Hæstiréttur íslands

Mál nr. 176/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009.

Nr. 176/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.

Árni Á. Árnason hdl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.

X var gefið að sök að hafa í fjögur skipti þuklað innanklæða og utanklæða á brjóstum dótturdóttur sinnar, rassi hennar og kynfærum og að auki storkið í eitt skipti rass hennar utanklæða. Talið var að niðurstaða héraðsdóms um að sýkna X af sökum um að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar hlyti eðli málsins samkvæmt að vera reist á mati dómsins á sönnunargildi framburðar hennar gagnstætt neitun X á þeim sakargiftum. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gat Hæstiréttur ekki endurmetið þessa niðurstöðu til sakfellingar X og var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans því staðfest. Brot X voru talin varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar sem brotin voru í ákæru einvörðungu heimfærð til fyrrnefnda ákvæðisins var honum ekki dæmd refsing fyrir það síðarnefnda. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brotin beindust að ungu barnabarni X, sem ítrekað leitaði á heimili hans vegna bágra aðstæðna og vanlíðunar. Með brotum sínum misnotaði X gróflega þessar aðstæður og trúnaðartraust stúlkunnar. Var X gert að sæta fangelsi í 18 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist sakfellingar samkvæmt ákæru og að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum í 2. lið ákæru, en án tillits til þess krefst hann að refsing verði milduð og bundin skilorði.

Eftir uppsögu héraðsdóms hefur ákærði greitt skaðabætur til A og eru engar fjárkröfur á hendur honum hafðar uppi fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa í fjögur skipti þuklað innanklæða og utanklæða á brjóstum dótturdóttur sinnar, fyrrnefndrar A, sem fædd er 1994, rassi hennar og kynfærum, svo sem um ræðir í 1. lið ákæru, og að auki strokið í eitt skipti rass hennar utanklæða, sbr. 2. lið ákærunnar, en brot þessi hafi verið framin frá miðju ári 2005 til 1. janúar 2008. Fyrir héraðsdómi játaði ákærði þá háttsemi, sem greinir í 1. lið ákærunnar, að því frátöldu að hann neitaði að hafa þuklað á kynfærum stúlkunnar. Þá neitaði hann sök samkvæmt 2. lið ákærunnar. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þau brot, sem hann játaði samkvæmt 1. lið ákærunnar, svo og fyrir brot samkvæmt 2. lið. Niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ákærða af sökum um að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar hlýtur eðli máls samkvæmt að vera reist á mati dómsins á sönnunargildi framburðar hennar gagnstætt neitun ákærða á þeim sakargiftum. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið þessa niðurstöðu til sakfellingar ákærða eins og krafist er af hálfu ákæruvaldsins og kemur þar að engu haldi að í málinu liggur fyrir myndupptaka af skýrslugjöf stúlkunnar, enda er ekki tiltæk slík upptaka af skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi. Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið krafist ómerkingar héraðsdóms af þessum sökum. Að því virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða staðfest, þar á meðal um sakir samkvæmt 2. lið ákæru. Brot ákærða varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en þar sem brotin eru í ákæru einvörðungu heimfærð til fyrrnefnda ákvæðisins verður honum ekki dæmd refsing fyrir það síðarnefnda, sbr. c. lið 152. gr. og 180. gr. laga nr. 88/2008.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að brotin beindust að ungu barnabarni hans, sem hann hefur sjálfur lýst fyrir héraðsdómi að hafi ítrekað leitað á heimili hans vegna bágra aðstæðna og vanlíðunar, sem hafi valdið því að hún vildi helst ekki dveljast heima hjá sér. Með brotum sínum misnotaði ákærði gróflega þessar aðstæður og trúnaðartraust stúlkunnar. Fyrir liggur að brot ákærða hafa haft veruleg áhrif á andlega líðan stúlkunnar. Engu getur breytt að ákærði hefur nú greitt henni skaðabætur, sem hann var dæmdur til í héraði, enda krafðist hann fyrir héraðsdómi að þeirri kröfu yrði vísað frá og við áfrýjun dómsins að bætur yrðu lækkaðar verulega. Þá verður og að líta til þess að eins og málið liggur fyrir er ósannað að önnur brot ákærða en það, sem um ræðir í 2. lið ákæru, hafi verið framin eftir 3. apríl 2007, þegar lög nr. 61/2007 tóku gildi, en með 9. gr. þeirra var breytt til hækkunar refsimörkum 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu öllu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.

Með því að ákærði hefur greitt bætur til brotaþola og hún fallið frá kröfu sinni verður hann sýknaður af þeirri kröfu.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða og réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en greiðslu skaðabóta og er ákærði, X, sýkn af kröfu um þær.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 457.512 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

Sératkvæði

Árna Kolbeinssonar og Gunnlaugs Claessen

Við erum sammála meirihluta dómenda um annað en refsingu ákærða. Er staðfest sú niðurstaða að sýkna ákærða af þeim sakargiftum í 1. lið ákæru að hafa þuklað á kynfærum dótturdóttur sinnar. Eftir stendur sakfelling fyrir að hafa frá miðju ári 2005 til janúar 2008 í fimm skipti þuklað á öðrum líkamshlutum hennar, eins og nánar greinir í héraðsdómi.

Til þess verður litið að refsingar fyrir kynferðisbrot hafa almennt verið að þyngjast í dómum Hæstaréttar á síðustu árum. Það á einnig við um brot gegn 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og henni var breytt með 9. grein laga nr. 61/2007. Óumdeilt er að hið síðasta af brotum ákærða var framið nærri áramótum 2007-2008 og þar með eftir gildistöku yngri laganna í apríl 2007. Jafnframt má ráða að hann hafi í fyrsta sinn brotið gegn stúlkunni 2005, en ekkert er fram komið um tímamark hinna brotanna. Sjálfur telur ákærði langt vera um liðið frá þeim og að þau hafi orðið meðan eldri lögin enn giltu. Vafi um þetta verður metinn ákærða til hags, sem ekki verður ráðið af forsendum héraðsdóms að hafi verið gert þar við ákvörðun refsingar. Að því er varðar dómaframkvæmd Hæstaréttar á allra síðustu árum komast atvik og ákæruefni í máli nr. 475/2003 næst að vera því sambærileg, sem er í þessu máli, þótt brot hafi verið alvarlegri í hinu eldra máli, en dómur í því var kveðinn upp 6. maí 2004 og birtur á bls. 1997 í dómasafni það ár. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, teljum við refsingu ákærða vera hæfilega ákveðna fangelsi í 15 mánuði. Ekki eru efni til að binda refsinguna skilorði að neinu leyti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2009.

I

                Málið, sem dómtekið var 12. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 2. desember 2008 á hendur „X, kennitala […],[…][…], fyrir kynferðisbrot, gagnvart dótturdóttur sinni A, fæddri árið 1994, á ofangreindu heimili hans, frá miðju ári 2005 til 1. janúar 2008, með því að hafa:

1.                   Í fjögur skipti þuklað innan- og utanklæða á brjóstum hennar, rassi og kynfærum.

2.                   Í eitt skipti strokið rass hennar utanklæða. 

Telst háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992, 2. gr. laga nr. 40/2003 og 9. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu B, kt. […] og C, kt. […], vegna ólögráða A, kt. […], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.“

Ákærði neitar að hafa þuklað kynfæri brotaþola. Þá neitar hann að hafa strokið rass brotaþola í kynferðislegum tilgangi eins og hann er ákærður fyrir í 2. lið ákæru.  Hann hefur játað sök að öðru leyti.  Hann krefst vægustu refsingar.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.  Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

                Málavextir eru þeir að með bréfi 6. maí 2008 óskaði barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar eftir lögreglurannsókn vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart framangreindum brotaþola.  Í bréfinu kemur fram að brotaþoli hafi greint móður sinni frá því að ákærði, sem er móðurafi hennar, hafi áreitt sig kynferðislega sumarið 2006 á framangreindu heimili hans og ömmu hennar.  Þá kom og fram í bréfinu að brotþoli lægi á barna- og unglingageðdeild í kjölfar sjálfsvígstilraunar.

                Tekin var lögregluskýrsla af móður brotaþola 14. maí og kvað hún dóttur sína hafa sagt sér að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega sumarið 2006.  Nánar kvað hún hann hafa strokið henni yfir bakið og brjóstin.  Móðirin kvað dóttur sína hafa átt erfitt síðastliðin 4 ár, henni hafi liðið illa í skóla auk annars.  Þegar hún sagði móður sinni frá þessu sagðist hún líka hafa ætlað að taka inn svefntöflur til að stytta sér aldur.  Í framhaldinu kvaðst móðirin hafa haft samband við skólasálfræðing sem hafi komið henni á geðdeild.

                Tekin var skýrsla af brotaþola fyrir dómi 23. maí 2008 og verða nú meginatriði hennar rakin.  Brotaþoli skýrði frá því að sumarið sem hún var 10 ára hefði hún verið hjá ákærða á heimili hans en amma hennar hefði verið úti á landi.  Hann hefði sofnað og beðið hana að vekja sig á tilteknum tíma.  Hún kvaðst hafa farið inn í herbergi hans þar sem hann lá í rúminu.  Hann hefði teygt hönd sína í áttina að henni og spurt nennir þú að toga mig upp?  Ákærði hefði svo togað hana niður til sín og farið höndum um hana innan klæða og strokið brjóst, rass og kynfæri þar sem hún lá í rúminu hjá honum.  Brotaþoli kvaðst hafa verið klædd í íþróttabuxur, peysu og bol og hafa verið í nærfötum.  Í annað skipti hefði ákærði þuklað hana á sama hátt og þá inni í herbergi sem hún gisti í.  Í það sinn kvaðst hún hafa haldið höndunum að brjóstunum til að hindra hann í að káfa á þeim.  Eftir þessi skipti gerðist þetta oftar og tilgreindi brotaþoli að eina nóttina hefði hún vaknað og farið fram og var þá ákærði þar.  Hann hefði knúsað sig og káfað á rassinum á henni en ekki farið inn á hana.  Brotaþoli kvað ákærða hafa káfað á sér í hvert skipti sem hún dvaldi hjá honum og hefði það verið að minnsta kosti 5 sinnum og í öll skiptin hefði hann snert hana bókstaflega allsstaðar eins og hún orðaði það.  Ítrekað spurð kvað hún ákærða alltaf hafa strokið sér um maga brjóst og kynfæri undir fötum hennar.  Síðast hefði þetta gerst um áramótin 2007/2008. 

                Meðal gagna málsins er skýrsla Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans frá 12. júní 2008.  Þar segir meðal annars að brotaþoli hafi lent í einelti 4 árum áður og upp frá því verið með depurðar- og kvíðaeinkenni.  Brotaþoli hafi skipt um skóla, síðast haustið 2007, enda fannst foreldrum hennar skólinn ekki taka nægjanlega vel á eineltinu.  Í ársbyrjun 2008 leitaði brotaþoli til geðlæknis sem setti hana á lyf.  Ástand hennar lagaðist í byrjun en versnaði svo aftur.  Hún var svo lögð á deildina eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af svefnlyfjum.  Skýrsla þessi er samin af barna- og unglingageðlækni, félagsráðgjafa, sálfræðingi og hjúkrunarfræðingi.  Í umsögn sálfræðingsins er lýst ástandi brotaþola og kemur þar fram að hún eigi við svefnerfiðleika að stríða, hún sé döpur, finni fyrir geðsveiflum og líkamlegri spennu.  Vanlíðan hennar endurspeglist í neikvæðu skapi og óyndi auk þess sem hún sé óvirk.  Hins vegar hafi hún verið tilbúin að vinna með líðan sína, en það hafi reynst erfitt þegar kom að því að vinna úr áfallinu sem hún varð fyrir.              

                Í vottorði barna- og unglingageðlæknis frá 31. desember síðastliðinn segir að brotaþoli hafi útskrifast af sjúkrahúsinu 12. júní 2008 en verið í göngudeildarmeðferð síðan.  Til viðbótar því sem segir í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að brotaþoli dvelji nú í öðrum bæ og sæki þar skóla.  Hún sé á lyfjum vegna þunglyndis, kvíða og áfallastreitueinkenna auk þess að taka lyf við svefnleysi.  Í lok vottorðsins segir að brotaþoli eigi „við mikinn vanda að stríða og þarf áframhaldandi meðferð, stuðning og viðtöl til að vinna með lágt sjálfsmat, áfallastreitu, kvíða og félagslega erfiðleika.  Rannsóknir hafa sýnt að þeir einstaklingar sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi eiga oft í langtíma erfiðleikum, farnast verra í lífinu og þurfa stuðning til lengri tíma.“

                Þá er meðal gagna málsins vottorð geðlæknis ákærða frá 9. febrúar síðastliðnum.  Þar kemur fram að hann hafi lagst inn á geðdeild í maí 2008 í kjölfar sjálfsvígstilraunar.  Eftir það hafi hann verið undir læknishöndum og sálfræðings vegna sjálfsvígshugsana og þunglyndis.  Hann taki nú lyf við þunglyndi og kvíða og muni enn um sinn þurfa að taka þau og ganga til sálfræðings.

III

                Við aðalmeðferð játaði ákærði sök samkvæmt 1. ákærulið nema að hafa þuklað kynfæri brotaþola, það hefði hann aldrei gert.  Þá viðurkenndi hann að hafa strokið rass hennar eins og hann er ákærður fyrir í 2. lið en það hafi ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi.  Þetta hefði gerst með þeim hætti að hann hefði verið vakandi um nótt er brotaþoli hefði einnig vaknað og sest í fangið á sér.  Hún hefði sagst hafa haft erfiðar draumfarir og hann huggað hana.  Hann viðurkenndi að hafa strokið brotaþola innklæða eins og lýst er í 1. lið ákæru og taldi hana þá hafa verið 11 ára og ekki verið orðna kynþroska.  Hún hefði ekki verið komin með brjóst.  Þá rengdi hann ekki að þetta hefði gerst í þau skipti sem getur í ákæru.  Varðandi 2. ákærulið þá ítrekaði ákærði að þetta hefði ekki verið í kynferðislegum tilgangi, hafi brotaþoli túlkað það þannig hafi það verið misskilningur hjá henni. 

                Móðir brotaþola bar að hún hefði sagt sér í apríl 2008 að ákærði hefði farið illa með sig.  Þetta gerðist eftir að brotaþoli hafði reynt að stytta sér aldur.  Eftir þetta var brotaþoli lögð inn á geðdeild og sagði starfsfólki þar ítarlegar frá þessu og það sagði móðurinni.  Móðirin kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði káfað á sér fyrir um það bil 2 árum á heimili hans.  Ákærði hefði káfað á brjóstum og rassi og komið við kynfærin.  Móðirin kvaðst strax hafa trúað brotaþola, enda þekkti hún viðbrögð hjá henni sem líktust viðbrögðum hennar sjálfrar þegar hún lenti sjálf í misnotkun af hálfu ákærða þegar hún var ung.  Hún kvað brotaþola hafa liðið mjög illa og væri enn illa haldin.  Brotaþoli hefði farið að heiman og væri í skóla í öðrum bæ.  Móðirin kvað brotaþola hafa lent í einelti áður en þetta gerðist og einangrast félagslega. 

                Dagbjörg Birna Sigurðardóttir geðlæknir staðfesti vottorð sem að framan var rakið.  Hún kvaðst hafa annast um brotaþola frá því í apríl 2008 er hún lagðist inn á geðdeild.  Geðlæknirinn kvað brotaþola greinda með þunglyndi og áfallastreituröskun.  Þá staðfesti hún að brotaþoli hefði lent í einelti og hefði það valdið því að áfallastreitueinkennin urðu verri.  Brotaþoli þyrfti nú á lyfjum að halda og búast mætti við að hún, eins og þeir sem lentu í áföllum sem þessum, myndi bera þess merki ævina út og eiga í vanda með samskipti við aðra og eins í skóla og vinnu.

                Guðlaug María Júlíusdóttir félagsráðgjafi á barna- og unglingageðdeild, hefur annast um málefni brotaþola og staðfesti vottorð sem hún vann í málinu ásamt öðrum.  Hún bar að brotaþoli fengi kvíðaköst en henni liði samt mun betur en fyrir ári síðan svo dæmi sé tekið.

                María Gunnarsdóttir sálfræðingur á barna- og unglingageðdeild, hefur annast um brotaþola og bar að brotaþoli hefði lítið vilja ræða það sem komið hefði fyrir.  Þetta væri dæmigert einkenni þeirra sem verða fyrir áfallastreitu, þeir vilji ekki ræða það sem kom fyrir.  Þó hefði hún skýrt sér frá því að einu sinni hefði hún vakið afa sinn og hefði hann þá þreifað á sér innanklæða.  María kvað brotaþola hafa verið kvíðna, dapra og með sjálfsvígshugsanir.  Hún kvað það sitt mat að líðan brotaþola megi rekja til þess sem kom fyrir hana.  Þá eigi brotaþoli í raun eftir að vinna úr því sem kom fyrir hana.

IV

                Ákærði hefur viðurkennt að hafa þuklað brotaþola eins og honum er gefið að sök í 1. lið ákærunnar, nema hvað hann hefur neitað að hafa þuklað kynfæri hennar.  Framburður brotaþola um að ákærði hafi þuklað kynfæri hennar styðst ekki við önnur gögn og, gegn neitun ákærða, er það því ósannað.  Ákærði hefur og viðurkennt að hafa strokið rass brotaþola eins og honum er gefið að sök í 2. lið.  Í ljósi þess sem komið hefur fram um athafnir ákærða gagnvart brotaþola er ekki hægt að líta öðru vísi á en að það hafi haft kynferðislega merkingu þegar hann strauk rass brotaþola.  Verður ákærði því sakfelldur fyrir þennan ákærulið hvað svo sem líður framburði hans um að það hafi ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi.

                Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ákærði sakfelldur fyrir annað en að þukla kynfæri brotaþola. Brot hans er rétt fært til refsiákvæða í ákæru.  Við ákvörðun refsingar ákærða verður að hafa í huga að honum er gefið að sök að hafa framið brotin á tímabilinu frá miðju ári 2005 til 1. janúar 2008.  Lög nr. 61/2007 sem þyngdu refsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga tóku gildi 3. apríl það ár og með því að það verður helst ráðið af framburði brotaþola að hluti brotanna hafi verið framinn fyrir þann tíma verður að hafa það til hliðsjónar þegar refsing ákærða er ákveðin. Honum hefur ekki áður verið refsað og er refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir gróft trúnaðarbrot gagnvart dótturdóttur sinni og getur ekki komið til álita að skilorðsbinda refsinguna.

Með háttsemi sinni hefur ákærði bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Skaðabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og verður ákærði dæmdur til að greiða þær með vöxtum eins og segir í dómsorði.  Ákærða var birt bótakrafan 20. júní 2008 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar eru liðnir frá þeim degi.  Loks skal ákærði greiða sakarkostnað, laun verjanda síns og réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og við dómsmeðferð eins og segir í dómsorði.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Guðjón St. Marteinsson og Hervör Þorvaldsdóttir.

Dómsorð

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

                Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2008 til 20. júlí sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 31.750 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 295.314 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Herdísar Hallmarsdóttur hrl., 167.328 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.