Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Kröfulýsing
|
|
Föstudaginn 30. mars 2012. |
|
Nr. 150/2012.
|
HSH Nordbank AG (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Anton B. Markússon hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Kröfulýsing.
Með svonefndum sambankalánssamningi veitti K hf. lán til fáeinna aðila, þ. á m. H. Lýsti H kröfu við slit K hf. á grundvelli samningsins. Deila aðila laut að því hvort H hefði lýst nægilega tilteknum hluta kröfunnar um vexti, er hafði verið bætt við höfuðstól hennar í kröfulýsingunni. Hæstiréttur taldi að þótt H hefði orðið það á að lýsa hluta vaxtanna með höfuðstól kröfunnar teldist hann hafa uppfyllt lagaskilyrði um efni kröfulýsingarinnar. Var krafa hans því viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. mars 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á hluta kröfu hans við slit varnaraðila en staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að kröfu sóknaraðila að fjárhæð 2.542.441.367 krónur, vegna lánssamnings EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement 15. desember 2006, skyldi skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laganna. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans samkvæmt nefndum lánssamningi að fjárhæð 2.604.981.409 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort sóknaraðili hafi lýst nægilega hluta kröfu sinnar að fjárhæð 62.540.041 króna við slit varnaraðila, en ágreiningslaust er með aðilum að þessi hluti kröfunnar felst í vöxtum fyrir 22. apríl 2009 en var fyrir mistök sóknaraðila bætt við höfuðstól kröfu hans í kröfulýsingunni.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið svo á að í kröfulýsingu skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem „fjárhæð kröfu og vaxta í krónum.“ Þó að sóknaraðila hafi orðið það á við kröfulýsingu sína að lýsa fyrrgreindum hluta vaxtanna ósundurgreint með höfuðstól kröfunnar án þess að greina sérstaklega fjárhæð þeirra í heildarfjárhæðinni verður allt að einu talið að hann hafi uppfyllt kröfu laganna um efni kröfulýsingarinnar.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og krafa sóknaraðila viðurkennd við slit varnaraðila með þeirri fjárhæð sem hann krefst og skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Um málskostnað í héraði og kærumálskostnað fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Krafa sóknaraðila, HSH Nordbank AG, samkvæmt lánssamningi EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement 15. desember 2006, að fjárhæð 2.604.981.409 krónur er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Kaupþings hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012.
Mál þetta var þingfest 23. júní 2011 og tekið til úrskurðar 19. janúar sl.
Sóknaraðili er HSH Nordbank AG, Copenhagen Branch, Kalvebod Brygge 39-41, Kaupmannahöfn, Danmörku.
Varnaraðili er Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 2.604.981.409 kr. verði viðurkennd að fullu við slitameðferð varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að viðurkenna kröfu sóknaraðila vegna lánasamningsins EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement, dagsetts 15. desember 2006, að fjárhæð 2.542.441.367 krónur, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
I
Þann 9. október 2008 ákvað Fjármálaráðuneytið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa bankanum skilanefnd í samræmi við ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Upphafsdagur slitameðferðar var 22. apríl 2009. Varnaraðili gaf út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu fyrir slitastjórn Kaupþings banka og var hún móttekin 29. desember 2009. Krafan byggist á lánasamningi, EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement, dagsettum 15. desember 2006. Um er að ræða svokallað sambankalán þar sem varnaraðili var lántaki en sóknaraðili einn af fleiri lánveitendum. Í kröfulýsingu sóknaraðila er krafan sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
Höfuðstóll: 15.369.556,47 evrur.
Vextir fyrir 22. apríl 2009: 13.307,39 evrur.
Dráttarvextir fyrir 22. apríl 2009: 9.146,35 evrur.
Kostnaður fyrir 22. apríl 2009: 883,1 sterlingspund og 134,6 evrur. ( Lýst fjárhæð 883,1 sterlingspund er umreiknuð í evrur og jafngildir 997,12 evrum. Heildarfjárhæð umkrafins kostnaðar fyrir 22. apríl 2009 er því 1.131,72 evrur).
Heildarfjárhæð lýstrar kröfu sóknaraðila er 15.393.141,93 evrur. Lýst krafa umreiknuð í íslenskar krónur er 2.604.981.409 krónur miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands við upphafsdag slitameðferðar 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Skráð sölugengi á evru var 169,23 krónur og á sterlingspundi 191,08 krónur.
Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 18. ágúst 2010, var sóknaraðila tilkynnt um að krafan væri viðurkennd að fjárhæð 2.540.702.010 krónur á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila og í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 var haldinn fundur til jöfnunar ágreinings um kröfuna 15. mars 2011. Á fundinum tilkynnti varnaraðili um breytta afstöðu til kröfunnar. Til viðbótar þegar samþykktri kröfu viðurkenndi slitastjórn varnaraðila kröfu um umkrafinn samningsbundinn kostnað að fjárhæð 191.521 króna (1.131,72 evrur). Heildarfjárhæð viðurkenndrar kröfu hækkaði sem þessu nam í 2.542.441.367 krónur.
Afstaða slitastjórnar varnaraðila til lýstrar kröfu sóknaraðila sundurliðast með eftirfarandi hætti:
Höfuðstóll: 15.000.000 evrur (2.538.450.000 krónur).
Vextir fyrir 22. apríl 2009: 13.307,39 evrur (2.252.009 krónur).
Dráttarvextir fyrir 22. apríl 2009: 9.146,35 evrur (1.547.837 krónur).
Kostnaður fyrir 22. apríl 2009: 1.131,72 evrur (191.521 króna).
Samtals: 15.023.585,46 evrur (2.542.441.367 krónur).
Þar sem ekki náðist að jafna þann ágreining sem enn stóð um kröfu sóknaraðila var ágreiningsmálinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991, með bréfi 9. maí 2011, mótteknu 10. sama mánaðar.
II
Sóknaraðili kveður kröfu sína byggjast á sambankalánsamningi (Revolving Credit Facility Agreement) á milli málsaðila, dagsettum 15. desember 2006, að fjárhæð 530.000.000 evra, þar sem sóknaraðili hafi verið einn af mörgum lánveitendum og varnaraðili hafi verið lántaki. Þann 15. desember 2009 hafi sóknaraðili lýst kröfu í þrotabú Kaupþings samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í kröfulýsingunni komi fram að heildarfjárhæð kröfunnar sé 15.392.144,81 evra og 883,1 sterlingspund.
Ágreiningur aðila í málinu varði einungis það hvernig heildarkrafa sóknaraðila sé sundurliðuð í kröfulýsingu. Nánar tiltekið hvort viðurkenna beri tiltekinn hluta af kröfu sóknaraðila sem merktur hafi verið sem „höfuðstóll“ í kröfulýsingu, en myndi raunar hluta af kröfu sóknaraðila um áfallna vexti. Þessi hluti vaxtakröfunnar sé að fjárhæð 369.555,47 evrur og fjárhæðinni réttilega lýst, líkt og öðrum hlutum kröfunnar.
Óumdeilt sé á milli aðila málsins að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna höfuðstóls og vaxta. Slitastjórn hafi viðurkennt sem almenna kröfu við slitameðferðina höfuðstól kröfu sóknaraðila ásamt hluta samningsvaxta sem og kröfu um dráttarvexti til og með upphafs slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009, auk kostnaðar til frestdags 15. nóvember 2008, að fjárhæð 2.542.441.367 krónur. Samkvæmt ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi fjárhæð kröfu sóknaraðila verið færð til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands á krónunni við upphafsdag slitameðferðar þann 22. apríl 2009 gagnvart evru 169,23 og gagnvart sterlingspundi 191,08. Afstaða slitastjórnar til viðurkenningar á kröfu sóknaraðila hafi sundurliðast með eftirfarandi hætti:
a. Höfuðstóll: 2.538.450.000 krónur (15.000.000 evra).
b. Vextir: Samningsvextir til 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.252.096 krónur (13.307,39 evrur) og dráttarvextir til 22. apríl 2009 að fjárhæð 1.547.867 krónur (9.146,35 evrur).
c. Kostnaður: Kostnaður til frestdags 15. nóvember 2008 að fjárhæð 168.743 krónur (883,1 sterlingspund) og 22.778 krónur (134,6 evrur).
Sóknaraðili haldi því fram að upphæð sú sem viðurkennd sé af slitastjórn sé ekki rétt. Slitastjórn hafi hafnað hluta af heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila og sé þar um að ræða hluta kröfu sóknaraðila um áfallna vexti til upphafs slitameðferðar hinn 22. apríl 2009. Slitastjórn hafi hins vegar samþykkt áfallna vexti á sama tímabili, en lægri fjárhæð en þeirrar fjárhæðar sem sóknaraðili krefjist líkt og fram komi í kröfulýsingu sóknaraðila sem og sundurliðuðum útreikningum sem henni fylgi. Ágreiningurinn snúist, í einföldu máli, um það hvort heildarvaxtakröfu sóknaraðila hafi verið lýst með fullnægjandi hætti við slitameðferðina.
Sóknaraðili krefjist þess að fjárhæð kröfunnar, 2.604.981.409 krónur, verði viðurkennd að fullu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á hendur Kaupþingi. Heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila sé tiltekin í kröfulýsingu sóknaraðila og sé krafan studd sundurliðuðum útreikningum henni til stuðnings frá ING Bank N.V., umsýslubanka lánveitingarinnar, sem grundvallist á sambankalánssamningnum, auk viðbótarskýringa henni til fullnaðar í bréfi sóknaraðila til slitastjórnar 31. mars 2011.
Samsetning dómkröfu sóknaraðila, sem lýst hafi verið sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sé útskýrð í eftirfarandi sundurliðun:
(i) Höfuðstóll kröfu sóknaraðila nemi 15.000.000 evra og samanstandi hann af hlutfalli sóknaraðila í heildarlánveitingu á grundvelli sambankalánsamningsins. Þessi fjárhæð sé óumdeild í málinu, enda hafi slitastjórn samþykkt hana.
(ii) Krafa sóknaraðila um áfallna vexti til 22. apríl 2009 sé að fjárhæð 382.863,86 evrur. Fjárhæð kröfu um dráttarvexti til 22. apríl 2009 sé 9.146,35 evrur. Slitastjórn hafi samþykkt dráttarvexti að öllu leyti, en einungis hluta af kröfunni um almenna vexti.
(iii) Sóknaraðili krefjist kostnaðar að upphæð 883,1 sterlingspund og 134,6 evrur, sem samanstandi af lögfræðikostnaði og útgjöldum sem fallið hafi til í tengslum við fall varnaraðila og vegna undirbúnings á og innheimtu kröfu sóknaraðila.
(iv) Í samræmi við ofangreint sé fjárhæð dómkröfu sóknaraðila eftirfarandi:
(15.000.000 + 382.863,86 + 9146,35 + 134,6 evrur) * 169,23) + (883,1 sterlingspund * 191,08) => 2.604.812.666,19 krónur + 168.742,748 krónur = 2.604.981.409 krónur.
(v) Í ofanálag bætist krafa sóknaraðila um málskostnað, auk virðisaukaskatts af málskostnaði.
Sem fyrr segi hafi slitastjórn samþykkt kröfu vegna sjálfs höfuðstóls lánsins, að fjárhæð 15.000.000 evra. Um þessa fjárhæð sé ekki deilt í málinu. Sóknaraðili haldi því fram að krafa um áfallna vexti að fjárhæð 382.863,86 evrur, eða 64.792.051 króna, eigi fullan rétt á sér og að hana beri að viðurkenna að öllu leyti við slitameðferð varnaraðila. Skilmálar sambankalánssamningsins séu skýrir og kveði berum orðum á um þessa niðurstöðu.
Afstaða slitastjórnar til kröfu sóknaraðila sé að hafna hluta kröfu hans um áfallna vexti á þeim grundvelli að kröfunni hafi ekki verið lýst réttilega. Sóknaraðili telji afstöðu slitastjórnarinnar ekki eiga sér stoð í lögum.
Heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila í kröfulýsingu hans feli meðal annars í sér kröfu hans um áfallna vexti samkvæmt skilmálum sambankalánssamningsins, sbr. 9.-11. lið samningsins, til upphafsdags slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009. Krafan er studd við þau skjöl sem kröfulýsingunni fylgi. Þannig komi fram í bréfi sóknaraðila til slitastjórnar að krafan sé að fjárhæð 15.392.010,21 evra við upphaf slitameðferðar 22. apríl 2009. Sú fjárhæð hafi verið studd upplýsingum og staðfestingu umsýslubankans ING Bank N.V., þar sem fram komi að krafa sóknaraðila nemi þeirri fjárhæð. Með bréfi umsýslubankans hafi fylgt útreikningar á kröfu sóknaraðila.
Í skýringum slitastjórnar fyrir afstöðu til vaxtakröfu sóknaraðila hafi komið fram að töluvert hærri fjárhæð sé lýst í höfuðstólsreit kröfulýsingarformsins en sem samsvari þátttöku sóknaraðila í lánveitingu á grundvelli sambankalánssamningsins. Jafnframt hafi komið fram að grunur leiki á því að sá mismunur kunni að skýrast af því að mögulega hafi vöxtum jafnframt verið lýst með höfuðstólsfjárhæðinni.
Í kröfulýsingu hafi kröfu um áfallna vexti verið skipt í tvennt. Fjárhæðin 369.556,47 evrur hafi verið lögð við höfuðstól lánsins (15.000.000 evra) og birst í tilteknum reit í kröfulýsingareyðublaði útgefnu af slitastjórn varnaraðila merktum „höfuðstóll“. Fjárhæðin 13.307,39 evrur komi síðan fram í öðrum reit, sem merktur sé „vextir“. Einungis hin síðargreinda fjárhæð hafi verið samþykkt af slitastjórn í stað heildarkröfu sóknaraðila um vexti líkt og hér að ofan greini frá, en af skýringum slitastjórnar megi ráða að slitastjórn líti svo á að um augljósa villu sé að ræða, þ.e. að sóknaraðili hafi lagt hluta vaxtakröfu sinnar saman við þá fjárhæð sem nemi höfuðstól lánsins í viðkomandi reit eyðublaðsins. Sóknaraðili byggi á því að þegar af þeirri ástæðu beri að viðurkenna heildarfjárhæð kröfu hans og þar með heildarkröfu um áfallna vexti.
Það sé hlutverk slitastjórnar að taka afstöðu til krafna á hendur búinu og í því felist meðal annars að endurreikna fjárhæðir sem kröfuhafar hafi lýst til að ganga úr skugga um að viðurkenndar séu réttar fjárhæðir krafna gagnvart búinu. Misræmi hafi verið á milli útreikninga slitastjórnar annars vegar og hins vegar umsýslubankans ING Bank N.V., sem fylgt hafi með kröfulýsingu sóknaraðila. Í skýringum slitastjórnar komi fram að slitastjórn reiknist svo til að sóknaraðili eigi rétt á hærri fjárhæð en þeirri sem fram komi í kröfulýsingarformi hans, eða 402.187,67 evrum í stað 382.863,86 evra.
Af framangreindri ástæðu og að beiðni sóknaraðila hafi slitastjórn gefið sóknaraðila kost á að veita nánari útskýringu á kröfu sinni um áfallna vexti á jöfnunarfundi 15. mars 2011. Sóknaraðili hafi gert það skilmerkilega og til fullnaðar kröfu sinni með skriflegum hætti. Sú tilhögun fari ekki í bága við ákvæði 117. gr. eða XVIII. kafla laga nr. 21/1991, þannig að óheimilt sé að taka kröfuna að öllu leyti til greina við búskiptin enda sé þar hvergi loku fyrir það skotið að kröfuhafar útskýri efni kröfulýsingar sinnar með frekari hætti eftir að kröfulýsingarfresti sé lokið. Sóknaraðili byggi á því að hann hafi lýst heildarkröfu sinni með fullnægjandi hætti strax í upphafi og hafi síðar gert slitastjórn nánar grein fyrir því hvernig sú heildarfjárhæð sem fram komi í kröfulýsingarforminu reiknist. Því beri að viðurkenna kröfu um áfallna vexti að öllu leyti.
Sóknaraðili vísi til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fram komi að sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra, eða slitastjórn eins og í tilviki varnaraðila. Þá sé í 2. mgr. ákvæðisins greint frá því að kröfulýsing skuli vera skrifleg og hvað skuli þar koma fram. Í 3. mgr. ákvæðisins komi fram að þau gögn skuli fylgja kröfulýsingu sem kröfur séu studdar við. Sóknaraðili byggi á því að tilgangur 117. gr. laga nr. 21/1991 sé að tryggja að kröfuhafar lýsi kröfum sínum fyrir lokafrest og greini þar frá fjárhæð kröfu sinnar og hverrar rétthæðar þeir telji að kröfur skuli njóta, til að slitastjórn viti hverjar kröfur eru í búið og tryggja þannig tímanlega og skjóta afgreiðslu krafna í búið. Af dómafordæmum Hæstaréttar megi ráða að ákvæðið skuli túlkað á þann veg að lánardrottinn skuli gæta þess að tilgreina alla fjárhæð kröfu sinnar og hvort krafist sé forgangs fyrir henni samkvæmt ákvæðum 109.-112. gr. laga nr. 21/1991, ella gæti gætt vanlýsingaráhrifa gagnvart þrotabúi. Sóknaraðili byggi á því að slíkra áhrifa gæti ekki hvað varðar kröfu hans, þar með talda kröfu um áfallna vexti, enda hafi hann skýrlega tiltekið í kröfulýsingu sinni hver heildarfjárhæð kröfunnar sé og tekið fram að hún skyldi njóta réttarstöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Enn fremur virðist slitastjórn einungis gera athugasemd við það hvernig heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila sé sundurliðuð en ráða megi af útskýringum slitastjórnar að henni hafi verið fullljóst hvernig krafan hafi verið sett fram. Þannig leitist slitastjórn ekki eftir því að komast að réttri niðurstöðu um fjárhæð kröfu sóknaraðila, en beri þess í stað fyrir sig að sundurliðun kröfunnar sé ekki fullnægjandi. Sóknaraðili byggi á því að engin grundvöllur sé fyrir þessari afstöðu, enda sé engin lagaheimild fyrir því að hafna kröfu af þessum sökum og að kröfuhöfum sé þvert á móti veitt talsvert svigrúm til þess að útskýra kröfur sínar og sundurliða þær nánar eftir kröfulýsingu.
Það sé á meðal markmiða laga nr. 21/1991 að tryggja jafnræði kröfuhafa við meðferð krafna þeirra og þar með við úthlutun úr búi við lok slitameðferðar. Í þessu markmiði felist að við slitameðferðina njóti kröfuhafar með sambærilega réttarstöðu jafnræðis og fái úthlutað við lok skiptameðferðar til kröfu sinnar í samræmi við þá hagsmuni sem þeir njóti gagnvart búinu. Sóknaraðili byggi þannig á því að viðurkenna beri kröfuna að öllu leyti með vísan til þess ábyrgðarhlutverks slitastjórnar að taka málefnalega og rétta afstöðu til krafna kröfuhafa og gæta þannig réttinda kröfuhafa og jafnræðis þeirra á meðal, ella verði markmiðum gjaldþrotaskiptalaga um jafnræði kröfuhafa ekki náð.
Sóknaraðili byggi enn fremur á því að slitastjórn hafi ákveðinni rannsóknarskyldu að gegna og beri í ljósi þeirrar skyldu að leitast eftir því að komast að réttri niðurstöðu í hverju máli. Þeirrar skyldu hafi slitastjórn ekki gætt í máli sóknaraðila enda hafi hún ekki viðurkennt kröfu hans að öllu leyti þrátt fyrir að kröfuhafi hafi til fullnaðar gert grein fyrir sundurliðun heildarfjárhæðar kröfulýsingar sinnar með vísan til gagna henni til stuðnings.
Með vísan til alls ofangreinds byggi sóknaraðili á því að um skýrt brot á eignarréttindum sóknaraðila sé að ræða ef heildarfjárhæð kröfunnar verði ekki viðurkennd að öllu leyti. Önnur niðurstaða brjóti í bága við grundvallarréttindi sóknaraðila til að njóta eignarréttinda sinna, sem meðal annars njóti verndar stjórnarskrár, sbr. lög nr. 33/1944, og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Sóknaraðili vísi meðal annars til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttar um skyldu til samningsefnda. Þá sé vísað til gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggist á 173. gr. laga nr. 21/1991 og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur á Íslandi.
III
Varnaraðili bendir á að slitastjórn hafi þegar viðurkennt að sóknaraðili eigi kröfu við slitameðferð varnaraðila sem grundvallist á lánasamningi að fjárhæð EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement, dagsettum 15. desember 2006. Ágreiningur aðila lúti eingöngu að því að hvaða marki beri að viðurkenna fjárhæð þeirrar kröfu, nánar tiltekið að því hvort slitastjórn varnaraðila beri að viðurkenna tiltekinn hluta af kröfu sóknaraðila, þ.e. 62.540.041 krónu, sem vexti. Fjárhæð þessari hafi í reynd verið lýst sem hluta af höfuðstól kröfunnar í kröfulýsingu sóknaraðila og myndi þar með heildarfjárhæð lýstrar kröfu en sóknaraðili krefjist þess nú að fjárhæðin verði viðurkennd sem vextir.
Sóknaraðili hafi kosið, í kröfulýsingu sinni, að styðjast við kröfulýsingarform sem slitastjórn varnaraðila hafi birt í aðdraganda kröfulýsingarfrests á heimasíðu varnaraðila, www.kaupthing.com. Engin skylda hafi hvílt á kröfuhöfum að nýta sér umrædd kröfulýsingarform heldur hafi þau einungis verið birt kröfuhöfum til hagræðis.
Heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila sé tilgreind í kröfulýsingu hans í reitnum „heildarfjárhæð kröfu“ (e. Total amount of claim), 15.392.144,81 evra og 883,1 sterlingspund. Eins og ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. tilgreini hafi kröfuhafi sundurliðað fjárhæð kröfu og vaxta. Lýst krafa sóknaraðila sé skýrlega sundurliðuð í þar til gerðum reitum á kröfulýsingarforminu. Lýst krafa sóknaraðila sundurliðist með eftirfarandi hætti:
Þeirri sundurliðun sem sóknaraðili tilgreini í greinargerð sinni, sé því mótmælt sem rangri og ekki í samræmi við þá kröfulýsingu sem sóknaraðili hafi lýst við slitameðferð varnaraðila. Í sundurliðun sinni í greinargerð tilgreini sóknaraðili höfuðstól 15.000.000 evra og vexti 392.010,21 evru, en ekki 22.453,74 evrur eins og lýst hafi verið í kröfulýsingu, sbr. framangreint.
Ákvæði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. áskilji að vextir vegna lýstrar kröfu skuli tilgreindir sérstaklega í kröfulýsingu. Efni kröfugerðar í kröfulýsingu gangi því í þessu tilliti lengra en gert sé varðandi stefnu í einkamáli, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig nægi ekki að krefjast aðeins vaxta með hliðstæðum hætti og í stefnu, heldur sé beinlínis boðið að þá verði að reikna út og tiltaka nákvæma fjárhæð þeirra sem þátt í heildarkröfum. Þessi sérstaki áskilnaður 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. feli það í sér að kröfuhafar geti ekki átt kröfu um hærri vexti en þeir lýsi í kröfulýsingu sinni.
Eins og augljóst sé af kröfulýsingu sóknaraðila sé umkrafin fjárhæð hans til vaxta samtals 22.453,74 evrur (3.799.846 krónur). Þá fjárhæð hafi slitastjórn varnaraðila nú þegar viðurkennt á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Af skýrum áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 geti sóknaraðili ekki átt frekari kröfu um vexti á hendur varnaraðila og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila um frekari vexti af lýstri kröfu sinni.
Afstaða slitastjórnar varnaraðila hafi meðal annars byggt á upplýsingum frá svokölluðum umsýslubanka lánasamningsins. Samkvæmt upplýsingum frá umsýslubanka lánsins hafi þátttaka sóknaraðila í láninu verið 15.000.000 evra. Lýst höfuðstólskrafa sóknaraðila hafi verið 15.369.556,47 evrur en slitastjórn varnaraðila hafi viðurkennt kröfu vegna höfuðstóls lánasamningsins að fjárhæð 15.000.000 evra. Lýstri kröfu vegna höfuðstóls að fjárhæð 369.556,47 evrur (62.540.041 króna) hafi því verið hafnað.
Sóknaraðili hafi í málatilbúnaði sínum ekki mótmælt því að þátttaka hans í umræddum lánasamningi hafi verið að höfuðstól 15.000.000 evra, eins og slitastjórn varnaraðila hafi byggt afstöðu sína á, meðal annars samkvæmt upplýsingum frá umsýslubanka lánsins. Ítrekað skuli að í kröfugerð sinni fyrir dóminum krefjist sóknaraðili ekki hærri höfuðstóls af kröfu sinni en þess sem slitastjórn varnaraðila hafi þegar viðurkennt.
Kröfugerð sóknaraðila byggist á því að viðurkenna eigi kröfu að fjárhæð 62.540.041 króna til viðbótar þegar samþykktri fjárhæð kröfunnar. Fjárhæð þessari hafi verið lýst sem hluta af höfuðstól kröfunnar í kröfulýsingu sóknaraðila, en sóknaraðili krefjist þess nú að umrædd fjárhæð verði viðurkennd sem vextir. Til einföldunar megi halda því fram að með málatilbúnaði sínum krefjist sóknaraðili vaxta vegna umrædds lánasamnings sem hann hafi aldrei lýst. Þetta gangi gegn áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.
Með hliðsjón af framangreindu mótmæli varnaraðili einnig þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í lýstri heildarfjárhæð kröfu í kröfulýsingu sóknaraðila felist fullnægjandi krafa um vexti. Verði fallist á slíka skýringu sóknaraðila sé afdráttarlaus áskilnaður 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um að kröfuhöfum beri að tiltaka kröfur sínar með eins skýrum hætti og unnt er í raun með öllu tilgangslaus.
Í bréfi sóknaraðila til varnaraðila segi sóknaraðili beinlínis að hann hafi krafist hluta af vöxtum, sem hann hafi talið sig eiga rétt á, sem höfuðstóls. Bréf sóknaraðila verði ekki skilið á annan hátt en þann að hann viðurkenni að hafa í reynd krafist hærri höfuðstóls vegna kröfu sinnar en hann í raun hafi talið sig eiga rétt á. Með hliðsjón af þessu sé afstaða slitastjórnar varnaraðila til kröfunnar rétt þar sem aðeins hafi verið viðurkenndur höfuðstóll að fjárhæð 15.000.000 evra (2.538.450.000 krónur). Sóknaraðili mótmæli enda ekki þessari afstöðu slitastjórnar varnaraðila.
Sóknaraðili vísi til þess í greinargerð sinni að með kröfulýsingunni hafi fylgt bréf frá umsýslubanka lánsins um þátttöku sóknaraðila í láninu ásamt vaxtaútreikningum. Telji sóknaraðili að slitastjórn varnaraðila eigi með hliðsjón af fylgigögnum þessum að viðurkenna hluta af lýstri höfuðstólsfjárhæð, 62.540.041 krónu, sem vexti. Vegna þessa vilji varnaraðili taka fram að þær tölur sem komi fram í tilvitnuðu bréfi, stemmi ekki við þær tölur sem sóknaraðili tilgreini á kröfulýsingarformi sínu. Eins og áður hafi komið fram tilgreini sóknaraðili kröfu sína með skýrum og sundurliðuðum hætti á kröfulýsingarforminu. Þegar af þeirri ástæðu, þ.e. vegna skýrleika kröfulýsingarinnar sjálfrar og þess misræmis sem sé í fjárhæð í tilvitnuðum fylgigögnum og kröfulýsingunni sjálfri, telji slitastjórn varnaraðila að taka beri eingöngu mið af framsetningu sóknaraðila á kröfulýsingarforminu. Séu enda fylgigögn með kröfulýsingu henni eingöngu til stuðnings og fyllingar en geti ekki staðið henni framar. Skýringar sóknaraðila fái þessu ekki breytt en í bréfinu segi sóknaraðili að hluta af áföllnum vöxtum hafi fyrir mistök verið krafist sem höfuðstóls.
Varnaraðili mótmæli sérstaklega málsástæðu sóknaraðila þess efnis að hvergi sé loku fyrir það skotið að kröfuhafar útskýri efni kröfulýsingar sinnar með frekari hætti eftir að kröfulýsingarfresti ljúki. Telji sóknaraðili að þetta eigi ekki við um þær aðstæður sem uppi séu í máli þessu. Eins og ítrekað hafi komið fram sé það álit varnaraðila að með kröfugerð sinni í máli þessu sé sóknaraðili í raun að krefjast vaxta sem ekki hafi verið krafist í kröfulýsingu. Slíkt verði tæplega kallað útskýring á kröfulýsingu af hálfu kröfuhafa. Miklu nær sé að telja að með slíku sé sóknaraðili að auka við og breyta kröfu sinni.
Í greinargerð sinni byggi sóknaraðili meðal annars á meginreglunni um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti sem og „ákveðinni rannsóknarskyldu“ slitastjórnar varnaraðila eins og það sé orðað. Vegna þess vilji varnaraðili ítreka að afstaða slitastjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila sé einmitt til þess fallin að tryggja jafnræði kröfuhafa sem best við slitameðferð varnaraðila. Það væri vart til að tryggja jafnræði kröfuhafa varnaraðila að viðurkenna kröfu frá kröfuhafa um vexti sem ekki sé lýst með fullnægjandi hætti, sbr. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt skýru orðalagi lagaákvæðisins skuli tilgreina fjárhæð vaxta sérstaklega. Því sé ekki fullnægjandi að tilgreina þá einungis sem hluta af heildarfjárhæð lýstrar kröfu.
Varðandi hina meintu rannsóknarskyldu sem sóknaraðili vísi til vilji varnaraðili taka fram að slitastjórn varnaraðila hafi að öllu leyti sinnt lögbundnu hlutverki sínu varðandi afstöðu til kröfu sóknaraðila. Enginn ágreiningur sé milli aðila um réttmæti eða rétthæð kröfu sóknaraðila á grundvelli umrædds lánasamnings. Þá hafi sóknaraðili ekki gert athugasemdir við útreikning slitastjórnar varnaraðila á kröfunni. Af greinargerð sóknaraðila megi því helst ætla að hann álíti að meint rannsóknarskylda slitastjórnar varnaraðila eigi að lúta að því að túlka kröfulýsingu sóknaraðila með þeim hætti sem sóknaraðila sé hagfellt. Varnaraðili mótmæli því að slík túlkun á kröfulýsingu sóknaraðila sé í samræmi við meginreglu gjaldþrotaskiptalaganna um jafnræði kröfuhafa. Þá væri slík túlkun ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Þá verði heldur ekki séð að málsástæða sóknaraðila um rannsóknarskyldu skiptastjóra, hér slitastjórnar, eigi sér neina lagastoð í lögum nr. 21/1991 eða í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Sóknaraðili haldi því fram að um augljós mistök við ritun kröfulýsingarinnar hafi verið að ræða og þegar af þeirri ástæðu beri slitastjórn varnaraðila að viðurkenna kröfuna þar sem henni hafi mátt vera fullljóst með hvaða hætti krafa sóknaraðila hafi verið sett fram. Þessu mótmæli varnaraðili, ekki hvað síst með vísan til þegar fram kominna sjónarmiða um meginregluna um jafnræði kröfuhafa.
Sóknaraðili sé fjármálastofnun sem hafi notið aðstoðar lögmannsstofu þegar kröfunni hafi verið lýst við slitameðferðina og hafi því verið fullfær um að gæta hagsmuna sinna og lýsa kröfu sinni með réttum hætti. Varnaraðili geti fallist á það með sóknaraðila að kröfuhafar við slitameðferð geti, eftir atvikum, komið að frekari skýringum á kröfu sinni eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn. Varnaraðili telji þó að síðari tíma skýring sóknaraðila á því að krafa um vexti felist í lýstri heildarfjárhæð sé ekki þess konar skýring á kröfulýsingu sem kröfuhafar geti almennt komið að eftir að kröfulýsingarfresti ljúki. Sé það einkum með vísan til 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þar sem skýr áskilnaður sé um að tilgreina vexti vegna lýstrar kröfu sérstaklega.
Varnaraðili mótmæli harðlega málsástæðu sóknaraðila sem fram komi í greinargerð hans þess efnis að afstaða slitastjórnar varnaraðila brjóti í bága við þá vernd eignarréttinda sem tryggð eru í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Málsástæða þessi sé órökstudd með öllu og hafni varnaraðili henni alfarið.
Með vísan til alls framangreinds beri að staðfesta afstöðu slitastjórnar varnaraðila til lýstrar kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili vísi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 117. gr. og 120. gr., sbr. 171. gr., og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, ásamt síðari breytingum. Um málskostnað vísist til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.
IV
Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort viðurkenna beri heildarfjárhæð þeirrar körfu sem sóknaraðili lýsti við slitameðferð varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila hefur samþykkt kröfu sóknaraðila að mestu leyti, en hafnað hluta hennar, áföllnum vöxtum sem lýst var sem höfuðstól. Stendur ágreiningurinn einungis um þann hluta kröfunnar.
Samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal kröfulýsing vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í henni skulu kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv. Samkvæmt þessu ákvæði þurfa kröfur kröfuhafa að koma fram eins skýrt og unnt er. Hefur kröfulýsingu þannig verið líkt við kröfugerð í stefnu í einkamáli. Þó er ljóst að þessi lýsing gengur lengra þar sem gerður er áskilnaður um að tilgreina þurfi fjárhæð peningakröfu í krónum með sundurliðuðum útreikningi. Ekki nægir því að krefjast vaxta með tilvísun til vaxtafótar og tímabils, heldur verður að reikna þá út og tiltaka fjárhæð þeirra.
Sóknaraðili vísar til þess að heildarfjárhæð kröfu hans sé rétt lýst og því skipti ekki máli að hluti vaxtakröfu hans hafi verið tilgreindur sem höfuðstóll í kröfulýsingunni. Af þeim litlu fræðiskrifum sem fjalla um 117. gr. laga nr. 21/1991 verður ráðið að gerð er sú krafa að vextir séu reiknaðir út og tilteknir sérstaklega, en koma verði fram hver sé hluti þeirra í heildarkröfunni. Verður þannig ekki talið fullnægjandi að vextir séu ótilgreind fjárhæð höfuðstóls. Sóknaraðili byggir á því að um augljósa villu í kröfulýsingu hans hafi verið að ræða. Ekki er þó að sjá á fylgiskjölum með kröfulýsingunni að þar sé gerð grein fyrir kröfunni með skýrum hætti. Var varnaraðila því rétt að samþykkja einungis þá vexti sem lýst var sem slíkum.
Sóknaraðili byggir á því að honum hafi verið heimilt að koma að nánari skýringum á kröfu sinni, sem hann hafi gert fyrir slitastjórn varnaraðila og með greinargerð til héraðsdóms. Verður ekki fallist á að hér sé um að ræða skýringu á kröfunni sem koma megi að á síðari stigum, heldur er hér fremur um að ræða breytingu á kröfunni, þar sem aukið er við kröfu um vexti en krafa um höfuðstól lækkuð að sama skapi. Af 117. og 118. gr. laga nr. 21/1991 leiðir að kröfuhafi getur ekki aukið við kröfur sínar eftir lok kröfulýsingarfrests, nema að uppfylltum skilyrðum 118. gr.
Sóknaraðili vísar til þess að hlutverk slitastjórnar varnaraðila sé meðal annars að endurreikna þær fjárhæðir sem krafist sé. Slitastjórn hafi komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili ætti rétt til hærri vaxta en hann krefðist. Til þess verður að líta að kröfuhafa er heimilt að lýsa lægri kröfu en hann á rétt til. Verður ekki séð að slitastjórn varnaraðila hafi á einhvern hátt ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Þá verður ekki séð að gengið hafi verið gegn jafnræði kröfuhafa með því að hafna kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili telur það brot á eignarrétti sínum, sem verndaður sé af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, verði ekki fallist á viðurkenningu heildarfjárhæðar kröfunnar. Sóknaraðili hefur ekki rökstutt nánar á hvern hátt brotið sé gegn eignarréttindum hans. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 veita kröfuhöfum ákveðna vernd. Það að ekki sé fallist á kröfu sem ekki hefur verið lýst réttilega verður ekki talið brjóta gegn eignarrétti kröfuhafa.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður kröfu sóknaraðila hafnað, en staðfest afstaða slitastjórnar varnaraðila til kröfunnar svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem ákveðinn er 250.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, HSH Nordbank AG, á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., er hafnað. Staðfest er afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila vegna lánasamningsins EUR 530.000.000 Revolving Credit Facility Agreement, dagsetts 15. desember 2006, verði viðurkennd að fjárhæð 2.542.441.367 krónur, sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.