stjórn verksmiðjunnar hafi talið, eftir að hafa endurskoðað rekstur og skipulag verksmiðjunnar, að stefnandi búi ekki yfir þeirri þekkingu/menntun sem verði að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. Samkvæmt nýju skipulagi hafi verið stefnt að því að stjórnun verksmiðjunnar og daglegur rekstur yrði í höndum eins starfsmanns.
4. Að bæði fjármála- og félagsmálaráðuneyti hafi samþykkt uppsögn stefnanda fyrir sitt leyti.
Stefnandi vill taka fram að svonefnd endurskipulagning hafi átt sér stað án sinnar vitneskju, þrátt fyrir að hann, sem forstöðumaður kertaverksmiðjunnar, hafi þekkt starfsemi hennar hvað best. Stefnandi kveðst hafa unnið út uppsagnarfrestinn og reyndar gott betur, því hann hafi haldið áfram starfi sínu til loka júlímánaðar 1999, en þá farið í sumarfrí sem hann hafi átt inni. Stefnandi segir að hugmyndir hafi verið um að hann yrði ráðinn starfsleiðbeinandi í verksmiðjunni að loknu sumarleyfi, og þá á óbreyttum launum að því er stefnandi hafi talið. Þetta hafi verið sáttaleið sem stefnandi hefði verið tilbúinn til að fara af fjárhagsástæðum. Stefnanda hafi hins vegar brugðið verulega er hann hafi fengið launaseðil fyrir ágústmánuð þar sem komið hafi fram að laun hans hefðu verið lækkuð um rúm 30 prósent frá því sem þau hefðu verið. Stefnandi hafi því afþakkað starfið og launalækkunina með bréfi til stjórnar kertaverksmiðjunnar 6. ágúst 1999. Launin fyrir ágústmánuð hafi því ekki komið til eiginlegrar greiðslu. Stefnandi tilgreinir sérstaklega að hann hafi ekki fengið greiddar skaðabætur vegna uppsagnarinnar, hvorki samkvæmt almennum skaðabótareglum né samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, sbr. 34. gr. laganna.
Stefnandi bendir og á að hann hafi starfað í kertaverksmiðjunni í tæp átta ár er hann missti stöðu sína, þá 48 ára að aldri. Síðan þá hafi hann verið atvinnulaus og fengið greiddar atvinnuleysisbætur, með þeim undantekningum einum að hann hafi í örfáa daga unnið við síldarfrystingu hjá Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum og í þrjá mánuði hjá Byggðastofnun í Vestmannaeyjum.
Stefndi tilgreinir sérstaklega um málavexti að á árinu 1998 hafi hafist vinna hjá stjórn kertaverksmiðjunnar að endurskipulagningu rekstrar og stjórnskipulagi verksmiðjunnar. Ljóst hafi verið að koma þyrfti á eina hendi framkvæmdastjórn verksmiðjunnar, þar með yfirstjórn framleiðslu, fjármála og markaðsmála. Tildrög þess hafi m. a. verið þau að Þróunarfélag Vestmannaeyja hefði greitt ½ stöðugildi framkvæmdastjóra kertaverksmiðjunnar sem á þessum tíma hafi verið Ólafur Snorrason. Þróunarfélagið hafi ákveðið að segja þessum starfsmanni upp störfum og m. a. þess vegna hafi stjórn kertaverksmiðjunnar í ljósi þessara skipulagsbreytinga þótt nauðsynlegt að segja stefnanda upp störfum og fengið heimild til þess frá félagsmálaráðuneyti. Stefnanda hafi síðan verið sagt upp störfum með þriggja mánaða lög- og samningsbundnum fyrirvara. Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið kunnugt um þessar skipulagsbreytingar en stefnandi hafi engar athugasemdir gert við þær og verið sáttur við þær að mati stjórnar kertaverksmiðjunnar. Stefnandi hafi haft áhuga á að vinna áfram við verksmiðjuna og verið ráðinn starfsleiðbeinandi eftir að uppsagnarfresti lauk. Stefnanda hafi verið vel kunnugt um laun starfsleiðbeinenda og að starfsleiðbeinandi fengi ekki sömu laun og forstöðumaður verksmiðjunnar. Þar sem ekki hafi legið fyrir starfslýsing stefnanda í nýju starfi og vegna sumarleyfa hafi stefnandi fengið óbreytt laun í júní og júlí 1999. Vegna ágústsmánaðar 1999 hafi stefnandi síðan fengið laun samkvæmt launaflokki B-4 samkvæmt kjarasamningi ríkisstarfsmanna. Launaflokkur þessi sé sambærilegur við verkstjóra hjá ríkisstofnunum og í hærra lagi miðað við almenn launakjör starfsleiðbeinenda í sambærilegu starfi, en þeir séu í A-flokki. Stefndi kveður stefnanda hafa í byrjun ágúst 1999 fyrirvaralaust hætt starfi sínu og tiltekur stefndi það sérstaklega að hann „áskilji sér rétt vegna þessarar fyrirvaralausu uppsagnar.”
Stefndi tilgreinir einnig sérstaklega að stjórn kertaverksmiðjunnar hafi auglýst starf forstöðumanns laust til umsóknar síðla árs 1998. Tveir hafi sótt um en hvorugur þeirra hafi uppfyllt þær reynslu- og menntunarkröfur sem óskað hafi verið eftir. Til reynslu hafi verið ráðinn vélstjóri sem einnig hefði lokið tveggja ára námi við tækniskóla í Óðinsvéum í Danmörku. Í nóvember sama ár hafi þessum manni verið boðið að ljúka störfum sem hann hafi samþykkt. Í framhaldi af því hafi stjórn kertaverksmiðjunnar ráðið Sigríði Maríu Hreiðarsdóttur viðskiptafræðing sem framkvæmdastjóra verksmiðjunnar og sinni hún því starfi enn í dag. Hafi Sigríður áður unnið við sölu- og markaðsmál fyrir kertaverksmiðjuna.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf hinn 8. september 1999 þar sem fullyrt var að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt, þar sem ekki hafi verið fylgt málsmeðferðarreglum laga nr. 70/1996. Var þess krafist að stefndi rétti hlut stefnanda með skaðabótum sem næmu tólf mánaða launum, auk vaxta og kostnaðar. Með bréfi stefnda dagsettu 29. september 1999 var bótakröfu stefnanda hafnað á þeim grunni að stefnanda hafi verið sagt upp störfum vegna endurskipulagningar en ekki vegna brota eða ófullnægjandi árangurs í starfi.
III. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst stefna Vestmannaeyjabæ, í máli þessu þar sem bæjarfélagið hafi sagt stefnanda upp starfinu. Um að uppsagnarvaldið hafi verið hjá stefnda en ekki ríkinu vísar stefnandi til 6. gr. fyrrgreinds samnings félagsmálaráðuneytisins og stefnda frá 3. janúar 1997 og einnig til 17. gr. laga nr. 82/1994 um reynslusveitarfélög, en þar segi að meðan tilraun stendur, sem feli í sér flutning verkefna frá ríki til reynslusveitarfélags samkvæmt lögum þessum, teljist hlutaðeigandi starfsmenn vera í þjónustu sveitarfélagsins, þó svo að réttarstaða þeirra haldist óbreytt. Af þessum ástæðum kveðst stefnandi telja stefnda bera ábyrgð á uppsögninni og beinir kröfum að honum en ekki ríkinu, stefnandi hafi tímabundið verið í þjónustu sveitarfélagsins þó hann hafi verið ríkisstarfsmaður.
Í stefnu er einnig tilgreint sérstaklega að verði því haldið fram af stefnda að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi eða íslenska ríkið beri ábyrgð á uppsögninni þá áskilji stefnandi sér rétt til að stefna þeim til varna í málinu.
Aðalkrafa:
Stefnandi kveðst hafa notið réttarstöðu ríkisstarfsmanns, sbr. framlagðan ráðningarsamning hans og 1. gr. laga nr. 70/1996 og 17. gr. laga nr. 82/1994. Í lögunum séu sérstök ákvæði um uppsagnir, bæði um málsmeðferð og efnisskilyrði. Stefnandi telur að þessum ákvæðum hafi ekki verið fylgt er honum var sagt upp forstöðumannsstarfi sínu hjá kertaverksmiðjunni. Stefnandi telur jafnframt að uppsögnin hafi verið án lögmæts tilefnis.
Stefnandi telur að tilgreind ástæða uppsagnar hans, þ. e. að starf hans hafi verið lagt niður við endurskipulagningu á stjórnkerfi kertaverksmiðjunnar, hafi verið dulbúin niðurlagning stöðu og þar með ólögmæt uppsögn. Um mun á þessu tvennu vísar stefnandi til fordæmis í hæstaréttardómi 1995: 1347. Stefnandi segir að fram hafi komið að endurskipulagning starfsins hafi falist í þremur tilteknum atriðum: Í fyrsta lagi nafnbreytingu, þ. e. starfið skyldi heita framkvæmdastjórastarf í stað forstöðumannsstarfs. Í öðru lagi að hætt yrði að kaupa frá þróunarfélaginu 50% framkvæmdastjórastarf og það fært undir „nýja" starfið. Í þriðja lagi hafi verið sett tiltekið menntunarskilyrði. Stefnandi telur að ekkert þessara atriða réttlæti uppsögn stefnanda með vísan til þess að starf hans hafi verið lagt niður. Í því sambandi bendir stefnandi á eftirfarandi:
1.Stefnandi telur augljóst að það teljist ekki til niðurlagningar á stöðu að gefa stöðu nýtt starfsheiti.
2.Stefnandi telur að sama eigi við um ákvörðun um að hætta að kaupa frá þróunarfélaginu 50% framkvæmdastjórastarf. Stefnandi vekur sérstaka athygli á í því sambandi að það hafi ekki verið fyrr en á árinu 1997 að stjórn kertaverksmiðjunnar hafi ákveðið að kaupa framkvæmdastjórastarfið af þróunarfélaginu og færa með því hluta af störfum, sem tilheyrðu starfi stefnanda, til þróunarfélagsins. Þessa ákvörðun hafi stjórnin tekið án nokkurs samráðs við stefnanda, en hvorugur aðili hafi litið svo á að með því hefði starfið, sem stefnandi var ráðinn til, verið lagt niður og annað búið til. Stefnandi telur að af því leiði að það að færa forstöðumannsstarfið í horf, sem það var í starfstíð stefnanda, verði ekki skilgreint sem niðurlagning starfsins.
3.Stefnandi telur vera sannað að menntunarskilyrðið hafi eingöngu verið sett vegna stefnanda persónulega, þar sem stjórn stefnda hafi litið svo á að stefnandi hefði ekki náð fullnægjandi árangri í starfi sínu. Ekkert hafi komið til tengt starfinu sem kallað hafi allt í einu á formkröfu um menntun í starfið, stefnanda hefði verið treyst fyrir starfinu um árabil og hann áunnið sér mikla starfsreynslu. Stefnandi fullyrðir að sá sem var ráðinn eftir starfslok stefnanda hafi ekki haft viðskiptamenntun frekar en hann.
Samkvæmt þessu telur stefnandi nægilega fram komið að svokölluð niðurlagning starfs hafi verið dulbúin uppsögn af annarri ástæðu. Aðalatriðið sé að stjórn kertaverksmiðjunnar og stefndi hafi fundið að störfum stefnanda og viljað fá annan stjórnanda, þar sem stefnandi hafi að mati stjórnarinnar ekki ráðið við starfið. Stefnandi telur að við þessa aðstöðu hafi stefnda ekki verið heimilt að segja stefnanda upp nema að undangenginni löglegri áminningu þar sem stefnanda hefði verið gefið færi á að bæta ráð sitt, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996 og 21. gr. sömu laga. Þessum ákvæðum hafi í engu verið fylgt og stefnandi telur að þegar af þeirri ástæðu hafi umrædd starfsuppsögn verið ólögmæt.
Stefndi telur jafnframt að eins og á stóð hafi stjórn kertaverksmiðjunnar og stefnda borið að gefa stefnanda kost á að tjá sig um uppsögnina og svokallaða endurskipulagningu, þar sem aðgerðirnar hafi beinst gegn honum. Er bent á að áður en stefnanda var tilkynnt um aðgerðirnar hafi verið leitað álits tveggja ráðuneyta án þess að stefnandi hefði verið látinn vita af því hvað til stóð. Uppsögn stefnanda hafi verið stjórnvaldsákvörðun og um rétt til andmæla vísar stefnandi til 44. gr. laga nr. 70/1996, 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttarins.
Að lokum vísar stefnandi til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna. Telur stefnandi að jafn íþyngjandi ákvörðun og uppsögn hans úr starfinu hafi verið, hafi ekki staðist regluna þegar litið sé til starfsreynslu stefnanda, þess að stefndi hafði aldrei fundið að störfum stefnanda við hann sjálfan og að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að taka þátt í svokallaðri endurskipulagningu, hvað þá veittur andmælaréttur samkvæmt framansögðu.
Stefnandi gerir sérstaklega svofellda grein fyrir fjárhæð aðalkröfu sinnar:
Stefnandi kveðst krefjast skaðabóta, sem jafngildi þeim launum, sem hann hefði haft á næstu 15 mánuðum eftir starfslok, miðað við þá forsendu að hann hefði haldið starfinu. Stefnandi hafi verið í launaflokki C8-5 samkvæmt kjarasamningi SFR og ríkissjóðs. Krafan miðist við útreikning og sundurliðun Árna Stefáns Jónssonar, framkvæmdarstjóra starfsmannafélags ríkisstarfsmanna, SFR. Aðalatriði útreikningsins séu eftirfarandi:
Launatímabilföst launföst yfirvinna6%t. lífeyrissj.laun
01.08.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.09.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.10.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.11.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.12.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.01.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.02.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.03.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.04.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.05.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.06.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.07.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.08.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.09.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
01.10.00156.29711.403,-9.412,-177.679,-
laun skv. framansögðu alls2.639.321,-
orlof á dagv./des.uppbót 13,04% 309.186,-
orlof á yfirvinnu 13,04% 22.088,-
orlofsuppbót 9.200,-
desemberuppbót 40.937,-
framlag í lífeyrissj. af orlofs-og des.uppbót 21.559,-
laun í 15 mánuði alls3.042.291,-
Stefnandi kveðst telja bótakröfu sína vera mjög hóflega þegar litið sé til þess að hann hafi starfað hjá stefnda óslitið í tæp átta ár er starfslok urðu. Samkvæmt almennum reglum eigi stefnandi rétt á að fá fjártjón sitt bætt. Fjártjónið verði að meta að álitum, eins og dómvenja sé fyrir í málum vegna ólögmætra uppsagna. Við mat á fjártjóni beri að hafa í huga aldur stefnanda, menntun og starfsreynslu. Atvinnumöguleikar stefnanda, sem alla tíð hafi verið búsettur í Vestmannaeyjum, séu takmarkaðir, eins og komið hafi í ljós, og þá sérstaklega á því sviði þar sem hann geti nýtt starfsreynslu sína. Þá beri að hafa í huga að stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður og því notið réttinda samkvæmt lögum nr. 70/1996 og lögum nr. 29/1963 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Um verulega tekjuskerðingu vísar stefnandi til framansagðs í málavaxtalýsingu.
Þá vill stefnandi árétta sérstaklega að verði ekki fallist á aðalkröfuna að öllu leyti, þá felist í aðalkröfunni krafa um skaðabætur metnar að álitum hærri en fjárhæð varakröfu.
Stefnandi gerir þannig sérstaklega grein fyrir varakröfu sinni:
Stefnandi segir að samkvæmt framanrituðu hafi hann notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hann hafi ráðist til starfa í tíð laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en lög nr. 70/1996 hafi nú leyst þau lög af hólmi. Í tíð eldri laga nr. 38/1954 hafi stefnandi notið biðlaunaréttar vegna stöðu sinnar samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 38/1954, en þar segi að sé staða lögð niður, skuli þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í sex mánuði frá því hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár. Með lögum nr. 70/1996 hafi þetta ákvæði verið fellt niður og ekki sett sambærilegt biðlaunaákvæði í þess stað. Í lögunum sé aftur á móti bráðabirgðaákvæði og í 5. mgr. þess sé mælt svo fyrir að starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laganna, eigi rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í 12 mánuði, við niðurlagningu stöðu hans. Um bótarétt og bótafjárhæð vísar stefnandi til 34. gr. laganna.
Þá segir stefndi að verði, gegn væntingum stefnanda, litið svo á að starf hans hafi verið lagt niður, þá geri stefndi varakröfu um skaðabætur samkvæmt nefndri 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins, sem hann falli undir. Formleg starfslok stefnanda hafi verið í júlílok 1999, er stefnandi kom úr sumarorlofi, og verði að miða við að þá hafi starf hans verið lagt niður, ef fallist verði á málatilbúnað stefnda. Við þessar aðstæður eigi stefnandi rétt til skaðabóta samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu og 34. gr., sem nemi launum hans í sex mánuði frá því hann lét af starfinu. Varakrafa stefnanda um skaðabætur samsvari þeim launum, sem stefnanda hefðu borið samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi á þessu sex mánaða tímabili, þ. e. 1. ágúst 1999 til 1. febrúar 2000. Fjárhæð varakröfu styðjist við framlagðan útreikning Árna Stefáns Jónssonar, framkvæmdastjóra stéttarfélags stefnanda, en aðalatriði hans séu eftirfarandi:
Launatímabilföst launföst yfirvinna6%t. lífeyrissj.laun
01.08.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.09.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.10.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.11.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.12.99152.29711.071,-9.138,-172.506,-
01.01.00156.29711.406,-9.412,-177.679,-
laun skv. framansögðu alls1.040.209,-
orlof á dagv./des.uppbót 13,04% 121.246,-
orlof á yfirvinnu 13,04% 8.705,-
desemberuppbót 11.451,-
framlag í lífeyrissj. af orlofs-og des.uppbót 7.962,-
laun í 15 mánuði alls1.189.573,-
Um dráttarvaxtakröfu bæði í aðalkröfu og varakröfu vísar stefnandi til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og annarra ákvæða III. kafla laganna.
Í varakröfu krefst stefnandi dráttarvaxta frá gjalddaga „hverrar skaðabótakröfu”, sem hafi verið í upphafi hvers mánaðar á sex mánaða tímabilinu. Gjalddagi desemberuppbótar hafi verið 1. desember 1999 og kveðst stefnandi krefjast dráttarvaxta af bótum vegna hennar frá þeim degi. Ekki er krafist dráttarvaxta af bótum vegna orlofsgreiðslna fyrr en frá gjalddaga síðasta mánaðar á sex mánaða tímabilinu.
Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu kveður stefnandi vera skaðleysiskröfu, þar sem stefnandi muni ekki eignast frádráttarrétt vegna skattsins.
Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu stefnanda sú málsástæða að telji dómurinn að stefndi hafi ekki verið bær til þess að segja stefnanda upp störfum beri að líta á uppsögnina sem ólögmæta þess vegna og stefnanda beri þá bætur. Stefnandi kvað málsástæðu þessa ekki of seint fram komna þar sem hún komi vegna sýknukröfu stefnda í greinargerð grundvölluðum á aðildarskorti.
IV. Málsástæður og lagarök stefnda
Fyrir það fyrsta krefst stefndi sýknu á grundvelli aðildarskorts. Í því sambandi verði að hafa í huga að stefnandi sé ríkisstarfsmaður. Ráðningarsamningur stefnanda hafi verið gerður hinn 9. júní 1993 milli stefnanda og launaskrifstofu ríkisins og fjármálaráðuneytis. Ekkert vinnuréttarsamband sé á milli stefnanda og stefnda í máli þessu. Með títtnefndum samningi dags. 3. janúar 1997 milli stefnda og félagsmálaráðuneytis hafi stefndi tekið að sér sem reynslusveitarfélag ákveðin verkefni frá Félagsmálaráðuneytinu. Stefndi hafi m. a. tekið að sér rekstur kertaverksmiðjunnar sbr. 4. gr. samningsins. Á móti skyldi ríkið greiða ákveðna fjárhæð til sveitarfélagsins. Samningur þessi sé alfarið á milli stefnda og ríkisins og breyti í engu vinnuréttarsambandi milli stefnanda og ríkisins. Í samningnum sé enda skýrt tekið fram, sbr. 6. lið samningsins, að enginn formbreyting verði á ráðningarsamningi starfsmanna og réttindi þeirra og skyldur haldist óbreytt. Þá sé stefnda ekki heimilt að segja starfsmanni upp, breyta launaflokkaröðun eða leggja niður stöðu hans án samþykkis félagsmála- og fjármálaráðuneytis. Nýir starfsmenn séu og hafi hins vegar verið ráðnir sem starfsmenn stefnda. Því sé stefndi ekki réttur aðili að máli þessu heldur ríkið og beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts.
Þá krefst stefndi sýknu með þeim rökum að stefnanda hafi ekki verið sagt upp á grundvelli 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum með heimild í 43. gr. laganna. Í ráðningarsamningi stefnanda við ríkið hafi sérstaklega verið tekið fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur starfsmanna og atvinnurekanda sé 3 mánuðir. Samkvæmt 43. gr. laga nr. 70/1996 sé heimilt að segja starfsmanni upp eftir því sem mælt er fyrir um í ráðningarsamningi. Stefnanda hafi verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara eins og áskilið hafi verið í ráðningarsamningi.
Ástæða uppsagnar hafi verið sú að nauðsynlegt hafi þótt að gera forstöðustarfið viðameira og láta það taka til yfirstjórnar á sölu- og markaðsmálum ásamt fjármálastjórn og framleiðslustjórn. Því hafi þótt nauðsynlegt að leita eftir aðila sem nauðsynlega menntun og reynslu hafði í starfið. Ólafur Hauksson hafi verið ráðinn til reynslu í stuttan tíma enda hafi hann haft ákveðna menntun á sviði iðnaðar og tækniskólanám að baki. Fljótlega hafi síðan verið ráðinn til starfs framkvæmdastjóra viðskiptafræðingur sem starfi enn við framkvæmdastjórn. Stefnanda hafi verið sagt upp af framangreindum ástæðum með lögbundnum fyrirvara og með heimild samkvæmt lögum nr. 70/1996.
Þá mótmælir stefndi aðalkröfu stefnanda sem of hárri. Stefnanda hafi verið boðið áframhaldandi starf við kertaverksmiðjuna sem starfsleiðbeinandi á eðlilegum launum miðað við slíkt starf og meira að segja í hærri kantinum hvað slík störf varðar. Stefnandi hafi byrjað störf sem slíkur en hætti fyrirvaralaust í ágústmánuði 1999. Hugmyndir stefnanda samkvæmt stefnu um að starfsleiðbeinandi hafi sömu laun og forstöðumaður geti ekki byggst á öðru en óeðlilegum ranghugmyndum og því hafi sú ákvörðun hans að halda ekki áfram starfinu alfarið verið á ábyrgð stefnanda.
Þá mótmælir stefndi fullyrðingum um að menntunarskilyrði hafi verið sett vegna stefnda persónulega. Í lok ársins 1998 hafi þróunarfélagið sagt upp starfsmanni sínum Ólafi Snorrasyni sem hafði jafnframt í 1/2 starfi annast framkvæmdastjórn kertaverksmiðjunnar. Ólafur sé menntaður á sviði vélstjórnar ásamt því að vera iðnrekstrarfræðingur og útgerðartæknir og hafi stjórn kertaverksmiðjunnar talið nauðsynlegt að fá menntaðan mann í starf framkvæmdastjóra verksmiðjunnar. Stefnandi hafi hins vegar ekki haft slíka menntun. Stefndi segir það misskilning hjá stefnanda að stjórn kertaverksmiðjunar hafi hætt að kaupa þessa þjónustu frá þróunarfélaginu. Þróunarfélagið hafi sagt upp áðurnefndum starfsmanni sínum og hafi stjórn kertaverksmiðjunnar ekkert haft með það að gera.
Stefndi kveðst ekki hafa brotið meðalhófsreglu þar sem hann hafi boðið stefnanda áframhaldandi starf sem starfsleiðbeinandi á eðlilegum launakjörum fyrir slíkt starf.
Um varakröfu stefnanda segir stefndi að starf stefnanda hafi ekki verið lagt niður heldur gert veigameira og því hafi þótt nauðsynlegt að leita eftir starfsmanni í starfið sem uppfyllti ákveðin menntunar- og reynsluskilyrði. Starfið sé til enn þann dag í dag og Sigríður María Hreiðarsdóttir sé núverandi forstöðumaður/framkvæmdastjóri kertaverksmiðjunnar. Krafa um biðlaun eigi því ekki rétt á sér þar sem starfið hafi ekki verið lagt niður.
Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt og vísað til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 um upphafsdag dráttarvaxtaútreiknings.
Stefndi mótmælti sem of seint fram kominni málsástæðu stefnanda, sem kom fram við munnlegan flutning málsins, um að stefnda beri bætur vegna þess að uppsögn hans hafi verið ólögmæt á þeim grunni að stefndi hafi ekki haft vald til að segja stefnanda upp störfum.
V. Niðurstöður
Í títtnefndum samningi félagsmálaráðuneytisins við stefnda frá 3. janúar 1997, sem samþykktur er af fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, kemur fram að samningurinn sé gerður í samræmi við lög um reynslusveitarfélög nr. 82/1994. Samkvæmt samningnum tók stefndi að sér „að veita fötluðum, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, þá þjónustu sem þeir eiga rétt á að þeim sé veitt samkvæmt lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992, á vegum félagsmálaráðuneytisins.” Gildistími samningsins var til ársloka 1999.
Meginmarkmið samningsins eru sögð þau að færa stjórn og ábyrgð á þjónustu við fatlaða á eina hendi, þ. e. til stefnda og stuðla þannig að betri nýtingu á því fjármagni sem veitt er til málaflokksins og bættri þjónustu fatlaðra. Þá segir að framkvæmdanefnd um reynslusveitarfélag í Vestmannaeyjabæ hafi yfirumsjón með því verkefni er samningurinn nær til. Félagsmálaráð Vestmannaeyjabæjar fari með yfirstjórn málaflokksins í umboði bæjarstjórnar. Félagsmálastofnun Vestmannaeyjabæjar annist daglega stjórn málaflokksins, en félagsmálastjóri, sem er framkvæmdastjóri félagsmálaráðs, hafi yfirumsjón með þjónustu við fatlaða og þann rekstur sem henni fylgir. Í samningnum er síðan talin upp sú þjónusta og rekstur heimila og stofnana fatlaðra sem stefndi tók að sér samkvæmt samningnum og er „rekstur” Heimaeyjar, verndaðs vinnustaðar eitt af þeim atriðum sem talin eru upp. Segir að stefnda sé heimilt að breyta rekstrartilhögun og fyrirkomulagi tilgreindrar starfsemi og þjónustu, enda leiði það til bættrar þjónustu við fatlaða og hagræðingar í rekstri. Í 6. gr. samningsins segir m. a.: „Á gildistíma samningsins teljast þeir starfsmenn, sem taldir eru upp á fylgiskjali 6 [þ. á m. stefnandi, samkvæmt yfirlýsingum af hálfu málsaðila. Innsk. dómara.] vera í þjónustu Vestmannaeyjabæjar. Vestmannaeyjabær öðlast með samningi þessum verkstjórnarrétt gagnvart þeim, sbr. 17. gr. laga um reynslusveitarfélög. Engin formbreyting verður á ráðningarsamningum starfsmanna á þessu tímabili og réttindi þeirra og skyldur, svo sem lífeyrisréttindi, haldast óbreytt. Sama á við um stéttarfélagsaðild þeirra. Starfsmenn munu taka út laun samkvæmt kjarasamningum ríkisins við viðkomandi stéttarfélög eins og nú er. Starfsmenn munu greiða gjöld til sömu stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Vestmannaeyjabær mun sjá um afgreiðslu launa og skil á lífeyrissjóðsgreiðslum og stéttarfélagsgjöldum. Vestmannaeyjabær hefur ekki heimild til að segja starfsmanni upp störfum, breyta launaflokkaröðun eða leggja niður stöðu hans nema að fengnu samþykki félagsmála- og fjármálaráðuneytis. [...]
Nýir starfsmenn, sem ráðnir verða frá og með 1. janúar 1997 til verkefna sem samningurinn tekur til, verða ráðnir sem starfsmenn Vestmannaeyjabæjar. Verði niðurstaðan í lok tilraunar að verkefni skuli fært aftur til ríkisins skulu starfsmenn, sem ráðnir hafa verið af Vestmannaeyjabæ til verkefna sem samningurinn tekur til, hafa forgang að ráðningu hjá ríkinu til að gegna sambærilegum störfum.”
Fram hefur komið að stjórn Heimaeyjar, kertaverksmiðju, sendi félagsmálaráðuneytinu bréf hinn 28. desember 1998 þar sem „farið er fram á með vísan í samning Vestmannaeyjabæjar og Félagsmálaráðuneytis, að fá heimild til þess að segja núverandi forstöðumanni [stefnda. Innsk. dómara] upp”, eins og segir orðrétt í bréfinu. Félagsmálaráðuneytið mun hafa tilkynnt fjármálaráðuneytinu erindi stjórnar kertaverksmiðjunnar með bréfi hinn 28. janúar 1999, en það bréf er ekki í gögnum málsins. Fjármálaráðuneytið sendi félagsmálaráðuneytinu bréf hinn 1. febrúar 1999 þar sem segir m. a.: „Í 6. kafla samnings félagsmálaráðuneytis og reynslusveitarfélagsins Vestmannaeyjabæjar um þjónustu Vestmannaeyjabæjar við fatlaða, dags. 3. janúar 1997, kemur fram að Vestmannaeyjabæ er ekki heimilt að segja starfsmönnum, sem ráðnir voru til starfa fyrir gildistöku samningsins, upp störfum nema að fengnu samþykkis félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í 3. kafla samningsins segir að félagsmálaráð Vestmannaeyjabæjar fari með yfirstjórn málaflokksins í umboði bæjarstjórnar og að félagsmálastofnun annist daglega stjórn hans. Að tillögu félagsmálaráðs var sérstök stjórn skipuð til að fara með rekstrar- og markaðsmál kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar.
[...]
Af framangreindu virtu er ljóst að þörf hefur skapast til þess að fá starfsmann sem hefur meiri þekkingu en núverandi forstöðumaður býr yfir til að gegna forstöðumannsstarfinu. Með vísan til þessa og 5. tl. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, samþykkir fjármálaráðuneytið fyrir sitt leyti að forstöðumanninum verði sagt upp störfum.
Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er óljóst hvort stjórn kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar fari með veitingavald gagnvart forstöðumanni. Með vísan til þess og að því gefnu að félagsmálastjóri fari almennt með veitingavald gagnvart starfsmönnum er sinna þjónustu við fatlaða hjá Vestmannaeyjabæ telur fjármálaráðuneytið varlegast að formaður stjórnarinnar og félagsmálastjóri komi að uppsögninni, þ. e. undirriti uppsagnarbréfið.”
Í framhaldi af þessu bréfi fjármálaráðuneytisins ritaði félagsmálaráðuneytið hinn 3. febrúar 1999 kertaverksmiðjunni Heimaey bréf þar sem vísað er til 6. gr. framangreinds samnings félagsmálaráðuneytisins við stefnda sem reynslusveitarfélags og jafnframt tilgreint að félagsmálaráðuneytið fallist á að stefnda verði sagt upp störfum. Þá er áréttað í bréfinu að staðið sé að uppsögn í samræmi við framangreindar tillögur fjármálaráðuneytisins um það efni í áðurnefndu bréfi þess frá 1. febrúar 1999.
VII. kafli laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, hefur að geyma sérákvæði um flutning verkefna ríkisins til reynslusveitarfélaga. Í 1. mgr. 17. gr. lagana segir: „Meðan á tilraun stendur, sem felur í sér flutning verkefna frá ríki til reynslusveitarfélags samkvæmt lögum þessum, teljast hlutaðeigandi starfsmenn vera í þjónustu sveitarfélagsins. Engin formbreyting verður á ráðningarstöðu starfsmannanna á þessu tímabili og réttarstaða þeirra og réttindi haldast óbreytt, svo sem lífeyrisréttindi og stéttarfélagsaðild.” Í athugasemdum við frumvarpið að lögunum segir um þessa grein: „Ákvæðið var samið í samráði við fulltrúa BHMR og BSRB. Það byggir á því að engin breyting verði á réttarstöðu hlutaðeigandi starfsmanna nema að því leyti að sveitarfélagið fá skipunarvald gagnvart þeim. Ákvæðið um að engin formbreyting verði á ráðningarstöðu starfsmanna vísar til þess að ekki verði breyting á að ríkið sé aðili að ráðningarsamningum þeirra. Af því leiðir að sveitarfélag getur ekki tekið ákvörðun um uppsögn starfsmanns heldur eingöngu gert um það tillögu til viðkomandi ráðuneytis.”
Eins og áður er rakið var stefnandi á árinu 1993 ráðinn forstöðumaður Heimaeyjar, kertaverksmiðju með samningi við svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi og fjármálaráðuneytið, eða löngu áður en stefndi gerðist reynslusveitarfélag og er stefnandi félagsmaður í starfsmannafélagi ríkisstofnana. Samkvæmt framansögðu varð engin formbreyting á ráðningarstöðu stefnanda þrátt fyrir að stefndi hafi gerst reynslusveitarfélag með samningum við félagsmálaráðuneytið á grundvelli laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög. Samningur félagsmálaráðuneytisins og stefnda getur ekki að neinu leyti haggað skýrum og eindregnum ákvæðum 1. mgr. 17. gr. laga um reynslusveitarfélög um að engin breyting verði á ráðningarstöðu ríkisstarfsmanna við tilflutning verkefna ríkisins til reynslusveitarfélaga. Stefnanda var því ekki unnt að beina kröfum sínum í málinu gegn stefnda, þar sem stefndi var ekki aðili að umræddum ráðningarsamningi.
Eins og áður segir kom fram af hálfu stefnanda við munnlegan flutning málsins sú málsástæða, að telji dómurinn að stefndi hafi ekki verið bær til þess að segja stefnanda upp störfum þá skuli líta á uppsögnina ólögmæta þess vegna og stefnanda beri þá bætur. Stefnandi kvað málsástæðu þessa ekki of seint fram komna þar sem hún sé sett fram í tilefni sýknukröfu stefnda grundvölluðum á aðildarskorti. Sætti þessi málsástæða stefnanda mótmælum af hálfu stefnda sem of seint fram komin. Dómurinn telur stefnanda hafa verið unnt að koma með þessa málsástæðu á fyrri stigum málsins og hana því of seint fram komna. Kemur þessi málsástæða ekki til skoðunar þegar af þeirri ástæðu.
Samkvæmt framanrituðu og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála, ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Vestmannaeyjabær, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Runólfs Gíslasonar.
Málskostnaður fellur niður.