Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 2004.

Nr. 478/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. janúar 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila þannig að hann krefjist þess að gæsluvarðhald hans verði fellt úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og fram kemur í gögnum málsins rannsakar lögregla nú 12 mál á hendur varnaraðila vegna hegningarlagabrota, sem hann er grunaður um að hafa framið á tímabilinu 5. september til 29. nóvember 2004. Hefur hann játað flest brotanna. Í Héraðsdómi Reykjavíkur er auk þess til meðferðar ákæra á hendur varnaraðila útgefin 14. september 2004 fyrir ætlaðan þjófnað hans 24. eða 25. júlí 2004 í tilteknu íbúðarhúsi. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt og verður úrskurðurinn staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2004.

         Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gerð að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til 11. janúar 2005 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að á undanförnum vikum hafi lögregla margoft þurft að hafa afskipti af X vegna ýmissa afbrota. Lögreglan hafi nú til rannsóknar og til afgreiðslu fjölda brota þar sem X er kærður og munu þau verða reifuð stuttlega hér á eftir. Játning liggi fyrir í flestum málanna. Þegar sé fyrir héraðsdómi Reykjavíkur sakamálið [...] þar sem kærði sé ákærður. Kærði hafi ekki enn mætt í því máli þrátt fyrir birt fyrirkall. Gefin hafi verið út handtökuskipun og næsta fyrirtaka fyrirhuguð fimmtudaginn nk. 2. desember.  Dómari í málinu sé Arnfríður Einarsdóttir. 

Kærði sé að eigin sögn í daglegri neyslu fíkniefna, sé atvinnu- og heimilislaus og fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. 

Stefnt sé að því að ljúka rannsókn og gefa út ákæru á hendur kærða á fyrirhuguðum gæsluvarðhaldstíma og sameina það fyrrgreindu máli sem sé til meðferðar hjá héraðsdómi Reykjavíkur. 

Nú munu rakin þau mál sem séu til meðferðar hjá lögreglu og til afgreiðslu hjá lögfræðideild:

             [...]

             Kærði hafi þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu haldið brotastarfsemi áfram ótrauður.  Lögreglustjóranum í Reykjavík þykir hegðun kærða undanfarnar vikur og mánuði benda til þess að yfirgnæfandi líkur séu á að hann haldi brotastarfseminni áfram gangi hann laus. Því sé þörf á að stöðva brotahrinu kærða og veita lögreglu og ákæruvaldi ráðrúm til að ljúka rannsókn og gefa út ákæru vegna þeirra mála sem fyrir liggja. Því sé talið mikilvægt að orðið verði við kröfu embættisins.

Kærði sé grunaður um og hafi játað brot gegn 244. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og umferðalögum.

Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í málum hans og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

         Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 11. janúar 2005 kl. 16:00.