Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Málsóknarumboð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 11

 

Föstudaginn 11. apríl 2008.

Nr. 146/2008.

Samtök myndrétthafa á Íslandi

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Eico ehf.

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Málsóknarumboð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S gerði í málinu nánar tilgreindar kröfur á hendur E fyrir hönd eins félagsmanna sinna, en í stefnu var því lýst að S gætti réttinda rétthafa myndefnis á Íslandi og hefði á sínu snærum, meðal annars hagsmunagæslu vegna brota á höfundarréttindum félagsmanna sinna. Talið var að heimild S til að höfða málið í skjóli másóknarumboðs frá umræddum félagsmanni yrði hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju. Þá var talið að heimild S til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns og skaðabætur yrði ekki studd við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þá yrði heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins því staðfest .

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Í stefnu kveður sóknaraðili 365 miðla ehf., sem annast rekstur sjónvarps- og útvarpsstöðva hér á landi, hafa keypt einkarétt til sýninga á Íslandi á nánar tilgreindu erlendu sjónvarpsefni. Varnaraðili selur diska til móttöku myndefnis um gervitungl. Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi, í tengslum við sölu þeirra haft milligöngu um sölu á áskrift að sjónvarpsrásum bresku sjónvarpsstöðvarinnar British Sky Broadcasting (SKY). Á þessum rásum sé meðal annars sýnt efni sem 365 miðlar ehf. hafi keypt sýningarrétt á hér á landi. Með milligöngu um sölu á áskriftunum hafi varnaraðili brotið gegn einkarétti 365 miðla ehf. Sóknaraðili hefur af því tilefni uppi kröfur um viðurkenningu á að sala eða milliganga varnaraðila við sölu á áskrift að fyrrnefndri sjónvarpsstöð sé óheimil, um staðfestingu á lögbanni sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 2. ágúst 2007 við slíkri sölu eða milligöngu varnaraðila og um greiðslu skaðabóta auk málskostnaðar. Varnaraðili heldur því fram að hann hvorki selji sérstök áskriftakort fyrir sjónvarpsstöðvar SKY né innheimti gjöld vegna slíkra áskrifta.

Málið var þingfest í héraði 11. september 2007. Í upphafi málsatvikalýsingar í stefnu er aðild sóknaraðila skýrð svo: Sóknaraðili „gætir réttinda rétthafa myndefnis á Íslandi og hefur ýmis hagsmunamál rétthafa á sínum snærum, m. a. hagsmunagæslu vegna brota á höfundarréttindum félagsmanna sinna. Félagsmenn samtakanna hafa rétt til dreifingar á yfirgnæfandi hluta kvikmynda- og sjónvarpsefnis og tölvuleikja sem eru á íslenskum markaði. Félagsmenn eru kvikmyndahús, helstu útgefendur kvikmynda og sjónvarpsefnis, sjónvarpsstöðvar og helstu dreifingaraðilar tölvuleikja. Einn meðlima SMÁÍS er 365 miðlar ehf. og kemur SMÁÍS fram f.h. félagsins í þessu máli.“ Í stefnu er um aðild sóknaraðila vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili skilaði greinargerð 9. október 2007 og krafðist aðallega frávísunar málsins á grundvelli þess að aðild sóknaraðila yrði ekki reist á ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt skoraði hann á sóknaraðila að leggja fram „lög og önnur gögn um starfsemi“ sína og upplýsa „á hvaða grundvelli og samkvæmt hvaða heimildum hann rekur mál þetta fyrir 365 miðla ehf.“

Í þinghaldi í héraði 3. desember 2007 lagði sóknaraðili fram málsóknarumboð dagsett 15. nóvember sama ár sér til handa svohljóðandi: „365 miðlar ehf. ... fyrir sína hönd og allra sinna dótturfélaga veitir hér með SMÁÍS –Samtökum myndrétthafa á Íslandi ..., með vísan til tilgangs samtakanna um að vernda höfundaréttindi félagsmanna sinna, fullt og ótakmarkað umboð til þess að höfða dómsmál fyrir hönd félaganna, (þ.m.t. að grípa til bráðabirgðaaðgerða svo sem lögbanns eða kyrrsetningar), til þess að vernda höfundarréttindi félaganna og skyld réttindi með þeim hætti sem SMÁÍS telur við hæfi hverju sinni, hvort heldur er krafist skuli banns við tilteknum athöfnum eða skaðabóta eða refsinga eða annarra úrræða gegn þeim sem brjóta gegn réttindum félaganna. Á grundvelli þessa málsóknarumboðs er SMÁÍS heimilt að koma fram fyrir hönd 365 miðla ehf. og allra dótturfélaga fyrir dómstólum og stjórnvöldum og gera hverjar þær kröfur sem varða framangreinda hagsmunagæslu í þágu 365 miðla ehf. Umboð þetta er skrifleg staðfesting á áður veittu umboði.“ Í sama þinghaldi lagði sóknaraðili fram samþykktir sínar, frá aðalfundi Samtaka myndrétthafa á Íslandi 11 maí 2007. Í 2. gr. samþykktanna er kveðið á um tilgang sóknaraðila. Segir þar meðal annars að samtökin séu sameiginlegur vettvangur fyrir útgefendur, dreifingaraðila og framleiðendur myndefnis sem sýnt er á Íslandi. Þá skulu samtökin gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart löggjafanum, hinu opinbera, neytendum, erlendum samtökum sama eðlis, myndbandaleigum, fjölmiðlum og öðrum, sem beint eða óbeint eru viðskipta- eða lagalega tengdir dreifingu myndefnis hér á landi. Ennfremur er þeim ætlað að vinna að því markmiði að hafa með því eftirlit, að myndefni á boðstólum er hér á landi í sjónvarpi, til útleigu eða sölu, sé dreift samkvæmt gildandi lögum og að standa saman að réttaraðgerðum gegn hvers konar skerðingu á lagalegum rétti og öðrum hagsmunum félagsmanna hér á landi. Samkvæmt 3. gr. samþykktanna getur „hvert það firma, félag eða lögpersóna“ sem hefur rétt til framleiðslu og/eða dreifingar myndefnis hérlendis átt aðild að samtökunum, auk fulltrúa erlendra rétthafa að því efni sem dreift er hér á landi. Samkvæmt 7. gr. er stjórn samtakanna skipuð einum fulltrúa frá „hverjum aðildarfélaga“ og annast hún stjórn þeirra milli aðalfunda.

Í þinghaldi 31. janúar 2008, áður en munnlegur málflutningur hófst um frávísunarkröfu varnaraðila, lagði sóknaraðili fram svofellda bókun: „Í samræmi við framlagningu á dskj. nr. 9 sem er málsóknarumboð frá 365 miðlum ehf. til SMÁÍS –samtaka myndrétthafa á Íslandi, þann 3. 12. 2007 þá styðst aðild SMÁÍS í málinu við almennar reglur um málsóknarumboð og til fyllingar því við 3. mgr. 25. gr. EML, eftir því sem við getur átt. Er um slíka aðild vísað til áralangrar dómvenju þar um sbr. t.d. Hæstaréttarmálið nr. 390/1996, Gunnar Friðjónsson gegn Myndstefi.“

II.

Heimild til að beita málsóknarumboði eru settar þröngar skorður og er hún bundin við þau tilvik að heimild sé ákveðin í settum lögum eða helgist af dómvenju. Með ákvæði 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eru sérstök réttaráhrif tengd samningum sem gerðir eru við höfundarréttarsamtök, sem annast samningsgerð um flutningsrétt á bókmenntaverkum eða tónverkum eða sérstökum greinum þeirra fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda og hlotið hafa til þess formlega viðurkenningu menntamálaráðherra. Á sama hátt eru samkvæmt 23. gr. a. höfundalaga sérstök réttaráhrif tengd samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á sviði viðkomandi verks og samkvæmt 25. gr. laganna einnig samningum við samtök myndlistarmanna sem annast hagsmungæslu fyrir verulegan hluta íslenskra myndhöfunda, hvort tveggja með því skilyrði að viðkomandi samtök hafi hlotið formleg viðurkenningu menntamálaráðherra til að annast þá hagsmunagæslu. Hefur hagsmunagæsla samtaka sem uppfylla þessi skilyrði í skjóli málsóknarumboðs verið látin átölulaus í dómaframkvæmd að minnsta kost að því er varðar kröfur um greiðslu fyrir nýtingu á höfundarétti, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 390/1996, sem birtur er í dómasafni 1997 á bls. 2691. Ekki liggur fyrir að sóknaraðili fullnægi framangreindum skilyrðum höfundalaga eða hafi fengið formlega viðurkenningu menntamálaráðherra til gæslu höfundaréttarhagsmuna. Verður heimild hans til að höfða mál þetta á grundvelli málsóknarumboðs frá 365 miðlum ehf. því hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju.

Heimild sóknaraðila til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns eða skaðabætur verður ekki reist á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 13. nóvember 2007 í máli nr. 575/2007. Þá verður heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Þar sem sóknaraðili getur samkvæmt framansögðu ekki átt aðild að máli þessu fyrir hönd 365 miðla ehf. verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Samtök myndrétthafa á Íslandi, greiði varnaraðila, Eico ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 31. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 22. ágúst 2007.

Stefnandi er Samtök myndrétthafa á Íslandi, Laugavegi 182, Reykjavík, f.h. 365 miðla ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.

Stefndi er Eico ehf., Skútvogi 6, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess

a) að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að selja eða hafa milligöngu um sölu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (SKY) til notkunar á Íslandi.

b) að lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 2. ágúst 2007, við því að stefndi selji eða hafi milligöngu um sölu áskriftar að bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (SKY) að því leyti sem sjónvarpsefni British Sky Broadcasting er það sama og það sjónvarpsefni sem 365 miðlar ehf. hefur einkarétt á dreifingu og sýningu á Íslandi, verði staðfest með dómi.

c) að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að álitum en til vara að viðurkennd verði bótaskylda stefnda

d) að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, þ.m.t. alls útlagðs og áfallins kostnaðar við lögbannsgerð, allt samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda eða samkvæmt mati dómsins ef reikningur verður ekki fram lagður.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi og málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málskostnaðar að mati dómsins.

Er frávísunarkrafa stefnda hér til úrlausnar.

Málsatvik.

Stefnandi lýsir málsatvikum svo að stefnandi, Samtök myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS), gæti réttinda rétthafa myndefnis á Íslandi og hafi ýmis hagsmunamál rétthafa á sínum snærum, m.a. hagsmunagæslu vegna brota á höfundarréttindum félagsmanna sinna. Félagsmenn samtakanna hafi rétt til dreifingar á yfirgnæfandi hluta kvikmynda- og sjónvarpsefnis og tölvuleikja á íslenskum markaði. Félagsmenn séu kvikmyndahús, helstu útgefendur kvikmynda- og sjónvarpsefnis, sjónvarpsstöðvar og helstu dreifingaraðilar tölvuleikja. Einn meðlima SMÁÍS sé 365 miðlar ehf., og komi SMÁÍS fram f.h. félagsins í þessu máli.

Bent er á að 365 miðlar ehf. reki áskriftarsjónvarpsstöðvarnar Stöð 2, íþróttastöðvarnar Sýn, Sýn 2, Sýn extra 2, kvikmyndastöðina Stöð 2 bíó o.fl og kaupi einkasýningarrétt á Íslandi á því efni sem sýnt sé á vegum sjónvarpsstöðva félagsins og greiði fyrir það hátt verð. Það sýningarsvæði sem réttur 365 miðla ehf. nái til, og takmarkist við, sé Ísland. Af því leiði að félagið hafi einkarétt til sýninga á myndefninu á Íslandi og sé því öðrum aðilum, innlendum sem erlendum óheimilt að sýna viðkomandi myndefni hérlendis, hvort heldur sem er í gegnum dreifikerfi staðsettu á Íslandi, ellegar yfir gervihnött. Þar af leiðandi geti sjónvarpsáhorfendur búsettir á Íslandi, ekki keypt sér löglega áskrift að sjónvarpsstöðvum sem sýni frá ensku úrvalsdeildinni eða meistaradeild Evrópu ellegar því myndefni sem 365 miðlar ehf. hafi tryggt sér sýningarrétt á, á Íslandi, nema hjá 365 miðlum ehf. Af hálfu stefnanda er á það bent að stefndi selji móttökutæki til að ná útsendingum SKY, þar með talið læstu áskriftarefni stöðvarinnar, og í tengslum við sölu tækjabúnaðarins miðli stefndi ólöglegum áskriftarkortum að sjónvarpsstöðinni SKY til íslensks almenning, þannig að sendingar SKY, sem aðeins megi selja löglega til áhorfs á Bretlandseyjum sjáist hér á Íslandi.

Stefndi kveðst selja sérstakan móttökudisk til að taka við myndefni frá Bretlandi. Flestar sjónvarpsútsendingar eða stöðvar, sem hægt sé að ná með þessum móttökubúnaði, séu opnar og ekki þurfi sérstakt áskriftarkort til að taka við mynd í sjónvarp. Nefna megi í þessu sambandi allar stöðvar BBC og ITV.

Í þinghaldi 3. desember 2007 lagði stefnandi fram málsóknarumboð frá 365 miðlum ehf. til handa Samtökum myndrétthafa á Íslandi til þess að ,,höfða dómsmál fyrir hönd félaganna (þ.m.t. að grípa til bráðabirgðaaðgerða svo sem lögbanns eða kyrrsetningar) til þess að vernda höfundarréttindi félaganna og skyld réttindi með þeim hætti sem SMÁÍS telur við hæfi hverju sinni ...“

Í þinghaldi 31. janúar 2008 lagði stefnandi fram svohljóðandi bókun:

Í samræmi við framlagningu á dskj. nr. 9 sem er málsóknarumboð frá 365 miðlum ehf. til SMÁÍS-samtaka myndrétthafa á Íslandi, þann 3.12.2007 þá styðst aðild SMÁÍS í málinu við almennar reglur um málsóknarumboð og til fyllingar því við 3. mgr. 25. gr. EML eftir því sem við getur átt...

Málsástæður stefnda varðandi frávísunarkröfu stefnda.

Stefndi kveður að stefnandi málsins sé Samtök myndrétthafa á Íslandi f.h. 365 miðla ehf. og vísi stefnandi hvað aðild varði til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í málinu sé einn ákveðinn lögaðili, 365 miðlar ehf., að sækja sinn rétt, en Samtök myndrétthafa séu ekki að reka mál sem varði hagsmuni félagsmanna sinna almennt. Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 segi að félag eða samtök manna geti í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða til lausnar undan tilteknum skyldum þeirra. Hér sé vísað til aðila í fleirtölu og við það miðað að mál sé sótt með þessum hætti vegna hópaðildar en ekki vegna einstaklingsbundinna hagsmuna, eins og um ræði í máli þessu. Umrætt lagaákvæði hafi verið lögfest til þess að mæta þörfum manna í tilvikum þar sem afla þurfi úrlausnar dómstóla um lögvarða hagsmuni einhvers hóps manna, eins og segi í greinargerð með 25. gr. laga um meðferð einkamála. Ljóst sé því að þessi sérstaka heimild hafi verið við það miðuð að hópur einstaklinga eða félaga þyrfti að fá ákveðna úrlausn en það sé hins vegar ekki í samræmi við sjónarmið löggjafans, að mál séu rekin samkvæmt þessu heimildarákvæði af ákveðnu félagi fyrir einstakling eða einn ákveðinn lögaðila. Í slíkum tilvikum sé við það miðað að sá aðili sem hagsmuna hafi að gæta, í þessu tilviki 365 miðlar ehf., sæki mál sitt sjálfur en ekki lítt skilgreint hagsmunafélag myndrétthafa. Ljóst sé að 365 miðlar ehf. reki fjölbreytta starfsemi og aðeins hluti af starfsemi félagsins falli undir þá hagsmuni sem stefnandi hafi með að gera. Þannig liggi fyrir að stefnandi hafi ekkert haft með blaðaútgáfu 365 miðla ehf. að gera, svo einungis eitt atriði sé nefnt.

Ekki hafi verið lagðar fram samþykktir eða reglur stefnanda eða skýrt með einum eða öðrum hætti hvaða heimildir Samtök myndrétthafa á Íslandi hafi til að reka mál fyrir félagsmenn sína. Þá liggi ekkert fyrir um það hvað félagsaðild feli í sér fyrir 365 miðla ehf., eða hvort 365 miðlar ehf. hafi framselt einhver réttindi til Samtaka myndréttarhafa eða falið þeim að annast um málsóknir fyrir sig í einhverjum tilvikum.

Þegar svo hátti til, sem hér hafi verið rakið, beri að vísa málinu frá vegna aðildarskorts. Hagsmunaaðilinn sé eins og rakið sé í stefnu, og framlögðum gögnum, 365 miðlar ehf., en ekki Samtök myndrétthafa á Íslandi. Þau einu réttindi sem málið snúist um, varði ekki félaga í Samtökum myndrétthafa á Íslandi, heldur einn lögaðila, 365 miðla ehf., sem beri í slíku tilviki að sækja mál sitt sjálfur og geti ekki nýtt sér það réttarfarshagræði sem kveðið sé á um í 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá bendir stefndi á að ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 kveði á um að mál samkvæmt nefndu lagaákvæði verði einungis rekin til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða til lausnar undan tilteknum skyldum.

Dómkröfur í því máli sem hér um ræði, varði viðurkenningarkröfu á að stefnda sé óheimilt að selja eða hafa milligöngu um sölu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni SKY til notkunar á Íslandi. Jafnframt að viðurkennt verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 2. ágúst 2007 og einnig sé krafist skaðabóta að álitum og/eða viðurkenningar á skaðabótaskyldu auk málskostnaðar. Ljóst sé að dómkröfur samrýmist ekki því sem kveðið er á um í 3. mgr. 25. gr. laganna.

Þá vekur stefndi athygli á því að í stefnu sé þess sérstaklega getið að 365 miðlar ehf. sé rétthafi að ákveðnu myndefni. Rakið sé í stefnu að 365 miðlar ehf. séu rétthafar í málinu en ekki Samtök myndrétthafa á Íslandi. Samtökin hafi því ekki sérstaklega að gera með þau réttindi sem þetta mál fjalli um, heldur ákveðinn einn lögaðili, 365 miðlar ehf., þ.e. ekki almennir félagsmenn í samtökunum, heldur aðeins einn aðili. Hér skorti því allan grundvöll til málsóknar og kröfugerðar samkvæmt ofangreindu ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þess er því krafist að málinu verði vísað frá dómi vegna aðildarskorts, auk þess sem farið sé út fyrir þær heimildir til viðurkenningarkrafna, sem 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 kveði á um.

Varðandi það málsóknarumboð sem lagt var fram af hálfu stefnanda undir rekstri málsins, kveður stefndi að málinu hafi verið stefnt inn á grundvelli aðildar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og rekið á grundvelli þess. Síðari tíma leiðrétting á því komist ekki að.

Málsástæður stefnanda varðandi frávísunarkröfu.

Stefnandi bendir á að mál þetta sé rekið á grundvelli málsóknarumboðs sem lagt var fram í þinghaldi 3. desember sl., auk þess sem vísað sé til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi aðild stefnanda. Þá kveður stefnandi það enga þýðingu hafa í málinu að málsóknarumboð hafi ekki verið lagt fram þegar við þingfestingu málsins.

Niðurstaða.

Stefnandi máls þessa er Samtök myndrétthafa á Íslandi f.h. 365 miðla ehf.

Í stefnu máls þessa er um aðild vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og um heimild til viðurkenningarkrafna er vísað til 2. mgr. 25. gr. laganna. Undir rekstri málsins var lagt fram málsóknarumboð, þar sem 365 miðlar ehf. veita SMÁÍS, Samtökum myndrétthafa á Íslandi, fullt og ótakmarkað umboð til þess að höfða dómsmál fyrir hönd félagsins. Þá var lögð fram bókun af hálfu stefnanda þar sem segir að aðild SMÁÍS styðjist við almennar reglur um málsóknarumboð og ,,til fyllingar við 3. mgr. 25. gr. EML, eftir því sem við getur átt “.

Af hálfu stefnda hefur verið á það bent að er málinu var stefnt inn hafi það verið rekið á grundvelli aðildar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilað að félag eða samtök manna reki í eigin nafni mál til viðurkenningar tilteknum réttindum félagsmanna sinna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna, sem dómkrafa tekur til.

Dómkröfur stefnanda fela annars vegar í sér kröfu um viðurkenningu á tilteknum réttindum og hins vegar kröfu um staðfestingu lögbannsgerðar og kröfu um skaðabætur. Af dómi Hæstaréttar frá 13. nóvember 2007 í málinu SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni, nr. 575/2007, verður ráðið að stefnandi getur ekki sótt stoð til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, fyrir aðild sinni að kröfu um staðfestingu lögbanns í þágu tiltekins félagsmanns síns, eða kröfu um skaðabætur, sbr. lið b og c í kröfugerð stefnanda.

Það er mat dómsins að sú bókun sem lögð var fram af hálfu stefnanda, um að aðild stefnanda styddist við almennar reglur um málsóknarumboð og til fyllingar við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, feli í sér breytingu á málsgrundvellinum sjálfum, en lúti ekki einvörðungu að tilvísun stefnanda til lagaraka. Þannig gæti stefnandi nú, á grundvelli framangreinds málsóknarumboðs, sem lagt var fram eftir að stefndi skilaði greinargerð sinni, sótt stoð til þessa málsóknarumboðs fyrir aðild að kröfu um staðfestingu lögbanns og kröfu um skaðabætur, en eins og að framan greinir hefðu þær kröfur ekki náð fram að ganga á grundvelli aðildar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefur mótmælt því að aðild í málinu verði byggð á málsóknarumboði þessu. Þar sem stefnandi hefur með framlagningu málsóknarumboðs þessa breytt málsgrundvellinum í svo verulegum atriðum án samþykkis stefnda, þykir óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi, SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi stefnda, Eico ehf. 200.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi, greiði stefnda, Eico ehf. 200.000 krónur í málskostnað.