Hæstiréttur íslands
Mál nr. 658/2011
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Ákæra
- Dómur
- Sönnunarmat
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2012. |
|
Nr. 658/2011.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) (Ásgeir Jónsson hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa) |
Fjárdráttur. Ákæra. Dómur. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms.
X var sakfelldur í héraði fyrir fjárdrátt með því að hafa án heimildar lánað þrjár bifreiðar, sem hann og fyrirtæki í hans eigu höfðu á kaupleigu, og ekki sinnt áskorun eigenda um að skila þeim, en þetta hafi falið í sér ólögmæta tileinkun sem valdið hefði tjóni. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að framangreind háttsemi X hefði ekki rúmast innan verknaðarlýsingar ákæru og yrði hann því ekki sakfelldur fyrir hana, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar taldi dómurinn að á munnlegum framburði X fyrir héraðsdómi hefði verið slíkur ólíkindablær að sennilegt mætti telja að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi hans hafi verið röng svo einhverju skipti um úrslit málsins. Væri því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara sýknu af þeim, en að því frágengnu að fjárhæðir þeirra verði lækkaðar.
Landsbanki Íslands hf., sem tekið hefur við réttindum og skyldum Avant hf., og Lýsing hf. krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er einkaréttarkröfur varðar.
I
Eins og greinir í héraðsdómi var fyrirtækið A ehf. í eigu ákærða og Y. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár var tilgangur félagsins meðal annars kaup og sala bifreiða. Félagið var skráð árið 2005 og var Y stjórnarformaður, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og átti sæti í stjórn þess þar til tilkynnt var að hann hefði sagt sig úr henni 18. september 2008. Ákærði og Y munu hafa verið einu starfsmenn félagsins og stýrt starfsemi þess í sameiningu. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 19. mars 2009.
Með samningi 31. maí 2007 tók A ehf. á kaupleigu bifreiðina SU [...] af Avant hf. Var samningurinn undirritaður af fyrrgreindum Y en hann gekkst einnig í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum samningsins. Hinn 22. júní sama ár var gerð sú breyting á samningnum að bifreiðin SH [...] var skráð sem nýr leigumunur í stað þeirrar bifreiðar sem samningurinn tók upphaflega til. Loks var af hálfu Avant hf. og A ehf. undirritað skjal 28. maí 2008 sem bar yfirskriftina „veðflutningur“ en þar sagði að bifreiðin SH [...] hafi verið leyst úr veðböndum og þau færð yfir á bifreiðina UP [...] af gerðinni Mazda CX7. Skráður eigandi þeirrar bifreiðar var Avant hf. Með bréfi 26. janúar 2009 rifti Avant hf. samningi um kaupleigu á bifreiðinni og krafðist afhendingar á henni.
Hinn 22. febrúar 2008 var bifreiðin DJ [...] af gerðinni Mazda MX5 tekin á kaupleigu hjá Avant hf., sem var skráður eigandi hennar. Með skjali sem bar yfirskriftina „skuldskeyting“ tók A ehf. við öllum skyldum og skuldbindingum fyrri greiðanda skuldabréfs sem sagt var hvíla á 1. veðrétti í bifreiðinni. Undir skjalið ritaði Y fyrir hönd A ehf., en hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar efndum. Með bréfi 26. janúar 2009 rifti Avant hf. samningnum og krafðist þess að fá bifreiðina afhenta.
Þá tók ákærði með samningi 18. nóvember 2008 á kaupleigu af Lýsingu hf. bifreiðina RO [...] af gerðinni Ford Mustang, en leigusali var skráður eigandi hennar. Þeim samningi rifti Lýsing hf. með skeyti 19. mars 2009 og krafðist afhendingar á bifreiðinni.
Þrátt fyrir að kaupleigusamningunum hafi verið rift var bifreiðunum ekki skilað. Hinn 15. og 17. september 2009 bárust lögreglu tilkynningar um að bifreiðarnar DJ [...] og UP [...] hefðu fundist. Höfðu þá ýmsir munir verið teknir af og úr bifreiðunum. Um þetta leyti hafði vörslusviptingarfyrirtæki einnig uppi á bifreiðinni RO [...] og var hún í svipuðu ástandi.
Málið var höfðað með ákæru 21. júní 2011 en þar var ákærða og Y gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa fénýtt sér bifreiðarnar UP [...] og DJ [...] með því að rífa eða láta rífa þær niður og ráðstafa úr þeim varahlutum. Einnig var ákærða gefið að sök sama brot að því er varðaði bifreiðina RO [...]. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn var Y sýknaður og unir ákæruvaldið því.
II
Af hálfu ákærða er því borið við að ekki hafi verið í gildi kaupleigusamningur milli A ehf. og Avant hf. um bifreiðarnar UP [...] og DJ [...]. Því hafi síðargreinda félagið aðeins notið tryggingarréttinda í bifreiðunum sem að réttu lagi hafi verið í eigu A ehf. Af þeim sökum geti sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök ekki falið í sér fjárdrátt. Svo sem áður er rakið var Avant hf. skráður eigandi umræddra bifreiða. Umráð þeirra gátu því ekki verið reist á öðru en að í gildi væri kaupleigusamningur sem tók til þeirra, enda hefur A ehf. ekki fengið eignarheimild fyrir bifreiðunum. Samkvæmt þessu verður krafa um sýknu ekki byggð á því að bifreiðarnar hafi verið í eigu A ehf.
Ákærði hefur einnig hreyft því að kaupleigusamningar um þær þrjár bifreiðar sem ákæra tekur til hafi verið lánssamningar sem í orði kveðnu hafi verið klæddir í búning kaupleigu. Því geti háttsemin ekki talist fjárdráttur. Þessi röksemd er haldlaus, enda leiðir beint af skilmálum samninganna að eignarréttur var hjá leigusala þar til lokagreiðsla leigu hafði verið innt af hendi. Í þeim efnum breytir engu þótt farið verði með kröfuréttindi á grundvelli samninganna eins og um lánssamninga væri að ræða sem falli undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
III
Við skýrslugjöf hjá lögreglu kannaðist ákærði við að hafa tekið ákvörðun um að rífa bifreiðarnar UP [...] og DJ [...]. Einnig kannaðist hann við að hafa sjálfur rifið bifreiðina RO [...]. Þetta hafi verið gert þar sem hátt verð hafi fengist á þessum tíma fyrir varahluti en ætlunin hafi verið að flytja inn varahluti á lægra verði frá Bandaríkjunum til að setja í bifreiðarnar áður en þeim yrði skilað.
Fyrir dómi neitaði ákærði hins vegar sök og skýrði svo frá að bifreiðunum UP [...] og DJ [...] hefði ekki verið skilað þar sem þær hafi verið lánaðar öðrum. Árangurslaust hafi verið reynt að fá bifreiðarnar aftur en öðrum bifreiðum í útláni á vegum fyrirtækisins A ehf. hafi verið skilað. Nánar aðspurður kvaðst ákærði lítið hafa þekkt til þeirra sem fengu að láni bifreiðar frá fyrirtækinu og gat ekki nafngreint þá en þeir hefðu lánað bifreiðarnar áfram. Einnig sagði ákærði að engin gögn væru fyrir hendi um þessi lán á bifreiðum. Þá greindi ákærði frá því að bifreiðin RO [...] hafi verið sett á aðra bílasölu og þaðan hafi hún horfið eftir að einhver fékk hana lánaða. Um breyttan framburð miðað við frásögn hjá lögreglu sagði ákærði að hann hafi fundið til ábyrgðar og því kosið að gangast þar við að hafa rifið bifreiðarnar. Á grundvelli þessa framburðar var ákærði sakfelldur með hinum áfrýjaða dómi fyrir að hafa án heimildar lánað bifreiðarnar og ekki sinnt áskorun eigenda um að skila þeim, en þetta hafi falið í sér ólögmæta tileinkun sem valdið hafi tjóni. Ákærði hafi því gerst sekur um fjárdrátt með því draga sér bifreiðarnar. Þessi hegðun rúmast ekki innan verknaðarlýsingar ákæru og verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir hana, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Samkvæmt 2. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Á skýringum sem ákærði hefur gefið á því að hafa horfið frá játningu sinni hjá lögreglu og frásögn hans að öðru leyti er slíkur ólíkindablær að sennilegt má telja að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 4. október 2011 og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 4. október 2011, er höfðað samkvæmt ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 21. júní 2011 á hendur Y, kt. [...], [...], [...], og X, kt. [...], [...], Reykjavík.
1.
Gegn ákærðu Y og X fyrir fjárdrátt, á tímabilinu 28. maí 2008 til 19. mars 2009, með því að hafa í sameiningu sem eigendur og daglegir stjórnendur bílasölunnar A ehf., kt. [...], dregið sér eða bílasölunni, bifreiðarnar UP-[...], af gerðinni Mazda CX7, og DJ-[...], af gerðinni Mazda MX5, sem voru í eigu Avant hf., en A ehf. hafði umráð yfir samkvæmt kaupleigusamningum við Avant hf. Ákærðu fénýttu bifreiðarnar með því að rífa eða láta rífa þær niður og seldu eða ráðstöfuðu á annan hátt úr þeim varahlutum með þeim afleiðingum að bifreiðarnar voru verðlausar þegar eigandi þeirra fékk umráð yfir þeim aftur.
Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Gegn ákærða X fyrir fjárdrátt, með því að hafa, á tímabilinu 18. nóvember 2008 til 15. september 2009, dregið sér eða bílasölunni A ehf., bifreiðina RO-[...], af gerðinni Ford Mustang, sem var í eigu Lýsingar hf., en ákærði X hafði umráð yfir samkvæmt kaupleigusamningi við Lýsingu hf. Ákærði fénýtti bifreiðina með því að rífa eða láta rífa hana niður og selja eða ráðstafa á annan hátt úr henni varahlutum með þeim afleiðingum að bifreiðin var verðlaus þegar eigandi hennar fékk umráð yfir henni aftur.
Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Vegna 1. ákæruliðar gerir Avant hf., kt. [...], Suðurlandsbraut 12, Reykjavík þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð 6.400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2011, frá 1. september 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna lögmannskostnaðar samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.
Vegna 2. ákæruliðar gerir Lýsing hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík þá kröfu að ákærði, X, verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 2.494.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. mars 2009 til 19. apríl sama ár, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærði X verði dæmdur til að greiða bótakrefjanda lögmannsþóknun að mati dómsins fyrir að halda uppi bótakröfu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Verjandi ákærða Y gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist frávísunar bótakröfu, til vara sýknu af bótakröfu, en til þrautavara er krafist lækkunar bótakröfu. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða X gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist frávísunar eða sýknu af bótakröfum, en til vara er krafist lækkunar bótakrafna. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Ákæruliður 1
Ákærðu í máli þessu voru stofnendur og eigendur einkahlutafélagsins A á þeim tíma sem í ákæru greinir. Var ákærði Y skráður stjórnarformaður félagsins, en ákærði X framkvæmdastjóri, uns hann skráði sig einhliða úr stjórn hinn 18. september 2008. Er ágreiningslaust að ákærðu stýrðu félaginu í sameiningu, en þeir voru jafnframt einu starfsmenn þess á þeim tíma sem um ræðir. Félagið hafði bifreiðaviðskipti að starfsemi og gerðu forsvarsmenn þess kaupleigusamninga við fjármögnunarfyrirtæki um bifreiðar, sem ætlaðar voru til sölu á þess vegum. Hinn 28. maí 2008 undirritaði ákærði Y, fyrir hönd A ehf., samning við Avant hf. um yfirtöku samnings um kaupleigu bifreiðarinnar DJ-[...] og kaupleigusamning um bifreiðina UP-[...], en bifreiðarnar voru af Mazda gerð. Ákærði X ritaði undir báða samninga sem vottur. Með bréfi Avant hf. til A ehf. og ákærðu, dagsettu 26. janúar 2009, var lýst riftun bifreiðasamninganna tveggja vegna verulegra vanefnda og þess krafist að bifreiðunum yrði skilað. Bifreiðunum var hins vegar ekki skilað eins og farið var fram á. Hinn 19. mars 2009 var A ehf. úrskurðað gjaldþrota. Með bréfi, dagsettu 8. maí 2009, óskaði lögmaður Avant eftir því að lögregla rannsakaði hver hefðu orðið afdrif bifreiða sem hefðu verið í umráðum A ehf., þar sem vörslusvipting hefði ekki borið árangur og bifreiðarnar ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.
Hinn 15. september 2009 barst lögreglu tilkynning um að bifreiðin DJ-[...] hefði fundist á bifreiðastæði við bifreiðaverkstæði við [...] í Reykjavík. Lögreglumenn ræddu við starfsmann bifreiðaverkstæðisins, sem kvaðst hafa tekið eftir bifreiðinni daginn áður og gert skráðum eiganda, Avant hf, viðvart. Þá barst önnur tilkynning, hinn 17. sama mánaðar, um að bifreiðin UP-[...] hefði fundist á bifreiðastæði við bifreiðaverkstæði við [...]. Eins og í fyrra skiptið hafði starfsmaður bifreiðaverkstæðisins tekið eftir bifreiðinni á bifreiðastæðinu tveimur dögum fyrr. Hann hafði spurst fyrir um bifreiðina, en þegar enginn kannaðist við hana hafði hann samband við skráðan eiganda, Avant hf. Í skýrslum lögreglu kemur fram að búið hafi verið að „strípa“ bifreiðarnar og hafi ýmsir hlutir sjáanlega verið fjarlægðir af og úr þeim. Skýrslunum fylgja ljósmyndir sem sýna ástand bifreiðanna þegar þær komu í leitirnar.
Ákærði X var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins 2. desember 2009. Ákærði kvaðst þá hafa rifið bifreiðarnar tvær í varahluti og hefði ætlunin verið að kaupa aðra varahluti í staðinn og koma fyrir í bifreiðunum. Það hefði verið sameiginleg ákvörðun þeirra meðákærða að gera þetta, en hátt verð hafi verið á varahlutum, sem þá hefði vantað. Þeir hefðu ætlað sér að flytja sjálfir inn varahluti frá Bandaríkjunum á lægra verði og koma fyrir í bifreiðunum í staðinn fyrir þá sem voru fjarlægðir. Þeir hefðu ætlað að skila bifreiðunum í lagi, en það hefði ekki gengið eftir. Ákærði sagði bifreiðarnar hafa verið rifnar á starfsstöð bifreiðasölunnar, en þær hefðu síðan verið geymdar í gám við [...]. Þær hefðu síðan verið fluttar þangað sem þær fundust. Ákærði sagði flesta varahlutina hafa verið notaða í aðrar bifreiðar sem þeir hefðu átt, en taldi þó að einhverjum hefði verið fargað.
Ákærði Y var yfirheyrður af lögreglu 22. febrúar 2010. Ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt niðurrifi bifreiðanna tveggja, en vita til þess að einhverjir hlutir hefðu verið teknir af einhverjum bifreiðum. Hann kvað rétt vera, sem komið hefði fram í framburði meðákærða, að þeir hefðu sameiginlega tekið ákvörðun um að rífa hluta af einhverjum bifreiðum, en síðan hefði átt að afla nýrra varahluta og skila bifreiðunum í því ásigkomulagi sem þær hefðu verið fyrir niðurrif.
Ákærðu neituðu báðir sök við þingfestingu málsins. Hafa þeir fyrir dómi kannast við að hafa haft umráð bifreiðanna tveggja samkvæmt kaupleigusamningum, en neitað að hafa rifið eða látið rífa þær niður svo sem lýst er í ákæru og í því skyni sem þar greinir.
Ákærði X gaf þá skýringu á því að bifreiðarnar hefðu ekki verið afhentar Avant, skráðum eiganda, eftir að kaupleigusamningum hefði verið rift, að þær hefðu verið lánaðar einhverjum aðilum og þeim ekki verið skilað aftur á bifreiðasöluna. Ákærði kvaðst hafa misst sjónar á því hvert bifreiðarnar voru lánaðar. Fleiri bifreiðar hefðu verið lánaðar af bifreiðasölunni, en þær hefðu skilað sér. Ákærði kvaðst ekki muna nöfn þeirra manna sem hann hefði lánað bifreiðarnar og engin gögn væru til um þau viðskipti. Þegar hann hefði farið að kanna afdrif bifreiðanna hefði komið í ljós að þessir menn hefðu verið búnir að lána þær áfram og honum hefði ekki tekist að hafa uppi á þeim. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær bifreiðarnar voru lánaðar frá bifreiðasölunni, hvort það hefði verið áður en kaupleigusamningum var rift eða síðar. Hann kvaðst ekki vita hver hefði rifið bifreiðarnar niður. Hann hefði ekki gert það og ekki tekið ákvörðun um að það skyldi gert. Hann kvaðst ekki minnast eða vita til þess að meðákærði Y hefði komið að því að lána bifreiðarnar. Þá hefði hann ekki vitneskju um að Y hefði komið að niðurrifi þeirra.
Ákærði gaf þá skýringu á framburði sínum hjá lögreglu að honum hefði fundist hann bera mikla ábyrgð á því hvernig fór fyrir bifreiðunum. Því hefði hann borið á þennan veg. Hann kvað þá meðákærða hafa rætt saman áður en Y gaf skýrslu hjá lögreglu og kannaðist við að hafa skýrt Y frá því hvernig hann hefði borið við skýrslutöku.
Ákærði Y kvaðst muna eftir að hafa séð bifreiðarnar tvær í starfsstöð A ehf. um það leyti sem félaginu barst bréf frá Avant þar sem lýst var riftun kaupleigusamninga og krafist afhendingar bifreiðanna. Hefðu bifreiðarnar verið „í heilu lagi“ á þessum tíma. Í kjölfarið hefði Avant krafist vörslusviptingar, en ákærði kvaðst ekki hafa verið í sambandi við vörslusviptingaraðila. Um þetta leyti hefði starfsemi fyrirtækisins verið hætt og það tekið til gjaldþrotaskipta. Kvaðst ákærði hafa farið sína leið eftir að hafa sinnt skyldum sínum við skiptastjóra. Ákærði kvaðst enga vitneskju hafa haft um að fyrirhugað væri að rífa bifreiðarnar. Hann hefði hvorki komið að því né óskað eftir því. Þá hefði hann ekki vitað að bifreiðarnar hefðu verið lánaðar einhverjum aðilum. Það hefði tíðkast í starfsemi bifreiðasölunnar að lána bifreiðar til reynsluaksturs, en bifreiðar hefðu ekki verið lánaðar út til lengri tíma.
Ákærði kvaðst ekki hafa skýrt rétt frá atvikum við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kvað meðákærða hafa hringt til sín eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu, en hann hefði þá sjálfur verið boðaður til skýrslutöku. Hefði meðákærði sagt honum að láta sér ekki bregða þegar hann sæi myndir af bifreiðunum við yfirheyrsluna. Meðákærði hefði jafnframt sagt honum að samkvæmt áliti lögfræðings, sem hann hefði leitað til, myndi málið látið niður falla bæru þeir á þann veg að það hefði verið ákvörðun fyrirtækisins að rífa bifreiðarnar. Ákærði kvaðst hafa hagað framburði sínum á þennan veg þótt hann hefði ekki haft hugmynd um fyrirætlanir um að rífa bifreiðarnar. Hann hefði talið að hann yrði laus mála ef hann greindi frá með þessum hætti. Ákærði kvaðst hvorki vita hver hefði tekið ákvörðun um að rífa bifreiðarnar né hvað hefði orðið um varahluti úr þeim.
Vitnið A, sem starfar við vörslusviptingar, kvaðst hafa reynt að hafa uppi á bifreiðunum tveimur að beiðni Avant. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða X, sem hefði ekki upplýst um hvar bifreiðarnar voru niðurkomnar. Hann hefði einnig rætt við ákærða Y, sem hefði sagst vera erlendis og ekkert vita um málið. Vitnið B, starfsmaður Aðalskoðunar, gerði grein fyrir tjónamati sem hann vann fyrir Avant eftir að hafa skoðað bifreiðarnar. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Oddgeir Einarsson, skiptastjóri A ehf., og Jóhann Birkir Guðmundsson lögreglumaður. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.
Ákæruliður 2
Hinn 18. nóvember 2008 undirritaði ákærði X eignaleigusamning við fjármögnunarfélagið Lýsingu hf. um bifreiðina RO-[...] af Ford Mustang gerð. Meðal gagna málsins er afrit símskeytis innheimtusviðs Lýsingar hf., dagsett 19. mars 2009, um riftun samningsins vegna vanefnda og var þess jafnframt krafist að bifreiðinni yrði skilað. Lögreglu barst kæra lögmanns Lýsingar vegna málsins með bréfi dagsettu 21. október 2009. Í kærubréfinu kemur fram að ákærði hafi ekki orðið við tilmælum um að skila bifreiðinni og hafi vörslusviptingarfyrirtæki því verið falið að hafa uppi á henni. Bifreiðin hafi fundist hinn 15. september og hafi þá verið búið að fjarlægja af henni ýmsa hluti, s.s. dekk, felgur, vélarhlíf, bretti, stuðara, ljósker, sæti og hluta innréttingar. Kærunni fylgdi ljósmynd af bifreiðinni. Í gögnum frá vörslusviptingarfélaginu kemur fram að bifreiðin hefði fundist við Tangarhöfða eftir ábendingu starfsmanns vörslusviptingarfélags sem starfaði fyrir Avant.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 2. desember 2009 kvaðst ákærði kannast við að gengið hefði verið eftir því við hann að skila Lýsingu bifreiðinni, en hann hefði ekki sinnt því þar sem búið hefði verið að rífa hana í sundur. Hefði staðið til að panta varahluti fyrir þessa bifreið á sama tíma og pantaðir yrðu varahlutir fyrir hinar bifreiðarnar tvær og hefði átt að gera það á vegum bifreiðasölunnar. Kvað ákærði þá meðákærða Y hafa rifið bifreiðina og hefði hún líklega verið geymd við starfsstöð A ehf. að [...].
Við aðalmeðferð málsins játaði ákærði því að hafa gert eignaleigusamning við Lýsingu um bifreiðina sem um ræðir, en neitaði að hafa rifið eða látið rífa bifreiðina svo sem lýst er í ákæru. Bifreiðin hefði í fyrstu staðið við starfsstöð A, en síðar hefði hann flutt hana á [...] og haft hana þar til sölu. Bifreiðin hefði ekki selst þar. Ákærði sagði bifreiðina ekki hafa skilað sér af bifreiðasölunni, hún hefði „farið á flakk“, einhver hefði fengið hana lánaða og ekki skilað henni aftur. Hann kvaðst síðan hafa frétt af henni við [...] í Kópavogi og látið vörslusviptingaraðilann vita af því. Ekki kvaðst ákærði muna hvar hann heyrði að bifreiðin væri staðsett þarna. Ákærði kvaðst síðast hafa séð bifreiðina þar sem hún stóð við [...], sennilega um áramót 2008/2009. Hann kvað þá Y ekki hafa komið nálægt niðurrifi bifreiðarinnar. Hann gaf sömu skýringu og fyrr á framburði sínum hjá lögreglu og kvaðst hafa fundist hann bera ábyrgð á því hvernig fór.
Meðákærði Y kvaðst muna eftir þessari bifreið, sem einhvern tíma hefði staðið við bifreiðasöluna. Hann kvaðst ekkert vita um afdrif bifreiðarinnar, sem ekki hefði verið í eigu A.
Vitnið C, sölumaður hjá [...], kvað ákærða X hafa komið með Ford Mustang bifreið á bifreiðasöluna og hefði hún verið þar til sölumeðferðar. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var og ekki heldur hver sótti bifreiðina af bifreiðasölunni. Vitnið tók þó fram að bifreiðar sem verið hefðu til sölumeðferðar væru aðeins afhentar eiganda eða einhverjum á hans vegum.
Þá kom fyrir dóminn sem vitni D, starfsmaður Frumherja, sem gerði grein fyrir skoðun sinni á bifreiðinni og skýrslu um mat á kostnaði vegna viðgerða á henni.
Niðurstaða
Ákærðu neita sök. Við yfirheyrslu hjá lögreglu gengust þeir hins vegar báðir við þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Ákærðu hurfu frá þeim framburði fyrir dóminum og hafa hafnað því að hafa rifið eða látið rífa bifreiðarnar niður og selt eða ráðstafað úr þeim varahlutum, svo sem í ákæru greinir. Hefur ákærði Y jafnframt hafnað allri vitneskju um afdrif bifreiðanna tveggja sem í 1. ákærulið greinir. Ákærði Y hefur lýst tildrögum þess að hann bar með fyrrgreindum hætti við yfirheyrslu hjá lögreglu. Fær frásögn hans að því leyti stoð í framburði meðákærða og eru skýringar hans á breyttum framburði ekki ótrúverðugar. Öðrum gögnum er ekki til að dreifa um að ákærði hafi dregið sér eða bifreiðasölunni bifreiðarnar sem um ræðir með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 108., 109. og 110. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, telst ósannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga og verður hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði X bar við aðalmeðferð málsins að hann hefði lánað einhverjum mönnum þær bifreiðar sem í 1. og 2. ákærulið greinir. Ákærði kvaðst ekki geta gert grein fyrir því hverjum hann lánaði bifreiðarnar. Hefðu bifreiðarnar síðan ýmist verið lánaðar áfram og týnst, eða þær „farið á flakk“. Hefur ákærði að mati dómsins gefið óljósar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Samkvæmt 110. gr. laga um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram fyrir dómi. Þótt framburður ákærða hafi verið nokkuð á reiki, verður hann ekki sakfelldur á grundvelli játningar við yfirheyrslu hjá lögreglu, nema sú játning fái stuðning í öðrum gögnum málsins. Öðrum gögnum er hins vegar ekki til að dreifa um að ákærði hafi fénýtt bifreiðarnar með því að rífa eða láta rífa þær niður og selja eða ráðstafa á annan hátt úr þeim varahlutum, svo sem í ákæru greinir. Telst því ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sbr. 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála. Á hinn bóginn hefur ákærði játað að hafa í heimildarleysi lánað bifreiðarnar þrjár, sem hann hafði í vörslum sínum, en voru í eigu fjármögnunarfyrirtækjanna Avant hf. og Lýsingar hf., til ónefndra manna og ekki sinnt áskorunum eigenda bifreiðanna um að skila þeim. Háttsemi ákærða fól í sér ólögmæta tileinkun og olli hann eigendum bifreiðanna talsverðu fjártjóni, svo sem gögn málsins bera með sér. Samkvæmt framansögðu telst fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi dregið sér bifreiðarnar þrjár, sem í 1. og 2. ákærulið greinir. Hefur hann með framangreindri háttsemi gerst brotlegur við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði X er fæddur árið 1972 og hefur hann ekki áður sætt refsingu svo vitað sé. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir fjárdrátt og varðaði brot hans talsverð fjárverðmæti. Refsing verður ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu Avant hf. er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 6.400.000 krónur auk lögmannsþóknunar og vaxta. Eftir úrslitum málsins verður skaðabótakröfu á hendur ákærða Y vísað frá dómi. Ákærði X er hins vegar bótaskyldur vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Skaðabótakröfu fylgir skýrsla starfsmanns Aðalskoðunar, sem vann tjónamat fyrir bótakrefjanda eftir að hafa skoðað bifreiðarnar UP-[...] og DJ-[...]. Kom starfsmaðurinn jafnframt fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir matinu. Kröfufjárhæð er miðuð við niðurstöðu tjónamatsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða það tjón sem af háttsemi hans hlaust og metið hefur verið að fjárhæð 6.400.000 krónur. Þá þykir bótakrefjandi eiga rétt á skaðabótum vegna kostnaðar við að hafa uppi skaðabótakröfu. Þykir lögmannsþóknun hæfilega ákveðin 180.000 krónur.
Þá hefur Lýsing hf. krafist þess að ákærði X verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 2.494.000 krónur auk lögmannsþóknunar og vaxta. Kröfufjárhæð er miðuð við niðurstöðu starfsmanns Frumherja, sem skoðaði bifreiðina RO-[...] og vann skýrslu um mat á kostnaði vegna viðgerða á henni. Kom starfsmaðurinn fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir mati sínu. Þá lækkaði bótakrefjandi kröfu sína um fjárhæð sem nam söluverði bifreiðarinnar sem tjónabifreiðar. Verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjanda skaðabætur að fjárhæð 2.494.000 krónur, sem samkvæmt framansögðu nemur endanlegu tjóni sem hlaust af háttsemi hans. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjanda lögmannsþóknun að fjárhæð 168.350 krónur, samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði X verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðast úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Y, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði X greiði Avant hf. 6.580.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2011, frá 1. september 2009 til 6. október 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði Lýsingu hf. 2.662.350 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2009 til 6. október 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 251.000 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 251.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.