Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2003


Lykilorð

  • Skipstjóri
  • Atvinnuréttindi
  • Sjómaður


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. nóvember 2003.

Nr. 219/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Steingrími Þorvaldssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Skipstjóri. Atvinnuréttindi. Sjómenn.

Skipstjórinn S var ákærður fyrir að hafa látið úr höfn á skipinu V „vanmönnuðu vegna þess að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri höfðu eigi gild atvinnuréttindi“ og með því brotið nánar tilgreind ákvæði laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Talið var að refsiheimildir laganna væru nægilega skýrar og að S hefði unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 100.000 krónur í sekt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu.

Í málinu er ákærði sakaður um að hafa, sem skipstjóri á fiskiskipinu Vigra RE 71, 1.217,44 brúttólesta með 3.000 kw. vél, lagt skipinu úr höfn í Reykjavík 3. maí 2002 „vanmönnuðu vegna þess að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri höfðu eigi gild atvinnuréttindi“ og með því brotið nánar tilgreind ákvæði laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum með áorðnum breytingum.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Þar kemur meðal annars fram að ákærði hafi lagt fram beiðni um lögskráningu og áhafnarlista fyrir lögskráningarstjóra áður en haldið var í veiðiferðina 3. maí 2002. Gegn mótmælum ákærða hefur þessu ekki verið hnekkt með haldbærum gögnum. Í ákæru er ákærði ekki sakaður um þá háttsemi að hafa ekki sinnt þeirri skyldu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna að lögskrá skipverja áður en hann hélt úr höfn. Kemur það ákvæði því ekki til álita að því er varðar ætlaða refsiábyrgð hans.

Óumdeilt er að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri Vigra höfðu ekki gild atvinnuréttindi þegar landhelgisgæslan kom að skipinu að veiðum á Reykjaneshrygg 10. maí 2002. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi ber skipstjóri eftir 1. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 meðal annars ábyrgð á því að skip hans sé „nægilega mannað“. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1995, ber skipstjóri á íslensku skipi „fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.” Nær ábyrgð skipstjóra samkvæmt þessu ákvæði bæði til framkvæmdar laganna sjálfra og annarra laga, sem fjalla um starfsskyldur hans, svo sem laga nr. 113/1984, laga nr. 43/1987 og siglingalaga. Ber skipstjóri þannig eftir b. lið I. 4. gr., 6. gr. og 13. gr. laga nr. 112/1984 með áorðnum breytingum og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 113/1984 ábyrgð á því að tilskilinn lögmæltur fjöldi lögskráðra stýrimanna og vélstjóra með gild atvinnuréttindi séu í hverri veiðiferð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er á það fallist að refsiheimildir samkvæmt 22. gr. laga nr. 112/1984 og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 113/1984 séu nægilega skýrar og að ákærði hafi unnið sér til refsingar fyrir þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og eftir þeim lagaákvæðum, sem í ákæru greinir. Verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða og sakarkostnað staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Steingrímur Þorvaldsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2003.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 17. sep­tember sl. á hendur ákærða, Steingrími Þorvaldssyni, kt. 120246-2409, Sævargörðum 16, Seltjarnarnesi, “fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna með því að hafa, fimmtudaginn 2. maí 2002, sem skipstjóri á b/v Vigra RE-071, 1.217,44 brúttórúmlesta fiskiskipi með 3.000 kw vél, lagt skipinu úr höfn í Reykjavík vanmönnuðu vegna þess að 2. stýrimaður og yfirvélstjóri höfðu eigi gild atvinnuréttindi, en landhelgisgæslan kom að skipinu föstudaginn 10. maí 2002 þar sem það var að veiðum á Reykjaneshrygg.

Telst þetta varða við b-lið I. 4. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 22. gr., laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 62/1995, og f lið 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1995, 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984 og 1. gr. laga nr. 62/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Málavextir

Fyrir liggur að ákærði lagði skipi sínu, togaranum Vigra RE-071, úr Reykjavíkurhöfn föstudaginn 3. maí sl. -en ekki 2. maí, eins og í ákæru segir.  Var haldið til veiða á Reykjaneshrygg en þar kom Landhelgisgæslan að skipinu á togveiðum föstudaginn 10. maí.  Fóru stýrimaður og háseti varðskipsins Óðins um borð í togarann til eftirlits.  Í skýrslu Einars H. Valssonar skipherra, um þetta segir að þá hafi komið í ljós að atvinnuréttindi 2. stýrimanns Vigra, Ólafs Einarssonar, höfðu runnið úr gildi 7. mars sl. og atvinnuréttindi Jóns Bjarnasonar, yfirvélstjóra togarans, höfðu runnið úr gildi 16. apríl sl.  Í málinu er vottorð Tollstjórans í Reykjavík, sem er hlutaðeigandi lögskráningaryfirvald, þar sem þetta er staðfest.  Þá eru í málinu beiðnir um lögskráningu og áhafnarlisti sem ákærði lagði inn hjá lögskráningarstofu áður en skipið lagði úr höfn 3. maí, en þar kemur fram að ákærði lét lögskrá mennina til þessara starfa um borð í skipinu.  Vigri RE-71 er samkvæmt vottorði Siglingamálastofnunar 1.217,44 brúttórúmlestir og þar kemur fram að afl aðalvélar skipsins er 3000 kw.

Ákærði neitar sök.  Af hans hálfu er því haldið fram að skipstjóri beri ekki refsiábyrgð á því að atvinnuréttindi skipverja séu runnin út heldur sé það á ábyrgð lögskráningarstofunnar að fylgjast með því og gera viðeigandi ráðstafanir í þeim efnum.  Ákærði hafi ennfremur verið í góðri trú um þetta því hann hafi ekki vitað annað en atvinnuréttindi þessara skipverja væru í gildi.  Þegar hann hafi lagt inn lögskráningarbeiðnirnar hjá lögskráningarstofunni hafi hann verið að gera sitt til þess að tryggja það að réttindi áhafnarinnar væru gild.  Af hans hálfu er auk þess haldið fram að réttindi þessara tveggja manna hafi verið í fullu gildi, þótt skírteini þeirra um það kunni að hafa verið útrunnin.  Loks er lögð áhersla á að í áhöfn skipsins hafi verið aðrir menn með fullgild réttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna og skipið hafi því fráleitt verið vanmannað.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 6. gr. siglingalaga nr. 34,1985 segir að skipstjóri skuli annast um að skip sé haffært og að það sé vel útbúið, nægilega mannað og búið vatni og vistum til fyrirhugaðrar ferðar, auk öryggisbúnaðar eftir þeim ákvæðum í lögum og reglugerðum sem um hann gilda.  Það er álit dómsins að í þessu felist það að skipstjóra sé skylt að gæta þess þegar skipi er lagt úr höfn að skipverjar hafi þau starfsréttindi sem lög og reglur krefjast á hverjum tíma.  Verður einnig að telja að þessa þýðingarmiklu starfsskyldu sé skipstjóranum óheimilt að fela öðrum.  Lög um lögskráningu sjómanna, nr. 43,1987, t.d. 7. gr. þeirra, breyta engu um skyldur skipstjórans í þessu sambandi.

Samkvæmt b-lið I í 4. gr. laga um um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum er skylt að hafa tvo stýrimenn á skipum sem eru stærri en 301 rúmlest.  Samkvæmt 1. og 3. mgr. 13. gr. laganna eru það atvinnuskírteini skipstjórnarmanna sem veita atvinnuréttindin, að uppfylltum heilsufars- og hæfnisskilyrðum laganna, og gilda skírteini þessi í fimm ár.  Þá segir í 4. mgr. að skipstjórnarmaður skuli hafa skírteinið meðferðis við skipstjórn og sýna það þegar löggæslumaður krefst þess.  Samkvæmt f-lið 1. mgr. 2. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum er skylt að hafa þrjá vélstjóra í skipi með 1801 kw vél, þar af einn yfirvélstjóra.   Samkvæmt 1. - 3. mgr. 9. gr. laganna fá þeir atvinnuskírteini vélstjórnarmanns sem uppfylla heilsufars- og hæfnisskilyrði laganna og gilda skírteini þessi í 5 ár.  Þá segir í 4. mgr. að skírteinishafi skuli hafa skírteinið meðferðis við vélstjórn og sýna það löggæslumanni þegar krafist er.  Dómurinn telur það vera vafalaust að gildi atvinnuréttinda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna falli saman við gildistíma atvinnuskírteina þeirra.  Kemur þar bæði til ótvírætt orðalag 1. mgr. 13. gr. laganna um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og eins hitt að reglur um þessi skilríki myndu missa marks ef svo væri ekki.  Þá er ekki síður til þess að líta að þótt menn hafi aflað fagþekkingarinnar og staðist próf um hana geta önnur skilyrði réttindanna fallið brott, svo sem vegna heilsubilunar, sbr. 12. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og 10. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga og fl.  Viðbára ákærða að í áhöfninni hafi verið menn með fullgild réttindi þykir ekki skipta máli hér, enda voru þeir menn ekki skráðir þannig á skipið, og ekki hefur komið fram að þeir hafi starfað á því sem slíkir í þessari ferð skipsins. 

Dómurinn telur að skip ákærða hafi ekki verið fullmannað þegar ákærði lagði úr höfn og hélt því til veiða í umrætt skipti.  Broti ákærða er lýst þannig í ákærunni að hann hafi með þessu brotið gegn skipstjóraskyldum sínum og í málflutningi skírskotaði sækjandinn í málinu eindregið til 6. gr. siglingalaga í því sambandi.  Í ákærunni er þó ekki vikið að siglingalögunum en dómurinn telur ákærða ekki hafa uppfyllt þá starfsskyldu sína sem lögð er á hann með 1. mgr. 6. gr. siglingalaga að sjá til þess að skipið væri nægilega mannað.  Aftur á móti er ekki almennt refsiákvæði í XV. kafla siglingalaga, heldur eru þar “casuistiskt” talin upp þau brot á lögunum sem refsingu varða og er þessi vanræksla ákærða ekki þar á meðal.  Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn siglingalögum.

Samkvæmt 4. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum “skal” lágmarksfjöldi stýrimanna á skipum sem eru 301 rúmlest og stærri, sem fyrr segir, vera tveir.  Þá “skal” lágmarksfjöldi vélstjóra á skipum með 1801 kw vél og stærri vera þrír, eins og fyrr segir, sbr. 2. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða, þ.e. yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri og annar vélstjóri.  Enda þótt það segi í hvorugum lögunum berum orðum að það sé skylda skipstjóra að gæta þess að þessar fortakslausu kröfur laganna séu uppfylltar að því er varðar stýrimenn og vélstjóra, verður að telja að það leiði bæði af 1. mgr. 6. gr. siglingalaga og eðli máls að sú skylda hvíli á herðum hans.  Hefur ákærði því unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.

Refsing og sakarkostnaður

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur í sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 80.000 krónur. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Steingrímur Þorvaldsson, greiði 100.000 krónur í sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 80.000 krónur.