Hæstiréttur íslands

Mál nr. 429/2007


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Umboð
  • Aðildarskortur


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. apríl 2008.

Nr. 429/2007.

Hverfisbær ehf.

Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og

Hannes Ragnarsson

(Ragnar Baldursson hrl.)

gegn

Hilmari Inga Jónssyni

(Gísli Guðni Hall hrl.)

 

Kaupsamningur.Umboð. Aðildarskortur.

HJ taldi að samið hefði verið við ÓK, HR og H ehf. um að þau síðarnefndu myndu annast kaup á nánar tilgreindri bifreið fyrir sig frá Bandaríkjunum. Kvaðst hann hafa greitt umsamið kaupverð með því að millifæra tiltekna fjárhæð yfir á reikning kunningja síns B og að hann hefði síðan greitt kaupverðið inn á bankareikning ÓK. Hún og HR könnuðust ekki við að samið hefði verið um þessi viðskipti. Í héraði krafðist HJ aðallega að hann fengi bifreiðina afhenta sér og að ÓK, HR og H ehf. greiddu honum ákveðna fjárhæð í skaðabætur. Til vara krafðist hann endurgreiðslu á kaupverðinu. Í héraði var fallist á varakröfuna. HJ undi þessari niðurstöðu en ÓK, HR og H ehf. áfrýjuðu málinu og kröfðust sýknu. Enginn skriflegur samningur lá fyrir milli aðila. Ekki var talið að HJ hefði sýnt fram á að komist hefði á munnlegur samningur milli hans og áfrýjenda um kaup á bifreiðinni fyrir milligöngu B. Því lægi ekki fyrir að HJ væri réttur aðili að kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem B greiddi inn á reikning ÓK. Áfrýjendur voru því sýknaðir af kröfunni vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 16. ágúst 2007. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsaðilar deila um hvort Bjarki Þór Clausen hafi sjálfur átt í viðskiptum við áfrýjendur eða komið fram sem umboðsmaður stefnda þannig að stofnað hafi verið til samnings á milli áfrýjenda og stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að komist hafi á samningur milli hans og áfrýjenda fyrir milligöngu Bjarka Þórs Clausen um kaup á bifreið af gerðinni Cadillac Escalade. Samkvæmt gögnum málsins millifærði stefndi 1.714.000 krónur inn á reikning Bjarka Þórs, sem aftur millifærði 1.686.000 krónur inn á reikning áfrýjanda Ólafar og var skýring á færslunni tilgreind „escalade“. Bæði stefndi og Bjarki hafa borið að greiðslan hafi verið innt af hendi vegna kaupa á bifreið af gerðinni Cadillac Escalade. Þar sem bifreiðin hafi ekki verið afhent krefst stefndi endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Áfrýjendur kannast ekki við að hafa fengið vitneskju um framangreinda skýringu á greiðslunni og er ósannað í málinu að svo hafi verið.

Áfrýjendur krefjast sýknu á grundvelli aðildarskorts þar sem þau hafi ekki verið í samningssambandi við stefnda. Þau hafi ekki hvorki gert munnlegan eða skriflegan samning né haft önnur samskipti við stefnda um sölu á umræddri bifreið. Bjarki Þór hafi unnið að viðgerðum á bifreiðum fyrir þau á þessum tíma, hafi þau selt honum tvær bifreiðar og hann innt af hendi greiðslur til þeirra af því tilefni. Komið hafi til tals að selja honum einnig umrædda bifreið af gerðinni Cadillac Escalade en af því hafi ekki orðið. Af hálfu áfrýjanda er bent á að ljóst sé að Bjarki Þór hafi ætlað að kaupa bifreiðina og selja síðan stefnda hana. Benda þau á bréfaskipti, sem farið hafi fram á milli hans og stefnda, þar sem ráðið verði að Bjarki Þór sé að bjóða stefnda bifreiðina til kaups.

Óumdeilt er að ekki liggur fyrir skriflegur samningur milli aðila málsins um kaup á fyrrnefndri bifreið. Þá þykir stefndi ekki hafa fært sönnur á að komist hafi á munnlegur samningur milli hans og áfrýjenda um kaup á bifreiðinni fyrir milligöngu Bjarka Þórs. Stefndi hefur því ekki sýnt fram á að hann sé réttur aðili að kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem Bjarki Þór greiddi áfrýjendum. Verða þeir því  sýknaðir af kröfu stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þar sem áfrýjendur létu undir höfuð leggjast að svara bréfum stefnda og gera honum grein fyrir viðhorfum sínum um að engir samningar hefðu verið gerðir á milli þeirra um kaup á bifreiðinni áður en málið var höfðað, verður hver aðila látinn beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði. Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins verður stefndi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða áfrýjendum sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Áfrýjendur, Hverfisbær ehf., Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og Hannes Ragnarsson, eru sýkn af kröfu stefnda, Hilmars Inga Jónssonar.

Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 30. október 2006.

Stefnandi er Hilmar Ingi Jónsson, Breiðási 3, Garðabæ.

Stefndu eru Ólöf Kristín Ingólfsdóttir, Hannes Ragnarsson og Hverfisbær ehf., öll til heimilis að Gljúfraseli 8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega:

1. Að stefnda Hverfisbæ verði gert að afhenda og afsala stefnanda Cadillac Escalade bifreið fyrirtækisins, árgerð 2002, forskráningarnúmer SH-763, að viðlögðum dagsektum allt að 15.000 krónum á dag frá dómsuppkvaðningu.

2. Að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum 2.499.795 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2006 til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 6.050.643 krónur með dráttarvöxum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2006 til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða in solidum 1.686.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2006 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

                Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.

MÁLSATVIK

Stefnandi segir þannig frá að í nóvember 2005 hafi kunningi stefnanda, Bjarki Þór Clausen, bent honum á bifreið af gerðinni Cadillac Escalade, sem Bjarki hafi fundið á uppboðsvef á netinu. Bjarki hafi tjáð stefnanda að aðgangur að uppboðsvefnum væri læstur öðrum en skráðum notendum. Hafi Bjarki, sem ekki hafi haft aðgang að vefnum, boðist til að hafa milligöngu um að stefndu myndu bjóða í bifreiðina fyrir hönd stefnanda. Þetta myndi fela í sér lágmarkskostnað fyrir stefnanda þar sem bifreiðin yrði flutt inn með öðrum bifreiðum sem stefndu hafi verið að flytja inn á þessum tíma. Bjarki hafi talið sig geta komið þessu í kring vegna kunningsskapar við stefnda Hannes.

Hannes er eiginmaður stefndu Ólafar Ingólfsdóttur, stjórnarformanns stefnda Hverfisbæjar ehf., en samkvæmt greinargerð stefndu snýst starfsemi félagsins einkum um innflutning notaðra bíla til Íslands. 

Stefnandi kveður svo hafa um samist að stefndu önnuðust kaup á bifreiðinni til landsins fyrir 1.686.000 krónur. Stefndu kveða slíkan samning aldrei hafa komist á.

Stefnandi kveður tilboð í bifreiðina hafa verið samþykkt 29. nóvember 2005, og heildarkaupverð hafa verið 22.310 Bandaríkjadali. Miðað við gengi dals á uppboðsdegi hafi kaupverð í íslenskum krónum verið 1.410.215 krónur. Stefnandi kveðst hafa millifært 1.714.000 krónur á reikning Bjarka Þórs Clausen 5. desember 2005, og hafi Bjarki samdægurs greitt umsamið kaupverð, 1.686.000 krónur, inn á bankareikning stefndu Ólafar. 

Stefnandi kveður stefndu hafa lofað afhendingu á bifreiðinni innan sex vikna frá greiðslunni, 16. janúar 2006. Stefndu hafi jafnframt heitið því að stefnandi yrði skráður fyrir bifreiðinni bæði hjá farmflytjanda, Eimskipum hf., sem og annars staðar. Stefnandi kveður bifreiðina ekki hafa borist á umsömdum degi og hafi stefndu ekki svarað þegar stefnandi og Bjarki reyndu að hafa samband við þau vegna vanefndanna. Í lok febrúar 2006 hafi Bjarki haft samband við Eimskip og fengið þær upplýsingar að bifreiðin væri væntanleg til landsins á næstu dögum, ásamt tveimur öðrum bifreiðum sem hið stefnda fyrirtæki væri að flytja inn. Stefnandi hafi í kjölfarið árangurslaust reynt að hafa samband við stefndu. Hafi hann loks hringt í Tollstjórann í Reykjavík 29. mars 2006 og þá fengið staðfest að bifreiðin hefði komið til landsins 2. mars og væri tilbúin til tollafgreiðslu. Stefnandi hafi þá farið á starfstöð Tollstjórans til að efna sinn hluta samkomulagsins og hafi hann greitt tolla og aðflutningsgjöld, 1.151.016 krónur. Á kvittunum fyrir greiðslu vöru- og aðflutningsgjalda 29. mars 2006 er stefndi Hverfisbær skráður greiðandi. Stefnandi kveðst hafa greitt farmflutningsgjöldin og tekið við bifreiðinni, því næst farið með hana í hjólastillingu og burðarvirkismælingu. Á skoðunarstöð hafi komið í ljós að til þess að unnt væri að skrá ökutækið væri nauðsynlegt að fyrirsvarsmaður Hverfisbæjar, stefnda Ólöf, ritaði undir eyðublað frá Umferðarstofu um nýskráningu ökutækis, fyrir hönd innflytjanda. Ólöf hafi aftur á móti neitað að rita undir skjalið og tjáð stefnanda að Hverfisbær ætti bifreiðina.

Af hálfu stefnanda var Hverfisbæ sent bréf 4. apríl 2006 þar sem krafist var að fyrirsvarsmenn stefnda gæfu út afsal fyrir bifreiðinni. Stefnandi hafi sjálfur sent stefndu tölvubréf 1. maí 2006 og ítrekað óskir um að honum yrði svarað. Lögmaður stefnanda hafi loks sent stefndu tölvubréf 16. maí 2006 þar sem hann óskað eftir því að stefndu hefðu samband og settu fram ákveðnar kröfur þannig að unnt yrði að leysa málið. Stefnandi kveður engu bréfanna hafa verið svarað.

Kveðst stefnandi hafa fengið gjöld, greidd Eimskipum og Tollstjóra, endurgreidd gegn því að hann skilaði bifreiðinni aftur til Eimskips 1. júní 2006, enda hafi hann ekki getað nýtt bifreiðina. Loks sendi lögmaður stefnanda stefndu tölvubréf 27. júní 2006 og tilkynnti að stefnandi vænti þess enn að fá bifreiðina afhenta, en stefndu hafi ekki svarað.

Stefnandi kveðst óttast að stefndu ætli sér að halda bæði greiðslu kaupverðs og bifreiðinni. Eigi stefnandi því engan annan kost en að höfða málið.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Þá komu stefndi Hannes Ragnarsson, starfsmaður Hverfisbæjar, stefnda Ólöf Kristín Ingólfsdóttir, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Hverfisbæjar, kona Hannesar, og vitnið Bjarki Þór Clausen fyrir dóminn.

MÁLSÁSTÆÐUR

Stefnandi kveður lög um neytendakaup nr. 48/2003 eiga við um viðskipti aðila, en tilgangur stefnda Hverfisbæjar ehf. sé meðal annars að kaupa og selja eignir. Bifreið stefnanda hafi komið til landsins með farmi sem stefndi Hverfisbær ehf. hafi flutt inn en auk hennar hafi verið í farmi þessum tvær aðrar bifreiðir sem ætlaðar hafi verið til endursölu. Ljóst sé því að fyrirtækið sé reyndur innflytjandi og endursöluaðili bifreiða. Stefnandi sé hins vegar almennur neytandi og hafi keypt bifreiðina utan atvinnustarfsemi. Stefndu Hannes og Ólöf hafi komið fram fyrir hönd Hverfisbæjar í viðskiptum aðila og eigi því aðild að málinu sem umboðsmenn fyrirtækisins í skilningi 4. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup og almennra reglna einkamálaréttarfars.

Stefnandi byggir á því að samkomulag hafi stofnast um kaup og endursölu á nefndri bifreið. Skyldur kaupanda séu einungis fólgnar í því að veita keyptum hlut viðtöku og greiða umsamið verð. Bjarki Clausen hafi greitt umsamið kaupverð fyrir hönd stefnanda.

Stefnandi segir stefndu hafa samþykkt að annast kaupin fyrir stefnanda fyrir 1.686.000 krónur. Innifalið í því hafi átt að vera kaupverð bifreiðarinnar, þóknun til stefndu og annar kostnaður við innflutninginn. Toll- og aðflutningsgjöld hafi ekki átt að vera innifalin en reiknað hafi verið með að slík gjöld næmu tæplega 1.000.000 króna. Umsamið heildarverð hafi þannig átt að vera um 2.600.000 til 2.700.000 krónur, aldrei þó hærra en 3.000.000 króna. Verðið og útreikningur þess hafi stafað frá stefndu. Stefnandi kveðst hafa samþykkt tilboð stefndu og gefið þeim umboð til að bjóða í bifreiðina fyrir sína hönd, en stefndu hafi verið sjálfstætt starfandi milliliðir um kaup á bifreiðinni.

Stefnandi kveður stefndu hafa vanefnt samkomulag aðila. Samið hafi verið um að bifreiðin yrði tilbúin til afhendingar 16. janúar 2006, en hún hafi ekki enn verið réttilega afhent. Vísar stefndi í þessu samhengi til 9. gr. laga nr. 48/2003. Þar sem kaupverð hafi verið að fullu greitt og engar athugasemdir gerðar við efndir stefnanda hafi stefnda Hverfisbæ borið skylda til að yfirfæra ráðstöfunarrétt yfir bifreiðinni til stefnanda, en um sé að ræða afhendingardrátt af hálfu stefnda Hverfisbæjar, sbr. 6. og 19. gr. laga nr. 48/2003.

Þá telur stefnandi að stefndu hafi vanefnt tilkynningarskyldu seljanda gagnvart honum. Eimskip hafi beint tilkynningu sinni til skráðs innflytjanda, stefndu, en bifreiðin komið til landsins 2. mars 2006. Þetta hafi stefndu ekki tilkynnt, og hafi þau ekki svarað fyrirspurnum Bjarka Clausen og stefnanda um hvenær bifreiðin myndi berast. Stefnandi vísar til laga um neytendakaup og almennra reglna kröfuréttar. Þá telur hann vera um verulega vanefnd að ræða á skyldum stefndu, skv. 3. mgr. 8. gr. og 25. gr. laga nr. 48/2003.

Loks telur stefnandi hegðun stefndu eftir að bifreiðin barst til landsins benda til ásetnings um að vanefna samning aðila. Stefndu hafi þannig hvorki gert ákveðnar kröfur um aukagreiðslur vegna bifreiðarinnar né fært rök fyrir því að þeir eigi rétt á slíkum greiðslum. Stefndu hafi ekki tilkynnt stefnanda um komu bifreiðarinnar 2. mars og hafi virt fyrirspurnir hans að vettugi. Hafi sáttatillögum hans ekki verið svarað. Sýni það sem hér greinir,  að stefndu ætli sér ekki að efna samkomulag aðila heldur halda bæði kaupverðsgreiðslunni og bifreiðinni sjálfri.

Stefnandi kveður aðalkröfu vera um efndir samkomulagsins milli aðila in natura þannig að stefndi Hverfisbær afhendi bifreiðina og yfirfæri ráðstöfunarrétt yfir henni með afsali.

Þá krefst stefnandi skaðabóta vegna afhendingardráttar, þar sem vanefndir stefndu hafi valdið stefnanda tjóni, sbr. 19., 21., og 24. gr. laga nr. 48/2003 og almennar reglur kröfuréttar, auk dráttarvaxta, skv. III. kafla laga nr. 38/2001. Stefnandi kveðst sundurliða bótakröfu sína svo:

a) Bætur vegna verðrýrnunar bifreiðarinnar.

Árleg verðrýrnun bifreiðar sé um það bil 15%, endursöluverð bifreiðar um fjórar milljónir. Réttur afhendingardagur bifreiðarinnar hafi verið 16. janúar 2006, en stefna þingfest 14. nóvember 2006. Sé miðað við 301 dags afhendingardrátt hafi verðrýrnun bifreiðarinnar verið 494.795 krónur (4.000.000x301/365x15%).

b) Bætur vegna afnotamissis.

Stefndi krefst bóta fyrir afnotamissi, 5.000 króna á dag fyrir hvern dag frá réttum afhendingardegi til þingfestingardags, eða 1.505.000 króna. Sé kostnaður við leigu bílaleigubíls til að mynda almennt hærri en 5.000 krónur á dag og verði því að telja kröfuna hóflega. Stefnandi vísar til greinargerðar með lögum nr. 48/2003, en um bótareglu 52. gr. segi að þrátt fyrir að það komi ekki fram beinum orðum í frumvarpinu eigi aðili rétt á skaðabótum vegna ófjárhagslegs tjóns sem leiði af vanefnd, byggist slíkar bætur á sanngirnismati.

c) Bætur vegna annars óhagræðis stefnanda.

Stefnandi kveðst fara fram á bætur vegna óhagræðis og tímataps sem leitt hafi af vanefndum stefndu. Hafi stefnandi þurft að vera í miklum samskiptum við Eimskip, embætti Tollstjórans í Reykjavík, Umferðarstofu, Bjarka Clausen, lögmann sinn og lögmann stefndu, með þeirri fyrirhöfn og kostnaði sem því fylgi. Tapað vinnuframlag stefnanda hafi verið umtalsvert. Stefnandi sé venjulegur neytandi og það sé kunnara en frá þurfi að segja hversu miklum óþægindum rekstur dómsmáls hafi valdið honum. Stefnandi telur bætur vegna þessa hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, og vísar til stuðnings kröfunni til 52. gr. laga nr. 48/2003.

Þá kveðst hann gera kröfu um dagsektir og styður þá kröfu sína við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi kveðst krefjast þess til vara að fá dæmdar bætur að fjárhæð 6.050.795 krónur, er geri hann sem líkast settan því sem hann hefði verð ef samningur aðila hefði verið efndur, auk dráttarvaxta. Vísar stefnandi kröfu sinni til stuðnings til 19., 24. og 52. gr. laga nr. 48/2003, og almennra reglna kröfuréttar um efndabætur.

Varakröfu sína sundurliðar hann svo:

a) Bætur miðað við endursöluverð Cadillac Escalade bifreiðar af árgerð 2002, fjórar milljónir.

b) Bætur vegna óhagræðis, afnotamissis o.s.frv., sbr. liði b og c í aðalkröfu, samtals 1.999.795 krónur.

c) Reikningur vegna burðarvirkismælingar, 20.00 krónur.

d) Reikningur vegna hjólastöðuvottorðs, 13.948 krónur.

e) Reikningur vegna kaupa á rafgeymi, 17.900 krónur.

Til þrautavara krefst stefnandi endurgreiðslu á kaupverði bifreiðarinnar, 1.686.000 króna. Eigi stefndu ekki rétt á að halda bæði greiðslu fyrir bifreiðina og bifreiðinni sjálfri. Telji þau sig eiga rétt á að halda bifreiðinni beri þeim að endurgreiða kaupverðið.

Stefnandi styður þrautavarakröfuna við 19., 24. og 52. gr. laga nr. 48/2003, almennar reglur íslensks kröfuréttar um endurgreiðslu og greiðslu bóta vegna vanefnda, og dráttarvaxtakrafa styðst við III. kafla laga nr. 38/2003.

Stefndu benda á það til stuðnings sýknukröfu sinni að ekki séu lagðir fram neinir samningar um meint viðskipti aðila. Ekki sé einu sinni haldið fram af hálfu stefnanda að hann hafi verið í samskiptum við stefndu, gert við þau samning eða millifært fé til þeirra. Hafi Hverfisbær ehf. eða aðrir stefndu, ekki átt nein samskipti við stefnanda vegna viðskiptanna sem lýst sé í stefnu. Stefndu telja Bjarka Þór hafa selt stefnanda bifreið sem hann hafi ekki átt eignarrétt yfir. Fjárhæðum þeim sem stefnandi greiddi Bjarka og Bjarki svo stefndu beri ekki saman, og sé það sterk vísbending um að Bjarki hafi verið eini viðsemjandi stefnanda. Hafi Bjarki, á þeim tíma sem um ræðir, átt í viðskiptum við stefndu Ólöfu vegna annarra bifreiða, og greitt henni 1.686.000 krónur sem innborgun vegna þeirra viðskipta. Stefnda Ólöf kveðst ekki kannast við kvittun sem lögð sé fram af hálfu stefnanda vegna greiðslu Bjarka Clausen inn á reikning hennar, þar sem stendur escalade í reitnum: Skýring greiðslu. Hafi hvorki stefnandi né Bjarki keypt Cadillac bifreiðina af stefndu, og ættu kröfur stefnanda samkvæmt þessu að beinast að Bjarka en ekki stefndu.

Hverfisbær ehf. byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei átt þau viðskipti við stefnanda sem lýst sé, og geti því ekki verið skuldbundinn honum. Félagið hafi ekki móttekið greiðslur né gert samninga um þau viðskipti sem lýst sé. Verði stefnandi að sanna að samningssamband hafi verið milli aðila, en í stefnu sé aðeins vísað til einhliða lýsinga Bjarka á meintum viðskiptum um bifreið og gerð grein fyrir því að hann hafi tekið á móti fjármunum frá stefnanda. Þá sé því lýst að hann hafi greitt stefndu Ólöfu aðra fjárhæð en stefnandi greiddi honum.

Stefndu Hannes og Ólöf byggja sýknukröfu á því að þau séu ekki réttir aðilar að málinu. Aðild stefndu sé byggð á 4. mgr. 1. gr. laga nr. 4/2003 og því haldið fram að þau hafi við hin meintu viðskipti komið fram sem umboðsmenn stefnda Hverfisbæjar ehf. Ólöf sé aftur á móti framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og eigandi félagsins og Hannes hafi starfað hjá því. Hvorugt þeirra sé umboðsmaður félagsins, og taki fyrrnefnt ákvæði því ekki til þeirra.

Verði Ólöf og Hannes talin vera umboðsmenn stefnda Hverfisbæjar ehf. byggi þau sýknukröfu sína á því að þau hafi ekki samið við stefnanda né nokkurn annan um viðskipti með fyrrnefnda bifreið. Engin gögn hafi verið lögð fram með stefnunni er gefi vísbendingar um slíkt.

Stefndu telja málsatvikalýsingu ekki vera sannleikanum samkvæma. Þá séu kröfufjárhæðir í aðal- og varakröfu úr lausu lofti gripnar og ekki sönnun á meintu tjóni stefnanda. Sé þeim mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þrautavarakröfu um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar sé sérstaklega mótmælt þar sem ekkert hinna stefndu hafi tekið við greiðslu frá stefnanda geti því ekki orðið um endurgreiðslu til hans að ræða.

Stefndi vísar um kröfur sínar til almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

NIÐURSTAÐA

Ekki var gerður skriflegur samningur um kaup stefnda á Cadillac bifreiðinni. Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði ekki átt nein samskipti við stefndu fyrr en eftir að hann sótti bifreiðina í lok mars 2006 og fór til stefndu Ólafar Ingólfsdóttur til að fá undirskrift hennar á eyðublað vegna nýskráningar ökutækis, sem hún hafi neitað. Öll samskipti vegna kaupanna hafi fram að því verið í gegnum Bjarka Þór Clausen. Stefndi Hannes Ragnarsson sagði svo frá fyrir dóminum að hann hefði ekki verið í neinum viðskiptum við stefnanda. Hins vegar hefði hann rætt ýmsa möguleika varðandi sölu bifreiðarinnar við Bjarka Þór Clausen, aðallega um að Bjarki keypti bifreiðina sjálfur. Hannes kvað þær viðræður hafa farið fram eftir uppboðið á bifreiðinni.

Til stuðnings því að samningur hafi verið gerður hefur stefnandi lagt fram ýmis gögn. Meðal þeirra er tölvupóstur sendur frá Bjarka Þór Clausen 23. nóvember 2005, til stefndu Hilmars og Ólafar, á netfangið þeirra, gljufrasel@hive.is, þar sem segir í í heiti póstsins „hér er einn sem félagi minn gæti haft áhuga á“ og í bréfinu sjálfu, „á hvað heldurðu að væri ekki hægt að koma svona bíl heim. þeas eftir að búið er að leggja á skatta flutning og gjöld“. Einnig liggur frammi póstur með myndum af bifreiðinni sem sendur var úr netfangi stefndu til Bjarka 29. nóvember 2005. Í skeytum sem fóru á milli stefnanda og Bjarka, segir Bjarki meðal annars að bifreiðin verði komin til landsins fyrir minna en þrjár milljónir, og kveðst vera að bjóða stefnanda þennan „díl“, enga aukaálagningu á bílinn nema bara rétt fyrir kostnaði og vinnu í kringum innflutninginn. Bréfin sýna aðeins samskipti Bjarka og stefnanda en þykja ekki sýna fram á að samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefndu. Þá liggja frammi skeyti frá manni að nafni Andrei Kruk til Bjarka, annars vegar bréf frá 10. febrúar 2006 þar sem Andrei greinir frá númeri á gámi sem bifreiðin var í hjá Eimskipum, og hins vegar bréf dagsett 1. mars 2006 þar sem segir að von sé á bifreiðinni innan fárra daga, og hvert sé „tracking“ númer hennar. Andrei var ekki leiddur fyrir dóminn, og ekki er upplýst nákvæmlega hvernig hann tengist Hverfisbæ ehf. Þykir ekki vera unnt, gegn mótmælum stefnda, að leggja til grundvallar að þessi skilaboð hafi verið á vegum Hverfisbæjar. Að auki voru þau send Bjarka en ekki stefnanda. 

Lagt er fram skjal með lotunúmerum bifreiða og verði þeirra. Fyrir neðan er handskrifaður útreikningur, samlagning, þar sem talan 2.600.000 kemur fram. Stefndi, Hannes Ragnarsson, kvað vel geta verið að hann hefði reiknað þetta, en sagðist ekki muna í hvaða tilgangi það hefði verið. Bjarki Þór Clausen kvað Hannes hafa gefið sér upp verð á bifreiðinni, og sagt að hún yrði flutt inn fyrir minna en þrjár milljónir, að meðtöldum toll- og aðflutningsgjöldum. Hafi Hannes svo komið með fyrrgreint skjal til Bjarka og sýnt honum það, en á því væru lotunúmerin á bílunum ásamt útreikningi frá Hannesi þar sem hann hefði sjálfur skrifað að verðið yrði um það bil 2,6 milljónir. Kvaðst Bjarki hafa talið að samningur hefði komist á þegar Hilmar samþykkti þetta.

Tilgangur félagsins Hverfisbæjar ehf. er sem áður segir einkum sá að flytja inn notaða bíla til Íslands. Hannes kvaðst hafa verið starfsmaður Hverfisbæjar ehf. Ólöf kvað Hannes hafa séð um bifreiðaviðskiptin, sem starfsmaður hennar, og séð alfarið um viðskipti með þær bifreiðir sem hér um ræðir, Cadillac og Nissan, í umboði hennar.

Stefnandi byggir á því að munnlegur samningur hafi komist á milli aðilanna. Um það hvað rætt var stendur orð gegn orði. Handskrifaðir útreikningar frá Hannesi sýna ekki fram á tengsl hans og stefnanda, og sama á við um tölvupóst sem farið hefur á milli stefnanda og Bjarka Þórs Clausen sem og upplýsingar um bifreiðina frá Andrei Kruk til Bjarka. Greiðsla fyrir bifreiðina sem barst stefndu frá Bjarka þykir ekki taka af tvímæli um að svo hafi um samist að stefndu tækju verkið að sér fyrir stefnanda fyrir þá fjárhæð. Þótt fram komi að rætt hafi verið um kaup einhvers aðila, Bjarka eða félaga hans, á bifreiðinni, hefur stefnanda ekki tekist að sanna að stefndu hafi tekið verkefnið að sér fyrir hann. Er því aðal- og varakröfu stefnanda hafnað.

Stefnandi hefur lagt fram kvittun úr heimabanka fyrir millifærslu 5. desember 2005. Greiðandi er Bjarki og viðtakandi er stefnda Ólöf, en greiðslan nemur 1.686.000 krónum. Í reitnum „skýring færslu“, stendur „escalade“. Færslan er dagsett 5. desember 2005. Þá liggur frammi reikningsyfirlit yfir færslur í desember 2005 og janúar 2006, á þeim reikningi Ólafar Ingólfsdóttur sem greitt var inn á samkvæmt kvittuninni. Þar sjást eftirtaldar greiðslur frá Bjarka Þór Clausen: 5. desember eru færðar 1.686.000 krónur inn á reikninginn, 9. desember 950.000 krónur, 23. desember 100.000 krónur, og 27. desember 900.000 krónur. Á yfirliti þessu er ekki tiltekið að greiðslan sé vegna Escalade bifreiðar.

Því er haldið fram af hálfu stefndu að greiðsla á 1.686.000 krónum hafi verið vegna kaupa Bjarka Þórs á tveimur Nissan Infiniti bifreiðum af stefnda. Þessu til stuðnings leggja stefndu fram kaupleigusamning dagsettan 8. desember 2005 vegna annarrar bifreiðarinnar, KK-244, og fylgigögn með honum, og fylgigögn með kaupleigusamningi fyrir hina bifreiðina, TB-394. Samningarnir eru á milli SP-Fjármögnunar og Bjarka Þórs Clausen. Kaupleigusamningnum vegna KK-244 fylgir kaupsamningur og afsal sem er ódagsett en stimplað um samþykki SP-Fjármögnunar 12. desember 2005. Samkvæmt kaupsamningnum er Ólöf Ingólfsdóttir seljandi bifreiðarinnar, Bjarki Clausen umráðamaður og SP-Fjármögnun kaupandi, en undirritað er að kaupandi hafi staðið seljanda að fullu skil á andvirði ökutækisins og teljist löglegur eigandi þess.

Greiðslan frá Bjarka Þór til stefndu, 5. desember 2005, er 30.000 krónum hærri en kaupverð bifreiðarinnar, en hún fór fram sex dögum eftir að tilboðið var samþykkt. Ekkert í samningum um aðrar bifreiðar þykir sýna fram á að greiðslan hafi verið vegna þeirra. Þykir sú skýring, að stefndu hafi talið að um væri að ræða greiðslu vegna Nissan bifreiða, ekki vera sannfærandi, í ljósi þess sem hér að framan greinir, fjárhæð greiðslunnar, hvenær greitt var og viðræðnanna sem áttu sér stað vegna kaupa á Cadillac bifreiðinni. 

Það stóð stefndu nær að afla sér upplýsinga um það vegna hvers greiðslan var, hafi það ekki verið þeim ljóst, enda störfuðu þau við innflutning og sölu bifreiða og höfðu verið í viðræðum við Bjarka um hugsanleg kaup á bifreiðinni, þar sem félagi hans var meðal annars nefndur til sögunnar.

Eftir að stefnandi sótti bifreiðina hjá Eimskipum 29. mars 2006 fór hann til Ólafar Ingólfsdóttur til að fá undirritun hennar, þannig að unnt yrði að skrá bifreiðina. Af hálfu stefnanda voru stefndu send bréf, hið fyrsta 4. apríl 2006. Stefndu svöruðu ekki bréfum stefnanda. Upplýst er um samtal milli lögmanns stefnanda og Hannesar, um hvernig leysa skyldi málið, og viðurkenndi Hannes fyrir dómi að hafa átt það samtal. Stefndu mátti því vera ljóst að stefnandi teldi sig eiga í viðskiptum við þau en stefndu höfðu samkvæmt framansögðu mörg tækifæri til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að stefnandi tengdist greiðslunni ekki. Greitt var inn á reikning Ólafar Ingólfsdóttur, vegna Hverfisbæjar, en Hannes var umboðsmaður stefnanda, sbr. til hliðsjónar 4. gr. 1. gr. laga um neytendakaup 48/2003. Þykir stefnandi hafa sýnt fram á að greiðsla frá honum hafi borist á reikning stefndu Ólafar vegna Hverfisbæjar ehf. Verður því fallist á þrautavarakröfu stefnanda um að dæma stefndu in solidum til að endurgreiða stefnanda 1.686.000 krónur, með vöxtum frá þeim degi er mánuður var liðinn frá fyrsta bréfi stefnanda. 

Málskostnaður ákveðst 400.000 krónur.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

                Stefndu Hverfisbær ehf., Ólöf Kristín Ingólfsdóttir og Hannes Ragnarsson, greiði stefnanda, Hilmari Inga Jónssyni, in solidum 1.686.000 krónur með dráttarvöxtum frá 4. maí 2006 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.