Hæstiréttur íslands

Mál nr. 391/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


                                                                                              

Föstudaginn 13. júní 2014.

Nr. 391/2014.

Helga Laufey Guðmundsdóttir

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem mál Í hf. á hendur H var fellt niður og Í hf. gert að greiða H málskostnað tilgreindrar fjárhæðar. H kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og krafðist til endurskoðunar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms, en að virtum atvikum málsins taldi rétturinn hann hafa verið hæfilega ákveðinn.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2014 þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 130.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr.  91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ,,hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt og varnaraðili dæmdur til greiðslu málskostnaðar sóknaraðila að skaðlausu, eða að mati dómsins.“ Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði féll dómur í málinu í héraði 5. júní 2013, en hann var ómerktur með dómi Hæstaréttar 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013 og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný. Jafnframt var málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður og tekið fram að krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði kæmi til afgreiðslu þar þegar dómur yrði lagður á málið. Var sá kostnaður ákveðinn með hinum kærða úrskurði.

Með úrskurði héraðsdóms var varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 130.000 krónur í málskostnað en í úrskurðinum segir að þá hafi ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 24. mars 1997 í máli nr. 119/1997, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1106, verður málskostnaður samkvæmt ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 dæmdur einum málsaðila úr hendi annars til að bæta þeim fyrrnefnda að fullu eða nokkru kostnað hans af rekstri dómsmáls. Þegar sú fjárhæð er ákveðin í niðurstöðu dómsúrlausnar verður meðal annars að líta til raunverulegs eða áætlaðs kostnaðar aðilans af flutningi málsins, sbr. a. lið 1. mgr. 129. gr. sömu laga, þar á meðal kostnaðar sem hann kann að þurfa að bera vegna virðisaukaskatts af endurgjaldi fyrir þjónustu lögmanns síns samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Að þessu gættu og með vísan til þess að milli aðila var rekið samkynja mál þar sem varnaraðila var gert að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað, sbr. dóm réttarins 26. maí 2014 í máli nr. 291/2014, þykir sá málskostnaður sem ákveðinn var með hinum kærða úrskurði hæfilegur. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2014.

Mál þetta var þingfest 10. október 2012 og tekið til dóms 8. maí sl. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 3, Reykjavík, en stefnda er Helga Laufey Guðmundsdóttir, Spóaási 22, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveði tryggðu upphaflega með 1. veðrétti í Spóaási 22, Hafnarfirði, og uppfærslurétti af höfuðstól 6.000.000 króna til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við stefnanda að fjárhæð 30.301.053 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

                Af hálfu stefndu er þess krafist að kröfu stefnanda um staðfestingu á veðrétti verði hafnað. Jafnframt er gerð sú gagnkrafa að dæmt verði að veðtryggingarbréfi stefnanda skuli aflýst. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Dómur féll í málinu í héraði 5. júní 2013 en með dómi Hæstaréttar 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013 var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.

                Í þinghaldi  23. apríl 2014 krafðist lögmaður stefnanda þess að máið yrði fellt niður. Í þinghaldinu ítrekaði lögmaður stefndu kröfu um málskostnað.

                Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 skal kveða upp úrskurð um málskostnað og niðurfellingu máls.

                Málið er fellt niður. Málskostnaður til handa stefndu þykir hæfilega ákveðinn 130.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Við ákvörðun málskostnaðar  er tekið tillit til reksturs samkynja máls hér fyrir dómnum, nr. E- 373/2013.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Mál þetta er fellt niður.

Stefnandi, Íslandsbanki hf., greiði stefndu, Helgu Laufeyju Guðmundsdóttur, 130.000 krónur í málskostnað.