Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/1998
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Tilraun
- Miskabætur
|
|
Miðvikudaginn 21. apríl 1999. |
|
Nr. 491/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Ragnari Duerke Hansen (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kynferðisbrot. Tilraun. Miskabætur.
R var ákærður fyrir kynferðislega misneytingu með því að hafa notfært sér ölvunarástand K sem var gestkomandi á heimili hans. Talið var sannað með hliðsjón af framburði K, R og annarra að hann hefði gerst sekur um tilraun til brots gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest svo og refsing R en refsingin ákveðin óskilorðsbundin. Þá voru K dæmdar miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 3. desember 1998 að ósk ákærða, sem áfrýjar því í heild sinni. Einnig er áfrýjað af hálfu ákæruvalds.
Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu hans. Jafnframt verði hann dæmdur til að greiða kæranda málsins miskabætur ásamt vöxtum og málskostnaði eftir því, sem greint er í ákæruskjali.
Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæru um brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992, og frávísunar á kröfu um miskabætur, en til vara þess, að refsing verði milduð og miskabætur lækkaðar frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
Í málinu er ákærði sakaður um að hafa notfært sér ölvunarástand 17 ára gamallar stúlku, er stödd var á heimili ákærða sem gestur stjúpsonar hans, til að hafa við hana kynferðismök meðan hún hafi verið í svefni og ófær um að sporna við áleitni hans. Hafi þetta gerst um aðfaranótt sunnudags í október 1997, eftir að ákærði kom að stúlkunni sofandi á svefnsófa á heimilinu, þar sem hann ætlaði sér næturstað. Ákærði hefur sjálfur staðfest, að hann hafi lagt stúlkuna til hvílu í sófanum og klætt sig og hana úr öllum fötum, án þess að hún hafi rumskað svo að máli skipti. Lýsing hans fyrir dómi á atlotum við stúlkuna eftir þetta samrýmist því, að viðbrögð hennar hafi ráðist af svefndrunga, og hafi honum verið það ljóst. Fær það og aukinn stuðning í frásögn hans við skýrslugjöf fyrir lögreglu 10 dögum eftir atburðinn, sem var eindregnari að þessu leyti. Ákærða og stúlkunni ber ekki saman um, hvort atlot af hans hálfu hafi staðið yfir, þegar hún hafi vaknað og farið fram úr svefnsófanum, en það raskar ekki þeirri ályktun, að tilraun til kynferðismaka á borð við samræði hafi átt sér stað. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms ber þannig að staðfesta þá niðurstöðu dómenda í héraði, að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 196. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Háttsemi ákærða gagnvart stúlkunni var alvarlegs eðlis. Verknaðurinn er þó ekki metinn sem fullframið brot, og ákærði hefur ekki áður orðið brotlegur við almenn hegningarlög. Með tilliti til þess þykja ekki efni til að verða við kröfu ákæruvalds um þyngingu refsingar hans frá því, sem á var kveðið í héraðsdómi. Skilorðsbinding refsingarinnar þykir hins vegar ekki eiga við.
Í málinu nýtur ekki gagna um líðan kæranda í kjölfar atburðarins, en ljóst er, að verknaður sem þessi er til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Á kærandi rétt til miskabóta úr hendi ákærða, og þykja þær hæfilega ákveðnar 250.000 krónur, er greiðist með vöxtum sem í dómsorði segir. Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu lögmannskostnaðar vegna bótakröfunnar, 40.000 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, svo sem um er mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Duerke Hansen, sæti fangelsi 9 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað á að vera óraskað.
Ákærði greiði K 250.000 krónur í miskabætur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. október 1997 til 25. desember sama ár og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og 40.000 krónur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Héraðsdómur Reykjaness 10. nóvember 1998.
Ár 1998, þriðjudaginn 10. nóvember er í Héraðsdómi Reykjaness í málinu nr. S-240/1998: Ákæruvaldið gegn Ragnari Duerke Hansen upp kveðinn svohljóðandi dómur:
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara dags. 23. júní sl. á hendur Ragnari Duerke Hansen, kt. 210253-2709, [...] Kópavogi. Ákærði er í ákæru sakaður um ,,kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. október 1997, á heimili ákærða að [...] Kópavogi, notfært sér, að stúlkan K fædd 1980, sem þar var gestkomandi og hafði orðið mjög ölvuð, til að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök gegn vilja hennar meðan hún svaf áfengissvefni og gat af þeim sökum ekki spornað við verknaðinum.
Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð.
Björn L. Bergsson hdl., f.h. K., krefst greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. október 1997 til 19. nóvember 1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og kostnaðar við lögmannsaðstoð að viðbættum virðisaukaskatti.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Komi hins vegar til ákvörðunar refsingar þá krefst ákærði þess að refsingin verði skilorðsbundin. Þá krefst ákærði málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Ákærði krefst frávísunar bótakröfunnar en til vara, verði hann sakfelldur, þá verði krafan lækkuð.
Málið var dómtekið 20. október sl.
Við aðalmeðferð málsins var auk vitnaskýrslu af K teknar vitnaskýrslur af G, Z, C, J eiginkonu ákærða og Ragnheiði Bjarnadóttur lækni.
I.
K bar fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot þann 24. október 1997. Hefur hún lýst málavöxtum á þann veg við rannsókn og meðferð málsins að hún hafi verið gestkomandi allan laugardaginn 18. október 1997 hjá vini sínum Z að [...] Kópavogi, ásamt vinkonu sinni G og C, sem eru jafnaldrar hennar. Eftir kvöldverð hóf hún að neyta áfengis ásamt Z. Þegar líða tók á kvöldið kom stjúpfaðir hans, ákærði í máli þessu, heim ásamt tveimur kunningjum sínum og dvaldi þar stutta stund áður en hann fór ásamt félögum sínum á öldurhús. Urðu þau bæði hún og Z fljótlega mikið ölvuð en áfengi það sem þau drukku var sterkt og að mestu óblandað, bæði Jöklakrapi og vodka. Hin tvö sem voru með þeim í íbúðinni neyttu ekki áfengis. Rekur K minni til þess að Z hafi sofnað ölvunarsvefni og hún sjálf einnig eftir að hann var sofnaður. Tímasetningar man hún ekki varðandi þessa atburðarás. Það næsta sem hún kveðst muna er að hún hafi vaknað við það að maður lá ofan á henni og var að hafa við hana samfarir. Lá hún á bakinu allsnakin en maðurinn hélt uppi fótum hennar og var með getnaðarliminn inni í leggöngum hennar. Hefði hún í fyrstu haldið að maðurinn væri Z en fljótlega áttað sig á því að svo var ekki þegar hún heyrði ,,íslenska rödd“ en Z tali ekki íslensku. Brá henni mjög er hún sá að maðurinn var ákærði, stjúpi Z. Brá hún á það ráð að segja við hann í örvæntingu sinni að hún þyrfti að fara fram á klósett og hefði ákærði þá hætt og hún farið fram á klósett. Eftir að hafa verið þar nokkra stund fór hún inn í herbergi til Z og sagði honum hvað hafði gerst en hann hefði ekki tekið frásögn hennar gilda þó svo hann hefði svarað ,,I know“ og seinna gefið í skyn að hún hefði alveg eins getað gert þetta viljug. Hefur K giskað á að klukkan hafi verið nálægt sex um morguninn þegar hún vaknaði með manninn ofan á sér, liggjandi á einhverskonar svefnsófa í sjónvarpsherbergi í íbúðinni. K hefur ekki treyst sér til þess að fullyrða að ákærða hafi orðið sáðlát og í raun sagt að þrátt fyrir að hún telji það líklegt viti hún ekki um það. Frá því að hún vaknaði með manninn ofan á sér og þar til hún gerði sér grein fyrir því hver hann var telur hún að áreiðanlega hafi liðið 2 mínútur og 5 mínútur hafi liðið þar til hún fór fram á bað og allan þennan tíma hafi ákærði verið að hafa við hana samfarir, haldið fótum hennar uppi og verið með liminn inni í henni. Nánar aðspurð fyrir dómi hefur K ekki treyst sér til þess að fullyrða að ákærði hafi verið með lim sinn inni í leggöngum hennar. Þegar þetta gerðist hafi G, vinkona hennar, einnig verið í íbúðinni í öðru herbergi og um morguninn, eftir að ákærði var farinn út, hafi hún sagt G frá því sem gerst hafði. Segir K að henni hafi fundist daginn eftir að enginn félaganna tæki sig bókstaflega og látið eins og ekkert hefði gerst og væri í raun ,,skítsama“. Þetta breyttist þó er hún fór að tala meira við þá C og Z en þeir hafi þá farið að taka mark á henni. Það var síðan síðari hluta sunnudagsins sem hún fór úr íbúðinni að [...] og svo loks heim til sín á mánudagskvöld. Hafi móðir hennar áttað sig á að eitthvað hafði komið fyrir og hún þá sagt henni eins og var. Segir K að fyrir tilstuðlan móður sinnar hafi hún leitað til Neyðarmóttöku vegna nauðgunar þar sem hún gaf skýrslu þann 22. október 1997. Daginn eftir hafi hún síðan tekið ákvörðun um að kæra atburðinn. Sneri hún sér til lögreglu í Kópavogi þann 24. október og kærði kynferðisbrot. Kom fram í máli K að hún hafi, þegar hún kom heim til sín á mánudagskvöldið, látið það verða sitt fyrsta verk að þvo fötin sem hún hafði verið í og fara í bað. Eftir þennan atburð héldu þau áfram að vera saman um skeið hún og Z þar til í byrjun janúar 1998 er upp úr sambandi þeirra slitnaði.
Lýsing ákærða á málavöxtum fyrir dóminum er á þá leið í aðalatriðum að hann hafi hitt K fyrr um kvöldið áður en umræddir atburðir áttu sér stað en K hafi komið á heimili hans af því að hún hafi átt vingott við stjúpson hans Z. Sjálfur hafi hann ekki átt nein samskipti við K, er þar var komið sögu, af þeim toga sem varð um nóttina. Er hann kom aftur heim til sín um klukkan 1 um nóttina eftir að hafa verið í gleðskap á veitingastað kvaðst hann hafa farið inn í herbergið þar sem hann var vanur að sofa. Kvaðst hann hafa drukkið áfengi um kvöldið en ekki verið mikið ölvaður. Inni í herbergi hans hafi K legið alklædd en sofandi á sófanum hans. Til þess að geta sjálfur farið að sofa þurfti hann að færa stúlkuna og draga sófann út. Að því búnu lagði hann K til á svefnsófann aftur. Í framhaldi af þessu klæddi hann hana úr öllum fötum og fór að strjúka henni og þukla auk þess sem hann bar olíu á líkama stúlkunnar m.a. á kynfæri hennar. Kvaðst hann ekki geta kallað kynferðislega tilburði sína gagnvart stúlkunni samfarir af þeim sökum að hann hafi ekki getu til slíks þegar hann hafi neytt áfengis. Hann minnist þess að hafa nuddað stúlkuna víðs vegar um líkamann, eftir að hafa borið á hana olíuna, m.a. nálægt kynfærum hennar. Hann kveðst einnig hafa lagst ofan á hana. Þau hafi látið vel hvort að öðru og hann ekki orðið annars var en að henni hafi ekki verið þetta á móti skapi, þó svo að hún hafi hvorki opnað augun né tjáð sig með orðum, að minnsta kosti hafi hún tekið utan um háls hans. Hann kveðst a.m.k. ekki hafa orðið þess var að neitt hafi farið fram milli þeirra þá um nóttina sem henni var á móti skapi. Þessa atburði segir hann hafa gerst á milli klukkan 1 og 2 um nóttina. Um klukkan 5 um morguninn hafi Z og G komið inn í herbergið, lyft, af þeim sænginni, og séð að þau voru bæði nakin. Segir ákærði að K hafi þá sagt eitthvað en Z og G hafi síðan farið út úr herberginu. Um það bil klukkutíma síðar hafi K sagt að hún þyrfti að fara á klósett sem hún gerði. Kvaðst hann ekki hafa heyrt neitt frá K eða orðið hennar var næstu daga. Nokkrum dögum síðar hafi verið haft samband við hann af lögreglu í Kópavogi og honum sagt að að mæta vegna kynferðisafbrots.
Lögregluskýrslur sem teknar voru af ákærða þann 29. október 1997 og 15. maí 1998 voru bornar undir hann fyrir dóminum. Kannast hann við að hafa gefið þessar skýrslur og ritað undir þær en sagði jafnframt að það sem hann hefði sagt nú fyrir dóminum sé hið rétta. Gaf ákærði þá skýringu á breyttum framburði sínum að hann hafi verið undir miklu álagi þegar skýrslurnar voru teknar. Fyrri skýrslan sem tekin var hafi verið tekin hratt og þegar hann hafi, í síðari skýrslunni, staðfest að hann hafi skýrt satt og rétt frá öllu í þeirri fyrri hafi hann verið gleraugnalaus, en hann sjái ekki án gleraugna. Í lögregluskýrslum er haft eftir ákærða er hann lýsir samskiptum sínum við K umrædda nótt: ,,Til þess að geta farið að sofa hafi hann þurft að færa stúlkuna og draga út sófann. Þetta hafi hann gert og síðan lagt stúlkuna til á svefnsófann aftur. Í framhaldi af því hafi hann klætt hana úr fötunum og farið að þukla á henni. Segir að það sem hann gerði geti varla kallast samfarir, þar sem hann hafi ekki haft getu til þess undir áhrifum áfengis. Hann hafi í nokkur skipti reynt að hafa við hana samfarir og meðal annars borið olíu á kynfæri hennar, en þetta hafi gengið illa þar sem honum hafi ekki risið almennilega hold. Hann telur þó að honum hafi einu sinni tekist að koma getnaðarlimnum inn í kynfæri hennar og þá hafi honum fundist hún rumska og hjálpa til, þannig að hún hafi þá tekið utan um hálsinn á honum. Hann hafi orðið að hætta þessu þar sem þetta hafi ekki gengið upp með nokkru móti. Hann hafi sofnað og síðan vaknað aftur við það að vinkona hennar hafi komið, lyft upp sænginni og verið eitthvað óhress.“ Hann var síðan inntur nánar eftir líkamsstellingum þeirra er hann var að reyna samfarir þessar og var svarið á þessa leið: ,,Fyrst hafi stúlkan verið á bakinu, en síðan á hlið. Hann hafi verið búinn að klæða stúlkuna úr fötunum,sem hann minnir að hafi verið gallabuxur, skyrta og nærbuxur. Kveðst hann ekki muna hvort stúlkan hjálpaði eitthvað til við það, en telur að hann hafi að mestu gert þetta. Hann hafi sjálfur klæðst úr öllum fötum. Hann hafi svo legið milli fóta hennar og nuddað getnaðarlimnum við kynfæri hennar í tilraunum sínum við að fá stinningu og telur að hann hafi einu sinni komið getnaðarlimnum inn í kynfæri hennar.“
Við skýrslugjöf fyrir dómi hefur ákærði slegið úr og í. Orðar hann athafnir sínar ýmist svo að, þegar hann lagðist ofan á K, geti verið að hann hafi sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar, eða þá að hann hafi ekki reynt og einungis hafi verið um snertingu kynfæra þeirra að ræða vegna þess að það hafi ekki verið nein stinning.
Vitnið G hefur borið fyrir réttinum að hún hafi verið stödd að [...] umrætt kvöld. Er hún fór þaðan til þess að ná síðasta strætisvagni til Reykjavíkur hafi þau verið sofnuð ölvunarsvefni Z og K. Hefði K sem orðin var ,,dúndur full“ sofnað á sófa í öllum fötum eftir að C, sem fór með vitninu, var búinn að setja hana upp í sófann. Um það leyti sem hún var að fara hafi ákærði komið heim og virtist að sögn G ekki vera áberandi ölvaður. Þegar vitnið kom aftur í íbúðina að Víðhvammi seinna um nóttina var búið að draga út svefnsófann sem K hafði sofnað á og þar lágu þau K og ákærði nakin undir sæng. Daginn eftir hafi K sagt henni í öngum sínum að hún hafi vaknað við það að verið var að hafa við hana samræði. Hafi hún í fyrstu haldið að hún væri að hafa samræði við Z en þegar hún opnaði augun hafi hún séð að það var ekki hann heldur ákærði.
Í framburði vitnisins Z kemur fram að hann hafi þann 19. október 1997 verið búinn að þekkja K í tvo daga en þau hafi verið kærustupar 3-5 mánuði eftir það. Hann kveðst hafa komið að þeim K og ákærða um nóttina ásamt vitninu G og voru þau þá bæði sofandi. Þegar hann lyfti af þeim sænginni sá hann að þau voru bæði nakin. G hafi tekist að vekja K og tala eitthvað við hana en það tókst honum hins vegar ekki sjálfum og heldur hann að hún hafi þóttst sofa. Hann hafi síðan farið aftur inn í herbergi sitt. Eftir um það bil hálftíma hafi K komið inn í herbergið til hans og sagt honum að hún hefði vaknað við það að ákærði var að hafa við hana samfarir. Vitnið hefur lýst því að hann hafi þá fundið olíulykt af K. Frásögn K hafi vitnið ekki trúað í fyrstu vegna þess að það hafi talið sig vita að K væri tiltölulega lauslát eins og hann orðaði það og hún kannski búið til þessa sögu af því að hún hafi verið hrædd um að hann yrði henni reiður.
II.
Í skýrslu hjá lögreglu 29. október 1997 viðurkenndi ákærði að hafa haft samræði við stúlkuna K á heimili sínu aðfaranótt sunnudagsins 19. október 1997. Hann hafi áður afklætt stúlkuna meðan hún var sofandi og hafi hún ekki rumskað fyrr en honum hafði tekist að koma getnaðarlim sínum inn í kynfæri hennar. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 15. maí 1998 vísaði ákærði til þessarar skýrslu sinnar og kvaðst þar hafa greint rétt frá öllu sem gerðist. Í framburði sínum fyrir dómi hefur ákærði slegið úr og í. Er eina skýringin sem hann hefur gefið á breyttum framburði að hann hafi verið undir miklu álagi og að fyrri lögregluskýrslan sem tekin var hafi verið „tekin hratt“. Þá hafi hann verið gleraugnalaus er hann staðfesti frásögn sína við síðari skýrslutökuna „en hann sjái ekki án gleraugna“.
Þessi skýring á breyttum framburði er ekki trúverðug og ekki til þess fallin að rýra sönnunargildi skýrslu ákærða fyrir lögreglu. Við töku beggja framangreindra lögregluskýrslna var ákærða kynntur réttur hans til þess að honum yrði skipaður verjandi sem hann afþakkaði og bera þær ekki annað með sér en að hann hafi gefið þær skýrslur af fúsum og frjálsum vilja og svarað öllum spurningum. Ákærði hefur ekki borið því við að hann hafi verið beittur þvingunum við skýrslugjöf hjá lögreglu eða að reynt hafi verið að hafa þar áhrif á framburð hans með öðrum hætti.
K kærði ekki atburðinn strax en þær skýringar sem hún hefur gefið á því verða að teljast sennilegar þannig að dráttur á kæru verður ekki talinn draga úr sönnunargildi framburðar hennar. Framburður K fyrir dómi og þær skýrslur sem hún hefur gefið eru trúverðugar og í góðu samræmi við framburð ákærða hjá lögreglu við rannsókn málsins að öðru leyti en því að K hefur fyrir dóminum ekki treyst sér til þess að fullyrða að ákærði hafi verið með lim sinn inni í leggöngum hennar er hún vaknaði umrædda nótt. Í framburði hennar kemur fram að hún hafi sofnað ölvunarsvefni umrætt kvöld. Þegar litið er til framburðar vitna sem staðfesta að svo hafi verið, þykir ekki varhugavert að slá því föstu að hún hafi verið í slíku ástandi þegar ákærði kom að henni alklæddri á sófanum. Einnig er sannað með framburði ákærða að hann klæddi hana úr öllum fötunum eftir að hafa fært hana til á meðan hann dró út svefnsófann. Í framburði ákærða fyrir dóminum kemur fram að hann hafi einnig klætt sig úr öllum fötum og haft við stúlkuna kynferðismök án þess þó að hafa tekist að eiga við hana samræði. Þau hafi látið vel hvort að öðru og hann talið að þessi atlot væru henni ekki á móti skapi þó svo að K hafi hvorki opnað augun né tjáð sig með orðum. Ákærði hefur sagt fyrir dóminum að hann hafi talið að K hafi verið vakandi þegar hann fór að leita á hana. Hafi hann byrjað á því að losa um buxur K í því skyni að kanna viðbrögð hennar og hafi hún þá lyft upp mjöðmunum til þess að hægt væri að ná þeim niður.
Ákærði hafði enga ástæðu til að ætla að K vildi þýðast hann eða eiga við hann kynferðislegt samneyti og sú staðreynd að hann vissi að hún átti vingott við og var kærasta stjúpsonar hans styður þá ályktun. Ekkert hefur komið fram í framburði ákærða sem réttlætt getur eða skýrt með nokkrum skynsamlegum hætti þá ákvörðun hans að afklæða K, sem svaf ölvunarsvefni, og leggja hana allsnakta á sófann þar sem hann lagðist síðan sjálfur allsnakinn.
Ákærði sagði í skýrslu sinni fyrir dómi, aðspurður um það hvort honum hafi tekist að koma getnaðarlim sínum inn í kynfæri stúlkunnar og hvort hann hafi verið að reyna það, að þegar hann hafi lagst ofan á stúlkuna ,,geti verið að hann hafi farið inn“ og eins ,,að hann hafi ekki reynt að setja hann inn“. Einungis hafi verið um snertingu kynfæra þeirra að ræða ,,vegna þess að ekki hafi verið nein stinning“. Í skýrslu hjá lögreglu sagði ákærði á hinn bóginn af sama tilefni að hann hafi í 10 til 15 mínútur reynt að fá stinningu, meðal annars með því að bera olíu á líkama K og nudda getnaðarlim sínum við kynfæri hennar.
Samkvæmt framansögðu er komin fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi notfært sér að K svaf ölvunarsvefni til þess að hafa við hana kynferðismök sem hún gat ekki spornað við vegna ástands síns. Telst ákærði sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru að öðru leyti en því, að varhugavert er að telja nægilega sannað að atferli hans gagnvart K hafi náð það langt að hann hafi haft samræði við hana, enda hefur K ekki treyst sér til þass að fullyrða fyrir dómi að svo hafi verið. Er ákærði því sakfelldur fyrir tilraun til samræðis, en ekki fullframið brot, svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Háttsemi ákærða er þar réttilega heimfærð til 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem henni var breytt með 15. gr. laga nr. 40/1992, sbr. þó 20. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar tilraun til samræðis.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til dómvenju í málum þar sem sakfellt er fyrir brot gegn nefndri grein almennra hegningarlaga. Refsing ákærða, sem ekki hefur fyrr sætt refsiviðurlögum sem hér skipta máli, er hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni, og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar þ.m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar hdl. 90.000 krónur og saksóknarlaun 70.000 krónur.
Miskabótakrafa K, sem Björn L. Bergsson hdl. hefur sett fram fyrir hennar hönd, styðst við 26. gr. laga nr. 50/1993. K sætti ólögmætri meingerð af hálfu ákærða, með hinu refsiverða háttarlagi hans. Ber honum því, samkvæmt ákvæðum greinarinnar, að bæta henni þann miska, sem hann hefur valdið henni og þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Skal sú fjárhæð bera vexti svo sem í dómsorði greinir. Til viðbótar ber með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að ákveða greiðslu kostnaðar af gerð og sókn kröfunnar sem þykir hæfilega ákveðin 60.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu af þóknun lögmannsins..
Dóm þennan kveða upp Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari ásamt héraðsdómurunum Jónasi Jóhannssyni og Þorgeiri Inga Njálssyni. Dómurinn er fjölskipaður skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Duerke Hansen, sæti fangelsi 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni, og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar hdl., 90.000 krónur, og 70.000 krónur í saksóknarlaun til ríkissjóðs.
Ákærði greiði, Birni L. Bergssyni hdl., fh. K 350.000 krónur í miskabætur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. október 1997 til 19. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 3. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögmannskostnaðar.