Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2017

Herdís Jónsdóttir (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
Arion banka hf. (Kristján B. Thorlacius lögmaður)

Lykilorð

  • Skuldamál
  • Greiðsla
  • Uppgjör

Reifun

H krafðist endurgreiðslu á fjármunum sem inntir höfðu verið af hendi til A hf. í kjölfar sölu fasteignar sem hún átti að jöfnu með eiginmanni sínum. H hafði á árunum 2005-2009 ritað undir ýmis lánsskjöl er voru með veði í fyrrgreindri fasteign. Deildu aðilar um hvort H hefði með nafnritun sinni á skjölin eða síðari aðgerðum stofnað til gilds veðréttar í sínum hluta fasteignarinnar. Þá var deilt um hvort H hefði samþykkt að andvirði við sölu fasteignarinnar í apríl 2014 kæmi til greiðslu áðurnefndra skulda. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að í kaupsamningnum hefði komið fram að söluandvirði fasteignarinnar skyldi nýtt til greiðslu á lánum sem á henni hvíldu og að seljendur hefðu eingöngu gert almennan fyrirvara um lögmæti einstakra skilmála áhvílandi skuldabréfa, en sá fyrirvari hefði ekki tekið til ágreiningsins í málinu. Þá kom fram að H hefði ritað undir skjal um veðflutning láns kaupenda fasteignarinnar á 1. veðrétt hennar. Var talið að H hefði með þessu firrt sig rétti til að krefjast endurgreiðslu þess fjár sem innt var hendi til A hf. við söluna og A hf. því sýknaður af kröfunni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 15.272.128 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, aðallega frá 4. apríl 2014, en til vara frá 1. apríl 2015, í báðum tilvikum til greiðsludags. Einnig krefst hún þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 707.410 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. maí 2016 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir nánar ritaði áfrýjandi á árunum 2005 til 2009 undir ýmis lánsskjöl er voru með veði í fasteigninni að Hjallabrekku 41 í Kópavogi, sem hún átti að jöfnu með eiginmanni sínum. Aðila greinir á um hvort áfrýjandi hafi með nafnritunum sínum á skjölin eða síðari aðgerðum stofnað til gilds veðréttar í sínum hluta fasteignarinnar. Þá er deilt um hvort áfrýjandi hafi samþykkt að andvirði við sölu fasteignarinnar í apríl 2014 kæmi til greiðslu áðurgreindra skulda sem á fasteigninni hvíldu. Krefst áfrýjandi endurgreiðslu á þeim fjármunum sem inntir voru af hendi til stefnda í kjölfar sölu fasteignarinnar. Þá krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna kostnaðar sem hún hafði við rekstur ágreiningsmáls fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Við aðalmeðferð málsins í héraði og fyrir Hæstarétti kvaðst áfrýjandi byggja á því að ógilda beri eða víkja til hliðar umræddum veðsetningum á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk þess sem greiðsla skulda samkvæmt kaupsamningi hafi verið með fyrirvara um réttmæti krafna stefnda á hendur henni og hafi stefnda, sem fylgst hafi grannt með framvindu sölunnar, verið fyrirvararnir ljósir. Sætti þessi málatilbúnaður þegar andmælum stefnda við meðferð málsins í héraði sem of seint fram kominn. Þessar málsástæður eru of seint fram bornar og komast ekki að við úrslausn málsins, samkvæmt 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fram er komið í málinu að áfrýjandi og eiginmaður hennar seldu framangreinda fasteign í því skyni að létta á skuldum sínum. Í kaupsamningnum 4. apríl 2014, sem undirritaður er af þeim báðum, sagði að kaupverð væri 54.000.000 króna og tiltekið að söluandvirði fasteignarinnar skyldi nýtt til greiðslu á lánum sem á henni hvíldu, jafnframt því sem seljendur skuldbundu sig til að láta aflýsa veðum af fasteigninni. Var tiltekið að lán á 1. til 5. veðrétti skyldu greiðast upp. Þá sagði að eftirstöðvar söluverðs rynnu til stefnda sem veðhafa lána á 6. til 8. veðrétti eignarinnar en í gögnum málsins er yfirlýsing starfsmanns stefnda, gefin í aðdraganda að gerð kaupsamningsins, þar sem hann samþykkti að þeim veðum sem eftir stæðu umfram söluverð eignarinnar yrði aflétt gegn því að söluandvirðinu yrði ráðstafað til greiðslu áhvílandi lána. Í kaupsamningnum gerðu seljendur almennan fyrirvara um lögmæti einstakra skilmála áhvílandi skuldabréfa, en sá fyrirvari tók ekki til þess ágreinings sem hér er uppi. Loks ritaði áfrýjandi undir skjal 4. apríl 2014 þar sem staðfestur var veðflutningur láns kaupenda fasteignarinnar á 1. veðrétt hennar. Fóru greiðslur fram í samræmi við þessi ákvæði kaupsamningsins og verður ekki ráðið af gögnum málsins að áfrýjandi hafi gert athugasemdir þar um.

Með þessu firrti áfrýjandi sig rétti til að krefjast endurgreiðslu þess fjár sem innt var af hendi til stefnda. Verður stefndi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu hennar þar um. Að fenginni þessari niðurstöðu leiðir af sjálfu að stefndi verður jafnframt sýknaður af skaðabótakröfu áfrýjanda.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2017.

                Mál þetta, sem var dómtekið 9. mars sl., var höfðað 29. janúar 2016.

                Stefnandi er Herdís Jónsdóttir, Grandahvarfi 2 í Kópavogi.

                Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða henni 15.272.128 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 4. apríl 2014 til greiðsludags, en til vara frá 1. apríl 2015 til greiðsludags. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða henni 707.410 krónur „í skaðabætur vegna kostnaðar við málarekstur hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og síðar gagnvart stefnda auk dráttarvaxta frá og með 31. maí 2016“. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

                Í þinghaldi 28. október 2016 var lögð fram bókun af hálfu stefnanda um leiðréttingu á dómkröfum hennar. Samkvæmt henni krefst hann nú dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Stefndi mótmælti framangreindri breytingu.

                Með úrskurði dómsins 23. september 2016 var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

                                                                                              I

                Þann 23. júní 2005 gaf eiginmaður stefnanda, Stefán Rögnvaldsson, út tryggingarbréf að fjárhæð 8.000.000 króna til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum hans við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, SPRON. Með því var fasteignin að Hjallabrekku 41 í Kópavogi, fastanr. 206-1596, sett að veði með 8. veðrétti og uppfærslurétti. Fasteignin, sem er einbýlishús, var að jöfnu í eigu stefnanda og Stefáns. Stefán ritaði undir tryggingarbréfið í reit með yfirskriftinni „Undirskrift skuldara“. Stefnandi ritaði í reit með yfirskriftinni „Undirskrift maka skuldara“. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 29. júní 2005 og þinglýst á eignina á athugasemda. Þann 22. febrúar 2007 var gefin út yfirlýsing þess efnis að tryggingarbréfið, sem hvíldi þá á 8. veðrétti fasteignarinnar að Hjallabrekku 41 myndi einnig ná til trygginga skulda Jóns Hannesar Stefánssonar, sonar þeirra hjóna. Til samþykkis þessu rituðu stefnandi, eiginmaður hennar og Jón Hannes undir yfirlýsinguna. Þann 26. apríl 2011 var því lýst yfir af hálfu Dróma hf., þáverandi eiganda tryggingarbréfsins, að sú breyting skyldi gerð á tryggingarbréfinu að það næði ekki lengur til skulda Jóns Hannesar heldur skyldi það framvegis eingöngu ná til tryggingar skulda Stefáns.

                Þann 12. september 2006 gaf stefnandi út veðskuldabréf að fjárhæð 6.500.000 krónur til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, sem tryggt skyldi með 8. veðrétti í fasteigninni að Hjallabrekku 41. Í tengslum við þessa lánveitingu óskaði stefnandi eftir því við SPRON að hann myndi veita leyfi fyrir því að veðskuldabréfið færi fram fyrir veðrétt sparisjóðsins samkvæmt fyrrgreindu tryggingarbréfi sem hvíldi á 8. veðrétti fasteignarinnar. Sparisjóðurinn varð við því og gaf út skilyrt veðleyfi 11. september 2006.

                Þann 4. febrúar 2008 gaf eiginmaður stefnanda út tryggingarbréf að fjárhæð 5.100.000 krónur til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum hans við SPRON, en í því skyni var fasteign þeirra hjóna að Hjallabrekku 41 í Kópavogi, sett að veði með 10. veðrétti og uppfærslurétti. Eiginmaður stefnanda ritaði undir tryggingarbréfið í reit með yfirskriftinni „Undirskrift útgefanda“ og stefnandi í reit með yfirskriftinni „Samþykki maka útgefanda“. Í tryggingarbréfinu greinir að tryggingarbréfið að fjárhæð 8.000.000 króna sem gefið var út 23. júní 2005 hvíli á 9. veðrétti fasteignarinnar. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 6. febrúar 2008 og þinglýst athugasemdalaust á eignina.

                Þann 17. mars 2008 rituðu stefnandi og eiginmaður hennar undir skjal sem bar yfirskriftina „Beiðni um greiðslumat“ vegna fyrirhugaðrar útgáfu veðskuldabréfs að fjárhæð jafnvirði 16.000.000 króna. Í beiðninni var tilgreint að við útgáfu skuldabréfsins stæði til að greiða upp yfirdráttarskuld að fjárhæð 5.100.000 krónur, greiðslukortaskuldir að fjárhæð 4.386.000 krónur og skuld vegna afborgunarsamnings að fjárhæð um það bil 645.000 krónur, eða samtals 10.131.000 krónur. Með beiðninni fylgdu gögn til að framkvæma greiðslumatið, þ.e. lánsumsókn, skattframtal, launaseðlar síðustu þriggja mánaða á undan og síðustu greiðsluseðlar allra lána. Þá staðfestu stefnandi og eiginmaður hennar með undirskrift sinni að þau veittu SPRON heimild til að afla yfirlita yfir skuldbindingar þeirra hjá öðrum fjármálafyrirtækjum vegna greiðslumatsins. Greiðslumat var framkvæmt 26. mars 2008. Niðurstaða þess var sú að „neikvæður afgangur“ væri að fjárhæð 522.624 krónur fyrir lánveitingu en eftir hana að fjárhæð 203.423 krónur. „Breyting á mánuði“ næmi 319.201 krónu. Í skjali með yfirskriftinni „Vinnublað lánsumsóknar“ kemur fram að „Fasteignaveð“ sé fasteignin að Hjallabrekku 41, „Lánsupphæð“ sé 16.000.000 króna, „Skuldir til uppgreiðslu“ nemi 12.186.830 krónum og „Útborgað eftir uppgr.skulda og gjöld“ sé 3.405.270 krónur. Starfsmaður SPRON útbjó einnig skjal sem bar yfirskriftina „Yfirlýsing um ráðstöfun andvirðis skuldabréfaláns“, þar sem sundurliðaðar eru skuldir sem gert var ráð fyrir að greiða upp við útgáfu veðskuldabréfsins. Meðal þessara skulda voru skuldir stefnanda samkvæmt þremur greiðslukortum samtals að fjárhæð 2.104.199 krónur.

                Þann 3. apríl 2008 gaf Stefán út veðskuldabréf til SPRON að jafnvirði 16.000.000 króna í japönskum jenum, upphaflega með lánsnúmerið 10850, en því var síðar breytt í 16956. Til tryggingar greiðslu veðskuldabréfsins var fasteignin að Hjallabrekku 41 sett að veði með 11. veðrétti og uppfærslurétti, og er eignin tilgreind í bréfinu þannig: „Hjallabrekka 41, Kópavogur, öll eignin.“ Veðskuldabréfið ber það með sér að á 9. og 10. veðrétti eignarinnar hvíli framangreind tvö tryggingarbréf. Stefán undirritaði bréfið í reiti með yfirskriftinni „Undirskrift skuldara“ og „Samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“. Stefnandi ritaði á skjalið í reiti með yfirskriftinni „Undirskrift maka skuldara“ og „Samþ. maka þinglýsts eiganda“. Engir reitir eru óútfylltir á skjalinu. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 4. apríl 2008 og þinglýst athugasemdalaust á eignina.

                Þann 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið, með heimild í lögum nr. 125/2008, þá ákvörðun að taka yfir vald stofnfjárfundar SPRON, víkja stjórn sjóðsins frá og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var enn fremur stofnað sérstakt hlutafélag, sem síðar fékk nafnið Drómi hf., sem tók við eignum SPRON. Frá 21. mars 2009 þjónustaði stefndi lán sem voru í eigu Dróma hf. samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi. Þann 31. desember 2013 fékk stefndi fyrrgreindar skuldir og tryggingarréttindi framseld frá Dróma hf.

                Þann 8. október 2009 undirritaði stefnandi breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfs sem upphaflega var útgefið af eiginmanni hennar 24. október 2008 að fjárhæð 550.000 krónur, sem tryggt var með fyrrnefndum tryggingarbréfum. Stefnandi ritaði þar undir reiti með yfirskriftinni „Samþykki þinglýsts eiganda (ef annar en útgefandi)“ og „Samþykki þinglýsts eiganda og/eða maka þinglýsts eiganda“.

                Með beiðni, sem móttekin var hjá Héraðsdómi Reykjaness 26. febrúar 2010, fóru stefnandi og eiginmaður hennar þess á leit að þeim yrði saman veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna við lánardrottna sína, á grundvelli laga nr. 50/2009. Í umsókn þeirra eru ástæður þess að þau gætu ekki staðið í fullum skilum með veðskuldir sínar tilgreindar sem stórkostleg tekjulækkun og stórkostleg hækkun höfuðstóls lána. Á meðfylgjandi veðbókarvottorði vegna fasteignarinnar að Hjallabrekku 41 var tilgreint að framangreind tryggingarbréf hvíli á 7. og 8. veðrétti eignarinnar og veðskuldabréfið á 9. veðrétti. Á skjali með yfirskriftina „Fjárhagsyfirlit 2“ eru framangreind bréf tilgreind sem veðskuldir sem hvíla á fasteigninni. Í greinargerð sem virðist hafa fylgt umsókninni kemur fram að þau hjónin hafi ráðist í endurbætur á fasteigninni árið 2008. Fyrir þessum framkvæmdum hafi verið tekið veðskuldabréf að jafnvirði 16.000.000 króna sem hafi „að mestu leyti“ verið ráðstafað í endurbæturnar. Fram kemur að lánið hafi hækkað mikið vegna gengisbreytinga og lagt fjárhag þeirra í rúst.

                Sama dag fór Stefán þess á leit við Héraðsdóm Reykjaness að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í beiðninni kemur fram að ráðist hafi verið í verulegar endurbætur á fasteign hans og stefnanda að Hjallabrekku 41 árið 2008. Þar hafi meðal annars verið skipt út baðaðstöðu á báðum hæðum, gólfefni endurnýjuð og skipt um hurðar í húsinu. Fyrir þessum framkvæmdum hafi verið tekið „erlent myntkörfulán hjá Arion banka upp á um 16 milljónir kr.“. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir mánaðarlegri greiðslu vegna fasteignarinnar að fjárhæð 190.000 krónur sem hvort hjónanna um sig greiði helming af. Þá er tilgreint að heildarveðkröfur þeirra hjóna séu um 53.256.752 krónur fyrir utan vanskil sem séu 5.694.640 krónur.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2010 í máli nr. N-65/2010 var stefnanda og eiginmanni hennar veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna við lánardrottna sína. Í úrskurðinum kemur fram að stefnandi og eiginmaður hennar hafi áður fengið heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna með úrskurði 11. ágúst 2009 í máli nr. N-34/2009, en þau hafi ekki getað nýtt sér úrræðið þá. Með úrskurði dómsins sama dag í máli nr. N-64/2010 var eiginmanni stefnanda veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

                Samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna stefnanda og eiginmanns hennar skyldi hún gilda frá 1. júní 2010 til 1. maí 2014. Skyldi greiða fasta mánaðargreiðslu samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/2009 að fjárhæð 170.000 krónur. Í yfirlýsingu skipaðs umsjónarmanns með greiðsluaðlöguninni frá 10. maí 2010 kemur fram að á fasteigninni að Hjallabrekku 41 hvíli meðal annars tryggingarbréf útgefin til SPRON á 7. og 8. veðrétti og veðskuldabréf að fjárhæð jafnvirði 16.000.000 króna á 9. veðrétti fasteignarinnar. Yfirlýsingin var móttekin til þinglýsingar 11. maí 2010 og þinglýst athugasemdalaust á eignina.

                Þann 11. mars 2011 var stefnanda tilkynnt, sem ábyrgðaraðila/veðsala framangreinds veðskuldabréfs, að það hefði verið endurreiknað í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 604/2010, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða X laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það var niðurstaða endurútreikningsins að nýr höfuðstóll lánsins væri 22.397.618 krónur og að það hefði lækkað um 16.406.874 krónur. Var stefnanda gefinn ákveðinn frestur til athugasemda, en engar athugsemdir bárust frá henni.

                Þann 28. október 2011 samþykkti Umboðsmaður skuldara umsókn stefnanda og eiginmanns hennar um greiðsluaðlögun í samræmi við lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í mars 2012 lá fyrir tillaga umsjónarmanns að fumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir stefnanda og eiginmann hennar. Þann 29. ágúst 2012 felldi Umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanirnar. Stefnandi og eiginmaður hennar kærðu þá ákvörðun til Kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kærunefndin staðfesti ákvörðun embættisins með úrskurði 16. október 2014.

                Þann 5. febrúar 2013 gerðu stefnandi og eiginmaður hennar samkomulag við Íbúðalánasjóð um að hin tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna þeirra, sem komst á með úrskurði héraðsdóms 18. mars 2010, skyldi falla niður án þess að til kæmi ógildingarmál fyrir héraðsdómi. Skyldi óskað eftir því við umsjónarmann greiðsluaðlögunarinnar að hann aflýsti yfirlýsingu sinni frá 10. maí 2010 sem þinglýst var á eignina.

                Þann 10. febrúar 2014 samþykktu stefnandi og eiginmaður hennar kauptilboð í fasteign þeirra að Hjallabrekku 41 að fjárhæð 54.000.000 króna. Með bréfi 3. apríl 2014 veitti Umboðsmaður skuldara þeim hjónum heimild til að ráðstafa fasteigninni samkvæmt ákvæði 11. gr. laga nr. 135/2010 um breytingu á lögum nr. 101/2010. Kemur fram að söluverð eignarinnar dugi ekki til uppgreiðslu áhvílandi lána.

                Þann 4. apríl 2014 var gerður kaupsamningur um sölu fasteignarinnar að Hjallabrekku 41. Stefndi féllst á að aflétta veðum sínum af fasteigninni gegn því að söluandvirðinu yrði ráðstafað til greiðslu á þeim lánum sem hvíldu á eigninni. Í kaupsamningnum kemur fram að seljendur skuli aflýsa lánum á 1. til 8. veðrétti eignarinnar eftir því sem greiðslur berist. Þá segir að lán á fyrsta til fimmta veðrétti skyldu greidd upp með söluverðinu en eftirstöðvar söluverðsins skyldu greiddar til stefnda, að frádregnum sölulaunum. Í samningnum kemur fram að: „Seljendur gera fyrirvara um lögmæti einstakra skilmála áhvílandi skuldabréfa á fasteigninni, þ. á m. skuldabréfs upphaflega frá S.P.R.O.N. Allar leiðréttingar vegna hugsanlegra leiðréttinga á ofangreindum áhvílandi lánum verði eign seljenda. Allar endurgreiðslur á áhvílandi lánum á fasteigninni séu skilmálalaust eign seljenda, hvort sem um sé að ræða lækkun höfuðstóls, vaxta og alls kostnaðar allra áhvílandi lána. Skiptir ekki máli af hvaða ástæðum lækkunin verði, breytt löggjöf, nýir dómar eða aðrar ástæður.“ Sama dag undirrituðu stefnandi og eiginmaður hennar skjal vegna veðflutnings, þar sem þau samþykktu að lán kaupenda yrði þinglýst á fyrsta veðrétt fasteignarinnar að Hjallabrekku 41.

                Uppgjör kaupsamningsins fór þannig fram að söluandvirðinu, að frádreginni söluþóknun fasteignasölu, 368.175 krónur, og millifærsluþóknun 125 krónur, eða samtals 53.631.700 krónur, var ráðstafað inn á handveðsettan reikning kaupanda hjá stefnda og þaðan var fénu ráðstafað til greiðslu áhvílandi lána með eftirfarandi hætti:

Lánsnr.

Skuldari

Uppgr.fjárhæð (kr.)

Þar af dráttarvextir

17560

Stefán Rögnvaldsson

      731.619

               0

17558

Stefán Rögnvaldsson

      525.467

             0

16956

Stefán Rögnvaldsson

 18.912.556

8.276.637

16956

Stefán Rögnvaldsson

                 1.856.562

1.856.562

14139

Stefán Rögnvaldsson

   4.890.135

0

398 63 2047

Stefán Rögnvaldsson

   3.627.907

  209.280

SAMTALS

 

 30.544.256

10.342.479

                Samtals fóru 30.544.256 krónur af andvirði fasteignarinnar til stefnda. Var þeirri fjárhæð allri ráðstafað til greiðslu á nafni Stefáns. Allar skuldir við stefnda greiddust upp við þetta nema krafa samkvæmt veðskuldabréfinu nr. 16956.

                Þann 27. nóvember 2014 sendu stefnandi og eiginmaður hennar kvörtun til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki vegna málsmeðferðar stefnda við uppgjör skuldanna. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 111/2014 uppkveðnum 13. mars 2015 var öllum kröfum þeirra vísað frá nefndinni utan einnar sem var hafnað.

                Með bréfi 1. apríl 2015 óskaði Stefán eftir afstöðu stefnda til krafna stefnanda. Með bréfi 24. sama mánaðar hafnaði stefndi kröfum hennar.

                Þann 18. júní 2015 sendi stefnandi á ný kvörtun til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nefndin kvað upp úrskurð 18. september 2015 og féllst þar á sjónarmið stefnanda. Var stefnda gert að endurgreiða stefnanda andvirði eignarhluta hennar í fasteigninni Hjallabrekku 41 sem hann hafði notað til greiðslu skulda á grundvelli framangreindra tveggja tryggingarbréfa og veðskuldabréfs. Skyldi fjárhæðin bera dráttarvexti frá 1. maí 2015.

                Með bréfi 14. október 2015 lýsti stefndi því yfir að hann myndi ekki una úrskurði nefndarinnar. Frá þeim tíma hafa aðilar átt í nokkrum viðræðum um lausn á ágreiningi þeirra án árangurs.

                                                                                              II

                Stefnandi kveðst í máli þessu krefjast endurgreiðslu á andvirði eignarhlutar síns í fasteigninni Hjallabrekku 41 í Kópavogi, sem sé 50% af heildareigninni, að því marki sem bankinn hafi ráðstafað andvirðinu án hennar samþykkis til greiðslu skulda eiginmanns hennar. Þá krefst hún skaðabóta vegna kostnaðar við málarekstur hennar fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og kostnaðar vegna viðbragða bankans við úrskurði nefndarinnar.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi áritað þau skjöl sem um ræði sem „maki útgefanda“ eða „maki skuldara“. Hún hafi ekki ritað nafn sitt í sérgerða reiti á skjölunum þar sem gert sé ráð fyrir að veðsali, sé hann annar en útgefandi eða skuldari, undirriti og lýsi því þannig yfir að hann sé samþykkur þeirri ráðstöfun að veðsetja hans eignarhlut í hinni veðsettu eign. Hún hafi ekki ritað nafn sitt í reit á tryggingarbréfinu að fjárhæð 8.000.000 króna með yfirskriftina „VEÐHEIMILD“ eða í reit með yfirskriftina „Samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“. Þá hafi hún ekki ritað undir reit á tryggingarbréfinu að fjárhæð 5.100.000 krónur með yfirskriftina „Samþykki þingl. eiganda“. Á milli tvenns konar áritana stefnanda og eiginmanns hennar standi forskráð á skuldabréfið „VEÐHEIMILD“. Augljóslega sé gert ráð fyrir því að séu þinglýstir eigendur eignarinnar fleiri eða aðrir en skuldari staðfesti hlutaðeigandi að þeir veiti heimild til þess að eignin eða tilgreindur eignarhluti þeirra sé veðsettur til tryggingar láninu. Þessi reitur bréfsins sé óútfylltur. Þá sé lína neðst á skuldabréfinu, þar sem forskráð sé „Staðfesting veðsala“ óútfyllt.

                Stefnandi vísi í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar um gengistryggingu skuldabréfa og annarra fjármálagerninga. Samkvæmt þeim sé það texti skuldabréfsins eða lánssamningsins sem beri að leggja til grundvallar við mat á þeim skuldbindingum sem felist í viðkomandi bréfi eða samningi. Þessi nálgun eigi eðli málsins samkvæmt einnig við þegar metið er hvers konar skuldbindingu undirritanir á bréf eða samning feli í sér. Undirritun feli þannig ekki í sér aðra skuldbindingu en fram komi í þeim sérgreinda reit bréfs eða samnings sem þar sé skráð.

                Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefnda hafi einungis verið veðsettur 50% eignarhlutur í fasteign stefnanda samkvæmt tryggingarbréfunum tveimur og veðskuldabréfinu. Stefnda beri því að skila stefnanda ofteknu fé. Fjárhæð endurkröfu stefnanda, 15.272.128 krónur, byggist á kvittunum stefnda.

                Stefnandi vísi til 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í athugasemdum við það ákvæði í lagafrumvarpinu segi að hafa beri í huga að hugsanlegt sé að hjón séu sameigendur fasteignar eða fasteignaréttinda. Þá þurfi atbeini þeirra beggja beinlínis til að koma þannig að bæði verði samningsaðilar ef ráðstafa eigi eigninni. Það hjóna, er samþykki löggerning skv. 60. gr., verði hins vegar ekki aðili hans og beri ekki ábyrgð á efni hans. Samkvæmt þessu sé ljóst að séu bæði hjón eigendur fasteignar, þurfi atbeina beggja til ráðstöfunar á eigninni, svo sem til að veðsetja hana. Þannig verði bæði hjónin að undirrita veðskuldabréf eða tryggingarskjal þannig að ekki fari á milli mála að bæði hjónin hafi ákveðið að veðsetja sinn hluta í sameiginlegri fasteign. Riti annað hjónanna undir skjöl af framangreindu tagi sem maki skuldara eða útgefanda sé hlutaðeigandi ekki að veðsetja sinn eignarhluta heldur einungis að veita hinum makanum samþykki sitt til slíkrar ráðstöfunar á eignarhluta hans. Af orðalagi athugasemdanna sé augljóst að ekki megi leika á því nokkur vafi að slíkt samþykki liggi fyrir.

                Stefnandi hafi ekki skrifað undir slíkt samþykki, hvorki á tryggingarbréfin né veðskuldabréfið, heldur einungis yfirlýsingu þess efnis að hún samþykki að maki hennar undirriti skuldabréfið sem útgefandi/skuldari og veðsetji sinn eignarhluta.

                Jafnframt sé vísað til 58. gr. hjúskaparlaga þar sem fram komi að maki hafi ráðstöfunarrétt yfir eign sinni. Þá sé það meginregla þinglýsingarlaga nr. 39/1978 að sá einn geti ráðstafað eign með löggerningi sem hafi til þess þinglýsta heimild eða samþykki þess er njóti slíkrar heimildar, sbr. 24. gr. og 25. gr. laganna. Stefnandi hafi þannig farið ein með rétt til að ráðstafa sínum eignarhluta í fasteigninni að Hjallabrekku 41 og hafi ekki veitt öðrum heimild til slíkrar ráðstöfunar.

                Þá beri að hafa í huga að svo virðist sem stefndi hafi yfirtekið umrædd tryggingarbréf og veðskuldabréf frá SPRON án fyrirvara og að öllum líkindum á verulegu undirverði. Allur texti og uppsetning bréfanna sé í stöðluðu formi útbúin af SPRON, þ. á m. hvar útgefandi/skuldari eigi að undirrita, hvar maki útgefanda/skuldara skuli rita nafn sitt, hvar veðsali annar en útgefandi/skuldari eigi að rita nafn sitt o.s.frv. Af þessum sökum beri að túlka allan vafa um skuldbindingar stefnanda samkvæmt bréfunum stefnda í óhag, sbr. meðal annars andskýringarreglu samningaréttar.

                Stefnandi kannist ekki við að hún hafi verið beðin um að „lagfæra“ undirritanir sínar á bréfin og undirrita þau sem veðsali. Stefndi og SPRON hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti sem stefndi verði að bera skaðann af. Stefndi hafi haft ríka ástæðu til að sýna aðgæslu við móttöku bréfanna sem hafi myndað hluta af eignasafni sparisjóðsins. Stefndi sé sérfróður aðili á sviði fjármálaviðskipta og starfi á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sérfræðikunnáttan eigi meðal annars að ná til allra þátta útlánamála, þ. á m. skjalagerðar, ýmiss konar frágangs og virks eftirlits. Stefnandi sé hjúkrunarfræðingur að mennt og hafi ekki sérfræðiþekkingu á sviði fjármálaviðskipta. Því sé verulegur aðstöðumunur á málsaðilum sem beri að túlka stefnda í óhag. Aðgæsluskyldan liggi fyrst og fremst hjá stefnda. Því beri að túlka allan vafa á þeim skuldbindingum sem stefnandi hafi gengist undir með undirritun sinni á bréfin henni í hag.

                Ekkert greiðslumat á skuldara hafi farið fram við útgáfu tryggingarbréfanna og veðskuldabréfsins. Hafi stefnandi haft stöðu veðsala samkvæmt bréfunum sé ljóst að slík ábyrgðarskuldbinding sé ógild á grundvelli Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

                Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðist við að fjárkrafa hennar falli í gjalddaga um leið og hún hafi borist stefnda. Samkvæmt kaupsamningi hafi það gerst 4. apríl 2014. Megi því leiða kröfuna út frá þeim meginsjónarmiðum sem 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 byggist á. Til vara sé byggt á því að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við 1. maí 2015, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, en þá hafi verið einn mánuður liðinn frá því stefnandi hafi krafið stefnda um endurgreiðslu.

                Stefnandi krefjist þess jafnframt að stefndi greiði sér skaðabætur vegna kostnaður við rekstur máls nr. 45/2015 hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Kostnaðurinn sé fólginn í 5.000 króna kærugjaldi og kostnaði við ráðgjöf lögmanns við málareksturinn og síðari viðræðum milli stefnanda og stefnda um úrlausn málsins. Krafan byggist á almennu skaðabótareglunni að teknu tilliti til þeirrar sérfræðiábyrgðar sem á stefnda hvíli. Krafa um dráttarvexti af þessari kröfu byggist á 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og miðist upphafsdagur dráttarvaxta við þann dag er málið er höfðað.

                                                                                              III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína því að stofnað hafi verið til gilds veðréttar. Undirritanir stefnanda á tryggingarbréfin tvö og veðskuldabréfið sem um ræði hafi verið fullnægjandi. Það sé vissulega rétt að í tryggingarbréfinu að fjárhæð 8.000.000 króna, sem gefið hafi verið út 23. júní 2005, hafi stefnandi einvörðungu skrifað í reit með yfirskriftinni „Undirskrift maka skuldara“, að í tryggingarbréfinu að fjárhæð 5.100.000 krónur, sem útgefið var 4. febrúar 2008, hafi stefnandi einvörðungu ritað í reit með yfirskriftinni „Samþykki maka útgefanda“ og að aðrir fyrir fram skráðir reitir tryggingarbréfanna hafi verið auðir. Við útgáfu veðskuldabréfsins að fjárhæð jafnvirði 16.000.000 króna hafi stefnandi ritað í reiti með yfirskriftinni „Undirskrift maka skuldara“ og „Samþ. maka þinglýsts eiganda“. Engir reitir veðskuldabréfsins hafi verið auðir og ekki hafi verið gert ráð fyrir frekari undirritunum aðila.

                Við mat á því hvort stofnast hafi til gildra veðrétta með framangreindum undirskriftum stefnanda verði ekki horft fram hjá því að stefnandi hafi undirritað öll skjölin. Í þeim sé skýrt tekið fram að fasteign þeirra hjóna sé sett að veði með tilgreindum veðréttum. Þá sé sérstaklega tekið fram í veðskuldabréfinu að „öll eignin“ sé sett að veði. Stefnandi hafi þannig gert sér grein fyrir því að öll fasteignin hafi verið sett að veði með viðkomandi veðskjölum. Verði því að leggja til grundvallar að með undirritun hennar á skjölin hafi stofnast til gilds veðréttar í hverju og einu tilviki. Að sama skapi liggi fyrir að ætlun hennar hafi staðið til þess að veðsetja fasteignina fyrir skuldum eiginmanns hennar. Útgáfa skjalanna hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda, að minnsta kosti að því er varði veðskuldabréfið, en andvirði þess hafi verið nýtt til þess að fjármagna endurbætur á sameiginlegri fasteign og dvalarstað stefnanda og eiginmanns hennar og til að greiða upp lausaskuldir hennar.

                Þá verði að telja að með undirritun sinni á skjöl, sem síðar hafi komið til og greint sé frá í lýsingu málsatvika, hafi stefnandi samþykkt þær ráðstafanir sem upphafleg veðskjöl hafi borið með sér. Undirritanir hennar sýni jafnframt að ætlun hennar hafi frá upphafi staðið til þess að öll eignin yrði sett að veði fyrir skuldum eiginmanns hennar. Þessu til viðbótar megi nefna að athafnir stefnanda eftir undirritun skjalanna beri með sér að hún hafi fyllilega gert sér grein fyrir því hvað hafi falist í gerningunum og gengið út frá því að öll fasteignin væri sett að veði með þeim. Engin ástæða hafi verið til þess fyrir hana að haga sér með þeim hætti ef ætlun hennar hefði aldrei staðið til þess að veðsetja eignarhlut sinni eða hún teldi að eignarhlutur hennar í fasteigninni væri ekki settur að veði. Að sama skapi verði að telja að hún hafi sýnt tómlæti hvað þetta varði, bæði með því að haga athöfnum sínum í samræmi við það að öll eignin væri sett að veði og með því að hreyfa aldrei við athugasemdum vegna veðréttindanna. Ljóst sé að ætlun stefnanda hafi frá upphafi staðið til þess að öll fasteignin yrði sett að veði fyrir skuldum eiginmanns hennar með tryggingarbréfunum tveimur og veðskuldabréfunum. Að sama skapi hafi það verið ætlun SPRON að hann myndi fá veð í heildareigninni fyrir skuldum eiginmanns stefnanda, enda standi engin skynsemisrök til þess að fá veð í 50% eignarhluta í einbýlishúsi.

                Staðhæft sé í stefnu að ekki hafi farið fram greiðslumat á eiginmanni stefnanda við útgáfu tryggingarbréfanna tveggja og veðskuldabréfsins og af þeim sökum sé ábyrgðarskuldbinding stefnanda ógild á grundvelli Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Stefndi mótmæli þessari staðhæfingu og bendi á að skuldbinding stefnanda verði ekki ógilt á grundvelli nefnds samkomulags. Þessi röksemd stefnanda sé því að engu hafandi.

                Í aðdraganda útgáfu veðskuldabréfsins hafi stefnandi og eiginmaður hennar óskað eftir því að mat yrði gert á greiðslugetu eiginmanns stefnanda. Þau hafi skilað gögnum í því skyni og matið hafi sannarlega verið gert. Svo virðist sem SPRON hafi þó ekki tryggt sér nægjanlega sönnun fyrir því að stefnandi hafi kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins og að óskað hafi verið eftir því að lánið yrði veitt þótt niðurstaða greiðslumatsins benti til að eiginmaður stefnanda gæti ekki efnt skuldbindingu sína. Stefndi hafni því þó alfarið að þessi staðreynd geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

                Telja verði að stefnandi hafi fyrirgert rétti til að hafa uppi þessa röksemd vegna tómlætis enda sé langt um liðið síðan veðskjölin hafi verið gefin út. Ríkt tilefni hafi verið fyrir hana til að gera athugasemdir á fyrri stigum, sér í lagi í tengslum við öll greiðsluerfiðleikaúrræði sem hún og eiginmaður hennar hafi nýtt sér frá því veðskjölin hafi verið gefin út og ekki síður áður en fasteignin hafi verið seld og greitt upp í skuldirnar.

                Jafnvel þótt talið yrði að undirritanir stefnanda væru ófullnægjandi eða að upphaflegur lánveitandi hafi ekki að öllu leyti farið að Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga leiði það ekki sjálfkrafa til þess að óheimilt hafi verið að ráðstafa söluandvirði fasteignar stefnanda og eiginmanns hennar til greiðslu skulda þess síðarnefnda. Þaðan af síður leiði það til þess að stofnast hafi endurkrafa á hendur stefnda.

                Stefndi hafni því alfarið að skilyrði fyrir endurgreiðslukröfu stefnanda séu fyrir hendi. Engin rök séu færð fyrir því í stefnu hvernig til endurgreiðslukröfunnar hafi stofnast. Málatilbúnaður stefnanda verði einkum skilinn á þann veg að krafist sé endurgreiðslu þar sem greitt hafi verið umfram skyldu.

                Í stefnu sé rakið að stefnandi og eiginmaður hennar hafi ákveðið að selja fasteign sína að Hjallabrekku 41 frjálsri sölu, vegna of hárra skulda, í viðleitni þeirra við að endurskipuleggja fjármál sín. Í kaupsamningi um fasteignina frá 4. apríl 2014 komi fram að söluandvirði fasteignarinnar skyldi nýtt til greiðslu á lánum sem hafi hvílt á 1.-8. veðrétti eignarinnar. Í aðdraganda kaupsamningsins hafi fulltrúi stefnda samþykkt að veðum stefnda yrði aflétt gegn því að söluandvirðinu yrði ráðstafað til greiðslu áhvílandi lána. Með undirritun sinni á kaupsamninginn hafi stefnandi samþykkt að skuldir eiginmanns hennar yrðu greiddar með söluandvirðinu, þ.m.t. skuldir hans við stefnda. Með öðrum orðum hafi falist í þessu viðurkenning stefnanda á því að heimilt hafi verið að ráðstafa hluta söluandvirðisins til greiðslu krafna stefnda á hendur eiginmanni hennar. Stefnandi hafi ekki gert neinn fyrirvara við greiðsluna gagnvart stefnda. Hann hafi því ekki mátti reikna með að vera endurkrafinn um greiðsluna. Almennur fyrirvari í kaupsamningnum um lögmæti einstakra skilmála áhvílandi skuldabréfa á fasteigninni fái þessu ekki breytt, enda hafi honum ekki verið beint að stefnda. Þá hafi ekki verið vísað til veðsetningar eignarinnar í honum. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að gera sérstakan fyrirvara við greiðsluna gagnvart stefnda, teldi hún leika vafa á veðsetningunni, einkum með tilliti til þess að hún og eiginmaður hennar hafi notið aðstoðar ráðgjafa við sölu fasteignarinnar og þess að hún hafi undirritað skjal, útbúið af stefnda, sama dag og kaupsamningurinn hafi verið gerður, sem hafi staðfest veðflutning láns kaupenda fasteignarinnar á fyrsta veðrétt eignarinnar. Þetta sýni enn fremur að stefndi hafi verið í góðri trú um að heimilt hafi verið að nýta allt söluandvirði eignarinnar til greiðslu á skuldum eiginmanns stefnanda og hann myndi halda greiðslum inn á skuldir við hann.

                Samkvæmt þinglýsingarbókum hafi veðréttindi stefnda hvílt á fasteign stefnanda og eiginmanns hennar, þ.e. á allri eigninni en ekki aðeins eignarhluta eigin­manns hennar. Það hafi verið eðlilegt að stefnandi hafi sett sinn eignarhluta í fasteigninni að Hjallabrekku 41 að veði, sem tryggingu fyrir skuldinni, enda hafi hún ekki verið útgefandi veðskuldabréfsins. Stefndi viti ekki til þess að stefnandi hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við veðsetningu eignarinnar á tímabilinu frá því veðskjölin hafi upphaflega verið undirrituð og þinglýst á eignina og þar til söluandvirðið hafi verið nýtt til greiðslu á skuldum eiginmanns hennar. Þvert á móti megi ráða af gögnum málsins að ætlun stefnanda hafi frá upphafi staðið til þess að öll eignin stæði að veði fyrir skuldum eiginmanns hennar við SPRON og að á þessu tímabili hafi stefnanda verið fullljóst að veðsetningin hafi tekið til eignarinnar í heild. Þá hafi hún jafnframt ritað undir skjöl eftir upphaflega veðsetningu, þar sem veðréttindi SPRON, og síðar Dróma hf. og stefnda, hafi í raun verið staðfest eftir á. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að greitt hafi verið verið til stefnda sem stefnandi hafi haldið því fram að greitt hafi verið umfram skyldu. Að sama skapi hafi engin ástæða verið fyrir SPRON, og síðar Dróma hf. og stefnda, að ætla annað en að hann ætti veðréttindi í heildareigninni.

                Ef svo ólíklega fari að fallist verði á málatilbúnað stefnanda telji stefndi að lækka verði fjárhæð dómkröfu stefnanda verulega. Í því sambandi sé vísað til þess að útgáfa veðskjalanna hafi verið stefnanda til hagsbóta, að minnsta kosti að því er varði útgáfu veðskuldabréfsins. Andvirði veðskuldabréfsins hafi verið ráðstafað til endurbóta á fasteign stefnanda og eiginmanns hennar en einnig til greiðslu á lausaskuldum stefnanda. Taka verði tillit til þess við ákvörðun á endurgreiðslufjárhæðinni. Að öðrum kosti sé stefnandi að auðgast með ólögmætum hætti. Í þessari kröfu stefnda felist jafnframt að sú fjárhæð sem stefnandi hafi upphaflega notið góðs af hækki í samræmi við verðlagsbreytingar sem leiði til enn frekari lækkunar á dómkröfu stefnanda.

                Stefndi hafni því alfarið að skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt svo hægt sé að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar við rekstur máls nr. 45/2015 hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Fullyrðing stefnanda sé raunar ekki rökstudd í stefnu og stefndi eigi því erfitt um vik að koma að vörnum vegna kröfunnar.

                Horfa verði til þess að stefnandi hafi sjálf kosið að leita til lögmanns vegna meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefndinni, en nefndin geri ekki kröfu um það. Þaðan af síður standi lagaheimild til þess að skuldari krefji fjármálafyrirtæki um greiðslu þess kostnaðar sem hljótist af málsmeðferð hjá nefndinni. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi greitt málskostnaðarreikning lögmanns hennar sem liggi til grundvallar kröfunni. Hún hafi því ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni.

                Að auki hangi þessi dómkrafa stefnanda náið saman við fyrri dómkröfuna og verði því að sýkna stefnda af seinni kröfunni ef þeirri fyrri verði hafnað.

                Kröfum stefnanda um dráttarvexti sé sérstaklega mótmælt. Verði yfirhöfuð fallist á greiðslukröfur stefnanda sé dráttarvaxtakröfum hennar mótmælt sem vanreifuðum, sem leiði til frávísunar þeirra frá dómi, án kröfu. Í dómkröfunum komi ekki fram hvaða dráttarvexti um sé að ræða og af hvaða fjárhæð krafist sé dráttarvaxta. Vaxtafótur sé heldur ekki tilgreindur. Þá beri endurgreiðslukröfur að meginreglu ekki vexti. Upphafsdegi dráttarvaxta sé því mótmælt. Stefnandi telji að upphafsdagur dráttarvaxta verði að miðast við dómsuppsögu, verði yfirhöfuð fallist á málatilbúnað stefnanda.

                                                                                              IV

                Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort stefnda var heimilt að nýta andvirði eignarhluta stefnanda í fasteigninni að Hjallabrekku 41 í Kópavogi til uppgjörs á skuldum eiginmanns hennar við stefnda á grundvelli tveggja tryggingarbréfa og eins veðskuldabréfs sem þinglýst var á framangreinda fasteign, sem var einbýlishús í jafnri sameign þeirra hjóna. Stefnandi krefst endurgreiðslu á þeim grundvelli að hún hafi, með undirritun sinni á framangreind veðskjöl, ekki samþykkt veðsetningu síns eignarhluta í fasteigninni til tryggingar á skuldum eiginmanns hennar við SPRON, nú stefnda. Ekki hafi því stofnast til gilds veðréttar í hennar eignarhluta.

                Stefnandi byggir meðal annars á því að ekkert greiðslumat hafi farið fram á skuldara og ábyrgðarskuldbinding hennar sé þegar af þeim sökum ógild á grundvelli Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Framangreint samkomulag felur ekki í sér sjálfstæða heimild til ógildingar ábyrgðarskuldbindingar, heldur verður að finna slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar. Stefnandi hefur ekki vísað til neinna slíkra reglna og er því óþarft að fjalla frekar um framangreinda málsástæðu.

                Til þess að til veðréttar í eignarhluta stefnanda í fasteigninni geti hafa stofnast þarf að liggja fyrir samþykki hennar fyrir því að setja hann að veði til tryggingar skuldum útgefanda bréfanna. Slíkt samþykki er einnig nauðsynlegt til þess að veðréttindum verði þinglýst á fasteignina samkvæmt þeirri meginreglu þinglýsingalaga nr. 39/1978 að sá einn geti ráðstafað eign með löggerningi sem til þess hefur þinglýsta heimild eða samþykki þess er slíkrar heimildar nýtur, sbr. 24. gr. og 25. gr. laganna. Fyrir liggur að framangreindum skjölum var öllum þinglýst athugasemdalaust á fasteignina.

                Öll skjölin sem um ræðir voru útbúin af lánveitanda og veðhafa, SPRON, og bar hann ábyrgð á framsetningu þeirra og efni. Gera verður þær kröfur til hans, sem fjármálafyrirtækis, að hann vandi skjalagerð og frágang skjala. Það er á hans ábyrgð að tryggja að réttilega sé gengið frá skjölum og hann hafi skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir veðréttindum sínum.

                Í umræddum tryggingarbréfum var veðsettu eigninni lýst sem Hjallabrekku 41 í Kópavogi og fastanúmer tilgreint 206-1596. Í veðskuldabréfinu var sérstaklega tekið fram að „öll eignin“ væri veðsett. Bréfin báru þannig með sér að fasteignin væri öll sett að veði.

                Bréfin voru öll gefin út af eiginmanni stefnanda og undirrituð af stefnanda sem maka skuldara, maka útgefanda og maka þinglýsts eiganda. Stefnandi ritaði ekki undir reit á tryggingarbréfunum þar sem sem gert var ráð fyrir samþykki þinglýsts eiganda heldur var hann auður. Eiginmaður stefnanda ritaði hins vegar undir þann reit á veðskuldabréfinu og stefnandi ritaði undir sem samþykkur maki þinglýsts eiganda, auk þess sem hún ritaði undir sem maki skuldara. Undirritanir stefnanda á bréfin bera samkvæmt þessu ekki með sér að hún hafi samþykkt að veðsetja sinn eignarhluta í fasteigninni. Undirritun hennar getur því samræmst því að hún hafi samþykkt veðsetninguna sem maki útgefanda bréfanna að því er hans eignarhluta varði, sbr. 60. og 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

                Með skilmálabreytingu 8. október 2009 var skilmálum á einni þeirra skulda eiginmanns stefnanda sem tryggð var með tryggingarbréfunum breytt. Eiginmaður stefnanda undirritaði skilmálabreytinguna sem útgefandi. Stefnandi ritaði þar undir reiti með yfirskriftina „Samþykki þinglýsts eiganda (ef annar en útgefandi)“ og „Samþykki þinglýsts eiganda og/eða maka þinglýst eiganda“.

                Í upphafi árs 2010 leituðu stefnandi og eiginmaður hennar tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna og hann jafnframt nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og var fallist á umleitanir þeirra, eins og þegar hefur verið lýst. Þá hefur verið gerð grein fyrir greiðsluaðlögunarumleitunum hjá Umboðsmanni skuldara. Við framangreindar umleitanir var gengið út frá því að eignarhluti stefnanda í fasteigninni væri veðsettur ásamt eignarhluta eiginmanns hennar.

                Þann 4. apríl 2014 seldu stefnandi og eiginmaður hennar fasteign sína að Hjallabrekku 41 í Kópavogi. Stefndi aflétti veðum sínum af fasteigninni gegn því að söluandvirðinu yrði ráðstafað til hans til greiðslu á skuldum eiginmanns stefnanda sem tryggðar væru með framangreindum bréfum. Þá felldi stefndi niður þann hluta lána sem eftir stóð umfram söluverð fasteignarinnar. Með undirritun kaupsamningsins lýsti stefnandi því að eftirstöðvar söluverðsins, eftir greiðslu lána á 1. til 5. veðrétti auk sölulauna, yrðu greiddar stefnda í þessu skyni. Þá undirritaði stefnandi samdægurs veðbandslausn.

                Samkvæmt gögnum málsins gerði stefnandi ekki neinn fyrirvara gagnvart stefnda vegna greiðslu sinnar og engin athugasemd var gerð af hennar hálfu vegna veðsetningarinnar eða greiðslunnar fyrr en hún kvartaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki 27. nóvember 2014. Þeim fyrirvara sem fram kemur í kaupsamningi var ekki beint að stefnda, en hann virðist snúa að því að tryggja að leiðréttingar vegna gengistryggðra lána fari til seljenda. Við sölu fasteignar stefnanda og eiginmanns hennar nutu þau aðstoðar ráðgjafa hjá fyrirtækinu Procura ráðgjöf ehf. Þrátt fyrir það voru, sem fyrr segir, engar athugasemdir gerðar við veðsetningu eignarhlutar stefnanda í fasteigninni. Ekkert bendir til þess að stefndi hafi verið í vondri trú um að um gilda veðsetningu væri að ræða, en fyrir því eru dómafordæmi að slík veðsetning hafi verið talin gild, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 111/2001 og 162/2009. Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á að skilyrði fyrir endurgreiðslu stefnda til stefnanda séu uppfyllt.

                Krafa stefnanda um skaðabætur, vegna kostnaðar við málarekstur hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og síðar gagnvart stefnda, telst til málskostnaðar, sbr. g-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Rétt þykir, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Herdísar Jónsdóttur.

                Málskostnaður fellur niður.