Hæstiréttur íslands
Mál nr. 548/2015
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Upptaka
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af þeim sakargiftum að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni og að refsing hans verði milduð.
Ákærði hefur játað að hafa haft í vörslum sínum þau fíkniefni sem ákæra lýtur að. Þegar litið er til þess að hluta þeirra var pakkað í litla plastpoka, þar sem hver eining vóg um eitt gramm, magns fíkniefnanna og styrkleika þeirra, er sannað að ákærði hafi haft þau í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ingibjartur Geir Richter, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 390.483 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 13. júlí 2015.
I.
Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Akranesi, nú lögreglustjórinn á Vesturlandi, með ákæru, dags 30. júní 2014, á hendur ákærða, Ingibjarti G. Richter, kt. [...], Skagabraut 15, Akranesi. Málið var dómtekið 19. júní 2015.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir fíkniefnalagabrot, en ákærða er gefið að sök „að hafa miðvikudaginn 5. mars 2014 haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni á heimili sínu Presthúsabraut 25, Akranesi, alls 105,99 g af amfetamíni, 97,89 g af amfetamíni voru í tveimur litlum krukkum milli sæta í sófa í stofunni og 8,10 g í litlum plastumbúðum í eldhúsi, en lögreglan fann efnin við húsleit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerðir nr. 232/2001 og nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og þess er jafnframt krafist að framangreind fíkniefni sem hald var lagt á, verði gerð upptæk, samkvæmt 5. og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög 68/2001 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi og að hún verði eftir atvikum bundin skilorði. Jafnframt krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
II.
Tildrög þessa máls eru þau að við húsleit lögreglu á heimili ákærða að Presthúsabraut 25 á Akranesi fannst hvítt efni í sjö plastpokum í ísskáp, hvítt efni í plasti í efstu hillu í skáp í eldhúsi, tvær krukkur með bleiku efni í sófa í stofu, sex hylki með gráum vökva í skáp í eyju og tveir stórir plastpokar með hvítu dufti. Vildi ákærði ekki tjá sig um meint fíkniefni sem fundust við húsleitina. Eftir að húsleit lauk var ákærði fluttur á lögreglustöðina og vistaður í fangaklefa. Er tekin var skýrsla af honum hjá lögreglu, að viðstöddum tilnefndum verjanda, í kjölfar þess að hann var handtekinn, kvaðst hann ekki vilja tjá sig um húsleitina né það sem fannst á vettvangi.
Lögreglan á Akranesi sendi tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu efnin til frekari rannsóknar og kom við þá rannsókn í ljós að hluti pakkninganna innihélt samtals 105,99 grömm af amfetamíni. Vegna þessa voru tvö sýnishorn þeirra efna send Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði til nánari rannsóknar og í fyrirliggjandi matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 20. mars 2014, kemur fram að efnin í báðum sýnunum hafi innihaldið amfetamín, koffein og laktósa og að efnapróf bentu til þess að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínsúlfats. Reyndist styrkur amfetamínbasa í öðru sýninu vera 13%, sem samsvaraði 18% af amfetamínsúlfati, og í hinu sýninu reyndist styrkur amfetamínbasa vera 14%, sem samsvaraði 18% af amfetamínsúlfati.
Í upplýsingarskýrslu lögreglu um styrkleika amfetamínsins kemur fram að ef tekið sé mið af niðurstöðu rannsóknar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um að „götustyrkleiki“ amfetamíns hafi á árunum 2006-2007 verið 5,8% megi áætla að úr því magni sem hér um ræðir hefði verið hægt að búa til 227,847 g af umræddu efni til götusölu .
III.
Ákærði játaði fyrir dómi að hafa átt þau fíkniefni sem ákæra snýst um en kvað þau einungis hafa verið fyrir hann sjálfan en ekki ætluð til sölu og dreifingar. Ákærði kvaðst að öðru leyti ekki vilja svara spurningum um ákæruatriðin og nýtti sér þar með rétt sinn skv. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að neita fyrir dómi að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök.
Vitnið A, verkefnastjóri hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, gaf símaskýrslu fyrir dómi. Staðfesti hann matsgerð þá sem liggur fyrir í málinu um amfetamíninnihald og styrk þess. Kom fram hjá honum að styrkur amfetamínbasa í öðru sýninu hefði reynst vera 13%, sem samsvaraði 18% af amfetamínsúlfati, en í hinu sýninu hefði styrkur amfetamínbasa reynst 14%, sem samsvaraði 18% af amfetamínsúlfati. Væri þessi styrkur nokkuð mikill, ef tekið væri mið af rannsókn sem rannsóknastofan hefði gert á 306 sýnum á fjögurra ára tímabili, en þá hefði meðalstyrkur amfetamínbasa reynst vera 17%. Einnig hefði verið framkvæmt göturannsóknarverkefni árið 2007, en þar hefðu 89 sýni verið skoðuð sem ætluð hefðu verið til neyslu. Hefði meðalstyrkur efnanna í þeim reynst vera 5,8%. Hefði styrkleiki efnanna í þessum sýnum legið á bilinu 0,9% og upp í 29% en 90% sýnanna hefðu verið undir 10%.
IV.
Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa haft alls 105,99 g af amfetamíni „í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni“. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa átt efnin en byggir kröfugerð sína á því að efnin hafi verið ætluð til eigin nota. Þar sem hann væri einungis ákærður fyrir að hafa haft amfetamín „í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni“ en ekki ákærður sérstaklega fyrir vörslur efnanna beri að sýkna hann af ákæru í málinu.
Eins og fyrr segir reyndist styrkleiki amfetamínbasanna í þeim sýnum sem rannsökuð voru hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði vera annars vegar 13% og hins vegar 14%. Kom fram í vitnisburði verkefnastjóra hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að styrkleiki sýnishorna þessara efna hefði verið töluvert mikill, en samkvæmt rannsókn sem framkvæmd hefði verið hjá rannsóknastofunni árið 2007 hefði meðalstyrkur efna í götusölu þá talist vera um 5,8%.
Við mat á því hvort sök ákærða telst sönnuð verður að horfa til þess að hann hefur viðurkennt að hafa haft í sínum vörslum umtalsvert magn af sterku amfetamíni, sem að hluta til var innpakkað í poka, með u.þ.b. eitt gramm í hverjum poka. Þegar einnig er haft í huga að ákærði hefur neitað, bæði við aðalmeðferð málsins og hjá lögreglu, að svara spurningum ákæruvalds varðandi ákæruatriðin, og þar með ekki nýtt tækifæri sitt til að gefa skýringar á tilvist efnanna og ástæðu þess að þeim hafði að hluta til verið pakkað inn í umbúðir sem hentugar sýnast til söludreifingar, verður að telja að fram sé komin sönnun sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum um að ákærði hafi haft efnin í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar telst réttilega færð til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki mál á sakaskrá sem hefur áhrif á ákvörðun viðurlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður einkum litið til magns og styrkleika fíkniefnanna ásamt því að þau voru ætluð til sölu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ekki kemur til álita að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæru verða gerð upptæk þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu og ákvörðun dómsins um þóknun verjanda, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en hann tók við rekstri málsins er hann var skipaður dómstjóri 1. mars 2015.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Ingibjartur G. Richter, sæti fangelsi í sex mánuði.
Ákærði sæti upptöku á 105,99 g af amfetamíni.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 400.000 krónur, og ferðakostnað verjandans, 38.800 krónur. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað að fjárhæð 140.965 krónur.