Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. apríl 2003.

Nr. 114/2003.

Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli

(Sævar Lýðsson fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A og b liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. apríl nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.  Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003.

                Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli krefst þess að X, banda­rískum ríkisborgara, fæddum [...] 1969, til heimilis að [...] New York, Bandaríkjunum, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 3. apríl 2003 kl. 16:00 vegna gruns um brot á 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.  Krafan er reist á a- og b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og er af hálfu lög­reglustjóra lagst gegn því að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi, sbr. ákvæði 109. og 110. gr. sömu laga.

                Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni og kveðst saklaus af ætluðu broti.  Hann krefst þess aðallega að synjað verði um kröfuna, til vara að honum verði einungis gert að sæta farbanni og til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en farið er fram á. 

I.

                Lögreglan á Keflavíkurflugvelli vinnur nú að frumrannsókn máls, sem varðar ætlað brot kærða, X, á 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.  Samkvæmt téðri lagagrein varðar það sektum eða fangelsi allt að sex árum að reka í hagnaðarskyni skipu­lagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til Íslands eða til annars ríkis.  [...]

II.

                Rannsókn þessa máls er á frumstigi.  Eins og málsatvikum er lýst að framan er ljóst að verulega ber á milli í framburði kærða annars vegar og vitnisburði Kín­verjanna fjögurra hins vegar.  Með hliðsjón af vitnisburði fjórmenninganna, sem er sam­hljóða um mörg veigamikil atriði málsins og framburði kærða um sömu atriði og önnur, sem varða ferðir hans í Hamborg, dvöl hans á Íslandi fyrr á þessu ári, tíð ferðalög á undanförnum misserum þrátt fyrir atvinnuleysi og loks því að kærði hafði í fórum sínum við handtöku reiðufé að verðmæti ríflega 600.000 íslenskar krónur, telur dómurinn að fallast verði á það með lögreglu að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, en viðurlög við slíku broti geta varðað fangelsi allt að sex árum.

                Á þessu stigi málsins verður ekki fullyrt um sekt kærða.  Ætlað brot er engu að síður alvarlegt, en á undanförnum árum hefur færst í vöxt að einstaklingar og alþjóð­legir glæpahringar hafi gert örbirgð íbúa fátækra þjóða að féþúfu sinni.  Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að umræddir Kínverjar eða fjölskyldur þeirra hafi átt að greiða allt að 60.000 bandaríkjadali fyrir flutning fólksins til Bandaríkjanna.  Enn er ekki ljóst hvort og þá hvernig Kínverjarnir áttu sjálfir að greiða fyrir flutninginn, en samkvæmt vitnisburði eins þeirra stóð til að hann ynni fyrir flug­far­gjaldi sínu með vinnu á veitingastað í Bandaríkjunum.  Eftir er að yfirheyra fjór­menningana mun ítarlegar um ástæður fyrir Bandaríkjaförinni, hver eða hverjir hafi komið að skipulagningu fararinnar og hvaða framtíð hefði beðið Kínverjanna þar í landi.  Er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að þeir hafi átt vísa atvinnu og húsaskjól og beinist því grunur lögreglu óneitanlega að mansali.  Haldi kærði óskertu frelsi sínu og dveljist áfram hér á landi má ætla að hann muni torvelda frum­rannsókn málsins, með því til dæmis að hafa áhrif á Kínverjana fjóra, sem til stendur að fái tíma­bundið dvalarleyfi hér á landi næstu sex mánuði.  Einnig er virk hætta á því, verði kærði frjáls ferða sinna, að hann reyni að ná sambandi við samseka aðila, hér landi eða annars staðar í heiminum og geti þannig torveldað eðlilegan framgang frumrannsóknar lögreglu.  Fyrir liggur að afla verði upplýsinga frá lögregluyfir­völdum í Þýskalandi til að kanna feril kærða þar í landi og enn fremur að kanna hvort einhver mál, honum tengd, séu til rann­sóknar hjá Interpol.  Samkvæmt upplýsingum rannsóknara við fyrirtöku á gæsluvarðhalds­kröfunni getur þetta tekið nokkra daga.  Þá er af hálfu lögreglu í bígerð að ræða við starfsmenn Grand Hótel Reykjavík í því skyni að afla upplýsinga um ferðir kærða hér á landi fyrr á þessu ári og enn fremur stendur til að óska eftir dómsúrskurði til að afla upplýsinga um mögulega farsíma­notkun kærða í sömu Íslandsferð.  Er ljóst að þessir þættir rannsóknarinnar muni taka einhverja daga. 

Með framangreind atriði öll í huga telur dómurinn að fallast verði á fram komna gæsluvarðhaldskröfu með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Eru ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.  Á það ber einnig að líta að kærði er grunaður um háttsemi, sem getur í raun varðað þungri fangelsisrefsingu.  Þekkt er á undanförnum árum að útlendingar, sem komið hafa til Íslands með vafasöm áform í huga, hafa gjarnan haft aðgang að fleiri en einu vegabréfi með ólíkum nöfnum viðkomandi.  Eftir að landa­mæri fjölmarga ríkja Evrópu voru opnuð í mun ríkari mæli en áður hafði þekkst með tilkomu Schengen-samstarfsins er meiri hætta á því að viðkomandi aðili, sem grunaður er um brot eða brotastarfsemi, reyni og geti komist úr landi áður en lög­reglurannsókn lýkur og tekin hefur verið ákvörðun um hvort höfða eigi opinbert mál.  Í ljósi þessara atriða telur dómurinn einnig að við eigi í málinu ákvæði b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um með­ferð opinberra mála og er því rétt að verða jafnframt við gæsluvarðhaldskröfu lögreglustjóra á þeim grunni.  Með sömu rökum er að áliti dómsins óvarlegt að treysta megi á vægari úrræði til að tryggja nærveru kærða á meðan á frumrannsókn málsins stendur, svo sem með farbanni samkvæmt 110. gr. sömu laga.  Að þessu öllu virtu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 3. apríl 2003 kl. 16:00.