Hæstiréttur íslands

Mál nr. 509/2005


Lykilorð

  • Rán


Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 9. mars 2006.

Nr. 509/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

saksóknari)

gegn

Ólafi Kára Birgissyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Rán.

Ó var gefið að sök að hafa framið rán í félagi við annan mann í tiltekinni verslun í Kópavogi. Ó játaði að hafa ógnað starfstúlku verslunarinnar með skrúfjárni, skipað henni að opna sjóðsvél og tekið úr henni 35.000 krónur. Brot Ó var framið í félagi við annan mann og til þess fallið að vekja verulegan ótta hjá stúlkunni. Fram var komið að Ó átti uppástunguna að ráninu en skömmu áður höfðu þeir félagar kannað aðstæður í versluninni. Var þetta metið Ó til refsiþyngingar. Á hinn bóginn varð það virt Ó til hagsbóta að hann var ungur að aldri og játaði brot sitt undanbragðalaust. Var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þótti ekki koma til greina að skilorðsbinda refsinguna líkt og héraðsdómur hafði gert.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa framið rán 13. apríl 2005 í félagi við annan mann í tiltekinni verslun í Kópavogi. Hefur ákærði játað að hafa ógnað starfstúlku verslunarinnar með skrúfjárni og skipað henni að opna sjóðsvél í versluninni. Að svo búnu hafi hann tekið 35.000 krónur úr henni. Sakaferill ákærða er réttilega rakinn í héraðsdómi, en eftir uppkvaðningu hans gekkst hann undir sátt með greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots 23. júní 2005.

Brot ákærða var framið í félagi við annan mann og til þess fallið að vekja verulegan ótta hjá starfsstúlkunni, sem hann ógnaði með skrúfjárni. Er fram komið í málinu að ákærði átti uppástunguna að ráninu, en skömmu áður höfðu þeir félagar kannað aðstæður í versluninni. Verður þetta metið ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. og 6. tl.  70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. sömu greinar. Á hinn bóginn verður það virt ákærða til hagsbóta að hann er ungur að aldri og játaði brot sitt undanbragðalaust. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi framið brotið vegna ógnunar svokallaðs handrukkara, sem hann hafi skuldað fé vegna fíkniefnakaupa. Við meðferð málsins kvaðst hann hafa greitt með ránsfénu fjárhæð sem nemur um 5% af skuldinni, en eftirstöðvarnar næmu enn um helmingi hennar. Hefur ákærði ekki gert líklegt að hann hafi verið tilneyddur að fremja brotið af þessum sökum. Þegar litið er til þess hversu alvarlegt brot hans var þykir ekki koma til álita að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Kári Birgisson, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti 173.920 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2005.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 17. þessa mánaðar, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 11. ágúst 2005, á hendur Ólafi Kára Birgissyni, kt. 030883-3229, Urðarstíg 16a, Reykjavík og S, kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir rán í versluninni 10/11, Engihjalla 8, Kópavogi, sem þeir framkvæmdu sameiginlega, um kl. 15:00 miðvikudaginn 13. apríl 2005, eins og hér greinir:

Ákærðu fóru saman, með trefla fyrir andlitum, inn í verslunina þar sem ákærði Ólafur ógnaði afgreiðslustúlkunni L, með skrúfjárni og skipaði henni að opna sjóðsvél verslunarinnar sem hún gerði. Tók ákærði Ólafur 35.000 krónur í peningaseðlum úr sjóðsvélinni en ákærði S tók 10 sígarettupakka, samtals að verðmæti kr. 5.490, úr afgreiðsluskúffu og hurfu ákærðu síðan á braut í bifreið ákærða Ólafs.

Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu 10/11 hf., kennitala 450199-3629, er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða 10/11 hf. skaðabætur að fjárhæð kr. 40.490 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 13. apríl 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.”

Ákærði, Ólafur Kári, játar sök og viðurkennir bótaskyldu sína vegna brota sinna. Af hálfu verjanda hans er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að dæmd refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Þá komi til frádráttar tildæmdri refsingu gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 18. - 19. apríl 2005.  Einnig krefst hann réttargæslu- og málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði S, játar sök og viðurkennir bótaskyldu sína vegna brota sinna. Af hálfu verjanda hans er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og dæmd refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Einnig krefst hann málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði sér til handa og að réttargæslulaun Sigmundar Hannessonar, hæstaréttarlögmanns verði jafnframt greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu til lögreglunnar í Kópavogi, um árásarboð í versluninni 10/11, Engihjalla 8 í Kópavogi, miðvikudaginn 13. apríl síðastliðinn. Lögreglan í Kópavogi hafði ekki tök á að sinna erindinu á þeirri stundu og voru lögreglumenn úr Hafnarfirði sendir á vettvang. Skömmu síðar barst lögreglunni í Kópavogi upplýsingar frá fjarskipta­miðstöð lögreglunnar að rán hefði verið framið í ofangreindri verslun og væru ránsmennirnir farnir af vettvangi.

Verslunin 10/11 í Engihjalla 8 er í verslunarkjarna. Komið er inn um sjálfopnanlegar rennidyr á norðurhlið verslunarkjarnans. Gengið er inn gang og er verslunin gegnt ganginum. Fyrir innan inngang verslunarinnar eru tveir afgreiðslu­kassar og hilla með vörum. Ránið var framið við afgreiðslukassa nr. 1, sem er á vinstri hlið þegar gengið er inn í verslunina.

Jóhanna Eivindsdóttir Christiansen, lögreglumaður, er ritaði frumskýrslu lögreglunnar hafði tal af afgreiðslustúlkunni, L og verslunar­stjóranum I á vettvangi. Afgreiðslustúlkan tjáði lögreglu­manninum að hún hefði verið að afgreiða við kassa nr. 1. Hún kvaðst hafa veitt athygli strák með sólgleraugu u.þ.b. tuttugu mínútum áður en ránið var framið. Hann hefði verið skimandi er hann gekk framhjá versluninni. Þessi sami piltur hafi komið á ný u.þ.b. tuttugu mínútum síðar við annan mann og hafi þeir gengið rakleiðis í átt til hennar. Hún kvað annan piltinn hafa haldið á skrúfjárni í hægri hendi og hafi hann stungið því í magann á henni og sagt henni að opna peningakassann og sígarettukassann. L kvaðst í fyrstu ekki hafa tekið piltana alvarlega, en þá hafi strákurinn endurtekið skipan sína mun ákveðnar og hótað henni að hann myndi stinga skrúfjárninu í  magann á henni ef hún hlýddi ekki. Hún kvaðst þá hafa opnað peninga­kassann og tóku þeir pening úr peningakassanum og sígarettur úr sígarettu­kassanum, sem hafi verið geymdur undir afgreiðsluborðið. Að því búnu hafi þeir forðað sér. Sjálf kvaðst hún þá hafa ýtt á neyðarhnappinn og hringt í verslunar­stjórann sem hafi verið frammi.

Vitnið taldi að um u.þ.b. kr. 20.000 til kr. 30.000 hafi verið stolið úr peningakassanum en kvaðst ekki vita hversu mörgum sígarettupökkum var stolið.

I verslunarstjóri tjáði lögreglumanninum að hann hefði hlaupið út og séð tvo stráka standa við norð-austurhorn verslunarkjarnans, móts við Ölstofuna. Annar hafi verið í símanum. Þegar þeir hafi orðið varir við hann hafi þeir tekið til fótanna í átt að Engihjalla 11. Vitnið kvaðst hafa veitt þeim eftirför en misst sjónar af þeim. Þeir hafi á hlaupunum misst tvo trefla og eitt skrúfjárn. Annar trefillinn og skrúfjárnið fundust móts við Ölstofuna en hinn trefillinn fannst við suð-austurhorn Engihjalla 11 ásamt sígarettupakka. Lagði lögregluna hald á skrúfjárnið og treflana í þágu rannsóknar málsins.

Frumskýrslan er rituð þann sama dag klukkan 18:58.

Í málinu liggja frammi myndir úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar 10/11 við Engihjalla. Á þeim má sjá tvo menn í dökku peysum annar með hettu en hinn snoðaður. Sá snoðaði er greinilega með trefil bundinn fyrir vitin en ekki verður það fullyrt með þann sem íklæddur er hettupeysu.

Skýrslur hjá lögreglu.

L gaf skýrslu hjá lögreglu þennan sama dag klukkan 17:10. Vitnið greindi frá því að u.þ.b. 20 mínútum áður en ránið var framið hafi hún veitt athygli pilti sem var í hettupeysu með sólgleraugu fyrir utan verslunina. Þegar piltarnir tveir komu inn í verslunina var aðeins einn gamall maður staddur inni í versluninni og taldi vitnið að hann hefði einskis orðið var. Kom fram hjá vitninu að lágvaxnari pilturinn hafi otað skrúfjárninu að maga hennar og hótað henni að hann myndi stinga skrúfjárninu í maga hennar ef hún opnaði ekki peningakassann. Hafi hann endurtekið þetta þrisvar sinnum. Hann hafi verið ógnandi, ákveðinn en rólegur. Reyndist þetta vera ákærði Ólafur Kári Birgisson. Vitnið kvaðst hafa frosið af hræðslu og skynjað að réttast væri að fara að vilja þeirra. Hún kvaðst hafa opnað peningakassann og stigið til hliðar og hafi sá með skrúfjárnið teygt sig í peninga­seðlana. Hinn pilturinn, sem reyndist vera meðákærði, S,  opnaði sígarettuskúffu sem staðsett er undir afgreiðsluborðið og tók, að hún telur, 5-6 sígarettupakka. Að því búnu gengu þeir rólega út úr versluninni. Vitnið kvaðst þá hafa hringt lagerbjöllu til að láta verslunarstjórann vita um ránið. Hann hafi veitt ránsmönnunum eftirför. Vitnið kvaðst ekki hafa getað ýtt á neyðarrofa sem sé beintengdur við Securitas, þar sem þetta hafi gerst svo snöggt. Vitnið taldi að ránsmennirnir hafi tekið um 20.000 til 30.000 krónur úr peningakassanum, en kvaðst ekki geta fullyrt það.

Vitnið kvaðst hafa orðið mikið um árásina og hafi þegið áfallahjálp.  Hún kvaðst hafa fengið lítilsháttar roða á magann eftir skrúfjárnið.

Sex dögum síðar 19. apríl óskaði lögreglan eftir því að vitnið lýsti frekar hvernig ákærðu hefðu ógnað henni með skrúfjárninu. Vitnið kvað ákærða hafa verið með skrúfjárnið inni í ermi sinni. Vitnið kvaðst aðeins hafa séð járnið en ekki skaftið. Pilturinn hafi ýtt skrúfjárnsoddinum upp að maganum á sér, þannig að vitnið kvaðst vel hafa fundið fyrir skrúfjárninu, þrátt fyrir að hún hafi bæði verið klædd í bol og peysu. Hún kvaðst hafa frosið og verið skelkuð. Þegar hún hafði tækifæri hafi hún litið á magann á sér og hafi verið roði þar sem skrúfjárnið snerti magann. Vitnið vildi ekki gera mikið úr þessum áverka. Hins vegar kvaðst hún hafa notið sálfræðiaðstoðar fyrir milligöngu vinnuveitanda síns. Hún kvaðst hafa þjáðst af svefntruflunum eftir þennan atburð. Vitninu var sýnt skrúfjárn er lögreglan lagði hald á á vettvangi. Taldi vitnið að um sama skrúfjárnið væri að ræða.

I, verslunarstjóri, gaf skýrslu hjá lögreglu daginn eftir, 14. apríl 2005. Hann kvaðst hafa verið staddur á skrifstofu sinni er bjöllu við afgreiðslukassa var hringt. Hann hafi gengið áleiðis að afgreiðslukössunum er L hafi komið hlaupandi í átt til hans og hafi sagt „við höfum verið rænd“. Hafi henni verið mikið niðri fyrir. Aðspurð hafi hún sagt honum að teknir hafi verið peningar og sígarettur. Vitnið kvaðst hafa hlaupið út og séð tvo pilta er hann kom fyrir austurhorn verslunarinnar. Lágvaxnari, snoðaði pilturinn var að tala í síma. Vitnið ályktaði að þarna væru ránsmennirnir og kvaðst hafa gengið til þeirra. Er þeir hafi orðið hans varir hafi þeir hlaupið á brott og missti hann sjónar af þeim. Hann kvaðst hafa kallað til þeirra sem þeir hafi ekki sinnt því.  Vitnið kvaðst hafa séð trefil og sígarettupakka liggja á jörðinni austan við húsið.

Aðspurður kvað vitnið annan piltinn vera ca. 165 cm á hæð, grannvaxinn, krúnurakaðan, á aldrinum 16-18 ára. Hann hafi verið klæddur bláum gallabuxum, ljósum skóm, svartri hettupeysu sem áletraðri „korn”. Hinn pilturinn hafi verið um 177 cm á hæð, slánalegur, með skolrautt stuttklippt hár, klæddur bláum gallabuxum, dökkri peysu með hvítri áletrun á baki.

Vitnið kvað 35.000,- krónum hafa verið rænt og 10-15 pökkum af sígarettum. Sígarettupakki kostar 549,- krónur og hafi andvirði tóbaksins verið á bilinu kr. 5.490,- til kr. 8.235,-.

Sunnudaginn 17. apríl 2005 hafði lögreglan símsamband við ákærða Ólaf Kára Birgisson og innti hann meðal annars eftir því hvort hann hefði komið að ráninu í versluninni 10/11 við Engihjalla. Í framhaldi af símtalinu kom ákærði niður á lögreglustöð, þar sem hann var handtekinn grunaður um rán og honum tilnefndur verjandi. Í skýrslu er ákærði gaf hjá lögreglu síðar þann saman dag, klukkan 17:44, tjáði hann lögreglu að miðvikudagsmorguninn 13. apríl 2005 hafi komið til hans handrukkari vegna skuldar að fjárhæð um 300.000,- krónur, sem sé uppsöfnuð þriggja ára gömul skuld ásamt vöxtum vegna fíkniefnakaupa. Þessi maður á að hafa haft í hótunum við ákærða og tuskað hann til og sagt ákærða að hann vildi fá peninga sína greidda samdægurs. Ákærði skyldi fara í vopnað rán ef hann gæti ekki orðið sér út um peninga með öðru móti. Maðurinn hafi bent ákærða á þrjár verslanir sem hann gæti rænt og kvaðst ákærði muna eftir að hann nefndi verslunina 10/11 við Engihjalla og 11/11 við Þverbrekku. Ákærði skyldi hitta mann á BSÍ umferðarmiðstöð og myndi sá aðili fara með honum í ránið. Maðurinn hafi síðan leiðbeint honum hvernig þeir ættu að standa að ráninu, hverju þeir ættu að hóta. Best væri að hafa hníf meðferðis því hann yrði þá tekinn alvarlega. Ákærði taldi að maðurinn hafi dvalið heima hjá sér í 20-30 mínútur. Ákærði kvaðst hafa verið mjög hræddur og legið við að hann hefði brostið í grát sökum geðshræringar.

Ákærði kvaðst hafa farið á BSÍ og hitt meðákærða. Hann kvaðst hafa séð hann áður. Þeir hafi síðan ekið á bifreið meðákærða að verslun 11/11 í Þverbrekku í Kópavogi. Ákærði kvaðst hafa haft skrúfjárn meðferðis. Þeir hafi farið inn í verslunina en þar hafi verið töluvert af fólki. Þeir hafi hreinlega gugnað á að ræna verlunina og farið út.

Þeir hafi ekið að versluninni 10/11 við Engihjalla. Þeir hafi gengið inn í sameign verslunarmiðstöðvarinnar til að kanna aðstæður, en fóru ekki inn í sjálfa verslunina. Þeir hafi þurft að telja í sig kjark þar sem þeir hafi báðir verið mjög „stressaðir”. Ákærði kvað þá hafa hlaupið inn í verslunina og að afgreiðslustúlkunni. Hann hafi haldið á skrúfjárninu. Hann hafi sagt afgreiðslustúlkunni að koma með peningana en stúlkan virtist varla trúa því sem var að gerast. Ákærði kvaðst þá hafa tekið í handlegg hennar og ýtt við henni. Jafnframt hafi hann beint skrúfjárninu að stúlkunni en taldi að hann hafi ekki snert hana með skrúfjárninu. Stúlkan hafi opnað peningakassann og hann hafi tekið alla peningana en meðákærði hafi tekið sígarettupakka sem hafi verið í lokaðri skúffu undir afgreiðsluborðið. Ákærði kvaðst telja að ránið hafi tekið 2-3 mínútur. Að því búnu hafi þeir hlaupið út úr versluninni og farið austur með húsinu og í suðurátt. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt því athygli að þeim hafi verið veitt eftirför. Þeir hafi hlaupið niður Suðurhlíðarnar að bílnum sem hafði verið lagt skammt frá Dalvegi.

Ákærði kvaðst hvorki hafa verið undir áhrifum lyfja né vímuefna þennan dag. Hann kvaðst hafa framið ránið af ótta að sér yrði gert mein ef hann útvegaði ekki peninga umsvifalaust.

Meðákærði hafi ekið honum heim á Leifsgötu, þar sem hann hafi farið út úr bílnum. Meðákærði hafi ekið á brott með ránsfenginn, bæði peningana og sígaretturnar. Ákærði kvaðst telja að þeir hafi rænt um 30.000,- krónum. Ákærði kvaðst hvorki hafa verið í sambandi við handrukkarann né meðákærða eftir ránið.

Lögreglan bar undir ákærða frásögn afgreiðslustúlkunnar að hann hefði hótað henni með orðum og þrýst skrúfjárninu í maga hennar svo sá á. Ákærði kvaðst ekki hafa hótað henni og taldi sig ekki hafa snert maga hennar með skrúfjárninu.

Ákærði heimilaði lögreglu að kannað yrði í hverja hann hefði hringt á tímabilinu frá 13. apríl síðastliðinn til 17. sama mánaðar, en símanúmer hans er 899-6246.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa hafið kókaínneyslu árið 2000. Hann kvaðst hafa verið fíkill en hafi ekki notað kókaín síðastliðinn tvö ár. Hins vegar noti hann hass um það bil 1 gramm á dag. Hann fjármagni hasskaupin með vinnu, en hann sé sjómaður. Ákærði kvaðst leigja íbúð á Urðastígnum ásamt kærustu sinni.

Ákærði gaf að nýju skýrslu hjá lögreglu tveimur dögum síðar, 19. apríl síðastliðinn. Ákærði sagði nú að þeir hefðu notað bifreið hans í ráninu en ekki bifreið meðákærða. Nú viðurkenndi ákærði að hann þekki meðákærða. Ákærði kvaðst hafa beðið meðákærða að koma með sér, þar sem hann hefði ekki þorað að standa einn að ráninu. Ákærði hefði í einu og öllu stjórnað aðgerðum, meðákærði hefði einungis verið ákærða til stuðnings. Ennfremur breytti ákærði fyrri framburð um það að ekkert hefði komið í hans hlut af ránsfengnum. Ákærði kvaðst hafa fengið í sinn hlut kr. 15.000. Hann hefði notað peningana til þess að greiða upp í fíkniefnaskuld sína. Eflaust hefðu þeir reykt sígaretturnar og taldi ákærði að þeir hefðu rænt 4-6 pökkum. Ákærði heimilaði húsleit á heimili sínu að Urðarstíg í Reykjavík.

Meðákærði S gaf skýrslu hjá lögreglu þann 18. apríl 2005. Meðákærði kvaðst hafa verið í vinnu hjá Marel. Hann hafi verið veikur miðvikudaginn 13. apríl og farið heim um hádegi.  Hann kvaðst hafa verið lyfja- og fíkniefnaneytandi. Hann hafi tekið um sex töflur af Rivotril® og komist í vímu. Hann hafi hitt ákærða upp úr hádeginu. Hann kvaðst ekki muna aðdragandann að ráninu. Hann kvaðst aðeins muna brot og brot af því sem gerðist þennan dag. Hann kvaðst muna eftir að þeir hafi farið í verslunina 11/11 við Þverbrekku í Kópavogi og minnist að búðin hafi verið full af fólki. Síðan hafi þeir farið í verslun 10/11 við Engihjalla. Framburður meðákærða er nokkurn veginn á sama veg og ákærða um atburðarás inni í versluninni. Ákærði hafi tekið peninga úr peningakassa og hann hafi tekið 5-6 pakka af sígarettum. Hann minntist þess ekki að þeir hafi ógnað afgreiðslustúlkunni en kvaðst hafa verið undir sterkum lyfjaáhrifum. Hann kvaðst hafa reynt að dulbúa sig. Hann hafi klæðst svartri hettupeysu  með hettuna yfir höfuðið og verið með trefil fyrir vitum. Á flóttanum minnti meðákærða að kallað hefði verið „stoppið” eða „bíðið” en hann hafi ekki sinnt því.

Næst kvaðst meðákærði muna eftir sér í herbergi vinkonu sinnar. Þar hafi hann tekið inn 60 Rivotril® töflur í þeim tilgangi að binda endi á líf sitt. Vinir hans hafi komið að honum og bjargað honum með því að koma honum undir læknishendi. Í beinu framhaldi af sjúkrahúsvistinni var hann fluttur á meðferðarheimilið Vog. Þá hyggst meðákærði fara í áframhaldandi meðferð á Staðarfelli. Hann kvaðst vera ákveðinn í því að snúa við blaðinu. Hann hafi byrjað fíkniefnaneyslu 12 ár gamall og hafi neytt fíkniefna með hléum, en síðastliðinn tvö ár hafi hann neytt þeirra daglega.

Meðákærði taldi að þeir hefðu rænt 15.000,- til 20.000,- krónur en kvaðst ekki vita hvað varð af peningunum.

Lögreglan í Kópavogi hafði samband við Jón Baldvinsson, yfirlæknir, Landspítala-háskólasjúkrahús þann 4. maí síðastliðinn og staðfesti læknirinn framburð meðákærða að hann hefði verið fluttur á slysadeild 14. apríl 2005 klukkan 19:55 vegna ofneyslu Rivotril®. Var innlögn flokkuð sem tilraun til sjálfsvígs.

 

Skýrslur fyrir dómi.

Fyrir dómi játaði ákærði Ólafur Kári sök.  Um aðdragandann lýsti hann á sama veg og hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa „platað” meðákærða til þess að koma með sér, þar sem hann þorði ekki standa einn að ráninu. Hann kvaðst hafa tekið nokkrar Rivotril® töflur áður en hann fór í ránið, þar sem hann hafi verið svo taugaóstyrkur. Ákærði kvaðst ekki muna vel eftir atburðaráðsinni. Hann bar að þeir hafi staðið fyrir utan verslunina í u.þ.b. 15-20 mínútur áður en þeir réðust til atlögu. Ákærði Ólafur Kári viðurkenndi að hafa haldið á skrúfjárni í hægri hendi í því skyni að ógna afgreiðslustúlkunni með því. Hann kvaðst hafa gripið í handlegg hennar og ógnað henni með skrúfjárninu, en kvaðst ekki minnast þess að hafa snert hana með því. Ákærði kvað þá félaga hafa skipt ránsfengnum á milli sín og hafi hann greitt niður fíkniefnaskuld sína með þeim. Ákærði staðfesti sem réttar skýrslur sínar tvær er hann gaf hjá lögreglu.

Eftir þennan atburð kvaðst ákærði hafa snúið blaðinu við í lífi sínu. Hann hafi hætt fíkniefnaneyslu. Hann búi með kærustu sinni og stundi vinnu. Tekjum sínum verji hann til þess að greiða niður skuldir sínar.

Meðákærði S kvaðst nánast ekkert muna eftir sér þessa viku. Þó minnist hann þess að hafa verið í verslun 10/11 við Engihjalla með höndina ofan í sígarettukassa. Meðákærði bar að í framhaldi af þessum atburði hafi hann ákveðið að taka sig á og breyta sínu lífi. Hann hafi tvisvar sinnum farið í meðferð á meðferðarheimilinu Vogi eftir þennan atburð. Honum hafi tekist að halda sig frá vímuefnum og stundi vinnu reglubundið. Meðákærði staðfesti sem rétta skýrslu er hann gaf hjá lögreglu 18. apríl 2005.

Jóhanna Eivindsdóttir Christiansen lögreglumaður ritaði frumskýrslu lögreglu, dagsetta 13. apríl 2005. Fyrir dómi bar hún á sama veg og greinir í frumskýrslu, sem hún staðfesti sem rétta fyrir dómi. Það kom fram hjá vitninu að afgreiðslustúlkan L hafi verið furðu róleg miðað við það hvað gerst hafði. Fannst vitninu eins og stúlkan hafi ekki almennilega áttað sig á því hvað gerst hafði.

L, var afgreiðslustúlka í verslun 10/11 við Engihjalla er ránið var framið. Hún kvaðst hafa tekið eftir ákærðu u.þ.b. 10-20 mínútum áður. Þeir hafi verið fyrir utan verslunina. Ákærðu hafi svo gengið inn í verslunina og beint til hennar. Annar piltanna hafi haldið á skrúfjárni sem hann hafi otað í maga hennar. Hann hafi skipað henni að opna peningakassann. Hann hafi þurft að endurtaka skipunina tvisvar eða þrisvar og hafi þá ýtt skrúfjárninu í maga hennar. Hún kvaðst hafa orðið hrædd og hlýtt. Hún kvaðst hafa fengið vægan marblett eftir skrúfjárnið, en gerði ekki mikið úr því. Hún kvaðst hafa þegið áfallahjálp og verið fljót að jafna sig.

Niðurstöður.

Ákærðu hafa báðir játað þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærunni. Um sakarefnið hefur þó farið fram aðalmeðferð vegna refsimarka 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1991. Sannað er með játningum beggja ákærðu, skýrslu vitnisins L og ljósmyndum úr öryggisvél verslunarinnar, að ákærðu fóru saman í verslunina 10/11 við Engihjalla með trefla bundna fyrir andlitin og stóðu saman að ráninu eins og greinir í ákæru. Ákærði Ólafur Kári játar að hafa ógnað afgreiðslustúlkunni með skrúfjárni í því skyni að fá stúlkuna til þess að opna peningakassann og að hafa tekið reiðufé úr honum. Meðákærði S tók á sama tíma sígarettupakka úr afgreiðsluskúffu. Hafa ákærðu orðið sekir um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sakarferill.

Ákærði Ólafur Kári Birgisson var 21 árs er hann framdi brotið. Sakarferill hans hófst í maí 2001 en þá hlaut hann 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir skjalafals og tilraun til þjófnaðar. Stóðst ákærði skilorðið og hefur sá dómur ekki ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli, skv. 61. gr. almennra hegningar­laga. Ákærði hefur ánetjast fíkniefnum og hefur gengist undir þrjár sáttir vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, síðast 2. nóvember 2004. Þá gekkst ákærði undir sátt á árinu 2003 fyrir brot gegn umferðarlögum.

Meðákærði S var 19 ára er hann framdi brotið. Hann hefur einu sinni sætt refsingu í júní 2005 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

Viðurlög.

Refsirammi fyrir brot á ákvæðum 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fangelsi, ekki skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum. Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráni, getur refsing orðið allt að 16 ára fangelsi. Svo sem refsirammi 252. gr. ber vitni um fellur rán í þann flokk ákvæða almennra hegningarlaga sem einna þyngst refsing liggur. Er það í samræmi við alvarleika slíkra brota. Ákærði Ólafur Kári, réðst með trefil bundinn fyrir vitum og með skrúfjárn í hendi inn í verslunina 10/11. Hefur afgreiðslustúlkan lýst því fyrir dómi að henni hafi staðið ógn af ákærða. Brot ákærða er alvarlegt. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði drýgði verknaðinn í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar hefur ákærði játað brot sitt greiðlega og verður það virt honum til refsilækkunar. 

Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Ákærði hefur borið að hann hafi verið fíkniefnaneytandi og hafi skuldað háar fjárhæðir vegna fíkniefnakaupa. Hann hafi leiðst út í ránið þar sem honum stóð mikill beygur af handrukkaranum. Samkvæmt framlögðum gögnum hefur ákærði nú snúið blaðinu við og hætt fíkniefnaneyslu sem er rótin að afbrotaferli hans. Hann stundar vinnu hjá Þrift ehf., og samkvæmt framlögðu vottorði útgerðarmanns, dagsett 15. október síðast­liðinn hefur vinnuveitandi hans ekki orðið var við neina óreglu hjá ákærða. Ákærði kveðst nú vera í sambúð og greiði niður skuldir sínar.  Rétt þykir að fresta fullnustu 6 mánaða af refsingunni og ákveða á sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða Ólafs Kára frá 18. apríl 2005 til 19. apríl 2005 klukkan 14:00, með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1991.

Við ákvörðun refsingar meðákærða S ber að hafa í huga að brotið var framið í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. En á móti kemur að þátttaka hans í brotinu var önnur en ákærða Ólafs Kára, þar sem hann var hvorki upphafsmaður að verknaðinum né ógnaði afgreiðslustúlkunni á þann hátt sem ákærði Ólafur Kári gerði. Einnig verður að líta til ungs aldurs meðákærða, sbr. 4. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og skýlausrar játningar hans sem verður virt honum til refsilækkunar, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en meðákærði gaf sig fram við lögreglu að eigið frumkvæði. Þá verður refsing ákvörðuð sem hegningarauki sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga við sátt er ákærði gekkst undir þann 20. júní 2005. Þegar framangreind atriði eru öll virt þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fram, hefur meðákærði gengist undir fíkniefnameðferð en hann hefur borið fyrir dómi að hann hafi átt við fíkniefnavanda að stríða frá unga aldri. Hann hafi verið undir áhrifum lyfja þegar hann drýgði brot sitt. Ennfremur liggur frammi vottorð vinnuveitanda meðákærða sem staðfesti að hann sé starfsmaður hjá B. & Þ. rekstrarfélagi ehf. Þegar þetta er haft í huga og brot ákærða eru að öðru leyti virt þykir mega binda refsingu hans í heild skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Skaðabætur.

Verslunin 10/11 hf., kt. 450199-3629 hefur krafist skaðabóta með bréfi dagsettu 19. apríl 2005, að fjárhæð kr. 40.490,- með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. apríl 2005 og síðan með dráttarvöxtum til greiðsludags, skv. 9. gr. sömu laga. Bótakrafan sundurliðast með eftirfarandi hætti; peningar teknir úr afgreiðslukassa kr. 35.000,-. Malboro stuttar 4 pakkar á kr. 549,- samtals kr. 2.196,-. Winston rauður 4 pakkar á kr. 549,- samtals kr. 2.196,-. Camel light 2 pakkar á kr. 549,- samtals kr. 1.098,-. Tóbak samtals kr. 5.490,-. Heildarfjárhæð samtals kr. 40.490,-.

Ákærðu hafa fyrir dómi samþykkt greiðslu á framkominni skaðabótakröfu.

Sakarkostnaður.

Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærðu til þess að greiða verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni, hæstaréttarlögmanni málsvarnalaun og ákærða Ólafi Kára ber einnig að greiða honum þóknun vegna réttargæslu á rannsóknarstigi. Ákærði Ólafur Kári greiði því verjanda sínum kr. 130.000,- að meðtöldum virðisaukaskatti og meðákærði S greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni, hæstaréttar­lögmanni kr. 62.250,- að meðtöldum virðisaukaskatti. Meðákærði S greiði auk þess Sigmundi Hannessyni, hæstaréttarlögmanni þóknun fyrir réttargæslustörf á rannsóknarstigi kr. 33.615,- að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað, kr. 15.846,- greiði ákærðu óskipt.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ólafur Kári Birgisson, sæti fangelsi í 8 mánuði. Fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,  sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Gæsluvarðhald ákærða frá 18. apríl 2005 til kl. 14:00 19. apríl 2005 komi til frádráttar refsivistinni.

Ákærði, S, sæti fangelsi í 6 mánuði. Skal fullnustu þeirrar refsingar frestað og hún falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði óskipt versluninni 10/11 hf., kt. 450199-3629, kr. 40.490,- í   skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 13. apríl 2005 til dómsuppsögu en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Dæma ber ákærða, Ólaf Kára Birgisson, til að greiða réttargæslu- og málsvarnarlaun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., kr. 130.000,-.

Dæma ber ákærða, S, til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., kr. 62.250,- og þóknun til Sigmundar Hannessonar hrl., fyrir réttargæslustörf,  kr. 33.615,-.

Annan sakarkostnað kr. 15.846,- greiði ákærðu óskipt.