Hæstiréttur íslands
Mál nr. 790/2013
Lykilorð
- Frelsissvipting
- Kynferðisbrot
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2014. |
|
Nr. 790/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Wojciech Marcin Sadowski (Oddgeir Einarsson hrl. Vífill Harðarson hdl.) (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Frelsisskerðing. Kynferðisbrot. Líkamsárás. Skaðabætur.
W var sakfelldur fyrir frelsisskerðingu, kynferðisbrot og líkamsárás með því að hafa haldið A nauðugri í yfirgefnu húsnæði í 30 til 40 mínútur og á meðan frelsissviptingunni stóð veist að henni með margvíslegu ofbeldi, þvingað hana til munnmaka og haldið áfram ofbeldinu eftir það. Var háttsemi W talin varða við 1. mgr. 226. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem W beitti A ofbeldi bæði fyrir og eftir að hann braut gegn henni kynferðislega tæmdi brot hans samkvæmt 1. mgr. 194. almennra hegningarlaga ekki sök gagnvart broti hans á 1. mgr. 217. gr. laganna. Var refsing W ákveðin fangelsi í 5 ár auk þess sem honum var gert að greiða A 3.176.114 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að refsing verði milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.
A krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa að morgni 20. apríl 2013 svipt brotaþola frelsi, ráðist á hana og nauðgað henni í yfirgefnu húsnæði að [...] í Reykjavík. Þótt tímasetningar í málinu séu ónákvæmar verður fallist á með héraðsdómi að leggja beri til grundvallar að brotaþoli hafi vaknað um klukkan átta að morgni þessa dags í húsnæðinu, en ákærði svaf þar enn. Eftir að hún hafði árangurslaust reynt að komast út vakti hún ákærða og verður miðað við að hún hafi þá óskað eftir því að hann opnaði fyrir henni svo hún kæmist út, en hann hafði lykla að húsnæðinu. Í skýrslu hjá lögreglu bar ákærði á þennan veg, en hann hefði ekki munað á þeirri stundu hvar lyklarnir væru. Fallist er á með héraðsdómi að ákærði hafi þá þegar krafist þess að brotaþoli stundaði með honum kynlíf og beitt hana ofbeldi þegar hún hafnaði því. Brotaþoli leitaði ákaft útgöngu úr húsnæðinu og reyndi að brjóta rúðu í hurð á útidyrum til þess að komast út án þess að það tækist. Eftir að brotaþoli hafði bitið í kynfæri ákærða jókst ofbeldi hans gegn henni að miklum mun. Það var fyrst eftir um 30 til 40 mínútur að mati brotaþola, en um 30 mínútur að mati ákærða, frá því að hún fyrst óskaði eftir að fá að komast út, sem hann féllst á að hleypa henni út og sótti þá lykla upp á efsta pall í húsnæðinu. Fyrir dómi bar ákærði að brotaþoli hafi fyrst beðið um að komast út eftir framangreindan tíma. Er þeirri frásögn hans réttilega hafnað í héraðsdómi enda bera ummerki í húsnæðinu og á framangreindri hurð með sér að brotaþoli hafi beitt örþrifaráðum til að reyna að komast út. Telst sannað að ákærði hafi haldið brotaþola í húsnæðinu í 30 til 40 mínútur. Allan þann tíma beitti hann hana líkamlegu ofbeldi og því kynferðislega ofbeldi, sem ákært er fyrir. Frelsisskerðingin var því alvarleg og aðstæður brotaþola ógnvænlegar enda átti ákærði alls kostar við hana í átökum þeirra. Verður samkvæmt þessu fallist á með héraðsdómi að háttsemi ákærða verði felld undir 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, þótt frelsisskerðingin hafi ekki varað lengur en lýst hefur verið.
Þá verður fallist á með héraðsdómi að ákærði hafi gerst sekur um brot á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með þeirri háttsemi sem þar telst sönnuð.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi beitti ákærði brotaþola miklu ofbeldi í um hálfa klukkustund. Sannað er að hann veitti henni mörg högg, sem bæði geta hafa verið veitt með hnefa og með spörkum, meðal annars í andlit og annars staðar í höfuðið. Verður fallist á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi meðal annars sparkað í brotaþola eins og lýst er í ákæru. Í vottorði C læknis, sérfræðings í slysa- og bráðalækningum, 22. apríl 2013, var áverkum brotaþola lýst svo að við skoðun á höfði væri mikil bólga hægra megin yfir kinnbeini og að bólgan hafi náð alveg niður fyrir kinn. Hún hafi verið með ,,sár eilítið óreglulegt“ um það bil 1 cm langt rétt ofan við efri vör hægra megin. Ljóst hafi verið að brotaþoli hafi hlotið þar högg, mögulega hnefahögg og hafði skorist í gegnum innri vör og út á yfirborð. Sagði að sárið hafi verið eilítið lengra innanvert á efri vörinni og náð alveg í gegnum húð. Ekki hafi verið að sjá áverka eða brot á tönnum. Hún hafi fundið til við að bíta saman og það hafi verið veruleg eymsli yfir hægra kinnbeini. Þá virtist hafa blætt niður í ytri hlust en erfitt væri að segja hvort blóðið þar væri frá vör eða innra eyra, þótt hið fyrrnefnda væri líklegra. Í vottorðinu sagði einnig að brotaþoli hafi verið þrútin og aum yfir báðum ytri eyrum og það hafi verið blámi og mar einkum á vinstra eyra ofantil og aftantil. Sár hafi verið efst á nefi milli augna og hafi það verið tveir til þrír mm að lengd, en ekki þurft að sauma það.
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað C brotaþola hafa fengið áberandi þung högg á kinnina. Þau högg hafi einnig getað komið til við spörk. Hún kvaðst telja líklegt að um hefði verið að ræða fleiri en eitt slíkt högg og nefndi í því sambandi högg á munninn, á kinnina eins og fyrr greinir og ef til vill á eyrað. Spurð um hvort svona höfuðhögg teldust alla jafna hættuleg svaraði hún: ,,Þau geta verið það, áverkar á höfði eru almennt, geta verið hættulegir og við sjáum ástæðu miðað við útlit á henni að bæði [fá] sneiðmynd af andlitsbeinum til að útiloka brot og eins af höfði og af heila og sem betur fer reyndist svo ekki vera. Það voru ekki brot eða innvortis blæðingar.“
Samkvæmt framansögðu beitti ákærði brotaþola grófu ofbeldi, sem þó hefur ekki haft varanlegar líkamlegar afleiðingar fyrir hana. Verður háttsemi hans felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Er ljóst af framansögðu að litlu gat munað að illa færi og var háttsemi ákærða sérstaklega vítaverð. Hann beitti ofbeldinu bæði fyrir og eftir að hann braut gegn brotaþola kynferðislega. Tæmir brot hans gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga því ekki sök gagnvart broti hans á 1. mgr. 217. gr. laganna.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi hinnar alvarlegu atlögu ákærða að brotaþola og skerðingar á frelsi hennar verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu hans. Jafnframt verður héraðsdómur staðfestur um miskabætur til handa brotaþola og sakarkostnað í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Wojciech Marcin Sadowski, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 793.089 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 9. október 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 2. júlí 2013, á hendur Wojciech Marcin Sadowski, kt. [...], pólskum ríkisborgara, [...], [...], fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart A, fæddri [...], [...] ríkisborgara, framin að morgni laugardagsins 20. apríl 2013, í verslunarhúsnæði að [...], Reykjavík:
- Frelsissviptingu, með því að halda A nauðugri í húsnæðinu í 30 til 40 mínútur en ákærði, sem hafði lykla að húsnæðinu, beitti hana ofbeldi eins og lýst er í 2. ákærulið og hleypti henni ekki út þrátt fyrir að hún bæði hann um það og reyndi að komast út úr húsnæðinu, sem var læst, m.a. með því að brjóta gler í útidyrahurð.
Telst þetta varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Sérstaklega hættulega líkamsárás og nauðgun með því að hafa, meðan á ofangreindri frelsissviptingu stóð, veist með ofbeldi að A, krafið hana um kynlíf, ítrekað slegið og sparkað í höfuð hennar og líkama, þröngvað henni til munnmaka og haldið áfram árás sinni eftir það. Við þetta hlaut A mikla bólgu og mar hægra megin yfir kinnbeini sem náði niður fyrir kinn, glóðarauga, opið sár á vör sem sauma þurfti með þremur sporum, sár í munnholi, bláma og mar á ytri eyrum, einkum á því vinstra, sár efst á nefi milli augna, rispur á vinstri kinn, kúlu á höfði vinstra megin, marbletti á hnjám og neðan við vinstra hné, lófastórt mar framan og innanvert á hægra læri og sár á hægra læri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.176.114 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. apríl 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. apríl 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns úr hendi ákærða.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að fram kominni bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af bótakröfu, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Laugardagsmorguninn 20. apríl 2013, klukkan 8:33, var óskað aðstoðar lögreglu að farfuglaheimilinu B við [...] í Reykjavík, vegna líkamsárásar. Er lögreglumenn komu á farfuglaheimilið vísuðu starfsmenn þeim á A, sem sat þar afsíðis. Kemur fram í skýrslu lögreglu að A hafi verið í miklu uppnámi, mjög bólgin hægra megin í andliti og hafi hún sagst finna til aftan í höfði. Hún hafi sýnilega verið undir áhrifum áfengis, en þó auðskiljanleg í tali. Lögreglumenn ræddu við A á ensku og kvaðst hún hafa verið að skemmta sér með tveimur félögum sínum í miðborginni. Þau hefðu farið á nokkra bari, en hún hefði orðið viðskila við félaga sína á einum þeirra og farið ein út. Fljótlega hefði hún hitt mann sem var á bifreið og hefði hann boðið henni að koma með sér, sem hún hefði þegið. Hann hefði verið á lítilli, blárri bifreið og taldi hún skráningarnúmerið vera [...]. Þau hefðu komið í iðnaðarhúsnæði þar sem einhverjir hlutir voru geymdir og þar hefði verið draslaralegt. Maðurinn hefði meinað henni útgöngu úr húsinu, haldið henni þar inni gegn vilja hennar í eina til tvær klukkustundir, og ráðist á hana. Hún kvaðst hafa vitað að hann hygðist nauðga henni og hefði hann þvingað hana með ofbeldi til munnmaka. Hún kvaðst hafa bitið í getnaðarlim mannsins meðan á munnmökunum stóð og hefði limurinn bólgnað upp og orðið rauðfjólublár. Eftir þetta hefði maðurinn veist að henni með frekara ofbeldi, lamið hana meira, sparkað í hana og kýlt. Hefði henni blætt mikið á vettvangi. Hún kvaðst hafa reynt að sleppa út á meðan þau voru þarna inni og hefði hún brotið rúðu við hlið útidyrahurðar. Maðurinn hefði eftir þetta ekið henni aftur niður í miðbæ og hefði hún farið úr bifreiðinni nálægt farfuglaheimilinu. A sagði manninn vera um hálfu feti hærri en hún, en hún væri 177 cm á hæð. Hann væri á svipuðum aldri og hún, dökkhærður og bláeygður. Hann hefði talað litla ensku. Eftir að lögreglumenn höfðu rætt við A var hún flutt á slysa- og bráðadeild Landspítala til aðhlynningar, en eftir það gekkst hún undir réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku.
A gaf skýrslu hjá lögreglu laugardaginn 20. apríl. Hún kvaðst hafa verið að skemmta sér með tveimur vinum sínum kvöldið áður og hefðu þau verið að drekka á börum í miðborginni. Hún kvaðst muna eftir sér klukkan rúmlega tvö um nóttina, en ekki það sem gerðist eftir það og taldi minnisleysi sitt stafa af áfengisneyslu. Hún kvaðst muna næst eftir sér þar sem hún var stödd á stað sem líktist vöruskemmu sem verið væri að gera upp. Þá hafi verið farið að birta af degi og kvaðst hún hafa áttað sig á því að kominn væri morgunn og hún yrði að flýta sér til að reyna að ná flugi sem hún átti bókað úr landi. Hún kvaðst hafa reynt að komast út úr húsinu, en dyrnar hefðu verið læstar. Maður hefði legið sofandi á gólfinu og hefði hún reynt að vekja hann. Hún kvaðst muna atvik eins og „skyndimyndir“. Eftir að maðurinn vaknaði hefði hann reynt að fá hana til að hafa við sig kynferðismök, en hún hefði neitað því og ýtt honum frá sér. Hún kvaðst hafa öskrað á hann að hún þyrfti að komast út. Þá hefði hann lamið hana og beðið hana að veita sér munnmök. Hún kvaðst hafa áttað sig á því að eina leiðin til að komast í burtu væri að eiga við hann munnmök og bíta hann. Það hefði hún gert og bitið eins fast og hún gat í getnaðarlim mannsins svo að hann hefði hlotið áverka af. Maðurinn hefði þá byrjað að kýla hana og sparka í hana. Hún kvaðst hafa komist að útidyrunum og reynt að komast út, en dyrnar hefðu verið læstar. Hún hefði sparkað í dyrnar og reynt að skilja eftir sig nógu mikil ummerki „ef eitthvað verra myndi gerast“. Taldi hún að mikið blóð og hár myndi vera á vettvangi, en einnig hefði hún reynt að snerta eins mikið og hún gat. Þá kvaðst hún einnig hafa barið ákærða. Hún kvaðst ekki muna tildrög þess að ákærði ákvað að yfirgefa húsið, en hann hefði boðið henni far með bifreið sinni. Hún hefði metið möguleika sína á að komast burt þannig að best væri að fara með honum og hefði hún síðan yfirgefið bifreiðina skammt frá farfuglaheimilinu. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa hitt þennan mann um nóttina, en taldi að vel hefði farið á með þeim í upphafi. Þá kvaðst hún ekki minnast þess að hafa haft kynferðismök við manninn, en taldi að svo hefði ekki verið. Hún kvað manninn hafa reynt að fá hana til að hafa við sig kynferðismök þegar hún vakti hann. Hann hefði reynt að taka hana úr buxunum, en hún hefði sagt „nei, nei, nei“. Hún hefði verið viss um að hann myndi nauðga sér. Hún hefði lamið hann og ýtt honum frá sér, en þá hefði hann farið fram á að hún veitti honum munnmök. Hann hefði lamið hana og rifið í hár hennar áður en hann fór fram á munnmökin, en eftir að hún beit hann hefði hún virkilega fengið að „finna fyrir því“.
Að aflokinni skýrslutöku ók lögreglumaður A um austurborgina í leit að húsnæðinu sem hún hafði lýst. Við [...] veittu þau því athygli að gler í útidyrahurð húss sem hýst hafði myndbandaleigu var brotið, en byrgt hafði verið fyrir með pappa. A kvaðst vera viss um að þetta væri vettvangurinn og var blóðkám sjáanlegt á hurðarkarmi. Rætt var við eiganda húsnæðisins, sem vísaði á starfsmann sinn, sem hefði lykil að því. Starfsmaðurinn kvaðst hafa látið ákærða, Wojciech Sadowski, fá lykilinn nokkrum dögum fyrr, en þeir væru vinir. Ákærði reyndist vera skráður eigandi [...] bifreiðar, blárrar að lit, með skráningarnúmerið [...]. Hann var í kjölfarið handtekinn á heimili sínu.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu sunnudaginn 21. apríl kvaðst ákærði hafa hitt A á götu í miðbænum aðfaranótt laugardags. Þau hefðu fengið sér hamborgara, en síðan farið saman í húsnæðið við [...] þar sem ákærði hefði unnið í hlutastarfi við að taka niður innréttingar eftir að rekstri myndbandaleigu þar hefði verið hætt. Þar hefðu þau byrjað að kyssast og síðan afklæðst og haft kynferðismök. Eftir það hefðu þau sofnað hlið við hlið. Um klukkan 8 eða 9 um morguninn hefði stúlkan vakið hann og beðið hann um að opna fyrir sér dyrnar, en ákærði kvaðst þá ekki hafa vitað hvar lykillinn væri. Hún hefði þá hneppt niður buxnaklaufinni hans og tekið getnaðarliminn í munn sér, en tveimur sekúndum síðar hefði hún bitið í liminn og hefði honum blætt á eftir. Ákærði kvaðst ekki vita af hverju stúlkan gerði þetta. Hann kvað hana síðan hafa hlaupið niður á neðri hæð hússins og hefði hún dottið niður tröppurnar. Hún hefði barið í glugga hússins og brotið einn þeirra. Hann kvaðst hafa beðið hana um að róa sig og spurt hvort hann ætti ekki að skutla henni til læknis. Síðan hefði hann ekið henni þangað sem hún vildi fara.
Ákærði kvaðst telja að þau hefðu farið saman úr miðborginni á milli klukkan þrjú og fimm um nóttina. Hann kvaðst hafa notað verju þegar hann hafði kynferðismök við stúlkuna og hefði hann sturtað verjunni niður í klósett að því loknu. Spurður um áverka á stúlkunni kvað hann hana hafa verið svolítið bólgna á kinn eftir að hafa dottið niður stigann. Hann neitaði því að hafa beitt konuna ofbeldi og reynt að þröngva henni til að hafa við sig munnmök. Hann gaf þá skýringu á blóði sem fannst á vettvangi að stúlkan hefði byrjað að lemja höndunum í veggi eftir að hún datt niður stigann og hefði hann séð að blóð lak úr munni hennar. Ákærði kvað stúlkuna hafa „bilast“ þarna.
A gaf skýrslu hjá lögreglu mánudaginn 22. apríl og lýsti þá atvikum nánar. Hún kvaðst hafa grátbeðið ákærða að hleypa sér út úr húsnæðinu, en hann hefði ekki orðið við því. Hún hefði verið að leita útgönguleiðar þegar ákærði veittist að henni og sló hana mörgum sinnum. Þá hefði hann dregið hana inn í herbergi með hvítum veggjum. Hún kvaðst ekki muna hvað ákærði sagði, en hann hefði viljað kynlíf. Hann hefði náð henni niður á gólfið og náð að taka buxurnar hennar aðeins niður. Hún hefði barist á móti og sloppið frá honum. Ákærði hefði verið fullklæddur, en með niðurrennda buxnaklauf. Hún kvaðst hafa farið að bakdyrunum og hrópað á hjálp, en enginn hefði heyrt í henni. Þá hefði hún sparkað í rúðu í því skyni að reyna að gera vart við sig. Ákærði hefði dregið hana inn í herbergi og sagt henni að hafa við sig munnmök. Hann hefði haldið henni niðri og verið búinn að taka getnaðarliminn út um buxnaklaufina og hefði limurinn verið við andlit hennar. Hún kvaðst hafa hugsað með sér að ef hún biti í liminn gæti hann ekkert gert henni frekar. Hún hefði síðan bitið eins fast og hún gat í lim ákærða. Hann hefði þá barið hana mikið og sparkað í hana, en hún hefði hniprað sig saman. Hún kvaðst ekki vita hvað varð til þess að ákærði lét af atlögunni, en hún hefði grátbeðið hann um að sleppa sér lausri.
A kvaðst ekki minnast þess að hafa haft kynferðismök við ákærða um nóttina, en telja að hún hefði farið sjálfviljug með honum á þennan stað. Hún kvaðst sjá á kvittun sem hún ætti að hún hefði verslað á bar klukkan 3:20 um nóttina, en ekki muna hvar hún hitti ákærða.
Ákærði var yfirheyrður á ný 24. apríl og bar hann sem fyrr að hann hefði hitt A á götu í miðborginni á milli klukkan þrjú og fimm um nóttina. Þau hefðu farið í húsnæðið við [...] og haft þar kynferðismök á efri hæð hússins. Hann hefði notað verju við samfarirnar og sturtað henni niður í klósett á eftir. Ákærði kvað þau hafa farið að sofa, en stúlkan hefði síðan vakið hann og hefði hún þá verið í miklu uppnámi. Það næsta sem gerðist hefði verið að hún hefði dregið buxurnar hans niður og viljað hafa við hann munnmök, en síðan bitið í getnaðarlim hans. Hann kvaðst hafa fundið mikinn sársauka og verið „frosinn“. Stúlkan hefði þessu næst rokið niður stiga og dottið þar niður. Hún hefði verið með einhvers konar krampa, í miklu uppnámi og byrjað að berja alla veggi. Honum hefði tekist að róa hana og hefði hann spurt hana hvort hún vildi fara til læknis vegna þess að hún hefði verið bólgin og blóðug í andliti. Hann hefði síðan ekið henni þangað sem hún vildi fara. Ákærði var enn yfirheyrður 5. júní og greindi hann frá atvikum með líkum hætti og fyrr.
Í læknisvottorði C, sérfræðings í slysa- og bráðalækningum, frá 20. apríl 2013, kemur fram að við komu brotaþola á bráðamóttöku hafi verið augljóst að hún hefði orðið fyrir erfiðri lífsreynslu, en hún hefði verið kvíðin og grátið. Mikil bólga hafi verið hægra megin yfir kinnbeini brotaþola, sem náði alveg niður fyrir kinn. Hún hafi verið með eilítið, óreglulegt u.þ.b. 1 cm langt sár rétt ofan við efri vör hægra megin. Ljóst væri að hún hefði hlotið þar högg, mögulega hnefahögg, og hafi skorist gegnum innri vör og út á yfirborð. Sárið hafi verið eilítið lengra innanvert á efri vörinni og náð alveg í gegnum húð. Það hefði verið saumað með þremur sporum. Veruleg eymsli hafi verið yfir hægra kinnbeini og virst hafi sem blætt hefði niður í ytri hlust. Hún hefði verið þrútin og aum yfir báðum eyrum og blámi og mar hafi verið einkum á vinstra eyra ofan til og aftan til. Þá hefði verið sár efst á nefi, á milli augna, um 2 til 3 mm að lengd.
Í vottorðinu kemur fram að ástæða hafi þótt til að fá myndrannsókn á höfði og andliti brotaþola til að útiloka brot og innvortis áverka. Sneiðmynd af heila- og andlitsbeinum hafi ekki sýnt óeðlilegar þéttnibreytingar í heilavef, blæðingar eða mar. Þá hafi ekki verið merki um höfuðkúpubrot eða brot á andlitsbeinum.
Þá liggur fyrir skýrsla D, sérfræðings á Neyðarmóttöku, um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem fram fór í kjölfar læknisskoðunar á bráðamóttöku. Er frásögn brotaþola rakin í skýrslunni, auk þess sem samantekt hjúkrunarfræðings á frásögn hennar fylgir. Ástandi brotaþola er lýst þannig að hún hafi verið róleg og yfirveguð, en „sjokkeruð“. Hún hafi gefið ágæta sögu og verið trúverðug. Hún hafi verið grátandi og hrædd við komu á slysadeild. Þá hafi hún lýst því að hún hafi óttast um afdrif sín meðan á árás stóð. Áverkum er lýst þannig að andlit hafi verið mjög bólgið og marið, sérstaklega hægra megin, frá augabrún og niður. Þá hafi hún verið með glóðarauga. Mikill bjúgur hafi verið hægra megin í andliti. Tvær rispur hafi verið á vinstri kinn, önnur rúmlega 1 cm að lengd, en hin um 3 til 4 cm. Þá hafi hún verið marin á augabrún. Kemur fram að áverkar á andliti geti verið til komnir eftir þung högg eða þrýsting frá hörðum hlut. Rispur séu sennilega eftir eitthvað hvasst, t.d. neglur. Þá kemur fram að hægra eyra hafi verið bólgið, nokkurt blóð hafi runnið inn í eyrað og hafi brotaþoli verið hvellaum þar yfir. Sá áverki geti stafað af höggi eða þrýstingi. Vinstra megin á höfði hafi verið kúla, auk þess sem brotaþoli hafi fundið þar fyrir eymslum, sem geti verið eftir högg eða þrýsting. Þá hafi brotaþoli verið með nýlega marbletti á hnjám og neðan við vinstra hné, lófastórt mar hafi verið að koma fram framan og innanvert á hægra læri og hafi verið þykkildi og eymsli djúpt í lærinu. Á hægra læri hafi einnig verið þrjú smá sár, um 2 til 3 mm á lengd. Áverkar á fótlegg geti verið tilkomnir við högg eða þrýsting. Loks kemur fram að brotaþoli hafi verið hvellaum á herðasvæði. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem lögregla tók af áverkum brotaþola við læknisskoðun á Neyðarmóttöku.
Í matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 24. maí 2013, kemur fram að í blóðsýni sem tekið var úr brotaþola á Neyðarmóttöku klukkan 10:15 um morguninn hafi mælst 1,37 alkóhóls, en 1,08 í blóðsýni sem tekið var klukkan 11:30. Þá hafi mælst 1,74 alkóhóls í þvagsýni sem tekið var klukkan 11:30.
Ákærði gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun í kjölfar handtöku. Í skýrslu E læknis um skoðunina kemur fram að ákærði hafi verið með hringlaga, um 4 cm mar utanvert ofarlega á hægri framhandlegg, líklegast um eða innan við sólarhringsgamalt. Tekið er fram að ekki hafi verið greinileg tannför, en vottað fyrir slíku á efri hluta svæðisins. Daufir gulleitir marblettir hafi verið framan á vinstri öxl og herðum, en þar hafi verið um vikugamla áverka að ræða. Á vinstri framhandlegg hafi verið blóðugar rispur, líklega tveggja til þriggja daga gamlar. Framan á vinstra hné hafi verið fleiður, líklega eins til tveggja sólarhringa gamalt. Þá hafi verið smárispur á hægra handarbaki upp af baugfingri og litla fingri, líklega fjögurra til fimm daga gamall áverki. Loks hafi ákærði verið með sár á kóngi, bæði mar og rof í húð. Úr svæðinu hafi vessað gulleitur vökvi og hafi áverkinn verið innan við sólarhringsgamall. Í skýrslunni er haft eftir ákærða að hann hefði hlotið áverka á framhandleggjum og hné við vinnu sína. Áverkann á getnaðarlim hafi hann hins vegar hlotið er kona beit hann þar fyrir 22 til 25 klukkustundum.
Í skýrslu lögreglu um rannsókn á vettvangi laugardaginn 20. apríl kemur fram að húsið að [...] er tveggja hæða, en á þremur pöllum. Þar var áður rekin myndbandaleiga, sem fyrr greinir, en er þetta var var unnið að því að taka niður innréttingar og hreinsa til. Kemur fram að eigandi hússins hafi komið þangað fyrr um daginn, tekið talsvert af rusli og hent. Rúða í útidyrahurð hafi verið brotin og hafi glerbrot á bifreiðastæði vestan við inngang, verið til marks um að rúðan hefði verið brotin innan frá. Úr sal á fyrstu hæð var innangengt í herbergi norðaustan megin og rými suðaustan megin. Af fyrstu hæð var gengið upp á pall og þaðan áfram upp á aðra hæð, þar var opið rými, en innangengt í herbergi og salerni til austurs. Á gólfi á annarri hæðinni fannst hluti af pakkningu utan af verju. Rannsókn leiddi í ljós að blóð var á auglýsingu sem hékk á innanverðri útidyrahurð, blóðkám var á vegg við inngang í herbergi norðaustan megin, mikið blóðkám á vegg sunnan megin í herberginu og á gólfi þess. Skófar reyndist vera í blóði á gólfi í herberginu. Í rými suðaustan megin mátti sjá blóð í pappír á hillu, blóðkám á krana, blóðdropa á vegg, og blóðkám á gólfi og hillu.
Við rannsókn á fatnaði brotaþola fundust blóðblettir í gallabuxum, jakka, hlýrabol, tveimur hálsklútum, á sokk og skó. Þá var lagt hald á skó ákærða við handtöku, en á þeim reyndust vera blettir, á hægri skó á tungu og aftarlega á vinstri hlið, auk þess sem stórt blettasvæði var fremst á vinstri hlið. Á vinstri skó voru sjáanlegir þrír dökkleitir blettir, tveir á tungu og einn aftarlega á innri hlið. Sýni voru tekin úr blettunum sem gáfu jákvæða svörun við prófun sem blóð. Ljósmyndir af fatnaði brotaþola og ákærða eru meðal gagna málsins, þ.m.t. ljósmyndir af skóm ákærða.
Sýni úr blóði sem fannst í fatnaði brotaþola og ákærða og á vettvangi voru send til DNA-greiningar hjá Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð. Samkvæmt skýrslu sem rituð var um niðurstöður rannsóknarinnar innihéldu sýni sem tekin voru úr blóði á suðurvegg og á gólfi í herbergi norðaustan megin á fyrstu hæð DNA-snið sem samrýmdist því að stafa frá brotaþola. Sýni úr blóðblettum á borði og stól á efri hæð hússins reyndust hins vegar hvorki stafa frá brotaþola né ákærða. Sýni sem tekin voru af blóðblettum á skóm ákærða reyndust hafa snið eins og DNA-snið brotaþola, sem og sýni sem tekin voru frá fatnaði brotaþola, buxum, jakka, og sokk. Kemur fram í skýrslunni að líkur á að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi séu ávallt minni en 1:1.000.000.000.
Í skýrslu lögreglu um blóðferlagreiningu kemur fram að ummerki um ofbeldisverknað hafi verið í herbergi í norðausturhluta jarðhæðar hússins. Blóðferlar á suðurvegg herbergisins hafi verið einkennandi fyrir blóðbletti sem framkallast við ofbeldisverknað á borð við spörk, en um hafi verið að ræða höggslettur. Höggsletturnar hafi verið neðarlega á suðurveggnum, nokkurn veginn fyrir miðju herbergisins, og dreifst til vesturs um 80 cm svæði. Lægstu sletturnar hafi verið í 30 cm hæð frá gólfi, en mesta hæð mældist í 66 cm. Um var að ræða 90° höggslettur sem gæfi sterklega til kynna að brotaþoli hafi verið „á fjórum fótum“ og síðar liggjandi þegar höggin eða spörkin voru veitt. Gera megi ráð fyrir að spörkin hafi verið nokkur þar sem blóðblettir dreifðust yfir nokkurt svæði. Vestar á suðurveggnum voru sjáanlegir yfirfærslublettir þar sem blæðandi manneskja hefði snert hreinan flöt veggjarins og var hreyfing í blettunum niður á við. Á gólfinu, fyrir miðju herbergi, voru blóðblettir, yfirfærslublettir og hringlaga blóðblettir. Í stærstu blóðblettunum mátti greina skóför með „fiskibeinamunstri“ og kemur fram í skýrslunni að skór ákærða hafi verið með slíku mynstri. Þá kemur fram að í herbergi við hliðina hafi verið blóðkám og tildregnir blóðblettir. Skýrslunni fylgja ljósmyndir af blóðferlum á vettvangi. Mánudaginn 22. apríl kom brotaþoli á vettvang og skoðaði framangreint herbergi við norðausturhluta jarðhæðar. Hún kvaðst hafa legið á gólfinu við suðurvegg herbergisins þar sem höggslettur voru sjáanlegar og hefði hún fengið spörk í höfuðið þar. Kemur fram í skýrslunni að frásögn hennar hafi komið heim og saman við blóðferlagreiningu og verið í rökréttu samhengi við blóðug ummerki á vettvangi.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst hafa hitt brotaþola við hamborgarastað í miðborginni umrædda nótt og hefðu þau tekið að spjalla saman. Ákærði kvaðst ekki hafa séð á stúlkunni að hún væri ofurölvi þegar þau hittust, en hann kvaðst sjálfur hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra. Hann kvaðst hafa spurt stúlkuna hvort hún vildi koma með sér í húsið þar sem hann starfaði á þessum tíma við að taka niður innréttingar, en hann hefði verið með lykla að húsnæðinu. Þau hefðu farið þangað á bifreið hans. Ákærði kvað þau hafa haft kynferðismök á þriðju hæð hússins. Hann hefði notað verju við kynferðismökin og hent henni í klósettið að því loknu. Þau hefðu síðan klætt sig og sofnað. Þegar hann vaknaði aftur hefði stúlkan staðið yfir honum og hefði hún verið pirruð, en ekki kvaðst hann vita af hverju. Hann kvaðst hafa staðið upp og hefði hún þá tosað niður um hann buxurnar, sett getnaðarlim hans í munn sér og byrjað að hafa við hann munnmök, en síðan bitið í liminn. Hann kvaðst hafa fundið til mikils sársauka og farið niður á hnén. Stúlkan hefði flúið niður, en dottið í stiganum sem lá niður af þriðju hæðinni. Lýsti ákærði því svo að stúlkan hefði verið skjálfandi þegar þetta var og síðan „klikkaðist hún þarna yfir allt rýmið“. Hún hefði barið í veggi og brotið rúðu í útidyrahurðinni. Á þessu hefði gengið í smátíma, en hann hefði þá sagt henni að slaka á. Hún hefði róast og hefði hann boðist til að aka henni til læknis þar sem hann sá að hún var bólgin á kinn og það blæddi úr vör hennar, en hún hefði fengið þessa áverka þegar hún féll niður stigann. Spurður um samskipti við stúlkuna kvaðst hann hafa rætt við hana á ensku og íslensku.
Ákærði kvað stúlkuna ekki hafa beðið um að komast út fyrr en í lokin eftir að hún róaðist. Kvaðst hann telja um 30 mínútur hafa liðið frá því hann vaknaði og þar til þau yfirgáfu húsið. Hann kvaðst telja að blóð hefði sprautast úr vör stúlkunnar á veggina þegar hún gekk um húsnæðið. Hún hefði „klikkast um“ í stóra herberginu og litla herberginu norðaustan megin á fyrstu hæðinni. Hann kvaðst ekki hafa farið inn í þetta herbergi, en séð hana ganga „klikkaða“ um þar. Spurður um skófar í blóði inni í herberginu kvað ákærði geta verið að það væri eftir skó sína. Hann kvaðst hins vegar ekki minnast þess að hafa verið inni í herberginu, en verið geti að hann hefði staðið við hurðina. Borin var undir ákærða niðurstaða blóðferlagreiningar í herberginu, sem að framan greinir. Ákærði áréttaði að hann teldi blóðið á veggnum hafa komið þegar stúlkan gekk þarna „klikkuð“ um og blóð lak úr munni hennar. Hann kvaðst ekki hafa séð aðra áverka á stúlkunni en að hún hafi verið bólgin á kinn og blætt úr munni hennar. Þá kvaðst hann ekki hafa tekið eftir áverkum á henni þegar þau höfðu kynferðismök. Spurður um áverka á innanverðu læri stúlkunnar, sem lýst er í læknisvottorði, kvaðst ákærði geta sér þess til að hún hefði fengið hann þegar hún datt niður stigann.
Ákærði kvaðst hafa fundið fyrir miklum sársauka þegar stúlkan beit hann í getnaðarliminn. Áverka annars staðar á líkamanum, sem lýst er í vottorði um réttarlæknisfræðilega skoðun, kvaðst hann hafa hlotið við vinnu sína við að taka niður innréttingar í húsnæðinu.
Ákærði kvað lyklana að húsnæðinu hafa verið uppi á þriðju hæð á meðan stúlkan var að hlaupa um niðri og hefði hann sótt þá þegar hún róaðist. Hún hefði ekki beðið hann að hleypa sér út fyrr en alveg í lokin. Þá lýsti ákærði því nánar hvernig stúlkan hefði „klikkast“. Hann kvað hana hafa dottið í eitthvert ástand. Hún hefði hlaupið um með hendurnar á lofti og hrist höfuðið.
Borið var undir ákærða það sem hefði komið fram hjá honum við yfirheyrslu hjá lögreglu 21. apríl, að stúlkan hefði vakið hann og beðið hann um að opna dyrnar, en hann hefði sagst ekki vita hvar lykillinn væri. Hefði stúlkan þá hneppt niður buxnaklaufinni hans, tekið getnaðarliminn í munn sér og bitið í hann. Ákærði kvaðst ekki minnast þess nú að stúlkan hefði beðið hann um lyklana til að opna dyrnar þegar hann vaknaði. Hún hefði bara tekið niður um hann buxurnar fyrirvaralaust.
Ákærði var spurður um blóðbletti á skóm hans og kvaðst hann telja blóð sem lak úr munni stúlkunnar geta hafa farið á skóna þegar hún hljóp um. Hann kvaðst hafa reynt að róa stúlkuna, hann hefði gengið þarna um og stundum staðið nálægt henni. Hann hefði séð að blóð lak úr stúlkunni, en ekki tekið eftir því að það færi á hann.
A kvaðst hafa verið að skemmta sér með tveimur ferðamönnum sem hún hefði kynnst á ferðalagi um landið. Þau hefðu farið á nokkur veitingahús og hefðu þau verið búin að drekka mjög mikið. Hún kvaðst síðast muna eftir sér á veitingastað, þar sem hún hefði greitt fyrir drykki klukkan 3:15 um nóttina, samkvæmt kvittun sem hún hefði fundið í veski sínu, en ekki vita hvað gerðist eftir það. Þegar hún rankaði við sér aftur hefði hún verið komin á einhvern ókunnan stað og hefði hún séð sofandi mann þarna. Hún hefði séð að tekið var að birta af degi, en hún hafi átt bókað flug úr landi þennan morgun og því þurft að fara. Hún kvaðst hafa reynt að komast út. Hún hefði reynt að opna framdyr hússins, en þær hefðu verið læstar og bakdyr hefðu líka reynst læstar. Hún hefði þá reynt að vekja manninn. Hann hefði ekki vaknað strax og því hefði hún hrist hann. Hún hefði síðan beðið hann um að hleypa sér út þar sem hún yrði að fara. Eftir þetta kvaðst hún muna atvik slitrótt, eins og „minnisblossa“. Hún tók fram að hún myndi atvik ekki eins vel og þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu, auk þess sem hún væri ekki viss um að hún gæti greint frá atburðum í réttri röð. Hún kvaðst muna að maðurinn bað hana um að hafa við sig kynferðismök, en hún hún hefði neitað og sagst þurfa að fara. Hann hefði sagt „yes, yes, sex, sex“ og reynt að draga hana inn í hliðarherbergi. Hún kvaðst hafa barist á móti af öllum mætti og hrópað á hann að sleppa sér. Þá hefði hún brotið rúðu í útidyrahurðinni til að reyna að vekja athygli utan frá, en enginn hefði verið á ferli. Hún hefði reynt að komast út um dyrnar, en horfið frá því þar sem brotna glerið var hættulegt. Þegar þetta var hefðu átökin verið orðin ofbeldisfull. Maðurinn hefði togað hana til og frá. Hann hefði komið henni inn í bakherbergið og togaði í hár hennar, en henni hefði tekist að halda í dyrakarminn. Hún kvaðst hafa óttast að ef hann færi með hana inn í herbergið gæti hvað sem er gerst. Á einum tímapunkti hefði maðurinn náð henni niður á gólfið og reynt að toga niður um hana buxurnar, en henni hefði tekist að varna því með því að snúa sér undan. Maðurinn hefði slegið hana ítrekað og sagt „suck me, suck me“ eða „sjúgðu mig, sjúgðu mig“. Hún hefði verið virkilega hrædd og ákveðið að reyna að bíta getnaðarliminn af honum. Hugsun hennar hefði verið sú að ef hún meiddi hann gæti hann ekki gert henni neitt. Hún hefði því bitið eins fast og hún gat í liminn. Þá hefði maðurinn virkilega tekið til við að berja hana. Hann hefði barið hana mikið í andlitið hægra megin og hún hefði verið orðin mjög blóðug. Þá hefði hann rifið í hár hennar og hafi hún verið með laust hár af þeim sökum. Hún kvaðst muna eftir því að hafa gengið um á vettvangi og reynt að snerta hluti til að gefa til kynna að hún hefði verið þarna ef „eitthvað verra myndi gerast“. Hún kvaðst einnig muna eftir að hafa reynt að veita manninum viðnám með því að henda einhverju í hann og reyna að lemja hann. Að lokum hefði maðurinn látið af atlögunni, en hún kvaðst ekki vita hvað varð til þess. Hann hefði náð í lyklana og sagt við hana að hann skyldi aka henni. Hún hefði neitað í fyrstu, en síðan hugsað með sér að hún vissi ekkert hvar hún væri og að hún gæti stokkið út úr bílnum ef eitthvað kæmi fyrir. Hún hefði því farið með honum á bifreiðinni og beðið hann um að hleypa sér út þegar hún fór að þekkja staðhætti.
A kvað sig ekki minnast þess að hafa haft kynferðismök við manninn um nóttina, en það væri ekki útilokað. Hún kvaðst ekki muna eftir sér þegar hún vaknaði um morguninn og því ekki vera viss um hvort hún var klædd þá. Hún myndi hins vegar að maðurinn var alklæddur þegar hún var að reyna að vekja hann. Hún kvaðst muna eftir því að hann hefði sparkað í hana. Hann hefði sparkað mikið í hana, í efri hluta líkamans og andlit. Hún kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvað langur tími leið frá því hún vaknaði þar til hún yfirgaf húsið, en telja að það hefðu verið meira en 30 mínútur. Þá kvaðst hún muna atvik eins og í „snapshots“ eða „smámyndum“. Borin var undir A frásögn ákærða um að hún hefði fengið áverka í andlit við að detta niður stiga. Hún kvað það fáránlega skýringu. Hún hefði verið lamin sundur og saman í andlitið. Enginn möguleiki væri á því að þessir áverkar væru af völdum falls niður stiga. Hún kvað ákærða vera valdan að öllum áverkum sínum sem raktir eru í læknisvottorði og skýrslu Neyðarmóttöku.
Hún kvað ákærða hafa dregið sig tvisvar sinnum inn í bakherbergið á fyrstu hæð hússins. Þar hefði hann sparkað í höfuð hennar og efri hluta líkamans. Henni hefði aðallega blætt úr munni, en efri vörin hefði rifnað við atlöguna. Hún kvaðst aðeins hafa hugsað um að komast af meðan á þessu stóð og lýsti hún því svo að hún hefði verið í „survival mood“. Atburðurinn hefði breytt lífi hennar á ýmsan hátt til lengri tíma litið. Þannig kvaðst hún nú gæta að sér þegar hún fari út á kvöldin og forðast að vera ein á ferli, eða of lengi úti. Áður hefði hún verið öruggari með sig. Hún kvaðst ekki hafa leitað sér sérfræðiaðstoðar vegna þess sem gerðist, enda ferðaðist hún mikið vegna starfs síns og hefði ekki fundið sér tíma til þess.
Borið var undir A það sem haft var eftir henni í frumskýrslu lögreglu að hún hefði hitt ákærða í miðborginni um nóttina. Hún kvað sig ekki minnast þess lengur. Sérstaklega spurð kvaðst hún hafa sett getnaðarlim ákærða í munn sér, en það hefði hún gert til að meiða hann. Hugsunin hefði verið sú að ef hún meiddi hann gæti hann ekki meitt hana. Ákærði hefði beðið hana um kynlíf þegar hann vaknaði og þegar hún neitaði hefði hann sagt: „jú, jú“ og reynt að draga hana inn í bakherbergið. Hann hefði verið búinn að koma henni niður á gólf og verið að draga niður um hana buxurnar þegar hann bað hana um að hafa við sig munnmök. Hann hefði verið búinn að taka getnaðarliminn út þegar hún setti hann upp í sig.
F og G, starfsmenn B, ræddu við A eftir að hún kom á farfuglaheimilið og hringdu til lögreglu að hennar beiðni. G kvað hana hafa komið þangað klukkan rétt rúmlega 8 um morguninn. Hún hefði verið stokkbólgin í framan og strax beðið um að hringt yrði í Neyðarlínuna. Hann kvaðst hafa rætt við hana í bakherbergi og hefði hún greint frá því að maður sem hún fór með í bifreið hefði lagt hendur á hana. Þá hefði hún lýst bifreiðinni og nefnt skráningarnúmer hennar og lit. F kvað A hafa verið mjög blóðuga og með svo mikla áverka að hún hefði ekki áttað sig á því hver þetta var fyrr en hún heyrði rödd hennar. Hún hefði verið í miklu uppnámi, en þó ótrúlega skýr í tali.
H lögreglumaður ræddi við A á B og ritaði frumskýrslu í málinu. Hann kvað hana hafa verið í miklu uppnámi. Hann hefði fundið áfengislykt af henni, en hún hefði ekki verið ofurölvi. Hún hefði lýst því sem hefði gerst og hefði frásögn hennar verið skýr. I rannsóknarlögreglumaður ræddi við A á slysadeild og annaðist skýrslutöku af henni daginn eftir atburðinn. Eftir skýrslutökuna fóru þau að leita að vettvangi og fundu hann í sameiningu. Vitnið kvaðst hafa haft uppi á ákærða og verið viðstaddur handtöku. Hann kvað ákærða ekki hafa sýnt nein viðbrögð þegar hann var handtekinn og hefði hann ekki sagt neitt. Kvaðst vitnið meta það svo að handtakan hefði ekki komið honum á óvart.
C sérfræðingur, sem skoðaði A á slysa- og bráðadeild Landspítala, kvað hana hafa verið í mjög kvíðafullu ástandi við komu þangað. Hún hefði lýst því að maður hefði ráðist á hana og veitt henni ítrekuð högg, fyrst og fremst í andlit. Þá hefði maðurinn komið í veg fyrir að hún kæmist út þegar hún reyndi það. Vitnið gerði grein fyrir áverkum á brotaþola, sem rakin eru í læknisvottorði, og kvað áverkana hafa verið ferska. Hefði brotaþoli lýst því að hún hefði orðið fyrir ítrekuðum höggum eða spörkum. Vitnið kvað áverka á kinn og mar á eyrum stafa af áberandi þungum höggum og gætu verið eftir spörk. Þá hefði brotaþoli hlotið mikið högg á munn. Nánar spurð kvað hún mar á eyrum geta hafa komið til við að brotaþoli hefði fallið, fengið í sig hnefahögg eða spörk. Fram kom hjá vitninu að atlaga að höfði geti verið hættuleg og hefðu því verið teknar sneiðmyndir af andlitsbeinum við læknisskoðunina til að ganga úr skugga um hvort þar væru brot. Þá hefðu verið teknar sneiðmyndir af höfði og heila til að kanna hvort orðið hefði innvortis blæðing, en svo reyndist ekki vera.
D, sérfræðingur á Neyðarmóttöku, gerði grein fyrir réttarlæknisfræðilegri skoðun brotaþola og niðurstöðum hennar. Hún kvað áverka sem lýst er í skýrslu um skoðunina hafa verið ferska, en jafnframt hefði brotaþoli fundið til eymsla. Vitnið var spurt hvort líklegt væri að mar og þykkildi á innanverðu læri hefði getað komið við það að brotaþoli hefði fallið niður stiga. Hún kvaðst telja líklegra að áverkinn væri eftir högg en að brotaþoli hefði fallið með fætur í sundur. Þá kvað hún áverka brotaþola samrýmast lýsingu hennar á ofbeldi sem hún hefði orðið fyrir. Hún kvað brotaþola hafa greint skýrt og skilmerkilega frá atvikum. Hún hefði lýst því hvernig maðurinn hefði gengið í skrokk á henni. Meðal annars hefði hún dregið sig upp að vegg og sýnt hvernig hún hefði verið í hnipri úti í horni og borið fyrir sig handlegginn til að verja sig. Hún hefði lýst því að hún hefði haldið að þetta yrði sitt síðasta. Jafnframt hefði hún lýst því hvernig hún hefði markvisst reynt að skilja eftir sig blóð og lífsýni á vettvangi ef þetta yrðu hennar endalok. Vitnið kvað nokkra truflun hafa orðið á læknisskoðun, en rannsóknarlögreglumenn hefðu þurft að ræða við brotaþola vegna eftirgrennslana sinna. Hún var spurð um orðalag í skýrslunni þar sem haft var eftir brotaþola að maðurinn hefði náð að „troða limnum upp í hana“, en í skýrslu hjúkrunarfræðings komi fram að hún hefði sagt manninn hafa sagt henni ítrekað að sjúga liminn og hefði hún að lokum „ákveðið að gera það“. Hún kvaðst ekki geta fullyrt að hjúkrunarfræðingurinn hefði verið viðstaddur þegar hún skráði lýsingu brotaþola á þessu í skýrsluna. J hjúkrunarfræðingur kom einnig fyrir dóminn og kvaðst hún ekki geta skýrt þetta misræmi í skýrslunum. Hún kvað brotaþola hafa gefið greinargóða lýsingu á því sem hefði gerst.
K, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, gerði grein fyrir niðurstöðum mælingar alkóhóls í blóði og þvagi brotaþola, en sýni voru tekin við læknisskoðun á Neyðarmóttöku. Hún kvað niðurstöðu mælinganna til marks um að einhver tími hefði verið liðinn frá því að brotaþoli neytti áfengis.
E, forstöðulæknir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, gerði grein fyrir réttarlæknisfræðilegri skoðun á ákærða í kjölfar handtöku. Hann kvað sár á kóngi á getnaðarlim ákærða hafa verið ferskt, opið og vessandi. Hefðu sárbrúnirnar ekki verið farnar að endurnýjast. Sárið kom heim og saman við að vera eftir bit. Vitnið kvaðst telja sársaukafullt að vera bitinn þarna, en þó ætla að viðkomandi myndi vera fær um að beita ofbeldi eftir það. Hann kvaðst ekki telja að um lamandi sársauka myndi vera að ræða.
L rannsóknarlögreglumaður gerði grein fyrir rannsókn á vettvangi að [...], en skýrsla vitnisins um niðurstöður rannsóknarinnar hefur verið rakin. Þá gerði M rannsóknarlögreglumaður grein fyrir niðurstöðum blóðferlagreiningar í herbergi í norðausturhluta jarðhæðar. Kom fram hjá vitninu að blóðblettir á suðurvegg herbergisins hefðu verið höggslettur. Frákastsblettir hefðu verið neðarlega á veggnum svo að brotaþoli virtist hafa verið niður við gólf, liggjandi eða á fjórum fótum þegar hún hlaut höggin. Töluverður kraftur hafi verið í höggunum og taldi vitnið líklegt að um spörk hefði verið að ræða, enda hefðu verið blóðblettir á skóm ákærða. Af dreifingu blóðbletta á veggnum yrði ráðið að um nokkur högg hefði verið að ræða, a.m.k. þrjú. Ummerki í herberginu hefðu verið í samræmi við lýsingar brotaþola, en þegar hún kom á vettvang hefði hún sagst hafa verið hálfkrjúpandi við vegginn og reynt að verjast spörkum ákærða. N, sérfræðingur tæknideildar lögreglu, gerði grein fyrir niðurstöðu DNA-rannsóknar. Hann kvað blóðbletti á báðum skóm ákærða hafa reynst stafa frá brotaþola. Þetta hefðu verið kámblettir svo að skórnir hefðu líklega komið við blóðugan hlut. Taldi vitnið líklegast að ákærði hefði sparkað í brotaþola.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök í málinu og kveðst hvorki hafa svipt A frelsi, veist að henni með ofbeldi, né þröngvað henni til munnmaka, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Af framburði ákærða og A verður ekki annað ráðið en að hún hafi fylgt honum sjálfviljug í húsnæðið að [...] umrædda nótt. Hefur ákærði borið að þau hafi haft samfarir um nóttina og brotaþoli ekki talið það útilokað, þótt hún minnist þess ekki. Frásögn ákærða og brotaþola af atvikum eftir að hún vakti hann um morguninn er hins vegar mjög ólík. Ákærði skýrði svo frá við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að stúlkan hefði vakið hann og beðið hann að hleypa sér út úr húsinu, en hann hefði svarað því til að hann vissi ekki hvar lyklarnir væru. Við aðalmeðferð málsins lýsti hann því hins vegar að þegar hann vaknaði hefði stúlkan staðið yfir honum og hefði hún verið pirruð. Hann hefði risið á fætur og hefði hún þá fyrirvaralaust dregið niður um hann buxurnar, byrjað að hafa við hann munnmök, en síðan bitið í getnaðarliminn. Þá hefði hún hlaupið til og fallið niður stiga, en síðan hlaupið um húsnæðið með hendur á lofti og hrist höfuðið. Kvað ákærði blóð á vettvangi og á skóm hans mega rekja til þessa háttalags stúlkunnar, en blætt hefði úr áverkum sem hún hlaut við fallið í stiganum. Bar ákærði fyrir dóminum að stúlkan hefði ekki beðið hann um að hleypa sér út fyrr en eftir að honum tókst að róa hana og hefði hann orðið við því.
Svo sem rakið hefur verið bar A við aðalmeðferð málsins að ákærði hefði haldið henni nauðugri í húsnæðinu eftir að hún vakti hann um morguninn. Hann hafi reynt að þröngva henni til kynferðismaka og beitt hana ofbeldi í því skyni, en hún hafi náð að veita honum viðnám. Hafi ákærði dregið hana inn í bakherbergi þar sem hann hafi tekið út getnaðarliminn og krafist þess að hún hefði við hann munnmök. Hún hafi tekið liminn í munn sér og bitið eins fast og hún gat í því skyni að meiða ákærða og freista þess að komast þannig undan. Hafi ákærði eftir þetta veist að henni með höggum og spörkum og atlagan einkum beinst að höfði og efri hluta líkamans. Lýsingar brotaþola á atlögu ákærða fá stoð í læknisfræðilegum gögnum í málinu, sem og vitnisburði sérfræðinganna C og D, þar sem fram kom að áverkar hennar samrýmdust því að hún hefði orðið fyrir þungum höggum. Þá samrýmdust ummerki á vettvangi frásögn brotaþola, en rúða í útidyrahurð hússins var brotin er að var komið, auk þess sem mikið blóð var á vettvangi, einkum í bakherbergi á jarðhæð, sem reyndist stafa frá henni. Í blóði á gólfi herbergisins fannst skófar og samrýmdist mynstur í því skósólum ákærða. Verður af því ráðið að ákærði hafi verið í herberginu, en hann hefur borið að hann minnist þess ekki. Svo sem rakið er í skýrslu lögreglu um blóðferlagreiningu reyndust blóðslettur á vegg í herberginu vera svokallaðar höggslettur og komu ummerkin heim og saman við lýsingar brotaþola á því að hún hefði fengið ítrekuð högg í höfuð þar sem hún lá á gólfinu við vegginn. Kom fram í vitnisburði M rannsóknarlögreglumanns að af blóðferlum yrði ráðið að um a.m.k. þrjú töluvert kraftmikil högg hefði verið að ræða, líklega spörk. Þá bar N, sérfræðingur tæknideildar lögreglu, að blóðblettir á skóm ákærða hefðu verið kámblettir, sem líklega hefðu komið til við að ákærði sparkaði í brotaþola.
Framburður brotaþola er trúverðugur að mati dómsins. Hún gaf skýra og greinargóða lýsingu á atvikum við aðalmeðferð málsins, sem var í öllum meginatriðum í samræmi við frásögn hennar við skýrslutöku hjá lögreglu og við réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku í kjölfar atburðarins. Þá fær framburður hennar stoð í læknisfræðilegum gögnum og niðurstöðum tæknirannsóknar lögreglu, sem rakið hefur verið. Á hinn bóginn þykir framburður ákærða um háttalag brotaþola eftir að hún vakti hann um morguninn og atvik eftir það afar ótrúverðugur, auk þess að vera misvísandi, sem að framan er rakið. Þá er frásögn hans að verulegu leyti í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn um áverka brotaþola og blóðferlagreiningu. Metur dómurinn framburð ákærða ótrúverðugan og er honum alfarið hafnað. Samkvæmt framansögðu ber að leggja frásögn brotaþola til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærði hafi svipt brotaþola frelsi, svo sem lýst er í 1. ákærulið, veist að henni með ofbeldi meðan á frelsissviptingunni stóð og þröngvað henni til munnmaka, eins og í 2. ákærulið greinir, með þeim afleiðingum sem þar eru raktar. Atlaga ákærða að stúlkunni var harkaleg og var sú aðferð hans að slá og sparka ítrekað í höfuð hennar sérstaklega hættuleg, eins og fram kom í vitnisburði C. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og telst háttsemi hans varða við 1. mgr. 226. gr., 1. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er fæddur í [...] 1989. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki sætt refsingu. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás. Var háttsemi hans mjög alvarleg og til þess fallin að valda brotaþola miklum ótta og vanlíðan. Þá beitti ákærði stórfelldu ofbeldi við brotið og hlaut brotaþoli mikla áverka af. Jafnframt var brotið framið á sérstaklega meiðandi hátt, en ákærði þröngvaði stúlkunni til munnmaka. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr., b- og c-liða 195. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhald frá 21. til 24. apríl 2013 kemur til frádráttar refsingu.
Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða, samtals að fjárhæð 3.176.114 krónur auk vaxta. Krafa um skaðabætur að fjárhæð 1.176.114 krónur sundurliðast þannig:
|
1. Lækniskostnaður |
28.639 krónur |
|
2. Gistikostnaður |
24.000 krónur |
|
3. Flugfargjöld |
196.895 krónur |
|
4. Vinnutap |
889.876 krónur |
|
5. Fatnaður og fylgihlutir |
36.704 krónur |
Krafan er rökstudd með því að brotaþoli hafi orðið að sækja sér læknisþjónustu í heimalandi sínu, vegna áverka sem hún hlaut. Þá hafi hún orðið að framlengja dvöl sína hér á landi vegna lögreglurannsóknar málsins og er krafist bóta vegna kostnaðar við hótelgistingu þann tíma, auk flugfargjalds. Vegna áverka sem brotaþoli hlaut hafi hún ekki getað tekið að sér vinnu, sem til hafi staðið, og hafi hún af þeim sökum orðið af launum og þurft að breyta ferðatilhögun með tilheyrandi kostnaði vegna flugfargjalda. Loks er krafist bóta vegna fatnaðar og fylgihluta, sem skemmdust eða fóru forgörðum við atlöguna. Krafa um bætur samkvæmt 1. til 4. liðar er studd viðhlítandi gögnum og verða brotaþola dæmdar bætur samkvæmt því. Þá liggja fyrir í málinu ljósmyndir og skrifleg gögn um tjón á fatnaði brotaþola. Þykir kröfu um bætur samkvæmt 5. lið í hóf stillt og verður hún dæmd að fullu.
Þá er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta verður litið til sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi ákvörðun refsingar ákærða. Þá kom fram hjá brotaþola að henni hefði stafað mikil ógn af ákærða og hafi hún óttast um líf sitt meðan á atlögunni stóð. Þykir kröfu um miskabætur í hóf stillt og verður hún dæmd eins og hún er fram sett. Skaða- og miskabætur beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 627.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 392.188 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 829.997 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.
Málið dæmdu héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Áslaug Björgvinsdóttir.
Dómsorð:
Ákærði, Wojciech Marcin Sadowski, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 21. til 24. apríl 2013 kemur til frádráttar refsingu.
Ákærði greiði A 3.176.114 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. apríl til 5. júlí 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 627.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 392.188 krónur. Ákærði greiði 829.997 krónur í annan sakarkostnað.