Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
|
|
Mánudaginn 8. mars 2010. |
|
Nr. 108/2010. |
Guðný Kristrún Guðjónsdóttir (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. (enginn) |
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.
G höfðaði mál á hendur L ehf. til greiðslu skaðabóta. Undir rekstri málsins varð sátt með aðilum um að L ehf. greiddi G 3.740.000 krónur. Krafa G um málskostnað var lögð í úrskurð dómara sem úrskurðaði að L ehf. skyldi greiða G 4.000.000 krónur í málskostnað. G kærði þann úrskurð til Hæstaréttar þar sem hún taldi ágreiningsefni málsins ekki ráðið til lykta enda hafi þar ekki verið mælt fyrir um gjafsóknarkostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að legið hafi fyrir héraðsdómi að ákveða annars vegar fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns G, sem greidd yrði úr ríkissjóði, og hins vegar hversu mikið L ehf. bæri að greiða í ríkissjóð í málskostnað. Í stað þess að leysa á þennan hátt úr málinu hafi L ehf. verið gert að greiða G 4.000.000 krónur í málskostnað. Vegna þessa væru slíkir annmarkar á úrskurðinum að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem að öðru leyti var lokið með sátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði hrundið og mælt svo fyrir um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.“ Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 5. september 2008 og krafðist þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér aðallega 17.395.779 krónur en til vara 2.102.604 krónur, í báðum tilvikum með nánar tilteknum vöxtum frá 7. september 1998 til greiðsludags, svo og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða henni málskostnað án tillits til gjafsóknar, sem henni hafði verið veitt. Málið var þingfest 18. september 2008 en frestað síðan í níu skipti á reglulegu dómþingi þar til stefndi lagði loks fram greinargerð í þinghaldi 3. desember 2009. Í henni var því lýst yfir að samkomulag hafi tekist um að varnaraðili greiddi sóknaraðila samtals 3.620.408 krónur í skaðabætur með tilteknum vöxtum og að varnaraðili væri reiðubúinn til að greiða 3.500.000 krónur í málskostnað, en sóknaraðili teldi þá fjárhæð of lága. Málið var í framhaldi af þessu munnlega flutt um þetta ágreiningsefni, en með hinum kærða úrskurði var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 4.000.000 krónur í málskostnað.
Sóknaraðili lagði fram í héraði yfirlit um málskostnað sinn, sem var annars vegar útlagður kostnaður, aðallega vegna öflunar matsgerða, samtals að fjárhæð 2.628.107 krónur og hins vegar þóknun lögmanns hennar, sem reiknuð var eftir tímagjaldi fyrir samtals 147,75 vinnustundir, 2.357.550 krónur auk 601.175 króna í virðisaukaskatt. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að framangreindur útlagður kostnaður hafi þegar verið greiddur úr ríkissjóði og varnaraðili engar athugasemdir gert um fjárhæð hans.
Svo sem áður er getið naut sóknaraðili gjafsóknar í héraði. Af þeim sökum verður að skilja kröfugerð hennar í héraðsdómsstefnu þannig að hún hafi gert kröfu um að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða málskostnað í ríkissjóð, en ekki til hennar sjálfrar, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Í dómkröfu sóknaraðila um málskostnað án tillits til gjafsóknar fólst jafnframt krafa um að ákveðin yrði í dómi eða úrskurði fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hennar, sem greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 127. gr. sömu laga, en við úrlausn máls, sem gjafsókn hefur verið veitt í, taka dómstólar ekki afstöðu til fjárhæðar gjafsóknarkostnaðar að öðru leyti. Þegar máli þessu var um önnur atriði lokið með sátt viðurkenndi varnaraðili skyldu sína til að greiða málskostnað, en ágreiningur var um fjárhæð hans. Lá því fyrir héraðsdómi að ákveða annars vegar fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns sóknaraðila, sem greidd yrði úr ríkissjóði, og hins vegar hversu mikið varnaraðila bæri að greiða í ríkissjóð í málskostnað, þar sem tekið yrði eftir atvikum tillit bæði til þóknunarinnar að viðbættum virðisaukaskatti og útlagðs kostnaðar af málinu. Í stað þess að leysa á þennan hátt úr málinu var varnaraðila sem áður segir gert með hinum kærða úrskurði að greiða sóknaraðila 4.000.000 krónur í málskostnað. Vegna þessa eru slíkir annmarkar á úrskurðinum að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. janúar 2010, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 5. september 2008.
Stefnandi er Guðný Kristrún Guðjónsdóttir, kt. 210878-5999, Sólvallagötu 21, Reykjavík. Stefndi er Læknisfræðileg myndgreining, kt. 601092-2129, Egilsgötu 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 17.395.779 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. september 1998 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 2.102.604 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. september 1998 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnda líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. september 2008. Var málinu ítrekað frestað til framlagningar greinargerðar stefnda, vegna matsmála og síðast vegna sáttagerðar. Aðilar sættust á að stefndi greiddi stefnanda liðlega 3.740.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt skaðabótalögum. Því féll stefnandi frá dómkröfum sínum um annað en málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru að stefndi greiði stefnanda 3.500.000 krónur í málskostnað og að ekki verði dæmt um aðrar kröfur stefnanda en málskostnaðarkröfuna þar sem samkomulag hafi náðst um þær og þær séu greiddar.
Mál þetta var höfðað til greiðslu skaðabóta. Stefnandi reisti kröfu sína á að starfsmenn stefnda hafi gert mistök við framkvæmd segulómskoðunar á höfði stefnanda og úrvinnslu á myndum sem teknar voru 7. september 1998. Byggt er á því að mistökin hafi falist í að stefnda hafi látið farast fyrir að gefa stefnanda skuggaefni við myndatökuna. Tilgangur myndatökunnar hafi verið að leita heilaæxlis. Vísað er í yfirmatsgerð læknanna Guðjóns Baldurssonar, Ásmundar Brekkan og Einars Úlfarssonar um að vel mögulegt hefði verið að heilaæxli stefnanda hefði greinst við umrædda skoðun hefði skuggaefni verið notað. Með þessu hefðu starfsmenn stefnda gerst sekir um saknæm og ólögmæt mistök sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Afleiðingar þessa hafi verið þær að sjúkdómur stefnanda hafi ekki greinst fyrr en tæpum átta mánuðum síðar en verið hefði ef stefndi hefði viðhaft rétt vinnubrögð.
Við munnlegan málflutning um málskostnaðarkröfuna kvað lögmaður stefnanda boð stefnanda um 3.500.000 krónur í málskostnað of lágt. Fyrir liggi sundurliðað yfirlit yfir útlagðan kostnað vegna reksturs málsins allt frá árinu 2005 að fjárhæð 2.628.107 krónur. Með greiðslu skaðabóta í samræmi við síðustu matsgerðina hafi stefndi í raun viðurkennt bótaskyldu og beri því skylda til greiðslu málskostnaðar í samræmi við 130. gr. eml. Sérstaklega mikil vinna liggi í málinu af hálfu lögmanns stefnanda við að staðreyna réttarstöðu stefnda. Málið hafi kallað á mikla gagnaöflun, m.a. með samskiptum við embætti landlæknis og að 4 matsmál hafi verið rekin. Ekki sé ágreiningur um útlagðan kostnað að fjárhæð rúmlega 2,6 milljón króna en ágreiningur standi um málflutningsþóknunina.
Í greinargerð, kveður stefndi 3.500.000 krónur vera hæfilegan málskostnað, miðað við hagsmuni og umfang málsins og að teknu tilliti til niðurstöðu samanborið við stefnukröfur. Við munnlegan málflutning um málskostnaðarkröfuna lagði hann áherslu á að sú fjárhæð sem sæst hafi verið á sé aðeins tæp 14% af upphaflegri stefnufjárhæð. Þá mótmælti hann því að greiðslan fæli í sér viðurkenningu á bótaskyldu en kvað engan ágreining standa um útlagðan kostnað í málinu.
Þegar allt framangreint er virt og það hve sannanlega liggur mikil vinna að baki málinu af hálfu umboðsmanns stefnanda og hve sú vinna stóð yfir i langan tíma, þykir með vísan í 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr. og 4. mgr. 128. gr., málskostnaður hæfilega ákveðinn 4.000.000 kr.
Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattskyldu stefnanda þar sem ekki var gerð sérstök krafa þess efnis.
Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Stefndi, Læknisfræðileg myndgreining ehf., greiði stefnanda Guðnýju Kristrúnu Guðjónsdóttur, 4.000.000 krónur í málskostnað.