Hæstiréttur íslands

Mál nr. 404/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 19. júní 2015.

Nr. 404/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á meðan mál hans væri til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til 23. október 2015 klukkan 16.30. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 16. júní 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands uns dómur er þar upp kveðinn, þó eigi lengur en til 23. október 2015 kl. 16:30.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að Ríkissaksóknari og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft tvö mál á hendur dómfellda til meðferðar undanfarna mánuði og ár.

Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur dómfellda þann 10. maí 2012 fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku á tímabilinu mars til apríl 2010. Hafi háttsemin verið talin varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] janúar sl. í máli nr. [...] hafi dómfelldi verið dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Dómfelldi hafi áfrýjað dómnum til Hæstaréttar og verði málið tekið þar fyrir þann 25. september nk.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi jafnframt haft til rannsóknar meint kynferðisbrot þar sem dómfellda sé gefið að sök að hafa sett sig í samband við 14 ára stúlku gegnum netið, fengið hana til að senda sér nektarmyndir af sjálfri sér, mælt sér mót við hana og haft við hana samfarir, m.a. með hótunum um birtingu myndanna. Meint brot muni hafa átt sér stað snemma árs 2014 og séu talin varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 4. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins hafi dregist vegna dvalar dómfellda erlendis undanfarna mánuði en hann hafi komið til landsins þann 4. desember 2014 og verið í kjölfarið boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir þar sem hann hafi neitað sök.

Á meðan framangreind mál hafa verið til meðferðar hafi dómfelldi dvalið í lengri tíma erlendis, m.a. á [...] og [...]. Þá hafi legið fyrir að dómfelldi hygðist halda af landi brott 11. desember 2014 til [...] og þaðan til [...] um ótiltekinn tíma. Með hliðsjón af því að dómfelldi hafi ekki getað gefið nákvæmlega upp hvað það sé sem hann fengist við erlendis, framburði hans hjá lögreglu og fyrri sögu hafi því verið ákveðið að fara fram á farbann yfir honum, enda virtist hann hafa litla tengingu við Ísland og hafa lítið sem ekkert dvalið hérlendis undanfarið, sbr. upplýsingaskýrslu lögreglu um hagi dómfellda. Þegar taka hafi átt kröfuna fyrir hafi dómfelldi ekki mætt og við eftirgrennslan lögreglu hafi komið í ljós að hann hefði farið með flugi áleiðis til [...] fyrr um morguninn 11. desember 2014. Í kjölfarið hafi verið gefin út handtökuskipun á hendur dómfellda og hann handtekinn við komuna til [...]. Farið hafi verið fram á að dómfelldi yrði framseldur til Íslands. Fallist hafi verið á það hjá [...] dómstólum og dómfelldi fluttur til Íslands fyrr í dag.

Að mati lögreglu þyki vera fyrir hendi lagaskilyrði til að úrskurða dómfellda í gæsluvarðhald, enda sé hann nú undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing sé lögð við og með vísan til persónulegra haga og fyrri athafna dómfellda megi ætla, gangi hann frjáls ferða sinna, að hann kunni að koma sér undan málsmeðferð hjá lögreglu og dómstólum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Niðurstaða:

Svo sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra var dómfelldi sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur [...] janúar sl. í máli nr. [...] fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku á tímabilinu mars til apríl 2010. Var dómfelldi dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og er málið samkvæmt upplýsingum sóknaraðila á dagskrá réttarins þann [...] nk. Má því vænta dóms í málinu fjórum vikum  síðar, sbr. 1. mgr. 209. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt gögnum málsins hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu jafnframt haft til rannsóknar meint kynferðisbrot dómfellda gegn 14 ára stúlku snemma árs 2014 sem talin séu varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 4. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn þess máls mun hafa dregist m.a. vegna dvalar dómfellda erlendis, en rökstuddur grunur er fyrir hendi um þau brot dómfellda sem varðað geta fangelsisrefsingu.

Með því að upplýst er að dómfelldi fór af landi brott þegar taka skyldi fyrir kröfu lögreglu um að hann sætti farbanni í desember 2014, og með hliðsjón af þeim atvikum að hann er kominn hingað til lands í dag í fylgd lögreglu samkvæmt ákvörðun [...] dómstóla um framsal hans til Íslands, sem hann mótmælti, er fallist á það með lögreglu að skilyrði b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fyrir hendi og ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn og fullnustu refsingar fái hann að fara frjáls ferða sinna. Með hliðsjón af þeim atvikum og afstöðu dómfellda til framsals síns til Íslands verður ekki fallist á það með verjanda hans að dómfelldi hafi sýnt það í verki að hann hafi ekki ásetning til að koma sér undan málsmeðferð og fullnustu dæmdrar refsingar. Verður því að taka undir það með sækjanda að ekki sé fullvíst að farbann kæmi í veg fyrir það að dómfellda tækist að komast úr landi eða leynast fyrir lögreglu. Því verður ekki talið að vægari úrræði komi að gagni eins og málum er háttað og verður krafa um gæsluvarðhald dómfellda því tekin til greina. Skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála teljast vera fyrir hendi, enda hefur verið fallist á rökstuddan grun um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við með dómi héraðsdóms svo sem fyrr greinir.

Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2002 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Er þá unnt að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en fjórar vikur, sbr. 3. málslið 1. mgr. 97. gr. laganna. Að þessu gættu verður fallist á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, uns dómur er þar upp kveðinn, þó eigi lengur en til 23. október 2015 kl. 16:30.