Hæstiréttur íslands

Mál nr. 29/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Y (Jón Magnússon hrl.),
(Björgvin Jónsson lögmaður brotþola )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur

Reifun

Y var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann vanga- og kjálkabeinsbrotnaði. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu Y en taldi aftur á móti ósannað að A hefði við höggið hlotið einhverja þá áverka sem í ákæru greindi, enda sennilegt eftir gögnum málsins að fleiri hefðu veist að A umrætt sinn með mun grófari atlögu. Var brot Y því talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing Y ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða A 500.000 krónur í miskabætur en við ákvörðun þeirra var litið til þess að Y hefði niðurlægt A með því að taka myndir af honum slösuðum í því skyni að miðla til annarra.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2014 til 12. nóvember 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás með því að slá brotaþola einu höggi í andlitið. Aftur á móti er ósannað að hann hafi við það högg hlotið einhverja þá áverka sem í ákæru greinir, enda er sennilegt eftir gögnum málsins að fleiri hafi veist að brotaþola í umrætt sinn með mun grófari atlögu. Verður brot ákærða því talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en sakaferill hans, sem rakinn er í hinum áfrýjaða dómi, hefur ekki teljandi áhrif við það mat. Í héraðsdómi var refsingin ákveðin að því gættu að ákærði hefði þvingað brotaþola inn í bifreið og látið aka með hann lengi dags, auk þess að kúga hann til að láta af hendi verðmæti. Ákærði var ekki sóttur til saka fyrir þessi brot og geta þau því ekki skipt máli fyrir refsinguna, sbr. meginreglu 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að öllu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en rétt er að hún verði bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

Með því broti sem ákærði hefur verið fundinn sekur um hefur hann fellt á sig miskabótaábyrgð samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun bótanna er þess að gæta að hann niðurlægði brotaþola með því að taka myndir af honum slösuðum í því skyni að miðla til annarra. Að því virtu eru bætur til hans hæfilega ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði í samræmi við kröfu brotaþola. Þá verður ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Ákærði, Y, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði brotaþola, A, 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2014 til 12. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði ákærði brotaþola 186.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2015.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 23. september sl. á hendur ákærðu, Y, kennitala [...], […], Reykjavík og X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa að laugardaginn 27. september 2014, utandyra við [...] í Reykjavík ráðist á A, þar sem hann sat í bifreiðinni [...], ákærði Y með því að slá A ítrekað í andlitið og ákærði X með því að hafa strax í kjölfarið slegið A, af miklu afli, með hellusteini í andlitið allt með þeim afleiðingum að A hlaut brot á vanga- og kinnkjálkabeinum, opið nefbeinabrot og skurð á milli augna, kúpuhvolfsbrot og mar á heila auk þess sem kvarnaðist úr annarri framtönninni í efri gómi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en 1. mgr. 218. gr. sömu laga hvað ákærða Y varðar.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001, frá 27. september 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til að greiða A kr. 179.000 í skaðabætur vegna fjármuna- og munatjóns. Að auki er gerð krafa um réttargæsluþóknun fyrir brotaþola úr hendi ákærðu samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24% virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

Fallið hefur verið frá kröfu um bætur fyrir fjármunatjón.

Ákærðu neita báðir sök og krefjast þess að vera sýknaðir af ákærunni og þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.  Til vara krefjast þeir þess að refsing þeirra verði svo væg sem lög frekast leyfa.  Loks krefjast þeir þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi.

Málavextir

                Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu B lögreglumanns var það laugardagskvöldið 27. september 2014 að lögreglu var tilkynnt um það klukkan 18.54 að ráðist hefði verið á mann við [...] hér í borg.  Þegar lögreglumenn komu á vettvang fengu þeir upplýsingar um að maðurinn, A, f. [...], hefði verið fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.  Fóru þeir að finna hann þar og sagði hann að menn hefðu neytt hann upp í bíl og barið hann og reynt að stinga með skrúfjárni.  Hefðu þeir rænt hann 40 til 50 þúsund krónum sem hann var með á sér en jafnframt neytt hann til þess að taka peninga út með greiðslukorti.  Þá hefðu þeir tekið af honum lyf sem hann taki og loks tekið bílinn hans traustataki.  Þeir sem gerðu honum þetta væru [...] og Y.  Kvað hann þann síðarnefnda hafa haft sig meira í frammi.  Þá sagði hann þessar aðfarir mannanna tengjast innheimtu skuldar en kannaðist þó ekki við það að vera í skuld við neinn.  Þá segir í staðfestri skýrslu D rannsóknarlögreglumanns að hann hafi hitt A á slysadeildinni þar sem hann greindi frá á sama hátt og hér að framan.  Sagðist hann hafa komið við á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða.  Segir í skýrslunni að hann hafi sést þar í öryggismyndavél ásamt fleirum og var fólkið á rauðum fólksbíl.  Þá sást A í öryggismyndavél verslunarinnar Sjónvarpsmiðstöðvarinnar ásamt ákærðu í málinu.  Lögregla fann umræddan bíl við [...].  Þá voru ákærðu, sem taldir voru hafa verið á honum, handteknir og settir í fangageymslu.  Hald var lagt á peysu ákærða Y og farsíma þeirra beggja.   

                Í málinu er allvíða vikið að því að A var, þegar atburður málsins varð, talinn hafa farið inn til barnsmóður E, sem er bróðir ákærða X og stolið þar ýmsu, þ. á m. úr sparibauk barnsins.

                Í staðfestu vottorði F læknis á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, segir að A hafi komið á slysadeildina um kl. 19 þetta kvöld en talið hafi verið að ráðist hefði verið á hann um tveimur klukkustundum fyrr.  Hafi hann lítið vilja segja um tildrög áverkanna en þó sagt að hann hefði verið kýldur oftar en einu sinni í andlitið og eins hefði verið sparkað í hann og hann meiddur með skrúfu.  Um áverkana segir í vottorðinu að A hafi verið illa leikinn í andliti.  Meðal áverkanna hafi verið tættur, 1,5 cm skurður á milli augna sem náði inn að beini.  Hafi vottað fyrir innkýlingu á beininu þar undir og jafnframt hafi á sneiðmynd af höfðinu komið í ljós töluvert loft aftan við ennisskúta og vægt heilamar á sama svæði.  Glóðarauga hafi verið hægra megin og augað sokkið.  Þá hafi komið fram tvísýni þegar A horfði niður og til hægri.  Þá hafi verið mikil bólga yfir hægra kinnbeini, kinnin öll þrútin og aum og loft víða í mjúkvefjum andlitsins hægra megin.  Á sneiðmynd hafi sést 2,4 cm innkýlt brot á kinnbeininu og var kinnbeinsskútinn fullur af blóði.  Loft hafi sést í gólfi hægri augntóftar og innst inni í augnhvelfingu við sjóntaug.  Ennisbein hafi reynst brotið rétt ofan við augntóttarbrún með um 2-5 mm innkýlingu.  Blóð hafi verið í ennisskúta hægra megin.  Mörg brot hafi sést báðum megin í ennisbeini. Nefið hafi verið bólgið og merki um blóðnasir.  A hafi kvartað um eymsli í tanngarði og hafi sést að kvarnast hafði úr annarri stóru framtönninni.  Á hægra læri var að sjá grunnt stungugat á hörundinu.

                Farsími ákærða Y var rannsakaður í tæknideild lögreglunnar.  Fundust í honum skilaboð og myndefni sem þýðingu hafa fyrir mál þetta.  Í skeyti úr símanum segir: Erum ad fara lemja A. Hvar ertu.  Þessu skeyti svarar „J Bro“ um klukkutíma síðar: Elska þig vinur:) frétt þu hefðir lamið hann...Hvenær kikiru ven. Þrem mínútum síðar sendir J Bro þetta skeyti í síma ákærða: Geturu komið með hann til min vinur minn:) plz pældu í því ef þetta hefði verið C sem hann hefði stungið...Vill fa að pina hann  Og hitta þig, bætir hann við í skeyti nokkrum sekúndum síðar.  Í símanum voru nokkrar myndir af A með áverka í andliti þar sem hann virðist sitja í aftursæti bíls og loks var þar að finna 20 sekúndna myndskeið með hljóði sem sýnir A sitja í bíl með áverkana.  Rödd heyrist segja: „Smettið...má ég sjá, snúðu þér við. Þetta er eftir brósa. Snúðu þér í hina áttina, tíkin þín.“  „Hérna“, heyrist A svara, en röddin bætir við: „Ja, þetta er eftir mig, elskan mín, fyrir þig, E.“

                A var yfirheyrður um kvöldið á slysadeild og var skýrsla hans hljóðrituð.  Hófst yfirheyrslan kl. 20:52.  Sagðist honum svo frá að hann hefði verið staddur á bensínafgreiðslustöð N1 í Ártúnshöfða með hópi fólks og þau fengið sér þar að borða.  Þaðan hefði verið ekið í rauðum bíl suður í Kópavog en þar hefði átt að vera gleðskapur í einhverju húsi.  Þegar þangað kom hafi kærustuparið G og H, sem voru með honum í bílnum, farið inn í húsið en hann orðið eftir úti ásamt einhverjum vini H.  Ákærði Y hefði svo komið að húsinu og sagt sér að fara inn í bílinn og kvaðst hann hafa sest í aftursæti bílsins.  Hafi hann farið að berja sig og hóta sér.  Vinur H, ljóshærður náungi, 25-30 ára, 185 cm og vinur H að honum skildist, hefði sest undir stýri og þeir ekið á brott.  Hefði heyrst á máli ökumannsins að hann var íslenskur.  Hann sagði Y hafa tekið af sér pening, skartgripi og lyf.  Hefðu þeir farið í „Gullnámu“ í Grafarvogi og þar hefði hann verið látinn taka út peninga sem Y tók.  Þá hefði verið farið í „Sjónvarpsmiðstöðina“ í Síðumúla og þar reynt að kaupa sjónvarp á raðgreiðslum en kortið hans ekki leyft það.  Hefði ákærði Y þá reiðst og barið hann.  Þá hefði Y látið hann hringja í foreldra sína til þess að fá þau til að afhenda muni úr hans eigu sem voru í íbúð hans á [...].  Y hefði sagt í símann að best væri að þau gerðu eins og fyrir væri lagt ef þau vildu sjá son sinn á lífi aftur.  Hefðu þeir farið þangað og Y farið inn og komið út með sjónvarp og fleiri verðmæti.  Að endingu hefði honum verið sleppt úr bílnum við umferðarljósin á Hringbraut við Landspítalann en þaðan hefði hann gengið heim til sín á [...] og hringt á lögreglu.  Hann sagðist hafa verið barinn í andlitið ítrekað meðan hann var í haldi mannanna, sparkað hafi verið í hann, hann stunginn með skrúfu í lærið og brenndur á hálsi með sígarettu.   Þá hefði honum verið hótað lífláti og að fjölskyldu hans yrði einnig gert mein.  Kvaðst hann hafa óttast um líf sitt þann tíma sem hann var í haldi mannanna en það hafi verið frá hádegi fram til fimm eða sjö um kvöldið.  Sagði hann sér hafa blætt mikið eftir barsmíðina en þeir hefðu sett á hann einhvers konar límband til þess að stöðva blæðinguna meðan þeir fóru inn á staðina með greiðslukortið til þess að taka út á það.  Önnur skýrsla var tekin af A 30. september og skýrði hann frá atvikum í meginatriðum á sama veg og í fyrri skýrslu sinni.  Verður þessi skýrsla ekki reifuð nema með hliðsjón af sakarefni málsins eins og það er afmarkað í ákærunni og að því leyti sem á milli ber eða síðari skýrslan er fyllri.  Í þessari skýrslu sagði A sérstaklega spurður hvort einhver annar en Y hefði veitt honum áverka að svo hefði ekki verið.  Hefði Y verið sá eini sem það hefði gert.  Sérstaklega aðspurður um áverkann á enninu sagði hann að ákærði Y hefði veitt honum hann með hnefahöggi og muni hann hafa verið með hring á hendinni sem olli þessu sári.  Hefði hann engum öðrum áhöldum beitt nema þá skrúfunni sem hann stakk hann með í lærið.  Aðspurður hversu oft Y hefði barið hann sagði hann það hafa verið tvisvar til fjórum sinnum.  Þá sagði hann þá hafa þrifið sárin með vatni og spritti og sett plástra yfir.  Hann tekur fram að hann hafi verið í mikilli vímu þegar þetta gerðist og muna allt óljóst þess vegna. 

                Enn var tekin skýrsla af A 3. október á geðdeild Landspítalans. Var hún tekin upp í hljóði og mynd.  Sagði hann að árásin hefði átt sér stað á [...].  Annars ber yfirheyrslan þess merki að yfirheyrendur hafi álitið ákærða Y hafi ekki verið einn um það að veita A áverkana heldur hafi annar hlotið að koma þar við sögu og nefndu til sögunnar ákærða X.  Virtist A ekki kannast við ákærða og í fyrstu ekki vera trúaður á þetta.  Var honum sagt að vitni hefði sagt hann hafa teygt sig inn í bílinn með stein í hendi og slegið hann í andlitið.  Kvaðst A ekki hafa séð þann mann en virtist svo fallast á það að áverkinn gæti ekki verið til kominn af hnefahöggi einu og að annar maður en Y myndi hafa veitt það. 

Ákærði Y var yfirheyrður hjá lögreglu um málið 28. september 2014.  Hann neitaði því að hafa gert nokkuð á hlut A í umrætt sinn.  Sagðist hann hafa verið staddur í samkvæmi ekki langt frá [...] þegar menn komu þar inn og sögðu að verið væri að drepa mann fyrir utan húsið fyrir að hafa brotist inn og stolið frá konu og barni hennar.  Kvaðst hann hafa farið út og beðið mennina að hætta þessu.  Skyldi hann fara með mann þennan heim og sækja hlutina sem hann hefði stolið.  Hefðu þeir tveir sest inn í bíl en hann kveðst svo hafa séð hreyfingu út undan sér og skyndilega var kominn maður í bílinn sem þá sló umræddan mann í andlitið.  Kvaðst ákærði hafa ýtt manninum út úr bílnum og sagt bílstjóranum að aka á brott með þá.  Kvaðst hann hafa sótthreinsað sár hans og límt fyrir það eftir að hafa komið við í apóteki.  Hefði hann þá séð sand og smásteina í sárinu og gert sér grein fyrir því að maðurinn hafði verið sleginn með steini.  Þá sagðist hann hafa farið með honum heim til hans og sótt það sem hann var sakaður um að hafa stolið.  Þá sagðist hann hafa ekið manninum á Landspítalann.  Hann kvaðst hafa verið í vímu af sveppaneyslu.

                Ákærði var yfirheyrður að nýju 2. október 2014, að viðstöddum verjanda, og sagði í meginatriðum eins frá atvikum.  Hefði hann verið í sveppavímu og setið í bílnum með manninum, sem sakaður hafði verið um þjófnaðinn og ákærði kannaðist við í sjón.  Hefði komið þar að rauðhærður maður eða stór maður og slegið hinn manninn með steini í andlitið inn um opinn bílgluggann.  Hefðu þeir ekið af stað og farið til þess að kaupa sjónvarp í stað þess sem hafði verið stolið.  Þá hefði verið komið við í apóteki og hann hreinsað og búið um sár mannsins sem hefði verið óhreint.  Kvaðst hann hafa tekið myndir af andliti mannsins á símann sinn, enda hefði hann verið svo marinn í andliti.  Þá hefði verið ekið heim til mannsins og hann þá hitt móður hans sem hann sagði hafa faðmað sig og grátið fyrir að bjóða fram hjálp sína.  Hefði verið tekið þar dót í eigu mannsins en einnig hefðu verið teknir út peningar með greiðslukorti hans.  Hefði hann svo látið aka manninum að Landspítalanum við Hringbraut þar sem væri bráðadeild.  Hann hefði svo farið heim til sín og verið handtekinn þar.  Sagðist ákærði ekki hafa gert annað en að hjálpa manninum, bjarga honum undan þeim sem hefðu ætlað að berja hann til óbóta.  Um þann sem hefði slegið með steininum sagði ákærði aðspurður að hann hefði verið stór og handleggjalangur.  Þá hefði hann verið rauðhærður eins og Júdas, enda kvaðst hann ekki treysta rauðhærðu fólki.  Hann tók þó fram að hann hefði verið allruglaður af því að drekka „sveppate“ nokkra síðustu dagana á undan.  Ákærði neitaði því að hafa veitt manninum áverka.  Sagði hann þá hafa setið í aftursætinu í bílnum, og hinn manninn fyrir aftan ökumanninn.  Hefði árásarmaðurinn komið þeim megin að manninum og slegið hann með steini inn um gluggann, einu höggi að hann heldur.  Hefði steinninn verið reglulegur í laginu, á að giska 3-4 kg, líkast til hellusteinn.  Hefði manninum farið að blæða og hann farið að bólgna í andlitinu.  Árásarmaðurinn hefði verið stór og í meðalholdum, rauðhærður og handleggjalangur.   Hann kvaðst hafa fylgst með því þegar andlit mannsins bólgnaði og hefði hann tekið af því myndir.  Síðar í skýrslunni sagði ákærði að steinshöggin hefðu verið tvö eða kannski þrjú. 

Eftir að stutt hlé hafði verið gert á yfirheyrslunni sagði ákærði árásarmanninn heita X og að höggið hefði verið eitt en þó fast.  Hefði steinninn verið hellusteinn, um 20 cm kubbur sem hægt var að hafa hönd á.  Margt fólk hafi verið við bílinn, þ. á m. I, og hljóti að hafa séð þetta.  Loks kannaðist ákærði við að hafa slegið manninn einu sinni í lærið.

                Ákærði var yfirheyrður 28. janúar 2015 og þá borin undir hann skilaboðin sem fundust í síma hans.  Kannaðist hann ekki við fyrstu boðin þar sem A er nefndur en sagði að önnur boð ættu við litla bróður J.  Hann sagði að orðin „chilla A“ merktu að hann væri að hjálpa A.  Einnig tók hann fram að hann hefði á þessum tíma kallað alla brósa.

                Ákærði X var yfirheyrður í Lögreglustöðinni við Hverfisgötu að viðstöddum verjanda hinn 1. október 2014 og aftur 6. s.m.  Neitaði hann því að hafa hitt A í umrætt sinn eða hafa nokkuð gert á hlut hans.  Kvaðst hann hafa verið staddur í samkvæminu sem um ræðir en ekki farið út úr húsinu.  Þá var hann yfirheyrður aftur 6. október 2014 og ítrekaði þá að hann hefði verið innandyra og ekki farið út og því ekki ráðist á A.

                H gaf skýrslu hjá lögreglu 1. október og sagðist hafa ekið A og fleira fólki, sem hann nefndi, frá N1 í Ártúnsbrekku að húsi í nágrenni [...] en þar var sagt að samkvæmi stæði yfir.  Ekki hefði orðið úr að þau færu inn í samkvæmið þar eð uppnám varð utandyra.  Ákærði Y hefði verið staddur þar og skipað sér að setjast undir stýri aftur.  Hefði ákærði sest í bílinn og haft A með sér og þeir báðir setið í aftursætinu.  Hann sagði ákærða Y hafa slegið A eitthvað í andlitið („smettað“) þarna í bílnum. Nánar aðspurður sagði hann að um eitt högg hefði verið að ræða og það komið á nefið.  X hefði svo opnað bíldyrnar og barið A í andlitið með steini svo að hann skarst á milli augnanna.  Hann hafi ekki séð höggið sjálfur heldur hafi hann orðið þess var að bíldyrnar voru opnaðar og þegar hann leit við hafi verið búið að slá A og farið að blæða úr honum.  Hann sagðist hafa heyrt A segja sjálfan að ákærði hefði „smellt steini í smettið á honum“.  Hann kvaðst svo hafa ekið þeim A og ákærða Y um bæinn víða til þess að nota kort A til þess að bæta fyrir gerðir hans.  Hefði Y sett plástur á sárin og sett á hann sólgleraugu til þess að hylja áverkana.  Þá hefði verið farið til foreldra A út á [...] og þar tekin verðmæti í eigu hans. 

Meðferð málsins fyrir dómi

Ákærði Y kveðst hafa verið í mikilli vímu af margs konar efnum á þeim tíma sem um ræðir og muni hann því lítið eftir atvikum.  Hann muni t.d. lítið eftir því að hafa gefið skýrslur hjá lögreglu í málinu.  Hann muni eftir einhverju samkvæmi á þessum tíma en kvaðst ekki muna hverjir hafi verið þar.  Hann segist muna eftir því að hafa verið að hjálpa A að komast á brott frá staðnum eftir eitthvert rifrildi við fólk fyrir utan húsið, en þar hafi verið margmenni, og að hafa komið honum upp á spítala því einhver hefði lamið hann þar með steini eða einhverju.  Ekki muni hann hver hafi gert það.  Hann muni þó lítið eftir ferðum þeirra en minni að þeir hafi verið á bíl í eigu A.  Í fyrstu kveðst hann ekki muna hver hafi ekið en tilgreinir svo uppnefni ökumannsins.  Hafi hann fyrst setið frammi í en svo fært sig aftur í til A þegar hann fór að plástra hann í andlitinu.  Ákærði neitar því að hafa slegið A.  Um skýrslurnar sem hann gaf hjá lögreglu segir hann að hann muni ekki hvað hann sagði en tekur fram að hann hafi verið undir áhrifum þegar hann gaf þá fyrstu.  Við síðari skýrslurnar hafi hann verið í einangrun og þær litist af því að hann vildi fyrir alla muni losna úr einangruninni.  Þannig hafi það sem hann sagði um steinshöggið verið sagt til þess að hann losnaði úr einangrun.  Hafi A sagt að hann hefði verið sleginn inni í bílnum.  Hann kannast við að hafa tekið myndir af A en ekki muna hvað hann sagði í upptökunni.  Hann segir að það sem hann segi þar lúti að því að hann hafi plástrað andlitið á honum.  Hann segist hafa sent myndirnar strák sem hafi verið þarna við húsið en hann viti ekki hver það er.  Hafi hann átt við að hann hafi komið A burt fyrir strákinn.  Hann segist ekki vita til þess að þessi strákur, E, hafi átt neitt sökótt við A.  Hann segir það ekki rétt sem komið hafi fram að hann hafi fengið peninga eða skartgripi hjá A.  Hann kveðst ekki hafa neytt A inn í bílinn heldur boðið honum það enda væri það best fyrir hann.  Ákærði segist hafa farið út á [...] til foreldra A til þess að endurheimta sjónvarp sem hann hafði stolið frá einstæðri móður ásamt peningadós, sem reynst hafi tóm.  Hafi hann gert þetta fyrir barnið en getur aðspurður ekki gert grein fyrir þessu fólki.  Aðspurður kveðst hann ekki vita hvort móðirin sé kærasta E.  Hann kveðst vera lítillega kunnugur meðákærða og einnig vita hver A er.  

    Undir ákærða er borið það sem H sagði hjá lögreglu að hann hefði séð ákærða slá A og meðákærða einnig slá hann með steini.  Segir hann þetta vera rangt.  Hann kveðst þekkja H vel en færist undan því að svara hvort hann sé ökumaðurinn uppnefndi.  Hann segir að það hafi ekki farið fram hjá honum að A var sleginn með steini enda kveðst hann hafa setið inni í bílnum og blóð um allt.  Hann segist aðspurður ekki muna hver hafi valdið þessum áverka og ekki muna hvort meðákærði var þarna nærstaddur.

Ákærði X hefur greint frá því að hann hafi verið í margnefndu samkvæmi ásamt E, bróður sínum, systur sinni K og fleirum.  Þá nefnir hann nöfn L, M og N.  O vinur hans hafi svo komið í samkvæmið að sækja dót sem hann átti og sagt að A og G hefðu komið með sér.  Hefði hann þá sagt O að koma sér á brott og að hann vildi ekki sjá þennan A.  Kveðst hann hafa vitað að A hefði „rænt“ barnsmóður bróður hans.  Hann segist svo hafa heyrt að rifrildi hefði orði fyrir utan húsið en hann segist ekki vita meir enda hafi hann ekki farið út og muni ekki hvort aðrir fóru út úr samkvæminu. 

A hefur greint frá því að hann hafi ásamt mörgu fólki verið staddur fyrir utan margnefnt hús í [...] þar sem var samkvæmi.  Þar hafi hann orðið fyrir árás þeirra X og Y.  Hafi hann séð út undan sér að maður kom upp að hlið hans og sló hann.  Þá hafi Y kýlt hann.  Hafi þetta verið út af rifrildi milli vitnisins og bróður X, sem heiti E, en rifrildið hafi verið um skuld vitnisins við bróðurinn eftir að hafa brotist inn til hans.  Eftir þessa árás hafi þeir Y og H ekið með vitnið um bæinn til þess að taka út peninga og verðmæti upp í skuldina.  H hafi ekki gert annað en að aka og hafi ferðin varað í nokkra klukkutíma.  Hafi verið skipt um bíl í Kópavogi og þaðan hafi honum verið ekið niður í bæ og sleppt.  Kveðst hann svo hafa hringt á sjúkrabíl.  Nánar segir vitnið um árásina að þeir Y hafi sest inn í bílinn hlið við hlið og Y farið að kýla hann í andlitið, á hægra kinnbein.  Hann segir að lögreglan og G, sem þarna hafi verið stödd, hafi sagt að X hefði slegið hann með steini en hann hafi ekki séð þetta sjálfur.  Hann kveðst ekki hafa verið vel á sig kominn þegar þetta gerðist enda í vímuefnaneyslu.  Þá kveðst hann hafa vankast við höfuðhögg inni í bílnum en hann muni eftir því að hafa áður sest inn í bíl með Y sem þá hafi farið að kýla hann.  Hann kveðst ekki hafa verið með áverka þegar hann settist inn í bílinn en hann hafi fengið högg á sig þegar hann stóð fyrir utan bílinn en svo sest inn í hann.  Sérstaklega aðspurður segir A að Y hafi aðeins slegið hann einu höggi.  Hann hafi þannig fengið í andlitið eitt hnefahögg og svo höggið með múrsteininum sem lögreglan hafi sagt X hafa veitt honum.  Hann segir ákærða Y hafa tekið af sér myndir og sent þær kunningjum sínum til þess að stæra sig af því hvað hann hefði gert. 

H hefur sagt að hann muni ekki vel eftir því sem gerðist.  Hann kannast ekki við að hafa komið að umræddu húsi í [...].  Hann muni eftir því að hafa verið með A og G, kærustu sinni, í bíl.  Ekki muni hann hvaða leið þau óku.  Y hafi verið þarna.  Ekki muni hann hvað gerðist eftir að þangað kom.  Hann segir langt um liðið og sé hann ekki minnugur.  Hann hljóti að hafa munað betur atvikin þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu.  Hann kveðst einnig hafa verið undir áhrifum vímuefna þegar atvikin gerðust.  Hann kannast við að hafa verið í bíl með A þegar á hann var ráðist.  Hann hafi hins vegar ekki séð árásina sjálfa og geti ekkert fullyrt nú.  Nánar aðspurður segir hann að þótt hann hafi hjá lögreglu sagst hafa séð þegar ráðist var á A þá hafi það verið ofsagt þar sem hann hafi „ekki nákvæmlega“ séð atburðinn.  Þannig muni hann ekki hvort hann sá Y slá A og kunni hann að hafa sagt rangt til um það.  Annað hvort hafi hann ekki séð hvað gerðist eða geti „ekki fullyrt það núna“.  Aftur á móti segir hann það vera rétt sem hann sagði í yfirheyrslunni hjá lögreglu að hann hefði séð ákærða X slá A með hellusteini eða einhverjum steini í andlitið.  Segist hann hafa setið í framsæti og séð þetta í speglinum.  Segir vitnið að G hafi setið aftur í með A þegar þetta gerðist.  Verður framburður hans ekki skilinn á annan veg en að hann muni nú eftir því að hafa séð þetta.  Hann segist hafa ekið bílnum af þessum stað með þeim A og ákærða Y sem farþegum.  Hafi Y sagt honum að gera það.  Ekki muni hann hvaða leið hann ók eða hvort einhverjir munir hafi verið sóttir.  Hann kveður það vera rétt sem hann sagði hjá lögreglu að X hefði slegið A með steini.   Aðspurður á ný segir vitnið að hann hafi ekki séð að A væri sleginn nema þessu eina höggi sem ákærði veitti honum með hellusteini.  Hafi hann séð þetta í speglinum.  Hafi hann orðið fyrir áfalli af því að sjá þetta.

F læknir hefur komið fyrir dóm og sagt áverkan á A hafa verið alvarlega og stafa af þungum höggum.  Andlitsáverkarnir hafi borið með sér að stafa af höggum.  Ekki minnist hún þess að óhreinindi hafi verið í andlitssári A en hún kveðst ekki geta útilokað að hellusteinn hafi komið við sögu, enda andlitsáverkarnir verið útbreiddir.  Aðspurð segir læknirinn að ekki sé unnt að útiloka að áverkarnir geti stafað af stærri fleti og þá af einu höggi með hellusteini.  Um kúpuhvolfsbrot í vottorðinu segir læknirinn að loft hafi komist inn um sprungu við ennisskúta en gegnt henni hafi verið mar á heila.

D lögreglumaður segist hafa farið á slysadeild að finna árásarþolann og ræða við hann.  Hafi maðurinn lítið getað eða viljað segja hvað gerst hafði en hann hafi ekki verið vel á sig kominn. 

E, bróðir ákærða X, kveðst hafa farið út úr samkvæminu og talað við A í umrætt sinn fyrir utan húsið.  Hafi hann verið með áverka í andlitinu, blóðugur og illa farinn.  Kveðst hann hafa sagt við hann að hann væri heppinn að hafa ekki lent í sér.  Hafi hann enda verið reiður A fyrir að brjótast inn hjá barnsmóður hans og stela sparibauk frá syni hans.  Hafi Y verið kunnugt um þetta.  Ekki viti hann hver hafi veitt þessa áverka en þarna við húsið hafi verið fleira fólk og nefnir hann nokkur nöfn í því sambandi.  Hann kannast ekki við að hafa fengið símsend skilaboð eða myndir af A frá Y.     

J hefur komið fyrir dóminn og segist ekki muna eftir neinum atvikum tengdum þessu máli.  Þá muni hann ekki eftir að hafa fengið skilaboð frá ákærða Y.  Hann neitar því ekki að hafa verið með farsíma þann sem þessi skilaboð voru send úr í síma ákærða Y: „Elska þig vinur:) frétt þu hefðir lamið hann...Hvenær kikiru ven.“  Kveðst hann ekki muna eftir þessu.  Hann segir þá ákærða Y vera félaga.  Þá þekki hann A.

Ó, móðir A, hefur greint frá því að hann hafi hringt og beðið um að fá verðmæti til þess að borga fyrir „vernd“.  Hafi maður komið í símann og sagst vera að hjálpa A og mælst til þess að verðmætin yrðu afhent.  Hafi þeir svo komið í bíl og Y komið inn og tekið við verðmætum úr einhverju innbroti sem A átti að hafa framið og fleiru.  Kveður hún Y hafa komið þannig fram að hún hélt að einhver annar einhver annar en Y hefði barið son hennar.  Þá hefur faðir A, P, borið á líkan hátt. 

G hefur komið fyrir dóminn.  Hún kveðst lítið sem ekkert muna eftir atvikum þessa dags enda hafi hún verið í mikilli óreglu þá.  Hún kveðst ekki hafa orðið vitni að líkamsárás á A. 

R var í margnefndu samkvæmi á heimili þáverandi kærustu sinnar.  Segist hann svo hafa farið með samkvæmisfólkinu í sumarbústað.  Hann kveðst ekki hafa orðið vitni að árás en frétt af henni seinna. 

L kveðst hafa verið í umræddu samkvæmi.  Hafi hún orðið vör við einhvern æsing í samkvæminu en ekki orðið vitni að neinum átökum.  Hafi hún svo farið með fólkinu í sumarbústaðinn.

Vitnið I hefur gefið skýrslu fyrir dómi.  Kannast hún við að hafa verið í umræddu samkvæmi en kveðst annars lítið muna.

M hefur gefið skýrslu fyrir dómi.  Kannast hann við að hafa verið í umræddu samkvæmi en kveðst ekkert vita um líkamsárásina.

Niðurstaða

                Ákærðu hafa báðir neitað sök frá upphafi.  Framburður manna í málinu hefur verið talsvert á reiki og þykir bera þess nokkur merki að þeir hafi verið í vímu af ýmsu tagi þegar atburðurinn gerðist.  Þá er til þess að líta að nokkur hópur fólks hefur verið staddur á [...], bæði innandyra sem utan. 

Ákærði Y

Sem fyrr segir neitar ákærði Y sök.  A hefur fyrir dómi sagt ákærða hafa kýlt sig í andlitið, ýmist oftar en einu sinni, eða þegar hann hefur verið spurður ítarlega, að ákærði hafi einungis slegið sig einu höggi á hægri vangann.  Framburður H er reikull um það hvort ákærði Y hafi slegið A en hann hefur þó að endingu tekið af tvímæli um þetta og borið á þann veg að hann hafi ekki orðið vitni að því að ákærði slægi A.  Símagögnin í málinu, sem ákærði hefur gefið ólíklegar skýringar á, þykja á hinn bóginn benda sterklega til þess að hann hafi slegið A og styrkja svo framburð GA um það að sannað telst að ákærði hafi slegið hann einu höggi á vangann.  Þykir mega slá því föstu að A hafi við höggið hlotið brot á vanga- og kinnkjálkabeinum.  Verknaður ákærða telst varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði X

    Ákærði X neitar sök.  A kveðst ekki hafa orðið þess áskynja að það hafi verið ákærði X sem sló hann með steininum.  Hefur framburður hans um þetta einnig verið alveg ótvíræður frá upphafi, þótt yfirheyrendur í lögreglurannsókninni hefðu gengið mjög á hann og reynt að fá hann til þess að bera á annan veg.  Aðeins eitt vitni hefur borið þetta á ákærða fyrir dómi, H.  Ekki verður séð að nein ótvíræð gögn styðji framburð vitnisins um þetta ákæruatriði og er þá hvorki litið fram hjá framburði meðákærða hjá lögreglu né símagögnunum.  Loks er þess einnig að gæta að aðrir en hann, sem nærstaddir voru, gætu hafa haft tækifæri eða talið sig hafa ástæðu til þess að veitast að A.  Verður ákærði því sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás. 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærða Y hefur ekki áður verið refsað fyrir ofbeldisbrot en hann á 10 ára langan sakaferil.  Í upphafi var hann dæmdur tvisvar fyrir þjófnað en eftir það hefur hann verið sektaður níu sinnum, ýmist fyrir umferðar- eða fíkniefnalagabrot.  Með heimild í 6. - 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga ber að líta til þess að ákærði framdi brot sitt þegar hann hafði þvingað brotaþolann inn í bílinn, tók þar svo símamyndir af áverkum hans, sendi þær út og stærði sig af verkinu.  Loks ber að líta til þess að hann lét aka lengi dags með brotaþolann og kúgaði út úr honum verðmæti.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.  Eru ekki efni til þess að skilorðsbinda refsinguna.

Að kröfu A ber að dæma ákærða til þess að greiða honum 400.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 27. september 2014 til 11. nóvember 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Þórði Má Jónssyni hdl., 1.513.110 krónur í málsvarnarlaun og 16.240 krónur í kostnað, 

                Dæma ber að málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 746.480 krónur,        greiðist úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun Guðmundar Ágústssonar hrl., verjanda ákærða við rannsókn málsins, 746.480 krónur í málsvarnarlaun.

                Dæma ber að ákærða Y að hálfu og ríkissjóð að hálfu til þess að greiða réttargæslulaun Björgvins Jónssonar hrl., 494.760 krónur.

Laun lögmannanna eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Loks ber að dæma að ákærði Y greiði annan kostnað af málinu, 44.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

                Ákærði, Y, sæti fangelsi í sex mánuði. 

Ákærði Y greiði A 400.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 27. september 2014 til 11. nóvember 2015 en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags.

                Ákærði Y greiði verjanda sínum, Þórði Má Jónssyni hdl., 1.513.110 krónur í málsvarnarlaun og 16.240 krónur í kostnað. 

                Málsvarnarlaun verjenda ákærða X, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 746.480 krónur, og Guðmundar Ágústssonar hrl., 746.480 krónur,  greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærði Y greiði réttargæslulaun Björgvins Jónssonar hrl., 494.760 krónur, að hálfu en ríkissjóður að hálfu.

                Loks greiði ákærði Y annan kostnað af málinu, 44.000 krónur.