Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2003


Lykilorð

  • Umsýslusamningur


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003.

Nr. 127/2003.

Ottó Gunnlaugur Ólafsson og

Magnea Reynarsdóttir

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Tupperware Nordic A/S

(Jónatan Sveinsson hrl.)

og gagnsök

 

Umsýslusamningur.

Ó og M tóku að sér að sjá í umsýslu um dreifingu og sölu á vörum T. Síðar slitu Ó og M samningi sínum við T, sem þá krafði þau um greiðslur sem verið höfðu í vanskilum. Fyrir dómi báru Ó og M fyrir sig að þau ættu á móti rétt á að fá greitt fyrir viðskiptavild, líkt og fyrri dreifingaraðili T á Íslandi fékk þegar þau tóku við dreifingunni. Fyrir lá að Ó og M höfðu innt af hendi greiðslu fyrir viðskiptavild og jafnframt að fyrri dreifingaraðili hafði tekið við greiðslu fyrir slíkt. Með því að talið var ósannað, að komist hafi á samningur um að T skyldi greiða Ó og M sérstaklega fyrir viðskiptavild þegar þau hættu að selja vörur hans hér á landi, voru kröfur T teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. janúar 2003. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 12. mars sama árs og áfrýjuðu þau á ný 7. apríl með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Krefjast þau þess að höfuðstóll kröfu gagnáfrýjanda verði lækkaður um 500.000 danskar krónur. Jafnframt krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 18. júní 2003. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjendur verði sameiginlega dæmd til að greiða honum málskostnað fyrir héraðsdómi. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms höfðuðu aðaláfrýjendur sérstakt vitnamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hefur endurrit af skýrslutöku í því máli verið lagt fyrir Hæstarétt þar sem Ásdís Kristinsdóttir, sem áður hafði með höndum umsýslu hér á landi fyrir gagnáfrýjanda, gaf skýrslu fyrir dómi. Auk þess hafa aðaláfrýjendur lagt fyrir Hæstarétt nokkur ný gögn.

Haustið 1991 gerðu aðilar máls með sér samning um að aðaláfrýjendur skyldu í umsýslu sjá um dreifingu og sölu á vörum gagnáfrýjanda hér á landi, sem aðrir höfðu áður annast tveggja ára skeið. Aðaláfrýjendur mótmæla þeirri málavaxtalýsingu sem höfð er eftir þeim í héraðsdómi að þau hafi greitt fyrri dreifingaraðilum 500.000 danskar krónur vegna viðskiptavildar, að gagnáfrýjandi hafi veitt þeim fjárhagslega fyrirgreiðslu í þessu sambandi og séð um greiðslu til fyrri dreifingaraðila. Hið rétta sé að aðaláfrýjendur hafi greitt gagnáfrýjanda sjálfum fyrir viðskiptavildina og hafi fyrri dreifingaraðilar ekki komið að þeim samningi. Greinargerð aðaláfrýjenda í héraði er ekki glögg um þetta atriði, en af henni má þó ráða að aðaláfrýjendur hafi haldið þessu fram. Af framlögðum gögnum sem stafa frá gagnáfrýjanda sjálfum um viðskipti málsaðila á árunum 1991 og 1992, framburði Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, er annaðist fyrir hönd gagnáfrýjanda samninga við aðaláfrýjendur á árinu 1991 og framburði áðurnefndrar Ásdísar Kristinsdóttur, verður ekki annað ráðið en að málsatvik hafi að þessu leyti verið með þeim hætti sem aðaláfrýjendur halda fram.

Gegn mótmælum gagnáfrýjanda er ósannað að með aðilum hafi komist á samningur um að hann skyldi greiða aðaláfrýjendum sérstaklega fyrir viðskiptavild er þau hættu að selja vörur hans á Íslandi. Með lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu var numin úr gildi sérregla 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt. Fer því um dráttarvexti af slíkum kröfum eftir almennum reglum sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, nema um annað sé samið. Í máli þessu er engum samningi til að dreifa um dráttarvexti.

Með framangreindum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjendur, Ottó Gunnlaugur Ólafsson og Magnea Reynarsdóttir, greiði sameiginlega gagnáfrýjanda, Tupperware Nordic A/S,  250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2002.

Stefnandi máls þessa er Tupperware Nordic A7S, Sejregade 9, DK-2100, Kaupmannahöfn, Danmörku, en stefndu eru Ottó Gunnlaugur Ólafsson, kt. 170353-7579, og Magnea Reynarsdóttir, kt. 290156-4599, bæði með lögheimili að Suður_húsum 15, Reykjavík, en nú búsett erlendis, án þess að upplýst sé hvar það sé.

Málið var höfðað með stefnu, dagsettri 8. apríl sl., sem birt var á lögheimili stefndu hinn 9. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 16. apríl sl. en dómtekið 16. október sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi. 

Dómkröfur:

Stefnandi krefst þess, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum 1.695.593,37 danskar krónur, auk dráttarvaxta af dönskum krónum, skv. auglýsingu Seðlabanka Íslands, nú 7% ársvexti, frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Endanlegar kröfur stefndu eru þær, að frá fjárkröfu stefnanda dragist 500.000 danskar krónur, auk þess dragist frá 6.511,54 danskar krónur og 87.150 krónur íslenskar. Þá krefjast stefndu þess, að dráttarvextir af tildæmdri fjárhæð reiknist frá uppkvaðningu dóms í málinu.

Loks krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Stefnandi:

Stefnandi lýsir málavöxtum svo, að málsaðilar hafi á árinu 1991 gert með sér sölusamning, þar sem stefndu tóku að sér að selja vörur stefnanda á Íslandi. Grund­völlur þess samnings hafi verið samningur stefndu við fyrri sölu- og dreifingaraðila, sem falist hafi í því, að stefndu tækju við dreifingunni gegn greiðslu á viðskiptavild, sem miðast hafi við þáverandi söluveltu á vörum stefnanda á Íslandi. Stefnandi hafi samþykkt, að stefndu tækju við dreifingarsamningnum og einnig fallist á að fjármagna greiðslu þeirra á viðskiptavild til fyrri söluaðila. Stefndu skyldu síðan endurgreiða stefnanda þá fjárhæð í tengslum við greiðslur á vörum, sem þau myndu kaupa af stefnanda til endursölu. Samkvæmt samningnum skyldu stefndu kaupa vörur af stefnanda gegn gjaldfresti og endurselja með álagningu til heild- og smásala á Íslandi.  Þann 29.10.2001 hafi stefndu óskað eftir því við stefnanda, að samningnum yrði slitið. Þau hafi þá verið í vanskilum við stefnanda um nokkurt skeið. Í kjölfarið hafi máls­aðilar skipst á bréfum um uppgjör á skuld stefndu, sem numið hafi skv. yfirliti stefnanda, dags. 2. febrúar 2002, 1.695.593,37 dönskum krónum.  Þar sem stefndu hafi ekki greitt skuld sína hafi stefnandi leitað til lögmanns, sem ritaði stefndu bréf þann 11. mars 2002 og krafðist greiðslu á framangreindri fjárhæð, en þó þannig, að boðinn var afsláttur, án skyldu vegna yfirfærðrar viðskiptavildar, að fjárhæð 120.000 danskar krónur, þótt enginn hefði þá tekið við sölu og dreifingu á vörum stefnanda á Íslandi. Sá fyrirvari hafi verið gerður af hálfu stefnanda, að því er afsláttinn varðaði, að gengið yrði frá greiðslu eða samningi um skuldina innan 10 daga. Sá frestur hafi síðar verið framlengdur í samtali við lögmann stefndu. Stefndu hafi ekkert aðhafst og engin viðbrögð sýnt við greiðslutilmælum stefnanda, og því sé hann knúinn til að höfða mál þetta og krefja stefndu um ógreidda viðskiptaskuld þeirra á grundvelli ofangreinds samnings.

Stefnandi byggir málsókn sína á því, að stefndu hafi vanefnt greiðslu á skuld vegna vörukaupa á grundvelli sölu- og dreifingarsamnings frá 1991. Allar vörurnar hafi verið afhentar stefndu fyrir alllöngu. Viðskiptaskuldin sé viðurkennd af þeirra hálfu og hafi ekki verið mótmælt tölulega.

Vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, svo og megin­reglunnar um skuldbindingargildi samninga, en til stuðnings kröfu sinni um dráttar­vexti af gjaldföllnum greiðslum vísar stefnandi til III. og V. kafla laga nr. 38/2001, sbr. bráðabirgða ákvæði III sömu laga. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til XXI. kafla  laga 91/1991.

Stefndu:

Stefndu lýsa málavöxtum svo, að stefnandi hafi sett það skilyrði fyrir gerð samningsins árið 1991, að þau greiddu fyrri dreifingaraðilum 500 þúsund danskar krónur í viðskiptavild (goodwill) og keyptu af þeim vörubirgðir. Þau hafi engin afskipti haft af fyrri dreifingaraðilum og enga samninga gert við þá og hafi enga hugmynd haft um það, hvernig sú fjárhæð hafi komið til. Stefnandi hafi veitt þeim fjárhagslega fyrirgreiðslu til að greiða viðskiptavildina og séð um greiðslu hennar til fyrri dreifingaraðila. Þau hafi ekkert komið þar við sögu. Stefnandi hafi gengið fast eftir greiðslu og hafi þau orðið að endurgreiða honum veitta fjárhagsaðstoð á fimm mánuðum og hafi það valdið þeim miklum fjárhagserfiðleikum.  Komið hafi á daginn fljótlega eftir gerð samningsins, að fyrri dreifingaraðilar héldu áfram að selja vörur frá stefnanda. Stefnandi hafi því fengið Einar Gaut Steingrímsson hrl. til að semja við þá. Í samningnum milli stefnanda og fyrri aðila komi skýrt fram, að brot á samningnum, sem varði sölu á vörum stefnanda, veitti stefnanda rétt til skaðabóta úr hendi viðsemjanda hans, en ekki stefndu. Einnig hafi komið í ljós fljótlega eftir gerð samningsins, að það vörumagn, sem þau yfirtóku af fyrri dreifingaraðila fyrir atbeina stefnanda, hafi verið mun minna, en reikningar hafi sýnt. Þetta hafi aldrei verið leiðrétt af hálfu stefnanda. Þau hafi verið algjörlega reynslulaus, þegar þau gengu til samninga við stefnanda og ekki áður rekið fyrirtæki.  Þau hafi því gengið að öllu, sem stefnandi hafi sagt og lagt til, enda um alþjóðlegt fyrirtæki að ræða. Þau hafi ein og óstudd komið sér upp víðtæku umboðsmanna- og dreifingarkerfi, sem ekki hafi áður verið fyrir hendi. Þau hafi því ekki tekið við neinu frá fyrri dreifingaraðilum. Stefndu hafi sagt upp samningnum við stefnanda með bréfi, dagsettu 29. október 2001. Töldu þau sig geta losnað frá samningnum og samið um uppgjör við stefnanda á u.þ.b. einum mánuði, enda hafi stefnandi lýst því yfir, að skipti á dreifingaraðilum ættu að ganga fljótt fyrir sig. Stefnandi hafi á hinn bóginn óskað eftir því, að þau héldu viðskiptum áfram, þar til tekist hefði að finna nýjan dreifingaraðila. Í janúarmánuði sl. hafi fulltrúi stefnanda komið til Íslands í því skyni að velja nýjan dreifingaraðila úr hópi þeirra, sem sóst höfðu eftir því að taka við því starfi.  Stefndu hafi gert stefnanda það boð, að nýir aðilar mættu nota lagerhúsnæðið þeirra fyrstu tvo mánuðina á meðan þeir væru að fastmóta áætlanir sínar. Þetta hafi stefnanda þótt kostaboð. Stefnandi hafi eftir sem áður sent þeim vörur og skuldfært þau fyrir þeim. Þau hafi neitað þessu, eftir að nýr aðili hafði tekið við. Stefnandi hafi brugðist við á þann hátt, að hann hafi ákveðið að hætta að selja vörur sínar á Íslandi. Það hafi þó ekki gengið eftir, enda hafði það mælst illa fyrir af viðskiptamönnum, sem hafi verið ósáttir við það.  Stefnandi hafi því ellefu dögum síðar breytt afstöðu sinni og haft samband við fyrirtækið Mirella og óskað eftir því, að það annaðist sölu á vörum félagsins hér á landi, en með breyttu fyrirkomulagi. Það hafi síðan orðið niðurstaðan. Stefndu hafi síðan veitt eigendum Mirella alla þá aðstoð og aðstöðu, sem þeim hafi verið unnt.

Stefndu byggja á því, að þau hafi engan samning gert við fyrri dreifingaraðila. Stefnandi hafi upp á sitt einsdæmi ákveðið, að stefndu skyldu greiða þetta fé.  Fyrri aðilar hafi aðeins annast sölu á vörum stefnanda í tvö ár og hafi staðið sig illa í starfi. Stefndu hafi á hinn bóginn selt fyrir u.þ.b. einn milljarð íslenskra króna á þeim 12 árum, sem þau störfuðu í þágu stefnanda. Því ætti viðskiptavild þeirra að nema margfaldri þeirri fjárhæð, sem stefnandi gerði þeim að greiða. Stefndu vísa einnig til þess, að sá aðili, sem tók við af þeim hafi gengið inn í fullkomið og fullmótað sölukerfi með neti af sölumönnum um allt land. Einnig hafi þau látið hinum nýja aðila í té aðgang að tölvukerfi þeirra með öllum upplýsingum og nauðsynlegum forritum.

Stefndu byggja á þeirri meginreglum íslensks réttar, að menn skuli halda loforð og samninga, sbr. samningalög nr. 7/1936. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísa stefndu til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða:

Einar Gautur Steingrímsson hrl. og Herdís Ívarsdóttir gáfu skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Framburður þeirra er í meginatriðum, sem hér segir:

Einar Gautur Steingrímsson hrl. upplýsti, að hann hefði komið að samningum við fyrri dreifingaraðila stefnanda, þau Ásdísi Kristinsdóttur og Ara Magnússon, fyrir milligöngu stefnda Ottós. Ástæða þess hafi verið sú, að stefnanda hafi vantað lögmann á Íslandi til að gera samning við fyrri söluaðila, en stefnandi hafði m.a. lofað að greiða þeim goodwill. Þessir aðilar hafi legið undir grun um að selja vörur frá stefnanda í trássi við samning, sem málsaðilar höfðu gert,  og einnig hafi grunur leikið á um það, að þau Ásdís og Ari hefðu tekið vörur út af lager, eftir að vörutalning hafði átt sér stað í tilefni af samningi málsaðila.  Af þessum ástæðum hafi stefnandi frestað greiðslu umsamins goodwills. Á ýmsu hafi gengið þar til samningur sá, sem liggi frammi í málinu, hafi verið undirritaður. Samhliða þeim samningi hafi annað samkomulag verið gert. Í því samkomulagi sé tekið fram, að þau Ásdís og Ari hafi undirritað fyrrgreindan samning í trausti þess, að fullnaðaruppgjör færi fram milli þeirra og stefnanda, m.a. um greiðslu á umsömdum goodwill.  Ekki hafi farið milli mála, að stefnandi, en ekki stefndu, hafi átt að greiða umsaminn goodwill, enda hafi vitnið verið eingöngu að vinna fyrir stefnanda og hafi á þessum tíma verið í sambandi við starfsmann stefnanda, Sören að nafni. Vitnið kveðst aftur á móti hafa þekkt stefnda Ottó frá fyrri tíð. Hann kvaðst enga vitneskju hafa um það, hvernig umræddur goodwill hafi verið tilkominn eða upphæð hans fundin út, en upphæðin hafi legið fyrir, þegar leitað hafi verið til hans. Sú upphæð hafi verið gulrótin, sem hann hafi veifað framan í þau Ásdísi og Ara í því skyni að fá þau til að ganga frá samningum við stefnanda.

Vitnið Herdís Ívarsdóttir, kvaðst hafa verið sölumaður og hópstjóri hjá stefnanda frá árinu 1991. Hún hafi sótt um að fá að annast um dreifingu á söluvörum stefnanda, ásamt Maríu Ívarsdóttur, þegar stefndu hættu því starfi og hafi það gengið eftir. Þetta hafi gerst með þeim hætti, að starfsmaður stefnanda hafi komið frá Kaupmannahöfn og boðað alla umsækjendur á fund. Hafi hún og María hafi orðið fyrir valinu. Þær hafi verið boðaðar í viðtal og nokkrum dögum síðar hafi verið haft samband við þær og þær beðnar um að taka við starfinu.  Það hafi ekki gerst fyrir milligöngu stefndu, en þau hafi boðið fram aðstoð sína, sem hafi verið þegin. Vitnið og María hafi til að byrja með gengið inn í þá aðstöðu, sem fyrir var hjá stefndu í janúar sl. og starfað í tvær vikur. Þá hafi stefnandi ákveðið að hætta starfsemi á Íslandi, en breytt þeirri ákvörðun viku síðar. Hún og María hafi ekki byrjað að starfa að nýju fyrir stefnanda, fyrr en í apríl. Þær hafi í upphafi verið til húsa í húsnæði stefndu og hafi það verið í fullu samráði við stefnanda. Þær hafi keypt lager stefndu. Stefnanda hafi verið kunnugt um það og engar athugasemdir gert, en þó líklega ekkert litist á þá ráðstöfun. Ekki hafi verið rætt um viðskiptavild í samningi hennar og Maríu við stefnanda, né heldur sé ákvæði í samningnum um, að þær fái greidda viðskiptavild, þegar samningnum við stefnanda ljúki. Stefndu hafi heldur engar kröfur gert um goodwill á hendur henni og Maríu.  Þær hafi aðeins keypt af stefndu vörulager, skrifstofuhúsgögn og annað, s.s. aðgang að upplýsingum um umboðsmannakerfi stefndu í tölvutæku formi. Samningsfjárhæðin hafi numið u.þ.b. þremur milljónum króna, að því er vitnið minnti, og hafi verð á vörulagernum byggst á vörutalningu, sem stefndu hafi framkvæmt.

Álit dómsins:

Stefnandi hefur samþykkt að frá stefnufjárhæðinni dragist 6.511,54 danskar krónur og 87.150 íslenskar krónur, sem er upphæð reiknings, sem dagsettur er 25. mars 2002 og liggur frammi í málinu sem dómskjal nr. 13.

Mál þetta varðar því einungis það álitaefni, hvort stefndu eigi rétt á endur­greiðslu viðskiptavildar að fjárhæð 500.000 danskar krónur, sem þeim var gert að greiða, þegar þau tóku að sér að annast sölu og dreifingu á vörum stefnanda.

Ósannað er, hver var aðdragandi þess, að stefnandi innheimti umrædda fjárhæð hjá stefndu og greiddi hana Ásdísi Kristinsdóttur og Ara Magnússyni, sem önnuðust sölu og dreifingu á vörum stefnanda, áður en stefndu tóku við því starfi.

Stefndu halda því fram, að þau hafi aldrei samið við fyrri dreifingaraðila um greiðslu viðskiptavildar. Stefnandi hafi gert það að skilyrði fyrir því, að þau fengju söluumboð fyrir vörur hans hér á landi.

Stefnandi byggir á hinn bóginn á því, að stefndu hafi samið við þau Ásdísi og Ara um greiðslu viðskiptavildar og hlutur hans hafi verið sá einn að aðstoða stefndu við fjármögnun þessarar greiðslu.

Að mati dómsins gildir einu, hver var ástæða þess, að stefndu greiddu stefnanda umrædda fjárhæð fyrir viðskiptavild.

Ljóst er, að stefndu hafa annaðhvort gengið að þessu skilyrði stefnanda, hafi það verið forsenda hans fyrir því, að gengið var til samninga við þau, eða stefndu hafa sjálf samið við fyrri eigendur um umrædda viðskiptavild og stefnandi liðsinnt þeim um greiðslu umsaminnar fjárhæðar.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess, að stefnandi hafi skuldbundið sig til að endurgreiða stefndu umrædda viðskiptavild, þegar samningssambandi málsaðila lyki.

Viðskiptavild endurspeglar m.a. þá aðstöðu og viðskiptasambönd, sem fyrirtæki hefur komið sér upp og bókhald þess sýnir ekki, en nýtist þeim, sem tekur við rekstri þess. Það er því samningsatriði milli kaupanda og seljanda, hvort og hversu hátt skuli meta viðskiptavild.

Leitt er í ljós, að stefndu seldu Herdísi og Maríu Ívarsdætrum vörulager sinn, skrifstofubúnað og veittu þeim einnig aðgang að tölvubúnaði sínum og umboðs­mannakerfi.  Í þeim samningi var ekkert vikið að greiðslu fyrir viðskiptavild, að sögn vitnisins Herdísar Ívarsdóttur, en í þá átt bar stefndu að beina kröfu sinni þar að lútandi, að mati dómsins.

Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því, að stefndu áttu þess ekki kost að velja sér kaupanda. Stefnandi hafði þegar ákveðið, hver skyldi taka við stafi stefndu.

Verður til þess litið við ákvörðun málskostnaðar.

Stefnandi bauð stefndu afslátt að fjárhæð 120.000 danskar krónur, ef greitt yrði innan tiltekins frests eða um skuldina samið innan frestsins. Þetta boð var síðan endurtekið, án þess að stefndu uppfylltu það skilyrði, sem stefnandi setti. Þykir stefnandi því vera óbundinn af þessu tilboði sínu.

Niðurstaða málsins er því sú, að stefndu beri að greiða stefnanda 1.689.081,83, danskar krónur, að frádregnum 87.150 íslenskum krónum, miðað við gengi danskrar krónu gagnvart hinni íslensku hinn 25. mars 2002. Tekið hefur verið tillit til þess í tildæmdri fjárhæð, að stefnandi hefur samþykkt að draga megi frá stefnufjárhæð málsins 6.511,54 danskar krónur.

Dráttarvextir skulu reiknast af tildæmdri fjárhæð frá dómsuppsögudegi að telja.

Rétt þykir eins og mál þetta er vaxið, að hver málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Ottó Gunnlaugur Ólafsson og Magnea Reynarsdóttir, greiði stefnanda, Tupperware Nordic A/S, óskipt 1.689.081,83 danskar krónur, að frádregnum 87.150 íslenskum krónum, miðað við gengi danskrar krónu gagnvart hinni íslensku hinn 25. mars 2002, auk dráttarvaxta af dönskum krónum, samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá dómsuppsögudegi 19. nóvember 2002 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.