Hæstiréttur íslands
Mál nr. 419/2007
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Fasteign
- Örorka
- Líkamstjón
- Sönnunarbyrði
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2008. |
|
Nr. 419/2007. |
Aldamót ehf. (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) gegn Eygló Svönu Stefánsdóttur (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Skaðabótamál. Fasteign. Örorka. Líkamstjón. Sönnunarbyrði.
E slasaðist er henni skrikaði fótur þegar hún steig á skábraut fyrir hjólastóla við verslun A ehf. 20. desember 2003. Hún krafðist viðurkenningar á því að félagið bæri skaðabótaábyrgð á því líkamstjóni sem hún varð fyrir af þessum sökum. Ekki var fallist á að það gæti leyst A ehf. undan ábyrgð þótt versluninni hefði verið lokað skömmu áður en slysið varð. Þá var áréttað að almennt yrði að leggja ríkar skyldur á eigendur og umráðamenn fasteigna, þar sem rekin væri verslun fyrir neytendur, að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mættu teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þær ættu leið um. Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var staðfest um að slysið yrði aðallega rakið til þess að á skábrautinni væru mjög hálar, slípaðar flísar og ekkert handrið til að grípa í. Yrði þessi umbúnaður ekki talinn nægilega öruggur og var A ehf. því talið eiga sök á tjóni E. Ekki var fallist á að E ætti sjálf einhverja sök á því að slysið varð og var krafa hennar tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi að hann verði aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefndu og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins er óvefengt að stefnda meiddist er hún féll 20. desember 2003 í skábraut við verslun áfrýjanda að Síðumúla 21.
Tvær tröppur eru frá gangstétt að palli við inngang verslunar áfrýjanda. Við hlið trappanna er 102 cm breið og 110 cm löng skábraut fyrir hjólastóla sem stefndu skrikaði fótur í hinn 20. desember 2003. Mismunur á lægstu og hæstu brún skábrautarinnar er 26,5 cm. Samkvæmt lögregluskýrslu var lögregla kvödd á vettvang klukkan 18.41 og þykir bera að miða við að slysið hafi orðið skömmu áður.
Áfrýjandi hefur borið fyrir sig að slysið hafi gerst eftir lokun verslunar hans. Óumdeilt er að slysið varð síðasta laugardag fyrir jól 2003 en á þeim degi er opnunartími margra verslana lengri en venjulegt er. Fyrir rétti bar stefnda að þegar hana bar að hafi verið kveikt ljós í verslun áfrýjanda. Hún hafi séð í gegnum glugga tvo starfsmenn og þekkt annan þeirra. Bæði verslunarstjóri áfrýjanda og framkvæmdastjóri báru að búið hafi verið að loka versluninni þegar þeir hafi séð stefndu koma. Hafi framkvæmdastjórinn gengið að dyrunum til að opna fyrir henni. Framkvæmdastjóri áfrýjanda bar að uppgjör færi venjulega fram í versluninni sjálfri í lok dags og bæri viðskiptamenn að eftir lokun meðan á uppgjöri stæði væri þeim hleypt inn. Verður ekki talið að það leysi áfrýjanda undan ábyrgð þótt versluninni hafi verið lokað skömmu áður en slysið varð.
Í greinargerð Veðurstofu Íslands um veðurskilyrði með tilliti til hálku 20. desember 2003 kemur fram að snjór hafi verið yfir Reykjavík frá því um miðjan dag 18. fram yfir 20. desember og hiti undir frostmarki allt það tímabil.
Almennt verður að leggja ríka skyldu á eigendur og umráðamenn fasteigna, þar sem rekin er verslun fyrir neytendur, að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þar eiga leið um, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 419/1994 frá 21. mars 1996, sbr. dómasafn réttarins það ár, bls. 1002 og í máli nr. 517/2005 frá 8. júní 2006.
Svo sem greint er í héraðsdómi gengu dómendur á vettvang ásamt lögmönnum og skoðuðu fyrrnefndar tröppur og skábraut. Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var komist að þeirri niðurstöðu, að slysið yrði aðallega rakið til þess að á skábrautinni eru mjög hálar, slípaðar flísar og ekkert handrið til að grípa í þegar viðskiptavinir eiga leið um. Þessi umbúnaður var ekki talinn nægilega öruggur og var stefndi því talinn eiga sök á tjóni stefnanda. Áfrýjandi hefur ekki með matsgerð eða á annan hátt lagt grundvöll að því að þessari niðurstöðu verði hnekkt fyrir Hæstarétti. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til héraðsdóms verður hann staðfestur um að áfrýjandi skuli bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefndu.
Varakrafa áfrýjanda, um að hann verði aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefndu, er einkum byggð á eigin sök stefndu þar sem hún hafi ákveðið að ganga upp skábrautina í stað þess að nota tröppurnar auk þess sem hún hafi sýnt af sér ógætni að öðru leyti.
Á því var byggt í héraðsdómi að þegar komið væri að versluninni frá bílastæði væri komið fyrst að skábrautinni, sem er einungis 110 cm löng eins og áður segir, og væri umbúnaður stigans með þeim hætti að beint lægi við að velja þá leið fremur en að ganga aðeins lengra eftir gangstéttinni og þaðan upp tröppurnar. Áfrýjandi hefur ekki með matsgerð eða á annan hátt lagt grundvöll að því að þessari niðurstöðu verði hnekkt fyrir Hæstarétti. Með vísan til þess og gagna málsins er ekkert fram komið sem bendir til þess að við stefndu sé um slysið að sakast. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans einnig staðfest að því er varakröfu áfrýjanda varðar. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Aldamót ehf., greiði stefndu, Eygló Svönu Stefánsdóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007.
Mál þetta höfðaði Eygló Svana Stefánsdóttir, kt. 030445-4229, Skeiðarvogi 153, Reykjavík, með stefnu birtri 14. september 2006 á hendur Aldamótum ehf., kt. 440299-2619, Síðumúla 21, Reykjavík. Til réttargæslu er stefnt Verði Íslandstryggingu hf., kt. 441099-3399, Skipagötu 6, Akureyri. Málið var dómtekið 20. apríl sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni er hún varð fyrir er hún féll við inngang verslunar stefnda að Síðumúla 21 þann 20. desember 2003. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara krefst hann þess að hann verði aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi rekur verslun með ýmiss konar raftæki í Síðumúla 21. Síðdegis þann 20. desember 2003 kom stefnandi að versluninni. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi sagði hún að hún hefði komið ásamt manni sínum og þau lagt bifreið sinni stutt frá versluninni. Hefði hún verið á undan honum út úr bílnum og komið að versluninni. Hefði hún stigið þar sem er skábraut fyrir hjólastóla, en hún kom að þeim megin. Hún hefði dottið strax og borið fyrir sig hendina.
Stefnandi sagðist halda að klukkan hafi verið að verða eða verið orðin sex. Hún hafi séð tvo starfsmenn inni í versluninni, annan hefði hún þekkt. Það hafi ekki verið neitt sem benti til þess að búið væri að loka. Það hafi verið ljós inni.
Stefnandi sagði að veðrið hefði verið gott. Það hefði ekki sést neinn snjór eða annað á tröppunum. Þá hefði ekki verið nein motta eða borðar á brautinni. Þegar starfsmennirnir komu út hefðu þeir spurt strax hvar mottan væri.
Stefnandi kvaðst hafa verið í sléttbotna vetrarskóm.
Þórhallur Sveinsson, eiginmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann lýsti aðkomu þeirra að versluninni á sama veg og stefnandi. Það hefði ekkert bent til þess að verslunin væri lokuð. Þá hefðu starfsmennirnir talað um einhverja mottu er þeir komu út. Hann kvaðst ekki hafa séð neina borða á brautinni.
Óskar Már Tómasson, framkvæmdastjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði að þegar stefnandi kom að versluninni hafi verið búið að loka og að hann og Bolli Ófeigsson hafi setið við borð. Næturlýsing hafi verið á. Hann sagði að hreinsað hefði verið fyrir framan verslunina um morguninn. Stundum hefðu þeir verið með mottur á tröppunum og skábrautinni, en við vissar aðstæður gætu þær verið hættulegar. Mottan hefði ekki verið á þegar stefnandi slasaðist.
Bolli Ófeigsson, verslunarstjóri í verslun stefnda, sagði í skýrslu sinni að hann hefði skafið alla stéttina og saltað um morguninn, áður en verslunin var opnuð. Hann kvaðst hafa séð stefnanda koma, en hann þekki hana. Þeir hafi verið búnir að loka þegar hún kom. Hann hafi ætlað að opna fyrir henni en er hann kom að dyrunum hafi hún verið dottin. Hann kvaðst ekki hafa séð er hún datt. Þá hafi hann verið búinn að taka inn motturnar.
Áverkum stefnanda er lýst í vottorði Guðmundar Gunnlaugssonar, læknis á Landspítala, sem dagsett er 2. september 2005. Þar kemur fram að mynd var tekin af vinstri úlnlið sem sýndi brot sem náði inn í lið. Var brotið togað til og sett gifs. Þann 3. janúar 2004 var brotið fest með 3 pinnum. Fram kemur í vottorðinu að helsta afleiðing slyssins er takmörkun snúningshreyfingar í úlnliðnum.
Stefnandi lagði ágreining sinn við réttargæslustefnda fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum með bréfi dagsettu 23. desember 2005. Nefndin skilaði áliti 24. janúar og taldi að stefnandi ætti bótakröfu vegna slyss síns sem ekki yrði lækkuð vegna eigin sakar og að greiða bæri bætur úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.
Réttargæslustefndi tilkynnti stefnanda og nefndinni að hann vildi ekki hlíta úrskurðinum.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi vísar til þess að stefndi reki umrædda verslun að Síðumúla 21. Hann hafi ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda.
Stefnandi segir að tröppurnar, skábrautin og pallur fyrir framan dyr verslunarinnar séu klædd flísum úr rennisléttri og háslípuðum steini. Motta hafi verið fjarlægð þegar stefnandi féll og því hafi engar varúðarráðstafanir verið gerðar til að varna því að fólk rynni til og félli á hálum flísunum.
Stefnandi byggir á því að stefndi beri bótaábyrgð á öllu tjóni hennar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Hún hafi orðið fyrir líkamstjóni er hún rann við inngang að verslun stefnda þann 20. desember 2003. Stefnandi segir að tjón sitt megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Stefndi hafi ekki gætt nægrar aðgæslu til að koma í veg fyrir að slys hlytist af búnaði við inngang verslunar stefnda.
Stefnandi telur bótaábyrgð vegna slyssins hvíla á stefnda sem rekstraraðila og eiganda verslunarinnar.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi í það minnsta mátt vera ljós hættan sem stafaði af útbúnaði við inngang verslunarinnar. Upplýst sé að það hafi verið hálka í Reykjavík í tvo daga áður en slysið varð. Stefndi geti ekki haldið því fram að skyndilega hafi myndast hálka.
Stefnandi telur að aukin hætta hafi verið á slysum vegna þess að á tröppunum og skábrautinni séu sléttar flísar sem verði afar hálar og beinlínis hættulegar við viss skilyrði. Þá hafi engar viðvaranir verið settar upp og engin handrið, sem hefði dregið úr hættunni.
Stefnandi segir að ábyrgð stefnda sé strangari þar sem hann reki verslun í húsnæðinu. Þá sé frágangi og umbúnaði við inngang verslunarinnar mjög ábótavant með tilliti til fyrirmæla gildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og brjóti í bága við sum ákvæði hennar.
Stefnandi telur að á rekstraraðila eins og stefnda hvíli skylda til að hafa eftirlit með því að aðkomuleiðir að versluninni séu öruggar. Þessa skyldu hafi stefndi vanrækt.
Stefnandi mótmælir því að slysið hafi orðið eftir að versluninni var lokað. Þá telur stefnandi það ekki breyta neinu þótt búið hefði verið að loka.
Stefnandi kveðst hafa gætt þeirrar varúðar sem ætlast hafi mátt til af henni. Hún mótmælir því að hún hafi verið á hlaupum er slysið varð.
Stefnandi vísar til þess að stefndi og réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu þrátt fyrir skýra niðurstöðu úrskurðanefndar í vátryggingamálum. Því krefjist hún þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sérstakt álag á málskostnað.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglu um ábyrgð verslunareiganda á slysum vegna útbúnaðar verslunarhúsnæðis. Um heimild til að höfða mál þetta sem viðurkenningarmál vísar hún til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Loks er vísað til byggingarreglugerða, nr. 441/1998 og eldri.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi segir að verslun sín hafi verið lokuð er stefnandi kom að og að henni hafi mátt vera það ljóst.
Skábrautin sem stefnandi steig inn á sé ætluð þeim sem séu bundnir við hjólastól.
Skábrautin og tröppurnar og pallur fyrir framan inngöngudyrnar séu klædd slípuðum steinflísum. Það megi hverjum þeim vera ljóst sem kemur að.
Stefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að engar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar til að varna því að fólk rynni og félli á hálum steinflísunum. Þvert á skábrautina hafi verið límdir þrír stamir límborðar með 28 cm millibili. Þá mótmælir stefndi því sem segir í stefnu að eftir slysið hafi verið komið fyrir mottum bæði í tröppum og á skábrautinni.
Stefndi bendir á að vegna veðurs hafi stefnanda verið ljóst að hálka gæti hafa myndast víðs vegar á götum og gangstéttum. Stefnandi hafi hlaupið og valið leið á eigin áhættu og ábyrgð. Hún hafi verið í verslunarleiðangri og verið búin að fara á milli verslana. Því hafi hún átt að þekkja hversu varasöm göngufærðin var þennan dag.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki gætt þeirrar varúðar er henni bar. Þeir sem velji sér að fara um skábrautir geri sér grein fyrir því að því fylgi vissar hættur. Aðkoma að versluninni sé til fyrirmyndar eins og gögn málsins sýni. Óhapp stefnanda verði ekki rakið til sakar eða gálausrar háttsemi stefnda.
Forsendur og niðurstaða.
Stefnandi krefst viðurkenningar bótaskyldu stefnda, en ekki greiðslu ákveðinnar fjárhæðar sem skaðabóta. Er heimilt að hafa þennan hátt á, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins gengu dómendur á vettvang og skoðuðu umræddar tröppur og skábraut. Bæði tröppurnar og brautin eru lagðar slípuðum flísum sem geta verið mjög hálar í bleytu. Skábrautin nær frá vegg að tveimur tröppum og er ekki neitt handrið þar á skilunum. Þegar komið er að versluninni frá bílastæði framan við húsið er komið fyrst að skábrautinni og liggur beint við að velja þá leið, fremur en að ganga aðeins lengra eftir gangstéttinni og ganga upp tröppurnar. Þegar borðar eru settir á tröppurnar og brautina með 28 cm millibili, eins og stefndi segir að gert hafi verið, er það of mikið bil og meiri líkur eru á að stigið sé á milli borðanna en á þá.
Vitni hafa ekki lýst slysinu. Verður að byggja á frásögn stefnanda, sem með hliðsjón af aðstæðum verður talin trúverðug.
Samkvæmt því hefur stefnandi fallið á skábraut að verslun stefnanda. Verður slysið rakið aðallega til þess að á brautinni eru mjög hálar flísar og að ekkert handrið er til að grípa í þegar viðskiptavinir eiga leið um. Er þessi umbúnaður ekki nægilega öruggur og verður stefndi því talinn eiga sök á öllu tjóni stefnanda. Ekki er forsenda til að skipta sök. Verður bótaskylda stefnda viðurkennd.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Ekki er neinn grundvöllur til að bæta einhvers konar álagi á málskostnaðinn. Verður hann ákveðinn 275.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari, Flosi Ólafsson múrarameistari og Guðmundur Baldvin Ólason byggingatæknifræðingur.
D ó m s o r ð
Stefndi, Aldamót ehf., er bótaskyldur vegna slyss er stefnandi, Eygló Svana Stefánsdóttir, varð fyrir við inngang verslunar stefnda 20. desember 2003.
Stefndi greiði stefnanda 275.000 krónur í málskostnað