Hæstiréttur íslands
Mál nr. 684/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Fjármálafyrirtæki
- Bankaleynd
|
|
Föstudaginn 14. desember 2012. |
|
Nr. 684/2012.
|
Glitnir hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Jón Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning. Fjármálafyrirtæki. Bankaleynd.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að svara spurningum um efnahag bankans G hf. á ákveðnu tímabili. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að metið yrði hversu miklum hluta eigin fjár G hf. tilteknar lánveitingar hefðu numið á tímabilinu og hvert hefði verið vægi hvers láns um sig í eiginfjárhlutfalli bankans. Eins skyldu metin ótilgreind lán sem hefðu sömu einkenni. Heimilað var að óska mats á áhrifum allra lánveitinga til tiltekinna eigenda G hf. á tímabilinu en tekið fram að matsmenn skyldu ekki meta áhrif lánveitinga til annarra en þeirra aðila sem gagngert voru taldir upp í matsspurningu. Að virtum svörum við þessum spurningum var fallist á að óskað yrði mats á því hvert eiginfjárhlutfall G hf. hefði verið á tilteknum dögum. Á hinn bóginn skyldi ekki metið hvort þá hefðu verið fyrir hendi önnur atriði sem hefðu átt að hafa áhrif á útreikninga á eign fé og eiginfjárhlutfalli G hf. Fallist var á að leitað yrði mats á lausafjárstöðu G hf. á ákveðnum dögum að teknu tilliti til nánar tilgreindra upplýsinga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012, þar sem dómkvaddir voru matsmenn á grundvelli matsbeiðni varnaraðila til að svara þar greindum spurningum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili lýsti kröfu á hendur sóknaraðila við slit þess síðarnefnda eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Í málinu deila aðilar um stöðu kröfunnar í réttindaröð við slitin, en tilefni hennar voru kaup varnaraðila 28. mars 2008 á skuldabréfi af sóknaraðila að nafnverði 370.000.000 krónur. Varnaraðili reisir kröfu sína meðal annars á því að sóknaraðili hafi við kaupin í senn brotið gegn upplýsingaskyldu sinni og veitt rangar upplýsingar, en fjárhagsleg staða bankans hafi í raun verið mun verri en haldið hafi verið fram í ársbyrjun 2008. Reikningar bankans og upplýsingar, sem vísað var til, hafi ekki gefið rétta mynd af raunverulegri stöðu hans á þeim tíma, en reglum um mat á eigin fé, afskriftum og lausafjárstöðu hafi ekki verið réttilega fylgt. Af þeim sökum hafi varnaraðili eignast skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila, sem við slit hans eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili lagði fram í málinu 24. ágúst 2012 beiðni í sjö liðum um dómkvaðningu matsmanna, eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Tilganginn kveður hann vera þann að matsmenn kanni og leggi mat á nánar tiltekna þætti í efnahag sóknaraðila á árunum 2007 og 2008, en matsspurningarnar lúti að því hvort eigið fé sóknaraðila hafi verið réttilega metið á þeim tíma sem um ræðir, svo og eiginfjárhlutfall hans. Varnaraðili telur bæði þessi atriði hafa verið verulega ofmetin þegar umrætt skuldabréf var kynnt fyrir honum. Hann segir alveg ljóst að matsmenn þurfi að rannsaka fjölda sönnunargagna, en mörg þeirra liggi þegar fyrir í málinu. Meðal þeirra séu stefnur og skjalaskrár í dómsmálum, sem sóknaraðili hafi sjálfur höfðað á hendur fyrrum stjórnendum sínum og endurskoðanda, en þetta séu gögn sem varnaraðili hafi fengið aðgang að á grundvelli dóms Hæstaréttar 31. ágúst 2012 í máli nr. 493/2012 þar sem leyst hafi verið úr ágreiningi um gagnaöflun í þessu máli. Um ýmis önnur gögn hátti svo til að varnaraðili hafi skorað á sóknaraðila að leggja þau fram, en hann einungis orðið við því að hluta. Enn önnur gögn, sem skipti máli, kunni að vera í vörslu sóknaraðila og matsmenn þurfi að eiga aðgang að þeim eftir því sem starfi þeirra vindur fram. Í báðum tilvikum þurfi matsmenn að afla þessara gagna, en um heimild til þess vísar varnaraðili einkum til 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila tekin til greina að öðru leyti en því er laut að 5. matsspurningu hans.
Sóknaraðili reisir í aðalatriðum kröfu sína á því að spurningar vegna atriða, sem varnaraðili óskar mats á, séu haldnar annmörkum og að matsgerð, sem á þeim sé byggð og svör við spurningunum, séu bersýnilega tilgangslaus. Þá séu ýmis gögn, sem skorað hafi verið á hann að leggja fram, háð bankaleynd og verði ekki látin af hendi. Upplýsingar í þeim snerti ýmsa fyrrverandi viðskiptamenn sóknaraðila, en í sumum tilvikum séu þeir enn í fullum rekstri þótt bú annarra hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta. Um þetta vísar sóknaraðili til 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, enda liggi ekki fyrir heimild þessara viðskiptamanna til að afhenda gögn sem tengist þeim.
II
Sóknaraðili reisir andmæli sín meðal annars á því að matsspurningum verði ekki svarað án þess að matsmenn fái aðgang að gögnum í vörslum hans sem séu háð bankaleynd. Almenn staðhæfing þessa efnis getur ekki leitt til þess að krafa sóknaraðila nái fram að ganga.
Í 1. spurningu varnaraðila er óskað eftir mati á því hversu miklum hluta eigin fjár sóknaraðila tilteknar lánveitingar hans hafi numið á nánar greindum tíma og hvert hafi verið vægi hvers láns um sig í eiginfjárhlutfalli hans. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans um þennan lið staðfest.
Í 2. spurningu er óskað mats á hinu sama á öðrum útlánum sóknaraðila, sem matsmenn kunni að greina við rannsókn sína að hafi sömu einkenni og þau lán sem talin eru upp í 1. spurningu. Þótt ekki sé fyllilega ljóst á þessu stigi hver þau lán eru sem matsspurningin lýtur að verður að telja, þegar hún er virt í samhengi við fyrstu spurninguna, að nægilega ljóst sé hvert matsandlagið er. Spurningin fullnægir því skilyrðum 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 til að verða lögð fyrir matsmenn.
Í 3. spurningu varnaraðila er upptalning á þeim, sem hann telur hafa verið aðaleigendur sóknaraðila á þeim tíma sem um ræðir og aðilum tengdum þeim, og beiðni um að metnar verði lánveitingar sóknaraðila til þeirra eins og þar er nánar getið. Sóknaraðili gerir meðal annars þá athugasemd við þessa spurningu að orðalag hennar gefi til kynna að hugsanlega sé um að ræða fleiri en þá, sem upp séu taldir, og matsmenn þurfi að rannsaka og meta lánveitingar til. Þá sé lagt fyrir matsmenn að leita eftir og meta öll útlán sóknaraðila til þeirra, sem eigi í hlut. Um þetta er þess að gæta að matsmenn geta ekki bætt við öðrum, umfram þá sem gagngert eru taldir upp í spurningunni, á grundvelli eigin skoðana um að þeir teljist með réttu til aðaleigenda sóknaraðila eða séu þeim tengdir. Á hinn bóginn verður ekki fundið að því að óskað sé mats á áhrifum allra lánveitinga til þeirra, sem í hlut eiga, í stað þess að einungis verði metin áhrif nánar tilgreindra skulda. Að þessu gættu telst spurningin ekki fara í bága við 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 þannig að henni beri að hafna.
Að framanrituðu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður 4. spurningin í matsbeiðni varnaraðila heimiluð.
Í 6. spurningu er lagt fyrir matsmenn að svara því hvort fyrir hendi séu önnur atriði, sem þeir telji að hafi átt að hafa áhrif á útreikninga á eigin fé og eiginfjárhlutfalli sóknaraðila á sama tíma og greinir í 4. spurningu. Með þessu eru matsmenn ekki beðnir um að svara ákveðinni og skýrri spurningu heldur að leita eftir ótilgreindum atriðum, sem hafi haft áhrif á útreikninga á eigin fé og eiginfjárhlutfalli bankans. Spurningin fer í bága við 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 og er henni hafnað.
Andmæli sóknaraðila við því að leitað verði mats samkvæmt 7. spurningu í matsbeiðni eru haldlaus og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um þá spurningu staðfest.
Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans að því er varðar 1., 2., 3., 4. og 7. matsspurningu varnaraðila, enda verður á þessu stigi ekki fallist á að öflun sönnunargagna, sem varnaraðili leitar eftir, sé bersýnilega tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar 1.,2., 3., 4. og 7. spurningu í matsbeiðni varnaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Sóknaraðili, Glitnir banki hf., greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn hans til dómsins með bréfi 29. mars 2010, sem móttekið var af dómnum 9. apríl sama ár. Um heimild til að leita úrlausnar dómsins um ágreininginn vísaði varnaraðili til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í þessum þætti málsins deila aðilar um hvort dómkveðja skuli matsmenn á grundvelli matsbeiðni sem sóknaraðili hefur lagt fram.
Sóknaraðili er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A-deild, Bankastræti 7, Reykjavík.
Varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 472.260.380 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila og að kröfunni verði skipað sem almennri kröfu í réttindaröð, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða hans að hafnað kröfu sóknaraðila að ofangreindri fjárhæð, sem almennri kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafa sóknaraðila að fjárhæð 369.616.695 krónur verði samþykkt sem almenn krafa við slit varnaraðila, sbr. sama lagaákvæði. Þá krefst hann málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að dómkvaddir verði matsmenn á grundvelli matsbeiðni hans á dómskjali nr. 128 og honum úrskurðaður málskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að umbeðinni dómkvaðningu verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður.
Málið var munnlega flutt og tekið til úrskurðar um þennan ágreining 3. október sl.
I
Málavextir eru þeir að sóknaraðili málsins keypti 28. mars 2008 skuldabréf að nafnverði 370.000.000 krónur af varnaraðila. Skuldabréfið var í skuldabréfaflokki sem gefinn var út af varnaraðila og bar auðkennið GLBCONV 0413. Skuldabréfaflokkurinn mun hafa verið skráður hjá Verðbréfaskrá Íslands 15. apríl 2008 og heildarverðmæti hans 15 milljarðar króna. Kemur fram í greinargerð varnaraðila að samkvæmt skilmálum hafi skuldabréfið talist til eiginfjárþáttar A, samkvæmt reglum um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki nr. 156/2005, sbr. 10. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Kveður varnaraðili að í því felist að kröfur samkvæmt skuldbréfinu víki fyrir öðrum kröfum á hendur útgefanda við gjaldþrot eða slit, öðrum en um endurgreiðslu hlutafjár, sbr. 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, en kröfur samkvæmt skuldabréfinu séu jafnréttháar öðrum víkjandi skuldabréfum sem teljist til eiginfjárþáttar A, sem útgefandi kunni að hafa gefið út. Þá er mælt fyrir um að skuldabréfinu skyldi skipta í hlutabréf í varnaraðila 1. apríl 2013. Ekki þykir ástæða hér að rekja nánar skilmála bréfsins.
Eins og alkunna er varð varnaraðili fjárþrota síðari hluta árs 2008 og var tekinn til slitameðferðar. Var af því tilefni birt innköllun til skuldheimtumanna og lýsti sóknaraðili kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests eða nánar tiltekið 26. nóvember 2009. Krafðist sóknaraðili þess að krafan nyti stöðu í skuldaröð sem almenn krafa, en varnaraðili hafnaði því og taldi hana til eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991, en til slíkra krafna tók varnaraðili ekki afstöðu þar sem sýnt þótti að ekki kæmi til greiðslu þeirra að nokkru leyti við slitameðferð hans. Mótmælti sóknaraðili afstöðu varnaraðila innan lögmæltra tímamarka og að loknum árangurslausum fundum til að jafna ágreining var málinu vísað til meðferðar dómsins eins og fyrr er komið fram.
Undir rekstri málsins hefur sóknaraðili skorað á varnaraðila að leggja fram ýmis gögn. Hefur varnaraðili lagt sum þeirra fram en hafnað framlagningu annarra en gagnaöflun þessi hefur verið umfangsmikil og tímafrek eins og sjá má af bókunum í þingbók málsins.
II
Eins og lýst er í matsbeiðni sóknaraðila, sem og nánar í greinargerð hans og kröfulýsingu telur hann að við útgáfu framangreinds skuldabréfaflokks hafi varnaraðili meðal annars veitt rangar eða villandi upplýsingar um fjárhag og fjárhagslegan styrk sinn. Hafi útgáfa skuldabréfanna því verið haldin slíkum annmörkum að sóknaraðili hafi eignast bótakröfu sem njóti rétthæðar sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila, þrátt fyrir að skuldabréfin hafi haft víkjandi stöðu samkvæmt skilmálum. Kemur fram hjá sóknaraðila að hann telji að lögbundið eiginfjárhlutfall varnaraðila, svonefnt CAD hlutfall, hafi verið verulega ofmetið þegar skuldabréfin hafi verið kynnt fyrir sóknaraðila og lausafjárstaða og fjármögnun þrengri en þar hafi komið fram. Sé röksemdafærsla þessi einkum reist á því að eigið fé varnaraðila hafi á umræddum tíma verið ofmetið þar sem þess hafi ekki verið gætt að draga frá við útreikning þess lán sem bankinn hafi veitt á árunum 2007 til 2008 til kaupa á hlutum í bankanum sjálfum. Þá hafi eigið fé bankans ekki verið lækkað um fjárhæð sem numið hafi andvirði lánveitinga sem farið hafi fram yfir lögmælt hámark á stórum áhættuskuldbindingum. Hafi þetta leitt til þess að eigið fé varnaraðila hafi verið of hátt metið og einnig uppgefið eiginfjárhlutfall. Þá hafi bankinn haft yfir að ráða mun minna af lausu fé en tilgreint hafi verið í byrjun árs 2008.
Sóknaraðili kveður varnaraðila m.a. hafa byggt á því í málatilbúnaði sínum að framangreindar málsástæður sóknaraðili séu ósannaðar og hafi hann mótmælt sönnunargildi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem og sönnunargildi annarra skýrslna og gagna sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu. Af þeim sökum hyggist matsbeiðandi freista þess með umbeðinni dómkvaðningu matsmanna að leita mats sérfróðra og óvilhallra mats- og skoðunarmanna til stuðnings málatilbúnaði sínum.
Kemur fram í matsbeiðni að matsmönnum verði afhent öll gögn málsins en sóknaraðili áskilji sér um leið rétt til að koma á framfæri frekari gögnum sem fram kunni að koma eða mikilvæg kunni að reynast við vinnu matsmanna.
Gerir sóknaraðili kröfu til að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir mats- og skoðunarmenn til að leggja mat á og láta í té skriflegt og rökstutt álit sitt á hér síðar greindum fimm spurningum. Um lagaheimildi vísar sóknaraðili til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Í upphafi matsbeiðni er matsefni lýst með þeim hætti að dómkvöddum matsmönnum verði falið að skoða og leggja mat á nánar tiltekna þætti varðandi efnahag Glitnis banka hf. á árunum 2007 og 2008. Þeim verði falið að leggja mat á uppbyggingu eigin fjár og eiginfjárhlutfalls bankans á þessum tíma, á afskriftaþörf og hvert lausafé hans hafi verið að teknu tilliti til tiltekinna þátta og reglna um hvernig telja skuli þessa þætti í rekstri fjármálafyrirtækis.
Matsspurningar eru eftirfarandi:
1 Hvað námu eftirgreindar lánveitingar, gegn veðum í hlutabréfum í Glitni banka hf., miklum hluta af eigin fé Glitnis banka hf. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar. Hvert var vægi hvers láns um sig í eiginfjárhlutfalli bankans á sömu dagsetningum:
a Lánveiting Glitnis banka hf. til félaganna Vafnings ehf. (síðar Földungur ehf.) og Svartháfs ehf. Í febrúar 2008 lánaði Glitnir banki hf. 102 milljónir evra inn í Vafning ehf. með veði í hlutabréfum í Glitni banka hf. í eigu félagsins Þáttar International ehf. og fleiri eignum. Þá samþykkti Glitnir einnig að lána Svartháfi ehf. í febrúar 2008 187 milljónir evra, en fyrirtækið lánaði upphæðina áfram til Þáttar International ehf. Sjá lið 8.8.3.1, sbr. bls. 175-176 í bindi 2 SRA, um lánveitingar Glitnis banka hf. til Milestone ehf. til þess að fjármagna kaup hlutabréfa í bankanum sjálfum, sbr. einnig lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 305 í bindi 2 og lið 12.8.2 á bls. 71-74 í bindi 4.
b Lánveiting Glitnis banka hf. til FL Group hf. í mars 2008 á 50 milljónum evra, sem var endurfjármögnun á 10% eignarhlut FL Group hf. í Glitni. Sjá lið 8.8.3.3 í SRA, sbr. bls. 176 í bindi 2.
c Lánveiting Glitnis banka hf. hinn 12. nóv. 2007 á 19,6 milljörðum kr. til Stíms ehf. til kaupa á um 4,3% eignarhlut í Glitni banka hf. (640 milljón hlutir) og u.þ.b. 4,3% eignarhlut í FL Group hf. Glitnir banki hf. var sjálfur stór hluthafi í Stími ehf. Hinn 31. mars 2008 var veitt 12 milljarða kr. lán til fjögurra félaga til fjármögnunar á kaupum þeirra á hlutum í Glitni banka hf. Sjá nánar bls. 74-78 í bindi 4 í SRA, sbr. lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 305 í bindi 2, sbr. einnig umfjöllun á bls. 52-56 í stefnu varnaraðila fyrir Hæstarétti New York-ríkis á hendur fyrrum aðalhluthöfum (eigendum) og stjórnendum Glitnis banka hf.
d Lánveiting Glitnis banka hf. þann 21. desember 2007 til Salt Investments ehf. að fjárhæð 7,5 milljarðar kr. til kaupa á um 2,3% eignarhlut í Glitni (341 milljón hlutir). Sjá bls. 98-99 í bindi 4 í SRA, sbr. einnig lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 306 í bindi 2.
e Lánveiting Glitnis banka hf. í febrúar 2008 til handa Rákungi ehf. að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Sjá bls. 104-105 í bindi 4 í SRA.
f Lánveiting Glitnis banka hf. í febrúar 2008 til IceProperties ehf. að fjárhæð 5 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni banka hf. að fjárhæð um 4,5 milljarða kr. Ekki voru aðrar tryggingar settar fyrir láninu en veð í hinum keyptu bréfum. Sjá bls. 106-107 í bindi 4 í SRA.
g Lánveiting Glitnis banka hf. í nóvember/desember 2007 til BK-44 ehf. að fjárhæð 17,1 milljarðar kr. til kaupa á 150 milljón hlutum í Glitni banka hf. Hlutabréfin sjálf voru sett til tryggingar skuldinni.
h Veðtaka Glitnis banka hf. í hlutabréfum í Glitni banka hf. sem bankinn hafði selt í framvirkum viðskiptum í árslok 2007, 663,8 milljón hlutir að markaðsvirði 14,5 milljarðar kr.
2 Ef matsmenn greina samkvæmt því sem fram kemur í tilvísuðum og framlögðum gögnum að aðrar lánveitingar Glitnis banka hf., gegn veðum í hlutabréfum í Glitni banka hf., en þær sem taldar eru upp í lið 1 að framan, hafi myndað hluta af eigin fé eða eiginfjárhlutfalli bankans samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar, eða fjárhæðir verið aðrar, er þess óskað að matsmenn geri grein fyrir því hversu miklum hluta af eigin fé og eiginfjárhlutfalli þær lánveitingar námu á hvorri dagsetningu um sig, í samræmi við það sem óskað er svara við samkvæmt lið nr. 1 að framan.
3 Hversu mikill hluti af eigin fé og eiginfjárhlutfalli Glitnis banka hf. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar samanstóð af lánveitingum til aðaleiganda Glitnis banka hf. og tengdra aðila, umfram lögbundið 25% hámarkshlutfall af eiginfjárgrunni skv. ákvæði 30. gr. laga nr. 161/2002, að teknu tilliti til lista yfir stærstu eigendur á bls. 11 í ársskýrslu bankans fyrir árið 2007 og til þeirra forsendna og upplýsinga sem fram hafa komið m.a. í lið 35-36 á bls. 13, lið 88 á bls. 26-27, bls. 28, 31 og 35-36 í stefnu varnaraðila á dskj. nr. 24. Meðal aðaleiganda Glitnis banka hf. og aðila tengdum þeim eru: Baugur Group hf., BG Capital ehf. (Styrkur Invest), Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf., Hagar hf., Milton ehf., Sólin skín ehf., 101 Capital ehf., FL Group hf., Eikarhald ehf., Eik fasteignafélag ehf., Þyrping hf., FS6 ehf./Reitir VI ehf., Fasteignafélagið Stoðir (Landic Property), Stoðir fasteignir ehf., Landsafl ehf., Geysir Green Energy hf., Jarðboranir hf., Hitaveita Suðurnesja, Smáralind ehf. og Northern Travel Holding.
4 Hvert telja matsmenn að hafi verið eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) Glitnis banka hf. skv. 84. gr. laga 161/2002 að gættum reglum 85. gr. sömu laga þann 31. desember 2007 annars vegar og 31. mars 2008 hins vegar, og að virtum áhrifum lánveitinga sem til er vitnað í matsspurningum 1-3 hér að framan.
5 Tók afskriftareikningur Glitnis í árslok 2007 og þann 31. mars 2008 mið af eðlilegri niðurfærslu á útistandandi kröfum bankans að teknu tilliti til fjárhagslegrar stöðu lántakenda, vanskila lántakenda, skuldbreytinga, verulegrar rýrnunar veðtrygginga og sannanlegra atburða sem benda til að greiðslugeta minnki í framtíð og endurskipulagningar á fjárhag lántakenda? Matsmenn eru við mat á þessum lið beðnir um að skoða sérstaklega skuldbindingar eftirtaldra fyrirtækja og einstaklinga við Glitni banka hf.: Baugur Group hf. og tengdir aðilar skv. upptalningu í lið nr. 3 að framan, FL Group hf. og tengdir aðilar skv. upptalningu í lið nr. 3 að framan, Milestone ehf. og tengdir aðilar, Fons ehf. og tengdir aðilar, Gnúpur fjárfestingarfélag hf. Stím ehf., Fjárfestingarfélagið Prímus ehf., Kistan ehf., Lyfjablóm ehf., Salt Investments ehf., Rákungur ehf., IceProperties ehf., BK-44 ehf., Björgólfur Guðmundsson og einkahlutafélög í eigu lykilstjórnenda Glitnis. Jafnframt verði lagt mat á hvort að afskriftarliðir í ársreikningi Glitnis fyrir árið 2007 og árshlutareikningi 31. mars 2008 hafi endurspeglað eðlilegar afskriftir útistandandi krafna samkvæmt framansögðu.
6 Eru önnur atriði sem matsmenn telja að hafi átt að hafa áhrif á útreikning á eigin fé og eiginfjárhlutfalli Glitnis banka hf. á sömu dagsetningum og greinir í lið nr. 4 að framan, og hefðu haft áhrif á niðurstöður útreiknings á eigin fé og eiginfjárhlutfall bankans á hvorri dagsetningu um sig?
7 Hver var lausafjárstaða Glitnis banka hf. („cash“ eða „cash balances“) þann 31. desember 2007 annars vegar og 31. mars 2008 hins vegar, að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem fram koma í árs- og árshlutareikningi Glitnis á sömu dagsetningum og lausafjáryfirlitum sem Glitnir banki hf. sendi Seðlabanka Íslands 31. desember 2007 og 31. mars 2008.
Í matsbeiðni kemur og fram að við útreikning og samningu svara við framangreindum spurningum sé miðað við að matsmenn styðjist við útreikningsaðferðir samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002, sérstaklega ákvæðum X. kafla laganna, afleiddar reglur sem í gildi hafi verið miðað við þær dagsetningar sem óskað sé eftir að útreikningur miðist við, sem og viðurkenndar reikningsskilaaðferðir, sem hér teljist eiga við. Óskað er eftir því að útreikningar verði sundurliðaðir eftir föngum og svör bæði gefin upp í fjárhæðum og sem prósentuhlutfall, eftir því sem við eigi.
Við munnlegan málflutning byggði sóknaraðili á þeim röksemdum sem fram koma í matsbeiðni og hér hafa verið raktar. Kom fram að sóknaraðili hefði forræði á sakarefni og sönnunarfærslu sinni og matsbeiðni væri sett fram á ábyrgð og áhættu hans. Spurningar væru skýrar og með þeim væri þess freistað að leita sönnunar um atriði sem sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn á og rakin séu hér að framan. Mótmælti sóknaraðili því að sjónarmið sem varnaraðili byggi á í mótmælum sínum gegn matsbeiðni fái staðist og hafnaði því að röksemdir sem lúta að reglum um bankaleynd geti á þessu stigi staðið dómkvaðningu í vegi.
III
Við munnlegan málflutning studdi varnaraðili mótmæli sín við dómkvaðningu matsmanna einkum við það annars vegar að ef þau gögn sem matsmenn eigi að styðjast við liggi ekki fyrir og gagnaðili sem mögulega hafi þau gögn undir höndum hafi ekki orðið við áskorunum um að afhenda þau að þá verði beiðni um dómkvaðningu matsmanna hafnað ef byggja eigi matsgerð á þeim gögnum. Um þetta atriði vísaði varnaraðili einkum til forsendna dóms Hæstaréttar 27. ágúst 2012 í máli réttarins nr. 465/2012: Hannes Frímann Hrólfsson gegn Kaupþingi hf. Hins vegar kvaðst varnaraðili byggja á því að lang flest þau gögn sem að matsmenn eigi að byggja vinnu sína á samkvæmt matsbeiðni séu bundin þagnarskyldu, skv. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og einnig til þess að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis teljist ekki fullnægjandi sönnunargagn um atvik, sbr. forsendur dóms Hæstaréttar 7. apríl 2011 í mál réttarins nr. 561/2010: Landsbanki Íslands hf. gegn Gift fjárfestingarfélagi ehf.
IV
Í matsbeiðni vísar sóknaraðili m.a. til þess að hann telji að á þeim tíma sem hann hafi keypt umrætt víkjandi skuldabréf af varnaraðila hafi lögbundið eiginfjárhlutfall varnaraðila, svonefnt CAD hlutfall, verið verulega ofmetið og lausafjárstaða og fjármögnun þrengri en komið hafi fram í kynningu við kaupin. Sé röksemdafærsla þessi einkum reist á því að eigið fé varnaraðila hafi á umræddum tíma verið ofmetið þar sem þess hafi ekki verið gætt að draga frá við útreikning þess lán sem bankinn hafi veitt á árunum 2007 til 2008 til kaupa á hlutum í bankanum sjálfum. Þá hafi eigið fé bankans ekki verið lækkað um fjárhæð sem numið hafi andvirði lánveitinga sem farið hafi fram yfir lögmælt hámark á stórum áhættuskuldbindingum. Einnig hafi bankinn haft yfir að ráða mun minna af lausu fé en tilgreint hafi verið í byrjun árs 2008.
Óskar sóknaraðili dómkvaðningar matsmanna til að svara sjö spurningum sem orðrétt eru raktar hér framar í úrskurðinum. Af hálfu varnaraðila hefur því verið mótmælt að dómkvaðning fari fram einkum með vísan til þess annars vegar að umræddum spurningum verði ekki svarað á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggi í málinu og hins vegar að ekki sé unnt að svara spurningunum nema með aðgangi að gögnum sem ekki sé heimilt að leggja fram í málinu sökum reglna um bankaleynd.
Fyrst er til þess að líta að fallast verður á með sóknaraðila að hann eigi forræði á sönnunarfærslu sinni. Er það mat dómsins að ríkar ástæður þurfi að liggja til þess að aðila verði meinuð sönnun og yrði að liggja fyrir að sönnunargagn væri bersýnilega þarflaust til að svo yrði gert, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Spurningar sem sóknaraðili óskar eftir að matsmenn svari eru ítarlegar, með tilgreindum forsendum byggðum á nánar tilgreindum gögnum málsins. Með því að setja spurningar sínar fram með þessum hætti hefur sóknaraðili markað matsbeiðni sinni ákveðinn farveg, sem telja verður honum heimilt á grundvelli reglna um frjálsa sönnunarfærslu. Verður það ekki gert að skilyrði dómkvaðningar matsmanna að matsbeiðandi færi þegar fram ótvíræða sönnun þess að forsendur þær sem hann leggur matsbeiðni til grundvallar fái staðist, þó vafalaust sé ætlast til þess að hann færi fram fyrir þeim viss líkindi. Verður og að hafa í huga að ekki verður á þessu stigi málsins kveðið upp úr með það hvernig litið verður á sönnunargildi einstakra skjala í málinu eða spáð fyrir um hvernig sönnunarbyrði verður lögð á aðila að lokinni sönnunarfærslu í því. Verður því ekki á þessu stigi málsins fallist á með varnaraðila að forsendur matsspurninga verði ekki sannaðar nema á grundvelli gagna sem bundin séu bankaleynd. Ber hér einnig að hafa í huga að sönnunarfærsla sú sem sóknaraðili óskar eftir að fram fari er á hans áhættu og ábyrgð. Er það og á hans áhættu að binda matsspurningar sínar forsendum sem eftir atvikum gætu talist ósannaðar við úrlausn málsins. Þykir sóknaraðili hafa sett fram spurningar sínar með skýrum og skilmerkilegum hætti og með nákvæmri vísan til fyrirliggjandi gagna, sem ekki eru á þessu stigi málsins skilyrði til að vísa á bug sem þýðingarlausum. Eru því ekki efni til að fallast á með varnaraðila að hafna beri dómkvaðningu matsmanna á grundvelli beiðni sóknaraðila að því er varðar spurningar 1, 2, 3, 4, 6 og 7.
Að mati dómsins gildir öðru máli um matsspurningu nr. 5. Vísar sú spurning ekki með skýrum hætti til gagna málsins eða verður af henni glögglega ráðið hver þau gögn eru sem matsmenn ættu að skoða til að leita svara við henni. Verður þá og að hafa í huga að spurningin er opin og almenns eðlis og varðar fjárhagsleg málefni fjölda aðila sem ekki eiga aðild að því dómsmáli sem hér er til meðferðar. Þykir þegar af framangreindum ástæðum verða að hafna því að dómkvöddum matsmönnum verði gert að svara umræddri spurningu og er dómkvaðningu að því leyti hafnað.
Ekki þykir ástæða til að úrskurða sérstaklega um málskostnað í þessum þætti málsins og verður það látið bíða efnislegarar úrlausnar þess.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómkvaddir skulu matsmenn á grundvelli matsbeiðni á dómskjali nr. 128 til að svara þar greindum matsspurningum nr. 1, 2, 3, 4, 6 og 7.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnislegrar úrlausnar málsins.