Hæstiréttur íslands

Mál nr. 506/2007


Lykilorð

  • Farmflutningur
  • Gámaleiga


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 506/2007.

Atlantsskip-Evrópa ehf.

(Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)

gegn

Fiskfrakt ehf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Farmflutningar. Gámaleiga.

 

F ehf. krafði AE ehf. um greiðslu að fjárhæð 10.111.626 krónur vegna leigu þess síðarnefnda á gámum í eigu F ehf. Í málinu byggði AE ehf. sýknukröfu sína á því að ekkert samningssamband hefði verið milli félaganna þar sem AE ehf. hefði flutt gámana fyrir S ehf. með því skilyrði að S ehf. útvegaði sjálft þá gáma sem það félag nýtti til flutnings á dýrafóðri. Í niðurstöðu Hæstaréttar var fallist á það með héraðsdómi að AE ehf. bæri að greiða fyrir afnotin þar sem félaginu hefði ekki tekist að sanna að það hefði ekki átt að greiða fyrir leiguna á gámunum. Hins vegar mátti ráða af gögnum sem AE ehf. hafði lagt fram fyrir Hæstarétti að endurgjald það sem F ehf. hafði reiknað sér í viðskiptum aðila fyrir gámaleiguna var mun hærra en tíðkaðist í sambærilegum viðskiptum. Með hliðsjón af 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup bæri að miða við einingarverð, sambærilegt við það sem tíðkaðist í slíkum viðskiptum, enda gæti það talist sanngjarnt. Þar sem framlögð gögn AE ehf. voru að nokkru leyti ófullkomin um fjárhæð leigu gámaleigufyrirtækja var fjárhæðin færð niður að álitum og var AE ehf. dæmt til að greiða F ehf. 1.500.000 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. október 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á henni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur lagt fram fyrir Hæstarétt sýnishorn af samningum sínum við erlenda gámaleigu, gjaldskrár íslenskra skipafélaga um gámaleigu og ljósrit samningsdraga milli stefnda fyrir hönd Skinnfisks ehf. og sín um flutningsþjónustu.

I.

Áfrýjandi er skipafélag sem tekur að sér flutning á varningi þar á meðal í gámum. Samkvæmt upplýsingum hans útvegar hann venjulega gáma sem hann tekur á leigu hjá erlendum gámaleigufyrirtækjum til slíks flutnings. Stefndi hefur aðallega með höndum rekstur flutningabifreiða. Í því máli sem hér um ræðir útvegaði hann nokkra gáma til þess að flytja dýrafóður með skipi áfrýjanda en Skinnfiskur ehf. hafði selt dönsku fyrirtæki, Dansk Pelsdyr Foder, þetta fóður. Afhending þess var við verksmiðjudyr hjá Skinnfiski ehf. og tók áfrýjandi að sér að flytja það þaðan til Esbjerg. Samdi hann við stefnda um að koma fóðrinu í gáma og að skipshlið. Í málinu liggur fyrir reikningur stefnda um slíkan flutning. Mestur hluti varningsins var fluttur með gámum sem áfrýjandi útvegaði en aðilar eru sammála um að einnig voru til þess notaðir nokkrir gámar frá stefnda. Aðila greinir á um hvort áfrýjandi eigi að greiða fyrir not þeirra. Reikningur stefnda fyrir gámaleiguna er frá 5. apríl 2006 en fram er komið að slitnað hafi upp úr viðskiptasamningi áfrýjanda við Dansk Pelsdyr Foder um tveimur árum fyrr þar sem danska fyrirtækið hafi ekki getað sætt sig við hækkun á flutningstöxtum áfrýjanda.

II.

Óumdeilt er að áfrýjandi notaði gáma frá stefnda við flutninga þá sem um getur í málinu og ekki er annað upplýst en að einhverjir þeirra hafi enn verið hjá áfrýjanda þegar stefndi gerði reikning sinn fyrir gámaleigunni. Þá mun áfrýjandi hafa tekið sama flutningsgjald hvort sem hann notaði gáma, sem hann útvegaði frá erlendum gámaleigufyrirtækjum, eða frá stefnda. Gámaleigusamningar munu oft vera gerðir til margra ára. Áfrýjandi hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við leigutímann sem uppgefinn er í reikningnum. Hefur hann ekki sannað að ekki hafi átt að greiða fyrir leigu gáma frá stefnda eins og fyrir aðra gáma sem hann notaði og leigði frá hefðbundnum gámaleigufyrirtækjum. Verður að fallast á með héraðsdómi að stefndi hafi ekki sýnt af sér slíkt tómlæti við reikningsgerð fyrir gámana að það hafi áhrif á kröfu hans. Ber að staðfesta héraðsdóm um að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða fyrir afnotin.

III.

Varakrafa áfrýjanda er á því reist að stefndi hafi einhliða ákveðið sér endurgjald fyrir gámaleiguna, sem sé mjög fjarri því sem gengur og gerist á almennum markaði. Fyrir Hæstarétt hefur hann, svo sem að framan greinir, lagt gögn um leigu fyrir afnot af gámum. Skip það sem áfrýjandi notaði til flutninganna var ekki frystiskip og þurfti því að flytja dýrafóðrið í frystigámum. Gámar þeir sem áfrýjandi hafði frá stefnda voru annars vegar 20 feta og hins vegar 40 feta. Í greinargerð fyrir Hæstarétti bendir áfrýjandi á að stefndi krefjist 4.627 króna á dag fyrir hvern 20 feta gám og 7.273 króna fyrir hvern 40 feta gám. Þessar fjárhæðir séu fjarri því sem tíðkist á leigumarkaði fyrir gáma. Í gjaldskrá hans, sem lögð er fyrir Hæstarétt, kemur fram að hann reiknar farmsamningshöfum 5.290 króna daggjald fyrir hvern 20 feta gám en 6.440 króna daggjald fyrir 40 feta gám. Þar kemur jafnframt fram að slíkt gámagjald reiknast á áttunda degi frá komu eða brottfarardegi skips. Heldur áfrýjandi því fram að gámaleiga skipafélaga sé almennt nokkuð há og mun hærri en skipafélögin sjálf greiði til gámaeigenda. Sé þetta gert til þess að hvetja viðskiptavini til að losa sig við gámana sem fyrst. Slík gámaleiga sé ekki hugsuð sem langtímaleiga heldur einhverskonar refsileiga enda sé aðeins kostnaður við hæfilega gámaleigu vegna ferðar reiknaður inn í flutningsgjaldið. Skipafélögum sé því mikið í mun að geta tekið gáma til notkunar sem fyrst fyrir næsta viðskiptavin. Áfrýjandi heldur því fram að sambærileg ákvæði séu í gildi hjá samkeppnisaðilum sínum. Fyrir samskonar gáma kveðst áfrýjandi hins vegar greiða gámaleiguaðilum miklu lægra gjald eða um það bil sex dollara fyrir 20 feta frystigám og átta og hálfan dollara daggjald fyrir 40 feta frystigám. Vitnið Eggert Kjartansson, sem hefur atvinnu af þeirri tegund flutninga sem hér um ræðir, telur að frystigámar séu leigðir á allt frá sex til tíu dollurum á dag sé um langtímaleigu að ræða allt eftir ástandi gámanna. Sé um skammtíma leigu að ræða og óreglulega leigu geti þetta farið allt upp í áttatíu, nítíu dollara á dag. Hann heldur því fram að eðlilega hefði verið gerður langtímasamningur um leigu áfrýjanda á gámum stefnda, en af hálfu stefnda er því haldið fram að Eggert, sem hann leiddi fyrir réttinn, hafi átt þátt í því að munnlegur samningur komst á um gámaleiguna.

IV.

Stefndi hefur ekki lagt fram haldbær gögn til styrktar fjárhæð þeirri sem hann reiknar sér fyrir gámaleiguna. Eins og að framan greinir verður við það að miða að hann komi fram sem gámaleigufyrirtæki enda þótt sú starfsemi sé ekki venjulegur hluti af starfsemi hans. Af framangreindum skjölum sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt og tilvitnuðum skýrslum er fram komið að endurgjald það sem stefndi hefur reiknað sér í viðskiptum aðila fyrir gámaleiguna er mun hærra en tíðkast í sambærilegum viðskiptum. Með hliðsjón af reglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjarkaup ber hér að miða við einingarverð, sambærilegt við það sem tíðkast í slíkum viðskiptum, enda geti það talist sanngjarnt. Reikningur stefnda verður því færður verulega niður. Þar sem framlögð gögn eru hins vegar að nokkru leyti ófullkomin um fjárhæð leigu gámaleigufyrirtækja er fjárhæðin færð niður nokkuð að álitum. Samkvæmt þessu ber áfrýjanda að greiða stefnda 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í héraðsdómi greinir en upphafsdegi þeirra hefur ekki verið sérstaklega mótmælt.

Þau gögn sem áfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt gat hann lagt fyrir héraðsdóm en það var mun auðveldara fyrir hann en stefnda sem hann vissi að hafði ekki gámaleigu sem hluta af venjulegum rekstri sínum. Verður því málskostnaðarfjárhæð héraðsdóms staðfest og áfrýjandi dæmdur til greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Atlantsskip-Evrópa ehf., greiði stefnda, Fiskfragt ehf., 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2006 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Fiskfrakt ehf., Steinhellu 1, Hafnarfirði, gegn Atlantsskipum-Evrópu ehf., Vesturvör 29, Kópavogi, með stefnu birtri 14. nóvember 2006.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.111.626 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 5. apríl 2006 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi þess í báðum tilvikum að honum verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

II.

Aðila málsins greinir á um málavexti. Í stefnu kveðst stefnandi hafa leigt stefnda hefðbundna gáma og frystigáma á árunum 2003 og 2004. Stefndi hafi tekið alls 12 gáma á leigu hjá stefnanda og hafi hann notað þá í starfsemi sinni sem sé rekstur skipa, flutningastarfsemi og önnur skyld starfsemi. Nánar tiltekið sé um eftirfarandi gáma, tímabil og einingaverð að ræða:

1.           Leiga stefnda á sjö 20 feta gámum í eigu stefnanda á tímabilinu frá 12.10.2003 til 18.07.2004 eða alls í 248 sólarhringa. Gámanúmer hinna leigðu gáma: nr. XXXX 265285-5, 265260-2, 265250-0, 265246-0, 265244-9, 265231-0, 265290-0.

Einingaverð pr. sólarhring fyrir hvern gám kr. 3.716.

2.           Leiga stefnda á fimm 40 feta frystigámum í eigu stefnanda á tímabilinu frá 31.01.2004 til 26.02.2004 eða í 26 sólarhringa. Gámanúmer hinna leigðu gáma: ITLU 747979-6, 747719-2, 747782-3, 747978-6, 747781-3. Einingaverð per sólarhring fyrir hvern gám kr. 5.842.

3.           Leiga stefnda á þremur 40 feta frystigámum í eigu stefnanda á tímabilinu frá 28.02.2004 til 23.03.2004 eða í 24 sólarhringa. Gámanúmer hinna leigðu gáma: ITLU 747979-6, 747978-6, 747781-3. Einingaverð per sólarhring fyrir hvern gám kr. 5.842.

4.           Leiga stefnda á þremur 40 feta frystigámum í eigu stefnanda á tímabilinu frá 12.04.2004 til 11.05.2004 eða í 28 sólarhringa. Gámanúmer hinna leigðu gáma: ITLU 747979-6, 747978-6, 747781-3. Einingaverð per sólarhring fyrir hvern gám kr. 5.842.

 

Stefnandi gaf út reikning á hendur stefnda fyrir framangreindri leigu 5. apríl 2006 en stefndi hafnaði greiðsluskyldu og endursendi stefnanda reikninginn með áritun þar um.

 

Málavextir horfa á annan veg við stefnda. Hann lýsir því í greinargerð að hann reki kaupskipaútgerð og séu kaup og leiga á gámum hluti slíks rekstrar. Fyrirtækið Skinnfiskur ehf. hafi viljað flytja út verðlítinn fiskúrgang með skipum stefnda. Gámarnir hafi verið leigðir af Skinnfiski ehf. en fluttir með skipum stefnda. Í sparnaðarskyni hefði verið farin sú leið að af hálfu Skinnfisks ehf. að búa til pallettur úr fiskúrgangi með frystingu og hefðu vörur verið settar á slíkar pallettur til að fullnýta plássið í gámunum. Stefnandi hefði hins vegar enga samninga gert við stefnda um fyrirkomulag gáma í eigu stefnanda utan þess að stefndi hefði haft einhliða heimild til að notfæra sér frystigáma á vegum stefnanda á leiðinni frá Danmörku til Íslands, ef það hentaði stefnda. Hefði það fyrirkomulag verið viðhaft til þess að stefndi rukkaði ekki stefnanda um flutning tómra gáma á siglingaleiðinni og til hagsbóta fyrir Skinnfisk ehf. og stefnanda.

 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi leigt stefnda framangreinda gáma til notkunar í starfsemi stefnda á framangreindum tímabilum og einingaverðum. Stefndi hefði sannanlega notað gámana eins og sjá megi á gögnum málsins. Á framlögðu skjali sem beri yfirskriftina „Container loading list“ sé að finna númer viðkomandi gáms, stærð hans, hvað í honum sé, dagsetningu, útflutningshöfn, skip á vegum stefnda og heildarþyngd. Listarnir stafi frá Skinnfiski ehf. en stefndi hafi séð um flutning á vörum þess til Danmerkur um tíma og hefði stefndi m.a. við þann flutning notað framangreinda gáma sem stefndi leigði af stefnanda ásamt öðrum gámum. Skinnfiskur ehf. hefði sent móttakanda vörunnar þessar innihaldslýsingar gáma, sem stefndi hefði síðan séð um flutning á.

Aðgangur að slíkum listum sé að öllu jöfnu takmarkaður við sendanda, móttakanda, flytjanda og tollayfirvöld en stefnandi hafi hins vegar fengið heimild frá Skinnfiski ehf. til þess að nota listana í máli þessu og þá hafi forsvarsmaður Skinnfisks ehf. lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til þess að koma fyrir dóm til að staðfesta að áðurnefndur „Container loading list“ stafi frá Skinnfiski ehf. vegna útflutnings á framleiðsluvörum þess af hálfu stefnda í gámum þeim sem tilgreindir eru á dómskjalinu. Gámar í eigu stefnanda, sem notaðir hafi verið af hálfu stefnda vegna útflutnings á vörum Skinnfisks ehf., séu skýrlega merktir á þessum listum og byggir stefnandi á því að stefndi hafi tekið framangreinda gáma á leigu hjá sér á tilgreindum tímabilum.

 

Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína samkvæmt reikningi þannig:

 

Sjö 20 feta gámar frá 12.10.2003-18.07.2004

248x7x3.716:                                                                    kr.  6.450.976

Fimm 40 feta gámar frá 31.01.2004-26.02.2004

26x5x5.842                                                                       kr.     759.460

Þrír 40 feta gámar frá 28.02.2004-23.03.2004

24x7x5.842                                                                       kr.     420.624

Þrír 40 feta gámar frá 12.04.2004-11.05.204

28x3x5.842                                                                       kr.     490.728

Samtals án virðisaukaskatts                                                     kr.  8.121.788

Virðisaukaskattur 24,5%                                                            kr.  1.989.838

Samtals með virðisaukaskatti                                                     kr. 10.111.626

 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efnir fjárskuldbindinga en sú meginregla fái m.a. lagastoð í ákvæðum 45., 47. og 54. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi til meginreglu 49. gr. sömu laga. Þá vísar hann til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefnandi byggir kröfu sína um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Um varnarþing vísar stefnandi til ákvæða 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti enda eigi hann ekki í neinu samningssambandi við stefnanda í máli þessu. Stefndi reki kaupskipaútgerð og hluti slíks rekstrar séu kaup og leiga á gámum auk reksturs flutningaskipa. Um sé að ræða talsverð viðskipti hjá stefnda með gáma og vegna gámaleigu en stefndi geri alltaf skriflega samninga um þau viðskipti eða hafi heimildir til að nýta gáma með framleigu til farmkaupa vegna gáma sem ekki séu í eigu stefnda og stefndi hafi tekið að sér greiðsluskyldu á gagnvart gámaeiganda. Samningstími stefnda við gámaeigendur vegna gáma sé frá skammtímasamningum allt upp í 7 ára samninga. Í þessum samningum sé kveðið á um kaup og kjör vegna gámaleigunnar og séu ávallt gerðir sérstakir samningar um gámaleigu stefnda af gámaeigendum, hvor tveggja með hagsmuni stefnda og gámaeigenda að leiðarljósi enda sé um veruleg verðmæti að tefla þar sem þurrgámar kosti frá USD 10.000 og frystigámar frá USD 30.000-40.000.

Stefndi hafi enga samninga gert við stefnanda um fyrirkomulag gáma í eigu stefnanda, ef frá er talið að stefndi hefði haft einhliða heimild til þess að notfæra sér frystigáma á vegum stefnanda á leiðinni frá Danmörku til Íslands ef það hentaði stefnda. Hefði það fyrirkomulag komist á til þess að stefndi rukkaði ekki stefnanda um flutning tómra gáma á siglingaleiðinni og til hagsbóta fyrir fyrirtækið Skinnfisk ehf. og stefnanda. Hefðu gámarnir verið leigðir af Skinnfiski ehf. en fluttir með skipum stefnda. Miðað við þau kaup og kjör sem stefndi hefði getað boðið Skinnfiski ehf. hefði verið einsýnt að stefndi setti það skilyrði að Skinnfiskur ehf. yrði að sjá um að útvega þá gáma sem nýttir yrðu til flutninganna. Um væri að ræða svo kallaða „Shipper´s Own“ gáma sem þýddi að flutningsaðilinn á ekki gámana sem hann flytur heldur eru þeir á vegum farmkaupa. Ekki séu gerðir sérstakir samningar við stefnda eða skipaútgerðir almennt þar sem það er sendandinn/farmkaupi sem hagnist á því að hann eigi sjálfur gámana, eða leigi sjálfur af þriðja aðila, og þeir séu nýttir í flutningum hans. Gámarnir komi því flutningsaðila, stefnda í þessu tilviki, ekki við á annan hátt en þann að þeir hefðu verið settir um borð í skip stefnda og fluttir með þeim. Stefndi hefði hins vegar ekki útvegað Skinnfiski ehf. gámana og heimti ekki gámaleigu af fyrirtækinu vegna þeirra. Það hafi því hvorki verið áður né sé nú til staðar samningssamband milli stefnanda og stefnda.

Ef stefnandi telji sig eiga kröfur fyrir sérstaka gámaleigu fyrir þá gáma, sem tilteknir eru í stefnu, beri honum að beina málssókn sinni að Skinnfiski ehf., viðskiptamanni sínum, en ekki stefnda. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því að um réttarsamband milli aðila sé að ræða. Hins vegar liggi fyrir að stefnandi virðist afhenda viðskiptamanni sínum, Skinnfiski ehf., gámana 12. október 2003 en Skinnfiskur ehf. afhendi ekki gámana til skipaflutnings fyrr en með ferð 21. október 2003. Virðist því sem stefndi hafi látið leigutaka gámanna, Skinnfiski ehf., í té vörslur þeirra við upphaf leigutíma milli þeirra aðila þann 12. október 2003.

Af hálfu stefnda er einnig bent á að hin ætluðu viðskipti séu sögð hafa átt sér stað á árunum 2003 og 2004 en reikningur vegna þeirra hafi hins vegar ekki verið gefinn út fyrr en á árinu 2006. Tómlæti þetta sýni með óyggjandi hætti að stefnandi hafi aldrei talið sig geta átt kröfu til greiðslu vegna gámaleigu úr hendi stefnda.

Varakröfu sína um að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar byggir stefndi á því að stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á hugsanlega notkun stefnda á gámunum í öðrum ferðum en þeim sem getið er um á dómskjali nr. 5 en þar komi fram þær ferðir sem gámar stefnanda voru notaðir af Skinnfiski. ehf. í siglingum með stefnda. Liggi ekkert fyrir um það af hálfu stefnda að hann hafi ekki haft aðrar tekjur af gámunum á meðan og þá hverjar þær tekjur hafi verið.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við ákvæði 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

V.

Ágreiningur er með aðilum um það hvort stefnda beri að greiða stefnanda samkvæmt framlögðum reikningi vegna gámaleigu. Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðildarskorti þar sem ekkert samningssamband sé milli aðila enda hafi hann ekki tekið umrædda gáma á leigu hjá stefnanda. Stefndi kveðst hafa flutt gámana fyrir Skinnfisk ehf. með því skilyrði að Skinnfiskur ehf. útvegaði sjálft þá gáma sem nýttir yrðu til flutningsins, þ.e. um yrði að ræða svonefnda „Shipper´s Own“ gáma.

Eyjólfur Unnar Eyjólfsson, eigandi og framkvæmdastjóri stefnanda, sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins að komist hefði á munnlegur samningur milli aðila um að stefndi tæki á leigu tilgreinda gáma í eigu stefnanda og greiddi „eðlilega“ leigu fyrir þá. Jafnframt hefði verið talað um að stefndi myndi að endingu kaupa gámana þegar hann hefði peninga til þess. Sagði Eyjólfur Unnar ekki rétt að samið hefði verið um svonefnda „Shipper´s Own“ gáma. Viðstaddir samningsgerðina hefðu verið auk hans Ari Leifsson hjá Skinnfiski ehf. og af hálfu stefnda þeir Eggert H. Kjartansson og Guðmundur Kjærnested þáverandi fyrirsvarsmanns stefnda. Aðspurður neitaði Eyjólfur Unnar því sem fram er komið hjá stefnda um að stefndi hefði haft einhliða heimild til þess að flyja vörur í gámunum endurgjaldslaust.

Framburður Eyjólfs Unnars fær stoð í vætti vitnisins Eggerts H. Kjartanssonar sem starfaði að útflutningsmálum fyrir stefnda á umræddum tíma. Eggert kvaðst hafa samið um gámaleigu við stefnanda fyrir hönd stefnda en Eyjólfur Unnar hefði komið að samningnum fyrir hönd stefnanda. Hefði verið ætlunin að nota 20 feta gáma en þar sem það hefði tekið langan tíma að útvega þá, hefði stefnandi einnig fengið sér 40 feta gáma í verkefnið. Ekki hefði verið samið um ákveðið verð heldur hefði verið rætt um að eðlilegt endurgjald. Kannaðist vitnið ekki við það að sett hefði verið það skilyrði af hálfu stefnda að um „Shipper´s Own“ gáma yrði að ræða. Þá bar Eggert á þann veg að umræddir gámar hefðu fyrst verið notað til flutninga fyrir Dansk Pelsdyr foder en síðan hefði stefndi notað þá í annað. 

Vitnið Ari Leifsson, fyrirsvarsmaður Skinnfisks ehf., kom fyrir dóminn og kannaðist við að hafa mætt á einn eða tvo fundi um gámaleigu milli aðila þessa máls. Kvaðst hann hafa mætt á fundina sem fulltrúi Dansk Pelsdyr foder. Stefndi hefði falast eftir gámum og hefði verið samið um að greitt skyldi sanngjarnt verð fyrir leiguna. Kvað vitnið stefnda aldrei hafa sett það skilyrði að Skinnfiskur ehf. útvegaði gáma til flutningsins. Þá kannaðist vitnið ekki við að samið hefði verið um svonefnda „Shipper´s Own“ gáma.

Gunnar Bachmann, sem verið hefur framkvæmdastjóri stefnda frá því í nóvember 2004, kvaðst ekki hafa verið viðstaddur samningsgerð við stefnanda um gámaleigu frá stefnanda. Kvað hann alla gámaleigusamninga stefnanda vera skriflega og einungis hann einn mætti undirrita slíka samninga. Fram kom hjá Gunnari að Eggert H. Kristjánsson, þáverandi starfsmaður stefnda, hefði viljað bjóða Skinnfiski ehf. flutninga á hagstæðum kjörum á verði sem væri almennt notað þegar um svonefnda „Shipper´s Own“ gáma væri að ræða og því hefði orðið að samkomulagi að Skinnfiskur ehf., stefndi eða Dansk Pelsdyr foder útvegaði gámana. Vitnið kvaðst vita til þess að um ódýra gáma hefði verið að ræða. Kvað Gunnar leiguverð, sem stefnandi miðaði við við reikningsgerð í máli þessu, vera allt of hátt enda myndi slík verðlagning leiða til þess að sjófragtstekjur farmflytjanda næmu lægri fjárhæð en hann greiddi fyrir gámaleigu. Taldi hann útgáfu umstefnds reiknings vera hefndaraðgerð af hálfu stefnanda vegna fyrri viðskipta aðila.

Þegar litið er til framburðar Eyjólfs Unnars og vættis þeirra Ara og Eggerts hér fyrir dóminum um að komist hafi á munnlegur samningur milli aðila þessa máls um leigu á umræddum gámum og að samið hafi verið um að stefndi greiddi fyrir leiguna eðlilegt eða sanngjarnt endurgjald án þess að það væri tilgreint nánar, og með hliðsjón af því að enginn þeirra hefur kannast við að um svonefnda „Shipper´s Own“ gáma hafi verið að ræða, verður að telja sannað að um gámaleigu hafi samist milli aðila málsins með þeim hætti sem þeir hafa lýst. Frásögn framangreindra manna er samhljóða varðandi það sem hér skiptir mestu máli og verður ekki á það fallist með stefnda að óskilgreindur ágreiningur við starfslok vitnisins Eggerts hjá stefnda kasti slíkri rýrð á sannleiksgildi vitnisburðar hans að ekki verði tekið mark á honum. Þá hefur stefndi ekki leitt þær líkur að því að framburðir þeirra Eyjólfs Unnars og Ara séu sprottnir af hefndarhug til að á því verði byggt.

Umrædd viðskipti aðila fóru fram á árunum 2003 og 2004 en reikningur stefnanda vegna þeirra er dagsettur 5. apríl 2006. Þegar litið er til framburðar Eyjólfs Unnars um að stefnandi hefði gert ráð fyrir því að stefndi keypti umrædda gáma þegar hann hefði til þess fjárhagslegt bolmagn, verður ekki fallist á það með stefnda að sá tími sem leið frá því að viðskipti aðila áttu sér stað og þar til reikningurinn var gefinn út, bendi eindregið til þess að stefnandi hafi ekki talið sig eiga kröfu til greiðslu fyrir gámaleigu úr hendi stefnda. Þá verður ekki talið að um slíkt tómlæti stefnanda sé að ræða að það hafi áhrif á niðurstöðu málsins.

Af hálfu stefnda er á því byggt að umstefnd leigufjárhæð sé alltof há og úr takti við það sem tíðkist í slíkum viðskiptum. Eins og áður er rakið hafa fyrirsvarsmaður stefnanda og vitnin Ari og Eggert borið að stefndi hafi átt að greiða eðlilegt eða sanngjarnt endurgjald fyrir gámaleiguna. Kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnanda, Eyjólfi Unnari, að hann miðaði leiguverðið við það verð sem stefndi leigði Samskipum gáma á. Af hálfu stefnda hafa verið leiddar ákveðnar líkur að því, m.a. með framburði Gunnars, fyrirsvarsmanns stefnda, og vitnisins Kristjáns Jóns Guðmundssonar, starfsmanns stefnda, að það verð sem stefnandi hefur miðað við við reikningsgerð í málinu sé hærra en það sem tíðkast í slíkum viðskiptum. Hins vegar hefur stefndi ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings andmælum sínum. Þá hefur stefndi ekki fært fyrir því haldbær rök að leigutíminn hafi verið annar en stefnandi tilgreinir og er í samræmi við gögn málsins. Að þessu virtu, sem og með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar sem meðal annars kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, þykir verða að fallast á framkomna kröfu stefnanda um greiðslu vegna gámaleigu eins og hún er fram sett. Er varakröfu stefnda um lækkun á fjárhæð stefnukröfu því hafnað. 

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til ákvæða 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 290.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, Atlantsskip-Evrópa ehf., greiði stefnanda, Fiskfrakt ehf., 10.111.626 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 5. apríl 2006 til greiðsludags.

 

Stefndi greiði stefnanda 290.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.