Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2018
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsdómur
- Kröfugerð
- Sakarefni
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2018 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Félagsdóms 22. júní 2018 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Félagsdómi. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Félagsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Orðalag bókunar 2 við samkomulag fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2. nóvember 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila ber með sér að vera stefnuyfirlýsing og markmiðssetning en ekki ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur aðila að samningnum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Félagsdóms 22. júní 2018.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 14. júní sl.
Úrskurðinn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Ragnheiður Harðardóttir, Sonja María Hreiðarsdóttir og Guðmundur B. Ólafsson.
Stefnandi er Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hörpu, Austurbakka 2, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði með dómi Félagsdóms sá skilningur stefnanda að stefndi sé bundinn af bókun nr. 2 í kjarasamningi aðila frá 2. nóvember 2011 og niðurstöðu starfshóps frá 20. ágúst 2012, að meðallaun almennra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands skuli frá 1. september 2012 ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM.
Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda. Þá krefst hann þess að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir þær dómkröfur að málinu verði vísað frá Félagsdómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati Félagsdóms.
Málavextir
Stefnandi er stéttarfélag starfsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur félagið staðið að gerð kjarasamninga við stefnda um kaup og kjör félagsmanna sinna. Allir hljóðfæraleikarar sinfóníuhljómsveitarinnar eru félagsmenn stefnanda.
Aðilar undirrituðu 2. nóvember 2011 samkomulag um breytingar og framlengingu á þágildandi kjarasamningi þeirra til 31. mars 2014. Samkomulaginu fylgja fimm bókanir sem varða meðal annars vinnuvernd, vinnufyrirkomulag, launaákvarðanir o.fl. Bókun 2 er svohljóðandi:
„Samningsaðilar munu fjalla um niðurstöður starfshóps Stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær og skulu þær koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012 eða í samræmi við þá útfærslu sem leiðir af niðurstöðu samningsaðila.
Þar til aðilar hafa komist að niðurstöðu fá hljómsveitarmenn sérstaka greiðslu vegna vinnu á laugardögum, sunnudögum og sérstökum frídögum sem fellur innan vinnuskyldunnar sem nemur kr. 7.000 fyrir hvern dag. Komi til vinnu á stórhátíðardögum sem falla innan vinnuskyldunnar fá hljómsveitarmenn kr. 10.500 fyrir hvern dag.“
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Greinargerð starfshópsins er dagsett 20. ágúst 2012 og þar er því lýst að honum hafi verið falið „að setja fram tillögur um breytingar á tilhögun vinnufyrirkomulags og launaákvarðana, sem þjóni betur hagsmunum annars vegar hljóðfæraleikara og hins vegar SÍ.“ Síðan segir að í þessu hafi falist athugun á launasetningu og vinnufyrirkomulagi hljóðfæraleikaranna, meðal annars í samanburði við laun og tekjur stétta með sambærilega menntun. Í 4. kafla greinargerðarinnar er fjallað um launasetningu og þar segir: „Við launasetningu er æskilegt að tekið verði tillit til mismunandi hópa innan hljómsveitarinnar og tryggt að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í SÍ verði ekki undir meðallaunum BHM.“
Óumdeilt er að ekki hefur náðst samkomulag milli aðila um nánari útfærslu á grundvelli bókunarinnar og greinargerðar starfshópsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður málið eiga undir Félagsdóm með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Stefnandi vísar til þess að þrátt fyrir framangreinda bókun 2 og niðurstöðu starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Starfmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi launasetning samkvæmt greinargerð starfshópsins ekki komist til framkvæmda. Með bréfi til stefnda 4. desember 2012 hafi Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM, kallað eftir því að bókun 2 yrði framfylgt en engin viðbrögð orðið af hálfu stefnda.
Stefnandi byggir á því að áðurnefnd bókun hafi sama gildi og kjarasamningur og því sé stefndi bundinn af henni líkt og af öðrum ákvæðum kjarasamnings aðila. Þá sé ljóst að stefndi sé einnig bundinn af niðurstöðu starfshópsins 20. ágúst 2012. Í bókuninni komi fram að aðilar skuli gera viðeigandi breytingar og að þær skuli koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012.
Stefnandi bendir á að hann hafi í þrígang kallað eftir leiðréttingu af hálfu stefnda, þ.e. á árunum 2012, 2014 og 2017, en stefndi hafi ekki sinnt því. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum stefnanda um launaleiðréttingu félagsmanna sinna sé stefnandi knúinn til að höfða mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnda
Til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að dómkrafa málsins sé þess eðlis að dómsorð eftir henni myndi ekki ráða til fullnaðarlykta tilteknu sakarefni á einn veg eða annan. Í kjarasamningum sé fjallað af nákvæmni og með afgerandi hætti um launalið, venjulega í launatöflum, og laun tilgreind í krónum. Þá sé þar fjallað um tiltekna þætti launa, til dæmis ef um sé að ræða tilkall til hækkunar, um fjárhæðir, jafngildi hundraðshluta þeirra eða með öðrum ótvíræðum mælikvörðum eins og flokkahækkunum. Dómkrafa um að laun hjá félagsmönnum í heilu stéttarfélagi, sem skiptist í mismunandi hópa, séu ekki undir meðallaunum tiltekinna aðildarfélaga geti ekki staðist, þótt markmið í kjaraviðræðum geti verið slík. Þótt slík markmið næðust með samningi myndi launaliður og ákvæði um laun engu að síður vera tilgreind með ótvíræðum hætti. Dómkrafa stefnanda, eins og hún sé fram sett, fullnægi því ekki 2. mgr. 25. gr. og d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Stefndi bendir á að með hliðsjón af orðalagi bókunarinnar og tillagna starfshópsins sé dómkrafa stefnanda fremur ráðagerð um gerð kjarasamnings og beiðni um að Félagsdómur ákvarði launalið. Það sé ekki á valdi Félagsdóms svo sem hann hafi bent á í fordæmum sínum og þá muni dómstólar ekki skylda aðila til samningsgerðar. Þá sé ekki unnt með dómi að knýja annan samningsaðila til samningsgerðar eða að þola skyldu sem ekki hafi náðst samningar um, enda hafi ekki verið kveðið á um efnisatriði í umræddri bókun. Jafnframt leiki vafi á því hvort málið heyri undir Félagsdóm eftir 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem ekki sé ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, heldur hvort niðurstaða starfshóps á grundvelli bókunar við kjarasamning skuli hafa sama gildi og kjarasamningur.
Loks bendir stefndi á að engin reifun liggi fyrir á launasetningu einstakra hópa innan Sinfóníuhljómsveitar Íslands, meðallaunum „almennra hljóðfæraleikara“ eða meðallaunum BHM. Málið sé því vanreifað um þá meginþætti sem í kröfugerð stefnanda felist.
Niðurstaða
Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkenndur verði með dómi Félagsdóms sá skilningur stefnanda að stefndi sé bundinn af bókun 2 í samkomulagi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2. nóvember 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila og þeirri niðurstöðu starfshóps 20. ágúst 2012, að meðallaun almennra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands skuli frá 1. september sama ár ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM. Af hálfu stefnanda er til stuðnings kröfugerðinni vísað til þess að þrátt fyrir bókunina og niðurstöðu starfshópsins sem og ítrekanir af hálfu stefnanda hafi launasetning henni til samræmis ekki komist á.
Í bókun 2 í kjarasamningnum 2. nóvember 2011 segir að samningsaðilar muni fjalla um niðurstöður starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsmannafélags hljómsveitarinnar og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær. Síðan segir að breytingarnar skuli koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012 eða í samræmi við þá útfærslu sem leiði af niðurstöðu samningsaðila. Loks er í bókuninni mælt fyrir um með hvaða hætti beri að greiða hljómsveitarmönnum sérstaklega vegna vinnu á tilteknum dögum þar til aðilar hafa komist að niðurstöðu að þessu leyti.
Að því er fram kemur í greinargerð starfshópsins var honum falið að „hafa að leiðarljósi að setja fram tillögur um breytingar á tilhögun vinnufyrirkomulags og launaákvarðana“ sem þjónuðu betur hagsmunum annars vegar hljóðfæraleikara og hins vegar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Segir í greinargerðinni að í þessu hafi falist athugun á launasetningu og vinnufyrirkomulagi hljóðfæraleikaranna, meðal annars í samanburði við laun og tekjur stétta með sambærilega menntun. Í því augnamiði hafi hópurinn átt að skoða hvernig slíku væri háttað, til dæmis í nágrannalöndunum. Jafnframt er fjallað um sameiginleg markmið sinfóníuhljómsveitarinnar og hljóðfæraleikara, vinnutíma og vinnufyrirkomulag og launasetningu. Að því er varðar launasetningu er rakið að laun hjá hljómsveitinni hafi dregist verulega aftur úr meðallaunum félagsmanna innan BHM sem megi álíta hentugustu viðmiðunina með hliðsjón af sérhæfingu og menntun. Síðan segir um tillögu starfshópsins, sem lýtur að launasetningu, að æskilegt sé að tekið verði tillit til mismunandi hópa innan hljómsveitarinnar og tryggt að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í hljómsveitinni verði ekki undir meðallaunum BHM. Í minnisblaði starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins 5. desember 2012, þar sem gerð er grein fyrir afstöðu ráðuneytisins til tillagna starfshópsins, kemur fram sú afstaða að þetta markmið þurfi að útfæra í stofnanasamningi.
Almennt er litið svo á að ekki skipti máli hvort samningsatriði er komið fyrir í sérstakri bókun, sem ekki er hluti af meginmáli kjarasamnings, eða í kjarasamningnum sjálfum. Fyrir liggur að ekki hefur náðst samkomulag milli málsaðila um útfærslu á launasetningu hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands til samræmis við það sem fram kemur í bókun 2 með kjarasamningi 2. nóvember 2011 og niðurstöðu starfshóps stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsmannafélags hljómsveitarinnar.
Orðalag bókunar 2 og niðurstöðu starfshópsins, sem hér þykir skipta máli, hefur verið rakið hér að framan. Í bókuninni segir að samningsaðilar muni fjalla um niðurstöður starfshópsins og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær, án þess að þar sé því lýst með skýrum hætti hvernig eigi að útfæra þær eða hvers efnis kjarasamningurinn eigi að verða að þeim breytingum loknum. Í niðurstöðu greinargerðar starfshópsins, sem vitnað er til í viðurkenningarkröfu stefnanda, er tekið þannig til orða að við launasetningu sé æskilegt að tryggt verði að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands verði ekki undir meðallaunum BHM. Það er mat Félagsdóms að þetta orðalag beri frekar með sér að vera stefnuyfirlýsing og markmiðssetning höfunda þess heldur en ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur kjarasamningsaðila.
Þegar litið er til alls framangreinds er það því niðurstaða Félagsdóms að kröfugerð stefnanda lúti að hagsmunaágreiningi og atriðum, sem lúta að gerð kjarasamnings, en ekki að réttarágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Úrlausn um viðurkenningarkröfu stefnanda á því ekki undir Félagsdóm, hvorki á grundvelli 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem stefnandi reisir málsókn sína á, né samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Þá er kröfugerð stefnanda, eins og hún er fram sett, ekki í samræmi við ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Þegar af þessum ástæðum verður máli þessu vísað frá Félagsdómi.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnanda gert að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnandi, Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað.