Hæstiréttur íslands

Mál nr. 650/2008


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. maí 2009.

Nr. 650/2008.

Hilmar Sigurðsson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Koenig & Bauer AG

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

 

Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Mál H gegn K var fellt niður að kröfu H. K krafðist greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í samræmi við 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, var H gert að greiða K 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 26. september 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 12. nóvember 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 1. desember 2008. Við áfrýjunina krafðist hann sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krafðist í greinargerð sinni staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti krafðist áfrýjandi þess að málið yrði fellt niður. Stefndi gerði kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991, verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Áfrýjandi, Hilmar Sigurðsson, greiði stefnda, Koenig & Bauer AG, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2008.

Mál þetta sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 23. þ.m. er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2007.

Stefnandi er Koenig & Bauer AG, Friedrich-List Strasse 47-49, D01445 Radebeul, Þýskalandi.

Stefndi er Hilmar Sigurðsson, Brekkuhvarfi 15, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð EUR 175.000 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga  nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2007 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

I.

   Helstu málavöxtum er lýst í stefnu þannig að hinn 17. janúar 2005 hafi Íslandsprent ehf. gert kaupleigusamning við Siemens Finans AB (Siemens) í Svíþjóð, sbr. dskj. 3, þar sem Íslandsprent ehf. tók á leigu prentvélar og fleiri tæki frá stefnanda, en Siemens fjármagnaði leiguna. Skömmu eftir gerð samnings þessa, eða hinn 10. ágúst 2005, hafi stefndi, sem var einn af forsvarsmönnum Íslandsprents ehf., gengist í sjálfsskuldarábyrgð fyrir efndum samningsins af hálfu Íslandsprents ehf. gagnvart stefnanda þar til að öll greiðsla skv. samningnum hefði verið innt af hendi sbr. dskj. 4. Var ábyrgðin takmörkuð við EUR 50.000 og skyldi gilda til 31. desember 2007. Hinn 23. ágúst 2006 gekkst stefndi í viðbótar sjálfsskuldarábyrgð fyrir efndum á sama samningi, sbr. dskj. 5. Var ábyrgð þessi takmörkuð við EUR 125.000 en án tímatakmarkana. Samtals gekkst því stefndi í ábyrgð fyrir EUR 175.000, sem er stefnufjárhæðin.

   Skemmst frá því að segja segir stefnandi Íslandsprent ehf. hafa um lengri tíma vanefnt greiðslur skv. framangreindum kaupleigusamningi. Félagið hafi m.a. verið í greiðslustöðvun og fram hafa komið kröfur um að það verði úrskurðað gjaldþrota. Þá hefur framangreindum kaupleigusamningi verið rift vegna verulegra vanskila á leigugreiðslum,  sbr. dskj. 8, en hinn 22. ágúst 2007 námu vangoldnar leigugreiðslur samtals EUR 493.317 með vöxtum og er heildarskuldin nú, ásamt vöxtum, samtals EUR 2.635.958, sbr. dskj. 7. Er því ljóst að mati stefnanda að greiðsluskylda stefnda samkvæmt framangreindum sjálfskuldarábyrgðum telst virk. Stefndi hafi hins vegar ekki sinnt áskorunum um greiðslu og því er stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta til innheimtu skuldar samkvæmt ábyrgðunum. Krafist er dráttarvaxta frá 11. nóvember 2007, en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi krafðist greiðslu, sbr. dskj. 9.

    Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129., sbr. 130. gr.

II.

   Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda. Hann byggir sýknukröfu á þeim rökum að ábyrgðarskuldbindingar á dómskjali 4 og 5 hafi átt að tryggja efndir samkomulags stefnanda og Íslandsprents ehf. sem fram kemur á dómskjali nr. 3 með því greiðslufyrirkomulagi sem samningur á dómskjali nr. 4 kveður á um og að í ábyrgðaryfirlýsingum stefnda sé hvergi tekið fram að stefnanda hafi verið heimilt að semja við Íslandsprent ehf. um breytingar á upphaflegum samningi. Þær skuldbindingar sem sjálfskuldarábyrgðin tekur til mega ekki taka breytingum svo bindandi sé fyrir sjálfskuldarabyrgðaraðila nema þess sé sérstaklega getið og að fengnu sérstöku samþykki sjálfskuldarábyrgðaraðila. Enginn vafi megi leika á því til hvaða skuldbindinga ábyrgðirnar taka. Telur stefndi að stefnandi byggi málatilbúnað sinn á greiðslusamkomulagi á dómskjali nr. 7 og vegna þess að sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingar stefnda taka ekki sérstaklega til þess þar sem að stefndi hafi aldrei samþykkt að þær breytingar yrðu gerðar á greiðslufyrirkomulagi samkvæmt samningi á dómskjali nr. 3 þá beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

   Telur stefndi að ábyrgðaryfirlýsingar á dómskjali nr. 4 og 5 sem dagsettar eru þann 4. og 23. ágúst 2005 geti ekki náð til samkomulags stefnanda og Íslandsprents ehf. sem gert var í september 2006. Þannig hafi breytingar á greiðslufyrirkomulagi kaupleigusamningsins valdið því að forsendur fyrir ábyrgðayfirlýsingum stefnda, á dómskjali 6 og 7, hafi brostið sem leiði til þess að sýkna beri stefnda af stefnukröfunum. Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á því að skilmálar sjálfskuldarábyrgðanna á dómskjali nr. 4 og 5 hafi verið ósanngjarnir í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, og það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig. Ábyrgðaryfirlýsingarnar hafi verið of víðtækar, til óeðlilega langs tíma og í engu samræmi við fjárhag stefnda.

   Loks byggir stefndi á því að hann hafi greitt inná skuldbidingu sína 155.000 evrur og því beri að lækka stefnukröfuna sem því nemur.

   Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um fjárskuldbindingar. Um dráttarvexti og upphaf dráttarvaxta er vísað til laga nr. 38/2001.

III.

   Dómari lætur þess getið að þrátt fyrir að kaupleigusamningurinn sem stefnandi byggir á í málinu hafi stofnast milli fjármögnunarfyrirtækisins Siemens Finans AB og Íslandsprents ehf. þá sé nægilega í ljós leitt, í gögnum málsins, að stefnandinn König &  Bauer AG hafi eignast dómkröfuna áður en málið var höfðað, auk þess að það hafi verið samþykkt fh. Stefnda, sem og af honum sjálfum í ábyrgðarskuldbindingunum á dómskjali 4 og 5, að stefnandi gæti beint málsókn að honum vegna ábyrgðanna.

   Ljóst er að stefndi byggir sýknukröfu sína í málinu einkum á því að þær breytingar sem gerðar voru á upphaflegu greiðslufyrirkomulagi í kaupleigusamningi, sem óumdeilt er að stofnast hafi milli stefnda og Siemens Finans AB, hafi verið þess valdandi að sjálfskuldarábyrgð stefnda sé nú niður fallin. Skylt hafi verið að fá sérstakt samþykki stefnda fyrir þessum breytingum til þess að hann yrði áfram talinn bundinn af ábyrgðaryfirlýsingum sínum. Telur dómari að með nefndum breytingum ,sem varða einungis greiðslufyrirkomulag, hafi ekki orðið nein breyting á stöðu stefnda sem sjálskuldarábyrgðarmanns. Til þess að stefndi geti borið fyrir sig að slíkar breytingar leysi hann undan ábyrgð hlýtur það að vera vegna þess að þær breytingar hafi með einhverjum hætti verið íþyngjandi og aukið ábyrgð hans. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu stefnda að þessi breytta greiðslutilhögun hafi með nokkrum hætti verið íþyngjandi fyrir hann. Ábyrgðarskuldbindingar stefnda eru skýrt afmarkaðar og takmarkast við ákveðna fjárhæð þannig að verði misbrestur á efndum kaupleigusamningsins þá ábyrgist stefndi, með sjálfskuldarábyrgð, greiðslu 175.000 EUR svo lengi sem fullar efndir hafi ekki náðst. Í því ljósi verður sú ábending stefnda til dómsins að dómurinn verði að gera kröfu til þess að yfirlýsingar einstaklinga um sjálfskuldarábygðir séu skýrar og að óyggjandi sé til hvaða skuldbindinga þær taka ekki tekin alvarlega. Breytingar á greiðslutilhögun, eins og um ræðir í máli þessu, geta aldrei að mati dómara orðið til þess að leysa ábyrgðaraðila undan svo skýrri sjálfskuldarsábyrgð eins og um ræðir í máli þessu komi ekki annað til. Öll sönnunarbyrði um að ekki hafi mátt hagræða greiðslum, líkt og gert var án þess að ábyrgð stefnda félli niður, hvílir á stefnda. Þessi sönnun hefur ekki litið dagsins ljós í málinu. Af þessu má draga þá ályktun að óþarft er að boða slíkt fyrirfram í texta slíks samnings.

   Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að að skilmálar sjálfskuldarábyrgðanna á dómskjali nr. 4 og 5 hafi verið ósanngjarnir í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, og að andstætt sé góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig. Ábyrgðaryfirlýsingarnar hafi verið of víðtækar, til óeðlilega langs tíma og í engu samræmi við fjárhag stefnda. Þessar málsástæður hefur stefndi ekki rökstutt með neinum hætti. Hann hefur ekki lýst því í hverju ósanngirnin liggi eða með hvað hætti það er andstætt góðri viðskiptavenju að bera skilmálana fyrir sig. Ekki er gerð grein fyrir því með hvaða hætti stefndi á að hafa gengist undir of víðtækar ábyrgðaryfirlýsingar eða hverjir teljist eðlilegir lífdagar þeirra. Stefndi hefur ekkert upplýst um fjárhag sinn er hann gekkst undir skulbindingarnar þannig að enginn samanburður af neinu tagi kemur til greina. Eru þessar seinast töldu málsástæður stefnda því settar fram með þeim hætti að þær koma honum að engu haldi í málinu.

   Loks byggir stefndi á því að hann hafi greitt inná skuldbidingu sína 155.000 evrur og því beri að lækka stefnukröfuna sem því nemur.

   Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu og  verður henni því gegn mótmælum stefnanda hafnað.

   Að því virtu sem nú hefur verið rakið hafa allar varnir stefnda í málinu verið haldlausar. Af þeim sökum verða kröfur stefnanda, sem studdar eru viðunandi gögnum einkum afdráttarlausum ábyrgðaryfirlýsingum stefnda og óumdeildum kaupleigusamningi, teknar til greina og stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 175.000 EUR en tölulegur ágreiningur er ekki milli málsaðilja um fjárhæð sjálfskuldarábyrgðar stefnda. Stefndi hefur gert kröfu um að dráttavextir greiðist frá dómsuppsögu en ekki frá 11. nóvember 2007 eins og krafist er í stefnu. Samkvæmt endanlegum dómkröfum stefnanda, sem ekki sættu andmælum að kæmust að, var krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga  nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2007 til greiðsludags. Óumdeilt er að þann 11. október 2007 sendi stefnandi stefnda innheimtubréf vegna dómkröfunnar í máli þessu. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verður fallist á vaxtakröfu stefnanda og stefndi dæmdur til þess að greiða honum dráttarvexti frá 11. nóvember 2007 til greiðsludags.

   Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 450.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

   Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

   Stefndi, Hilmar Sigurðsson, greiði stefnanda Koenig & Bauer AG, 175.000 EUR með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2007 til greiðsludags.

   Stefndi greiði stefnanda 450.000  krónur í málskostnað.