Hæstiréttur íslands
Mál nr. 101/2000
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Örorka
- Sakarskipting
- Umboð
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2000. |
|
Nr. 101/2000. |
Hólmadrangur hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Kristjáni Guðmundssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) og gagnsök |
Vinnuslys. Skaðabætur. Örorka. Sakarskipting. Umboð. Gjafsókn. Sératkvæði.
K varð fyrir slysi 25. nóvember 1990, er hann var við vinnu í lest skipsins H. Varanleg örorka hans var metin 25% samkvæmt örorkumati 25. mars 1992. Bætur voru gerðar upp við K 28. október 1992. Þáverandi lögmaður K gekk frá uppgjörinu samkvæmt skriflegu umboði. Var við uppgjörið miðað við eigin sök K að 1/3 huta og 40% í frádrátt vegna hlunnindaafsláttar. Í ljós kom, að varanleg örorka K vegna slyssins var mun meiri en 25% og var hún metin fjórum sinnum eftir upphaflegt mat. Ágreiningslaust var í málinu, að varanleg örorka K væri 60% samkvæmt yfirmatsgerð 6. maí 1999. Hélt K því fram, að lögmaður hans hefði ekki haft umboð til að semja um sakarskiptingu eða skaðabótafjárhæð eða taka við greiðslu. Hæstiréttur taldi, að í hinu skriflega umboði hefði falist heimild fyrir lögmanninn til að semja um bótakröfuna og grundvöll hennar, þótt orðalag þess hefði ekki verið svo skýrt sem skyldi. Ekki væri unnt að miða við annað en að lögmaðurinn hafi haft samráð við K um meginforsendur uppgjörsins eða gert honum viðhlítandi grein fyrir þeim. Var K samkvæmt þessu talinn bundinn við samkomulagið frá október 1992, er gerðar voru upp bætur til hans vegna þeirrar örorku sem þá hafði verið metin. Talið var, að með samkomulaginu hafi K fallist á, að hann bæri sök á slysinu að 1/3 hluta og því yrði að miða við eigin sök K þegar bætur vegna viðbótarörorkunnar væru ákveðnar. Við mat á bótum til K vegna varanlegrar örorku var einnig tekið tillit til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu. Til greina voru teknar bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi og fallist var á kröfur K um miskabætur. Til frádráttar komu bætur úr atvinnuslysatryggingu, sem greiddar voru eftir uppsögu héraðsdóms, og örorkulífeyrir, að teknu tilliti til breytinga á verðlagi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 15. mars 2000. Hann krefst þess, að dæmdar skaðabætur samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði lækkaðar og málskostnaður í héraði felldur niður, en gagnáfrýjanda verði gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 16. maí 2000. Hann krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 11.630.736 krónur með ársvöxtum svo sem hér greinir: 2,5% frá 24. nóvember 1990 til 1. janúar 1991, 3,5% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 5% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 6% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 7% frá þeim degi til 11. október sama ár, 4% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 3,75% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 3,5% frá þeim degi til 1. desember sama ár, 3% frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,5% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 2% frá þeim degi til 21. mars sama ár, 1,25% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1% frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25% frá þeim degi til 11. nóvember sama ár, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% frá þeim degi til 25. apríl 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags - allt að frádregnum 1.234.920 krónum, sem greiddar voru inn á kröfuna 2. febrúar og 9. mars 2000. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu, að skaðabætur beri vexti eins og krafist er í aðalkröfu, allt að frádregnum 1.234.920 krónum. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi varð gagnáfrýjandi fyrir slysi 25. nóvember 1990, er hann var við vinnu í lest skipsins Hólmadrangs ST-70. Varanleg örorka hans var metin 25% samkvæmt örorkumati 25. mars 1992. Bætur voru gerðar upp við gagnáfrýjanda 28. október 1992. Lögmaður gagnáfrýjanda gekk frá uppgjörinu samkvæmt skriflegu umboði. Var við uppgjörið miðað við eigin sök gagnáfrýjanda að 1/3 hluta og 40% í frádrátt vegna hlunnindaafsláttar. Í ljós kom, að varanleg örorka gagnáfrýjanda vegna slyssins var mun meiri en 25% og var hún metin fjórum sinnum eftir upphaflegt mat. Er óumdeilt, að varanleg örorka gagnáfrýjanda sé 60% samkvæmt yfirmatsgerð 6. maí 1999.
II.
Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi þess aðallega, að bætur verði dæmdar vegna 60% örorku hans og hann ekki talinn bundinn af uppgjöri því, sem fram fór í október 1992 og miðaðist við 25% varanlega örorku.
Gagnáfrýjandi heldur því fram, að þáverandi lögmaður hans hafi ekki haft umboð til að semja um sakarskiptingu eða skaðabótafjárhæð eða taka við greiðslu. Samkvæmt orðalagi umboðsins nái það einungis til þess að „ganga frá bótakröfu“ og komi þar ekkert fram um heimild lögmannsins til að semja um skaðabætur og taka við greiðslu þeirra. Hafi uppgjör þetta verið gert án vilja eða vitundar gagnáfrýjanda. Telur hann það ósanngjarnt og óheiðarlegt af hálfu aðaláfrýjanda að bera uppgjörið fyrir sig, enda hafi verið ljóst frá upphafi, að gagnáfrýjandi átti engan þátt í því að slysið varð.
Umboð það, sem hér um ræðir var svohljóðandi: „Gef lögmanni mínum ... fullt umboð til að ganga frá bótakröfu v/slyss er ég varð fyrir hinn 25. 11. ´90.“ Gagnáfrýjandi bar fyrir dómi, að hann reki ekki minni til þess, að framangreint uppgjör hefði verið borið undir sig og muni ekki eftir að hafa verið beðinn um að fallast á það, að hann bæri einhverja sök á slysinu. Samkvæmt gögnum málsins voru afleiðingar slyssins mikil minnisskerðing, bæði á atburði fyrir slysið og eftir slysið. Á kvittun á eyðublað frá vátryggingafélaginu, sem lögmaður gagnáfrýjanda undirritaði við móttöku bótanna, var skráð: „Hjálagt fylgir sundurliðun bótafjárhæðar“. Á þeirri sundurliðun kemur fram, að miðað var við 1/3 hluta eigin sakar og 40% frádrátt vegna skattaafsláttar og eingreiðsluhagræðis. Óumdeilt er, að gagnáfrýjandi tók við greiðslu bótanna frá lögmanni sínum og hreyfði ekki athugasemdum um umboðsskort hans fyrr en nú. Lögmaður sá, sem hér um ræðir, er nú látinn. Þótt orðalag hins skriflega umboðs sé ekki svo skýrt sem skyldi verður að telja, að í því hafi falist heimild fyrir lögmanninn til að semja um bótakröfuna og grundvöll hennar. Er ekki unnt að miða við annað en að hann hafi haft samráð við gagnáfrýjanda um meginforsendur uppgjörsins eða gert honum viðhlítandi grein fyrir þeim. Samkvæmt þessu er gagnáfrýjandi bundinn við uppgjör bóta til hans vegna þeirrar örorku, sem þá hafði verið metin, og getur ekki haft uppi frekari kröfur vegna þess.
III.
Í varakröfu sinni fer gagnáfrýjandi fram á bætur vegna 35% viðbótarörorku. Krefst hann þess, að ekki verði miðað við sömu forsendur og gert var í fyrra uppgjöri um sakarskiptingu og hlunnindafrádrátt.
Samkvæmt framansögðu er gagnáfrýjandi bundinn við samkomulag það frá október 1992, er gerðar voru upp bætur til hans vegna 25% varanlegrar örorku. Verður að telja, að með því hafi gagnáfrýjandi fallist á, að hann bæri sök á slysinu að 1/3 hluta. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á, að þessu samkomulagi eigi að hnekkja, hlýtur hann að vera bundinn við fyrri afstöðu sína til þess, hver væri grundvöllur skaðabótaábyrgðar á slysinu. Þótt síðar hafi komið í ljós auknar afleiðingar slyssins og örorka reynst meiri en gert var ráð fyrir í upphafi getur það ekki haft áhrif á umsamda og viðurkennda sakarskiptingu. Verður því áfram að miða við eigin sök gagnáfrýjanda, er bætur vegna viðbótarörorkunnar eru ákveðnar.
Í fyrrnefndu uppgjöri var jafnframt samið um 40% frádrátt vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Af greinargerð lögmanns aðaláfrýjanda og munnlegum flutningi fyrir Hæstarétti verður ráðið, að hann telji þann frádrátt eftir atvikum óeðlilega mikinn. Þykir verða að líta svo á, að aðaláfrýjandi hafi þar með fallist á, að dómurinn gæti hnikað fyrra samkomulagi aðila um þetta til hækkunar bóta.
IV.
Við ákvörðun bóta handa gagnáfrýjanda vegna þeirrar viðbótar á varanlegri örorku, sem fram hefur komið og er óumdeild í málinu, verður tekið mið af útreikningi tryggingafræðings á slysdagsverðmæti tekjutaps af þessum sökum, sem telst vera 9.851.800 krónur. Bætur til gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku þykja hæfilega ákveðnar 6.896.260 krónur að teknu tilliti til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu. Krafa um bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda er tekin til greina. Til frádráttar bótum koma bætur úr atvinnuslysatryggingu, 1.234.920 krónur, sem greiddar voru eftir uppsögu héraðsdóms. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður útreikningur tryggingafræðings frá 2. október 2000 á verðmæti greiðslna, sem gagnáfrýjandi hefur notið frá 1. mars 1993. Samkvæmt honum telst slysdagsverðmæti örorkulífeyris gagnáfrýjanda vegna viðbótarörorkunnar vera 1.683.400 krónur. Örorkuútreikningur sá, sem gagnáfrýjandi byggir kröfur sínar á, er frá 4. september 1997. Með hliðsjón af breytingum á verðlagi þykir rétt, að 1.123.400 krónur af umræddum örorkulífeyri komi til frádráttar bótum til gagnáfrýjanda vegna fjárhagslegs tjóns hans. Fallist er á miskabótakröfu að fjárhæð 500.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 3.919.347 krónur að teknu tilliti til eigin sakar með dráttarvöxtum frá 25. apríl 1997 til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, samtals 1.100.000 krónur.
D ó m s o r ð :
Aðaláfrýjandi, Hólmadrangur hf., greiði gagnáfrýjanda, Kristjáni Guðmundssyni, 3. 919.347 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. apríl 1997 til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals
800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður
gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns
hans í héraði og fyrir Hæstarétti,
samtals 1.100.000 krónur.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
I.
Mál þetta er risið af slysi, sem gagnáfrýjandi varð fyrir 25. nóvember 1990 í lest frystitogarans Hólmadrangs ST 70, sem þá lá við bryggju á Hólmavík, þegar hann var þar að vinnu við uppskipun á innpökkuðum freðfiski í hópi sex manna, en hinn sjöundi annaðist stjórn á verkinu frá lestarlúgu. Voru þeir bændur úr nágrenninu, sem höfðu það að hlutastarfi að annast löndun úr togaranum og fleiri fiskiskipum á Hólmavík. Munu þeir hafa unnið að verkinu sem lausráðnir starfsmenn aðaláfrýjanda, en ekki verið sjálfstæðir verktakar.
Slysið varð með þeim einföldu atvikum, að nokkrir 30 kg fiskpakkar eða kassar hrundu ofan úr stæðu í lestinni, meðan uppskipunarmennirnir voru að taka niður stæðu með annarri fisktegund við hlið hennar. Féll einn af efstu pökkunum í höfuð gagnáfrýjanda, sem var ekki með hendur á síðarnefndu stæðunni í þeim svifum, heldur hafði hann beygt sig í átt að henni til að taka á kassa niðri við lestargólf. Hefur þetta höfuðhögg valdið honum miklum örkumlum, eins og rakið er í héraðsdómi.
Um atvikin liggja fyrir skýrslur lögreglunnar í Strandasýslu, sem yfirheyrði verkstjóra gagnáfrýjanda og einn af vinnufélögum hans í nóvember og desember 1990, en gagnáfrýjandi sjálfur var ekki til frásagnar um slysið þá né síðar vegna minnistaps. Í júní 1991 gaf framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda síðan skýrslu, þar sem fram kom meðal annars, að gagnáfrýjandi og félagar hans hefðu átt kost á öryggishjálmum, sem þeir hefðu ekki notað við verkið. Af því tilefni var verkstjórinn kallaður aftur til yfirheyrslu í september sama ár, og staðfesti hann fyrri framburð sinn þess efnis, að ekki hefði verið til hjá útgerðinni nema einn fóðraður hjálmur, svo sem við hefði þurft, og hefðu allir mennirnir í lestinni því verið hjálmlausir.
Heilsutjón gagnáfrýjanda af völdum slyssins var fyrst metið í mars 1992 og varanleg örorka hans þá talin 25%. Að fenginni þeirri niðurstöðu virðist þáverandi lögmaður hans hafa leitað samninga um skaðabætur við aðaláfrýjanda og vátryggjanda hans, á grundvelli umboðs, sem gagnáfrýjandi hafði undirritað í janúar sama ár. Svo fór, að samningar um uppgjör tókust 28. október þetta ár, og fékk gagnáfrýjandi þá greiddar skaðabætur, sem taldar voru fullnaðarbætur, úr ábyrgðartryggingu vinnuveitandans, en í júní hafði hann fengið eingreiðslu úr samningsbundinni slysatryggingu, sem dregin var frá heildarfjárhæð bótanna.
Varanleg örorka gagnáfrýjanda var aftur metin ári síðar og þá talin 35%. Sem áður var hún aðallega rakin til mikilla höfuðverkja ásamt ljósfælni, auk skertra hálshreyfinga vegna hnykkáverka. Sagði í síðara matinu, að gagnáfrýjandi virtist vera niðurbrotinn maður og bera með sér einkenni um þyngri geðlægð en algengt væri við heilasjúkdóm af völdum ytri áverka. Eftir matið fékk hann viðbótargreiðslu úr slysatryggingunni, en tilmælum um frekari skaðabætur var hafnað að svo stöddu. Var það ekki fyrr en nokkrum árum síðar og eftir ítarlegri könnun örorkunnar, sem vátryggjandi aðaláfrýjanda féllst á, að efni væru til að endurskoða uppgjör þeirra.
II.
Ég er sammála I. og II. kafla í atkvæði annarra dómenda og þar með þeirri niðurstöðu, að við verði að miða, að umboð gagnáfrýjanda til lögmanns síns hafi verið til þess ætlað að heimila honum alhliða meðferð á bótakröfu vegna slyssins og samninga um hana, og hafi viðsemjendur lögmannsins mátt treysta því. Sé gagnáfrýjandi þannig bundinn við samningsgerð hans um uppgjör á skaðabótum fyrir það örorkutjón, sem matið gaf til kynna.
Í samræmi við þetta efni umboðsins verður á hinn bóginn að meta uppgjörið á þann veg, að um hafi verið að ræða gagnkvæmt samkomulag um samþætta heildarlausn á bótamálinu, og hinar ýmsu forsendur þess verið hver annarri háðar. Sé þannig ekki sjálfgefið, að unnt sé að leggja forsendurnar óbreyttar til grundvallar við uppgjör á skaðabótum fyrir aukið tjón, sem síðar hafi komið í ljós og valdið bresti á því, að uppgjörið gæti talist tæmandi um bótarétt vegna slyssins. Eigi þetta við um þær allar saman og hverja fyrir sig, og jafnt gagnvart báðum aðilum.
Ágreiningur aðilanna um þessar skaðabætur er einkum af því sprottinn, að aðaláfrýjandi hefur haldið því fram, að skylt sé að fylgja tvennum forsendum uppgjörsins frá 28. október 1992 við ákvörðun þeirra, þ.e. bæði því, að bætur vegna slyssins hafi þá verið lækkaðar um 1/3 með tilliti til eigin sakar gagnáfrýjanda, og svo hinu, að hæfilegur frádráttur vegna hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu hafi verið metinn 40%. Um þá frádráttarákvörðun er það fljótsagt, að hún verður í besta lagi metin sem barn síns tíma, og er ekki ætlandi, að lögmaður gagnáfrýjanda hafi fallist á hana til annars en að ná samkomulagi. Er útilokað að leggja hana nú til grundvallar án samþykkis gagnáfrýjanda, auk þess sem aðaláfrýjandi hefur viðurkennt hér fyrir dómi, að annað og lægra hlutfall væri eðlilegra.
Ljóst má telja, að fyrrnefnda forsendan sé sama marki brennd, þannig að niðurskurður á bótum um þriðjung vegna eigin ábyrgðar hins slasaða hafi orðið að samkomulagi milli aðila sem þáttur í heildarlausn málsins. Efnislega fer þessi sakarskipting nokkuð í bága við skýrslur lögreglunnar, sem benda eindregið til þess, að rekja megi slysið til mistaka við hleðslu í lestina eða ófullnægjandi verkstjórnar við uppskipunina, eða hvors tveggja. Jafnfamt hefur aðaláfrýjandi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu verkstjórans, að einungis einn nothæfur öryggishjálmur hafi verið á staðnum, né heldur hinu, að líta beri á verkstjórann sem fulltrúa hans, en ekki mannanna í lestinni. Verður þannig ekki séð, að nokkur efni séu í raun til að leggja ábyrgð á slysinu á gagnáfrýjanda. Mótsögnin við staðreyndir málsins ræður því þó ekki ein saman, hvort forsendunni verði nú fylgt, heldur kemur hitt einnig til, að grundvöllur samkomulagsins um fullnaðaruppgjör í október 1992 hefur brostið vegna nýrra sönnunargagna um víðtækt heilsutjón, sem þá varð ekki séð fyrir, og nýtt samkomulag hefur ekki náðst. Er rétt og skylt að líta svo á, að aðilar séu báðir óbundnir af fyrri afstöðu sinni um þennan þátt uppgjörsins sem aðra.
Með vísan til alls þessa og til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að fallast á það með héraðsdómara, að sjálfstætt mat á atvikum slyssins leiði til þess, að aðaláfrýjandi verði að bera alla ábyrgð á því tjóni gagnáfrýjanda, sem óbætt er.
III.
Við ákvörðun bóta fyrir fjártjón gagnáfrýjanda er rétt að hafa hliðsjón af reiknuðu slysdagsverðmæti tekjutaps af völdum slyssins, eins og gert er í atkvæði annarra dómenda. Virðast bætur vegna tapsins hæfilega ákveðnar 6.900.000 krónur að teknu tilliti til hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu, en 590.000 krónur vegna taps á lífeyrisréttindum. Frá þessum fjárhæðum ber að draga verðmæti annarra bótagreiðslna, sem gagnáfrýjandi hefur fengið. Er ég sammála öðrum dómendum um mat á því, sem og um fjárhæð miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að dæma beri aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda samtals 5.631.700 krónur, með dráttarvöxtum frá 25. apríl 1997 til greiðsludags. Ég er sammála öðrum dómendum um málskostnað og gjafsóknarkostnað, með þeirri breytingu, að kostnaður í ríkissjóð úr hendi aðaláfrýjanda nái til alls gjafsóknarkostnaðarins.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 1999.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 27. september 1997.
Stefnandi er Kristján Guðmundsson, kt. 010757 2589, Réttarvegi 10, Höfnum. Stefndi er Hólmadrangur hf., kt. 470180-0129, Skeiði 3, Hólmavík og til réttargæslu Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til, heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns af völdum vinnuslyss, auk vaxta og málskostnaðar og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til heimtu vátryggingarbóta úr slysatryggingu vegna sama slyss, auk vaxta og málskostnaðar.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda, Hólmadrangi hf., verði gert að greiða stefnanda 11.630.736 krónur en til vara 8.972.520 krónur auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, þ.e. 2,5% ársvöxtum frá 24. nóvember 1990 til l.janúar 1991, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1991, með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1991, með 6% ársvöxtum frá þeim degi til l. ágúst 1991, með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 11. október 1991, með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 1991, með 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. nóvember 1991, með 3,5 % ársvöxtum frá þeim degi til l. desember 1991, með 3 % ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, með 2,5 % ársvöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 1992, með 2 % ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1992, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1992, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til l. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, með 0,75%ársvöxtum frá þeim degi til 25. apríl 1997 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla nefndra laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þess er krafist að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. verði gert að greiða stefnanda 1.234.920 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr, vaxtalaga nr. 25/1987, þ.e. 2,5% ársvöxtum frá 24. nóvember 1990 til l.janúar 1991, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1991, með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1991, með 6% ársvöxtum frá þeim degi til l. ágúst 1991, með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 11. október 1991, með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 1991, með 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. nóvember 1991, með 3,5 % ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 1991, með 3 % ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, með 2,5 % ársvöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 1992, með 2 % ársvöxtum frá þeim degi til 21. mars 1992, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1992, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til l. október 1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 25. apríl 1997 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla nefndra laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi sé eigi virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
MÁLAVEXTIR:
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að þann 25. nóvember 1990 hafi stefndi ásamt fimm öðrum mönnum verið við vinnu í lest skipsins Hólmadrangs ST-70 við löndun í Hólmavíkurhöfn. Hafi þeir verið að stafla freðfiskkössum á bretti og háar stæður kassa verið í lestinni. Er stefndi hafi verið í þann mund að taka kassa úr einni stæðu neðarlega í lestinni hafi frístandandi stæða hrunið yfir hann með þeim afleiðingum að einn kassanna hafi lent á aftanverðu höfði hans. Kassar þessir séu um 30 kílóa þungir og fall þeirra um 6 metrar. Hafi stefnandi hlotið mikið högg á höfuðið við þetta. Hann hafi ekki verið með öryggishjálm á höfði, frekar en aðrir er unnið hafi að löndun í lestinni, enda hafi aðeins einn öryggishjálmur verið til á svæðinu ætlaður fyrir löndunarmenn og hafi sá verið í notkun.
Við höfuðhöggið hafi stefnandi rotast og verið meðvitundarlaus um nokkra stund. Hafi hann fyrst leitað til héraðslæknis á Heilsugæslustöðinni á Hólmavík og verið sendur heim eftir skoðun. Tveimur dögum síðar hafi stefnandi leitað til slysadeildar Borgarspítalans í Reykjavík. Hefði hann haft höfuðverki frá slysinu auk þess sem eiginkona hans hafi kveðið hann hafa verið minnislítinn. Þar hafi verið tekin röntgenmynd, stefnandi settur í hálskraga og hafi hann farið heim samdægurs.
Stefnandi hafi leitað til John E. G. Benedikz, taugasjúkdómasérfræðings, í maí og júní 1991. Hafi stefnandi fengið höfuðverkjaköst daglega og verið gleyminn auk þess sem svefn hafi verið óreglulegur. Hafi stefnandi leitað nokkrum sinnum til John síðar á árinu, enda fengið 2-3 slæm höfuðverkjaköst á viku, einkum við álag. Hafi John ekki talið líkur til þess að heilsufar stefnanda myndi batna að þessu leyti í framtíðinni.
Í heilsufarsvottorði Arnbjörns Ólafssonar læknis, dags. 30. júní 1993, komi einnig fram að stefnandi hafi þjáðst af miklum höfuðkvölum eftir slysið og hafi verið óvinnufær með öllu öðru hverju vegna verkja. Hafi Arnbjörn talið að stefnandi væri "nú eins og er algjör öryrki vegna þessa sjúkdóm.”
Í örorkumati Björns Önundarsonar læknis, dags. 25, mars 1992, segi að stefnandi beri töluverðar afleiðingar slyssins. Hann sé oft þjáður af höfuðverk, sem byrji í hnakka og leggi fram yfir höfuð. Höfuðverkjaköstin standi allt upp í 7-8 klst. og komi tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Niðurstaða Björns í matinu sé sú að meta örorku stefnanda 100% fyrstu tvo mánuðina eftir slysið, þá 50% í tvo mánuði þar á eftir og varanlega örorku 25%. Stefnandi hafi fengið greitt 514.550 krónur úr slysatryggingu launþega þann 3. júní 1992, sbr. yfirlit yfir tjónagreiðslur frá VÍS, prentað 12. september 1997. Hafi greiðslan miðast við 25% varanlega örorku, líkt og Björn Öndunarson læknir mat hana, sbr. örorkumat hans dags. 25. mars 1992.
Þá hafi stefnandi fengið greitt frá Vátryggingafélagi Íslands hf. úr ábyrgðartryggingu Hólmadrangs hf. 755.637 krónur vegna varanlegrar örorku, þann 28. október 1992. Hefði þá verið tekið tillit til greiðslna úr slysatryggingu launþega og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Hafi greiðslan miðast við 25% varanlega örorku. Forsendur uppgjörsins hafi hins vegar verið afar ósanngjarnar og ekki í samræmi við dómvenju. Hafi þar verið um að ræða 40% frádrátt vegna "skattaafsláttar o.fl." og þannig ekki tekið tillit til skattleysismarka stefnanda. Þá hafi bætur verið lækkaðar um 1/3 vegna "eigin sakar" stefnanda. Forsendur þess mats hafi hins vegar ekki verið skýrðar náuar og stefnandi ekki verið hafður með í ráðum er uppgjörið fór fram.
Snemma eftir það hafi hins vegar þótt ljóst að varanlegar afleiðingar slyssins væru mun meiri en samkvæmt nefndu örorkumati. Vegna aukinna verkja og stirðleika í hálsi hafi örorka stefnda verið metin aftur af Birni Önundarsyni, sbr. örorkumat hans dags. 10. nóvember 1993.
Segi Björn þar að stefnandi beri nú allmiklar afleiðingar slyssins. Hann sé þjáður af höfuðverk, jafnvel í hvíld og verki lyf lítið á það. Niðurstaða Björns hafi verið sú að læknisfræðileg örorka stefnanda hafi verið 100% fyrstu níu mánuðina eftir slysið, þá 65% í tvo mánuði og að varanleg örorka stefnanda sé 35%. Vátryggingafélag Íslands hf. hafi ekki fallist á að gera skaðabótakröfu stefnanda upp á grundvelli þess mats, en hins vegar hafi verið greiddar viðbótarbætur til stefnanda úr slysatryggingu launþega á grundvelli hins nýja mats. Hafi samkvæmt því mati verið greiddar til viðbótar 411.640 krónur vegna 10% viðbótarörorku stefnanda, úr slysatryggingunni þann 17. janúar 1994. Alls hafi því verið greiddar bætur úr slysatryggingunni fyrir samtals 35 % varanlega örorku.
Eftir þetta hafi enn frekari afleiðingar slyssins komið í ljós. Hafi stefnanda versnað svo mjög að hann hafi átt erfitt með að einbeita sér að öllum verkum og flosnað vegna þessa úr vinnu. Minnisleysi hafi farið vaxandi sem og þreyta. Hann hafi fundið stöðugan seyðing aftan í hálsinum og farið að finna til verkja við hryggsúluna niður í mjóbak og fundist stundum sem útlimir létu ekki fyllilega að stjórn. Vegna þessa hafi stefnandi átt til að detta við er hann var úti að ganga. Þá hafi stefnandi lent í því daglega að hendur hans hafi dofnað upp og orðið kraftlausar. Hafi öll fínvinna orðið óframkvæmanleg stefnanda vegna þessa. Vegna einkenna sinna hafi stefnandi neyðst til að nota verkjalyf reglulega.
Í niðurstöðum taugasálfræðilegs mats Þuríðar J. Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings, dags. 14. ágúst 1996, segi m.a.:
" l. Kristján getur einbeitt sér markvisst að öllum einföldum verkefnum án þess að láta truflast af innri eða ytri áreitum og að einbeitingarúthald er í slíkum verkefnum alveg innan eðlilegra marka. Um talsverða röskun á tvískiptri einbeitingu er hins vegar að ræða þannig að hann á erfitt með að vinna úr tveimur að fleiri áreitum samtímis, eða með öðrum orðum að gera tvennt í einu. [....]
2. Vitræn hæging (bradyphrenia) er til staðar en er að mestu bundin við erfiðari sjónræn verkefni (t.d. stafaútstrikun, setja pinna í göt);
3. Almenn vitræn geta samkvæmt hinni hefðbundnu Wechsler mælistiku á greind (WAIS) er í samræmi við lengd skólagöngu og starfsvettvang. Gloppukvarði WAIS prófsins (sem mælir ósamræmi á getu viðkomandi í auðveldum og erfiðum atriðum sem getur bent til heilaskaða) var eðlilegur nema í Litafiataprófinu, þar sem frammistaða bar vott um sértæka sjónræna (skipulags)örðugleika. Þessir erfiðleikar komu einnig fram í öðrum sjónrænum prófum (Rey teikningu);
4. Málskilningur og tjáning eru óskert nema hvað afmörkuð tjáningartregða sem felst í erfiðleikum við að telja upp orð samkvæmt upphafsbókstaf - en ekki merkingarflokki - var umtalsverð. Þetta próf er notað sem mælistika á hugrænan sveigjanleika (framheilinn gegnir hér lykilhlutverki) eða getuna til að beita örðum aðferðum en við beitum venjulega og ómeðvitað. Kristján á í sjálfu sér ekki erfitt með að lesa eða skrifa, en minnistap hans og einbeitingarskortur hafa svipt hann ánægjunni og tilgangnum (sic) af því að lesa.
5. Minnistap og minnistruflanir eru umtalsverðar. Minni Kristjáns er gloppótt og ekki allir þættir þess jafnslæmir. Þannig er skammtímaminni á sögur, þar sem viðkomandi getur nýtt sér efnislegt samhengi og óskerta málkennd, mjög gott. Samsvarandi minni á orðapör og orðalista, þar sem viðkomandi þarf alfarið að reiða sig á minnið, var hins vegar frá því að vera afar skert (Orðapör) uppí það að vera talsvert skert (Rey orðalistar). Minni Kristjáns á sjónrænt efni skiptist í tvö horn. Minni hans í form og fleti var innan eðlilegra marka en minni hans á afstæði og rúmvídd afar skert. Hér er um tvö kerfi í heilanum að ræða sem skýrir þetta ósamræmi í óyrtum minnisprófum.
Mér virðist sem minnistap Kristjáns sé bæði fólgið í erfiðleikum við vistun og geymslu en ekki aðeins upprifjun (en það bendir til þess að efni hafi alls ekki vistast), og hann var næmur fyrir truflunum af völdum annarra prófþátta. Atriði úr öðrum prófum og prófþáttum skutu upp kollinum í stað réttra orða (proactive og retroactive interference) auk þess sem merkingarlega skyld orð komu upp í stað réttra orða. Mynstur Kristjáns (sic) á hinum margþættu minnisprófum gefur ekki tilefni til ákveðinnar staðsetningar í heilaberki eða undirheila þar sem einkenni úr bæði temporolimbtskri og frontolmamillothalamískri amnesiu voru til staðar;
6. Fingrahraði (Finger tapping) í báðum höndum er óeðlilega lágur og kraftur hægri handar verulega skertur. Snertinæmi mældist eðlilegt í báðum höndum. Sumir vísindamenn telja að fngrahraði sé góð mælistika á dreifðan (diffuse) jafnvel byrjandi heilaskaða og nota þetta próf í þeim tilgangi;
7. Erfiðleikar í sjónrænni úrvinnslu og skipulagningu eru talsverðir. Marktæk sjónsviðstrutlun á vinstra sjónsviði mældist. Sjóndýptarskyn, sem er tengt fjarlægðar- og þrívíddarskyni, mældist hins vegar innan eðlilegra marka.
Telja má nú, 6 árum eftir slys það sem Kristján Guðmundsson varð fyrir, að hin post-traurnatísku einkenni hans í formi höfuðverkja, röskunar á svefni, síþreytu, úthaldsleysis, persónuleikabreytinga og vitrænnar skerðingar, sem hér hefur verið lýst séu orðin varanleg og engar líkur á frekari bata."
Vegna hinna auknu einkenna hafi verið leitað endurmats á örorku stefnanda hjá Sigurjóni Sigurðssyni lækni. Í örorkumati hans, dags. 19. mars 1997, komi fram að allar hreyfingar stefnanda í hálsi séu mjög skertar og þrýstieymsli eftir endilöngu bakinu. Í ályktun Sigurjóns segi:
"Hér er um að ræða mann sem lendir í alvarlegu slysi og fær nokkra þunga fiskikassa sem hver um sig vóg um það bil 30 kg ofan á höfuðið og hnakka þegar hann var að vinna við uppskipun úr skipi þann 25.11.1990. Við þetta missti hann meðvitund í meira en mínútu. Síðan slysið átti sér stað hafa komið meir og meir í ljós afleiðingar höfuðáverkans með vaxandi minnisleysi og höfuðverkjum ásamt einbeitingarskorti.
Vegna þessarar versnunar var Kristján sendur í taugasálfræðilegt mat til Þuríðar J. Jónsdóttur klínisks taugasálfræðings og fór matið fram þann 09.08.1996. Niðurstaða Þuríðar er sú að telja megi nú 6 árum eftir slys það sem Kristján Guðmundsson varið fyrir að hin post-traumatisku einkenni hans í formi höfuðverkjar, röskunar á svefni, síþreytu, úthaldsleysi, persónuleikabreytingum og vitrænnar skerðingar sem hér hefur verið lýst sé orðin varanleg og engar líkur á frekari bata.
Með tilliti til þessa og svo þeirra einkenna sem hafa farið vaxandi frá baki og hálsi má segja að örorka Kristjáns vegna afleiðinga slyssins þann 25.11.90 sé meiri en hann var metinn til þann 10.11.93. Með tilliti til þessa þykir því rétt að endurmeta nú tímabundna og varanlega örorku Kristjáns og telst hún hæflega metin sem hér segir
Í tvo mánuði 100 %
Varanleg örorka 50%"
Ljóst sé að stefnandi hafi hlotið verulega og varanlega skerðingu á getu sinni til að öflunar tekna í framtíðinni. Hafi örorka stefnanda verið metin, eins og áður segir, af Sigurjóni Sigurðssyni lækni, sbr. örorkumat hans, dags. 19. mars 1997. Niðurstöður hans séu að varanleg örorka stefnanda sé 50%. Stefndu hafi hins vegar neitað greiðslu skaðabóta í samræmi við það mat, bæði úr slysatryggingu hans og ábyrgðartryggingu vegna skaðabótaskyldu stefnda, Hólmadrangs hf. Hafi stefnanda því verið nauðsyn að höfða mál þetta til heimtu frekari bóta.
Í þinghaldi 5. febrúar 1998 kvaddi dómari læknana Atla Þór Ólafsson og Sverri Bergmann til þess að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
1) Hver sé tímabundi örorka Kristjáns Guðmundssonar af völdum vinnuslyss hans
um borð í Hólmadrangi ST-70 þann 25. nóvember 1990.
2) Hver sé varanleg læknisfræðileg örorka Kristjáns af völdum slyssins eingöngu.
3) Hvort önnur slys eða sjúkdómar eigi þátt í örorku hans og ef svo, hve mikil sú
örorka sé aðgreind frá örorku af völdum slyssins.
Í matsgerð matsmanna dasgettri 7. apríl 1998 segir eftirfarandi:
"SAMANTEKT OG ÁLIT
Fyrir slysið 24.11.1990 var Kristján heilsuhraustur og hafði engin einkenni frá höfði, hálsi eða baki. Þetta fékkst staðfest hjá heimilislækni.
Við slysið 24.11.1990 féll stæða með 30 kg þungum kössum úr allt að sex metra hæð ofan á Kristján. Við þetta slys hlaut hann höfuðhögg með heilahristingi sem leitt hefur til skertrar heilastarfsemi og hann hlaut tognun á hálsvöðva. Taugaskoðun og sérmyndir af höfði og hálsi hafa ekki leitt í ljós áverka á bein, liði eða sýnilegan heilaskaða. Hins vegar liggur fyrir sterkur grunur um skaða á heilastarfsemi er byggist á miklum höfuðverk og mígrenihöfuðverk, svima, einbeitingar- og minnistruflun, persónuleikabreytingu, hægingu á vitrænni starfsemi, truflun á sjónsviði og skertri fínhreyfingu fingra. Taugasálfræðilegt mat Þuríðar J. Jónsdóttur dags. 14.08.1996 leiddi í ljós og studdi grun um vitræna hægingu, skerðingu á minni, vistun, geymslu og upprifjun þess og minnkaðri getu til að vinna úr tveimur áreitum samtímis. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við kvartanir slasaða allt frá slysinu til dagsins í dag. Matsmenn telja að þessi einkenni hafi átt drýgstan þátt í því að minnka starfsgetu Kristjáns frá því að vera fullvinnufær fyrir slysið niður í það smám saman að verða óvinnufær, sérstaklega til átakaverka, þannig að frá 1993 hefur hann ekki verið vinnufær og notið bóta almannatrygginga. Ekki virðast líkur á að Kristján finni sér starf í framtíðinni við sitt hæfi.
Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er tekið mið af heilahristingi með sköddun á starfshæfni heila og hálstognun, er í heild hefur leitt til 35% varanlegrar örorku. Höfð er hliðsjón af matsvenjum í norður Evrópu og Ameríku.
Mat á læknisfræðilegri örorku tekur fyrst og fremst tillit til sannanlegra vefjaskaða og truflunar á starfsemi líffæra. Hún tekur ekki nema að hluta til skerðingar á almennri vinnugetu. Geta Kristjáns til sjómannsstarfa svo og ýmissa starfa í landi virðist vera verulega skert. Hann kynni að geta unnið við ýmis létt störf, t.d. næturvörslu sem hann hefur sótt um en ekki fengið. Vinnumarkaðurinn virðist því hafna honum þar sem hann gengur ekki heill til skógar og hætt er við að hann verði frá vinnu vegna höfuðóþæginda.
Við mat á tímabundinni örorku er tekíð mið af því að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það hvenær Kristján hóf störf á árinu 1991. Hann var hins vegar um tíma á línubát og hafði tekjur rúmlega 1,8 millj. Þá kemur fram í læknisvottorði Johns Benedikz að á fyrstu 14 mánuðum efiir slysið hafi komið fram að hann hafi ekki getað stundað vinnu eins og áður og verði að breyta um starf til að forðast álag. Í læknisvottorði Arnbjörns Ólafssonar er staðfest að Kristján hafi stundað sjómennsku í 10 mánuði frá mars 1991, en hafi þá orðið að hætta vegna höfuðverkjakastanna.
Samkvæmt þessu mætti áætla tímabundið atvinnutjón frá slysadegi fram til mars 1991, eða í heild í um fjóra mánuði. Eftir það væri metin varanleg örorka.
SVÖR VIÐ SPURNINGUM
1. Hver sé tímabundin örorka Kristjáns Guðmundssonar af völdum vinnuslyss hans um borð í Hólmadrangi ST-70 þann 24.1 1.1990
Svar: Tímabundin örorka: Fjórir mánuðir 100%
2. Hver sé varanleg læknisfræðíleg örorka Kristjáns af völdum slyssins eingöngu.
Svar: Varanleg læknisfræðileg örorka 35%
3. Hvort önnur slys eða sjúkdómar eigi þátt í örorku Kristjáns og kanni læknar fyrri sjúkrasögu með það í huga, hvort rekja megi núverandI einkenni til fyrra ástands, og ef svo er verði metið í hundraðshlutum í hve miklum mæli og verði sú örorka aðgreind frá örorku af völdum slyssins.
Svar: Önnur slys og sjúkdómar eiga ekki þátt í núverandi örorku hans."
Hinn 24. september 1998 kvaddi dómari læknana Brynjólf Jónsson, Torfa Magnússon og Tómas Zoëga, að beiðni stefnanda til þess að skoða og meta heilsufarslegt ástand stefnanda og láta í ljós skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi: Hvort Kristján Guðmundsson hafi af völdum slyss síns þann 25. nóvember 1990 orðið fyrir, eða muni til frambúðar verða fyrir, varanlegri læknisfræðilegri örorku, og ef svo er, hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Kristjáns af völdum slyssins.
Í yfirmatsgerð dagsettri 6. maí 1999 segir m.a. svo:
"IX. Samantekt
Kristján var mjög hraustur og vel vinnufær, sterkur til þungrar vinnu og félagslyndur fram að slysi sem hann varð fyrir þann 25. nóvember 1990. Í slysinu varð hann fyrir höfuðhöggi auk hálstognunar.
Vegna afleiðinga slyssins hefur orðið mikil breyting á heilsu Kristjáns og þá sérstaklega andlegri getu. Hefur mjög dregið úr vinnufærni hans og í reynd svo mikið að vart er hægt að gera ráð fyrir að hann muni í framtíðinni geta stundað launuð störf á almennum vinnumarkaði. Þau einkenni sem skerða vinnugetu Kristjáns svo mjög eru fyrst og fremst minnisskerðing hans og víðtækari truflun á hugarstarfi (tjáningargetu, skipulagsgetu, framkvæmdafærni og tilfinningalífi) en einnig höfuðverkjaköst sem ekki hefur tekist að stöðva. Telja matsmenn að þessi einkenni megi alfarið rekja til afleiðinga slyssins 25. nóvember 1990.
X. Hugleiðingar matsmanna
Við skoðun okkar á Kristjáni koma fram mikil andleg einkenni sem við teljum að hafi verið vanmetin við fyrri matsgerðir. Þau einkenni, sem Kristján lýsir og valda svo miklum breytingum á högum hans, sem raun er á, teljum við vera trúverðug og í samræmi við lýsingar nákominna ættingja á ástandi hans.
Andleg einkenni Kristjáns teljum við að rekja megi til heilaskaða. Hafa þau auk þess að skerða vinnugetu hans einnig haft veruleg áhrif á hans persónulegu hagi að öðru leyti.
Þessi einkenni hafa skert tjáningargetu Kristjáns nokkuð og geta hans til að sinna sínum daglegu þörfum hefur einnig minnkað og þarf hann að fá vissa aðstoð við að halda sitt heimili.
Skipulagsgeta hans og framkvæmdafærni hefur minnkað mjög, bæði til verka sem hann áður gat leyst vel af hendi og þess sem hann reynir að læra nýtt.
Tilfinningalíf Kristjáns hefur einnig brenglast, frumkvæði hans er skert og truflar þetta umtalsvert samskipti hans við aðila utan fjölskyldunnar og hefur auk þess breytt samskiptum hans við aðra fjölskyldumeðlimi og valdið félagslegri einangrun.
Auk þessa hafa einkenni Kristjáns talsverð áhrif á möguleika hans til að njóta frístunda.
Allt þetta hefur orðið til þess að Kristján hefur orðið langtímum saman þunglyndur, sem enn frekar hefur aukið á vanlíðunina.
Þessa andlegu skerðingu teljum við vera aðalástæðu örorku hans.
Við teljum hin andlegu einkenni Kristjáns vera varanleg og valda verulegri skerðingu á vinnugetu, í raun svo mikilli að ekki sé hægt að gera ráð fyrir eða ætlast til að hann geti í framtíðinni stundað störf á almennum vinnumarkaði.
Líkamleg einkenni Kristjáns sem við teljum að rekja megi til heilaskaða felast í skertum finhreyfingum fingra, óeðlilega hægum víxlhreyfingum á höndum, verri teiknigetu en áður og skertri getu til að stunda kynlíf.
Líkamleg einkenni í formi höfuðverkja valda ein sér nokkurn læknisfræðilegri örorku og umtalsverðri skerðingu á vinnugetu. Jafnframt valda einkenni í hálsi, svefntruflun og líkamlegt úthaldsleysi og þreyta skerðingu á almennri getu.
Matsmenn telja að ekki sé útilokað að langvarandi streituástand hafi átt þátt í að Kristján fékk hjartaáfall á síðasta ári, rúmlega fertugur að aldri. Um það teljum við okkur ekki geta fullyrt og tökum því ekki sérstakt tillit til þeirra veikinda við mat á örorku Kristjáns.
XI. Niðurstaða
Í málsskjali nr. 30 sem dagsett er 23. september 1998 og skrifað af Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl. eru yfirmatsmenn beðnir um að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
"Hvort Kristján Guðmundsson hafi af völdum slyss síns þann 25. nóvember 1990 orðið fyrir, eða muni til frambúðar verða fyrir varanlegri læknisfræðilegri örorku, og ef svo er, hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Kristjáns af völdum slyssins?"
1. Það er álit yfirmatsmanna að það sé ótvírætt að minnisskerðing, víðtæk truflun á hugarstarfi, höfuðverkir, einkenni frá hálsi og önnur einkenni sem nú þjá Kristján Guðmundsson, séu orsökuð af slysi er hann varð fyrir hinn 25. nóvember 1990. Teljum við að hann hafi orðið fyrir varanlegri læknisfræðilegri örorku af völdum slyssins og teljum önnur slys eða sjúkdóma ekki eiga þátt í þeirri örorku.
2. Tímabundna örorku Kristjáns metum við 100% (hundrað prósent) í fjóra mánuði.
3. Varanlega læknisfræðilega örorku Kristjáns af völdum slyssins metum við 60% (sextíu af hundraði)."
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK:
Skaðabótaskylda stefnda Hólmadrangs hf.
Bótagrundvöllur:
Stefndu hafi þegar viðurkennt bótaskyldu sína með greiðslu bóta upp í tjón stefnanda, eins og áður sé rakið. Með þeirri greiðslu hafi tjón stefnanda hins vegar verið langt frá því að vera að fullu bætt, enda hafi varanleg örorka hans nú verið metin meiri en tvöföld (60%) sú örorka, sem uppgjörið hafi miðast við (25%). Þar sem varanleg örorka stefnanda sé svo miklum mun meiri en bótaútreikningur miðaðist við, verði að telja réttlætanlegt að stefnandi geti nú sótt mismuninn til stefnda, með endurupptöku bótamáls síns.
Þá hafi skaðabótauppgjörið verið afar ósanngjarnt í garð stefnanda. Uppgjörið hafi farið fram án vitundar og vilja hans og beri þess keim að þáverandi lögmaður stefnanda hafi viljað Ijúka því á sem skemmstum tíma, en síður af því að hagsmunir stefnanda hafi verið hafáir að leiðarljósi. Frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis hafi verið langt umfram það sem leiddi af dómvenju á þessum tíma, eða 40% og því ekki tekið tillit til skattleysismarka stefnanda.
Í uppgjörinu hafi einnig verið út frá því gengið að stefnandi bæri sjálfur 1/3 hluta sakar. Á það verði heldur ekki fallist, enda verði ekki með nokkru móti séð á hvaða rökum það er reist. Þyki rétt að fara nokkrum almennum orðum um sök Hólmadrangs hf. í þessu sambandi. Byggt sé á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna sinna samkvæmt ólögfestri húsbóndareglu íslensks skaðabótaréttar. Eigi reglan sér ótal fordæmi í dómum Hæstaréttar. Telja verði í ljós leitt að óforsvaranlega hafi verið staðið að verki við uppskipun á frystum fiski úr Hólmadrangi ST-70 er slysið varð. Festingum á kassastæðum hafi greinilega verið ábótavant þar sem bönd hafi vantað á þær eða þau hefðu verið losuð af. Hafi margar kassastæður því verið frístandandi eða haft einungis stuðning hver af annarri. Hafi því ekki mikið þurft til að stæður hryndu, líkt og kom á daginn með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist illa, eins og áður sé rakið. Telja verði að koma hefði mátt í veg
fyrir slysið með betri verkstjórn á slysstað og ef uppfylltar hefáu verið þær sjálfsögðu öryggiskröfur að hafa bönd á öllum stæðum þar til komið hafi að því að flytja þær úr lestinni.
Þá skorti verulega á viðhlítandi öryggisbúnað fyrir þá starfsmenn er að uppskipun unnu. Í skýrslu lögreglu, dags. 30. nóvember 1990, sem tekin hafi verið af Guðfinni Stefáni Finnbogasyni, er vann á uppskipunarsvæðinu, komi fram að einungis hafi verið til einn öryggishjálmur fyrir starfsmenn og hafi skýrslugjafi borið þann hjálm sjálfur á höfði er óhappið átti sér stað. Það verði vitaskuld að teljast í verkahring og á ábyrgð vinnuveitanda að sjá til þess að starfsmönnum hans sé ekki stofnað í hættu við vinnu sína. Eigi það einkum við hér þar sem um svo sjálfsagt og einfalt öryggistæki sem öryggishjálm sé að ræða. Þar sem líklegt megi telja að koma hefði mátt í veg fyrir heilsutjón stefnanda við óhappið hefði hann borið hjálm, verði að leggja fébótaábyrgð vegna tjóns af völdum þess á stefnda. Þá beri stefndi sönnunarbyrðina um að öryggishjálmar hafi verið tiltækir á vinnustaðnum, líkt og fram komi í dómum Hæstaréttar í H 1961:793, H 1974:905 og H 1977:1244. Um aðra dóma Hæstaréttar sem staðfesti greind sjónarmið megi vísa til H 1981:496, H 1985:1137 og H 1987:373. Ekki verði fallist á að stefnandi beri nokkurn hluta sakar sjálfur, enda hafi hann aðeins verið að beygja sig eftir kössum er kassastæðan féll ofan á hann. Hann hafi ekki borið sig rangt að á nokkurn hátt, heldur verði slysið aðeins rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna á slysstað. Þá verði skortur á öryggisbúnaði einungis metinn yfirmönnum Hólmadrangs hf. til sakar, en ekki stefnanda eins og staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. H 1977:1244.
Bótafjárhæð:
Við ákvörðun bótafjárhæðarinnar vegna skaðabótaábyrgðar stefnda, Hólmadrangs hf., beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi óhappið gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. SO/1987, sbr. 28. gr. laganna.
Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju. Dómstólar hafi jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis, sem metið hafi líklegar afleiðingar tiltekins áverka á framtíðaraflahæfli þess slasaða. Mörg fordæmi Hæstaréttar á síðustu árum styðji þessa dómvenju.
Aðalkrafa.
Eins og áður segir hafi stefnandi fengið greiddar 755.637 krónur þann 28. október 1992 frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna varanlegrar örorku hans. Með því hafi tjón hans hins vegar verið fjarri því að vera að fullu bætt. Byggt sé á því að stefnandi hafi í slysinu hlotið 60% varanlega örorku, skv. yfirmatsgerð, dags. 6. maí sl. og miðist tjónsútreikningar við það. Frá samtölu þeirra komi nefndar greiðslur frá Vátryggingafélagi Íslands hf., auk greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og slysatryggingu launþega, til frádráttar. Gengið sé út frá því að tjón vegna tímabundinnar örorku stefnanda hafi með þeim greiðslum verið gert upp að fullu. Því sé hér einungis horft til greiðslna vegna varanlegrar örorku.
Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur reiknaði út tekjutap stefnanda vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku hans, með hliðsjón af örorku hans eins og hún var metin af Sigurjóni Sigurðssyni, þ.e. 50% varanleg örorka. Þegar litið hefur verið til yfirmatsgerðar sundurliðast krafa stefnanda á eftirfarandi hátt:
l. Varanleg örorka 60% 16.999.680 krónur
2. Frádráttur vegna greiðslu úr
slysatryggingu launþega 926.190 krónur
3. Frádráttur vegna greiðslu frá
Tryggingastofnun ríkisins - 550.100 krónur
4. 30% frádráttur af samtölunni
15.523.390 vegna skattfrelsis og
eingreiðsluhagræðis- 4.657.017 krónur
5. Miskabætur 800.000 krónur
6. Töpuð lífeyrisréttindi 1.020.000 krónur
7. Frádráttur vegna þegar greiddrar
varanlegrar örorku og tapaðra
lífeyrisréttinda -755.637 krónur
8. Frádráttur vegna þegar greiddra
miskabóta -300.000 krónur
SAMTALS 11.630.736 krónur
Um 1. tölulið.
Um forsendur hér er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Hann byggir niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum, þ.ám. um 4.5% framtíðarávöxun. Við mat á tekjutapi er tekið mið af tekjum stefnanda, samkvæmt skattframtölum fyrir árin 1987-1989.
Um 4. tölulið.
Frádráttur þessi er vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Er hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Um 5. tölulið.
Miskabótakrafan er byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hefur stefnandi þjáðst af minnisleysi og höfuðverkjum frá slysinu auk einbeitingarskorts, ljósfælni, úthaldsleysis og síþreytu. Vegna minnisleysis hefur stefnandi þurft að reiða sig á minnismiða vegna stórra jafnt sem smárra viðburða, auk þess sem ósjálfstæði hans vegna þessa hefur leitt til þess að hann reiðir sig nú mjög á ungan son sinn. Þá hafa minnisleysið og einbeitingarskortur svipt stefnanda ánægjunni af bókalestri, sem var honum mikils virði áður. Eins og fram kemur í taugasálfræðilegu mati dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, klínisks taugasálfræðings, eru ekki taldar líkur á frekari bata að þessu leyti.
Um 6. tölulið.
Hér vísast aftur til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar en skv. honum er verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku.
Um 7. tölulið.
Dregið er frá kröfunni það sem áður var greitt upp í skaðabótakröfu stefnanda þann 28. október 1992. Eins og fram kemur á ódagsettri sundurliðun bótafjárhæðar frá Vátryggingafélagi Íslands voru greiddar kr. 4.342.300,- að frádregnum kr. 1.736.920,-, eða 40%, vegna "skattaafsláttar o.fl.", kr. 785.093,-, eða 1/3, vegna "eigin sakar" stefnanda, kr. 514.550,- vegna greiðslna úr slysatryggingu launþega og kr. 550.100,- vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Samtals geri það kr. 755.637,-. Það athugist að greiðslur úr slysatryggingu og greiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins dragast frá bótakröfu stefnanda, sbr. töluliði 2 og 3.
Varakrafa:
Forsendur varakröfu eru þær að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að með fyrrnefndri greiðslu Vátryggingafélags Íslands hf. þann 28. október 1992 til þáverandi lögmanns stefnanda hafi að fullu verið gerð upp varanleg örorka stefnanda vegna 25 % örorku hans. Hér sé því aðeins gerð krafa um skaðabætur vegna viðbótarörorku stefnanda, þ.e. mismunar varanlegrar örorku hans skv. yfirmatsgerð (60%) og þeirrar örorku er uppgjör Vátryggingafélags Íslands hf. miðaðist við (25%). Mismunurinn sé 35%. Stuðst er við að Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hefur reiknað út höfuðstólsverðmæti tekjutaps stefnanda miðað við 25% örorku. Samkvæmt því sundurliðast varakrafa stefnanda á eftirfarandi hátt:
1. Bætur vegna 35% varanlegrar
örorku 9.851.800 krónur
2. 20% frádráttur af tölulið 1 vegna
skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis -1.970.360 krónur
3. Töpuð lífeyrisréttindi (6% af
upphæðinni í lið 1) 422.220 krónur
4. miskabætur 500.000 krónur
SAMTALS 8.972.520 krónur
Um 1. tölulið.
Um forsendur hér er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings líkt og í aðalkröfu.
Um 2. tölulið.
Frádráttur þessi er vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Kveðst stefnandi byggja á fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Um 3. tölulið.
Hér vísast aftur til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar en skv. honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku.
Um 4. tölulið.
Um miskabótakröfuna vísast til umfjöllunar um aðalkröfu.
Krafa um vátryggingabætur úr slysatryggingu launþega:
Bótagrundvöllur: Stefnandi var tryggður með slysatryggingu launþega hjá Vátryggingafélagi Íslands er umrætt slys átti sér stað. Ekki sé deilt um bótaskyldu í málinu, enda hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þegar viðurkennt bótaskyldu úr tryggingunni með greiðslum til stefnanda úr henni. Með þeim greiðslum hafi stefnandi hins vegar ekki fengið fullar bætur úr tryggingunni, þar sem uppgjör greiðslu hafi miðast samtals við 35% varanlega örorku, en stefnandi hafi hlotið við slysið 60% varanlega örorku. Þyki sá mikli munur réttlæta að stefnandi geti sótt mismuninn til Vátryggingafélags Íslands hf.
Þá hafi uppgjörið farið fram án vitundar og vilja stefnanda og geti ekki skoðast
sem fullnaðaruppgjör gagnvart honum. Beri uppgjörið keim af því að þáverandi lögmaður stefnanda hafi viljað ljúka því á sem skemmstum tíma, en síður af því að hagsmunir stefnanda hafi verið hafðir að leiðarljósi. Þá varði það stefnanda miklu að fá bætur úr nefndri tryggingu, svo sem hann eigi rétt til.
Bótafjárhæð: Viðmiðunarfjárhæð slysatryggingarinnar er kr. 2.058.200,-. Fyrir hvert örorkustig upp að 25% greiðist 1% af viðmiðunarfiárhæð, skv. skilmálum. Fyrir hvert örorkustig frá 25% upp í 50% varanlega örorku greiðist tvöfalt, þ.e. 2% viðmiðunarfjárhæðar, fyrir hvert örorkustig. Hafa þegar verið greiddar bætur úr tryggingunni miðað við 35% varanlega örorku. Varanleg örorka stefnanda sé hins vegar 60% og hefur hann því enn ekki fengið fullar bætur. Því sé gerð krafa um mismun vátryggingarbóta úr slysatryggingunni miðað við 60% varanlega örorku (kr. 2.161.110,-) og þeirra, sem þegar hafa verið greiddar (kr. 926.190,-). Mismunurinn sé kr. 1.234.920,-.
Allar kröfur:
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Þá er einnig vísað til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, sbr. ákvæði vaxtalaga um vexti af kröfu stefnanda um greiðslu úr slysatryggingu launþega. Krafist er dráttarvaxta frá 25. apríl 1997, er liðinn var einn mánuður frá því að lögmaður stefnanda sendi Vátryggingafélagi Íslands hf. kröfu um endurupptöku málsins.
Heimild stefnanda til að sækja stefndu í sama máli byggir á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33 . gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og er því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Sýknukrafa stefndu er í fyrsta lagi á því byggð, að með þegar uppgerðum bótum sé tjón stefnanda af völdum vinnuslyssins 25. nóvember 1990 að fullu bætt og ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir frekara tjóni af þess völdum.
Í annan stað er sýknukrafan á því byggð, að stefnandi sé bundinn við hið fyrirvaralausa samningsuppgjör á slysinu og fullnaðarkvittun lögmanns síns frá 28. október 1992 um fullnaðaruppgjör á tjóninu og afsal á öllum frekari kröfum á hendur stefndu.
Þessu til stuðnings er bent á eftirfarandi:
Stefnandi sé bundinn við samning og fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör hins löglærða umboðsmanns síns á skaðabótum fyrir slysið og afsali á öllum frekari bótakröfum út af því, þar sem ekki sé sannað að stefnandi hafi í verulegum atriðum hlotið aðrar og meiri heilsufarslegar afleiðingar af slysinu en búast mátti við er samið var um bæturnar og kvittað fyrir þær án fyrirvara, jafnvel þó örorkan kunni að hafa aukist eitthvað síðan. Sé frumskilyrði réttar til endurupptöku að ófyrirsjánlegar og verulegar heilsufarsbreytingar til hins verra hafi orðið eftir það. Verður ekki séð að fram hafi komið aðrar og nýjar afleiðingar af völdum slyssins eftir að bæturnar voru gerðar upp.
Verði ekki fallist á sýknukröfu er varakrafa stefndu byggð á því, að stefnandi sé bundinn við umsamda eigin sök á slysinu, hafna beri aðalkröfu hans með öllu, en umstefndar varakröfur eigi síðan að lækka vegna bótaréttar hjá Tryggingastofnun ríkisins, hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu og frádrætti á bótum úr atvinnuslysatryggingu auk þess sem miska beri að stórlækka, allt samkvæmt dómvenju.
Ber fortakslaust að hafna aðalkröfu stefnanda, þar sem örorkutjónið vegna upphaflega metinnar 25% varanlegrar örorku hans var á sínum tíma gert upp að fullu og kvittað fyrir uppgjörið án fyrirvara, þannig að engin lagagrundvöllur er til endurskoðunar á því uppgjöri. Sé og rangt sem stefnandi heldur fram að uppgjörið hafi verið "afar ósanngjarnt í garð stefnanda.” Megi ekki gleyma því að stefnandi hafði sjálfur ásamt félögum sínum tekið niður lestarfjalirnar, sem hafi verið framan við fiskpakkastæðurnar í lest Hólmadrangs, þannig að stæðurnar hafi verið frístandandi er slysið varð og stefnandi hafi heldur ekki notað öryggishjálm við vinnuna, en hvort tveggja þetta skapaði slysahættu ef eitthvað bæri út af. Fari því ekki milli mála að stefnandi eigi sjálfur sök á slysinu og sök hans sé ekki ofmetin í uppgjörinu. Sé rangt sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að festingum á pakkastæðunum hafi verið ábótavant og skort hafi á öryggisútbúnað fyrir uppskipunarmenn. Búið hafi verið um fiskpakkana og þeim raðað í lestar skipsins á venjulegan hátt og stæðurnar skorðaðar af með lestarborðum og plönkum, þannig að þær hreyfðust ekki þegar togarinn var á siglingu. Sé ekki við stefndu að sakast um niðurtöku þeirra löndunarmanna á lestarborðunum og plönkunum við uppskipunina. Þá hafi verið til nógir öryggishjálmar fyrir löndunarmenn og brýnt hefði verið fyrir þeim að nota þá, en þeir hafi þverskallast við með þeim rökum að þeir væru kaldir og notað húfur í staðinn. Sé heldur ekki við stefndu um það að sakast. Þá verði ekki fallist á að 40% frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðslu hafi verið ósanngjarn eins og á stóð. Hafi bæði verið að viðmiðunartekjur stefnanda hafi verið háar og að bætur til hans úr atvinnuslysatryggingunni hafi ekki verið dregnar frá skaðabótunum við uppgjörið.
Þegar allt þetta er virt beri við bótaákvörðun úr hendi Hólmadrangs hf. ef til kemur, að hafna aðalkröfu stefnanda, en ákvarða bætur að öðru leyti með hefðbundnum hætti þannig að til frádráttar komi bætur frá TR, sem stefnandi hljóti að eiga rétt til, ef um viðbótarörorku er að ræða, virt verði til lækkunar við bótaákvörðum hagræði af eingreiðslu og skattfrelsi skv. dómvenju. Síðan komi til frádráttar hlutfall eigin sakar stefnanda á slysinu, eða 1/3, og loks komi til frádráttar bætur, sem stefnandi hafi þegar fengið vegna viðbótarörorku úr atvinnaslysatryggingunni hjá VÍS. Að sama skapi komi frekari bætur úr þeirri tryggingu, ef dæmdar verða, til frádráttar skaðabótum úr hendi Hólmadrangs hf. Þá beri að stórlækka miskabætur og ákvarða þær í takt við dómvenju.
Vaxtakröfum stefnanda er sérstaklega mótmælt en eldri vextir en 4 ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og dráttarvextir eiga ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.
NIÐURSTAÐA
Hér að framan er gerð grein fyrir yfirmatsgerð þriggja lækna þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnanda vegna slyss hans sé 60%. Telja þeir ótvírætt að minnisskerðing, víðtæk truflun á hugarstarfi, höfuðverkir, einkenni frá hálsi og önnur einkenni, sem nú þjá stefnanda , séu af völdum slyss þess er hann varð fyrir.
Með yfirmatsgerð þessari er komin fram sönnun um að örorka sú er stefnandi hefur sem afleiðingu af slysi því er hann varð fyrir 25. nóvember 1990 er miklum mun meiri en gert var ráð fyrir er bætur voru greiddar til hans eða sem nemur 35 prósentustigum. Er þar sérstaklega tekið til þess að andleg einkenni stefnanda séu varanleg og valdi verulegri skerðingu á vinnugetu, svo mikilli að ekki sé hægt að gera ráð fyrir eða ætlast til að hann geti í framtíðinni stundað störf á almennum vinnumarkaði. Þetta atriði lá ekki fyrir er matsgerð Björns Önundarsonar læknis frá 25. mars 1992 var gerð en hún lá til grundvallar uppgjöri við stefnanda á tjóni hans vegna ábyrgðartryggingar þeirrar er greitt var úr og miðaðist við 25% varanlega örorku. Þykir dóminum enda ljóst að framtíðarörorka stefnanda hafi reynst miklum mun meiri en gert var ráð fyrir við greiðslu bóta til hans frá stefnda, VÍS hf., og að líðan hans hafi farið mjög versnandi frá því sem séð varð fyrir er fyrsta örorkumatið var framkvæmt og þykir stefnandi ekki hafa firrt sig rétti til bóta fyrir þá viðbótarörorku sem hann hefur nú sýnt fram á þrátt fyrir orðalag í kvittun frá 28. október 1992.
Á hitt ber að líta að stefnandi gerði upp tjón sitt miðað við að hann bæri 1/3 sakar á tjóni sínu og á tilteknum forsendum um frádrátt vegna skattfrelsis bóta og eingreiðsluhagræðis og naut við það aðstoðar lögmanns og verður að sitja þar við hvað snertir uppgjör það sem fram fór á milli aðila.
Aftur á móti þykir sýnt fram á það hér að stefnanda beri að fá bætur vegna 35% varanlegrar örorku sem ekki eru uppgerðar.
Er hér fyrst til þess að líta hvort stefnandi verði talinn bera ábyrgð á tjóni sínu að einhverju leyti sjálfur. Fram kemur í málinu að öryggisbúnaði var áfátt í því efni að stefnanda var ekki tiltækur öryggishjálmur og fram kemur í skýrslu Ólafs Ingimundarsonar hjá lögreglu að ekki hafi verið binding í stæðu þeirri sem hrundi og var stjórnborðsmegin en stefnandi hafi verið bakborðsmegin í lestinni, boginn við að færa til kassa, og hafi kassi úr stæðunni farið í höfuð Kristjáni. Eins og atvikum er lýst í lögregluskýrslum, sem teknar voru í kjölfar atburðarins, verður ekki fallist á það með stefndu að stefnandi beri nokkra ábyrgð á slysi því er hann varð fyrir og er það álit dómsins að stefndi, Hólmadrangur hf., sé alfarið ábyrgur fyrir tjóni því er stefnandi varð fyrir í umrætt sinn.
Samkvæmt framansögðu er sýnt fram á að óbætt varanleg örorka stefnanda af völdum ofangreinds slyss er 35% og að honum bera bætur úr hendi stefnda, Hólmadrangs hf. Fallist er á kröfugerð stefnanda eins og hún er sett fram í varakröfu hans og verður stefndi því dæmdur til að greiða honum 8.972.520 krónur. Eins og að framan greinir er sýnt fram á að framtíðarörorka stefnanda er meiri en gert var ráð fyrir og séð varð fyrir við uppgjör það er fram fór á árinu 1992. Eftir atvikum þykir mega byggja á því hér að eigi síðar en þegar er lögmaður stefnanda sendi bréf sitt, dagsett 25. mars 1997, þar sem hann fór fram á endurupptöku málsins, hafi afleiðingar slyssins að fullu verið komnar fram og samkvæmt því ber hin dæmda fjárhæð dráttarvexti frá 25. apríl 1997 til greiðsludags.
Þá verður stefnda, VÍS hf., gert að geiða stefnanda 1.234.920 krónur úr slysatryggingu launþega með dráttarvöxtum frá sama tíma með því að sýnt er fram á að örorka stefnanda er meiri en þau 35% sem miðað var við.
Samkvæmt þessu verður niðurstaða málsins sú að stefndi, Hólmadrangur hf., verður dæmdur til að greiða stefnanda 8.972.520 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 25. apríl 1997 til greiðsludags og 1.787.982 krónur í málskostnað sem renni til ríkisjóðs. Stefnandi hefur fengið gjafsókn í þessum þætti málsins og ákveðst gjafsóknarkostnaður hans samtals 1.787.982 krónur, þ.e.a.s. 902.495 krónur í þóknun til lögmanns hans, 221.111 krónur í virðisaukaskatt af þóknuninni og 664.376 krónur í útlagðan kostnað.
Þá verður stefndi, VÍS hf., dæmdur til að greiða stefnanda 1.234.920 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 25. apríl 1997 til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Hólmadrangur hf., greiði stefnanda, Kristjáni Guðmundssyni, 8.972.520 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga frá 25. apríl 1997 til greiðsludags og 1.787.982 krónur í málskostnað sem renni til ríkisjóðs.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Kristjáni Guðmundssyni, 1.234.920 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga frá 25. apríl 1997 til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað.