Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 1. september 2010.

Nr. 511/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september 2010 klukkan 16 og sæta takmörkunum meðan á henni stendur samkvæmt c. og d. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. sömu laga. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að henni verði gert að sæta farbanni. Að þessu frágengnu krefst hún þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

      Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september 2010 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot. Við tolleftirlit 17. júní sl. hafi tollverðir og lögregla fundið um 20 lítra af amfetamínvökva í eldsneytistanki bifreiðarinnar [...] við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu. Samkvæmt áliti lyfjafræðistofnunnar sé unnt að útbúa um 250 kíló af neysluhæfu amfetamíni úr hinum haldlagða vökva.

Kærða, sem hafi verið ökumaður og eigandi bifreiðarinnar, neiti allri aðild að málinu. Hún hafi skýrt frá því að hún hafi komið hingað til lands ásamt vinkonu sinni og meðkærðu Y og tilgangur ferðarinnar hafi verið að heimsækja Bláa lónið.

Kærða hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 18. júní sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 477/2010, til dagsins í dag, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sé henni gert að sæta takmörkunum samkvæmt c. og d. liðum 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála.

Rannsókn málsins sé á lokastigi, en málið hafi m.a. verið unnið með aðstoð þýskra lögregluyfirvalda, sjá nánar réttarbeiðnir, dags. 25. júní sl., 2. og 15. júlí sl.

Teknar hafi verið skýrslur af aðilum búsettum í Þýskalandi, jafnframt því sem framkvæmdar hafi verið húsleitir þar í landi.

Við rannsókn málsins hafi kærða X skýrt frá að maður að nafni Z, f. [...], hafi gefið henni umrædda bifreið um miðjan maí sl. Þá hafi hann einnig greitt fyrir ferð hennar og meðkærðu Y hingað til lands. Um vinargreiða hafi verið að ræða.

Þá hafi kærða einnig skýrt frá því að hún hafi ekið ofangreindri bifreið, ásamt vinkonu sinni A, frá Þýskalandi til Litháen 5. júní sl.  Þar hafi ofangreindur maður, Z, tekið á móti þeim.  Á Z að hafa tekið við umræddri bifreið og ferðapappírum kærðu X og Y hingað til lands og skilað sólarhring seinna og þá með þeim fyrirmælum að ekki mætti aka bifreiðinni meira en 300 kílómetra án þess að taka eldsneyti.

Það sé grunur lögreglu að umræddum fíkniefnum hafi verið komið fyrir í bifreiðinni í Litháen og að Z hafi átt aðild að því.

Umræddur Z hafi hlotið fjögurra ára fangelsisrefsingu með dómi Hæstaréttar Íslands 19. október 2006 í máli nr. 420/2006, fyrir að hafa flutt hingað til lands um 2 lítra af amfetamínvökva og brennusteinssýru.

Með réttarbeiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. júlí sl., hafi verið óskað eftir því við litháísk lögregluyfirvöld að haft yrði uppi á umræddum Z, hann handtekinn og yfirheyrður í þágu rannsóknar málsins.  Litháísk yfirvöld hafi ákveðið að verða við beiðni lögreglustjóra með bréfi dags. 28. júlí sl.  Réttarbeiðninni hafi verið fylgt eftir með bréfum lögreglustjóra, dags. 9. og 13. ágúst sl. Hinn 23. ágúst sl. hafi þær upplýsingar borist frá litháískum lögregluyfirvöldum að reynt hafi verið, án árangurs, að hafa uppi á Z. Til hafi staðið að gera enn eina tilraun snemma morguns þriðjudaginn 24. ágúst. Nú í morgun hafi þær upplýsingar borist að Z væri enn ófundinn, en til stæði að halda áfram leit að honum.

Í ljósi meginreglu 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála um hraða málsmeðferð og reglu 4. mgr. 95. gr. sömu laga um að ekki sé unnt halda sakborningi lengur en í tólf vikur í gæsluvarðhaldi nema mál sé höfðað gegn honum, hafi lögregla nú ákveðið að bíða ekki frekari svara frá Lithaén, heldur senda málið ríkissaksóknara. Með þeim hætti hafi ríkissaksóknari svigrúm til að taka ákvörðun um saksókn innan umkrafins gæsluvarðhaldstíma.

Kærða sé undir sterkum rökstuddum grun um að eiga aðild að innflutningi á gífurlegu magni hættulegra fíkniefna þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Í málinu liggi fyrir dómur og mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrði a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála séu fyrir hendi og ekkert nýtt fram komið í málinu sem breytt getur því mati.

Það megi ætla, gangi kærða frjáls ferða sinna, að hún kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að setja sig í samband við ofangreindan Z, en litháísk lögregluyfirvöld virðast ekki enn hafa yfirheyrt hann vegna málsins.  Þá verði að telja  yfirgnæfandi líkur til þess að hún muni reyni að koma sér úr landi og þannig undan frekari lögreglurannsókn og eftir atvikum dómsmeðferð. Kærða sé án allra tengsla við land og þjóð og eigi yfir höfði sér þunga fangelsisrefsingu sannist sök hennar.  Það sé því afar brýnt að tryggð verði nærvera hennar á meðan mál hennar sé til meðferðar hjá lögreglu og hugsanlega dómstólum.

Í ljósi þess hve rannsókn málsins sé langt á veg komin telji lögregla á hinn bóginn, ekki lengur þörf á að kærðu verði gert að sæta einangrun, skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, enda unnt að tryggja rannsóknarhagsmuni málsins skv. öðrum liðum ákvæðisins.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt framansögðu er kærða undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Um er að ræða umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni og er rannsókn þess á lokastigi.  Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir standi til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er enn til rannsóknar, enda verður að telja hættu á að hún geti spillt rannsókn málsins gangi hún laus svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka, eða með því að reyna að koma sér úr landi og þannig undan lögreglu og dómsmeðferð.  Kærða er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið.  Þá liggur fyrir að enn er eftir að taka skýrslur af nánar tilgreindum aðila búsettum í Litháen, og grunur leikur á að tengist málinu.  Samkvæmt framansögðu  og þar sem ekkert nýtt hefur komið fram í málinu frá því að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í máli nr. 477/2010, sem breytt getur því mati réttarins að skilyrði a- og b- liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt í málinu, til framlengingar gæsluvarðhalds, þykir verða að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, eins og hún er sett fram, með vísan til a-liðar og b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og 4. mgr. 95. gr. sömu laga. Það er mat dómsins að það úrræði sem í farbanni felst, sé ekki nægjanlegt í máli þessu, sem lýtur að svo alvarlegum sakargiftum, auk þess sem kærða er erlendur ríkisborgari.

Þá eru ekki heldur talin skilyrði til að fallast á kröfu um að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Í ljósi rannsóknarhagsmuna og alvarleika brots sem kærða er grunuð um að hafa framið er fallist á að kærða sæti takmörkunum í gæslunni samkvæmt c- og d- liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærða, X, fædd [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. september  nk. kl. 16.00. Kærða sæti takmörkunum í gæslunni samkvæmt c- og d- liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.