Hæstiréttur íslands
Mál nr. 648/2009
Lykilorð
- Samningur
- Starfslok
- Trúnaðarskylda
- Brostnar forsendur
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010. |
|
Nr. 648/2009. |
Andrés Magnússon (Halldór Þ. Birgisson hrl.) gegn Félagi íslenskra stórkaupmanna (Garðar Garðarsson hrl.) |
Samningur. Starfslok. Trúnaðarskylda. Brostnar forsendur.
A starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri F. Þann 11. apríl 2008 gerði F starfslokasamning við A þar sem kveðið var á um að A skyldi ljúka vinnuskyldu sinni 31. maí sama ár en laun haldast til 31. október 2008. Í samningnum var kveðið á um að launin skyldu greidd, óháð því hvort A myndi sinna störfum annarsstaðar á tímabilinu. Með munnlegum samningi í maí á sama ári réði A sig til S sem starfaði á sama sviði og F og voru launagreiðslur A felldar niður vegna þessa. Í málinu krafði A, F um greiðslur samkvæmt starfslokasamningnum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákvæði starfslokasamningsins væri skýrt um að A skyldi njóta réttar til launa til loka október 2008. Hefði F verið í lófa lagið að taka fram í samningnum ef hann vildi takmarka þennan rétt A við að hann réði sig ekki til vinnu hjá S. Hefði F í raun haft sérstakt tilefni til að gæta að þessu þar sem ágreiningslaus var að A lét af störfum hjá F vegna stuðnings við tillögu um samruna F og S. Þetta hafði F ekki gert og var ekki fallist á að óskráð forsenda fyrir samningnum sem að þessu laut hefði brostið með þeim réttaráhrifum að F yrði ekki bundið við starfslokasamninginn. Var krafa A samkvæmt þessu tekin til greina og F dæmt til að greiða A laun og aðrar greiðslur samkvæmt samningum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. nóvember 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.109.486 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.225.400 krónum frá 1. september 2008 til 1. október sama ár, af 2.450.800 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en af 4.109.486 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því að áfrýjandi hafi vísvitandi leynt upplýsingum um starfskjör sín hjá stefnda, sem máli hafi skipt, við gerð starfslokasamningsins 11. apríl 2008. Úrslit málsins ráðast af skýringu á þeim samningi. Í honum er kveðið á um að áfrýjandi skuli halda óbreyttum launum til 31. október 2008 og að þau skuli „greidd óháð því hvort Andrés sinni störfum annarsstaðar á tímabilinu, ..“. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að forsendur skyldu sinnar samkvæmt þessu samningsákvæði hafi brostið þegar áfrýjandi réði sig til starfa hjá Samtökum verslunar og þjónustu. Kveður hann þau samtök „helsta samkeppnisaðila“ sinn. Til stuðnings sjónarmiði sínu um þetta hefur stefndi bent á svofellt ákvæði í starfslokasamningi áfrýjanda: „Allar upplýsingar um FÍS og starfsemi félagsins eru trúnaðarmál og gildir sá trúnaður eftir lok þessa samnings með óbreyttum hætti eins og á starfstíma.“ Stefndi hefur ekki byggt á því að áfrýjandi hafi brotið gegn þessu ákvæði með því að hafa gefið hinum nýja vinnuveitanda sínum tilteknar upplýsingar, sem hann hafi verið bundinn trúnaði um, heldur felist nefndur forsendubrestur í því að hafa ráðið sig til vinnu hjá honum.
Samkvæmt því sem að framan segir er ákvæði starfslokasamningsins skýrt um að áfrýjandi skuli njóta réttar til launa til loka október 2008 svo sem hann krefst. Stefnda hefði verið í lófa lagið að taka fram í samningnum ef hann vildi takmarka þennan rétt áfrýjanda við að hann réði sig ekki til vinnu hjá nefndum ætluðum samkeppnisaðila sínum. Hafði stefndi raunar sérstakt tilefni til að gæta að þessu þar sem ágreiningslaust er að áfrýjandi lét af störfum hjá honum vegna stuðnings við tillögu um samruna þessara tveggja samtaka verslunarfyrirtækja. Þetta gerði stefndi ekki og verður ekki fallist á með honum að óskráð forsenda fyrir samningnum sem að þessu lúti teljist hafa brostið með þeim réttaráhrifum að hann sé ekki skuldbundinn samkvæmt ákvæðinu um rétt áfrýjanda til launa fyrrgreint tímabil eftir að hann lét af störfum. Samkvæmt þessu verður krafa áfrýjanda tekin til greina. Ekki eru efni til að lækka hana vegna varakröfu stefnda í héraði sem byggð er á því að hann eigi gagnkröfu á hendur áfrýjanda vegna viðgerðarkostnaðar á bifreið í eigu stefnda sem áfrýjandi hafði til afnota. Hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir þessari kröfu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Félag íslenskra stórkaupmanna, greiði áfrýjanda, Andrési Magnússyni, 4.109.486 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.225.400 krónum frá 1. september 2008 til 1. október sama ár, af 2.450.800 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en af 4.109.486 krónum frá þeim degi til greiðsludags og samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. júlí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Andrési Magnússyni, Vesturbrún 33, Reykjavík, á hendur Félagi íslenskra stórkaupmanna, Kringlunni 7, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 21. nóvember 2008.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert með dómi að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 4.109.486.- með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kr. 1.225.400.- frá 01.09.2008 til 01.10.2008, af kr. 2.450.800.- frá þeim degi til 01.11.2008 en af stefnufjárhæð, kr. 4.109.486.- frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð um kr. 485.293 og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Stefnandi starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri stefnda eða allt til þess að hann lauk vinnuskyldu sinni hjá stefnda í lok maí 2008. Starfslok stefnanda hjá stefnda voru gerð með samkomulagi aðila og gengu aðilar frá skriflegum starfslokasamningi þann 11. apríl 2008. Tildrög að starfslokum stefnanda hjá stefnda voru þau að stefnandi hafði sem framkvæmdastjóri stefnda unnið að sameiningu stefnanda og Samtökum verslunar og þjónustu. Þau sameiningaráform gengu ekki eftir og í framhaldi af því urðu aðilar sammála um það að stefnandi lyki störfum hjá stefnda og var samið um starfslokin.
Samkvæmt starfslokasamningi urðu aðilar ásáttir um að stefnandi lyki vinnuskyldu þann 31. maí 2008, en frá gerð starfslokasamnings 11. apríl til 31.maí voru gerðar takmarkanir á völdum framkvæmdastjóra félagsins og áhrif formanns stjórnarinnar aukin. Þá skyldi stefnandi eftir 1. júní 2006 vinna að hámarki tvær vikur með nýjum framkvæmdastjóra auk þess sem hann myndi taka að sér tilfallandi ráðgjafaverkefni fyrir stefnda. Þá var umsamið samkvæmt starfslokasamningi að laun og kostnaður vegna bifreiðar og hlunninda og orlofsgreiðslur skyldu vera óbreytt eftir 31. maí 2008 allt til 31. október 2008.
Á fundi sem stefnandi átti með stjórnarmanni stefnda 30. júní 2008 var honum tjáð að það væri skoðun stefnda að brostnar væru forsendur starfslokasamnings aðila þar sem stefnandi hefði ráðið sig sem starfsmann Samtaka verslunar og þjónustu og að launagreiðslur féllu niður þegar stefnandi væri komin á launaskrá annars staðar. Þessu hafnaði stefnandi með formlegu bréfi þann 11. júlí 2008.
Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 28. ágúst 2008, segir að forsendur stafslokasamnings séu brostnar, þar sem stefnandi hafi með ráðningu sinni til samkeppnisaðila stefnda brotið bæði skrifaðar og óskrifaðar reglur um trúnaðarskyldu við stefnda. Tekið er fram í bréfi þessu að frekari greiðslur í formi launa eða launatengdra greiðslna falli niður frá og með 1. ágúst. Stefnanda voru því greidd laun samkvæmt starfslokasamningi fyrir júní og júlí 2008.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til greiðslu launa í samræmi við efni starfslokasamningsins til loka október mánaðar 2008.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir mál sitt í meginatriðum á þeirri staðreynd að stefndi hafi ekki staðið skil á greiðslum launa samkvæmt starfslokasamkomulagi fyrir mánuðina ágúst, september og október 2008.
Fyrir liggi að þann 11. apríl 2008 hafi aðilar gert með sér starfslokasamning. Hann sé í átta greinum og undirritaður af báðum aðilum málsins og fyrir liggi að farið hafi verið eftir efni hans frá undirritun til 31. júlí 2008. Meginatriði samningsins voru; að takmörkun varð á völdum framkvæmdastjóra frá gerð samnings, framkvæmdastjórn framkvæmdastjóra lauk miðað við 31. maí 2008 og eftir það skyldi eingöngu sinna tilteknum verkefnum. Að því marki sem stefndi hafi óskað eftir slíku var við því orðið. Í 2., 3. 4 og 5. gr. starfslokasamningsins hafi sérstaklega verið kveðið á um það lið fyrir lið að stefnandi skyldi ekki missa neins í kjörum; laun, orlof, hlunnindi og kostnað.
Þá sé í 4. gr. starfslokasamnings svohljóðandi ákvæði ..” Laun skulu haldast óbreytt til 31.10.2008. Laun skulu greidd óháð því hvort Andrés sinni störfum annars staðar á tímabilinu sem og réttindi Andrésar samkvæmt 4. gr..” Stefnandi byggir á því að samningsákvæði þetta sé skýrt óskilyrt loforð um að laun skuli greiða til tiltekins tíma hvað sem líði launum í öðru starfi. Hin venjulegu sjónarmið vinnuréttar um frádrátt launa á tímabili uppsagnar eða ólögmætrar synjunar á launagreiðslum eigi ekki við. Ráðning stefnanda í nýtt starf og launagreiðslur frá þriðja aðila geti því ekki falið í sér forsendubrest hvað varðar starfslokasamninginn og skyldur stefnda. Ekki sé reyndar ljóst hvort á því sé byggt.
Í bréfi stefnda, dags. 28. ágúst 2008, sé vísað til þess að forsendur séu brostnar og að skrifaðar og óskrifaðar trúnaðarskyldur hafi verið brotnar. Þetta sé hins vegar lítið rökstudd og sé því hafnað að þessi sjónarmið geti átt við.
Fyrir liggi að í starfslokasamningi sé engin takmörkun sett á stefnanda hvað varðar mögulega ráðningu á tímabili starfslokasamnings. Hvorki hvað varðar þann aðila sem hann réði sig til né annarra. Þá sé heldur ekki takmörkun á starfsvali samkvæmt ráðningarskilmálum eða starfslokasamkomulagi. Þá sé og ljóst að ákvæði 37. gr. laga nr. 7/1936 takmarki með hvaða hætti hömlur verða lagðar á atvinnuþátttöku manna eftir starfslok. Ákvæði 6. gr. um trúnað stefnanda við stefnda verði ekki túlkað þannig að það fari í bága við meginreglu 37. gr. samningalaga nr. 7/1936 og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Meginreglan sé að mönnum sé í sjálfsvald sett með að nýta aflahæfi sitt og eigi hún við í þessu máli. Þá sé ekki ljóst með hvað hætti stefndi telur trúnað brotinn utan almennrar yfirlýsingar þess efnis í bréfi 28. ágúst 2008. Ekki sé sýnilegt að slík brot hafi verið framin og að auki ekki ljóst að stefndi og Samtök verslunar og þjónustu eigi í samkeppni eða upplýsingar annars um starfsemi hins séu skaðlegar.
Þá liggi og fyrir að fyrir starfslok stefnanda hjá stefnda hafði stefndi átt í viðræðum og lagt fyrir fund tillögu um sameiningu stefnda og Samtaka verslunar og þjónustu. Ljóst sé að í þeim sameiningarviðræðum hafi hvor aðili um sig verið upplýstur um allt sem máli skipti í starfsemi hins og vandséð hvaða sérstöku trúnaðarupplýsingum stefnandi á að hafa búið yfir og eða hvaða trúnaðarskyldur hafi verið brotnar.
Þá liggi og fyrir að stjórn stefnda hafi vitað af því að stefnandi færi til starfa hjá Samtökum verslunar og þjónustu strax í maí en hafi allt að einu óskað eftir að stefnandi stæði við starfslokasamninginn og greiddi laun fyrir maí, júní og júlí. Hver sé raunveruleg ástæða þess að stefndi kaus að fella greiðslur niður fyrirvaralaust í lok ágúst sé stefnanda hins vegar ekki ljóst. Hefði ráðning stefnanda hjá Samtökum verslunar og þjónustu falið í sér brostnar forsendur sem stefndi ætlaði að bera fyrir sig hefði stefndi átt að lýsa þeirri afstöðu sinni eigi síðar en á stjórnarfundi 16. maí 2008 en ekki eftir að stefndi hafði ítrekað í verki fallist á að ráðning hjá Samtökum verslunar og þjónustu hefði ekki áhrif á skyldur aðila samkvæmt starfslokasamkomulagi m.a. með móttöku vinnuframlags og greiðslu launa.
Um vexti sé vísað til vaxtalaga nr. 38/2001 en krafist sé dráttarvaxta frá því að stefndi skyldi greiða stefnanda laun samkvæmt starfslokasamningi.
Um sönnun sé vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en byggt sé á því að sönnunarbyrði um skilyrði forsendubrests og trúnaðarbrest hvíli á stefnda.
Gerð sé krafa um málskostnað á grundvelli ákvæða laga nr. 91/1991.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar svo;
|
Ógreidd laun í ágúst 2008 |
kr. |
1.114.000.- |
|
|
Mótframlag í séreignarsjóð |
kr. |
22.280.- |
|
|
Mótframlag í lífeyrissjóð |
kr. |
89.120.- |
|
|
Samtals ágúst |
kr. |
1.225.400.- |
|
|
|
|
|
|
|
Ógreidd laun í september 2008 |
kr. |
1.114.000.- |
|
|
Mótframlag í séreignarsjóð |
kr. |
22.280.- |
|
|
Mótframlag í lífeyrissjóð |
kr. |
89.120.- |
|
|
Samtals ágúst til september |
kr. |
2.450.800.- |
|
|
|
|
|
|
|
Ógreidd laun í október 2008 |
kr. |
1.114.000.- |
|
|
Mótframlag í séreignarsjóð |
kr. |
22.280.- |
|
|
Mótframlag í lífeyrissjóð |
kr. |
89.120.- |
|
|
|
|
|
|
|
Samtals ágúst til október |
kr. |
3.676.200.- |
|
|
Orlof fyrir ágúst 10,17% af 1.242.608 |
kr. |
126.373.- |
|
|
Orlof fyrir ágúst 10,17% af 1.242.608 |
kr. |
126.373.- |
|
|
Orlof fyrir ágúst 10,17% af 1.242.608 |
kr. |
126.373.- |
|
|
Desemberuppbót 10/12 af 65.000 |
kr. |
54.167.- |
|
|
|
|
|
|
|
Samtals krafa |
kr. |
4.109.486.- |
|
Krafist sé fullra mánaðarlauna fyrir ágúst til október 2008 og höfð hliðsjón af launaseðli fyrir júlí 2008. Þá sé krafist mótframlags í lífeyrissjóði sem fram koma á launaseðli og orlofs af launagreiðslum og hlutfallslegrar desemberuppbótar. Stefnandi miðar við að skila sjálfur sköttum og lögboðnum gjöldum þar með talið til lífeyrissjóða og krefst jafnvirði þess úr hendi stefnda. Sé þetta í samræmi við dómafordæmi. Krafist sé vaxta frá réttum útborgunardegi launa fyrir ágúst og september og við lok launagreiðsla séu eindagaðar orlofsgreiðslur fyrir umþrætta mánuði og hlutfallsleg desemberuppbót.
Um greiðsluskyldu stefnda sé vísað til starfslokasamnings aðila frá 11. apríl 2008 enda liggi fyrir að greiða skuli stefnanda laun til 31. október 2008 þrátt fyrir að vinnuskyldu hafi lokið 31. maí 2008. Um óskilyrt loforð til launagreiðslna sé að ræða. Greiðslusynjun stefnda fyrir þrjá síðustu mánuðina sé ólögmæt og hafi ekki þýðingu. Ekki sé um kröfu að ræða sem sæti takmörkunum vegna launagreiðslna annarra á sama tíma. Á sömu sjónarmiðum eigi reglur bótaréttar um tjónstakmörkun ekki við.
Vísað sé til reglna vinnuréttarins og almennra reglna samningaréttar þar með talið um skuldbindingargildi samninga og reglna kröfuréttar eftir því sem við á. Hvað mögulegan forsendubrest varði sé ljóst að um forsendur stefnda hafi ekki verið getið í samningi aðila og því ljóst að stefnandi mátti ekki ætla að þær takmarkanir væru á starfslokasamningnum sem stefndi vilji nú byggja á. Sjónarmið um forsendubrest eigi því ekki við.
Hvað sjónarmið um trúnað varðar byggir stefnandi á að hann hafi haldið trúnað við stefnda á ráðningartíma og eftir starfslok sín. Starfssamband sitt og Samtaka verslunar og þjónustu raski þar engu og hann hafi í engu brotið gegn rétti stefnda eftir starfslok sín. Ekki verði séð að aðilar séu samkeppnisaðilar, allar upplýsingar hafi verið veittar þegar til stóð að sameinast og ekki sé að sjá annað en stefnandi hefði getað tekið að sér verkefni sem óskað yrði eftir. Ekki hafi komið til þess að óskir um vinnuframlag bærust stefnanda sem hann hafnaði að sinna. Þá sé og ljóst að hvað þessi atriði varðar eigi stefndi sönnunarbyrði í málinu.
Krafa um dráttarvexti frá mánuði eftir að greiðslukrafa var sett fram sé byggð á vaxtalögum og dráttarvaxtakrafa sé gerð samkvæmt 1. tl. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38//2001.
Krafan um málskostnað að skaðlausu sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum nr. 50/1988, enda hafi stefnandi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur að allar forsendur fyrir starfslokasamningnum hafi brostið þegar stefnandi réði sig í starf framkvæmdastjóra hjá helsta samkeppnisaðila stefnda. Þá telur stefndi einnig ljóst að stjórnin hafi verið blekkt til samningagerðar og af þeim ástæðum sé starfslokasamningurinn óskuldbindandi fyrir félagið. Því beri að sýkna stefnda alfarið af öllum kröfum stefnanda.
Í starfslokasamningnum segi að stefnandi skuli taka að sér tilfallandi ráðgjafarverkefni fyrir stefnda á meðan á launagreiðslum til hans standi. Starfssambandi aðila hafi þannig verið ætlað að standa áfram þó viðveruskyldu stefnanda á skrifstofu stefnda lyki að mestu. Einnig hafi sérstaklega verið hnykkt á trúnaðarskyldum aðila í 2. mgr. 6. gr. í starfslokasamningnum, þar sem segir: „Allar upplýsingar um FÍS og starfsemi félagsins eru trúnaðarmál og gildir sá trúnaður eftir lok þessa samnings með óbreyttum hætti eins og á starfstíma.“
Stefndi telur augljóst að stefnandi hafi brotið þessa grein með því að ráða sig til samkeppnisaðila og þar með hafi brostið forsendur fyrir samningnum. Starf fyrir einhvern annan en samkeppnisaðila hefði getað farið heim og saman við starfslokasamninginn, en ekki framkvæmdastjórastarf fyrir samkeppnisaðila. Á það sé að líta að enn hafi verið ráðningarsamband milli aðila sem fólst m.a. í því að stefnanda hafi borið að sinna ráðgjafarstörfum fyrir stefnda. Stefndi hafi ekki getað treyst á ráðgjöf framkvæmdastjóra helsta samkeppnisaðila síns, auk þess sem slíkt sé ólöglegt samráð. Menn þjóni ekki tveimur herrum.
Ákvörðun sína um það að ráða sig til Samtaka verslunar og þjónustu hafi stefnandi leynt fyrir stjórn stefnda. Virðist þó sem hún hafi verið tekin áður en starfslokasamningurinn var gerður. Forsenda stefnda fyrir því að greiða stefnanda laun, þó hann væri við einhver önnur störf á tímabilinu, hafi að sjálfsögðu verið sú að stefnandi gæti staðið við sinn hluta af samningnum, m.a. að inna af hendi umsamið vinnuframlag sem fólst í óháðri ráðgjöf við stefnda og að trúnaðarákvæðin væru virt.
Stefnandi hafi þannig ekki verið fær um að efna sinn hluta af starfslokasamningnum, hvernig sem á það sé litið.
Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 613/2006 þar sem tekist hafi verið á um samskonar atvik og í máli þessu.
Það verði að telja nokkuð ljóst að með ráðningu sinni til Samtaka verslunar og þjónustu hafi stefnandi brotið bæði skrifaðar sem óskrifaðar reglur um trúnaðarskyldur við stefnda og hafi þar með brostið allar forsendur fyrir starfslokasamningi hans. Hafi stefnda því verið heimil riftun starfslokasamningsins þegar á þeim grundvelli.
Í annan stað byggir stefndi á því að stefnandi hafi vísvitandi sagt rangt frá um þau starfskjör sem fyrrverandi stjórn hafði samið um við hann um á árinu 2001. Stefnandi hafi einungis átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Hann átti ekki rétt á launum í uppsagnarfresti ef hann segði sjálfur upp og kysi af einhverjum ástæðum að vinna ekki út uppsagnarfrestinn. Hann átti hins vegar rétt á launum ef stjórnin sagði upp ráðningarsamningnum og óskaði ekki eftir vinnuframlagi frá stefnanda á uppsagnartímanum. Eigi því 2. mgr. 30. gr. laga. nr.7/1936 við hér og sé samningurinn óskuldbindandi fyrir stefnda af þeim ástæðum.
Stefnandi hafði bifreið til afnota vegna starfa sinna hjá stefnda og átti samkvæmt starfslokasamningnum að halda henni út ráðningartímabilið, þ.e. til 30. október 2008. Þegar stefndi hafi tilkynnt stefnanda um riftun samningsins með bréfi dags. 28. ágúst 2008 hafi þess jafnframt verið krafist að hann skilaði umræddri bifreið. Það hafi hann ekki gert og var þannig með óheimilar vörslur á bifreiðinni. Bifreiðin hafi bilað af óþekktum ástæðum meðan hún var í óheimilum vörslum stefnanda og beri honum að greiða viðgerðarkostnaðinn, sem nam kr. 485.293 samkvæmt framlögðum reikningi, en stefndi hafi innt þá fjárhæð af hendi. Byggist varakrafan á því að þessi fjárhæð komi til frádráttar stefnukröfum, ef sýknukrafa stefnda verði ekki tekin til greina. Áskilinn sé réttur til endurkröfu í sjálfstæðu dómsmáli ef sýknukrafan verði tekin til greina.
Krafa um málskostnað sé byggð á 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Fyrir dómi skýrði stefnandi frá því að allt frá haustinu 2007 hefðu staðið yfir viðræður milli stefnda og Samtaka verslunar og þjónustu um mögulega sameiningu þessara tveggja samtaka. Hafi stefnandi tekið þátt í þessum viðræðum og verið fylgjandi sameiningu. Legið hafi fyrir að með því væri stefnandi að stíga ákveðið skref og leggja starf sitt hjá stefnda að veði, því ef svo færi að þessi áform gengu ekki eftir þá yrði honum trauðla sætt í störfum sem framkvæmdastjóri stefnanda.
Áform um sameiningu stefnanda og Samtaka verslunar og þjónustu runnu út í sandinn og stefnandi lét af störfum sem framkvæmdastjóri hjá stefnda í kjölfar þess.
Samkvæmt starfslokasamningi, sem gerður var 11. apríl 2008, skyldi stefnandi ljúka vinnuskyldu sinni hjá stefnda í lok maí, en halda óbreyttum launum út október 2008. Stefnandi var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og hóf þar störf í júní 2008.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stefndi hafi ekki staðið skil á greiðslum launa samkvæmt starfslokasamningi fyrir mánuðina ágúst, september og október 2008.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í málinu aðallega á því að allar forsendur fyrir starfslokasamningnum hafi brostið þegar stefnandi réði sig í starf framkvæmdastjóra hjá Samtökum verslunar og þjónustu, sem sé helsti samkeppnisaðili stefnda.
Í 6. gr. starfslokasamningsins er kveðið á um trúnaðarskyldu. Þar segir m.a. að allar upplýsingar um stefnda og starfsemi félagsins séu trúnaðarmál og gildi sá trúnaður eftir lok samningsins með óbreyttum hætti eins og á starfstíma.
Af gögnum máls, m.a. framburði aðila fyrir dómi, verður ráðið að stefndi, Félag íslenskra stórkaupmanna, og Samtök verslunar og þjónustu, séu hagsmunasamtök á sama sviði, sem eiga í samkeppni sín á milli um aðild verslunar- og þjónustufyrirtækja að samtökunum. Þau hafa tekjur af félagsgjöldum og fjöldi félagsmanna skiptir því máli fjárhagslega. Verður því að telja að það samrýmdist ekki þeim trúnaðarskyldum sem stefnandi var bundinn gagnvart stefnda að taka við starfi framkvæmdarstjóra hjá félagi sem var í samkeppni við stefnda á sama tíma og hann þáði laun hjá stefnda samkvæmt starfslokasamningi. Það hefur ekki áhrif á trúnaðarskyldu stefnanda að þessu leyti þótt upplýsingar hafi farið á milli félaganna er viðræður þeirra um sameiningu stóðu yfir, eins og stefnandi byggir á. Ákvæði í starfslokasamningi þess efnis að laun skuli greidd óháð því hvort stefnandi sinni störfum annars staðar á tímabilinu breyta og engu í þessu efni. Þá verður að telja að stefndi hafi nægilega haldið rétti sínum til laga. Verður því fallist á með stefnda að forsendur fyrir starfslokasamningnum hafi brostið þegar stefnandi réði sig í starf framkvæmdastjóra hjá Samtökum verslunar og þjónustu. Ekki verður talið að ákvæði 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi standi þessari niðurstöðu í vegi.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Félag íslenskra stórkaupmanna, skal vera sýkn af kröfum stefnanda,
Andrésar Magnússonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.