Hæstiréttur íslands
Mál nr. 176/2004
Lykilorð
- Skuldabréf
- Skjalafals
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2004. |
|
Nr. 176/2004. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Skuldabréf. Skjalafals. Vitni.
Þ var sakfelldur fyrir skjalafals með því að hafa annars vegar selt M þrjú skuldabréf sem hann hafði falsað frá rótum og hins vegar afhent B til notkunar í viðskiptum þrjú skuldabréf, sem hann hlaut að vita að voru öll fölsuð. Þ, sem hafði áður hlotið átta refsidóma, þar af fimm fyrir skjalafals, framdi brot sín þegar hann afplánaði refsivist fyrir að bana A. Kvaðst Þ hafa afhent B umrædd þrjú skuldabréf í því skyni að athuga hvort unnt væri að gera kröfu í dánarbú A. Var þessi háttsemi talin svívirðileg og virt honum til refsiþyngingar, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár og sex mánuði, sbr. 77. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða af fyrsta og öðrum lið ákæru og að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
I.
Ákærði hefur meðal annars reist málsvörn sína fyrir Hæstarétti, að því er snertir 1. lið ákæru, á því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og hlutlægni hafi ekki verið gætt við hana, sbr. 31. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þannig hafi við rannsókn á þessu sakarefni hvorki verið kannaður bankareikningur M né „nokkur tengsl“ milli sölu þriggja skuldabréfa, sem getið er um í ákæru, og tiltekinnar greiðslu M á 1.200.000 krónum til ákærða, sem ákæruvaldið byggi á að hafi komið í hlut ákærða við sölu bréfanna. Einnig hafi borið að rannsaka bankareikninga M, meðal annars með tilliti til þess hvert greiðslan, sem hann fékk við sölu bréfanna, hafi runnið.
Þá telur ákærði að héraðsdómara hafi verið óheimilt að víkja sér úr þinghaldi á meðan vitnið BS, fyrrverandi eiginkona hans, gaf skýrslu sem vitni, en hún bar áður nafnið BR. Í þinghaldi við framhald aðalmeðferðar málsins 9. febrúar 2004 fór vitnið þess á leit að ákærða yrði gert að víkja úr þinghaldinu meðan hún gæfi skýrslu fyrir dóminum. Vitnið gaf þá skýringu á kröfu sinni að það væri hrætt við ákærða og gæti ekki borið á „eðlilegan“ hátt og vissi ekki hvort það myndi segja „allt“ ef ákærði yrði viðstaddur skýrslugjöfina. Ákæruvaldið tók undir þessa kröfu hennar. Var fært til bókar að ákærði viki frá um stund. Í framhaldi þess tók héraðsdómari þá ákvörðun að víkja ákærða úr þinghaldinu með vísan til 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því ákvæði getur dómari orðið við kröfu um að sakborningur verði látinn víkja úr þinghaldi á meðan vitni gefur skýrslu fyrir dómi, ef dómari telur nærveru ákærða geta orðið vitninu til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess. Er verjandi ákærða hugðist tilkynna ákærða þessa ákvörðun dómarans var hann farinn af vettvangi. Ákvörðunin var ekki kærð til Hæstaréttar og verður því ekki tekin afstaða til þess hvort hún var réttmætt.
Framangreindar athugasemdir hnekkja ekki niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, sem verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Ákærða er gefið að sök í 2. lið ákæru að hafa afhent áðurnefndri BS þrjú skuldabréf, samtals að fjárhæð 2.500.000 krónur, sem þar er nánar er lýst. Bréfin eru sögð gefin út 1. febrúar 1995 af BH og framseld af ákærða til BR 10. október 1998. Lánstíminn skyldi vera sex ár, en gjalddagi fyrstu afborgana 1. febrúar, 1. apríl og 1. júní 2001. Vextir skyldu reiknast frá 1. febrúar, 1. apríl og 1. júní 1995. Í sérstökum reit skuldabréfanna kemur fram að A takist á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu og í öðrum reit þeirra að skuldareiganda sé sett „að handveði” tiltekin íbúð að [...] í Reykjavík „ásamt öllu innbúi.“
Ákærði hefur haldið því fram að skuldabréfin þrjú hafi sennilega verið gefin út um mánaðamót september/október 1998 í tengslum við fjárhagsuppgjör hans og A heitins, en hann hafi hins vegar ekki framselt bréfin fyrr en nokkrum dögum áður en þau fóru í innheimtu til lögfræðings í febrúar 2001. Ákærði fullyrti fyrir dómi að A hafi afhent honum bréfin vegna skuldar A við sig sem tengdust V hf. Með dómi Hæstaréttar 18. maí 2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 1942, var ákærði dæmdur fyrir að hafa orðið A að bana á heimili þess síðarnefnda aðfaranótt 14. júlí 1999. Í því máli hélt ákærði fram að umrætt sinn hafi þeir A deilt um óuppgerða skuld A við sig vegna svokallaðs V-máls. Framburður ákærða í máli því sem hér er til meðferðar um að A hafi gefið skuldabréfin út haustið 1998 vegna uppgjörs þeirra á áðurgreindri skuld er í andstöðu við þennan framburð hans.
Í skuldabréfunum er sem fyrr segir ákvæði þess efnis að fasteign sé sett að handveði. Fasteign verður ekki sett að handveði og verður að telja afar fátítt að skuldabréf séu útbúin með slíkum ákvæðum. Í bréfunum sem um er fjallað í 1. lið ákæru voru einnig ákvæði um handveðsetningu fasteignar. Ákærði viðurkenndi að hafa útbúið þau. Af því verður ráðið að hann hafi talið slíka veðsetningu fá staðist. Bendir þetta til þess að ákærði hafi einnig átt hlut að máli þegar skuldabréfin sem hér um ræðir voru fyllt út. Niðurstaða rithandarrannsóknar, sem reifuð er í héraðsdómi, styður einnig þá staðhæfingu ákæruvalds að bréfin séu fölsuð.
Að öllu þessu virtu, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, þykir sannað að ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir því að skuldabréfin voru fölsuð er hann afhenti þau til notkunar í viðskiptum. Brot hans er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.