Hæstiréttur íslands

Mál nr. 305/2016

Liberty International Scandinavia ApS (Björn Þorri Viktorsson hrl.)
gegn
LB ferðum slf. (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Lykilorð

  • Verksamningur

Reifun

LB slf. höfðaði mál til greiðslu reikninga vegna nánar tilgreindrar þjónustu sem félagið kvaðst hafa látið L í té á árunum 2012 og 2013. L bar því við að LB slf. væri ekki réttur aðili að málinu þar sem hann hefði leitað til LL til að sinna þjónustunni. Með vísan til tölvubréfa milli L og LL og að það hefði staðið L nær að hlutast til um gerð skriflegs samnings var málsástæðu L um aðildarskort LB slf. hafnað. Þá var talið að L hefði hvorki hnekkt staðhæfingu LB sfl. um fjölda vinnustunda né að endurgjaldið sem félagið krafðist hafi talist sanngjarnt miðað við atvik, sbr. þá meginreglu fjármunaréttar sem fram kæmi í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Var því fallist á kröfu LB slf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2016, en áfrýjunarstefna barst réttinum 19. sama mánaðar. Áfrýjanda hefur verið veitt áfrýjunarleyfi, sbr. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi sækir stefndi með máli þessu áfrýjanda til greiðslu reikninga, sem voru dagsettir 12. apríl og 4. júní 2013 og gerðir vegna nánar tilgreindrar þjónustu, sem stefndi kveðst hafa látið áfrýjanda í té á árunum 2012 og 2013. Áfrýjandi ber meðal annars fyrir sig að stefndi sé ekki réttur aðili til að hafa uppi kröfu á hendur sér um greiðslu fyrir þessa þjónustu, því um hana hafi hann leitað til Laufeyjar Lindu Harðardóttur, en ekki til stefnda. Eftir gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að Laufey Linda hafi verið starfsmaður stefnda, svo og að áfrýjanda hafi ekki getað dulist, meðal annars í ljósi tölvubréfa sem fóru milli þeirra, að hún hafi komið fram sem slík gagnvart honum. Fyrir dómi bar Laufey Linda að hún hafi ítrekað gengið eftir því við áfrýjanda að gerður yrði skriflegur samningur um þessa þjónustu, sem hann hafi ekki orðið við. Fær þetta jafnframt stuðning í vitnisburði manns, sem á umræddum tíma var einn af eigendum áfrýjanda og hafði komið fram á fyrstu stigum af hans hálfu í samskiptum við Laufeyju Lindu. Með því að áfrýjanda hafi að þessu virtu mátt standa nær að hlutast til um gerð skriflegs samnings verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að hafna málsástæðu áfrýjanda um aðildarskort stefnda.

Gögn málsins bera ekki annað með sér en að Laufey Linda hafi lagt af mörkum talsverða vinnu til að veita áfrýjanda þá þjónustu, sem deilt er um í málinu, en aðilarnir eru ekki á einu máli um hvort eða hvernig samið hafi verið munnlega um hvað greiða ætti fyrir slík störf. Áfrýjandi lét sem áður segir hjá líða að verða við ósk um að gera skriflegan samning, þar sem taka hefði mátt af tvímæli um þetta. Hann hefur hvorki hnekkt staðhæfingum stefnda um fjölda vinnustunda, sem varið hafi verið í þessu skyni, né að endurgjaldið, sem stefndi krefst fyrir þær, megi teljast sanngjarnt miðað við atvik, sbr. þá meginreglu fjármunaréttar sem fram kemur í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hinn áfrýjaði dómur verður að þessu virtu staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Liberty International Scandinavia ApS, greiði stefnda, LB ferðum slf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2016.

                Mál þetta höfðaði LB ferðir slf., Álfkonuhvarfi 55, Kópavogi, með stefnu birtri 23. júní 2014, á hendur Liberty International Scandinavia ApS, Falkoner Alle 75, Frederiksberg, Danmörku.  Málið var dæmt sem útvistarmál 24. október 2014, en var endurupptekið 27. febrúar 2015 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. desember sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 8.298.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 2.560.000 krónum frá 12. apríl 2013 til greiðsludags og af kr. 5.738.000 krónum frá 4. júní 2013 til greiðsludags. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

                Í stefnu var gerð skaðabótakrafa, en þeirri kröfu var vísað frá dómi er málið var dæmt hið fyrra sinnið 24. október 2014. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar. 

                Stefndi krafðist frávísunar í greinargerð sinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 18. júní 2015. 

                Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu reikninga vegna vinnu sinnar í þágu stefnda og annars kostnaðar sem hann hafi lagt út.  Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og Laufey Linda Harðar­dóttir, starfsmaður stefnanda.  Þá gáfu skýrslur Peer Kjaer, framkvæmdastjóri stefnda, og Claus Michael Holm, fyrrum meðeigandi hans að stefnda. 

                Fram kom í skýrslunum að í kjölfar fundar á ferðakaupstefnu í Frankfurt hafi Claus Michael Holm og Laufey Linda rætt um að hún tæki að sér verkefni fyrir stefnda hér á landi.  Aðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning, en Peer Kjaer lýsti afstöðu fyrirtækis síns þannig að það prófaði fyrst í hálft til eitt og hálft ár að þróa samvinnu við aðila, áður en gerður væri samningur.  Sagði hann að þetta hefði verð sameiginlegur samningur stefnda og Laufeyjar Lindu um að koma á viðskipta­sambandi á Íslandi.  Það hefði ekki verið samið um ákveðið tímagjald, þeir semdu aldrei um tímagjald.  Hagnaður af viðskiptunum hefði átt að skiptast jafnt á milli þeirra.  Laufey sagði að samið hefði verið um tvenns konar tímagjald.  Annars vegar 4.000 krónur þegar unnið væri að könnun á hugsanlegum ferðum, en 10.000 krónur þegar unnin væri endanleg áætlun um komu hópa sem hefðu verið staðfestir.  Sú vinna hefði verið mun erfiðari og byggst á sérkunnáttu. 

                Bæði Peer Kjaer og Claus Michael Holm sögðu fyrir dómi að þeir hefðu átt viðskipti við Laufeyju Lindu Harðardóttur, en ekki við stefnanda, LB ferðir slf.  Laufey Linda Harðardóttir sagði að hún hefði skilið Claus þannig í byrjun að þeir vildu að fyrirtækið væri aðili að viðskiptunum, en ekki hún sjálf.  Bjarni Guðmundsson hélt því fram að samkomulag hefði verið um að hún ynni í nafni stefnanda.  Var Laufey Linda á launum hjá stefnanda, en fljótlega eftir að samvinna aðila hófst sagði hún upp fyrra starfi hjá Kynnisferðum.  Ekki hafa verið lögð fram gögn um fyrirtækið LB ferðir, en Laufey og Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri, eru hjón.  Sagði Laufey einnig fyrir dómi að hún hefði notað nafn stefnanda í við­skiptunum af því að hann hefði haft samning við birgja. 

                Þegar stefndi sagði samstarfi aðila upp gerði hann það með bréfi til Laufeyjar Lindu.  Sjá má af texta bréfsins að stefnda var kunnugt um að starfsemin hefði að ein­hverju leyti farið fram í nafni stefnanda. 

                Stefnukrafa er annars vegar samkvæmt fimm reikningum.  Claus Michael Holm kvaðst kannast við alla þessa reikninga.  Hann vissi hins vegar ekki mikið um þá eða hvort þeir væru réttmætir.  Hann tók fram að Laufey Linda ætti eftir að fá greidd umboðslaun vegna undirbúnings fyrir komu starfsmanna Toyota (reikn. nr. 48). 

                Laufey Linda sagði að ekki hefði gengið neitt að fá stefnda til þess að ganga frá endanlegum samningi.  Þegar þeir hefðu síðan sagt samstarfinu upp hefði hún skrifað reikninga fyrir þá vinnu sem hún var búin að inna af hendi.  Forsvarsmaður stefnda tjáði sig ekki sérstaklega um einstaka reikninga. 

                Reikningarnir eru þessir: 

                Reikningur nr. 16, útgefinn 12. apríl 2013, á eindaga 19. apríl, samtals að fjár­hæð 2.560.000 krónur.  Reikningurinn er sagður vera fyrir vinnu sem innt var af hendi frá 21. júlí 2012 til 31. mars 2013. 

                Reikningur nr. 48, útgefinn 4. júní 2013, á eindaga 6. júní 2013, samtals að fjárhæð 3.030.000 krónur.  Reikningurinn er sagður vera fyrir vinnu við komu yfir­manna Toyota frá 31. maí 2013 til 3. júní 2013. 

                Reikningur nr. 49, útgefinn 4. júní 2013, á eindaga 6. júní 2013, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur.  Reikningurinn er sagður vera vegna útlagðs kostnaðar við skrifstofuhald, tölvubúnað, alnet, síma, flutninga, gerð markaðsefnis og viðskipta­vildar.  Um þennan reikning sagði Laufey fyrir dómi að hún hefði skilið samtöl þeirra svo að þeir vildu að hún setti upp skrifstofu hér á landi.  Hún hefði unnið þetta á skrifstofu stefnanda. 

                Reikningur nr. 50, útgefinn 4. júní 2013, á eindaga 6. júní 2013, samtals að fjárhæð 1.172.000 krónur.  Reikningurinn er sagður vera vegna kynningarferðar fyrir starfsmenn stefnda og útlagðs kostnaðar vegna ferðarinnar, sem haldin hafi verið frá 9. til 12. nóvember 2012. 

                Reikningur nr. 51, útgefinn 4. júní 2013, á eindaga 6. júní 2013, samtals að fjárhæð 36.000 krónur. Reikningurinn sé vegna sýnishorna af gjöfum fyrir yfirmenn Toyota, auk sendingarkostnaðar. 

                Með bréfi, dagsettu 3. júlí 2013, skoraði stefnandi á stefnda að ganga frá greiðslum.  Stefndi svaraði með bréfi, dags. 22. júlí 2013, þar sem hann vildi ekki kannast við fyrirtækið, en kvaðst hafa átt samskipti og gert samninga við Laufeyju Lindu Harðardóttur. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að viðskiptasamband hafi komist á milli aðila.  Í upp­sagnarbréfi stefnda, dags. 16. maí 2013, felist viðurkenning á því. 

                Stefnandi kveðst hafa lagt af mörkum mikla vinnu í þágu stefnda á grundvelli þessa viðskiptasambands, án þess að hafa fengið greitt fyrir þá vinnu svo sem honum hafi borið.  Stefndi hafi blekkt sig til samstarfs og fengið stefnanda til að vinna fyrir sig og nýtt sér virk viðskiptatengsl, án þess þó að nokkurn tímann hafi staðið til að greiða fyrir það, nema ef til vill að litlu leyti.  Þá liggi fyrir að stefndi hafi gengið inn í viðskiptatengsl stefnanda og notast við vinnuframlag stefnanda við framkvæmd og skipulagningu ferða, án þess að greiða fyrir.  Stefndi hafi viðurkennt að sér beri að greiða fyrir vinnuna og hafi hann í því sambandi boðið 3.500 evrur, sem hrökkvi skammt sem endurgjald fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi. Boðinu hafi verið hafnað. 

                Stefnandi byggir kröfu sína á fimmum reikningum sem raktir voru hér að framan.  Kröfur samkvæmt þeim nema samtals 8.298.000 krónum án vaxta og kostnaðar.  Þær hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og fyrir liggi að hið stefnda félag telji að sér beri ekki að greiða fyrir þá þjónustu sem stefnandi hafi veitt nema að litlu leyti. 

                Þá hafi stefndi reynt að gera lítið úr starfsmanni stefnanda, haldið á lofti ósönnum fullyrðingum og rökleysu og færst þannig í flæmingi undan greiðslu.  Stefndi hafi raunar gengið svo langt að bera fyrir sig minnisleysi um atvik og aðstæður og dregið tilvist stefnanda í efa.  Jafnframt hafi stefndi hótað málssóknum vegna notkunar stefnanda á vörumerki stefnda, þrátt fyrir að fyrir liggi skrifleg beiðni stefnda um að stefnandi notaði vörumerki hans og kæmi fram undir því gagnvart þriðja manni.  Viðbrögð og háttsemi stefnda hafi verið furðuleg og ómálefnaleg eftir að upp úr samstarfinu slitnaði og því sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál til inn­heimtu krafnanna og leiða þannig málið til lykta fyrir dómstólum. 

                Stefnandi segir mál þetta vera höfðað á Íslandi.  Um sé að ræða viðskipta­samband og samkomulag sem komst á hér á landi við íslenskan aðila um vinnu og þjónustu sem veitt væri og efna skyldi hér á landi.  Stefnandi hafi gefið út reikninga fyrir vinnunni og hafi móttökustaður greiðslu verið Arion banki, aðalútibú í Reykja­vík.  Um efndir samninga skuli því fara eftir íslenskum lögum. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi segir að seint á árinu 2012 hafi hann komist í kynni við Laufeyju Lindu Harðardóttur og úr hafi orðið að hún myndi í tilraunaskyni starfa sjálfstætt sem fulltrúi stefnda hér á landi.  Vísar hann til þess að í tölvupósti frá 4. apríl 2013 hafi verið tekið skýrt fram að ekkert viðskiptasamband væri á milli stefnda og stefnanda.  Þar hafi einnig verið tekið fram að Laufey Linda þyrfti að fá samþykki stefnda áður en stofnað yrði til kostnaðar, þ.m.t. skrifstofukostnaðar. 

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti.  Hann hafi verið í viðskipta­sambandi við Laufeyju Lindu Harðardóttur, ekki við stefnanda.  Ekkert styðji þá fullyrðingu að Laufey hafi komið fram fyrir hönd stefnanda.  Aðild stefnanda sé ósönnuð. 

                Verði fallist á að stefnandi eigi aðild að málinu byggir stefndi á því að kröfur hans séu ósannaðar.  Ekki sé sýnt fram á að framlagðir reikningar séu fyrir vinnu í þágu stefnda eða að hann hafi heimilað fjárútlát í sína þágu. 

                Varðandi reikning nr. 16 segir stefndi að ekki sé skýrt út hvaða vinna hafi verið unnin og á hvaða tímabilum.  Vísað sé til einhvers samnings, en enginn samningur sé lagður fram.  Verði að hafna þessum kröfulið. 

                Um reikning nr. 48 segir stefndi að tímagjald hafi hér allt í einu hækkað úr 4.000 krónum í 10.000.  Hér sé krafið um greiðslu fyrir mjög marga tíma, en það sé ekki rökstutt með öðru en því að verkefnið hafi verið umfangsmikið.  Verði að hafna þessum kröfulið. 

                Stefndi mótmælir reikningi nr. 49 vegna kostnaðar við skrifstofuhald o.fl.  Hann sé órökstuddur og ósannaður.  Ekki liggi fyrir að stefndi hafi samþykkt að lagt yrði út í þennan kostnað.  Viðræður um formlegt samstarf stefnda og Laufeyjar Lindu hafi ekki verið komnar á það stig að stefndi geti verið skuldbundinn til greiðslu þessa kostnaðar.  Verði því að hafna þessum lið. 

                Stefndi segir að ekki sé sýnt fram á grundvöll fyrir reikningi nr. 50.  Tíma­gjaldið 10.000 krónur veki sérstaka athygli, en það sé ekki skýrt út.  Hér sé krafist greiðslu fyrir vinnu sem hafi verið unnin á sama tíma og vinna sem lýst sé í reikningi nr. 16, en þar sé tímagjald 4.000 krónur. 

                Þá segir stefndi að reikningur nr. 51 sé órökstuddur og ósannað sé að stefnda beri að greiða hann. 

                Stefndi bendir á að stefnandi innheimti ekki virðisaukaskatt þrátt fyrir að vera skyldur til þess. 

                Um varakröfu sína vísar stefndi til sömu málsástæðna og raktar hafa verið hér að framan. 

                Niðurstaða

                Aðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning, þrátt fyrir að stefndi hefði falið stefnanda eða Laufeyju Lindu Harðardóttur ýmis verkefni.  Samband þeirra byggði því á munnlegu samkomulagi.  Hvorki stefnandi né stefndi hafa í raun sannað nokkur efnisatriði samkomulagsins nema hvað ljóst er að stefnandi fól stefnanda eða Laufeyju Lindu ýmis verkefni.  Á hún eða stefnandi kröfu á greiðslu hæfilegrar þóknunar fyrir vinnu sem unnin var að beiðni og fyrir stefnda. 

                Stefndi heldur því fram að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins, hann hafi falið Laufeyju Lindu að vinna fyrir sig.  Laufey Linda var ekki ráðin sem starfsmaður stefnda, hún var í starfi hjá stefnanda og sinnti verkefnum, sem stefndi fól henni, í nafni stefnanda.  Var stefnandi því aðili að þeim viðskiptum sem Laufey Linda samdi um og voru þau unnin á ábyrgð stefnanda.  Stefndi verður að bera hallann af því að hafa ekki gert skriflegan samning við Laufeyju Lindu og verður málsvörn hans um aðildarskort stefnanda hafnað. 

                Fram kom í aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnda og vitnaskýrslu fyrrverandi meðeiganda hans að Laufey Linda hefði átt að fá umboðslaun fyrir vinnu sína.  Þetta er ekki stutt neinum gögnum og ekki er byggt á þessu í greinargerð.  Þar sem starfs­maður stefnanda vann verkefni sem stefndi fól henni verður að fallast á að honum sé rétt að krefja um endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt var.  Stefnandi hefur með framlögðum gögnum og skýrslum fyrir dómi sannað að hann hafi unnið þau verk sem hann krefur um greiðslu fyrir með reikningum nr. 16, 48 og 50.  Þá voru umrædd sýnishorn, sbr. reikning hr. 51, send fyrir stefnda.  Stefndi hefur ekki hnekkt þessum reikningum, eða sýnt fram á að áskilin þóknun sé ósanngjörn.  Þá hefur stefnandi skýrt nægilega ástæðu þess að fjárhæð tímagjalds er misjöfn. 

                Kröfu samkvæmt reikningi nr. 49 vegna kostnaðar af skrifstofuhaldi o.fl. verður að hafna.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða þennan kostnað.  Þá er þessi krafa í ósamræmi við málatilbúnað stefnanda að öðru leyti. 

                Ekki þarf að fjalla um það í þessu máli hvort stefnandi hefði átt að krefja stefnda um virðisaukaskatt og skila honum í ríkissjóð.  Þá þarf ekki heldur að fjalla um hvort stefndi hafi haft opinbert leyfi til starfsemi sinnar. 

                Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kröfu samkvæmt fjórum reikningum, samtals að fjárhæð 6.798.000 krónur, en kröfu um greiðslu þess fimmta verður hafnað.  Stefndi hefur mótmælt því að hann hafi fengið reikninga stefnanda og kveðst ekki hafa heyrt af kröfum hans fyrr en með aðvörunar­bréfi lögmanns, dags. 3. júlí 2013.  Með hliðsjón af því verða dráttarvextir dæmdir frá 1. ágúst 2013. 

                Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess að kröfur stefnanda eru ekki teknar til greina að öllu leyti og að kröfu stefnda um frávísun málsins í heild var hafnað.  Er málskostnaður ákveðinn 950.000 krónur. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist mjög vegna jólahátíðar og anna dómara og veikindaforfalla.  Lögmenn og dómari voru sammála um að endurflutningur væri óþarfur. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Liberty International Scandinavia ApS, greiði stefnanda, LB ferðum slf., 6.798.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 5.738.000 krónum frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. 

                Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.