Hæstiréttur íslands

Mál nr. 567/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. október 2009.

Nr. 567/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. október nk. kl. 16:00.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 244., 248. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 37. gr., 1., sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í  kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að miðvikudaginn 12. ágúst 2009 hafi ákærði verið handtekinn ásamt meðákærðu Y og Z, þar sem þeir hafi verið staðnir að verki við innbrot að [...] í Reykjavík. Í þágu rannsóknar málsins hafi þeim verið gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 13. ágúst til 4. september 2009  en frá þeim degi hafi ákærði sætt síbrotagæslu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands nr. 510/2009. Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru á hendur ákærða auk sjö samlanda hans fyrir fjölda afbrota, einkum auðgunarbrota. Með vísan til gagna málsins og framburðar ákærða hjá lögreglu sé ljóst að hann er undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá telur lögreglustjórinn að yfirgnæfandi líkur  séu til þess að ákærði haldi áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. Því sé það mat lögreglustjórans að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt og þess vegna sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns máli hans sé lokið hjá dómstólum.

Eins og framan er lýst gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út ákæru í dag á hendur ákærða og sjö öðrum samlöndum hans. Með vísan til þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra, og ennfremur með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins, er það mat dómsins að ákærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að innbrotsmálum, fjölmörgum auðgunarbrotum, brotum á fíkniefnalöggjöfinni auk umferðarlagabrots. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Með hliðsjón af framangreindu þykja vægari úrræði ekki koma til greina og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. október 2009 kl. 16.00.