Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2017
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Laun
- Endurgreiðsla
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2017. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.067.677 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Logaland ehf., greiði stefndu, Elísabetu Rós Kolbeinsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2017.
Mál þetta var höfðað 23. júní 2016 og tekið til dóms 11. maí sl. Stefnandi er Logaland ehf., Tunguhálsi 8, Reykjavík, en stefnda er Elísabet Rós Kolbeinsdóttir, Skólabraut 1, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 1.067.677 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnda gerir þá kröfu að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.
I
Stefnda hóf störf hjá stefnanda í apríl 2011 og vann þar til ágúst 2013. Starfaði hún þá við símavörslu og sem sölumaður en stefnandi selur vörur og þjónustu á heilbrigðissviði. Stefnda vann á ný hjá stefnanda við sölu og innkaup frá febrúar 2014 til ágúst sama ár. Loks var henni boðið starf hjá stefnanda í maí 2015 og þá við innkaup. Faðir stefndu, Kolbeinn Sigurðsson, var þá orðinn framkvæmdastjóri stefnanda. Sagði hann í skýrslu sinni fyrir dómi að nauðsynlegt hafi verið að fá vanan starfsmann með reynslu af innkaupum til þess að taka að sér starfið og starfsmann sem gæti hafið störf strax.
Þegar Kolbeinn tók við starfi framkvæmdastjóra höfðu um nokkurn tíma verið erfiðleikar á vinnustaðnum sem rekja mátti til þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda, Ingibergs Erlingssonar, sem jafnframt var helmingseigandi stefnanda á móti foreldrum sínum. Honum hafði af stjórn félagsins verið gert að láta af störfum 31. maí 2015 vegna erfiðleika í samskiptum við starfsfólk. Þann 23. júlí 2015 kom hann á starfsstöð stefnanda og lagði hendur á einn starfsmann stefnanda. Hlaut hann dóm 31. mars 2016 vegna þess í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt gögnum málsins urðu starfsmenn skelkaðir eftir þennan atburð og var fenginn öryggisvörður á vinnustaðinn. Í kjölfar þessa var gerður samningur, dags. 24. júlí 2015, við alla starfsmenn fyrirtækisins, þ. á m. stefndu, um að ef til þess kæmi að Ingibergur tæki á ný við sem framkvæmdastjóri stefnanda væri starfsmönnum frjálst að láta af störfum án vinnuskyldu í uppsagnarfresti en með rétt til launa og allra launatengdra réttinda samkvæmt ráðningarsamningi. Sagði Kolbeinn að þessi breyting á ráðningarsamningi starfsfólksins hafi verið nauðsynleg til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins en margir starfsmenn hafi hugsað sér til hreyfings eftir atburðinn 23. júlí 2015. Nauðsynlegt hafi verið að róa starfsfólk þannig að það segði ekki þegar upp störfum. Ingibergur náði samkomulagi við foreldra sína og tók aftur við sem framkvæmdastjóri. Kom hann á vinnustað 17. ágúst 2015 undir áhrifum áfengis og þurfti öryggisvörður að skerast í leikinn þar sem hann lenti í handalögmálum við einn starfsmann stefnanda. Í framhaldi af þessu hættu allir starfsmenn störfum hjá stefnanda og fengu þeir greidd laun í uppsagnarfresti án vinnuskyldu, þ. á m. stefnda. Stefnda sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði ekki treyst sér til að vinna undir stjórn hins nýja framkvæmdarstjóra eftir það sem á undan var gengið. Kolbeinn Sigurðarson, framkvæmdastjóri stefnanda, lét einnig af störfum hjá stefnanda og fékk greidd laun í uppsagnarfresti samkvæmt því samkomulagi sem gert hafði verið við hann. Stefnandi höfðaði mál gegn Kolbeini til endurgreiðslu á launum en á það var ekki fallist, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 379/2016.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að viðauki við ráðningarsamninginn, sem dagsettur er 24. júlí 2015, og kveður á um að stefnda megi hætta störfum á fullum launum án vinnuskyldu, hafi í raun verið saminn og undirritaður 16. ágúst 2015. Hafi sérfræðingar skoðað tölvu Kolbeins og komist að raun um það. Kolbeinn og stefnda sögðu í skýrslu sinni ekki muna hvenær skjalið hafi verið undirritað en Kolbeinn sagði að á fundi með starfsfólki 24. júlí 2015, daginn eftir að Ingibergur kom í fyrirtækið og réðist að einum starfsmanni þess, hafi verið gerður munnlegur samningur við allt starfsfólk fyrirtækisins sama efnis og hinn skriflegi samningur hljóði á um. Vera kunni að hinn skriflegi samningur hafi verið undirritaður nokkrum dögum síðar.
Eftir að nýir stjórnendur tóku við völdum í félaginu var öllum starfsmönnum, þ. á m. stefndu, sent erindi frá þáverandi lögmanni félagsins, dags. 4. september 2015. Þar kemur fram sú afstaða stefnanda að stefnda hafi horfið heimildarlaust og án skýringa af starfsstöð áður en vinnutíma lauk þann 24. ágúst 2015. Kemur ennfremur fram í bréfinu að stefnandi telji þá greiðslu sem hún fékk ekki vera launagreiðslu og var skorað á stefndu að endurgreiða fjárhæðina og mæta til starfa á ný á vinnustaðinn. Yrði ekki orðið við þessum tilmælum liti stefnandi svo á að um fyrirvaralaust brotthvarf úr starfi væri að ræða og ætti hún því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti.
II
Stefnandi byggir aðallega á því að stefnda hafi vitað eða mátt vita að hún hafi ekki átt tilkall til þeirra fjármuna sem hún hafi fengið greidda samkvæmt launaseðli 30. september 2015. Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt þágildandi kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins eigi stefnda aðeins rétt á einnar viku uppsagnarfresti. Með vísan til þess að stefnda hafi síðast fengið greidd laun þann 24. ágúst 2015 og ekki komið til starfa eftir þann dag, þrátt fyrir áskoranir stefnanda, sé ljóst að hún hafi fyrirvaralaust sagt starfi sínu lausu þann 24. ágúst 2015. Hún hafi því ekki átt tilkall til rúmlega þriggja mánaða uppsagnarfrests. Þá ákvörðun stefndu að skila ekki fjármunum, þrátt fyrir að algert umboðsleysi stjórnenda til þess háttar athafna hafi blasað við, verði að skoða með tilliti til fjölskyldutengsla stefndu og fyrrverandi framkvæmdarstjóra félagsins. Þá vísar stefnandi ennfremur til 48. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 þar sem segir að framkvæmdastjóra sé óheimilt að taka þátt í samningsgerð milli félags og þriðja aðila ef hann hafi hagsmuna að gæta.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að hún hafi gert samning við stefnanda um þriggja mánaða uppsagnarfrest við ráðningu sem hún hafi átt rétt á samkvæmt ákvæðum kjarasamnings VR um áunnin réttindi, sbr. gr. 14.1, en stefnda hafi unnið hjá stefnanda með hléum.
Eftir að Ingibergur hafi ráðist inn í fyrirtækið hafi verið gerð breyting á ráðningarsamningum allra starfsmanna um að þeir gætu hætt störfum og fengið greidd laun í uppsagnarfresti án starfsskyldu ef Ingibergur kæmi aftur til starfa í fyrirtækinu. Á þessum forsendum hafi starfsmenn haldið áfram störfum. Stefnda hafi að þessu leyti notið sömu réttinda og aðrir starfsmenn fyrirtækisins. Skipti því engu máli þótt viðauki við ráðningarsamning hennar hafi verið undirritaður af þáverandi framkvæmdastjóra sem hafi verið faðir hennar. Stefnda hafi því verið í góðri trú þegar hún tók við launagreiðslu og ekki haft neina ástæðu til þess að rengja umboð eða heimild Kolbeins Sigurðssonar til að undirrita viðauka við ráðningarsamning hennar.
Stefnda hafi tekið á móti laununum í góðri trú og séu launin ekki endurkræf samkvæmt meginreglu vinnuréttar um endurgreiðslu ofgreiddra launa sem byggist einkum á því sjónarmiði að laun séu nýtt til framfærslu. Stefnandi geti því ekki endurkrafið um laun sem hann hafi þegar greitt. Launin hafi ekki verið greidd fyrir mistök heldur byggst á samkomulagi aðila. Loks beri að hafa í huga að liðnir séu níu mánuðir frá því að greiðslan var innt af hendi og móttekin og þangað til málið var höfðað. Verði að telja það tómlæti af hálfu stefnanda að halda ekki fram kröfu sinni fyrr þar sem um var að ræða laun til framfærslu.
Stefnandi bendir ennfremur á að umþrætt samkomulag hafi verið gert um það leyti sem skipt var um stjórn í félaginu. Óumdeilt sé að bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri höfðu á þeim tíma fullt umboð til að gera samninga við starfsmenn þann 24. júlí 2015 þó svo að frágangur á þeim samningum hafi farið fram síðar.
III
Eins og að framan er rakið ríkti ótryggt ástand á starfsstöð stefnanda. Helmingseigandi stefnanda, Ingibergur Erlingsson, sem jafnframt var framkvæmdastjóri félagsins, hafði verið vikið frá störfum. Kolbeinn Sigurðsson, faðir stefndu, hafði 1. júní 2015 verið ráðinn í hans stað. Þann 23. júlí 2015 kom Ingibergur á starfsstöð stefnanda og réðist að einum starfsmanni og veitti honum áverka. Hlaut hann dóm fyrir það. Samkvæmt gögnum málsins urðu starfsmenn skelkaðir eftir þennan atburð og töldu öryggi sínu ógnað. Var ráðinn öryggisvörður á staðinn og neyðarhnöppum komið fyrir. Í kjölfarið var gerður samningur við stefndu og aðra starfsmenn um að þeir mættu hætta störfum án tafar ef Ingibergur hæfi störf að nýju sem framkvæmdastjóri stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins var þessi samningur gerður til þess að tryggja rekstur fyrirtækisins og til þess að róa starfsmenn. Ingibergur kom aftur á vinnustað 17. ágúst 2015 og lenti í handalögmálum við starfsmann en öryggisvörður skarst í leikinn. Þá var orðið ljóst að ný stjórn stefnanda hafði endurráðið Ingiberg sem framkvæmdastjóra.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefnda hafi ekki átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti, í öðru lagi á því að stjórnendur stefnanda hafi ekki haft umboð til þess að gera framangreindan samning við stefndu um að hún mætti láta af störfum án vinnuskyldu í uppsagnarfresti og í þriðja lagi byggir stefnandi á 48. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög þar sem segir að framkvæmdastjóra sé óheimilt að taka þátt í samningsgerð milli félags og þriðja aðila ef hann hafi hagsmuna að gæta.
Í málflutningi byggði stefnandi jafnframt á því að laun stefndu hefðu verið hækkuð óeðlilega mikið í ágúst 2015. Þessari nýju málsástæðu var mótmælt af hálfu stefndu sem of seint fram kominni og verður fallist á að hún komist ekki að í málinu. Þá byggði lögmaður stefnanda ennfremur á því í málflutningi að samningur um breytingu ráðningarsamnings stefndu, dags. 24. júlí 2015, daginn eftir að Ingibergur réðst að starfsmanni stefnanda, hafi í raun verið saminn 17. ágúst 2015 og því ekki undirritaður fyrr. Hefur stefnandi lagt fram gögn í málinu sem hann segir að stafi frá sérfræðingum sem hafi skoðað tölvu Kolbeins eftir að hann lét af störfum. Þessara gagna var aflað einhliða af stefnanda og voru þau ekki staðfest fyrir dómi. Verða þau því ekki talin hafa sönnunargildi í málinu en þeim hefur einnig verið mótmælt af hálfu stefndu sem þýðingarlausum.
Líta verður svo á að stefnda hafi mátt ganga út frá því að þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda hefði umboð stjórnar til þess að skuldbinda stefnanda með þeim hætti sem gert var með samningnum. Tengsl stefndu og fyrrverandi framkvæmdastjóra skipta ekki máli í þessu sambandi þar sem allir starfsmenn stefnanda sátu við sama borð. Ákvæði 48. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög stóðu ekki í vegi fyrir því að framkvæmdastjórinn tæki ákvörðun um launasamning stefndu. Samkvæmt kjarasamningi milli VR og Samtaka atvinnulífsins, sem gildir frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018, skulu áunnin réttindi haldast við endurráðningu innan eins árs. Á sama hátt skulu áunnin réttindi taka gildi á ný eftir eins mánaðar starf ef endurráðning verður eftir meira en eitt ár en innan þriggja ára. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllti stefnda þessi skilyrði kjarasamningsins en hún vann með hléum hjá stefnanda og hafði samkvæmt framansögðu áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Niðurstaða málsins verður því sú að stefnda verður alfarið sýknuð af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu 828.000 krónur í málskostnað. Ekki hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefnda, Elísabet Rós Kolbeinsdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Logalands ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 828.000 krónur í málskostnað.