Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/2002


Lykilorð

  • Ríkisstarfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Res Judicata


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. maí 2002.

Nr. 12/2002.

Þuríður Gísladóttir

(sjálf)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Ríkisstarfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Res Judicataáhrif.

Þ höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu (Í) og krafðist þess að ógilt yrði uppsögn hennar úr starfi 25. september 1992. Hafði Þ áður höfðað mál á hendur Í til heimtu skaðabóta vegna uppsagnarinnar, en Í þá verið sýknað í héraði. Þeim dómi var ekki áfrýjað og hafði hann því þau áhrif í síðara málinu, sem um ræðir í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þ hafði ekki tekist að sanna fullyrðingu sína um það sem hún taldi raunverulega ástæðu uppsagnarinnar. Af þeim sökum og með vísan til ofangreinds lagaákvæðis þótti ekki verða hjá því komist að miða við að uppsögn Þ hefði verið lögmæt og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2002. Hún krefst þess að ógilt verði uppsögn hennar 25. september 1992 úr starfi hjá Hollustuvernd ríkisins. Þá krefst hún málskostnaðar.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi 10. mars 1987 ráðningarsamning um starf líffræðings við Hollustuvernd ríkisins. Þar var meðal annars ákvæði um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Þess ákvæðis neytti Hollustuvernd ríkisins með áðurnefndu bréfi til áfrýjanda 25. september 1992, en þar sagði að stjórn stofnunarinnar hafi 22. sama mánaðar staðfest ósk forstöðumanns rannsóknarstofu hennar um að áfrýjanda yrði sagt upp störfum, enda teldi stjórnin „með hliðsjón af eðli málsins, að hún eigi ekki annarra kosta völ“. Samningsbundinn uppsagnarfrestur myndi byrja að líða 1. október 1992 og hafi forstöðumaðurinn óskað eftir að áfrýjandi léti af störfum þann dag, en hún fengi laun til loka frestsins 31. desember sama árs. Í þessu bréfi voru engar skýringar gefnar á ástæðum þess að áfrýjanda væri sagt upp störfum. Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um að hún hafi áður verið áminnt vegna starfa sinna.

Áfrýjandi höfðaði mál gegn stefnda 3. nóvember 1993 til heimtu skaðabóta vegna framangreindrar uppsagnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda, en lagt var til grundvallar þeirri niðurstöðu að uppsögn hennar hafi verið lögmæt. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Hann hefur því í máli þessu þau áhrif, sem um ræðir í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi ber því við í málinu að í reynd hafi sér verið sagt upp störfum hjá Hollustuvernd ríkisins vegna þess að hún hafi neitað að taka þátt í mótmælaaðgerðum félagsmanna í stéttarfélagi sínu, sem þar störfuðu, af nánar greindu tilefni haustið 1990. Henni hefur ekki tekist að sýna fram á þetta. Af þeim sökum og með vísan til áðurnefndrar 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki komist hjá því að miða hér við að uppsögn áfrýjanda hafi verið lögmæt. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2001.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 19. september sl., að loknum munnlegum mál­flutningi, var höfðað af Þuríði Gísladóttur, Akraseli 17, Reykjavík, á hendur fjár­mála­ráð­herra og umhverfisráðherra f.h. Hollustuverndar ríkisins, Ármúla 1a, Reykjavík, með stefnu birtri 11. september 2000.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að uppsögn hennar úr starfi með bréfi dagsettu 25. september 1992 verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu hennar til að greiða virðis­auka­skatt af lögmannsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar, sam­­kvæmt mati réttarins.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettum 14. desember 2000, var mál­inu vísað frá dómi.  Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 22. janúar 2001, var sá úr­skurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

II

Stefnandi hóf störf á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins á árinu 1983 og var þar lausráðin við vinnu með hléum í tengslum við nám þar til í lok árs 1987, þegar hún var fastráðin.  Stefnandi var í leyfi frá störfum, að hluta til á launum, frá október 1988 til ágúst 1989, vegna framhaldsnáms.  Stefnandi hóf þá fullt starf hjá stefnda og starfaði þar á rannsóknarstofu og í byrjun árs 1990 varð hún fagdeildarstjóri.  Stefnandi kveður að á árinu 1991 hafi félagsmenn í stéttarfélagi hennar tekið sig saman um að láta sig vanta einn dag frá vinnu sökum veikinda, en þetta hafi verið liður í mótmælum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna setningar bráða­birgða­laga varðandi launakjör þeirra.  Stefnandi kveðst hafa látið hjá líða að taka þátt í að­gerð­­unum.  Stefnandi kveður tvo samstarfsmenn sína hafa orðið vara við að hún væri við vinnu umræddan dag.  Eftir það hafi settur forstöðumaður og starfandi fram­kvæmda­stjóri stefnda hafið bréfaskipti við stefnanda og síðan sagt henni upp störfum með bréfi dagsettu hinn 25. september 1992.  Stefndu telja þessar fullyrðingar hreinan upp­spuna og að ástæða uppsagnarinnar hafi verið samstarfserfiðleikar.

Fyrrgreindur Franklín Georgsson, kvaðst aðspurður fyrir dómi, ekki muna eftir að atvik hefðu verið með þeim hætti sem stefnandi lýsir.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að ástæður þess að ótímabundnum ráðn­ing­ar­samn­­ingi hennar við Hollustuvernd ríkisins, staðfestum af fjármálaráðuneytinu, hafi verið sagt upp með bréfi dagsettu 25. september 1992, megi rekja til þess að stefnandi hafi ekki tekið þátt í mótmælum stéttarfélags stefnanda, Félags íslenskra nátt­úru­fræð­inga.  Ekki hafi verið unnt að segja upp ráðningarsamningi á þessum grunni.  Upp­sögnin hafi verið brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, sbr. lög nr. 25/1998 og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, lög nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995.  Því beri að dæma uppsögnina ólögmæta.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að uppsögn stefnanda frá störfum hafi verið lögmæt og í samræmi við þágildandi starfsmannalög.  Ráðningarsamningi stefn­anda hafi verið sagt upp með þriggja mánaða samningsbundnum uppsagnarfresti.  Ástæða uppsagnarinnar hafi verið langvarandi samstarfsörðugleikar.  Vegna þeirra erfið­leika hafi margir fundir verið haldnir og allt reynt til að forða uppsögn stefnanda.  Á fundi hinn 9. september 1992 hafi stefnanda verið tilkynnt að yfirmaður hennar myndi fara þess á leit við stjórn Hollustuverndar ríkisins, að henni yrði sagt upp störf­um.  Stefnanda hafi því verið gefinn kostur á að tala máli sínu.  Stefndi hafi með dómi dag­settum 22. apríl 1994 verið sýknaður af kröfum stefnanda um skaðabætur vegna ólög­mætrar uppsagnar hennar úr starfi.  

Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu stefnanda, sem tilhæfulausri, að raunveruleg ástæða uppsagnar stefnanda hafi verið að stefnandi hafi ekki tekið þátt í einhverjum mót­mælum stéttarfélags þegar hún hafi unnið hjá Hollustuvernd ríkisins.  Telur stefndi fullyrðingu þessa hreinan uppspuna og eigi hún sér enga stoð í raun­veru­leik­anum.

V

Mál þetta er þriðja málið, sem stefnandi höfðar á hendur stefnda vegna uppsagnar hennar frá störfum hjá Hollustuvernd ríkisins, en henni var sagt upp störfum með bréfi dag­settu 25. september 1992.  Í tveimur fyrri dómsmálunum krafði stefnandi stefnda um skaða­bætur vegna uppsagnarinnar, sem hún í raun taldi vera ólögmæta brott­vikn­ingu úr starfi.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 22. apríl 1994, var stefndi sýkn­aður af kröfu stefnanda.  Málinu var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.  Öðru máli stefn­anda vegna uppsagnarinnar var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykja­­víkur dagsettum 11. október 1999.  Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæsta­­réttar Íslands dagsettum 26. október 1999.

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda hjá stefnda, sem dagsettur er 10. mars 1987, skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningnum vera þrír mánuðir, nema tekið sé fram að ráðningu ljúki sjálfkrafa.  Þó skal gagnkvæmur upp­sagn­ar­frestur vera einn mánuður á fyrstu þrem mánuðum í starfi, svo og ef samningurinn gerir ráð fyrir að launþeginn sé sjóðsfélagi í öðrum lífeyrissjóði, en lífeyrissjóðum ríkis­starfsmanna.  Ákvæði samningsins um uppsagnarfrest gilda þó ekki um þá starfs­menn ríkisins sem hófu störf fyrir 1. janúar 1973, án þess að samið hefði verið um sér­stak­an uppsagnarfrest, og störfuðu hjá ríkinu samfellt síðan.

Stefnda var því heimilt að segja stefnanda upp störfum með þriggja mánaða upp­sagn­arfresti.

Uppsögn stefnanda með bréfi dagsettu 25. september 1992 var því í samræmi við fyrr­greindan ráðningarsamning og var uppsagnarfrestur stefnanda virtur. 

Stefndi hefur haldið því fram að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sam­starfs­örð­ug­leikar, þó svo að ástæða uppsagnarinnar sé ekki tilgreind í uppsagnarbréfinu.  Í málinu er ekkert það fram komið sem bendir til þess að ástæða uppsagnar hennar úr starfi hjá ríkinu, sem hún hafði gengt í mörg ár, hafi verið ómálefnaleg og svo fjar­stæðu­kennd, eins og stefnandi heldur fram    Samkvæmt því liggur ekki annað fyrir en að uppsögn stefnanda úr starfi hafi verið lögmæt.  Ber því að sýkna stefnda af kröf­um stefnanda.

 Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Þuríðar Gísladóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.