Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/2001


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Skaðabótamál
  • Örorka
  • Upplýsingaskylda


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. janúar 2002.

Nr. 315/2001.

Stefán Þorkell Karlsson

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Ólafur Axelsson hrl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Skaðabótamál. Örorka. Upplýsingaskylda.

S greindist með krabbameinsæxli í endaþarmi og meinvarp í lifur í september 1997. Í desember s.á. gekkst hann undir skurðaðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem æxlið og hnútur í lifur var fjarlægt. Eftir aðgerðina kom í ljós að taugar þær sem valda stinningu getnaðarlimsins höfðu skaddast og S því misst kyngetu. Þá þurfti S að notast við stómabúnað eftir aðgerðina. Krafði hann Í um skaðabætur og byggði á því að hann hefði ekki verið varaður við því að slíkum aðgerðum kynni að fylgja stómanotkun og missir kyngetu. Talið var eðlilegt að samskipti læknis og S hefðu fyrst og fremst snúist um hinn lífshættulega sjúkdóm en S hefði þó átt rétt á upplýsingum um vel þekktar afleiðingar aðgerðarinnar. Hins vegar hefði S viðurkennt að hann hefði undirgengist aðgerðina þó að honum hefðu verið afleiðingarnar ljósar, auk þess sem sýnt þótti að skurðaðgerð hefði í raun verið eini valkosturinn til að freista þess að bjarga lífi S. Skilyrði skaðabótaskyldu þóttu því ekki fyrir hendi í málinu og þurfti þá ekki að taka afstöðu til þess hvort S hefði fengið fullnægjandi upplýsingar um afleiðingar aðgerðarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2001. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. desember 1997 til 3. október 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., og gerir félagið engar kröfur.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eins og mál þetta liggur fyrir Hæstarétti er óhjákvæmilegt að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir réttinum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Stefán Þorkell Karlsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 3. maí sl., er höfðað með stefnu dags. 25. september 2000 og framhaldsstefnu dags. 14. mars 2001, báðum árituðum um móttöku.

Stefnandi  er Stefán Þorkell Karlsson, kt. 150554-3499, Lautasmára 41, Kópavogi.

Stefndi er Landspítali háskólasjúkrahús Fossvogi, kt. 500300-2130, Sléttuvegi, 108 Reykjavík (áður Sjúkrahús Reykjavíkur, kt. 531195-2999, Fossvogi, Reykjavík).

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.800.000 með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 12. desember 1997 til 3. október 2000, en með vöxtum samkvæmt 15. gr. laga nr. 25/1987, sbr. 10. gr. sömu laga, frá þingfestingu málsins til greiðsludags. Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12. desember 1998, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987.

Til vara er krafist lægri fjárhæðar með sama vaxtaútreikningi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Málið er einnig höfðað til réttargæslu á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og honum jafnframt gert að greiða málskostnað að skaðlausu.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

II

Hinn 10. september 1997 uppgötvaðist við læknisskoðun að stefnandi hefði stórt krabbameinsæxli í endaþarmi og meinvarp í lifur. Var stefnanda vísað til Tryggva B. Stefánssonar skurðlæknis og fór hann í skoðun og viðtal til hans á göngudeild St. Jósefsspítala í Hafnarfirði þann 18. s.m. Í sjúkraskrá stefnanda skráði læknirinn að stefnandi hafi komið í viðtal ásamt eiginkonu vegna krabbameins í endaþarmi og lifur. Hann hafi fengið upplýsingar um horfur og að áætluð sé lyfjameðferð hjá Sigurði Björnssyni krabbameinslækni, en síðan skurðaðgerð á endaþarmi og lifur. Þann 25. s.m. var framkvæmd kviðarholsspeglun á stefnanda á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til að unnt væri að meta útbreiðslu æxlisins í grindarbotninum og í lifrinni. Í framhaldi af henni undirgekkst stefnandi lyfjameðferð hjá Sigurði Björnssyni krabbameinslækni, en tilgangurinn með henni var að reyna að minnka æxlið fyrir fyrirhugaða skurðaðgerð. Hinn 12. desember 1997 gekkst stefnandi síðan undir skurðaðgerð hjá Tryggva B. Stefánssyni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, þar sem æxlið í endaþarmi og hnútur í lifur voru fjarlægð. Gekk aðgerðin vel. Eftir aðgerðina kom í ljós að taugar þær sem valda stinningu getnaðarlimsins höfðu skaddast og stefnandi því misst kyngetu. Þá hefur stefnandi eftir aðgerðina þurft að notast við stómabúnað.

Lögmaður stefnanda fór þess á leit við Atla Þór Ólason, dr.med að hann mæti örorku stefnanda af völdum fylgikvilla aðgerðarinnar. Er örorkumat hans dagsett 31. maí 2000 og er getuleysi stefnanda metið til 20% varanlegs miska og hefðbundinnar læknisfræðilegrar örorku.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur í samræmi við 20% varanlegan miska og útreikning skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, kr. 800.000. Að auki krefst stefnandi kr. 2.000.000 í miskabætur vegna þeirra óþæginda og baga sem er samfara svonefndri stómanotkun.

III

Stefnandi reisir kröfur sínar í málinu einkum á því að hann hafi ekki verið varaður við þeirri hættu sem sé samfara aðgerðum sem þeirri er hann gekkst undir á missi kyngetu og ævilangrar stómanotkunar, en sjúkraskýrslur staðfesti að sú upplýsingaskylda hafi verið vanrækt.

Stefnandi byggir kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, svo sem hún hefur verið lögfest með skaðabótalögum nr. 50/1993, einkum 4. gr. Þá vísar stefnandi til 5. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga svo og 10. gr. læknalaga nr. 53/1988.

Stefndi byggir á því að óumdeilt sé að veikindi stefnanda hafi verið lífshættuleg og hefðu dregið hann til dauða innan skamms tíma, nema hann fengi viðeigandi læknismeðferð, þ.e. lyfjameðferð og skurðaðgerð í kjölfarið. Læknismeðferðin hafi í heild heppnast mjög vel svo og eftirmeðferðin. Upplýst sé í málinu að Tryggvi Stefánsson skurðlæknir hafi rætt a.m.k. þrisvar við stefnanda vegna sjúkdómsins, þ.e. 18. og 25. september 1997 og fyrir aðgerðina 12. desember s.á. Telji læknirinn allar líkur á því að stefnandi hafi fengið upplýsingar um alvarleika sjúkdómsins og hvaða læknismeðferð væri nauðsynleg, en einnig um allar hugsanlegar hættur sem séu samfara svo stórri aðgerð, s.s. blæðingar, sýkingar eða taugaskaða og að hann geti leitt til blöðrulömunar og/eða getuleysis. Um sé að ræða atriði sem venja sé að upplýsa sjúklinga um í tilviki sem þessu.

Eins og á hafi staðið hafi stefnandi ekki átt annarra kosta völ en lyfjameðferð og uppskurð í kjölfar hennar. Að mati sérfræðinga í geislalækningum hafi geislameðferð ekki verið tæk, þar sem sjúkdómurinn hafi verið of langt genginn. Telja megi víst að ef æxlið hefði ekki verið fjarlægt með skurðaðgerð hefði það náð að vaxa inn í aðliggjandi vefi á skömmum tíma og leitt til getuleysis hjá stefnanda auk mikilla þjáninga og annarra verri afleiðinga.

Viðurkennt sé í lögum að læknir hafi upplýsingaskyldu gagnvart sjúklingi sínum, m.a. um sjúkdóminn, læknismeðferðina, áhættur tengdar henni og annað sem viðkomi sjúkdóminum og skipti máli. Tilgangur þessarar reglu sé sá, að sjúklingnum gefist kostur á virkri og upplýstri ákvörðunartöku um læknismeðferðina. Regla þessi sem fram komi í 10. gr. læknalaga nr. 53/1988 sé þó ekki altæk. Í henni segi m.a. “….að lækni beri að jafnaði að upplýsa sjúkling…”

Þegar meta skuli hvaða upplýsingar eigi að gefa skjúklingi um sjúkdóm og meðferð verði að horfa til aðstæðna hverju sinni. Læknir verði að vega og meta hvað séu nægilegar upplýsingar til þess að sjúklingur geti samþykkt ákvörðun um meðferð.

Læknirinn beri ábyrgð á meðferð þeirra sjúklinga sem til hans leiti sbr. 9. gr. læknalaga. Lækninum beri í þessu efni að sýna umhyggju fyrir velferð sjúklingsins og hafi jafnframt skyldu til að ráða honum heilt. Í siðareglum lækna frá 1978, 2. kafla, 1. tl. segi að læknir skuli sýna sjúklingi þá umhyggju og nærgætni sem hann geti framast við komið.

Byggir stefndi dómkröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi verið upplýstur um helstu hugsanlega fylgikvilla aðgerðarinnar, þ.m.t. getuleysi, enda telji Tryggvi Stefánsson, læknir, allar líkur á að svo hafi verið. Um sé að ræða venjubundnar upplýsingar undir þessum kringumstæðum. Á þessum tíma hafi ekki tíðkast að færa efni viðtala til frekari skráningar en fram komi  í sjúkraskrám.

Verði hins vegar talið að sönnunarbyrgðin hvíli á stefnda og að ósannað sé að læknirinn hafi upplýst stefnanda um getuleysi sem hugsanlegan fylgifisk aðgerðarinnar byggir stefndi á  að lækninum hafi ekki í þessu tilviki borið að upplýsa stefnanda frekar um áhættur tengdar skurðaðgerðinni en sem sannanlega komu fram hjá honum í viðræðum við hann.

Kröfu um upplýsingaskyldu hljóti að verða að meta í ljósi þess hvort umrædd aðgerð hafi verið siðferðis- og læknisfræðilega forsvaranleg. Ef litið sé til alvarleika sjúkdómsins sé ljóst að stefnandi hafi ekki átt val um annað en að gangast undir uppskurð. Hér hafi verið um líf eða dauða að ræða. Það hafi því ekki þjónað sérstökum tilgangi að upplýsa stefnanda um hugsanlega áhættu sem ekki varð umflúin.

Í raun megi segja að aðgerðin hafi gefið stefnanda mesta möguleika á að halda kyngetu sinni þrátt fyrir veikindin, þar sem að áhætta tengd aðgerðinni hafi augljóslega verið minni en ef ekkert hefði verið að gert og æxlið þarmeð látið vaxa óhindrað með eftirfarandi getuleysi ásamt öðrum slæmum afleiðingum.

Ef talið verði að upplýsingaskylda læknisins gagnvart stefnanda hafi verið vanrækt er á því byggt að sú vanræksla eigi ekki eins og á stóð að valda skaðabótaskyldu hjá stefnda. Er það rökstutt með því að aðgerðin hafi verið óhjákvæmileg, vel ígrunduð og framkvæmd rétt á allan máta. Hún hafi heppnast mjög vel að öðru leyti og ekki gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná tilskyldum árangri. Hugsanleg afleiðing tengd missi kyngetu verði að teljast minni háttar ef litið sé til þeirrar áhættu og þjáninga sem því hefðu fylgt að láta hjá líða að framkvæma hana sbr. Ufr. bls. 517.

Þá er einnig á því byggt að það sé skilyrði fyrir því að skaðabótaskylda tengd væntanlegri upplýsingaskyldu vakni að réttar upplýsingar til sjúklings hefðu leitt til þess að hann hefði hætt við og komist þar með hjá skaðanum. Í málinu liggi fyrir gögn, þar sem talið sé að ef skurðaðgerð hefði ekki verið framkvæmd, hefði stefnandi engu að síður orðið fljótlega getulaus vegna æxlisvaxtarins sbr. t.d. álit Landlæknisembættisins þar að lútandi.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekki verið upplýstur um hugsanlega stómalögn. Stefnandi hafi verið upplýstur um nauðsyn hennar. Stefndi tekur fram að ekki þurfi þó að vera um að ræða ævilanga stómanotkun eins og stefnandi haldi fram í stefnu, því þegar tíminn hafi leitt í ljós að æxlisvöxtur sé ekki í grindarbotninum megi tengja ristil aftur niður í endaþarmslok.

Við aðalmeðferð málssins gáfu skýrslur fyrir dóminum auk stefnanda, vitnin Þóra Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi sambýliskona hans, Bergljót Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur og Tryggvi B. Stefánsson, skurðlæknir.

IV

Stefnandi máls þessa, sem greinst hafði með lífshættulegt krabbamein, gekkst undir skurðaðgerð hjá Tryggva B. Stefánssyni skurðlækni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hinn 12. desember 1997 þar sem æxli í endaþarmi og hnútur í lifur voru fjarlægð. Aðgerðin tókst vel. Hins vegar missti stefnandi kyngetu við aðgerðina og hefur þurft að notast við stoma eftir hana. Byggir stefnandi kröfur sínar í málinu á því að hann hafi ekki verið upplýstur um þessar afleiðingar aðgerðarinnar.

Sjúklingum er tryggður réttur til upplýsinga í lögum. Þannig er í 10. gr. læknalaga nr. 53/1988 kveðið á um að lækni beri að jafnaði að upplýsa sjúkling um ástand, meðferð og horfur. Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er gengið mun lengra í að tryggja rétt sjúklinga til upplýsinga um heilsufar og meðferð. Þannig er í 5. gr. laganna mælt fyrir um hvaða upplýsingum sjúklingur á rétt á, en meðal þeirra eru upplýsingar um fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi. Þá er mælt fyrir um að þess skuli getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt greininni hafi verið gefnar.

Missir kyngetu er vel þekktur fylgikvilli skurðaðgerðar sem þeirrar sem stefnandi gekkst undir og notkun stoma var óhjákvæmileg eftir aðgerðina sem stefnandi gekkst undir.

Í sjúkraskrá stefnanda, sem rituð er af Tryggva B. Stefánssyni, skurðlæknir, þegar stefnandi kom í viðtal til hans 18. september 1999, kemur fram m.a. að læknirinn hafi upplýst stefnanda um horfur og meðferð. Hins vegar er þar ekki tilgreint sérstaklega að stefnandi hafi verið upplýstur um að aðgerðin kynni að hafa í för með sér þær afleiðingar sem hann byggir kröfur sínar á, þ.e. missi kyngetu og stomanotkun.

Fyrrverandi sambýliskona stefnanda, Þóra Vilhjálmsdóttir, sem var með honum í viðtalinu, bar fyrir dóminum að læknirinn hefði ekki upplýst þau um afleiðingarnar.

Tryggvi B. Stefánsson, skurðlæknir, skýrði frá því fyrir dóminum að markmið viðtals hans við stefnanda hafi fyrst og fremst verið að gera stefnanda grein fyrir með hvaða sjúkdóm hann gengi, hversu alvarlegur sjúkdómurinn væri og hvaða meðferð kæmi til greina. Kvað hann viðtalið hafa verið óvenjulegt fyrir þær sakir og að þá hafi engan veginn verið ljóst að hægt væri að gera aðgerð á stefnanda. Hann kvað það venju að gera karlmönnum sem þyrftu að fara í skurðaðgerð vegna æxlis í endaþarmi grein fyrir fylgikvillum, sem séu m.a. hætta á að taugar í grindarbotni sem stjórna stinningu getnaðarlims skemmist. Hins vegar kvaðst hann ekki muna viðtalið við stefnanda og því ekki geta fullyrt að hann hefði gert honum grein fyrir þessum fylgikvilla. Þá kvaðst hann fastlega gera ráð fyrir að hann hafi gert stefnanda grein fyrir að hann kynni að þurfa að nota stoma eftir aðgerðina, þar sem nánast alltaf sé rætt um hugsanlega stomanotkun hjá þeim sem fari í aðgerð á endaþarmi. 

Bergljót Þórðardóttir, stomahjúkrunarfræðingur, skýrði frá því fyrir dóminum að venjan sé sú að þegar sá möguleiki sé fyrir hendi að sjúklingur þurfi að fá stoma, hafi læknir sá sem komi til með að framkvæma aðgerð samband við hana. Sjúklingarnir séu síðan boðaðir í viðtal og hafi stefnandi komið til hennar líklega tveimur dögum fyrir aðgerðina og hún uppfrætt hann um væntanlega stomanotkun. Hún kvaðst ekki minnast þess að það hafi komið honum á óvart að hann kynni að þurfa að nota stoma eftir aðgerðina.

Við mat á því hversu ítarlegum upplýsingum sjúklingur á rétt á, þykir verða að líta til þess að ákvörðun læknis um hvernig hann hagar upplýsingagjöf hverju sinni hlýtur að taka mið af eðli sjúkdómsins og meðferðar við honum og hvaða hætta stafar af hvoru fyrir sig. Ef um er að ræða sjúkdóm sem lítil hætta stafar af má búast við að upplýsingagjöf um hugsanlega fylgikvilla sé tiltölulega víðtæk. Ef sjúkdómurinn hins vegar er sjúklingi hættulegur má búast við að upplýsingagjöfin snúist fremur um hvað sé til ráða og horfur sjúklingsins með eða án meðferðar, heldur en um einstaka fylgikvilla meðferðar, sérstaklega þeirra sem læknirinn telur mun léttvægari en sjúkdóminn ómeðhöndlaðan. 

Í ljósi þess að sjúkdómur stefnanda var lífshættulegur verður að telja eðlilegt að samskipti læknisins og stefnanda hafi snúist fyrst og fremst um hinn alvarlega sjúkdóm og hvað hægt væri að gera til að draga úr lífshættunni. Þrátt fyrir það verður að telja að stefnandi hafi átt rétt á upplýsingum um vel þekktar afleiðingar aðgerðarinnar jafnvel þó að telja verði þær smávægilegar miðað við þá lífshættu sem stefnandi var í.

Hins vegar er á það að líta að stefnandi viðurkenndi fyrir dóminum að hann hefði undirgengist umrædda skurðaðgerð, þó hann hefði verið upplýstur um að hún gæti haft í för með sér missi kyngetu og þörf fyrir útleiðslu þarms (stoma). Liggur því fyrir að stefnandi hefði undirgengist aðgerðina þrátt fyrir að honum hefðu verið afleiðingarnar ljósar.

Þá var meðferð sú sem gripið var til, þ.e. skurðaðgerð að lokinni lyfjameðferð sem ætlað var að auðvelda aðgerðina, sem var vel ígrunduð og gekk ekki lengra en nauðsynlegt var, í raun eini valkosturinn til að freista þess að bjarga lífi stefnanda og hefði þessari meðferð ekki verið beitt hefði áframhaldandi æxlisvöxtur fyrr eða síðar skert kyngetu vegna taugaskaða og heft hægðalosun.

Skilyrði skaðabótaskyldu er því ekki fyrir hendi í máli þessu. Þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu að sýkna ber stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu, og því ástæðulaust fyrir dóminn að taka afstöðu til þess hvort sannað sé að stefnandi hafi verið upplýstur um afleiðingar aðgerðarinnar.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir, héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Sigurði Thorlacius taugasérfræðingi og Þorsteini Jóhannessyni skurðlækni.

Dómsorð:

Stefndi, Landspítali háskólasjúkrahús Fossvogi, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Stefáns Þorkels Karlssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.