Hæstiréttur íslands
Mál nr. 747/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Sjúklingatrygging
- Skaðabætur
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 10. desember 2014. |
|
Nr. 747/2014.
|
Ævar Guðmundsson (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Sjúklingatrygging. Skaðabætur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Æ höfðaði mál gegn Í þar sem hann krafðist viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af völdum rangrar greiningar og seinkunar meðferðar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þegar hann leitaði þangað á slysadeild í kjölfar höfuðáverka sem hann hlaut í slysi 2009. Í hinum kærða úrskurði var máli Æ vísað frá dómi þar sem hann hefði átt að beina kröfunni að S, sbr. 7. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Í dómi Hæstaréttar var rakið að S hefði hafnað erindi Æ um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 á þeim grundvelli að tilvikið félli utan bótasviðs laganna. Að fenginni niðurstöðu S hefði Æ átt þess kost að láta reyna á það fyrir dómi hvort synjun stofnunarinnar við erindi hans hefði átt sér lagastoð. Æ hefði kosið að gera það ekki heldur höfðað mál þetta með fyrrgreindri viðurkenningarkröfu. Taldi Hæstiréttur að ákvæði 7. gr. laga nr. 111/2000 stæðu slíkri málshöfðun ekki í vegi en af málatilbúnaði Æ leiddi að hann nyti við málsóknina ekki þess hagræðis sem hann ella nyti hefði hann rekið mál sitt áfram á grundvelli framangreindra laga. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins varð sóknaraðili fyrir slysi 22. júní 2009 og leitaði sama dag aðhlynningar á bráðamóttöku Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og aftur degi síðar. Sóknaraðili telur að höfuðáverki sem hann hlaut í slysinu hafi ekki verið greindur réttilega við fyrstu komu á bráðamóttöku og hafi það ásamt drætti á viðeigandi læknismeðferð á sjúkrahúsinu valdið honum alvarlegu líkamstjóni sem metið hafi verið til miska. Af þessu tilefni beindi sóknaraðili 11. janúar 2012 erindi til Sjúkratrygginga Íslands og krafðist bóta frá stofnuninni á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Því erindi hafnaði stofnunin með bréfi 9. ágúst 2012 þar sem tilvikið félli utan bótasviðs 1. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000. Gögn málsins bera ekki með sér að þeirri niðurstöðu hafi sóknaraðili skotið til úrskurðarnefndar almannatrygginga í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 111/2000. Í framhaldinu höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila og krefst „viðurkenningar á bótaskyldu [varnaraðila] vegna tjóns sem [sóknaraðili] varð fyrir af völdum rangrar greiningar og seinkun meðferðar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) þegar [sóknaraðili] leitaði þangað á slysadeild í kjölfar höfuðáverka sem hann hlaut í slysi þann 22. júní 2009.“ Er bótakrafa sóknaraðila á því reist að varnaraðili beri bótaskyldu gagnvart sér vegna mistaka starfsmanna fjórðungssjúkrahússins sem leitt hafi til tjóns fyrir hann.
Með setningu laga nr. 111/2000 var að því stefnt að veita sjúklingum sem verða fyrir áföllum í tengslum við læknismeðferð víðtækari bótarétt en þeir eiga samkvæmt almennum skaðabótareglum og gera þeim jafnframt auðveldara með að ná fram rétti sínum. Að fenginni framangreindri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands átti sóknaraðili þess kost að láta á það reyna fyrir dómi hvort synjun stofnunarinnar við erindi hans ætti sér lagastoð. Sóknaraðili kaus að gera það ekki heldur höfðaði mál þetta með þeirri dómkröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda sem áður getur. Ákvæði 7. gr. laga nr. 111/2000 standa slíkri málshöfðun ekki í vegi en af málatilbúnaði sóknaraðila leiðir að hann nýtur við málsókn sína ekki þess hagræðis sem hann ella nyti hefði hann rekið mál sitt áfram á grundvelli laga nr. 111/2000. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Ævari Guðmundssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2014.
Mál þetta er höfðað 3. desember 2013 og var tekið til úrskurðar um frávísun þess án kröfu 17. október sl.
Stefnandi er Ævar Guðmundsson, [...], [...]. Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna tjóns, sem stefnandi varð fyrir af völdum rangrar greiningar og seinkunar meðferðar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þegar hann leitaði þangað á slysadeild í kjölfar höfuðáverka, sem hann hlaut í slysi 22. júní 2009. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I
Í málinu er ekki höfð uppi krafa um frávísun, en vikið er að því í greinargerð stefnda, að lagarök kunni að hníga til þess, að dómara beri að vísa málinu frá af sjálfsdáðum. Tók dómari málsins þá ákvörðun í samræmi við 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að gefa aðilum málsins kost á að tjá sig um málið munnlega áður en boðað yrði til aðalmeðferðar í málinu og var málið tekið fyrir um frávísun þess 17. október sl. Þar voru ekki hafðar uppi aðrar kröfur en um málskostnað af hálfu aðila þess en hvor málsaðila reifaði sjónarmið sín, hvað mögulega frávísun málsins frá dómi varðaði. Að því loknu var málið tekið til úrskurðar og er sá þáttur þess hér til úrlausnar.
II
Í greinargerð stefnda er vikið að því, að í málinu verði að horfa til 7. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Fyrir liggi, að Sjúkratryggingar Íslands hafi tekið afstöðu til kröfu stefnanda vegna atvika málsins, eins og fram komi í ákvörðun stofnunarinnar frá 9. ágúst 2012, en samkvæmt þessu ákvæði laganna verði skaðabótakrafa ekki gerð á hendur neinum, sem sé bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar, nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. laganna, og þá einungis um það, sem á vantar. Kröfu um viðurkenningu á bótaábyrgð í dómsmáli yrði því fyrst að beina að Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt meginreglu laganna eða samhliða gegn stofnuninni og stefnda íslenska ríkinu á grundvelli samlags- eða varnaraðildar eftir atvikum. Yrði því að ætla, að ef gerð yrði fjárkrafa, yrði einnig að beina henni að báðum þessum aðilum til varnar og eftir atvikum þannig, að fjárhæð kröfu um það, sem á vantar umfram hámarksfjárhæð 5. gr. laga nr. 111/2000, yrði þá beint að stefnda. Því telji stefndi, að vísa beri málinu frá dómi af sjálfsdáðum (ex officio) á grundvelli grunnreglu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og almenns réttarfarsskilyrðis 24. gr. laganna. Mál gegn stefnda geti því ekki komið til kasta dómstóla, nema um það sem upp á vantaði um fullar bætur ef tjón fengist ekki viðurkennt á grundvelli sjúklingatryggingar í dómsmáli. Engu breytti þar um, þótt aðeins sé höfð uppi viðurkenningarkrafa í slíku máli.
Við flutning málsins reifaði lögmaður stefnanda þau sjónarmið, að í málinu væri um að ræða kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu, en ekki hreina bótakröfu eða fjárkröfu, en þannig bæri að skilja afmörkun 7. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Þá sé málinu beint gegn stefnda, sem beri ábyrgð á ætlaðri saknæmri háttsemi starfsmanna sinna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem sé sönnunaratriði málsins, en ekki Sjúkratryggingum Íslands. Þannig heldur stefnandi því fram að þegar fyrir liggi, að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða og bótaskylda stefnda hefur verið viðurkennd, þá beri að beina fjárkröfu að Sjúkratryggingum Íslands fyrst, en síðan að íslenska ríkinu í samræmi við 7. gr. sjúklingatryggingalaganna. Í málinu hafi stefnandi þegar beint kröfu sinni að Sjúkratryggingum Íslands, sem hafi hafnað bótaskyldu. Því sé stofnuninni haldið utan þessa máls en kröfunni beint að þeim sem ábyrgðina ber á háttsemi starfsmanna sinna, þ.e. stefnda, enda telji stefnandi að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða af hálfu þeirra og bótaskylda því fyrir hendi. Sú leið að láta fyrst reyna á bótaskylduna en síðar á fjárhæðina, í samræmi við 7. gr. sjúklingatryggingalaga, sé e.t.v. lengri en sú sem stefndi hafi reifað og því geti dregist á langinn að mál klárist. Það þýði þó ekki endilega að máli beri að vísa frá af þeim sökum. Stefnandi uppfylli öll réttarfarsskilyrði til að málið fái efnislega dómsmeðferð í samræmi við 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hafi hann ríka hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningarkröfu sína.
III
Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins, vegna tjóns sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir af völdum rangrar greiningar og seinkunar meðferðar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í kjölfar slyss 22. júní 2009. Viðurkenningarkröfu sinni til stuðnings vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en málatilbúnaður stefnanda er að öðru leyti reistur á ólögfestri meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð, lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu og á skaðabótalögum nr. 50/1993.
Lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, sem tóku gildi 1. janúar 2001, var ætlað að tryggja sjúklingum víðtækari bótarétt en þeir höfðu áður notið eftir almennum skaðabótareglum og reglum samkvæmt áður gildandi lögum um almannatryggingar nr. 117/1993. Var það gert til að samræma bótarétt sjúklinga því sem tíðkaðist á öðrum Norðurlöndum. Einn þáttur hins víðtæka bótaréttar sjúklinga snýr að því að sjúklingur, sem orðið hefur fyrir heilsutjóni af völdum læknismeðferðar eða í tengslum við hana, þarf ekki samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu að sýna fram á sök þess sem bótaábyrgðina ber, heldur skal greiða bætur, sbr. 2. gr. laganna, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi tjón viðkomandi að öllum líkindum rekja til ákveðinna atvika, sem nánar eru rakin í fjórum töluliðum 2. gr. Meðal annars skal greiða bætur fyrir tjón, sem hlýst af því að sjúkdómsgreining er ekki rétt í tilvikum, sem nefnd eru í 1. og 2. tölul. 2. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr., en samkvæmt 1. tölul. 2 gr. skal greiða bætur, ef ætla má, að komast hefði mátt hjá tjóni, ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður, sem um ræðir, hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Lögunum er ætlað að taka til allra atvika, sem skaðabótaskyld eru samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og eiga sér stað þegar sjúklingur er í rannsókn eða meðferð hjá stofnun eða öðrum aðila, sem lögin tiltaka, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, auk þeirra atvika, sem getið er í 2. gr. þeirra. Þannig er bótaréttur þess, sem fyrir tjóni verður við slíka rannsókn eða meðferð, tryggður með víðtækari hætti en ef um bótaréttinn giltu almennar reglur skaðabótaréttar.
Í 9. gr. laga um sjúklingatryggingu er kveðið á um hverjir beri bótaábyrgð samkvæmt lögunum en það eru allir sem veita heilbrigðisþjónustu innan stofnana sem utan, þar með talin sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir án tillits til þess hver beri ábyrgð á rekstri þeirra. Samkvæmt 10. gr. laganna hvílir vátryggingarskylda á þeim, sem taldir eru upp í 9. gr. laganna en heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir, sem ríkið á í heild eða að hluta, eru undanþegin slíkri vátryggingarskyldu, sbr. 11. gr. laganna. Samkvæmt 13. gr. laganna ber að beina kröfu um bætur samkvæmt lögunum vegna tjóns hjá þeim sem nýta sér heimild til að kaupa sér ekki vátryggingu, sbr. 11. gr. laganna, til sjúkratryggingastofnunarinnar. Það eru því Sjúkratryggingar Íslands sem bera bótaskyldu samkvæmt lögunum í þeim tilvikum sem fyrrgreindar stofnanir eða starfsmenn þeirra bera ábyrgð á bótaskyldri háttsemi eða öðrum atvikum, sem falla undir lögin.
Í 7. gr. laga um sjúklingatryggingu segir að skaðabótakrafa verði ekki gerð á hendur neinum sem sé bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar, nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. laganna og þá einungis um það sem á vantar. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu, segir meðal annars um 7. gr. að ákvæðið hafi áhrif á bótarétt tjónþola samkvæmt almennum skaðabótareglum. Eigi tjónþoli rétt á sjúklingatryggingarbótum þá fellur skaðabótaréttur hans niður sem því nemur. Þá segir að skaðabótakrafa samkvæmt sakarreglu eða reglu um vinnuveitandaábyrgð geti stofnast í ýmsum tilvikum, sem um ræði meðal annars í 1. og 2. tölul. 2. mgr. laganna, og jafnframt í tilvikum, sem 1. mgr. 3. gr. laganna taki til, en með ákvæðinu sé felldur niður réttur til að hafa uppi skaðabótakröfu samkvæmt sakarreglunni eða á öðrum grundvelli, t.d. reglum skaðabótaréttar um ábyrgð án sakar. Þó haldist skaðabótarétturinn fyrir þann hluta tjónsins, sem tjónþoli beri samkvæmt 2. mgr. 5. gr. eða reglugerð, sem sett er með heimild í því ákvæði. Þá helst bótaréttur vegna tjóns, sem fellur utan gildissviðs sjúklingatryggingar, en þar er einna helst um að ræða önnur atvik en lögin taka til. Um slíkt atvik er ekki að ræða í máli þessu.
Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir, að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum en ráðherra er þó heimilt að kveða á um lágmark vátryggingarfjárhæðar, sérstaklega, í reglugerð. Var sú reglugerð sett nr. 763/2000 um vátryggingu þeirra,sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Í 2. mgr. 5. gr. er vikið að ákveðinni lágmarksviðmiðunarfjárhæð tjóns, til þess að bætur greiðist á grundvelli laganna, svo og hámarki bótafjárhæðar en þær breytast árlega í samræmi við vístölu neysluverðs.
Með 7. gr. laga um sjúklingatryggingu, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna, hefur bótarétti sjúklings, sem verður fyrir tjóni, sem fellur undir gildissviðs laganna, verið markaður ákveðinn rammi. Þannig verður tjónið að metast til ákveðinnar lágmarksviðmiðunarfjárhæðar, svo að bætur greiðist á grundvelli laganna, auk þess sem það skilyrði er sett fyrir því að skaðabótakrafa verði gerð á hendur einhverjum þeim sem bótaskyldur getur talist, samkvæmt reglum skaðabótaréttar, að tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. laganna og þá verði sú skaðabótakrafa aðeins gerð um það sem á vantar. Af þessu leiðir, að skaðabótakrafa verður ekki gerð á hendur öðrum en Sjúkratryggingum Íslands, eða vátryggingarfélagi eftir atvikum, nema tjón nemi hærri fjárhæð en hámarksfjárhæð bóta samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna, sem þegar hafi verið greiddar, og þá aðeins um það sem út af stendur svo tjónið verði að fullu bætt.
Í málinu er krafist viðurkenningar á bótaskyldu íslenska ríkisins, sem framar greinir, en fyrir liggur synjun Sjúkratrygginga Íslands á kröfu stefnanda um bætur á grundvelli sjúklingatryggingar nr. 111/2000, en í ákvörðuninni er vikið að því, að áskilnaði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingar sé ekki fullnægt, hvað rannsókn, meðferð, ætlaða vangreiningu og orsakir fyrir tjóni stefnanda varðar. Var það mat Sjúkratrygginga að það skilyrði 2. gr. laganna að meiri líkur en minni væru á því að tjón yrði rakið til einhverra framangreindra atriða væri ekki uppfyllt.
Samkvæmt stefnu er krafa stefnanda reist á lögum um sjúklingatryggingu ásamt ólögfestri meginreglu skaðabótaréttarins um vinnuveitandaábyrgð og skaðabótalögum en tilgangurinn er að sýna fram á bótaskylda háttsemi starfsmanna stefnda. Málatilbúnaður stefnanda í máli á hendur stefnda getur ekki byggt á lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, eins og hér háttar til. Skilja verður málatilbúnað stefnanda og tilgang viðurkenningarkröfu hans á þann veg að með viðurkenningardómi takist honum að sýna fram á að stefnda sé bótaskylt samkvæmt reglum skaðabótaréttar, sbr. 7. gr. laga um sjúklingatryggingu, enda þótt skaðabótakröfu verði ekki haldið uppi á hendur íslenska ríkinu fyrr en hámarksviðmiði 2. mgr. 5. gr. er náð. Þannig byggir stefnandi á því að hægt sé að ná fram sönnun um bótaskylda háttsemi í máli á hendur þeim sem bótaábyrgðina ber, enda þótt bæturnar yrðu síðar sóttar til Sjúkratrygginga Íslands og stefnda eftir atvikum nemi tjón hærri fjárhæð en því hámarki sem greinir í 2. mgr. 5. gr. laganna.
Stefnandi málsins hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu í máli þessu en ekki Sjúkratryggingum Íslands. Ekkert liggur fyrir í málatilbúnaði hans um umfang tjónsins eða hvort fjárhagslegt tjón hans nemi hærri fjárhæð en því hámarki sem getið er í 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu þannig að bótaskylda samkvæmt skaðabótalögum kunni að vera fyrir hendi. Viðurkenningardómur á hendur stefnda á grundvelli almennra skaðabótareglna veitir stefnanda rétt til að krefjast bóta úr hendi íslenska ríkisins en stefnandi telur slíkan dóm geta komið að notum við að krefjast bóta úr hendi Sjúkratrygginga Íslands. Ekki verður um það deilt að stefnda sé almennt bótaskylt samkvæmt reglum skaðabótaréttar á grundvelli reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitandaábyrgð þegar starfsmenn þess sýna af sér saknæma háttsemi í skilningi skaðabótaréttar. Þótt 7. gr. laganna kveði ekki á um viðurkenningarkröfu þá felst í skaðabótakröfu eða kröfu um greiðslu bóta um leið viðurkenningarkrafa. Þannig kæmu sömu atriði til sönnunar í máli þar sem gerð er skaðabótakrafa og í máli þar sem höfð er uppi viðurkenningarkrafa á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar. Er því ekki ástæða til að greina á milli tegundar krafna í skilningi 7. gr. laga um sjúklingatryggingu. Samkvæmt. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur stefnandi leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar hafi hann lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands og gildir það án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Stefnanda er því almennt heimilt að gera viðurkenningarkröfu í máli sem þessu en slíkri kröfu skal beint að þeim sem ber bótaskylduna að lögum.
Samkvæmt ákvæðum laga um sjúklingatryggingu ber að gera skaðabótakröfu á hendur Sjúkratryggingum Íslands vegna bótaskyldra atvika sem falla undir lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Með þessu hefur löggjafinn tekið þá ákvörðun, að skaðabótakröfum vegna skaðabótaskyldra atvika, sem verða í heilbrigðisþjónustu, skuli beint í ákveðinn farveg. Þrátt fyrir að Sjúkratryggingar Íslands hafi hafnað erindi stefnanda um bætur er ekki þar með girt fyrir að látið verði reyna á bótaskylduna á grundvelli sjúklingatryggingalaga fyrir dómi, Slík krafa verður hins vegar ekki, samkvæmt skýru ákvæði 7. gr. laga um sjúklingatryggingu, sótt á hendur öðrum samkvæmt reglum skaðabótaréttar, nema við eigi þau atriði sem í ákvæðinu er getið. Því skortir að lagaskilyrði séu uppfyllt fyrir kröfu stefnanda í málinu á hendur stefnda og hefði stefnandi réttilega átt að beina kröfu sinni á hendur Sjúkratryggingum Íslands.
Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi án kröfu í samræmi við 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi málsins hlaut gjafsóknarleyfi til málarekstursins og hefur krafist þess að fá tildæmdan málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þykir gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, hæfilega ákvarðaður 970.750 krónur og greiðist hann úr ríkissjóði. Dómstólar taka ekki afstöðu til greiðslu annars kostnaðar af málinu úr ríkissjóði við ákvörðun málskostnaðar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 970.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.