Hæstiréttur íslands
Mál nr. 226/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 2. júní 2004. |
|
Nr. 226/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 24. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Sakaferill varnaraðila er nær samfelldur frá árinu 1979. Hefur hann hlotið hátt á þriðja tug refsidóma, aðallega fyrir ýmis hegningarlaga- og fíkniefnabrot, og verið með þeim dæmdur samtals í um 19 ára fangelsi, síðast í sex mánaða fangelsi 7. júní 2000 fyrir þjófnað, ólögmæta meðferð fundins fjár og fíkniefnabrot. Lauk hann afplánun þess dóms 30. október 2002. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 4. maí 2004 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og rann það gæsluvarðhald út 1. júní. Er varnaraðili kom fyrir dóm í tilefni af kröfu um gæsluvarðhald voru til meðferðar hjá lögreglu níu mál á hendur honum vegna auðgunarbrota, en í þremur þeirra tilvika er hann grunaður um að hafa brotist inn í íbúðarhúsnæði. Brotin eru flest talin framin á tímabilinu 18. mars til 2. maí 2004. Hinn 27. sama mánaðar var gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna þessara sakargifta auk tveggja annarra brota. Hann hefur viðurkennt flest brotanna fyrir dómi og hefur aðalmeðferð málsins verið ákveðin 10. þessa mánaðar. Varnaraðili er atvinnulaus og mun hafa verið í mikilli vímuefnaneyslu á þeim tíma, er ætluð brot hans voru framin. Hefur hann viðurkennt fyrir lögreglu að hafa fjármagnað hana með afbrotum. Þegar allt framangreint er virt er ljóst að veruleg hætta er á því að varnaraðili muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Eru því fyrir hendi skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 24. júní nk. kl. 16:00.
Af hálfu lögreglustjóra er vísað til þess að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 4. maí sl. en ákæra hafi verið gefin út 27. maí 2004 og málið þingfest í morgun. Ákærði hafi játað flest brotin sem hann er ákærður fyrir að frátöldum brotum sem lýst er í lið 1, 2.1., 2.2., 2.3. Aðalmeðferð hafi verið ákveðin 10. júní nk. Aðstæður hafi ekki breyst frá því að gæsluvarðhaldsúrskurður hafi verið kveðinn upp 4. maí sl. Brotin sem hér um ræðir hafi verið framinn á skömmum tíma. Því sé þörf á gæsluvarðhaldi sem krafist sé á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Verjandi vísar til þess að ákærði hafi nú fasta búsetu í [...]. Hann hefur fært frekari rök fyrir því að eigi séð ástæða til að beita gæsluvarðhaldi áfram.
Brotin sem ákært er fyrir og ákærði hefur játað að hafa framið að frátöldum þeim brotum sem lýst er í framangreindum liðum ákærunnar varða fangelsi skv. 244. gr. almennra hegningarlaga. Þau eru framin á tímabilinu 15. apríl sl. til 2. maí sl. Með vísan til þessa þykir mega ætla að ákærði muni halda áfram brotum fari hann frjáls ferða sinna. Teljast því skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi og ber því að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Ákærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 24. júní nk. kl. 16:00.