Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                     

Mánudaginn 12. október 2015.

Nr. 680/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í fjóra mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. október 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 26. september sama ár um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að nálgunarbannið taki ekki til dóttur sinnar, A, en til vara að því verði markaður skemmri tími. Þá er krafist kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

         Þóknun verjanda varnaraðila, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. október 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, krafist þess að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi, sem tekin var þann 26. september 2015, með vísan til 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.

                Samkvæmt framangreindri ákvörðun hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið X kt. [...] með lögheimili að [...] á [...] verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 í 4 mánuði gagnvart B, kt. [...], C, kt. [...] og A, kt. [...], þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] á [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í sambandi við B, C og A svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

                Krafan barst dóminum 28. september 2015 og var hún tekin fyrir á dómþingi 1. október 2015. Var þá ekki sótt þing af hálfu varnaraðila, hér eftir kærði, en hann kom fyrir dóminn 2. október 2015 ásamt Torfa R. Sigurðssyni hrl., sem var skipaður verjandi kærða að beiðni hans. Kærði fellst á nálgunarbann hvað varðar B og C, en mótmælir kröfunni varðandi nálgunarbann gagnvart dóttur sinni, A og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að nálgunarbanni gagnvart henni verði markaður skemmri tími, eða nánar tiltekið tveir mánuðir. Þá er krafist þóknunar skipaðs verjanda.

                Þá sótti Jónína Guðmundsdóttir hdl. þing vegna allra þriggja brotaþola og óskaði eftir fyrir hönd brotaþola að hún yrði skipuð réttargæslumaður þeirra og var það gert. Af hálfu brotaþola er þess krafist að fallist verði á kröfu lögreglustjóra. Þá er krafist þóknunar til handa skipuðum réttargæslumanni.

Málavextir

Í ákvörðun lögreglustjóra segir að samkvæmt gögnum málsins muni B og kærði hafa verið par í 3-4 ár en upp úr sambandi þeirra hafi slitnað á árinu 2011 eða 2012.  Þau eigi saman A en fyrir hafi B átt C.

Upphaf þessa máls sé að rekja til þess að þann 30. júlí sl. hafi einstaklingur, f.h. framangreindrar B, haft samband við lögregluna á [...], og tilkynnt um andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu kærða gagnvart B. Muni tilefni þeirrar tilkynningar hafa verið það að B hafi beðið viðkomandi um að aðstoða sig í samskiptum við félagsþjónustuna á [...], vegna þess ofbeldis sem hún hafi þurft að sæta af hálfu fyrrverandi maka síns, kærða. Í kjölfarið hafi farið fram nokkur samskipti milli lögreglu og félagsþjónustunnar á [...], vegna málsins.

Þann 10. ágúst sl. hafi B mætt til skýrslutöku vegna málsins, á lögreglustöðinni á [...]. Ásamt B hafi verið viðstödd skýrslutökuna: Jónína Guðmundsdóttir hdl. sem tilnefnd hafi verið sem réttargæslumaður hennar og [...], sem túlkað hafi úr [...] á íslensku og öfugt. Í skýrslutökunni hafi B lýst m.a. nokkrum skiptum þar sem kærði hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi, ruðst inn á heimili hennar og barnsföður hennar, átt í hótunum við hana og bróður hennar, sýnt henni ruddalega framkomu á ýmsa vegu og væri með stöðugt áreiti á hana í síma og með sms-smáskilaboðasendingum. Hafi B sagst aldrei hafa leitað til læknis eftir að kærði hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi og því væru ekki fyrir hendi læknisvottorð um slíkt. Í lok skýrslutökunnar hafi B ekki viljað kæra kærða til refsingar vegna meintra brota en óskað eftir því að kærða yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart henni, samkvæmt ákvörðun lögreglu. Þá hafi B lagt fram í skýrslutöku handskrifaðar yfirlýsingar frá einstaklingum, á [...] og þýðingar á ensku, þar sem m.a. hafi verið fjallað um áfengiskaup, drykkju og yfirgang kærða gagnvart B og fleirum.

Áframhaldandi rannsókn lögreglu hafi falið í sér að aflað hafi verið símaupplýsinga, auk þess sem frekari skýrslutökur hafi farið fram. Lögreglustjóri hafi hafnað framangreindri beiðni B um nálgunarbann þann 19. ágúst s.l., þar sem kærði hafi undirritað skriflega yfirlýsingu að viðstöddum tilefndum verjanda sínum um að hann myndi ekki setja sig í samband við B á nokkurn hátt á átta vikna tímabili frá 19. ágúst að telja.  Auk þess sem hann hafi samþykkt eftirfylgni lögreglu og félagsþjónustu vegna málsins. 

Þann 25. september sl. hafi réttargæslumaður B haft samband við lögreglu og sett aftur fram kröfu um nálgunarbann. Við skýrslutöku af B þann sama dag hafi hún upplýst að kærði hafi að undanförnu ekki staðið við yfirlýsingu sína og hafi reynt að hringja í hana tvívegis og tvisvar sinnum sent SMS. 

Skýrsla hafi verið tekin af kærða 26. september 2015. Samkvæmt framburði hans viðurkenni hann að hafa átt í ofangreindum samskiptum við B þrátt fyrir efni fyrrgreindrar yfirlýsingar. Þá viðurkenni hann að hafa ítrekað haft samskipti við A vikuna áður þrátt fyrir tilmæli félagsmálastjóra [...] og [...] um að vera ekki í samskiptum við barnið á meðan á úrlausn málsins stendur og þar til hann hafi lokið áfengismeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins eigi kærði við áfengisvandamál að stríða en samkvæmt framburði hans sjálfs hafi hann ekki neytt áfengis í 10 daga. Þá segist hann eiga meðferðarpláss á Vogi þann 19. október n.k.

Samkvæmt framburðum B í málinu lýsi hún viðvarandi áralöngu ofbeldi hans í garð hennar, auk hótana. Börn hennar muni að einhverju leyti hafa orðið vitni að umræddu ofbeldi, þannig að varðað geti við ákvæði barnaverndarlaga, en skýrslutaka af þeim hafi ekki farið fram. Þá lýsi hún ótta sínum um velferð sína og ekki síður barna sinna. Samkvæmt áhættugreiningu lögreglu (B-Safer) sé full þörf á að veita brotaþola og börnum hennar þá vernd sem felist í nálgunarbanni. Að mati lögreglustjóra sé staða hennar með tvo ung börn búandi í sama þéttbýliskjarna og kærði viðkvæm. B hafi gert kröfu um nálgunarbann, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.  Að mati lögreglustjóra sé í málinu fram kominn rökstuddur grunur að kærði hafi beitt B líkamlegu ofbeldi og raskað friði brotaþola allra.  Að mati lögreglu gefi háttsemi hans að undanförnu fullt tilefni til að ætla að hann muni áfram raska friði B og barnanna.   

Það sé jafnframt mat lögreglustjórans á Suðurlandi að vægara úrræði en nálgunarbann muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, þar sem kærði hafi sjálfur viðurkennt að hafa vitandi vits brotið skriflega yfirlýsingu sína frá 19. ágúst s.l. um að hafa ekki samskipti við B í 8 vikur.  Þá hafi hann einnig virt að vettugi tilmæli félagsmálastjóra um að hafa ekki samband við barn sitt fyrr en að lokinni áfengismeðferð, en með ofangreindri yfirlýsingu hafi hann samþykkt aðkomu félagsmálayfirvalda að málinu. 

Með vísan til ofangreinds og fyrirliggjandi gagna í máli lögreglu nr. 318-2015-[...] hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að „X, kt. [...] með lögheimili að [...] á [...]verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85, 2011 í 4 mánuði gagnvart B, kt. [...], C, kt. [...] og A, kt. [...], þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] á [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í sambandi við B, C og A svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.“

Var ofangreind ákvörðun birt kærða 26. september 2015 kl. 17:00.

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann var ákveðið af lögreglustjóra.

Að virtum gögnum málsins ber að fallast á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt barnsmóður sína, brotaþolann B, líkamlegu ofbeldi umrædd sinn svo að varða kunni við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og raskað jafnframt á annan hátt friði brotaþola allra og að hætta sé á að hann endurtaki það. Þá hefur komið fram að börn brotaþola B og kærða, þ.m.t. dóttirin, hafi að einhverju leyti orðið vitni að ofbeldi kærða gagnvart B svo að mögulega kunni að varða við ákvæði XVIII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002. 

Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola. Þykir verða að fallast á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi raskað friði brotaþola allra eins og að framan greinir.

Er þannig fullnægt skilyrðum til að kærða verði gert að sæta nálgunarbanni eins og krafist er, en kærði hefur fallist á kröfuna að hluta til eins og að framan greinir.  Hvorki hefur verið sýnt fram á, né gert líklegt, að vægari úrræði geti komið að notum til að tryggja lögverndaða hagsmuni brotaþola.  Tímalengd nálgunarbanns þykir í hóf stillt og eru ekki efni til að taka varakröfu kærða til greina.

            Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

            Þóknun skipaðs verjanda kærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., ákveðst kr. 306.900 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., ákveðst kr. 204.600 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Báðar þóknanirnar greiðist úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt greiðist úr ríkissjóði aksturskostnaður skipaðs réttargæslumanns, kr. 6.496. 

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að X, kt. [...] með lögheimili að [...] á [...]verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 í 4 mánuði gagnvart B, kt. [...], C, kt. [...] og A, kt. [...], þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] á [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með nokkru öðru móti í sambandi við B, C og A svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Torfa R. Sigurðssonar hrl., kr. 306.900, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 204.600, en báðar þóknanir eru að meðtöldum virðisaukaskatti.