Hæstiréttur íslands
Mál nr. 804/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skaðabætur
|
|
Þriðjudaginn 28. janúar 2014. |
|
Nr. 804/2013.
|
Magnús Björn Brynjólfsson (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Þröstur Ríkharðsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skaðabætur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var viðurkenna kröfu M við slit K hf. M átti hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði sem rekstrarfélag KB hf. annaðist en K hf. var söluaðili sjóðanna, annaðist markaðssetningu þeirra og þjónustu við fjárfesta, auk milligöngu um útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina. M krafðist þess að K hf. yrði gert að bæta honum þann mismun sem var á skráðu innlausnargengi hlutdeildarskírteinanna 3. október 2008 og útgreiddrar fjárhæðar til hans 31. sama mánaðar. Byggði M á því að tjón hans mætti rekja til ólögmætra athafna og gerninga þriggja nafngreindra stjórnenda K hf. auk forsvarsmanns dótturfélags bankans í L. Héraðsdómur taldi M ekki hafa sýnt fram á hvernig ætluð brot áðurnefndra aðila hefðu valdið því tjóni sem hann taldi sig hafa orðið fyrir né að starfsmenn K hf. hefðu gerst sekir um tiltekna háttsemi í tengslum við fjárfestingar eða aðra starfsemi peningamarkaðssjóðsins sem leitt hefði með einhverjum hætti til tjóns hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þó að umræddir stjórnendur K hf. hefðu eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar verið sakfelldir og dæmdir til refsingar í héraðsdómi gæti það engu breytt um það að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.349.884 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2008 til greiðsludags og henni skipað í réttindaröð við slit varnaraðila aðallega samkvæmt 112. gr. og til vara 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði krafa sín um innheimtukostnað að fjárhæð 177.376 krónur og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 114. gr. sömu laga. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur 12. desember 2013 í sakamáli á hendur fjórum mönnum, sem höfðað var með ákæru 16. febrúar 2012 og vikið er að í forsendum úrskurðarins. Með dóminum voru allir þeir, sem bornir voru sökum í málinu, dæmdir til refsingar. Sú niðurstaða getur á hinn bóginn engu breytt um það að hinn kærði úrskurður verður með þessari athugasemd staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Magnús Björn Brynjólfsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013.
I.
Mál þetta, sem þingfest var 1. febrúar 2011, var tekið til úrskurðar 13. nóvember sl. Sóknaraðili er Magnús Björn Brynjólfsson en varnaraðili er Kaupþing hf.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 1.349.884 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að innheimtukostnaður að fjárhæð 177.376 krónur falli undir 114. gr. sömu laga.
Til vara er þess krafist að framangreind krafa vegna höfuðstóls og dráttarvaxta verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 en krafan vegna
innheimtukostnaðarins verði viðurkennd sem eftirstæð krafa skv. 114. gr.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
II.
Sóknaraðili átti hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði sem bar heitið Kaupþing Peningamarkaðssjóður, sem Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. annaðist reksturinn á. Var varnaraðili söluaðili sjóðanna, annaðist markaðssetningu þeirra og þjónustu við fjárfesta, auk milligöngu um útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina, allt í samræmi við ákvæði útboðslýsinga fyrir sjóðinn frá nóvember 2007, 3. mgr. 2. gr. reglna þeirra frá 29. september 2003, með síðari breytingum, og 18. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
Hinn 6. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga sem útgefnir voru af tilteknum félögum í Nasdaq OMX Iceland hf. Mun tilkynning þessa efnis hafa birst kl. 10.13 á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Stuttu síðar var innlausn hlutdeildarskírteina flestra sjóða hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf., þ. á m. peningamarkaðssjóðs, frestað ótímabundið. Kom fram í tilkynningunni að ákvörðunin um frestun væri tekin þar sem ekki væri með öðrum hætti unnt að tryggja jafnræði fjárfesta. Jafnframt var þar vísað til 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003.
Með bréfi, dags. 31. október 2008, var sóknaraðila tilkynnt að hlutdeildarskírteinishafar í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði fengju greitt úr sjóðnum sem næmi 85,3% af eign þeirra í sjóðnum miðað við 3. október 2008. Í samræmi við það voru sóknaraðila greiddar 7.522.116 krónur inn á vörslureikning hans úr áðurnefndum peningamarkaðssjóði, eftir að dreginn hafði verið frá innheimtur fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 48.635 krónur. Greiðslan var fullnaðargreiðsla en Kaupþingi Peningamarkaðssjóði var slitið 19. nóvember sama ár.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Sóknaraðili lýsti kröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.929.219 krónur vegna þess mismunar sem væri á hinni útborguðu fjárhæð og þeirri fjárhæð sem hefði verið uppgefið markaðsvirði inneignar hans í sjóðnum hinn 3. október 2008, að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði. Var kröfunni lýst sem forgangskröfu samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni, m.a. með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að um bótaskylt atvik væri að ræða. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
III.
Sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir bótaskyldu tjóni að fjárhæð 1.349.884 krónur vegna skerðingar sem hann hafi þurft að sæta er peningamarkaðssjóði varnaraðila var lokað. Hafi tjón þetta orðið vegna bótaskyldrar hegðunar yfirmanna og stjórnenda varnaraðila, þeirra Hreiðars Más Sigurðsson forstjóra, Sigurðar Einarssonar stjórnarformanns og Magnúsar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg SA. Um hafi verið að ræða margar ólögmætar athafnir og gerninga sem hafi verið framkvæmdir af ásetningi eða gáleysi, m.a. til að hygla fáum vildarviðskiptavinum og einstaklingum, en til stórskaða fyrir aðra viðskiptamenn bankans, þ. á m. sóknaraðila. Hafi tjón þetta verið fyrirsjáanlegt og/eða sennileg afleiðing af hinni saknæmu háttsemi forsvarsmannanna. Telji sóknaraðili að stjórn varnaraðila hafi gerst sek um grófa markaðsmisnotkun sem hafi leitt til hruns bankans og jafnframt til þess að peningamarkaðssjóðurinn tapaði stórfelldum fjárhæðum þannig að m.a. sóknaraðili hafi orðið af 15% af inneign sinni. Hafi inneign þessi verið í sjálfstæðri fégæslu peningamarkaðssjóðsins og hafi varnaraðili borið sjálfstæða ábyrgð á því að hún yrði ekki skert við hrun bankans. Varnaraðili beri vinnuveitendaábyrgð/húsbóndaábyrgð á umræddum forsvarsmönnum og saknæmri hegðun þeirra.
Til að lýsa hinni saknæmu hegðun stjórnenda varnaraðila nánar vísar sóknaraðili til fyrirliggjandi ákæruskjals, dags. 16. febrúar 2012, í máli sem embætti sérstaks saksóknara hafi höfðað á hendur framangreindum þremur forsvarsmönnum, ásamt Ólafi Ólafssyni, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti. Eru í greinargerð sóknaraðila nánar rakin ýmis atriði ákærunnar og hvernig hann telji hin meintu refsiverðu brot hafa valdið peningamarkaðssjóði varnaraðila stórkostlegu tjóni. Þannig sé meðal annars ljóst að fyrirsvarsmennirnir hafi lánað mikla fjármuni úr peningamarkaðssjóði, án allra trygginga, til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Hafi þetta verið í því skyni gert að halda verði þeirra uppi í lengri eða skemmri tíma til að blekkja markaðinn. Þeir hafi vitað að lítil innistæða eða takmarkaðar eignir hafi verið á bak við peningamarkaðssjóðinn en með þeim markaðsmisnotkunarbrotum sem þeim sé gefið að sök í ákæru hafi þeir blekkt almenning, og þar með sóknaraðila, til að halda að sér höndum og kalla ekki eftir innistæðu sinni í sjóðnum.
Samkvæmt fjárfestingarstefnu peningamarkaðssjóðsins hafi honum ekki verið heimilt að fjárfesta meira en 10% eigna sjóðsins í óskráðum eignum. Hins vegar megi sjá í rannsóknarskýrslu Alþingis, bls. 178 til 180, að fjárfestingar sjóðsins í slíkum eignum hafi farið í 13-15% á tímabilinu nóvember 2007 til janúar 2008. Hafi stjórnendur sjóðsins því augljóslega sniðgengið reglur sjóðsins að þessu leyti.
Loks vísar sóknaraðili til þess að hann telji kröfu sína falla réttilega undir 7. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 19/1991, þar sem um sé að ræða kröfu vegna meðferðar fjár sem þrotamaður, í þessu tilviki varnaraðili, hafi haft í vörslum sínum sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu.
IV.
Varnaraðili kveðst að öllu leyti hafna málatilbúnaði sóknaraðila. Vísar hann til þess að innlausn hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf. hafi verið frestað ótímabundið hinn 6. október 2008. Hafi frestunin verið gerð á grundvelli 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Frestunin hafi verið almenn og náð til allra hlutdeildarskírteina í sjóðunum. Hafi hún verið gerð til að tryggja jafnræði hlutdeildarskírteinishafa við þá fordæmalausu atburði sem dunið hafi yfir íslenskt fjármálakerfi haustið 2008. Í 3. mgr. 5. gr. reglna um peningamarkaðssjóðinn sé kveðið á um heimild til að fresta innlausn hlutdeildarskírteina, mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda skírteinanna krefjist þess, enda séu uppfyllt skilyrði laga nr. 30/2003. Samkvæmt því sé ljóst að ákvörðun rekstrarfélagsins um að fresta innlausn hlutdeildarskírteinanna hafi verið í samræmi við heimildir útboðsskilmála, reglur sjóðsins og tilvitnuð ákvæði laga nr. 30/2003 og gerð í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði allra sjóðfélaga við þær sérstöku og dæmalausu aðstæður sem hafi ríkt á fjármálamarkaði. Hafi ákvörðunin tekið þegar gildi og hafi því engar innlausnir slíkra hlutdeildarskírteina átt sér stað frá þeim tíma.
Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili eigi réttmæta skaðabótakröfu á hendur varnaraðila. Þannig hafi hann ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi brotið gegn skyldum sínum eða sýnt fram á tilvist eða umfang hins meinta tjóns og orsakasamhengi þess við meint saknæmt og ólögmætt atferli á ábyrgð varnaraðila. Skaðabótakrafa sóknaraðila virðist byggja á því að stjórnarmenn varnaraðila hafi með ólögmætu og saknæmu atferli sínu valdið sóknaraðila fjártjóni sem varnaraðili beri bótaábyrgð á. Þó komi ekkert fram í málatilbúnaði hans hvernig þessa meinta vanræksla hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á stöðu hlutdeildarskírteina í umræddum sjóði. Sjálfur telji varnaraðili augljóst að lækkun á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina í sjóðnum hafi einfaldlega verið óumflýjanleg afleiðing efnahagshrunsins haustið 2008.
Varnaraðili mótmæli því að ákærur sérstaks saksóknara vegna meintra brota tilgreindra forráðamanna varnaraðila, þ. á m. brota vegna markaðsmisnotkunar, hafi einhverja þýðingu í máli þessu. Hin meinta háttsemi stjórnendanna sé með öllu ósönnuð en jafnvel þótt hún yrði talin sönnuð verði ekki séð hvernig hún geti leitt til bótaskyldu varnaraðila í máli þessu.
Á því sé byggt að rekstur peningamarkaðssjóðsins og fjárfestingar hans hafi verið í fullu samræmi við yfirlýsta fjárfestingarstefnu hans. Samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. um uppgjör sjóðsins hafi fjárfestingar sjóðsins ávallt verið í samræmi við fjárfestingarstefnu hans og hefði sjóðurinn sætt virku eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Hlutfall innlána af heildareignum sjóðsins hefði verið aukið verulega á árinu 2008 og hafi þau numið 66% af eignum sjóðsins við slit hans. Skuldabréf fjármálafyrirtækja hafi numið um 14% af eignunum og skuldabréf annarra fyrirtækja um 20%. Fyrir setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hafi skuldabréf fjármálafyrirtækja verið jafn rétthá innlánum en við setningu laganna hafi innlánum verið skipað skör hærra. Hafi sjóðurinn því orðið að selja skuldabréf fjármálafyrirtækja með afslætti. Hið sama hafi átt við um skuldir fyrirtækja vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Hafi heildarlækkun á verðmæti eigna sjóðsins vegna þessa numið um 14,7%, en öll innlán hafi fengist að fullu greidd. Sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á annað en að fjárfestingar sjóðsins hafi verið í fullu samræmi við yfirlýsta fjárfestingarstefnu hans og sé í því sambandi bent á að tilvísun sóknaraðila til rannsóknarskýrslu Alþingis hafi enga þýðingu í þessu tilliti.
Á það sé bent að sóknaraðili hafi á engan hátt gert grein fyrir því hvernig hann telji ábyrgð varnaraðila vera til komna með hliðsjón af því að Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. hafi verið útgefandi viðkomandi hlutdeildarskírteina og annast rekstur peningamarkaðssjóðsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglna Kaupþings Peningamarkaðssjóðs. Sé krafan því vanreifuð að þessu leyti.
Verði talið að sóknaraðili eigi kröfu við slit varnaraðila telji varnaraðili að krafan sé skaðabótakrafa sem ekki njóti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda standist engan veginn sú staðhæfing sóknaraðila að varnaraðili hafi haft fjármuni hans í sinni vörslu sem opinber sýslunarmaður með sjálfstæða fégæslu. Þá sé fjárhæð kröfunnar einnig mótmælt sem og kröfu um dráttarvexti frá 9. október 2008 til greiðsludags.
V.
Niðurstaða
Samkvæmt 3. gr. reglna um Kaupþing Peningamarkaðssjóð fór Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. með rekstur sjóðsins í samræmi við þágildandi lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en á grundvelli heimildar í 18. gr. þeirra laga fékk félagið samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir því að útvista hluta lögbundinna verkefna sinna, annars vegar til Arion verðbréfavörslu hf. og hins vegar til varnaraðila. Kemur þannig fram í 3. mgr. 3. gr. tilvitnaðra reglna að varnaraðili sé söluaðili sjóðsins og annist þjónustu við þá sem fjárfesti í sjóðnum eða óski eftir upplýsingum í tengslum við fyrirhugaða fjárfestingu í sjóðnum og annist milligöngu um útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina. Þá annist bankinn og markaðssetningu og sölu hlutdeildarskírteina að öðru leyti.
Sóknaraðili krefst þess í máli þessu að varnaraðila verði gert að bæta honum þann mismun sem var á skráðu innlausnargengi hlutdeildarskírteina hans í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði hinn 3. október 2008 og útgreiddrar fjárhæðar til hans hinn 31. sama mánaðar, eða 1.349.884 krónur. Til stuðnings þeirri kröfu vísar hann til þess að tjónið megi rekja til ólögmætra athafna og gerninga þriggja nafngreindra stjórnenda varnaraðila auk forsvarsmanns dótturfélags bankans í Luxemborg. Sýnist í því tilliti í fyrsta lagi á því byggt að þeir hinir sömu hafi gerst sekir um „stórfellda markaðsmisnotkun í þeim tilgangi að blekkja almenning og þar með sóknaraðila til að halda að sér höndum og kalla ekki eftir innistæðu sinni í peningamarkaðssjóðnum“. Jafnframt sé ljóst að ætluð brot framangreindra manna, samkvæmt ákæru sem sérstakur saksóknari gaf út á hendur þeim hinn 16. febrúar 2012, hafi valdið sóknaraðila, öllum hluthöfum bankans og eigendum fjármuna í peningamarkaðssjóðnum stórfelldu tjóni.
Sóknaraðili hefur ekki fært fram nein önnur gögn til stuðnings framangreindum staðhæfingum sínum en ljósrit af umræddri ákæru og á síðari stigum einnig ljósrit af ákæru, sem sérstakur saksóknari gaf út 15. mars 2013 á hendur níu forsvarsmönnum Kaupþings banka hf. fyrir ýmis brot á almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti, en dómar í hvorugu þessara mála hafa verið kveðnir upp. Þá hefur sóknaraðili á engan hátt sýnt fram á hvernig ætluð brot tilgreindra manna hafi valdið því tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Eru því engin skilyrði fyrir bótaskyldu varnaraðila gagnvart sóknaraðila vegna þessa.
Sóknaraðili virðist að síðustu byggja kröfu sína á því að brotið hafi verið gegn yfirlýstri fjárfestingarstefnu við rekstur peningamarkaðssjóðsins og jafnvel að stjórnendur varnaraðila hafi lánað „stórfellt fjármuni úr peningamarkaðssjóði án allra trygginga, til kaupa á hlutabréfum til að halda verðinu á þeim uppi í lengri eða skemmri tíma ...“. Er í greinargerð hans ýmist talað um að stjórnendur Kaupþings Peningamarkaðssjóðs hafi sniðgengið reglur sjóðsins eða að markmiðin hafi verið svikin og sniðgengin af stjórnendum varnaraðila. Þannig hafi verið „um að ræða mjög alvarlega misnotkun á innistæðum í peningamarkaðssjóði Kaupþings sem felst í því að stjórnendur bankans hafa gerst sekir um stórfellda markaðsmisnotkun, umboðssvik, skjalafals, ýmis auðgunarbrot og brot á ákvæðum hlutafélagalaga“. Enga nánari afmörkun er þó að finna á því í hverju sú háttsemi hafi verið fólgin sem leiða ætti til bótaskyldu varnaraðila, sérstaklega með tilliti til þeirra verkefnaskiptingar sem til staðar var í starfsemi peningamarkaðssjóðsins. Verður hvorki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að starfsmenn varnaraðila hafi gerst sekir um framangreinda háttsemi í tengslum við fjárfestingar eða aðra starfsemi peningamarkaðssjóðsins né að sú háttsemi hafi með einhverjum hætti leitt til meints tjóns sóknaraðila.
Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllu kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 450.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Magnúsar Björns Brynjólfssonar, á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.