Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sakarefni
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 25. maí 2012. |
|
Nr. 316/2012.
|
Fura ehf. (Indriði Þorkelsson hrl.) gegn Orkustofnun og (Soffía Jónsdóttir hrl.) Landsneti hf. (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Stjórnvaldsákvörðun. Sakarefni. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Í málinu krafðist F ehf. þess að úrskurður iðnaðarráðuneytisins, þar sem staðfest var ákvörðun O, um að L hf. skyldi láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til F ehf., að viðlögðum dagsektum, yrði felldur úr gildi. Talið var að dómkrafa F ehf. yrði ekki borin undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar raforkumála lægi fyrir, sbr. 1. og 12. mgr. 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þar sem F ehf. hafði ekki kært ákvörðun O til úrskurðarnefndarinnar var máli F ehf. gegn O og L hf. vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, hvor fyrir sitt leyti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði tilkynnti Orkustofnun Landsneti hf. 24. febrúar 2010 að félagið skyldi láta af ,,milliliðalausri raforkuafhendingu“ til sóknaraðila, sem rekur málmendurvinnslu í Kapelluhrauni í landi Hafnarfjarðar. Sóknaraðili kærði ákvörðunina með tölvubréfi til iðnaðarráðuneytisins 26. sama mánaðar. Iðnaðarráðuneytið leysti úr kærunni með úrskurði 14. mars 2011. Um kæruheimild segir í þeim úrskurði: ,,Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Þar sem iðnaðarráðuneytið er æðra stjórnvald Orkustofnunar er ráðuneytinu skylt að endurskoða ákvörðun Orkustofnunar ... í kjölfar stjórnsýslukæru“ sóknaraðila. Komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun Orkustofnunar.
Í 5. tölulið 3. gr. raforkulaga nr. 65/2003 er flutningsfyrirtæki skilgreint svo að það sé: ,,Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.“ Í III. kafla laganna er starfsemi flutningsfyrirtækis lýst nánar og meðal annars kveðið á um að eitt fyrirtæki skuli annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt þeim kafla. Með lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. var stofnað hlutafélag, sem annast skyldi þá starfsemi sem mælt er fyrir um í III. kafla raforkulaga. Í 30. gr. raforkulaga eru ákvæði um úrskurðarnefnd raforkumála. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu af Orkustofnun á grundvelli laganna og ,,varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna“ sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. Í 12. mgr. greinarinnar segir svo í fyrri málslið: ,,Ákvarðanir sem aðeins verða kærðar til úrskurðarnefndar verða ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.“ Í 3. mgr. 37. gr. laganna segir að stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, sem ekki megi kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eða úrskurðarnefndar raforkumála, sæti kæru til ráðherra. Þær stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem sæta kæru til fyrrnefndu úrskurðarnefndarinnar eru tilgreindar í 2. mgr. 37. gr. og hafa ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins. Samkvæmt framansögðu sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem varða starfsemi varnaraðilans Landsnets hf. eða dreifiveitna, kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. Þeim verður því ekki að réttu lagi skotið með kæru til ráðherra. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Fura ehf., greiði hvorum varnaraðila um sig, Orkustofnun og Landsneti hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2012.
Mál þetta var þingfest 20. október 2011 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 22. mars 2012. Stefnandi er Fura ehf., Hringhellu 3, Hafnarfirði, en stefndu eru Orkustofnun, Grensásvegi 9, Reykjavík, og Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að úrskurður iðnaðarráðuneytisins, dagsettur 14. mars 2011, þar sem staðfest er ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, dagsett 24. febrúar 2010, um að stefndi, Landsnet hf., láti af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda, Furu ehf., að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur, með þeirri breytingu að dagsektir reiknast frá og með 14. september 2011, verði felldur úr gildi.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi, Orkustofnun, krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi, Landsnet hf., krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Í þessum þætti málsins eru til meðferðar kröfur beggja stefndu um frávísun málsins og málskostnað. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu, að hann hafi starfrækt málmendurvinnslu í Hafnarfirði frá árinu 1993. Áður hafi Íslenska stálfélagið hf. rekið umfangsmikla og orkufreka starfsemi á sömu lóð sem þá hét Markhella 4, Hafnarfirði. Af þeim sökum hafi Íslenska stálfélagið hf. samið við Landsvirkjun 11. október 1988 um raforkukaup, auk þess sem gerður hafi verið samningur við Rafveitu Hafnarfjarðar (nú HS Veitur hf.) 2. nóvember s.á. um að félaginu væri heimilt að kaupa raforku beint frá Landsvirkjun, án milligöngu Rafveitu Hafnarfjarðar. Vegna samninganna hafi félagið fjárfest í rafmagnsstrengjum ásamt spennum og öðrum nauðsynlegum búnaði til að flytja rafmagnið frá spennistöð Landsvirkjunar (síðar stefnda Landsnets hf.) að starfsstöð sinni. Stefnandi hafi tekið yfir eignir Íslenska stálfélagsins hf. eftir að bú síðarnefnds félags var tekið til gjaldþrotaskipta 1991, þar með talið framangreindan rafmagnsbúnað.
Hinn 25. janúar 1993 hafi stefnandi og Landsvirkjun gert með sér nýjan samning um afhendingu raforku frá Landsvirkjun til stefnanda. Samkvæmt 1. gr. samningsins skyldi afhendingarstaður rafmagnsins vera Spennistöðin við Hamranes („Hamranesstöðin“). Samkvæmt 2. gr. samningsins var uppsett afl stefnanda 1,0MW og áætluð árleg orkunotkun hans í kaupum á ótryggðu rafmagni 1,0 GWst. Í 13. gr. var kveðið á um að samningurinn gilti frá og með 1. febrúar 1993 til 1. janúar 1994 en framlengdist þá óbreyttur um eitt ár, hefði honum ekki verið sagt upp skriflega af öðrum hvorum aðila með sex mánaða fyrirvara til að falla þá úr gildi. Án slíkrar uppsagnar skyldi samningurinn síðan á sama hátt framlengjast óbreyttur frá ári til árs en þó skyldu aðilar endurskoða ákvæðin um afl og orku í 2. gr. samningsins með ákveðnu millibili.
Rekstur stefnanda hafi orðið umfangsminni en sá sem áformaður var hjá Íslenska stálfélaginu hf. og hafi húsnæði undir stálverksmiðju, sem reist var á lóð stefnanda í tíð fyrirrennara hans, verið rifið eftir margra ára árangurslausar tilraunir til að koma stálverksmiðjunni aftur í rekstur. Brotajárnsvinnsla hafi hins vegar verið starfrækt á lóðinni frá 1988 og undir merkjum stefnanda frá 1993. Lóð stefnanda sé um það bil 7 hektarar að stærð og sé á svæði sem skilgreint sé fyrir stóriðnað. Stefnandi hafi skoðað ýmsa kosti til að auka við starfsemi á lóðinni, m.a. til að nýta fjárfestinguna í rafmagnsbúnaðinum, en verðmæti hennar hlaupi á hundruðum milljóna króna.
Við gildistöku laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., hafi skyldur Landsvirkjunar hvað snertir flutning á raforku og kerfisstjórnun flust yfir til stefnda, Landsnets hf. Frá þeim tíma hafi stefnandi verið í milliliðalausum raforkuviðskiptum við stefnda, Landsnet hf., á grundvelli framangreinds samnings um afhendingu raforku frá 25. janúar 1993.
Hinn 28. ágúst 2008 hafi stefndi, Orkustofnun, sent Hitaveitu Suðurnesja hf. (nú HS Veitur hf.) og stefnda, Landsneti hf., bréf þar sem greint var frá því að athygli stofnunarinnar hefði verið vakin á raforkuafhendingu til stefnanda. Sagði í bréfinu að stefnandi teldist ekki til stórnotenda samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 (hér eftir „raforkulög“/„rafl.“) en þeir einir, auk virkjana og dreifiveitna, hefðu heimild til að tengjast beint við flutningskerfið. Því væri ljóst að Landsnet hf. hefði ekki heimild til orkuafhendingar beint til stefnanda. Í bréfinu hafi þess verið farið á leit að HS Veitur hf. og Landsnet hf. kæmu sér saman um lausn á málinu sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 2009. Í þessu samhengi sé rétt að taka fram, að í 2. mgr. 8. gr. rafl., eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 89/2004, sé svo fyrir mælt að viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skuli vera „dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir“, en stefndi, Landsnet hf., sé flutningsfyrirtækið samkvæmt raforkulögum. Óumdeilt sé, að stefnandi teljist ekki dreifiveita, stórnotandi eða virkjun í merkingu laganna. Samkvæmt 17. tl. 3. gr. rafl. teljist stórnotandi vera notandi sem „notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 klst. eða meira“, þ.e. með árlega lágmarksnotkun 112.000 MWh en til samanburðar hafi árleg notkun stefnanda að meðaltali verið 1212 MWh á árunum 2007-2009.
HS Veitur hf. hafi svarað framangreindu erindi stefnda, Orkustofnunar, með bréfi, dagsettu 1. september 2008, þar sem m.a. hafi verið bent á að stefnandi hefði ekki óskað eftir að tengjast dreifiveitu HS Veitna hf., sem HS Veitur hf. teldu vera forsendu tengingar, og lögð til sú lausn að stefndi, Landsnet hf., tilkynnti stefnanda að sér væri óheimilt að selja og dreifa raforku í smásölu með þeim hætti sem gert hefði verið. Með bréfi, dagsettu 31. október 2008, hafi stefndi, Orkustofnun, tilkynnt HS Veitum og stefnda, Landsneti hf., að stofnunin hefði ákveðið, að ósk stefnda, Landsnets hf., að lengja þá tímafresti, sem fram komu í fyrra bréfi stofnunarinnar, um tvo mánuði. Í bréfi stefnda, Landsnets hf., dagsettu sama dag, hafi komið fram að farið yrði í málið „á næstunni“ og að stefndi, Orkustofnun, yrði upplýstur um stöðuna. Viðræður stefnanda við stefnda, Landsnet hf., og HS Veitur hf., sem farið hafi fram í kjölfarið, hafi reynst árangurslausar.
Hinn 30. nóvember 2009 hafi stefndi, Orkustofnun, sent stefnanda bréf þar sem bent hafi verið á að bein tenging stefnanda við flutningskerfi stefnda, Landsnets hf., væri að mati stofnunarinnar ekki í samræmi við raforkulög og því bæri fyrirtækinu að tengjast dreifiveitu. Hafi stefnanda verið veittur frestur til 14. desember 2009 til að upplýsa stefnda, Orkustofnun, um hugsanleg áform sín í náinni framtíð um breyttan rekstur stefnanda, sem leiða myndi til aukinnar raforkunotkunar þannig að stefnandi félli í flokk stórnotenda, en ella gera „viðeigandi ráðstafanir eins og að tengjast dreifiveitu svæðisins, HS Veitum hf. Hafi verið tekið fram að stefndi, Orkustofnun, myndi að óbreyttu fara fram á það við stefnda, Landsnet hf., að orkuafhending til stefnanda yrði stöðvuð frá og með 15. janúar 2010, að viðlögðum dagsektum, en afrit bréfsins hafi verið sent til stefnda, Landsnets hf., og HS Veitna hf. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 22. desember 2009, hafi verið farið fram á að fyrrgreindur frestur yrði lengdur til 15. mars 2010, þar sem gengið hefði hægar að fá niðurstöðu í málið en vonir stóðu til. Með bréfi, dagsettu 7. janúar 2010, hafi stefndi, Orkustofnun, fallist á að framlengja frestinn til 28. febrúar 2010.
Með erindi, dagsettu 24. febrúar 2010, eða fjórum dögum áður en framlengdur andmælafrestur stefnanda rann út, hafi stefndi, Orkustofnun, farið fram á það við stefnda, Landsnet hf., að hann léti af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda, að viðlögðum 10.000 króna dagsektum frá og með 1. mars 2010 en afrit af erindinu hafi verið sent til stefnanda og HS Veitna hf. Ganga verði út frá því að hér hafi verið um að ræða bindandi stjórnvaldsákvörðun stefnda, Orkustofnunar, gagnvart stefnda, Landsneti hf. Með tölvubréfi til stefnanda, dagsettu 25. febrúar 2010, hafi starfsmaður stefnda, Landsnets hf., tilkynnt að Landsnet hf. myndi að kröfu stefnda, Orkustofnunar, rjúfa afhendingu raforku til stefnanda frá og með 1. mars 2010.
Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun stefnda, Landsnets hf., (Orkustofnunar) til iðnaðarráðuneytisins hinn 26. febrúar 2010. Með bréfi, dagsettu sama dag, hafi iðnaðarráðuneytið frestað réttaráhrifum umræddrar ákvörðunar stefnda, Orkustofnunar, meðan á meðferð kærunnar stæði með vísan til málsástæðna og þeirra áhrifa, sem ákvörðunin kynni að hafa á starfsemi stefnanda. Með bréfi, dagsettu 4. mars 2010, hafi iðnaðarráðuneytið óskað eftir umsögnum stefndu og HS Veitna hf. vegna stjórnsýslukærunnar. Umsagnir hafi borist frá stefndu 9. mars 2010 og frá HS Veitum hf. 14. apríl s.á. Í síðarnefndu umsögninni komi m.a. fram að HS Veitur hf. séu „að sjálfsögðu reiðubúnar að tengja [stefnanda] við dreifikerfi félagsins enda sé umbeðin stærð heimtaugar innan marka starfsemi dreifiveitu og að tengin [sic] valdi ekki viðbótarkostnaði fyrir aðra viðskiptavini fyrirtækisins til lengri tíma litið“. Með bréfum, dagsettum 25. mars 2010 og 15. apríl 2010, hafi iðnaðarráðuneytið veitt stefnanda tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum vegna framangreindra umsagna og hafi stefnandi látið þær í té með bréfi, dagsettu 3. maí 2010, þar sem afstöðu stefnda, Orkustofnunar, hafi verið mótmælt og m.a. bent á að alls óvíst væri hvort HS Veitur gætu yfirhöfuð tengt stefnanda við kerfi sitt.
Með bréfum, dagsettum 4. janúar 2011, hafi iðnaðarráðuneytið óskað eftir afstöðu stefndu til tiltekinna fullyrðinga í umsögnum HS Veitna hf. og stefnanda um stærð heimtaugarinnar í lóð stefnanda. Svarbréf stefnda, Landsnets hf., hafi borist ráðuneytinu 11. janúar 2011 og svarbréf stefnda, Orkustofnunar, 13. sama mánaðar. Hinn 17. janúar 2011 hafi iðnaðarráðuneytið framsent svarbréfin til stefnanda og HS Veitna hf. og óskað eftir afstöðu fyrirtækjanna til þeirra. Svarbréf HS Veitna hf. hafi borist iðnaðarráðuneytinu 21. janúar 2011 og bréf stefnanda 4. febrúar s.á.
Hinn 14. mars 2011 hafi iðnaðarráðuneytið kveðið upp úrskurð í kærumáli stefnanda, þar sem staðfest hafi verið ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, dagsett 24. febrúar 2010, um að stefndi, Landsnet hf., skyldi láta af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda, að viðlögðum dagsektum, þó með þeirri breytingu að dagsektirnar skyldu reiknast frá og með 14. september 2011. Með bréfi til stefnanda, dagsettu 3. maí 2011, tilkynnti stefndi, Landsnet hf., að flutningur raforku til stefnanda um núverandi tengingu yrði stöðvaður 14. september 2011 í samræmi við úrskurð iðnaðarráðuneytisins og stefnanda bent á að semja við HS Veitur hf. um raforkuafhendingu til stefnanda. Ekki hafi náðst samkomulag við HS Veitur hf. eða stefnda, Landsnet hf., um framtíðarfyrirkomulag raforkuafhendingar til stefnanda. Af þeim ástæðum og vegna þess að stefnandi telur úrskurð iðnaðarráðuneytisins frá 14. mars 2011 ólögmætan, sé mál þetta höfðað til að fá úrskurðinum hnekkt.
II.
Stefnandi byggir á því að úrskurður iðnaðarráðuneytisins (ákvörðun stefnda, Orkustofnunar) sé haldinn slíkum annmörkum, að formi og efni, að fella beri hann úr gildi. Í samræmi við dómaframkvæmd um varnaraðild í málum um ógildingu stjórnvaldsákvarðana beini stefnandi kröfu um ógildingu úrskurðar iðnaðarráðuneytisins að stefnda, Orkustofnun, sem hinu lægra setta stjórnvaldi er tók hina upprunalegu ákvörðun, svo og að stefnda, Landsneti hf., sem öðrum aðila stjórnsýslumálsins fyrir stefnda, Orkustofnun, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnanda er krafa um ógildingu úrskurðar iðnaðarráðuneytisins annars vegar byggð á því að málsmeðferð stefnda, Orkustofnunar, sem legið hafi til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar, hafi brotið svo verulega gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar að iðnaðarráðuneytinu hafi, við svo búið, ekki verið önnur leið fær en að ógilda ákvörðunina og eftir atvikum leggja fyrir stefnda, Orkustofnun, að taka nýja ákvörðun. Enn fremur hafi iðnaðarráðuneytið byggt úrskurð sinn á ólögmætum sjónarmiðum. Hins vegar sé krafan á því byggð að lagagrundvöll bresti fyrir ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, enda verði ákvæði 2. mgr. 8. gr. rafl. ekki túlkað á þann veg að því megi beita með afturvirkum og verulega íþyngjandi hætti gagnvart stefnanda, svo sem lagt sé til grundvallar ákvörðuninni og úrskurði iðnaðarráðuneytisins. Stefnandi telji það engum vafa undirorpið að úrskurðurinn leiði til verulegrar röskunar á atvinnurekstri stefnanda og stórfellds eignatjóns en afleiðingarnar séu m.a. þær að flutningsbúnaður í lóð stefnanda verði ónothæfur og verðlaus, sem aftur leiði til rýrnunar á notkunarmöguleikum og verðmæti lóðarinnar.
Stefnandi byggir á því að stefndi, Orkustofnun, hafi við meðferð málsins brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, einkum 10., 12., 13. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Stefnandi vísar til þess að hinn 30. nóvember 2009 hafi stefndi, Orkustofnun, tilkynnt stefnanda að stofnunin hefði í hyggju að leggja fyrir stefnda, Landsnet hf., að stöðva orkuafhendingu til stefnanda frá og með 15. janúar 2010, að viðlögðum dagsektum. Fram að þeim tíma hefðu stefnanda ekki borist neinar tilkynningar frá stefnda, Orkustofnun, um málið og hafi honum því verið alls ókunnugt um að stofnunin hygðist grípa til valdbeitingar, líkt og boðað hafi í fyrrnefndri tilkynningu.
Stefnandi byggir á því að tilkynning stefnda, Orkustofnunar, frá 30. nóvember 2009 hafi markað upphaf þess stjórnsýslumáls gagnvart stefnanda og stefnda, Landsneti hf., sem lokið hafi 24. febrúar 2010 með ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, um að leggja dagsektir á stefnda, Landsnet hf., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt því hafi málinu lokið á innan við þremur mánuðum. Að mati stefnanda verði að miða við framangreint tímabil við mat á hvort málsmeðferð stefnda, Orkustofnunar, hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög, einkum hvort andmælaréttur stefnanda hafi verið virtur og meðalhófs gætt. Að þessu virtu telji stefnandi ljóst að sú ályktun í úrskurði iðnaðarráðuneytisins, að stefndi, Orkustofnun, hafi „rækt skyldur sínar með því að veita [stefnanda] nægan tíma til samninga og til að tengjast dreifiveitu HS Veitna hf.“, sé röng.
Með bréfi til stefnda, Orkustofnunar, dagsettu 22. desember 2009, hafi lögmaður stefnanda greint frá því að unnið væri að lausn málsins í samráði við stefnda, Landsnet hf., og HS Veitur hf. en því miður gengi það hægar en vonir stóðu til. Hafi verið farið fram á að fresturinn, sem settur var í tilkynningu stefnda, Orkustofnunar, 30. nóvember 2009, yrði framlengdur frá 15. janúar 2010 til 15. mars s.á., enda væri fresturinn allt of skammur til að ljúka viðræðum og nauðsynlegum ráðstöfunum svo að verða mætti við kröfum stefnda, Orkustofnunar. Við þessu hafi stefndi, Orkustofnun, brugðist 7. janúar 2010 með því að framlengja frestinn en þó aðeins til 28. febrúar s.á. Allt að einu hafi stefndi, Orkustofnun, leitt málið til lykta með ákvörðun sinni 24. febrúar 2010, áður en uppgefinn frestur var runninn út. Stefnandi telji að með því að virða ekki frest stefnanda til að verða við kröfum stofnunarinnar hafi stefndi, Orkustofnun, virt að vettugi þá skyldu sína að gæta meðalhófs við töku stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, sem hafi verið sérstaklega brýnt í ljósi þess að ákvörðunin snerti veigamikla hagsmuni stefnanda, þ.m.t. rekstraröryggi og eignarrétt.
Þá hafi stefndi, Orkustofnun, brotið gegn andmælarétti stefnanda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi hin ótímabæra ákvörðunartaka girt fyrir möguleika stefnanda á að koma að frekari sjónarmiðum og gögnum í málinu og eftir atvikum rökstyðja þörf á lengri fresti svo að málsaðilar gætu uppfyllt kröfur stefnda, Orkustofnunar, sbr. einnig 12. gr. stjórnsýslulaga. Á sama hátt telji stefnandi að rannsókn málsins af hálfu stefnda, Orkustofnunar, hafi verið alls ófullnægjandi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þannig að stefndi, Orkustofnun, hafi ekki verið stætt á að ljúka því með ákvörðun að svo komnu. Í því sambandi sé til þess að líta að stefndi, Orkustofnun, hafi í engu leitast við að afla nauðsynlegra upplýsinga, hvorki frá stefnanda né öðrum til að leggja grundvöll að ákvörðun í málinu, t.d. um hvort stefnandi gæti yfirleitt tengst dreifiveitu í fyrirsjáanlegri framtíð, hvort líklegt væri að viðræður stefnanda við stefnda, Landsnet hf., og HS Veitur hf. myndu bera árangur og hvort tenging stefnanda við dreifikerfi HS Veitna hf. kynni að hafa í för með sér óæskileg áhrif á eða truflanir í raforkukerfinu. Vegna framangreindra annmarka á rannsókn málsins, telji stefnandi að stefnda, Orkustofnun, hafi skort nauðsynlegar upplýsingar og forsendur til að meta hvort ákvörðun stofnunarinnar væri í samræmi við markmið raforkulaga, sbr. 1. gr., og hvort önnur og vægari úrræði stæðu til boða en að loka á raforkuflutning til stefnanda, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Hafi framangreindar skyldur stefnda, Orkustofnunar, til að gæta meðalhófs og málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, verið sérstaklega ríkar í tilviki stefnanda í ljósi þeirra tilfinnanlegu áhrifa sem ákvörðunin hefði á hagsmuni stefnanda, en stofnunin hafi heldur enga athugun gert á því, hver þau áhrif gætu orðið, t.d. því hvort ákvörðunin gerði flutningsbúnað stefnanda ónothæfan og verðlausan. Loks hafi stefnanda ekki verið leiðbeint um rétt hans til rökstuðnings eða til að kæra ákvörðunina, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.
Stefnandi byggir á því að framangreindir annmarkar á meðferð málsins af hálfu stefnda, Orkustofnunar, séu svo verulegir að ákvörðun stofnunarinnar frá 24. febrúar 2010 teljist ógildanleg. Af þeim sökum hafi iðnaðarráðuneytinu skýlaust borið að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir stefnda, Orkustofnun, að taka lögmæta ákvörðun í málinu. Það hafi ráðuneytið ekki gert, heldur staðfest ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, þrátt fyrir umrædda ógildingarannmarka á henni. Stefnandi telji að þetta leiði til þess að úrskurður iðnaðarráðuneytisins frá 14. mars 2011 sé einnig ógildanlegur.
Auk framangreinds telji stefnandi að úrskurður iðnaðarráðuneytisins frá 14. mars 2011 sé byggður á ólögmætum sjónarmiðum. Í úrskurðinum sé vísað til sjónarmiða um að afhending stefnda, Landsnets hf., á raforku beint til stefnanda kunni að raska samkeppni á þeim markaði sem stefnandi starfi á. Stefnandi fái ekki séð að það hafi verið í verkahring iðnaðarráðuneytisins að líta til sjónarmiða af þessu tagi við úrlausn málsins. Í 1. gr. raforkulaga sé vísað til þess að lögin eigi að skapa forsendur fyrir samkeppni „í vinnslu og viðskiptum með raforku“ en ekkert bendi til þess að lögin eigi að vernda samkeppni á öðrum mörkuðum. Þar sem iðnaðarráðuneytið hafi lagt til grundvallar ólögmæt sjónarmið, sem virðist hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins, telji stefnandi að fella beri úrskurðinn úr gildi. Hvað sem þessu líði, sé á það bent af hálfu stefnanda að ekkert liggi fyrir, sem bendi til þess að stefnandi njóti samkeppnislegs forskots vegna fyrirkomulags á raforkuflutningi til hans, og verði því ekki séð á hverju framangreind staðhæfing ráðuneytisins sé byggð.
Þá byggir stefnandi kröfu sína um ógildingu á því að stefnda, Orkustofnun, hafi brostið heimild að lögum til að taka hina umþrættu ákvörðun. Nánar tiltekið feli ákvæði 2. mgr. 8. gr. rafl. ekki í sér heimild fyrir stofnunina til að taka slíka íþyngjandi ákvörðun gagnvart stefnanda. Ekki verði önnur ályktun dregin af ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, en að stofnunin telji að 2. mgr. 8. gr. rafl., sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 89/2004 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, hafi afturvirk og íþyngjandi réttaráhrif, að því leyti að ákvæðið girði fyrir áframhaldandi milliliðalaus raforkuviðskipti stefnanda og stefnda, Landsnets hf., áður Landsvirkjunar, sem hafi viðgengist allar götur frá árinu 1988. Á þetta verði ekki fallist. Í þessu sambandi vísi stefnandi til þeirrar rótgrónu meginreglu íslensks réttar að lög verði ekki talin afturvirk, svo íþyngjandi sé fyrir borgarana, nema slíkt megi skýlaust ráða af texta viðkomandi laga. Í 2. mgr. 8. gr. rafl., sem ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, sé reist á, segi að „[v]iðskiptavinir flutningsfyrirtækisins skulu vera dreifiveitur, stórnotendur og virkjanir“. Að mati stefnanda sé ljóst að ekki komi fram í tilvitnuðu ákvæði eða lögskýringargögnum um að því sé ætlað að hafa afturvirk réttaráhrif, né verði sú ályktun dregin af öðrum ákvæðum raforkulaga.
Auk framangreinds kveðst stefnandi vísa til 10. gr. rafl., sbr. 6. gr. laga nr. 89/2004, þar sem sú skylda hafi verið lögð á Landsvirkjun og aðra eigendur flutningsvirkja að selja þau eða leigja stefnda, Landsneti hf. Þar sem ekki hafi verið kveðið á um annað í lögunum, verði að mati stefnanda að draga þá ályktun að stefnda, Landsneti hf., hafi við eignayfirfærsluna borið að ganga inn í gildandi samninga um afnotarétt af viðkomandi flutningsvirkjum en sú hafi verið raunin með samningi stefnanda og Landsvirkjunar frá 1993. Skýra verði 2. mgr. 8. gr. rafl. til samræmis við 10. gr. sömu laga að þessu leyti, einkum þar sem ákvæðin hafi verið lögfest á sama tíma. Í því ljósi fái ekki staðist að samningur stefnanda og Landsvirkjunar hafi í kjölfar gildistöku laga nr. 89/2004 verið í andstöðu við raforkulög, þ.e. 2. mgr. 8. gr. laganna, heldur leiði þvert á móti af 10. gr. laganna að stefnda, Landsneti hf., hafi verið skylt að taka samninginn yfir.
Stefnandi bendir á að lögskýring stefnda, Orkustofnunar, og iðnaðar-ráðuneytisins leiði til þess að lögin komi sérstaklega harkalega niður á einum aðila á markaði, þ.e. stefnanda, sem hafi verið tengdur við flutningskerfið fyrir gildistöku laganna. Jafnframt feli sú lögskýring í sér að stefnanda sé gert að aftengjast flutningskerfinu, jafnvel þótt ekkert liggi fyrir um hvort dreifiveita sé fær um að veita stefnanda slíka þjónustu svo viðunandi sé. Að mati stefnanda fái þessi skilningur ekki staðist, enda verði hvorki ráðið af lögum nr. 89/2004, né lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf., að þeim hafi verið ætlað að leiða til jafn ósanngjarnrar og órökréttrar niðurstöðu og stefndi, Orkustofnun, og iðnaðarráðuneytið hafi komist að. Þá sé til þess að líta að umrædd lögskýring feli í sér afturvirka og íþyngjandi skerðingu á eignarrétti stefnanda, sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt ákvæðinu sé slík skerðing óheimil nema fullar bætur komi fyrir. Aukinheldur feli hún í sér takmörkun á atvinnufrelsi stefnanda, sbr. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Af framangreindum ástæðum geti umrædd lögskýring stefnda, Orkustofnunar, og iðnaðarráðuneytisins aldrei staðist nema hún hefði skýra lagastoð en að mati stefnanda verði 2. mgr. 8. gr. rafl. ekki talin uppfylla þann áskilnað.
Loks byggir stefnandi á því að jafnvel þótt 2. mgr. 8. gr. rafl. yrði talin veita viðhlítandi lagastoð fyrir ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, og úrskurði iðnaðarráðuneytisins, geti slík afturvirk og íþyngjandi skerðing á eignarrétti stefnanda ekki staðist nema gegn greiðslu skaðabóta fyrir það tjón sem af henni leiði, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnanda hafi ekki verið greiddar slíkar bætur og hafi stjórnvöld ekki sýnt viðleitni í þá veru. Af því leiði að ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, og úrskurður iðnaðarráðuneytisins brjóti gegn tilvitnuðu stjórnarskrárákvæði. Í ljósi framangreinds telji stefnandi að niðurstaða stefnda, Orkustofnunar, og iðnaðarráðuneytisins sé ólögmæt. Beri því að fallast á kröfu stefnanda um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.
Að því er varðar aðild stefndu vísar stefnandi til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 2. mgr. 19. gr. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi einkum til ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, sbr. einkum 2. mgr. 8. gr. og 10. gr., sbr. lög nr. 89/2004 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 og lög nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf. Jafnframt vísar stefnandi til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. 10., 12., 13., 14. og 20. gr., auk óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 72. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Enn fremur vísar stefnandi til meginreglu íslensks réttar um að lög verði ekki talin afturvirk, nema þau mæli skýrlega fyrir um slíkt. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi, Orkustofnun, byggir frávísunarkröfu sína annars vegar á því að kæruleiðir á stjórnsýslustigi hafi ekki verið tæmdar og hins vegar á því að lögvarðir hagsmunir stefnanda séu ekki fyrir hendi.
Vísar stefndi í fyrsta lagi til þess, að ákvörðun stefnda hafi lotið að starfsemi stefnda, Landsnets hf., vegna raforkuflutnings til stefnanda. Samkvæmt 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sé það skilyrði þess að höfða megi einkamál til ógildingar ákvörðunar stefnda að kæruleiðir raforkulaganna séu tæmdar. Sérstök úrskurðarnefnd starfi samkvæmt 30. gr. raforkulaga og hafi stefnanda verið skylt að skjóta stjórnvaldsákvörðun stefnda til nefndarinnar, áður en hann höfðaði dómsmál, en samkvæmt 1. mgr. 30. gr. raforkulaga sæti stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar séu af stefnda á grundvelli raforkulaga og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna, kæru til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 12. mgr. 30. gr. verði slíkar ákvarðanir ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar liggi fyrir. Stefnandi hafi ekki lagt málið fyrir hinn lögmælta úrskurðaraðila innan stjórnsýslunnar og bresti hann því heimild til að höfða mál þetta. Beri því að vísa málinu frá dómi.
Í öðru lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því, að eins og stefnandi hagi kröfugerð sinni, hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af dómsniðurstöðu. Engan rökstuðning sé að finna fyrir því hverju það varði stefnanda að fá ógilta ákvörðun stefnda frá 24. febrúar 2010. Stefndi telji að fengist efnisdómur í máli þessu fengist einungis skorið úr almennu lagalegu álitaefni og hafi stefnandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í málinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Í raforkulögum hafi stórnotandi verið skilgreindur í 17. tl. 3. gr. sem notandi sem noti á einum stað a.m.k. 14MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira en ný skilgreining á stórnotanda hafi verið tekin í gildi með lögum nr. 19/2011, sem breytt hafi lögum nr. 65/2003. Í 2. mgr. 8. gr. laganna séu viðskiptavinir flutningsfyrirtækis tæmandi taldir, þ.e. dreifiveitur, stórnotendur, virkjanir og aðrir þeir, sem hafi leyfi samkvæmt raforkulögum til að stunda viðskipti með raforku. Stefnandi uppfylli ekkert af skilyrðunum um afl, orku eða nýtingartíma, skv. 3. gr. og tilheyri engum þeirra viðskiptavina flutningsfyrirtækis, sem taldir séu upp í 8. gr. Aðila greini ekki á um að stefnandi falli ekki að skilgreiningu laganna um stórnotanda. Sú staðreynd stæði óhögguð þótt krafa stefnanda um að fella úr gildi ákvörðun stefnda frá 24. febrúar 2010 yrði tekin til greina. Stefndi telji því að engin úrlausn fengist um réttarstöðu stefnanda þótt leyst yrði efnislega úr kröfu stefnanda fyrir dóminum en dómur um gildi ákvörðunarinnar hafi ekki þau réttaráhrif að staða stefnanda gagnvart raforkulögum verði önnur að óbreyttum lögum.
Þeir hagsmunir, sem stefnandi kynni að hafa haft af því að leita dóms um ógildingu á ákvörðun stefnda, séu ekki lengur fyrir hendi, enda sé upplýst, að stefndi, Landsnet hf., hætti milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda frá og með 14. september 2011. Þá telji stefndi að samningsgerð stefnanda frá 15. september 2011 við HS Veitur hf. um leigu á rafmagnsdreifikerfi stefnanda, feli í sér ráðstöfun á sakarefninu með þeim hætti að óumdeilt sé að með þeim samningi felist viðurkenning í verki á því að samningur stefnanda við Landsvirkjun frá 25. janúar 1993 sé fallinn úr gildi. Stefnandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun stefnda fellda úr gildi. Beri því að vísa máli þessu frá dómi skv. 25. gr. 2. mgr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Enn fremur vísar stefndi til þess að í bréfi stefnda, Landsnets hf., til stefnanda hinn 3. apríl 2009 sé fólgin uppsögn á samningi aðila frá 25. janúar 1993 um milliliðalaus raforkuviðskipti. Uppsögnin hafi verið áréttuð í tölvupósti stefnda, Landsnets hf., til stefnanda hinn 25. febrúar 2010 og telji báðir aðilar samningsins hann því fallinn úr gildi. Þótt krafa um ógildingu næði fram að ganga væru þau réttindi, sem sölusamningurinn tók til, ekki lengur fyrir hendi. Þeir hagsmunir, sem stefnandi kynni að hafa haft af því að leita dóms um ógildinu á ákvörðun stefnda, séu því ekki lengur til staðar.
IV.
Krafa stefnda, Landsnets hf., um frávísun byggir í fyrsta lagi á því á því að kæru stefnanda til iðnaðarráðuneytisins, dagsettri 26. febrúar 2010, á ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, frá 24. febrúar 2010 hafi verið beint að röngu stjórnvaldi, þ.e. iðnaðarráðuneyti í stað úrskurðarnefndar um orkumál, og sökum þess hafi kæruleiðir ekki verið tæmdar innan stjórnsýslunnar eins og skýrt sé mælt fyrir um í ákvæði 12. mgr. 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í öðru lagi byggir krafa stefnda um frávísun á því að lögvarðir hagsmunir stefnanda séu ekki lengur fyrir hendi og því beri að vísa málinu frá dómi.
Að því er fyrri málsástæðu stefnda varðar, vísar hann til þess að með stjórnsýslukæru sé átt við það réttarúrræði þegar aðili máls, eða annar sá, sem kærurétt á, skjóti stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds sem sé skylt að endurskoða ákvörðunina. Hina almennu reglu um heimild aðila máls til að kæra stjórnvaldsákvörðun sé að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðrum lögum sé jafnframt að finna sérstakar heimildir til þess að kæra stjórnvaldsákvarðanir og fá þær endurskoðaðar. Slíka heimild sé að finna í ákvæði 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem mælt sé fyrir um verkefni og valdsvið úrskurðarnefndar raforkumála. Í 1. mgr. 30. gr. segi: „Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli laga þessara og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækis eða dreifiveitna sæta kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.“
Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fari dómendur með dómsvaldið. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skeri dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Að uppfylltum ákveðnum réttarfarsskilyrðum skeri dómstólar því úr ágreiningi um hvort stjórnvöld hafi byggt ákvarðanir sínar á lögum og málefnalegum sjónarmiðum eða hvort þær hafi átt sér stoð í lögum eða verið í samræmi við þau.
Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að aðeins megi bera undir dómstóla ágreining um gildi ákvörðunar stefnda, Orkustofnunar, hafi úrskurðarnefnd raforkumála áður úrskurðað um þau atriði, sbr. 1. mgr. 30. gr. raforkulaga. Ákvörðuninni hafi ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt skýrum orðum ákvæðisins heldur til iðnaðarráðuneytis. Þar sem um sé að ræða ófrávíkjanlegt málshöfðunarskilyrði að mál um ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, hafi áður verið úrskurðað af úrskurðarnefnd raforkumála, beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 12. mgr. 30. gr. raforkulaga. Ákvæði 12. mgr. 30. gr. sé skýrt og ótvírætt um þetta efni og það beri að skýra eftir orðanna hljóðan, nema sérstök ástæða sé til að beita öðrum lögskýringaraðferðum. Í þessu máli liggi ekkert fyrir sem bendi til þess að skýra beri á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan. Í athugasemdum við 30. gr. í frumvarpi til raforkulaga sé sérstaklega mælt fyrir um að sjálfstæð úrskurðarnefnd sé æskileg til að tryggja að hlutleysi úrskurðaraðila verði ekki dregið í efa, auk þess sem fjallað sé þar um hlutverk nefndarinnar.
Stefndi vísar til þess að í dómum Hæstaréttar hafi það ekki verið talið standa í vegi að löggjafinn feli meðferð mála sérstökum úrskurðarnefndum áður en til meðferðar dómstóla komi, enda komi það fram í skýrum orðum laga. Þá hafi ekki verið talið að slík skipan raski þeim rétti til að bera mál undir dómstóla, sem tryggður sé með 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Að framangreindu virtu sé þess því krafist að málinu verði vísað frá dómi.
Stefndi byggir í öðru lagi á því að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af dómsniðurstöðu eins og hann hagar kröfugerð sinni. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sé mælt fyrir um hverjir geti verið viðskiptavinir stefnda en það séu samkvæmt ákvæðinu dreifiveitur, virkjanir og stórnotendur. Fyrir liggi að stefnandi er hvorki handhafi virkjunarleyfis né leyfis til að reka dreifiveitu. Samkvæmt 17. tölul. 3. gr. raforkulaga hafi stórnotandi verið skilgreindur sem notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14MW með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira en þetta ákvæði hafi gilt þar til ný skilgreining var innleidd með lögum nr. 19/2011 sem breyttu raforkulögum nr. 65/2003. Eins og fram komi í gögnum málsins uppfylli stefnandi hvorki þau skilyrði sem gerð voru né séu nú gerð til að teljast stórnotandi. Þá hafi stefnandi í stefnu lýst því yfir og fallist á þær röksemdir stefnda, Orkustofnunar, að hann uppfylli ekki skilyrði um stórnotanda í skilningi 1. tölul. 3. gr. raforkulaga.
Með samningi við HS Veitur hf., dagsettum 12. september 2011, hafi stefnandi gert samning um leigu á rafmagnsdreifkerfi stefnanda. Sú samningsgerð feli í sér að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, fellda úr gildi. Telji stefndi því að vísa beri máli þessu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Eins og áður greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfur stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.
Fyrir liggur ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, frá 24. febrúar 2010 þar sem farið var fram á að stefndi, Landsnet hf., léti af milliliðalausri raforkuafhendingu til stefnanda, að viðlögðum dagsektum, eins og áður er rakið. Stefnandi skaut þessari ákvörðun til iðnaðarráðuneytisins með tölvupósti til starfsmanns ráðuneytisins 26. sama mánaðar. Iðnaðarráðuneytið staðfesti framangreinda ákvörðun með úrskurði uppkveðnum 14. mars 2011 en gerði breytingu á upphafstíma dagsekta.
Í máli þessu krefst stefnandi þess, að framangreindur úrskurður iðnaðarráðuneytisins verði felldur úr gildi. Báðir stefndu byggja frávísunarkröfur sínar í fyrsta lagi á því, að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi ekki verið tæmdar af hálfu stefnanda og í öðru lagi á því, að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af dómsniðurstöðu, eins og hann hagi kröfugerð sinni.
Stefndu vísa til stuðnings fyrri málsástæðu sinni til ákvæða 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem hin umþrætta ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, hafi lotið að flutningi á raforku. Þessu mótmælir stefnandi og vísar til þess, að ákvæði 30. gr. eigi ekki við í þessu máli, heldur verði hér að líta til ákvæða 37. gr. laganna, þar sem sé að finna hina almennu kæruheimild raforkulaga. Með framangreindri ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, hafi stefnda, Landsneti hf., verið gert að láta af milliliðalausri afhendingu raforku til stefnanda. Ef stefndi, Landsnet hf., hefði verið ósáttur við ákvörðunina, hefði 30. gr. raforkulaga átt við. Hér skipti því máli, hver sé kærandi viðkomandi ákvörðunar. Þá verði að líta til þess, að ráðherra hafi talið sig bæran til að kveða upp úrskurð um framangreinda ákvörðun og hafi stefndu í því ferli aldrei haldið því fram að sú meðferð væri andstæð lögum. Ágreiningur aðila hafi því fengið efnismeðferð á stjórnsýslustigi. Loks hefur stefnandi vísað til ákvæða 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um það, að ákvörðun skuli tilkynnt og jafnframt skuli þá m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild. Það hafi hins vegar ekki verið gert.
Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 37. gr. raforkulaga sæta þær stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, sem lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllum tiltekinna leyfa, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Segir síðan í 3. mgr. að stjórnvaldsákvarðanir, sem ekki megi kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eða úrskurðarnefndar raforkumála, sæti kæru til ráðherra. Í 1. mgr. 30. gr. laganna segir að stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar séu af Orkustofnun á grundvelli laganna og varði gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna, sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. Segir síðan í 12. mgr. ákvæðisins að ákvarðanir, sem aðeins verði kærðar til úrskurðarnefndar, verði ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.
Ljóst er að ágreiningur máls þessa lýtur að flutningi á raforku og verður því að fallast á það með stefndu að ákvæði 30. gr. raforkulaga eigi hér við. Umrætt ákvæði 12. mgr. er skýrt og ótvírætt. Ber að skýra lagaákvæði eftir orðanna hljóðan, nema sérstök ástæða sé til að beita öðrum lögskýringaraðferðum. Þykir ekki hátta svo til í þessu máli. Í þessu ljósi þykja ákvæði framangreindrar lagagreinar ekki brjóta gegn meginreglu laga um að heimilt sé að bera réttarágreining undir endanlegan úrskurð dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar svo og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Er það því niðurstaða dómsins að dómkröfur stefnanda verði ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar raforkumála liggur fyrir en óumdeilt er að slíkrar niðurstöðu hefur ekki verið aflað um ágreining aðila. Með hliðsjón af skýrum og ótvíræðum fyrirmælum framangreindra ákvæða, þykir engu breyta um þá niðurstöðu þótt iðnaðarráðuneytið hafi nú þegar kveðið upp úrskurð sinn. Með vísan til alls framanritaðs, verður því, þegar af þeirri ástæðu, að fallast á kröfur stefndu og vísa málinu frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.