Print

Mál nr. 814/2016

Raiffeisen Bank International AG (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
Kaupþingi ehf. (Grímur Sigurðsson lögmaður, Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður , 2. prófmál)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Lánssamningur
  • Riftun
  • Greiðsla
Reifun

K ehf. krafðist riftunar á greiðslu skuldar K hf. við RZ á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en K ehf. byggði á því að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var og hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum. RZ rann saman við RI í mars 2017 og tók RI við öllum réttindum og skyldum hans. RZ hafði ásamt þremur öðrum bönkum í nóvember 2007 lagt K hf. til svokallað brúarlán en lánið skyldi endurgreiðast að fullu ári síðar. Í júní 2008 tók K hf. nýtt sambankalán og að því stóð meðal annars RZ. Drjúgum hluta síðara lánsins var ráðstafað af hálfu K hf., meðal annars til endurgreiðslu á lánshluta RZ í hinu fyrra láni. Ágreiningur aðila laut einnig að því hvort líta bæri til ensks réttar við úrlausn málsins en RZ taldi að í báðum lánssamningunum og fylgiskjölum með þeim væri mælt svo fyrir að um þá færi eftir enskum rétti sem því ætti að gilda um sakarefnið framar íslenskum lögum. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að sá mismunur sem hefði verið á hlutdeild RZ í upphaflegu brúarláni frá nóvember 2007 og hlutdeild bankans í sambankaláninu frá júní 2008 hefði falið í sér greiðslu á skuld í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í dómaframkvæmd réttarins hefði ítrekað verið lagt til grundvallar að greiðsla við þessar aðstæður hefði verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var í skilningi ákvæðisins og ekki verið talið skipta máli þótt heimilt hefði verið að greiða skuldina fyrir gjalddaga. Var því talið að umrædd greiðsla K hf. hefði verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Við mat á því hvort greiðslan væri venjuleg eftir atvikum yrði að líta heildstætt á þær tvær áðurnefndar lántökur K hf. og hvernig staðið hefði verið að endurgreiðslu á hluta fyrra lánsins til RZ í júní 2008. Með síðara láninu hefði verið um mikilvæga viðbótarfjármögnun að ræða fyrir K hf. og jafnframt framlengingu á fjármögnun hans hvað varðaði stærstan hluta upphaflegs láns. Var fallist á með RI að miða yrði við að lánið sem tekið hefði verið í júní 2008 hefði falið í sér ávinning fyrir K hf. þótt vaxtakjör þess hefðu verið lakari en á fyrra láni. Var hin umþrætta greiðsla því talin venjuleg eftir atvikum samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og því þyrfti ekki að taka afstöðu til þess hvort líta bæri til enskra laga við úrlausn málsins. Var RI sýknaður af kröfu K ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir og landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Sigurður Tómas Magnússon.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. október 2016 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 23. nóvember sama ár og var áfrýjað öðru sinni 8. desember 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með samkomulagi 24. janúar 2017 mun hafa verið ákveðið að sameina Raiffeisen Bank International AG og Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, sem var meðstefndi í héraði, og var það tilkynnt fyrirtækjaskrá Austurríkis 18. mars sama ár. Raiffeisen Bank International AG mun með þessu hafa yfirtekið réttindi og skyldur Raiffeisen Zentralbank Österreich AG. Er Raiffeisen Bank International AG því áfrýjandi málsins. Þá varð sú breyting að gengnum héraðsdómi að stefndi er nú einkahlutafélag í stað hlutafélags áður.

I

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að fjórir bankar lögðu stefnda, sem þá bar heitið Kaupþing banki hf., til 300.000.000 evrur 12. nóvember 2007. Auk Raiffeisen Zentralbank Österreich AG stóðu að lánveitingunni, Bayerische Landesbank, Bayerische Hipo-und Vereinsbank AG og Fortis Bank S.A./N.V. Hlutur hvers banka í lánveitingunni var jafn, eða 75.000.000 evrur, og var tilgreint í lánssamningnum að lánið skyldi nýtt til almennrar fjármögnunar í rekstri stefnda og greiðast að fullu ári síðar eða 11. nóvember 2008. Vextir af láninu skyldu greiddir í fyrsta sinn 20. febrúar 2008, síðan á þriggja mánaða fresti fram til 20. ágúst það ár en eftir það mánaðarlega. Réttindi og skyldur lánveitenda voru skiptar, þannig að hver og einn þeirra bar sjálfstæðar skyldur og átti sjálfstæðan rétt samkvæmt samningnum. Þá voru meðal annars í honum ákvæði sem tryggja áttu lánveitendum jafnræði um hvernig bregðast skyldi við atvikum sem upp gætu komið á lánstímanum. Einnig kom fram í samningnum að stefndi gæti greitt lánið að hluta til eða að öllu leyti fyrir lokagjalddaga, eða á síðasta degi hvers vaxtatímabils, að undangenginni tilkynningu með minnst tíu daga fyrirvara til Bayerische Landesbank, sem var umsýslubanki lánsins.

Stefndi tók nýtt sambankalán 13. júní 2008. Að því stóðu tveir af áðurnefndum lánveitendum, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og Bayerische Landesbank, auk Bank of America N.A. og Lloyds TSB Bank plc. Var tilgangur lánsins sagður til almennrar fjármögnunar í rekstri stefnda. Kjörum lánsins er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Var lánstíminn lengri og nú til tveggja ára en lánsfjárhæð 275.000.000 evrur. Hlutur Raiffeisen Zentralbank Österreich AG í lánveitingunni var 50.000.000 evrur, en lánshlutur hvers hinna bankanna þriggja 75.000.000 evrur. Var Bayerische Landesbank umsýslubanki þessa láns eins og hins fyrra. Óumdeilt er að drjúgum hluta lánsins, eða 150.659.912,50 evrum, var ráðstafað af hálfu stefnda 20. júní 2008. Annars vegar var það til endurgreiðslu á lánshlutum umsýslubankans sjálfs í hinu fyrra láni og Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, 75.000.000 evrur til hvors, og hins vegar til greiðslu vaxta að fjárhæð 659.912,50 evrur. Hinir bankarnir tveir sem tóku þátt í fyrri lánveitingunni en ekki þeirri síðari, Bayerische Hipo-und Vereinsbank AG og Fortis Bank S.A./N.V, fengu á hinn bóginn ekkert greitt.

Hinn 9. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slitameðferð stefnda, með frestdegi 15. nóvember 2008, var lokið með nauðasamningi 23. desember 2015. Við hana var áfrýjanda og Raiffeisen Zentralbank Österreich AG ritað bréf 7. febrúar 2012 þar sem krafist var riftunar á greiðslu skuldar við Raiffeisen Zentralbank Österreich AG á lánshluta hans í sambankaláninu 12. nóvember 2007 umfram hlutdeild bankans í hinu nýja láni 13. júní 2008, samtals 25.000.000 evrur. Var krafan reist á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Þessu erindi mun ekki hafa verið svarað og höfðaði stefndi mál þetta 30. maí 2012.

II

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi vísar stefndi einkum til þess að framangreind endurgreiðsla til Raiffeisen Zentralbank Österreich AG 20. júní 2008 á 25.000.000 evrum hafi verið greiðsla á skuld innan sex mánaða fyrir frestdag 15. nóvember 2008 og fyrir umsaminn gjalddaga 11. sama mánaðar og fyrr en eðlilegt megi teljast í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Umsaminn gjalddagi lánsins hafi verið eftir að stefnda var skipuð skilanefnd af Fjármálaeftirlitinu. Með greiðslunni hafi jafnræði kröfuhafa verið raskað en óvenjulegt sé að lán sem þetta greiðist fyrir gjalddaga eða að krafa sé sett fram um slíka greiðslu af hálfu lánveitanda bankastofnunar. Ráða megi af samskiptum aðila að ástæða þess að Raiffeisen Zentralbank Österreich AG hafi krafist greiðslu á hinu eldra láni hafi tengst vaxandi áhyggjum hans af stöðu efnahagsmála á Íslandi. Versnandi ástand á lánamörkuðum með minna trausti til stefnda og möguleikum hans til að standa við skuldbindingar sínar séu ekki atvik sem réttlætt geti greiðslu á láni fyrir gjalddaga samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Þá telur stefndi sér í lagi óvenjulegt að þeir fjármunir sem hann greiddi til Raiffeisen Zentralbank Österreich AG hafi verið teknir að láni á umtalsvert óhagstæðari kjörum en hann hafi notið fyrir hjá þeim síðarnefnda. Hvatinn að greiðslunni hafi því ekki verið sá að lækka vaxtagreiðslur bankans. Byggir stefndi á því að áfrýjanda beri samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að endurgreiða sér þá fjárhæð sem fengist hafi greidd með þeim hætti sem að framan er rakið, eða 25.000.000 evrur, og með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, enda hafi fjármunirnir verið nýttir af Raiffeisen Zentralbank Österreich AG til ávöxtunar. 

III

Eins og ítarlega er rakið í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur milli aðila um hvort líta beri til ensks réttar við úrlausn málsins. Byggir áfrýjandi á því að ákvæði 104. gr. laga nr. 161/2002, sem innleitt hafi 2. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, kveði á um að farið skuli eftir íslenskum lögum um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slitameðferð fjármálafyrirtækis, sem hafi staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, með þeim takmörkunum er greini í 2. mgr. 99. gr. sömu laga. Í n. lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sem innleiða átti 30. gr. tilskipunarinnar, komi fram að löggerningur verði þó ekki ógiltur ef sá sem hefur hag af því að löggerningurinn haldi gildi sínu leggi fram fullnægjandi sönnun um að gerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að í lögum þess ríkis sé ekki að finna ógildingarreglu er taki til þess tilviks sem um ræði. Vísar hann meðal annars til dóms EFTA dómstólsins 17. október 2014 í máli nr. E-28/13. Telur áfrýjandi að í báðum lánssamningunum og fylgiskjölum með þeim sé mælt fyrir að um þá fari eftir enskum rétti sem því eigi að gilda um sakarefni þetta framar íslenskum lögum.

Efnisvarnir áfrýjanda eru einkum á því reistar að greiðslan 20. júní 2008 hafi verið hluti af fyrirframákveðnum viðskiptum til hagsbóta fyrir stefnda við öflun lánsfjár og hafi því ekki verið innt af hendi óvenjulega snemma. Þetta megi sjá af gögnum um aðdraganda lánveitinganna beggja. Hið fyrra lán 12. nóvember 2007 hafi einkum verið ætlað að brúa bil uns tekið yrði sambankalán til lengri tíma. Hafi lánið 13. júní 2008 þannig ekki einungis verið ætlað til almennrar fjármögnunar í rekstri stefnda heldur átt að endurfjármagna brúarlánið frá 12. nóvember 2007 með lánstíma í tvö ár til hagsbóta fyrir stefnda. Þannig hafi í skilmálum brúarlánsins verið ákvæði um heimild til greiðslu fyrir lokagjalddaga 11. nóvember 2008. Síðari lánið hafi verið hagfellt stefnda með tilliti til aðstæðna allra og greiðsla hluta fyrra lánsins verið venjuleg eftir atvikum öllum en ekki á skjön við aðstæður á markaði, enda hafi ráðstöfunin notið samþykkis annarra aðila hins fyrra láns, sem séu sérfræðingar á sviði lánamála. Af framangreindu leiði að ráðstöfun þessari verði ekki rift að íslenskum rétti og enn síður samkvæmt reglum ensks réttar.

IV

Krafa stefnda um riftun greiðslu hans 20. júní 2008 til handa Raiffeisen Zentralbank Österreich AG að fjárhæð 25.000.000 evrur er einvörðungu reist á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, en samkvæmt síðargreinda ákvæðinu verður riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 beitt ef sýnt er að eignir fjármálafyrirtækis muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess við slit. Samkvæmt fyrrgreinda ákvæðinu má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Eins og áður segir var frestdagur við slit stefnda 15. nóvember 2008 og liggur fyrir að greiðsla skuldarinnar samkvæmt láninu 12. nóvember 2007 var innt af hendi fyrir lokagjalddaga þess eða 20. júní 2008 og innan þeirra tímamarka sem greinir í ákvæðinu.

Samkvæmt gögnum málsins hafði stefndi frá miðju ári 2007 átt í viðræðum við Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og fleiri alþjóðlega banka um að þeir veittu stefnda hærra sambankalán og til lengri tíma en raunin varð með lánveitingunni 12. nóvember 2007. Mun vilji stefnda hafa staðið til þess að fá allt að 500.000.000 evra lán til allt að fimm ára, en hugmyndir Raiffeisen Zentralbank Österreich AG munu þá hafa verið nær því að koma að slíkri lánveitingu með 30.000.000 til 50.000.000 evrum og þá til skemmri tíma eða tveggja ára. Ekki náðist samkomulag á árinu 2007 um annað en 300.000.000 evra lán til eins árs með 75.000.000 evra hlut hvers lánveitanda. Var tekið fram í samþykki stjórnar Raiffeisen Zentralbank Österreich AG fyrir láninu að það væri brúarlán (Bridge Loan Club Loan Facility) veitt í samræmi við samþykktar áætlanir um áhættumörk, en yrði leyst af hólmi með sambankaláni um leið og markaðsaðstæður yrðu betri. Einnig sagði í skipunarbréfi (Mandate Letter) 28. september 2007 með láninu að um væri að ræða tímabundinn lánssamning sem ætlað væri að vera brúarfjármögnun til að mæta fjárþörf lántaka í eitt ár en að lántaki áformi að taka nýtt sambankalán leið og honum byðust betri kjör á alþjóðlegum skulda- og fjármagnsmörkuðum, þó eigi síðar en eftir eitt ár. Til viðbótar þessu var í skilmálaskrá í viðauka við lánssamninginn tiltekið að um væri að ræða brúarlán sem heimilaði lántökum að greiða upp nýtta lánsheimild við lok hvers vaxtatímabils samkvæmt lánssamningnum.

Framburður vitna og ýmis tölvubréf, sem að nokkru eru rakin í héraðsdómi, bera með sér að eftir mikil samskipti milli starfsmanna stefnda og starfsmanna Raiffeisen Zentralbank Österreich AG á árinu 2008 um stöðu á lánamarkaði og umfang viðskipta bankanna tveggja hafi það loks orðið niðurstaða stjórnar síðarnefnda bankans á fundi 23. maí 2008 að bjóða fram 50.000.000 evra hlutdeild í hinu nýja láni í stað 75.000.000 evra. Samkvæmt svokölluðu ákvörðunarblaði 23. maí 2008 voru lagðar fyrir stjórn bankans tvær tillögur, annars vegar frá yfirmanni deildar, sem fór með samskipti bankans við aðrar fjármálastofnanir, um lánveitingu að fjárhæð 75.000.000 evrur og hins vegar frá áhættudeild bankans um 50.000.000 evra lánveitingu. Af gögnum málsins verður og ráðið að stefndi hafi verið mjög stór viðskiptavinur Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og lánveitingar þess síðarnefnda til stefnda hafi aukist umtalsvert frá því brúarlánið var veitt.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að sá mismunur sem var á hlutdeild  Raiffeisen Zentralbank Österreich AG í upphaflegu brúarláni til stefnda 12. nóvember 2007 og hlutdeild bankans í sambankaláninu 13. júní 2008, fól í sér greiðslu á 25.000.000 evra skuld í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag sem var 15. nóvember 2008 og jafnframt var hún innt af hendi fyrir umsaminn gjalddaga brúarlánsins sem var 11. nóvember 2008. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið lagt til grundvallar að greiðsla við þessar aðstæður hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og hefur ekki verið talið skipta máli þótt heimilt hafi verið að greiða skuldina fyrir gjalddaga, sbr. dóma Hæstaréttar 11. maí 2017 í málum nr. 189/2016, 200/2016 og 621/2016 og 19. desember 2017 í máli nr. 86/2017. Í samræmi við það telst umrædd greiðsla stefnda hafa verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

V

Riftun greiðslu eftir 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki komið við ef greiðsla virðist venjuleg eftir atvikum og ber móttakandi greiðslu sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið.

Við mat á því hvort fyrrnefnd greiðsla stefnda til Raiffeisen Zentralbank Österreich AG geti talist venjuleg eftir atvikum verður að líta til þess að megingrundvöllur riftunarreglna laga nr. 21/1991, þar á meðal 134. gr. laganna, er að tryggja jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti en sömu sjónarmið eiga við um slit fjármálafyrirtækja. Önnur sjónarmið ganga aftur á móti í gagnstæða átt svo sem grundvallarregla samningaréttar um frelsi manna til að ráðstafa hagsmunum sínum með löggerningum og sjónarmið um öryggi í viðskiptum.

Skilyrðið um að greiðsla teljist ekki venjuleg eftir atvikum vísar til þess að aðeins sé rétt að fallast á riftun greiðslu ef hún er óvenjuleg í sjálfu sér eða innt af hendi við óvenjulegar aðstæður. Í því sambandi er rétt að líta til eðlis viðkomandi viðskipta og hvort greiðslan sé óvenjuleg í þeim viðskiptum sem um ræðir.

Við mat á því hvort greiðsla teljist venjuleg eftir atvikum skiptir máli hvort hún hafi á sér þann blæ að með henni sé verið að ívilna móttakanda greiðslunnar á kostnað annarra kröfuhafa. Virða verður málsatvik heildstætt en í því samhengi kann huglæg afstaða þess sem móttók greiðslu að skipta máli og þá einkum hvort telja megi að slæm fjárhagsleg staða greiðanda hafi haft áhrif á greiðsluna og jafnvel ráðið úrslitum um hana. Greiðsla fyrir gjalddaga getur þó talist venjuleg eftir atvikum þótt hún hafi átt sér stað þegar fjárhagsstaða greiðanda var slæm, ef atvik gefa þrátt fyrir það ekki til kynna að til hafi staðið að ívilna einum kröfuhafa á kostnað annarra.

Litið verður heildstætt á þær tvær lántökur stefnda sem um er fjallað í málinu og hvernig staðið var að endurgreiðslu á hluta fyrra lánsins til Raiffeisen Zentralbank Österreich AG 20. júní 2008. Niðurstaðan af þessum tveimur lánsviðskiptum varð sú að í stað 300.000.000 evra fjármögnunar til 11. nóvember 2008 tryggði stefndi sér 425.000.000 evra fjármögnun til þess dags en jafnframt nýja 275.000.000 evra framhaldsfjármögnun til tveggja ára. Þótt kjör síðara lánsins væru lakari en þess fyrra var um mikilvæga 125.000.000 evra viðbótarfjármögnun að ræða fyrir stefnda á erfiðum tímum í rekstri bankans og jafnframt framlengingu á fjármögnun hans hvað varðar stærstan hluta upphaflegs láns í rúma átján mánuði. Að þessu virtu verður fallist á með áfrýjanda að miða verði við að lánið sem tekið var 13. júní 2008 hafi falið í sér ávinning fyrir stefnda þótt vaxtakjör þess hafi verið lakari en á fyrra láni. Verður umdeild greiðsla því talin venjuleg eftir atvikum í skilningi niðurlags 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort líta beri til enskra laga við úrlausn málsins. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfum stefnda.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Raiffeisen Bank International AG, er sýkn af kröfum stefnda, Kaupþings ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 10.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2016

Mál þetta sem dómtekið var 15. júní 2016, var höfðað 30. maí 2012 af Kaupþingi hf., Borgartúni 26, Reykjavík á hendur Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, Austurríki og Raiffaisen Bank International AG, Austurríki, til riftunar á greiðslu skuldar og endurgreiðslu.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi greiðslu stefnanda á skuld við stefnda Raiffeisen Zentralbank Österreich AG að fjárhæð 25.000.000 evra sem fram fór 20. júní 2008, að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda 25.000.000 evra með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2008 til greiðsludags og að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru aðallega að krafist er sýknu af kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndu krefjast þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim sameiginlega (in solidum) málskostnað að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi.

                Í upphafi kröfðust stefndu þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi og byggðu þá kröfu á því að íslenskir dómstólar ættu ekki lögsögu í málinu, á því að riftunarkrafan væri ekki nægilega snemma fram komin, á því að kröfur stefnanda væru ekki nægilega skýrar og á því að einnig hefði þurft að stefna umsýslubankanum Bayerische Landesbank (BL) í málinu. Á þessar málsástæður stefndu var ekki fallist og var frávísunarkröfu stefndu hafnað með úrskurði dómsins 11. júlí 2013.

Um aðila málsins

Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar stefnanda þann 9. október 2008 og skipaði honum skilanefnd með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Stefnandi fékk heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., 24. nóvember 2008, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008. Sú heimild var framlengd þann 19. febrúar 2009 til 13. nóvember sama ár. Telst stefnandi vera til slitameðferðar eftir reglum XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, frá 22. apríl 2009 að telja, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002. Stefnanda var skipuð slitastjórn með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 25. maí 2009. Innköllun slitastjórnar til kröfuhafa birtist fyrra sinn í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember sama ár. Stefnandi var úrskurðaður í slitameðferð 22. nóvember 2010 í kjölfar gildistöku laga nr. 132/2010, og lauk þá þeirri greiðslustöðvun sem bankinn hafði fengið þann 24. nóvember 2008. Þann 1. janúar 2012 tók slitastjórn við verkefnum skilanefndar sem var lögð niður, sbr. 8. gr. laga nr. 78/2011, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002.

Raiffeisen Bank International AG (RBI) og Raiffeisen Zentralbank Österreich AG (RZB) er stefnt sameiginlega í málinu. Atvik málsins er að rekja til viðskipta RZB og stefnanda, en RBI telst bera ábyrgð á þeim skuldbindingum RZB, sem stofnað var til fyrir 9. október 2010. Byggist það á fjárhagslegri endurskipulagningu sem RZB fór í gegnum á árunum 2009 og 2010, sem fólst í því að bankanum var skipt upp í tvö félög og bar þá hið útskipta félag, Cembra Beteiligungs AG, ábyrgð á skuldbindingum þess félags sem skipt var (RZB). Nýja félagið var sameinað RBI og slitið. Ágreiningslaust er að viðmiðunardagur vegna þeirrar ábyrgðar sem RBI tók við er 9. október 2010.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Með fjölbankaláni 12. nóvember 2007 lögðu fjórir bankar stefnanda, Kaupþingi hf., til 300.000.000 evra. Auk stefnda, RZB, voru lánveitendur Bayerische Landesbank (BL), Bayerische Hypo- und Vereinsbank AG (HVB) og Fortis Bank S.A. (Fortis) og var hlutur hvers lánveitanda um sig í láninu 75.000.000 evra. Lánið var nefnt brúarlán í undirbúningsgögnum og var það veitt í kjölfar viðræðna framangreindra aðila um fjármögnun til lengri tíma sem stefnandi hafði óskað eftir. Lánið skyldi samkvæmt grein 6.1 í lánssamningnum endurgreiðast að fullu 364 dögum eftir dagsetningu samningsins, þ.e. þann 11. nóvember 2008.

Með nýju fjölbankaláni til tveggja ára voru stefnanda þann 13. júní 2008 lagðar til 275.000.000 evra af hálfu fjögurra banka, þar á meðal stefnda RZB, en lánið var samkvæmt grein 3 í lánssamningi ætlað til almennrar fjármögnunar í rekstri stefnanda. Hlutur stefnda RZB í nýja láninu var 50.000.000 evra og umsýslubanki beggja lánanna, BL, lagði til 75.000.000 evra. Auk þessara tveggja lánveitenda lögðu bankarnir Bank of America N.A. (BofA) og Lloyds TSB Bank plc. (Lloyds) hvor um sig 75.000.000 evra til nýja lánsins. Drjúgum hluta af nýja láninu, 150.659.912,50 evrum, var af hálfu stefnanda ráðstafað þann 20. júní 2008 til þess að endurgreiða annars vegar hluta umsýslubankans sjálfs í fyrra láninu, 75.000.000 evra, og hins vegar hluta stefnda RZB í fyrra láninu, 75.000.000 evra, auk þess sem greiddir voru vextir, 659.912,50 evrur. Bankarnir HVB og Fortis tóku ekki þátt í nýja láninu sem lánveitendur og fengu þeir bankar ekki greitt af fyrra láninu þegar stefndi RZB og BL fengu greitt, en hver og einn lánveitenda átti sjálfstæðan rétt og bar sjálfstæðar skyldur samkvæmt lánssamningnum frá 12. nóvember 2007.

Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á greiðslu sinni til stefnda RZB, sem innt var af hendi 20. júní 2008 til uppgreiðslu á lánshluta hans í fyrra fjölbankaláninu sem var á gjalddaga þann 11. nóvember 2008, að því marki sem greiðslan var hærri en sem nemi nýja láninu frá stefnda RZB. Höfuðstóll nýja lánsins frá RZB var 25.000.000 evra lægri en höfuðstóll eldra lánsins sem greitt var upp. Stefnandi krefst endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar með dráttarvöxtum frá greiðsludegi. Stefnandi byggir á því að þessi greiðsla til stefnda RZB sé riftanleg með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi hún verið innt af hendi fyrir gjalddaga og því fyrr en eðlilegt var og innan sex mánaða fyrir frestdag, sem var þann 15. nóvember 2008. Stefnandi kveðst hafa krafist riftunar á greiðslunni með bréfi til stefndu 7. febrúar 2012 og um það er ekki ágreiningur.

Af hálfu stefndu er kröfum stefnanda hafnað og á því byggt að þegar stefndi RZB hafi samþykkt að taka þátt í nýju láni til stefnanda, þar sem hlutdeild stefnda RZB er 50.000.000 evra, hafi verið gengið út frá því að þá yrði endurgreiddur hluti bankans í fyrra láni til stefnanda, 75.000.000 evra, fyrir upphaflegan skráðan lokagjalddaga þess samkvæmt lánssamningi. Það lán hafi verið brúarlán sem frá upphafi hafi staðið til að greiddist upp innan árs og tilgangur nýja lánsins hafi verið endurfjármögnun brúarlánsins og framlenging þess um tvö ár til hagsbóta fyrir stefnanda, sem frá upphafi hafi sóst eftir láni til lengri tíma. Greiðslan 20. júní 2008 hafi af þeirri ástæðu verið fyrir fram ákveðin og hafi ekki verið greidd óeðlilega snemma. Greiðslan hafi verið samþykkt af þeim bönkum sem voru þátttakendur í lánveitingunni og hafi ekki þótt óeðlileg. Greiðslan sé ekki riftanleg eða endurkræf.

Þá byggja stefndu á því að ensk lög gildi um lánasamningana og byggja á því að efni n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki standi því í vegi að riftunarheimild íslenskra laga um gjaldþrotaskipti o.fl. verði beitt um þessa greiðslu, þar sem í enskum rétti sé ekki að finna ógildingarreglu sem eigi við um atvik málsins. Stefndu hafa við meðferð málsins aflað matsgerðar til þess að sýna fram á efni enskra laga að þessu leyti. Stefnandi telur ensk lög ekki eiga við um ógildingu gernings á grundvelli gjaldþrotaskiptalaga og telur jafnframt að umrædd greiðsla væri engu að síður riftanleg þó svo væri.

Við aðalmeðferð málsins báru vitni með aðstoð túlks í símaskýrslum matsmaðurinn Louise Gullifer prófessor og Harald Kreuzmair, starfsmaður stefndu. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir og verður nánar fjallað um málsatvik sem máli skipta í niðurstöðukafla dómsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Grundvöllur málsins og varnarþing

Stefnandi krefst þess að rift verði greiðslu til stefnda RZB sem innt var af hendi þann 20. júní 2008 til uppgreiðslu á lánshluta stefnda í ógjaldföllnu fjölbankaláni, sem var á gjalddaga þann 11. nóvember 2008. Hluti andvirðis nýs fjölbankaláns stefnanda dags. 13. júní 2008 var nýttur til greiðslunnar, en höfuðstóll þess láns frá RZB var 25.000.000 evra lægri en höfuðstóll eldra lánsins frá RZB sem greitt var upp.

Stefnandi krefjist riftunar á greiðslu til stefnda RZB á grundvelli 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þar sé kveðið á um að ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis í slitameðferð dugi til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eftir sömu reglum og samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og gildi um slík mál öll ákvæði XX. kafla laganna, með þeirri breytingu að frestur til að höfða mál sé 30 mánuðir í stað 6 mánaða skv. 148. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi byggi á því að óumdeilt sé að ákvæði 103. gr. laga nr. 161/2002 eigi við um hann. Mál á grundvelli ákvæðisins skuli þingfest fyrir þeim héraðsdómstól þar sem fjármálafyrirtæki hafi verið tekið til slita. Á þeim grundvelli sé mál þetta höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kröfulýsingarfrestur við slit stefnanda hafi verið til 30. desember 2009 og hafi 30 mánaða málshöfðunarfrestur þá fyrst byrjað að líða, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002.

Riftanleg greiðsla skv. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Stefnandi byggi á því að greiðsla til stefnda RZB þann 20. júní 2008 á lánshluta hans í fjölbankaláni, dags. 12. nóvember 2007, umfram hlutdeild hans í nýju láni, samtals 25.000.000 evra, sé riftanleg með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi hún verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi verið og innan sex mánaða fyrir frestdag, sem verið hafi þann 15. nóvember 2008.

Stefnandi byggi á því að greiðsla á skuld fyrir umsaminn gjalddaga sé greiðsla sem innt sé af hendi fyrr en eðlilegt megi teljast í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 og með þeirri greiðslu hafi jafnræði kröfuhafa verið raskað. Umsaminn gjalddagi á láni stefnda RZB hafi verið þann 11. nóvember 2008, eða eftir að stefnanda var skipuð skilanefnd af Fjármálaeftirlitinu með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, sem hafi verið þann 9. október 2008.

Stefnandi byggi á því að það sé óvenjulegt að lán sé greitt fyrir gjalddaga eða að krafa sé sett fram um það af hálfu lánveitanda bankastofnunar. Telji stefnandi að ráða megi af samskiptum aðila að ástæða þess að stefndi RZB hafi krafist greiðslu á eldra láni hafi tengst vaxandi áhyggjum hans af stöðu efnahagsmála á Íslandi. Telji stefnandi að versnandi ástand á lánamörkuðum og minnkað traust til stefnanda eða möguleika hans til að standa við skuldbindingar sínar, séu ekki atvik sem réttlætt gætu greiðslu á láni fyrir gjalddaga skv. ákvæðum 134. gr. laga nr. 21/1991, heldur þvert á móti.

Það sé sér í lagi óvenjulegt í þessu máli að fyrir liggi að þeir fjármunir sem stefnandi hafi aflað sér til að greiða stefnda RZB hafi verið teknir að láni á umtalsvert óhagstæðari kjörum en hann hafi notið fyrir hjá stefnda RZB. Hvatinn að greiðslunni hafi því ekki verið sá að lækka vaxtagreiðslur bankans.

Að framkomnum þeim vörnum í greinargerð stefndu, að greiðslunni verði ekki rift á grundvelli íslenskra laga, þar sem ensk lög sem gildi um viðskiptin hafi ekki að geyma heimild til að ógilda hana, lagði stefnandi fram bókun í þinghaldi 6. mars 2015 þar sem fram kemur að hann telji stefndu ekki hafa sýnt fram á réttmæti þeirrar fullyrðingar, sem þeim beri að sanna. Að beiðni stefndu var í kjölfarið dómkvaddur matsmaður og hafa stefndu lagt fram í málinu matsgerð um efni enskra laga.

Stefnandi mótmæli því að ensk lög eigi við um greiðsluna og telji í því sambandi að skýra verði samkvæmt orðanna hljóðan ákvæðið sem stefndu styðjist við um að um ógildingu gerninga geti farið að lögum annars ríkis, n-lið 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. lög nr. 78/2011. Skýra verði ákvæðið með hliðsjón af meirihlutaáliti viðskiptanefndar Alþingis frá 6. júní 2011, þar sem fram komi að með ákvæðinu sé ekki átt við riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga. Þá mótmæli stefnandi því að stefndu hafi sýnt fram á að ensk lög hafi ekki að geyma ógildingarheimild sem við gæti átt.

Endurgreiðslukrafa skv. 142. gr. laga nr. 21/1991

Stefnandi krefst þess samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að stefndu endurgreiði honum 25.000.000 evra, eða sem nemi greiðslu þann 20. júní 2008 umfram nýja lánveitingu. Stefnandi byggi á því að greiðsla á láni til stefnda RZB, umfram nýtt lán, sé jafnframt tjón hans af framangreindri greiðslu, enda hefði hann án hennar haft umrædda fjármuni til reiðu til greiðslu til kröfuhafa er hann hafi verið tekinn til slitameðferðar þann 9. október 2008. Í því sambandi telji stefnandi að það skipti máli að fjölbankalán það sem hann hafi fengið þann 13. júní 2008 hafi verið veitt honum í þeim tilgangi að það nýttist til almennrar fjármögnunar, sbr. grein 3.1 í lánssamningnum.

Samkvæmt fjölbankaláninu frá 12. nóvember 2007 hafi skuld stefnanda við stefnda RZB verið að höfuðstól 75.000.000 evra. Samkvæmt nýju fjölbankaláni þann 13. júní 2008 hafi höfuðstóll lánsins lækkað niður í 50.000.000 evra. Stefndi RZB hafi samkvæmt því fengið 25.000.000 evra greiðslu inn á höfuðstól skuldarinnar en framlengt lán á 50.000.000 evrum.

Stefnandi byggi á því að stefnda RZB beri að endurgreiða stefnanda greiðslu þessa, skv. 142. gr. laga nr. 21/1991. Telji stefnandi að fyrir liggi að stefndi RZB hafi notið greiðslunnar og að tjón stefnanda svari til fjárhæðar greiðslunnar, enda hefðu fjármunir þessir að öðrum kosti orðið eftir hjá stefnanda.

Um greiðsluskyldu stefnda RBI sé byggt á því að hann beri ábyrgð á öllum skuldbindingum stefnda RZB sem til hafi orðið fyrir 9. október 2010.

Vextir og málskostnaður

Krafist sé dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af endurgreiðslukröfunni frá þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi þann 20. júní 2008, enda hafi fjármunirnir verið stefndu til nota og ávöxtunar frá þeim tíma. Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991. Krafist sé virðisaukaskatts á málflutningsþóknun samkvæmt lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur samkvæmt 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Tilvísun til helstu lagaákvæða

Stefnandi byggi kröfur sínar um riftun og endurgreiðslu á hendur stefndu á 134. gr. og 142. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Varðandi málshöfðunarfrest og varnarþing byggi stefnandi á 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og um samlagsaðild sé byggt á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Málsástæður og lagarök stefndu

Almennt um hina umdeildu ráðstöfun

Stefndu mótmæla málsástæðum stefnanda og halda því fram að skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi. Stefndu byggja á því að greiðslan þann 20. júní 2008 hafi verið fyrir fram ákveðin og hafi því ekki verið greidd óeðlilega snemma. Framlengingarlánið sem stefndi RZB, ásamt öðrum lánveitendum, hafi veitt stefnanda þann 13. júní 2008 hafi ekki aðeins verið ætlað til almennrar fjármögnunar í rekstri stefnanda, heldur hafi því verið ætlað að endurfjármagna brúarlánið frá 12. nóvember 2007 og framlengja það um tvö ár til hagsbóta fyrir stefnanda. Ákvæði 3. gr. lánssamningsins um tilgang viðskiptanna sé staðlað ákvæði í sambankalánssamningum, jafnvel þótt mörgum slíkra lána sé augljóslega ætlað að endurfjármagna eldri lán. Stefndi RZB hafi upphaflega aðeins ætlað að lána stefnanda fjárhæðina 50.000.000 evra og komi sú fyrirætlan skýrt fram í samskiptum í aðdraganda að veitingu brúarlánsins frá 12. nóvember 2007. Brúarláninu hafi verið ætlað að veita stefnanda tækifæri til að koma aftur að samningaborðinu árið 2008 og semja þá um stórt sambankalán með þeim langa lánstíma sem stefnandi hafi leitað eftir. Lánsfjárhæðin yrði endurfjármögnuð með nýjum langtíma sambankalánssamningi innan árs.

Undirbúningur að framlengingu brúarlánsins hafi hafist 14. febrúar 2008 en tilteknir atburðir hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að aðeins hluti af framlengingarláninu hafi verið notaður til að framlengja brúarlánið. Fortis og HVB hafi ákveðið að þeir myndu ekki taka þátt í framlengingarláninu og myndu því ekki framlengja lánveitingu sína í brúarláninu um tvö ár til viðbótar svo sem upphaflega hafi verið ætlun þeirra. Eðli lánsins frá 12. nóvember 2007 sem brúarláns komi fram í þeirri staðreynd að stefnandi hafi verið reiðubúinn að endurgreiða hluta lánsins til stefnda RZB og BL, sem hafi ætlað að standa við upphafleg markmið aðila um að framlengja lánveitingu sína, en hafi verið ófús að endurgreiða lánveitingar Fortis og HVB sem hafi horfið frá slíkum áformum. Komi þetta bersýnilega fram í tölvupósti frá starfsmanni stefnanda, þar sem lagt sé til að framlengja brúarlánið að hluta með uppgreiðsluákvæði lánssamningsins og hvernig forðast megi fyrirframgreiðslu til Fortis og HVB, sem þá hefðu getað krafist hlutfallslegrar fyrirframgreiðslu á grundvelli skilmála brúarlánsins.

Þar sem Fortis og HVB hafi ekki framlengt þátttöku sína í brúarláninu hafi tveir nýir lánveitendur komið inn í viðræður um lán til stefnanda. Bankarnir Fortis og HVB hafi verið fyllilega upplýstir um viðræðurnar og framkvæmdina og hafi veitt skriflegt samþykki sitt fyrir hlutauppgreiðslu á brúarláninu til stefnda RZB og BL fyrir undirritun framlengingarlánsins 13. júní 2008, án þess að gera kröfu um að fá endurgreidda lánveitingu sína í brúarláninu. Aðrir lánveitendur hefðu ekki veitt samþykki sitt til endurgreiðslu brúarlánsins að hluta til og án hlutdeildar í þeirri endurgreiðslu ef henni hefði verið ætlað annað en að gera stefnda RZB og BL kleift að framlengja brúarlánið, í þágu stefnanda, til tveggja ára til viðbótar. Samþykki stjórnar stefnda RZB hafi augljóslega verið veitt til að framlengja lánveitingu samkvæmt brúarláninu að því leyti sem þá hafi verið mögulegt.

Greiðslan 20. júní 2008 hafi í raun verið hluti af fyrir fram ákveðnum viðskiptum, til hagsbóta fyrir stefnanda, í því skyni að gera stefnda RZB kleift að framlengja bróðurpart af upprunalegri lánveitingu hans til stefnanda um tvö ár til viðbótar. Greiðslan hafi því ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi getað talist og í öllum tilvikum hafi hún virst venjuleg eftir atvikum. Framlag stefnda RZB og BL í brúarláninu hafi verið greitt á sama tíma og framlengingarlánið hafi verið veitt. Samkvæmt sameiginlegum skilningi frá upphafi viðræðna um lán um miðbik ársins 2007 hafi endanleg lánveiting stefnda RZB verið 50.000.000 evra. Við greiðslu hafi stefndi RZB enga leið haft til að gera sér grein fyrir eða spá fyrir um að tæpum fjórum mánuðum síðar myndi stefnandi lenda í alvarlegum fjárhagsörðugleikum. Þvert á móti, hafi allar opinberar upplýsingar gefið það til kynna að staða stefnanda hafi verið sterk á þeim tíma.

Skilyrði fyrir beitingu 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., eru ekki fyrir hendi

Stefndu mótmæli því að hin umdeilda greiðsla hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi getað talist og sé því riftanleg, sem röngu og ósönnuðu, þar sem greiðslan hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi verið. Jafnvel þó að litið yrði svo á að greiðslan hafi farið fram „fyrr en eðlilegt var“ þá sé hún ekki riftanleg þar sem hún virtist venjuleg eftir atvikum. Eðli brúarlánsins, skammtímaláns til að brúa bilið milli skuldbindinga, sem þá hafi verið að falla í gjalddaga, uns samningar næðust um lánssamning til lengri tíma, sé lykilatriði við úrlausn dómsmáls þessa. Frá upphafi hafi stefnandi og lánveitendur, þar á meðal stefndi RZB, vitað af þeirri fyrirætlan og hafi því ekki búist við því að brúarlánið yrði greitt á lokagjalddaga þess þann 11. nóvember 2008 heldur mun fyrr. Endurgreiðsla brúarlánsins til stefnda RZB, hafi verið í fullu samræmi við samkomulag aðila eins og það endurspeglist í samskiptum þeirra og eðli brúarlánsins.

Í samræmi við samkomulag aðila og forsendur þeirra sé í skilmálum brúarlánssamningsins skýrt ákvæði um greiðslu fyrir lokagjalddaga í grein 7.3 um að lánþega sé heimilt á síðasta degi hvers vaxtatímabils, tilkynni hann umsýslubanka lánsins það með að minnsta kosti tíu virkra daga fyrirvara, að greiða fyrir fram allt lánið eða hluta af láninu. Samningurinn hafi því heimilað greiðslu fyrr en á lokagjalddaga og hafi greiðslan 20. júní 2008 því ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Nauðsynlegt hafi verið vegna eðlis lánsins sem brúarláns að ákvæði samningsins gerðu ráð fyrir greiðslu fyrir lokagjalddaga. Allar kringumstæður veiti vísbendingar um að allir aðilar samningsins hafi búist við því að þessum rétti til að endurgreiða brúarlánið yrði beitt. Það sé jafnframt ljóst að meðal skilmála brúarlánsins hafi verið ákvæði um eindaga lánsins þann 11. nóvember 2008, en samkvæmt reglum skiptaréttar beri skuldari enga skyldu til að bíða eftir eindaga til að uppfylla greiðsluskyldu sína. Greiðslan hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi getað talist. Sönnunarbyrði að þessu leyti hvíli að öllu leyti á stefnanda.

Komist dómurinn af einhverri ástæðu að þeirri niðurstöðu að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, byggi stefndu á því að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Lögð sé áhersla á að greiðslur sem inntar séu af hendi án þess að það sé fyrir áhrif frá aðsteðjandi fjárhagsvandræðum skuldara teljist almennt venjulegar eftir atvikum. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki átt í fjárhagsvandræðum þegar greiðslan var innt af hendi eða, jafnvel þó að slík vandræði hefðu verið fyrir hendi, að þau hafi ekki verið ástæða greiðslunnar, þá telji stefndu að fallast verði á kröfu þeirra um sýknu. Taka verði mið af því að skilyrði lokamálsliðar 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga vísi til þess hvort greiðsla hafi „virst“ eðlileg eftir atvikum og því vísi ákvæðið til upplýsinga sem fyrir hendi hafi verið við greiðslu.

Eðli og skilmálar brúarlánsins leiði til þess að fyrirframgreiðsla lánsins hafi verið eðlileg og viðbúin í þeim tilgangi að framlengja framlag hvers og eins lánveitanda. Tilgangur brúarlánsins hafi ávallt verið sá að lánið yrði endurfjármagnað eins fljótt og unnt væri og láninu hafi aldrei verið ætlað að ná gjalddaga. Stefnandi hafi haft heimild til að greiða brúarlánið fyrir lokagjalddaga samkvæmt skilmálum og hafi aðrir lánveitendur með skýrum hætti samþykkt greiðsluna til stefnda RZB. Því hafi greiðslan ekki aðeins virst eðlileg eftir atvikum í augum stefnda RZB og stefnanda, heldur einnig frá sjónarhóli annarra þátttakenda í báðum lánunum. Allir þessir aðilar séu stórir alþjóðlegir bankar, sérfræðingar á sviði lánveitinga, sem á umræddum tíma hafi haft aðgang að öllum sömu upplýsingum og stefndi RZB og hafi átt verulegra hagsmuna að gæta. Hvorki Fortis né HVB hafi gert kröfu um endurgreiðslu brúarlánsins þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi, eins og þeim hefði verið kleift að gera. Stefnandi hafi fengið nýja lánveitendur til að taka þátt í framlengingarláninu (BofA og Lloyds) þegar Fortis og HVB ákváðu að gera það ekki. Þetta sýni að alþjóðlegar fjármálastofnanir hafi verið viljugar til að lána stefnanda á þessum tíma og hafi ekki litið á lán til stefnanda sem óásættanlega útlánaáhættu eða að viðskiptin væru á annan hátt óvenjuleg.

Greiðslan hafi verið stefnanda til hagsbóta og því hafi hún virst venjuleg eftir atvikum. Tilgangur brúarlánsins hafi verið að veita fjármögnun til skamms tíma til að mæta fjárhagsþörf stefnanda á þeim tíma og til að bíða eftir því að markaðsaðstæður fyrir lántöku myndu batna. Þá hafi átt að ganga frá langtímafjármögnun, sem gert hafi verið með framlengingarláninu. Stefnandi haldi því fram að framlengingarlánið hafi borið hærri vexti og því hafi greiðslan ekki þjónað þeim tilgangi að lækka fjármagnskostnað stefnanda. Þessari einföldu nálgun sé alfarið hafnað af stefndu. Rétt sé að framlengingarlánið hafi borið hærri vexti en brúarlánið og sé ástæða þess sú að framlengingarlánið hafi verið með tveggja ára lánstíma, en brúarlánið að hámarki eitt ár. Enn fremur hafi markaðsaðstæður haft áhrif á kjör framlengingarlánsins. Hagsmunir stefnanda hafi einna helst verið fólgnir í fjármögnun til lengri tíma, sem eigi við um alla banka á öllum tímum og sé lengri lánstími framlengingarlánsins, þ.e. tryggð fjármögnun til 13. júní 2010 borið saman við 11. nóvember 2008 samkvæmt brúarláninu, sannanlega til hagsbóta fyrir stefnanda. Markaðsaðstæður í júní 2008 hafi verið hvergi nærri eins slæmar og þær reyndust verða í september og október sama ár. Hins vegar hafi ákveðin ummerki um örðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum verið að líta dagsins ljós og hagsmunir stefnanda af því að koma framlengingarláninu á laggirnar og tryggja langtímafjármögnun hafi með hliðsjón af því verið enn augljósari. Með samanburði á skuldatryggingarálagi annars vegar og lánskjörum framlengingarlánsins hins vegar megi sjá að greiðslan hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda. Stefnandi hafi fengið fjármögnunina á betri kjörum en aðrir aðilar á markaði hefðu boðið.

Stefnandi, eins og aðrir alþjóðlegir bankar, hafi reglulega endurfjármagnað, endurgreitt eða endurnýjað sambankalán fyrir lokagjalddaga slíkra lána, meðal annars eldri lán, þar sem stefndi RZB hafi verið á meðal lánveitenda. Fyrirframgreiðslan til endurfjármögnunar og framlengingu brúarlánsins með framlengingarláninu, sé hluti af markaðshegðun stefnanda sem verið hafi venjuleg eftir atvikum fyrir starfandi alþjóðlegan banka. Stefnandi hafi reglulega endurfjármagnað lán með þessum hætti í lánasögu bankans, allt aftur til ársins 2003 að minnsta kosti, í því markmiði að framlengja eldri lántökur til lengri tíma. Sýni dæmi úr lánasögu stefnanda tengingu á milli lána og ákveðið mynstur endurfjármögnunar eldri lána og töku nýrra lána, þar sem skipt sé út eldri lánum fyrir ný lán fyrir gjalddaga eldra lánsins í því markmiði að framlengja lánstímann. Stefndi RZB hafi því verið í þeirri stöðu að hann hafi mátt treysta því að endurfjármögnun brúarlánsins og greiðslan 20. júní 2008 væri hluti af venjulegri markaðshegðun stefnanda sem alþjóðlegs banka. Stefndu haldi því fram að venjubundin framkvæmd hjá stefnanda, meðal annars í viðskiptum á milli stefnanda og stefndu, staðfesti að hin umdeilda greiðsla hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt gat talist og hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Upplýsingar um stöðu stefnanda í júní 2008 hafi ekki bent til þess að bankinn ætti við fjárhagsörðugleika að stríða. Þvert á móti hafi staða bankans virst sterk og hafi verið kynnt sem slík meðal annars af íslenskum stjórnvöldum. Mat á lánshæfi stefnanda þegar hin umdeilda greiðsla hafi verið innt af hendi hafi ekki gefið til kynna að greiðslan hafi getað virst annað en venjuleg eftir atvikum. Lánshæfismat Moody’s á stefnanda 2. maí 2008 fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 hafi gefið honum einkunnina A1 gagnvart almennum óveðtryggðum skuldum, sem þýði 0,03% líkur á vanskilum á næstu 12 mánuðum, með stöðugum framtíðarhorfum. Að sama skapi, hafi Fitch gefið stefnanda einkunnina „A“ sem sé mjög há lánshæfismatseinkunn, allt til 9. maí 2008, þegar einkunninni hafi verið breytt í „A-“. A-einkunnir þýði að búast megi við lítilli hættu á vanskilum. Greiðslugeta á fjárhagslegum skuldbindingum sé metin sterk.

Miðað við önnur stór fjármálafyrirtæki á tímabilinu sem skipti máli, febrúar til júní 2008, hafi verð á hlutabréfum í stefnanda verið á góðu róli. Þó að margir bankar hafi virst eiga við erfiðleika að stríða hafi stefnandi virst standa betur en flestir, hann hafi gefið út skuldabréf og tekið önnur lán þegar greiðslan hafi verið innt af hendi. Gögn um skuldabréfaútgáfur sýni að stefnandi hafi verið í fullum rekstri sem alþjóðlegur banki og að markaðsaðilar hafi litið á hann sem hagkvæman fjárfestingarkost. Stefnanda hafi tekist að fjármagna bankann á alþjóðlegum mörkuðum. Því hafi endurgreiðsla skulda ekki virst óvenjuleg og engar vísbendingar hafi verið um framtíðar greiðsluerfiðleika stefnanda.

Greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum þar sem fjárhagsstaða stefnanda hafi virst sterk með hliðsjón af uppgjöri bankans á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008, sem stjórn stefnanda hafi kynnt og leiðandi alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki vottað. Niðurstöður um hreinan hagnað stefnanda fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 hafi verið taldar vel viðunandi í ljósi erfiðra aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hafi sterk fjárhagsleg staða stefnanda verið staðfest í árshlutauppgjöri vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2008. Handbært fé hafi aukist um tæp 13% frá fyrsta ársfjórðungi 2008 og umdeilda greiðslan til stefnda RZB að fjárhæð 25.000.000 evra virðist aðeins hafa verið um 0,8% af handbæru fé á þessum tíma. Staða stefnanda hafi virst sterk og tiltölulega stöðug á fyrri helmingi ársins 2008 samkvæmt öllum hefðbundnum mælikvörðum sem notaðir séu á fjármálamörkuðum til að meta áhættu. Ekkert hafi bent til þess að bankinn myndi lenda í alvarlegum fjárhagsvandræðum í október 2008.

Greiðslan hafi einnig virst venjuleg eftir aðstæðum í ljósi þess að íslensk yfirvöld hafi verið mjög virk í því að fullvissa fjármálamarkaðinn um að staða íslensku bankanna væri traust. Þetta megi m.a. sjá í yfirlýsingum FME í kjölfar álagsprófs 14. ágúst 2008, en slíkar yfirlýsingar hafi augljóslega áhrif á mörkuðum. Sambærilegar yfirlýsingar um trausta stöðu bankanna megi sjá frá íslenskum yfirvöldum fyrr á árinu 2008. Til dæmis hafi annað álagspróf farið fram í febrúar 2008 og FME lýst því yfir að staða bankanna væri sterk að því loknu. Skömmu fyrir viðskiptin hafi Seðlabankinn gefið út skýrslu, þar sem fram komi að uppgjör bankanna sýni að staða þeirra sé sterk og að álagspróf FME og Seðlabankans staðfesti það. Þar komi einnig fram að bankarnir séu vel undir það búnir að mæta erfiðleikum á mörkuðum. Stefnandi hafi í svari 16. maí 2008 við spurningum stefnda RZB um fjárhagsstöðu stefnanda upplýst um gerð skiptasamnings á milli Seðlabanka Íslands og þriggja norrænna seðlabanka, sem gefið hafi stefnda RZB til kynna að íslenskir bankar, sem og íslenska fjármálakerfið í heild sinni væri vel stutt af norrænum seðlabönkum ef til efnahagskreppu kæmi. Markaðurinn hafi tekið verulegt mið af skiptasamningnum og litið á hann sem mikla traustsyfirlýsingu á íslenska fjármálakerfinu, enda hafi íslensk stjórnvöld kynnt hann í því ljósi.

Greiðslan 20. júní 2008 hafi með vísan til framangreinds virst venjuleg eftir atvikum, sbr. lokamálslið 134. gr. laga nr. 21/1991.

Erlend lög gilda um riftanleika ráðstöfunarinnar

Stefndu byggja á því að hin umdeilda greiðsla sé ekki riftanleg að íslenskum rétti. Hvað sem því líði telji stefndu ljóst að um greiðsluna eigi að gilda lög Englands, og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem taki til þess tilviks sem um ræðir, sbr. n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lög nr. 161/2002 séu sérlög gagnvart lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og gangi því framar.

Í 104. gr. laga nr. 161/2002, sem innleitt hafi 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2001/24/EB, sé kveðið á um að farið skuli að íslenskum lögum um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slitameðferð fjármálafyrirtækis, sem hafi staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, með þeim takmörkunum sem greini í 2. mgr. 99. gr. sömu laga. Í n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sem innleitt hafi 30. gr. tilskipunarinnar, komi eftirfarandi fram: Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.

Samkvæmt skýru orðalagi skilmála brúarlánsins gildi lög Englands um lánssamninginn. Framlengingarlánið lúti einnig lögum Englands og ensk lög gildi enn fremur um bréf frá stefnanda til umsýslubanka framlengingarlánsins BL, dags. 13. júní 2008, þar sem stefnandi skuldbindi sig til að greiða 150.000.000 evra vegna brúarlánsins. Þannig gildi ensk lög um öll skjöl sem varði hina umdeildu greiðslu og því ætti að vera óumdeilanlegt að ensk lög gildi um sakarefnið, sbr. m.a. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Krafa stefndu um sýknu byggist meðal annars á því að hin umdeilda greiðsla ráðist af enskum lögum og að ensk lög heimili ekki riftun greiðslunnar. Þess vegna sé í raun ekki nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um hvort hinar íslensku riftunarreglur eigi við, þar sem ensk lög útiloki möguleika á því að rifta greiðslunni.

Álitaefnið um það hvort hin umdeilda greiðsla sé riftanleg ráðist einnig af enskum lögum og ekki sé grundvöllur samkvæmt þeim til þess að rifta eða ógilda greiðsluna eins og mál þetta sé vaxið. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Stefndu leggi fram álitsgerð frá enskri lögmannsstofu, dags. 12. nóvember 2012, þar sem sett sé fram hlutlæg lýsing á reglum enskra laga sem gætu hugsanlega komið til greina í því skyni að rifta eða ógilda greiðsluna frá 20. júní 2008. Þar sé einnig sett fram álit lögmanna á því hvernig komi til greina að heimfæra þær reglur á málavexti dómsmáls þessa, ásamt öllum þeim ensku réttarheimildum sem álitsgerðin vísi til.

                Ef miðað væri við að stefnandi væri í enskri gjaldþrotameðferð væri enga reglu að finna í enskum gjaldþrotaskiptalögum samsvarandi 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því kæmi ekki til greina að rifta viðskiptunum á sama grundvelli. Samkvæmt enskum gjaldþrotaskiptarétti séu nokkrar reglur sem helst gætu komið til skoðunar í þessu samhengi. Vísað sé til lagagreina ensku gjaldþrotaskiptalaganna frá 1986 (Insolvency Act 1986) og séu þær reglur sem komi til athugunar þessar:

  1. Viðskipti á undirverði (sbr. grein 238).

  2. Ívilnun – mismunun (sbr. grein 239).

  3. Sviksamleg viðskipti gagnvart kröfuhöfum (sbr. grein 423).

  4. Skortur á viðskiptalegum ávinningi samkvæmt enskum venjurétti.

  1. Viðskipti á undirverði

    Til þess að ógilda greiðsluna frá 20. júní 2008 á grundvelli greinar 238 þyrfti stefnandi að sýna dóminum fram á að öll eftirfarandi skilyrði (a)-(c) væru uppfyllt:

    1. að stefnandi hafi innt af hendi greiðslu á undirverði;

    2. að stefnandi hafi verið tekinn til umsjónar eða skipta innan tveggja ára frá því að greiðslan fór fram; og

    3. að stefnandi hafi á þeim tíma verið ófær um að greiða skuldir sínar eða hafi orðið ófær til þess við að inna greiðsluna af hendi.

                  Hvorki verði fallist á að skilyrði a né skilyrði c sé uppfyllt, sérstaklega með vísan til eftirfarandi:

      Varðandi a: Stefnandi beri sönnunarbyrði um að greiðslan hafi falið í sér „viðskipti á undirverði“ í skilningi greinar 238 (4). Stefndu haldi því fram að svo sé ekki. Ekki verði séð hvernig endurgreiðsla brúarlánsins geti talist fela í sér viðskipti á undirverði. Enn fremur, sé fjallað um brúarlánið og framlengingarlánið sem eina heild í þessu samhengi, verði að hafa í huga að samkvæmt grein 238 (4) (b), þurfi misræmi verðgildis að vera verulegt og það verði að skoðast frá sjónarhóli stefnanda. Þó að upphæðin sem stefndi RZB hafi lánað stefnanda samkvæmt framlengingarláninu hafi verið lægri en samkvæmt brúarláninu, hafi þessi viðskipti aðila á milli greinilega verið til hagsbóta fyrir stefnanda, þar sem bróðurpartur lánveitingar frá stefnda RZB hafi verið framlengdur til tveggja ára til viðbótar frá undirritun framlengingarlánsins, þ.e. til 13. júní 2010. Enn fremur verði dómurinn að hafa í huga hvaða fjármögnunarkostir hefðu staðið stefnanda til boða þegar nær hafi dregið gjalddaga brúarlánsins, í því skyni að meta hið raunverulega verðgildi fyrir stefnanda sem falist hafi í því að tryggja sér framlengingarlánið í júní 2008.

      Varðandi c: Stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær 20. júní 2008. Varðandi gjaldfærni stefnanda þegar greiðslan fór fram geti tveir mælikvarðar átt við samkvæmt grein 123; (i) greiðslugetumælikvarði, þar sem kannað sé hvort stefnandi hafi verið ófær um að greiða skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga og (ii) eignastöðumælikvarði, þar sem kannað sé hvort verðmæti eigna stefnanda á þeim tíma hafi verið minna en sem nemi skuldum. Sönnunarbyrði varðandi það að stefnandi hafi ekki getað greitt skuldir sínar þegar viðskiptin fóru fram eða að stefnandi hafi orðið ógjaldfær vegna viðskiptanna hvíli á stefnanda, það sé spurning um staðreynd, en ekki hvað aðilar hafi talið að væri rétt á þeim tíma. Stefnandi verði því að geta sýnt fram á að hann hafi í raun ekki getað greitt af skuldum sínum eða að eignir hans á þeim tíma hafi verið minni en skuldir. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um þetta né gefið til kynna að svo hafi verið, en stefndu hafi lagt fram sönnunargögn sem sýni fram á að stefnandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma. Því verði að gera ráð fyrir að skilyrðið um að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar greiðslan fór fram eða hafi orðið það vegna greiðslunnar sé ekki uppfyllt.

      Þessu til viðbótar séu, samkvæmt grein 238 (5), ákveðnar lögbundnar varnir sem stefndu geti borið fyrir sig til að koma í veg fyrir riftun greiðslunnar. Einkum að stefnandi hafi átt í viðskiptunum í góðri trú og í því skyni að halda áfram rekstri sínum og að á þeim tíma sem viðskiptin hafi farið fram hafi verið réttmæt ástæða til að ætla að viðskiptin yrðu stefnanda til hagsbóta. Þessi skilyrði séu fyrir hendi. Greiðslunni verði ekki rift á grundvelli greinar 238 í ensku gjaldþrotaskiptalögunum.

  1. Ívilnun – mismunun

    Til þess að ógilda greiðsluna frá 20. júní 2008 á grundvelli hinnar huglægu riftunarreglu, greinar 239, þyrfti stefnandi að sýna dóminum fram á að öll eftirfarandi skilyrði (a)-(d) hafi verið fyrir hendi þegar greiðslan fór fram:

  1. að stefndi RZB hafi verið meðal kröfuhafa stefnanda;

  2. að áhrif greiðslunnar hafi verið þau að setja stefnda RZB í betri stöðu, samanborið við það ef greiðslan hafi ekki farið fram;

    c. að stefnandi hafi verið tekinn til umsjónar eða skipta innan sex mánaða frá því að greiðslan fór fram; og

    1. að stefnandi hafi á þeim tíma verið ófær um að greiða skuldir sínar eða hafi orðið það við að inna greiðsluna af hendi;

              Skilyrði b., c. eða d. séu ekki fyrir hendi, sérstaklega með vísan til eftirfarandi:

      Varðandi b: Stefnandi beri sönnunarbyrði um að þann 20. júní 2008 hafi stefndi RZB raunverulega verið settur í betri stöðu í skilningi greinar 239 (4) (b). Í þessu tilliti verði að skoða fullt samhengi viðskiptanna. Þó að stefndi RZB hafi dregið úr fjárhæð útlána sinna til stefnanda, hafi hann á sama tíma skuldbundið bróðurpart lánveitingar sinnar til lengri tíma, sem á þeim tíma hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda. Enn fremur telji stefndu að dómurinn verði að kanna hin mismunandi vaxtakjör yfir mismunandi tímabil svo og aðra skilmála lánanna við mat á því hvort um hafi verið að ræða jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir stefnda RZB.

      Varðandi c: Slitameðferð stefnanda hafi hafist 22. apríl 2009. Hinn lögbundni frestdagur að íslenskum rétti, 15. nóvember 2008, sbr. lög nr. 129/2008, hafi engin réttaráhrif gagnvart enskum gjaldþrotaskiptalögum. Greiðslan þann 20. júní 2008 sé því utan framangreinds sex mánaða tímabils samkvæmt enskum lögum.

      Varðandi d: Stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær þann 20. júní 2008.

                  Þessu til viðbótar séu fyrir hendi ákveðnar lögbundnar varnir sem stefndu geti borið fyrir sig til að koma í veg fyrir riftun greiðslunnar, þrátt fyrir að öll skilyrði a- til d-liða væru uppfyllt. Byggja stefndu á því að þegar greiðslan fór fram hafi huglæg afstaða stefnanda ekki falið í sér vilja til þess að ívilna stefnda RZB í skilningi greinar 239 (4) (b). Dómurinn verði að leggja mat á þá huglægu afstöðu sem búið hafi að baki þeirri ákvörðun stefnanda að taka þátt í lánaviðskiptunum og inna greiðsluna af hendi. Ekkert gefi til kynna að stefnandi hafi viljað ívilna stefnda RZB. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að stefnandi hafi aðeins haft eigin viðskiptahagsmuni í huga þegar greiðslan var innt af hendi. Þessi lögbundna vörn varðandi hinn huglæga þátt greinar 239 komi því í veg fyrir að greiðslan geti talist riftanleg. Greiðslunni verði ekki rift með vísan til greinar 239 í ensku gjaldþrotaskiptalögunum.

  1. Sviksamleg viðskipti gagnvart kröfuhöfum

           Til þess að ógilda greiðsluna frá 20. júní 2008 á grundvelli hinnar huglægu riftunarreglu í grein 423 þyrfti stefnandi að sýna dóminum fram á að eftirfarandi skilyrði væru fyrir hendi:

  1. að stefnandi hafi með því tekið þátt í viðskiptum á undirverði;

  2. að stefnandi hafi tekið þátt í viðskiptunum til þess að koma eignum undan eða með öðrum hætti að stefna hagsmunum annarra kröfuhafa í hættu.

              Hvorugt skilyrðanna sé uppfyllt. Að því er varði skilyrði a sé um sama mælikvarða að ræða og samkvæmt grein 238. Varðandi skilyrði b, þá bendi ekkert til þess að megintilgangur viðskiptanna hafi verið ætlun stefnanda að koma eignum sínum undan lánardrottnum eða að hafa áhrif á stöðu þeirra. Þvert á móti, virðist tilgangur stefnanda eingöngu hafa verið af viðskiptalegum toga. Mikilvægt sé að greina á milli tilgangs viðskiptanna annars vegar og afleiðinga þeirra hins vegar. Greiðslunni verði ekki rift á grundvelli greinar 423 í ensku gjaldþrotaskiptalögunum.

  1. Skortur á viðskiptalegum ávinningi samkvæmt enskum venjurétti

           Til þess að ógilda greiðsluna frá 20. júní 2008 á grundvelli þessarar meginreglu ensks venjuréttar þyrfti stefnandi að sýna dóminum fram á að endurgreiðsla brúarlánsins hafi farið í bága við það sem heimilt hafi verið samkvæmt samþykktum Kaupþings. Taka brúarlánsins, sem stjórn stefnanda hafi samþykkt, og endurgreiðsla lánsins í samræmi við skilmála þess, geti ekki falið í sér brot á samþykktum stefnanda og geti beinlínis talist til hefðbundinnar starfsemi banka.

             Umfjöllun um hinar lögboðnu varnir samkvæmt grein 238 eigi hér við enda liggi svipuð sjónarmið að baki reglunum. Þau skilyrði séu uppfyllt að stefnandi hafi tekið þátt í viðskiptunum í góðri trú í því skyni að viðhalda starfsemi sinni og þá hafi verið full ástæða til að ætla að viðskiptin myndu gagnast stefnanda. Greiðslunni verði ekki rift á grundvelli framangreindrar reglu ensks venjuréttar.

    Fjárhæð kröfu stefnanda

               Komist dómstóllinn af einhverri ástæðu að þeirri niðurstöðu að greiðslan sem mál þetta varði sé riftanleg, þrátt fyrir málsástæður stefndu, og að stefnandi geti beint kröfu um greiðslu að stefndu, byggja stefndu á því að kröfu stefnanda um greiðslu skuli lækka allverulega.

    Stefndu vísa til 145. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfu um lækkun á fjárhæð kröfu stefnanda þar sem það væri ósanngjarnt að dæma stefndu til að greiða slíka fjárhæð þegar ljóst sé að greiðslan hafi verið afleiðing aðgerða stefnda RZB sem verið hafi til hagsbóta fyrir stefnanda og falist í því að framlengja lán til stefnanda í tvö ár til viðbótar á hagstæðum kjörum. Því hafi greiðslan ekki gagnast stefnda RZB á annan hátt en þann sem talist hafi hluti af eðlilegum viðskiptum á þeim tíma. Þá verði að taka mið af því að fjárhæðin sem stefndi RZB hafi framlengt hafi verið í samræmi við upphaflega ætlun hans um lán fyrir stefnanda sem gerð hafi verið ljós þegar um miðbik ársins 2007.

    Sönnunarbyrði

                Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði til riftunar greiðslunnar séu fyrir hendi, meðal annars um að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt gat talist. Líta verði til endurtekinna framlenginga á fresti sem kveðið sé á um í 148. gr. laga nr. 21/1991. Sönnunarbyrðin verði afar íþyngjandi fyrir stefndu telji dómstóllinn yfir-höfuð að framlengingarnar á frestinum hafi verið lögmætar og samrýmst ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands með þeim hætti að stefnanda sé heimilt að höfða mál til riftunar á rúmlega fjögurra ára gömlum greiðslum. Stefndu telji því að sönnunarbyrðin eigi einvörðungu að hvíla á stefnanda í málinu.

    Vextir

                Krafa stefnanda um greiðslu 25.000.000 evra með dráttarvöxtum frá 20. júní 2008 til greiðsludags byggi að sögn stefnanda á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefndu mótmæli dráttarvaxtakröfunni. Stefndu mótmæli sérstaklega því að dráttarvextir samkvæmt lögum nr. 38/2001 geti reiknast á þá fjárhæð sem sé umkrafin í evrum. Þar að auki mótmæli stefndu upphafsdegi dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda, þar sem enga heimild sé að finna í lögum sem heimili stefnanda að innheimta dráttarvexti frá 20. júní 2008. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé óljós og eigi sér ekki stoð í lögum.

    Tilvísanir til lagaheimilda

                Vísað sé til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, laga um lagaskil á sviði samningaréttar, nr. 43/2000, og laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá vísi stefndu til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að því er varðar sönnun um tilvist og efni erlendra réttarreglna. Krafa stefndu um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan feli jafnframt í sér kröfu um virðisaukaskatt á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem stefndu stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi hér á landi.

Niðurstaða

Stefnandi, sem var fjármálafyrirtæki skráð hér á landi, hefur verið tekinn til slita samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og fer um slit stefnanda samkvæmt nánari ákvæðum kaflans. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laganna, eins og málsgreininni var breytt með 1. gr. laga nr. 132/2010, má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti þegar fjármálafyrirtæki er tekið til slita og gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti, að frátöldum reglum um málshöfðunarfresti. Málið er höfðað innan lögbundins málshöfðunarfrests samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 146/2011, og hefur dómurinn í úrskurði 11. júlí 2013 hafnað málsástæðum stefndu um óheimila afturvirkni eða annað ólögmæti þess lagaákvæðis, sbr. og m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 614/2011 og nr. 283/2013.

Krafa um riftun samkvæmt 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991

Stefnandi krefst í máli þessu riftunar greiðslu á grundvelli 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og ber hann sönnunarbyrði fyrir því að lagaskilyrði séu uppfyllt til riftunar á þessum grundvelli. Samkvæmt lagaákvæðinu má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri eða fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem skerti greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Frestdagur við slit stefnanda var 15. nóvember 2008 og greiðslan var innt af hendi 20. júní 2008. Óumdeilt er að um var að ræða greiðslu á skuld og að greiðslan átti sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir fyrrgreindan frestdag.

Af atvikum málsins eins og þau birtast í frásögnum aðila í stefnu og greinargerð, gögnum málsins og í framburði starfsmanns stefndu, Harald Kreuzmair, fyrir dóminum, þykir upplýst að láninu frá 12. nóvember 2007 hafi verið ætlað að vera svokallað brúarlán, veitt stefnanda til þess að tryggja honum fjármögnun til skamms tíma. Aðilar lánssamningsins höfðu áður átt í viðræðum um að stefndi RZB og fleiri alþjóðlegir bankar myndu veita stefnanda sambankalán til lengri tíma. Samkvæmt gögnum um þær viðræður frá miðju ári 2007 stóð vilji stefnanda til þess að fá allt að 500 milljónir evra samtals að láni til allt að fimm ára, en hugmyndir stefnda RZB voru þá nær því að vera um lán til tveggja ára og með endanlegri áhættu af lánveitingu til stefnanda að fjárhæð 50 milljónir evra. Þegar skammt var til ársloka var gerður lánssamningur 12. nóvember 2007 þar sem fjórir bankar, umsýslubankinn BL, stefndi RZB, Fortis og HVB, lánuðu stefnanda samtals 300 milljónir evra og var hlutur hvers lánveitanda 75 milljónir evra, en frekari viðræðum um langtímalán var slegið á frest fram yfir áramót.

Höfuðstóll skuldarinnar var með lokagjalddaga 11. nóvember 2008, en stefnandi gat samkvæmt lánssamningnum endurgreitt fyrir gjalddaga á tilteknum tímabilum. Endurgreiðsla fyrir lokagjalddaga var að öðru leyti háð leyfi annarra þátttakenda í láninu, en réttindi og skyldur hvers lánveitanda voru sjálfstæðar og skiptar. Hlutur stefnda RZB og umsýslubankans BL í brúarláninu, samtals 150 milljónir evra að höfuðstól, var endurgreiddur 20. júní 2008 með fjármunum sem stefnandi fékk með nýjum lánssamningi, dags. 13. júní s.á., við fjóra alþjóðlega banka, þar sem hlutur lánveitendanna stefnda RZB og BL var samtals 125 milljónir evra.

Af hálfu stefndu er á því byggt að ætlunin hafi verið að greiða upp brúarlánið þegar semdist um langtímafjármögnun í staðinn. Venjulegt sé að brúarlán séu veitt í þessum tilgangi og hafa stefndu lagt fram gögn sem ætlað er að sýna fram á að slíkt sé venjulegt í millibankaviðskiptum bæði almennt og einnig að þess séu dæmi í fyrri viðskiptum aðila. Upphaflegur gjalddagi sé aðeins til viðmiðunar um hámarkstíma lánsins. Greiðslan hafi þess vegna ekki farið fram fyrr en eðlilegt var.

Fyrir liggur að hluta nýs láns til tveggja ára samkvæmt lánssamningi 13. júní 2008 var varið til að greiða hluta umsýslubankans BL í brúarláninu að höfuðstól 75 milljónir evra, en hlutur bankans í nýja láninu var að höfuðstól sama fjárhæð. Þá liggur fyrir að hluti greiðslunnar gekk til að greiða 50 milljónir af höfuðstól hluta stefnda RZB í brúarláninu, en hluti stefnda RZB í nýja láninu var 50 milljónir evra að höfuðstól. Þessar greiðslur eru í samræmi við það sem stefndu þykja hafa sýnt fram á að venjulegt geti talist í viðskiptum aðila, þ.e. að brúarlán greiðist upp þegar samið er um langtímafjármögnun sem kemur þess í stað. Um þessar greiðslur er á hinn bóginn ekki deilt í þessu máli. Hér er krafist riftunar á greiðslu stefnanda á þeim 25 milljónum evra af höfuðstól stefnda RZB í brúarláninu, sem greiddar voru umfram 50 milljónir evra, sem er sama fjárhæð og stefndi RZB lagði stefnanda til með nýju láni til tveggja ára. Stefnandi byggir á því að gjalddagi hafi verið 11. nóvember 2008 og telur að þegar af þeirri ástæðu hafi verið greitt fyrr en eðlilegt var, en stefndu hafna því. Við mat á því hvort greiðsla fyrir gjalddaga var eins og á stóð, greidd fyrr en eðlilegt var, ber að líta til þeirra málsatvika sem leiddu til greiðslunnar.

Samkvæmt gögnum málsins hófust viðræður aðila um lán til lengri tíma á ný í febrúar 2008. Bankarnir Fortis og HVB ákváðu að taka ekki þátt í nýja láninu, en tveir aðrir bankar, BofA og Lloyds komu inn í viðræðurnar með framlag að fjárhæð 75 milljónir evra hvor banki og umsýslubankinn BL lagði 75 milljónir evra til lánsins. Ákvörðun um fjárhæð framlags stefnda RZB var ekki tekin fyrr en undir lok maímánaðar 2008.

Í tölvupósti starfsmanns stefnanda til framkvæmdastjóra fjárstýringar stefnanda 8. maí 2008, þar sem upplýst er m.a. um viðræður við BofA, kemur fram að starfsmaðurinn telji að finna verði leið til að „geta gert þetta“ með RZB og BL. Þeir geti ekki aukið sitt „exposure“ fyrr en í nóvember. Þar segir m.a. „Ég hef að sjálfsögðu engan áhuga á að greiða nóvember lánið upp núna þ.e. vil ekki greiða Fortis og HVB. Þannig að til þess að klúbburinn gangi upp núna gætum við þurft að leggja peninginn inn á deposit hjá BayernLB og RZB.“

Þegar stjórn stefnda RZB tók ákvörðun um þátttöku í nýja láninu voru samkvæmt ákvörðunarblaði, dags. 23. maí 2008, lagðar fyrir stjórnina tillögur annars vegar frá deild fjármálastofnana í bankanum, sem vitnið Harald Kreuzmair stýrði, um lánveitingu að fjárhæð 75 milljónir evra og hins vegar frá áhættudeild bankans, sem lagði til að framlag bankans yrði 50 milljónir evra. Fallist var á síðarnefndu tillöguna og jafnframt ákveðið og tiltekið í kafla á ákvörðunarblaðinu um áhættu af láninu, að þetta lán komi í stað brúarláns að fjárhæð 75 milljónir evra.

Í tölvupósti 27. maí 2008 frá starfsmanni stefnanda til framkvæmdastjóra fjárstýringar stefnanda var upplýst að stefndi RZB samþykki 50 milljónir evra í nýju láni, en þrír aðrir bankar, BofA, Lloyds og BL, 75 milljónir evra hver. Í tölvupóstinum segir m.a. að lánið sem við „Getum klárað“ sé 275 milljónir evra og „Ég held við ættum að festa þetta sem við erum þegar komin með því allir þessir bankar eru að „cutta“ línur á Ísland all verulega“. Þá kom fram í tölvupóstinum að starfsmaðurinn hefði þurft að svara fjölmörgum spurningum frá áhættudeild stefnda RZB. Meðal gagna málsins er að finna tölvupóstsamskipti frá mars, apríl og maí 2008 sem bera með sér að stefndi RZB óskaði ítarlegra upplýsinga um fjárhagslega stöðu stefnanda, sem starfsmaðurinn aflaði og veitti í svörum sínum. Í sama tölvupósti 27. maí 2008 til framkvæmdastjóra fjárstýringar upplýsti starfsmaðurinn það varðandi brúarlánið, að ekki þyrfti að greiða lánveitandanum HVB fyrr en í nóvember og unnið væri að því sama í Fortis Bank. Þá var framkvæmdastjórinn spurður hvort hann héldi að hann gæti „reddað €25mn. á morgun svo þetta verði €300?“. Síðdegis sama dag sendi starfsmaðurinn tölvupóst til umsýslubankans BL og staðfesti vilja stefnanda til að halda áfram, enda þótt stefndi RZB hefði aðeins samþykkt 50 milljónir evra og fékk um hæl svar frá BL um að skjölum yrði breytt til samræmis við slæmar fréttir af framlagi RZB. Í fundargerð stjórnar stefnanda 28. maí 2008, þegar nýja lántakan var samþykkt, kemur fram að þetta sambankalán, sem gæti orðið að fjárhæð 300 milljónir evra þegar áskrift væri komin að því öllu, sé tekið í almennu fjármögnunarskyni.

Með bréfi framkvæmdastjóra fjárstýringar stefnanda, dags. 4. júní 2008, til BL sem umsjónaraðila brúarlánsins var þess óskað, með vísun til viðræðna um fyrirframgreiðslu hluta lánssamningsins frá 12. nóvember 2007 „í tengslum við nýja lántöku hjá tveimur lánveitendum samkvæmt samningnum“, án nánari tilgreiningar, að útbúinn yrði viðauki við samninginn, sem heimilaði stefnanda að greiða stefnda RZB og BL fyrir fram lánsloforð þeirra samkvæmt samningnum, án þess að breyta öðrum ákvæðum samningsins og án þess að breytt yrði um umboðsaðila lánsins. Með tölvuskeytum umsýslubankans BL, dagana 6. júní og 10. júní 2008, til lánveitendanna HVB og Fortis var erindi stefnanda framsent og óskað með vísun til þess eftir heimild þeirra annars vegar til fyrirframgreiðslu innan vaxtatímabils og hins vegar heimildar til að mega greiða fyrir fram stefnda RZB og BL en ekki öllum lánveitendum hlutfallslega. Stefnanda og öðrum aðilum brúarlánsins var tilkynnt með tölvupósti 13. júní 2008 að bankarnir hefðu brugðist jákvætt við beiðni stefnanda.

Fyrir liggur formleg yfirlýsing frá stefnanda til umsýslubankans BL, dags. 13. júní 2008. Þar er vísað til 275 milljóna evra lánssamnings milli stefnanda og lánveitenda samningsins sem undirritaður var sama dag og því lýst yfir að andvirði fyrsta ádráttar (e.utilisation) lánsins verði ráðstafað til að endurgreiða að fullu 150 milljóna evra hlut stefnda RZB og BL í 300 milljóna evra láninu frá 12. nóvember 2007. Þar segir að yfirlýsingin skuli „teljast fjármálaskjal“ og lúta enskum lögum.

Tilgangur nýja lánsins, að fjárhæð 275 milljónir evra, er tilgreindur í grein 3.1. í lánssamningnum, dags. 13. júní 2008, og skyldi það nýtt til almennrar fjármögnunar. Ráðstöfun 25 milljóna evra af lánsfjárhæðinni til greiðslu fyrir gjalddaga á öðru láni, umfram þá ráðstöfun til endurfjármögnunar sem telja má venjulega, samræmist ekki þessu efni lánssamningsins.

Að virtum atvikum málsins er fallist á það með stefnanda að umrædd 25 milljóna evra skuld hans við stefnda RZB, sem greidd var fyrir gjalddaga, var greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefndu halda því fram að þótt greiðslan teldist hafa verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, þá hafi hún verið venjuleg eftir atvikum og þurfi stefndu því ekki að þola riftun hennar samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Sönnunarbyrði fyrir því að svo sé hvílir á stefndu.

Stefndu vísa til gagna um viðræður um fjármögnun á árinu 2007 og halda því fram að að alltaf hafi staðið til að brúarlánið yrði endurgreitt að fullu við nýjan samning um langtímalán þó að ekki hafi staðið til að stefndi RZB lánaði stefnanda hærri fjárhæð en 50 milljónir evra til lengri tíma. Í framburði starfsmanns stefndu fyrir dóminum var þó staðfest að í viðræðum starfsmanna deildar fjármálastofnana, sem annaðist viðskipti við stefnanda hjá stefnda RZB og sem vitnið stýrði, við starfsmenn stefnanda, hefði verið stefnt að því að stefndi RZB tæki þátt í nýja láninu með 75 milljóna evra framlagi og það hafi vitnið sjálft lagt til við stjórn bankans 23. maí 2008. Stjórnin hefði á hinn bóginn við ákvörðun um lánveitingu farið að tillögu starfsmanna áhættudeildar, sem lagt hafi til að framlag bankans til nýs láns yrði 50 milljónir evra. Af gögnum málsins um viðræður á árinu 2007 verður ráðið að tilteknar forsendur um fjármögnun hafi átt að leiða til þess að endanleg áhætta hvers leiðandi lánveitanda af lánveitingu til stefnanda yrði 50 milljónir evra. Þær forsendur brustu og er framlag stefnda RZB til láns til tveggja ára af öðrum ástæðum að sömu fjárhæð og upphafleg áform um endanlega áhættu hans af lánveitingu til stefnanda til lengri tíma. Þetta getur ekki leitt til þess að venjulegt teljist eftir atvikum að framlag stefnda RZB til brúarlánsins greiddist að fullu fyrir gjalddaga og er þessari málsástæðu stefndu hafnað.

Til stuðnings þeirri málsástæðu að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum halda stefndu því einnig fram að hún hafi virst venjuleg frá sjónarhóli annarra lánveitenda. Um viðhorf lánveitendanna Lloyds og BofA eða vitneskju þeirra um þessa ráðstöfun er ekki upplýsingar að hafa í málinu. Stefndu vísa til þess að bankarnir HVB og Fortis hefðu ekki veitt samþykki sitt til endurgreiðslu brúarlánsins að hluta án hlutdeildar í þeirri endurgreiðslu ef henni hefði verið ætlað annað en að gera stefnda RZB og BL kleift að framlengja brúarlánið í þágu stefnanda. Hér verður að líta til þess að í því erindi stefnanda frá 4. júní 2008, sem fyrr er lýst og umsýslubankinn BL framsendi til lánveitendanna HVB og Fortis og virðist hafa legið til grundvallar samþykki þeirra fyrir fyrirframgreiðslu til tveggja lánveitenda brúarlánsins, í tengslum við nýja lántöku stefnanda hjá þeim, er í engu getið um hvert umfang nýrrar lántöku stefnanda hjá þeim lánveitendum verði. Að því er varðar 75 milljóna evra hlut BL og 50 milljóna evra hlut stefnda RZB var um að ræða endurfjármögnun, sem venjuleg getur talist. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að kröfuhafarnir HVB og Fortis hafi, þegar þeir samþykktu greiðsluna, haft vitneskju um umframgreiðslu til stefnda RZB á 25 milljónum evra fyrir gjalddaga. Ekki verður í ljósi fyrirliggjandi gagna fallist á þá túlkun stefndu að í samþykki þessara þátttakenda í brúarláninu felist að sú greiðsla sem riftunar er krafist á í máli þessu hafi virst þeim venjuleg.

Stefndu halda því fram að greiðslan geti ekki verið riftanleg þar sem hún hafi verið stefnanda til hagsbóta og viðskiptaleg sjónarmið hafi ráðið því að stefnda RZB var greitt en ekki öðrum kröfuhöfum brúarlánsins, þ.e. HVB og Fortis. Stefndu vísa einnig til þess að staða stefnanda hafi virst sterk og að þátttaka BofA og Lloyds í nýja láninu bendi til þess að alþjóðlegar fjármálastofnanir hafi verið viljugar að lána stefnanda á umræddum tíma. Af fyrirliggjandi samskiptum og gögnum verður þó ekki annað ráðið en að stefndi RZB hafi gert það að skilyrði fyrir þátttöku í nýju láni til lengri tíma með 50 milljónum evra, að hlutur bankans í fyrra láni yrði gerður upp samhliða að fullu. Einnig að stefnandi hafi fallist á það og ekki talið sig eiga annarra kosta völ til fjármögnunar á þessum tíma. Það hagræði stefnanda af lengri lánstíma nýja lánsins, sem stefndu telja til marks um að venjuleg viðskiptaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðun stefnanda, sýnist dýru verði keypt með greiðslu á 25 milljónum evra tæpum fimm mánuðum fyrir gjalddaga, enda liggur fyrir að vextir af brúarláninu voru mun lægri en vextir af nýja láninu sem notað var til greiðslunnar. Viðskiptalegt hagræði stefnanda af þessari ráðstöfun væri enn minna ef fallist væri á þá málsástæðu stefndu, sem fær ekki stoð í gögnum málsins, að engin vandkvæði hefðu verið á því fyrir stefnanda að afla sér lánsfjár hjá öðrum bönkum á þessum tíma.

Fallist er á það með stefnanda að þær aðstæður, að stefnandi hafi ekki átt annan kost en að endurgreiða stefnda RZB brúarlánið að fullu fyrir gjalddaga til þess að eiga möguleika á að fá lán frá stefnda RZB til lengri tíma, eiga fremur að leiða til þess að greiðslan sé riftanleg en þess að hún sé það ekki. Ekki gat farið fram hjá stefnanda að lánstraust hans fór þverrandi og fjárhagsstaða versnandi á þessum tíma. Greiðsla fyrir gjalddaga við þær aðstæður gat því fyrirsjáanlega verið til þess fallin að mismuna kröfuhöfum kæmi til þess að stefnandi gæti ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar, svo sem síðar kom á daginn að varð raunin.

Stefndu halda því fram að samkvæmt opinberum upplýsingum og öllum hefðbundnum mælikvörðum til að meta áhættu hafi staða stefnanda virst sterk á fyrri helmingi ársins 2008 og ekkert bent til þess að bankinn myndi lenda í alvarlegum fjárhagsvandræðum í október 2008. Þetta telja stefndu sýna að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum, enda teljist greiðslur sem inntar séu af hendi án áhrifa frá aðsteðjandi fjárhagsvanda greiðanda almennt venjulegar eftir atvikum. Lítið hald er í þessari málsástæðu stefndu þegar litið er til þess að af gögnum málsins verður ráðið að traust stefnda RZB á stefnanda sem lántaka fór þverrandi á árinu 2008. Benda gögnin til þess að versnandi fjárhagsstaða stefnanda hafi ráðið þeirri ákvörðun stefnda RZB, að ráði áhættudeildar bankans eftir upplýsingaöflun frá stefnanda sjálfum, að framlengja aðeins lánveitingu til stefnanda að hluta og gera það að skilyrði fyrir þeirri framlengingu að brúarlánið yrði engu að síður greitt upp að fullu. Engu verður þó slegið föstu um það hvort stefndu eða aðrir aðilar, sem stunduðu bankaviðskipti á alþjóðlegum mörkuðum, hafi á þessum tíma mátt gera sér grein fyrir því að greiðsluþrot stefnanda væri yfirvofandi, en framlögð gögn um stöðu stefnanda á þessum tíma eru ekki að öllu leyti á sama veg. Að virtum atvikum málsins verður að ætla að til greiðslunnar hefði ekki komið ef stefnandi hefði ekki á þeim tíma staðið frammi fyrir fjárhagsvanda sem gerði honum erfitt fyrir að útvega sér lánsfé til lengri tíma, svo sem greint er frá í gögnum málsins.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið hefur stefndu ekki tekist að sanna að við þessar aðstæður geti virst venjulegt eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að stefnandi greiddi stefnda RZB umræddar 25 milljónir evra fyrr en eðlilegt var þann 20. júní 2008. Greiðslan verður því talin riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Lagaskil

Mál sem slitastjórn stefnanda höfðar til riftunar ráðstafana skal þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fyrirtækið var tekið til slita skv. 3. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 146/2011, og sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 275/2013 og er málið talið réttilega höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. úrskurð dómsins í máli þessu 11. júní 2013. Varnarþingsákvæðið verður ekki skýrt svo að í því felist lagaskilaregla þess efnis að íslensk lög skuli fortakslaust gilda um þau mál sem slitastjórn höfðar í þessu skyni. Samkvæmt skilmálum lánssamnings aðila frá 12. nóvember 2007 og samkvæmt yfirlýsingu stefnanda frá 13. júní 2008 um fulla endurgreiðslu þess láns til stefnda fyrir gjalddaga, skyldu ensk lög gilda um þá gerninga og þau viðskipti. Um lagaskil við slíkar aðstæður hefur áður verið fjallað í dómsúrlausnum, m.a. í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 228/2015 og nr. 231/2015.

Með lögum nr. 130/2004 voru gerðar breytingar á lögum nr. 161/2002 sem ætlað var að innleiða í íslenskan rétt tilskipun nr. 2001/24/EB. Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 9. gr. laga nr. 130/2004, skal um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um fjárhagslega endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki fara að íslenskum lögum, með frávikum sem talin eru upp í fjórtán stafliðum og er þetta áréttað í 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB kemur meðal annars fram að sú meginregla 10. gr. tilskipunarinnar, að lög heimaaðildarríkis skuli gilda, eigi ekki við „um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd“ ef sá, sem hefur hag af þeim löggerningum, leggur fram sannanir um að gerningurinn sem um ræðir falli undir lög annars aðildarríkis en heimaaðildarríkis og lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn. Með 1. gr. laga nr. 78/2011 var nýjum málslið bætt við n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 og hefur það ákvæði að geyma sambærilegt orðalag og 1. mgr. 30. gr. íslenskrar útgáfu téðrar tilskipunar. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 78/2011, sagði meðal annars að vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tilskipunar nr. 2001/24/EB væri í frumvarpinu lagt til að gerðar yrðu frekari breytingar á lögum nr. 161/2002 í þeim tilgangi að innleiða tilskipunina að fullu í íslenskan rétt.

Hinn 17. október 2014 kvað EFTA-dómstóllinn upp dóm í máli nr. E-28/13 í tilefni af beiðni um ráðgefandi álit er beint hafði verið til dómstólsins í öðru máli, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í dóminum, sem lagður er fram sem dómskjal í máli þessu, var komist að þeirri niðurstöðu að orðalagið um ógildi, ógildanleika eða skort á réttarvernd löggerninga í 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB „vísi einnig til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum eins og þeirra sem er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991“.

Af hálfu stefnanda hefur verið á það bent að í áliti meirihluta viðskiptanefndar Alþingis, við meðferð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 78/2011, sé sérstaklega tekið fram að því ákvæði sem bætt var við n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sé ekki ætlað að taka til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991. Almennt ber að skýra innlendar réttarreglur til samræmis við reglur EES-samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og verða sett lög því aðeins skýrð í andstöðu við reglur EES-samninginn að vilji löggjafans um það efni sé skýr og ótvíræður. Þau ummæli í áliti meirihluta viðskiptanefndar, sem stefnandi vísar til, verða ekki skýrð svo að reglur íslenskra laga um gjaldþrotaskipti eigi að gilda um riftunarkröfur fjármálafyrirtækja án tillits til þess hver teljist rétt skýring 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, enda kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að ákvæðinu sé beinlínis ætlað að innleiða ákvæði tilskipunarinnar, án þess að gerðir séu fyrirvarar um riftunarkröfur. Verður að leggja til grundvallar að vilji löggjafans hafi staðið til þess að með setningu laganna yrði kröfum EES-samningsins að þessu leyti fullnægt.

Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist með stefnanda að íslensk lög séu um þetta efni svo afdráttarlaus að útilokað sé að þau verði skýrð til samræmis við 1. mgr. 30. gr. umræddrar tilskipunar, eins og efni hennar er skýrt af EFTA-dómstólnum í fyrrgreindum dómi hans í máli E-18/13. Síðari málslið n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sem felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að íslensk lög gildi við endurskipulagningu og slitameðferð fjármálafyrirtækja, verður því beitt um ágreining um heimild stefnanda til riftunar á þeirri greiðslu sem mál þetta snýst um og innt var af hendi 20. júní 2008. Af þessu leiðir að þótt greiðslan sé að mati dómsins riftanleg á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, svo sem fram er komið, þá getur efni viðeigandi enskra reglna staðið því í vegi að henni verði rift, skorti þar heimild til riftunar eða ógildingar hennar, svo sem stefndu halda fram að sé raunin. 

Fram kemur í dómi EFTA-dómstólsins að það leiði af öðrum undirlið 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar að sá sem hefur hag af löggerningi, sem telst skaðlegur öllum lánardrottnum, verði að sanna að engin úrræði séu tiltæk, eða að engin úrræði séu lengur tiltæk, til að vefengja viðkomandi gerning samkvæmt lögum þess EES-aðildarríkis sem eiga við hann, hvort sem því valda efnislegar ástæður eða ástæður sem lúta að málsmeðferð. Meta eigi samkvæmt reglum gistiríkisins, þ.e. samkvæmt íslenskum lögum, hvort þeim sem hefur hag af löggerningnum, sem hér eru stefndu, hafi tekist að sanna að lögin sem eiga við um gerninginn, hér ensk lög, veiti engin úrræði til að vefengja hann. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós og hvílir sönnunarbyrði að þessu leyti því á stefndu að íslenskum lögum.

Ensk lög

Óumdeilt er að ensk lög gilda um viðskipti aðila og greiðsluna. Stefndu halda því fram að stefnandi beri sönnunarbyrði um að skilyrðum ensku reglnanna sé fullnægt til að greiðslunni verði rift. Á það verður ekki fallist, enda verður samkvæmt orðalagi síðari málsliðar í n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, komið í veg fyrir beitingu þeirrar meginreglu, að greiðslu sé rift á grundvelli íslenskrar riftunarreglu, ef sá sem hag hefur af því að gerningur haldi gildi, þ.e. að greiðslunni verði ekki rift, leggur fram fullnægjandi sönnun um að í lögum annars ríkis sé ekki að finna ógildingarreglu sem taki til þess tilviks sem um ræðir. Það hvílir því ekki á stefnanda samkvæmt ákvæðinu að sýna fram á að skilyrðum enskra laga sé fullnægt til að rifta greiðslunni, þó að á honum hvíli sönnunarbyrði um að skilyrði séu uppfyllt til riftunar að íslenskum lögum. Þá verður dómur EFTA-dómstólsins ekki skilinn á annan veg en þann að það hvíli á stefndu að sanna að erlendu lögin veiti engin úrræði til að rifta greiðslunni. Takist stefndu að sýna fram á það að skilyrði til riftunar séu ekki fyrir hendi samkvæmt þessum reglum verður íslensku riftunarreglunni ekki beitt um greiðsluna.

Sem fyrr greinir hafa stefndu aflað matsgerðar til að sýna fram á efni enskra laga sem máli geti skipt fyrir úrlausn málsins og hefur þeirri matsgerð ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða með öðrum hætti. Matsmaðurinn, Louise Gullifer, sem er prófessor í fjármunarétti við háskólann í Oxford á Englandi, staðfesti matsgerð sína fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins og skýrði efni hennar frekar. Í matsgerðinni er gerð grein fyrir því að ensk lög bjóði fjögur hugsanleg úrræði til að vefengja greiðsluna sem um ræðir í þessu máli og lýst er úrræðum sem svara til þeirra sem stefndi vísar til hér að framan. Það eru 238. gr. (ráðstöfun á undirvirði), 239. gr. (ívilnun) og 423. gr. (ráðstafanir sem eru sviksamlegar gagnvart kröfuhöfum) gjaldþrotalaganna frá 1986, auk möguleika á „fordæmisréttarkröfu“ (venjurétti) sem byggi á „meðvitaðri móttöku greiðslu sem er brot á trúnaðarskyldu“. Samkvæmt þessu er ljóst að í enskum rétti finnast úrræði sem almennt séð er unnt að beita til að vefengja greiðslu af því tagi sem hér um ræðir.

Í fyrrgreindum dómi EFTA-dómstólsins segir m.a. að sérstakt mat á viðkomandi löggerningi verði að fara fram hverju sinni og þótt almennt séð væri unnt að vefengja gerninginn samkvæmt lögum þess EES-ríkis sem eiga við um hann myndi þeim sem hag hefur af honum nægja að sýna fram á að skilyrði fyrir slíkri vefengingu séu ekki uppfyllt í þessu tiltekna máli. Nægir því tilvist framangreindra úrræða ekki ein og sér til þess að ákveða að riftunarreglu íslensku laganna verði beitt í málinu, heldur þarf að skoða hvort skilyrði séu uppfyllt til að unnt væri að rifta þeirri greiðslu sem deilt er um í málinu á grundvelli einhverra þessara úrræða.

Um formskilyrði, tímafrestinn, segir m.a. svo í matsgerðinni í íslenskri þýðingu:

Greinar 238 og 239 gilda aðeins um ráðstafanir sem gerðar voru á síðustu 2 árum (í tilviki greinar 238) eða 6 mánuðum (í tilviki greinar 239) fyrir „upphaf greiðsluþrots“. Enskur dómstóll gæti nálgast það verkefni að ákvarða dagsetningu „upphafs greiðsluþrots“ á tvennan hátt.

i. Hann getur í fyrsta lagi ákvarðað hvort íslensku meðferðirnar falli undir skilgreiningar tilskipunarinnar á hugtökunum „endurskipulagningarráðstöfun“ og „slitameðferð“ (samkvæmt enskum lögum) og litið svo á að þær meðferðir séu hliðstæðar enskri greiðslustöðvun annars vegar og enskri slitameðferð hins vegar. Ef þessi nálgun yrði notuð er líklegt að „upphaf greiðsluþrots“ yrði talið vera 22. nóvember 2010: staðan er þó óviss og hugsanlegt er að enski dómstóllinn myndi fylgja úrskurði Evrópudómstólsins í Kepler málinu, en þá myndi 24. nóvember 2008, þegar íslenski dómstóllinn veitti fyrst heimild til greiðslustöðvunar, teljast marka „upphaf greiðsluþrots“.

ii. Hin nálgunin felst í því að ákvarða hvaða íslenska meðferð líkist helst enskri greiðslustöðvun og slitameðferð án þess að athuga hvort hún falli undir tilskipunina. Samkvæmt þessari nálgun er líklegt að 24. nóvember 2008 marki „upphaf greiðsluþrots“. Ég tel þessa nálgun betri en það er Héraðsdóms Reykjavíkur að ákveða hvor þeirra verði notuð.

Að áliti matsmannsins er samkvæmt framangreindu líklegast að greiðslan 20. júní 2008 teldist hafa verið innt af hendi innan tilskilins sex mánaða tímafrests til að vera riftanleg að því er varðar 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna og innan tveggja ára frests samkvæmt 238. gr. laganna. Að því virtu er ósannað að formskilyrði um tímamörk komi í veg fyrir að greiðslunni verði hnekkt að enskum lögum.

                Í matsgerðinni er gerð grein fyrir skilyrði um ógjaldfærni við greiðslu sem þurfi að vera fyrir hendi til þess að beitt verði 238. gr. eða 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna, í íslenskri þýðingu matsgerðar segir m.a. svo:

Greinar 238 og 239 gilda aðeins um ráðstafanir sem gerðar voru þegar félag var ógjaldfært í skilningi 123. greinar gjaldþrotalaganna frá 1986, sem kveður á um tvö próf. Félag fellur á sjóðstreymisprófinu ef það er ófært um að greiða núverandi skuldir sínar og/eða skuldir sem verða gjaldkræfar í tiltölulega náinni framtíð, sem líklega tekur hvort tveggja til síðari og skilyrtra skulda. Jafnvel þótt félag standist sjóðstreymisprófið kann það að falla á efnahagsreikningsprófinu, sem felur í sér að eignir félags eru bornar saman við skuldir þess, þ.m.t. síðari og skilyrtar skuldir, sem ber að afvaxta vegna framtíðareiginleika þeirra og með tilliti til þess hversu líklegt sé að viðeigandi skilyrði raungerist. Ef félag er gjaldfært samkvæmt sjóðstreymisprófinu ætti dómstóll að fara varlega í að ákvarða að það sé ógjaldfært samkvæmt efnahagsreikningsprófinu, sér í lagi ef skuldirnar koma til greiðslu í fjarlægri framtíð.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum skýrði matsmaðurinn nánar hvað í þessum viðmiðum fælist. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar eða greining á stöðu stefnanda að því er varðar sjóðstreymi og efnahag þegar greiðslan var innt af hendi, sem samsvara þeim prófunum sem ensku lagaákvæðin gera ráð fyrir, þó að meðal gagna málsins séu ýmsar upplýsingar um fjárhag stefnanda. Stefndu hafa því ekki sýnt fram á að skilyrði um ógjaldfærni við greiðslu í þessum skilningi, sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að beitt verði 238. gr. eða 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna, hafi ekki verið uppfyllt. Ósannað er að ákvæðunum verði af þeim sökum ekki beitt til að rifta greiðslunni.

Í matsgerðinni er gerð nánari grein fyrir öðrum skilyrðum sem uppfylla þarf til að 238. gr. ensku gjaldþrotalaganna um ráðstöfun á undirvirði geti átt við í málinu. Óþarft er að fjalla um þau hér, enda er í málatilbúnaði stefnanda ekki á því byggt að greiðslan hafi verið á undirvirði í þessum skilningi og stefndu halda því fram að svo sé ekki. Af sömu ástæðum er óþarft að fjalla frekar um efni matsgerðar um skilyrði fyrir því að dómari geti fellt aðfararhæfan úrskurð samkvæmt 423. grein laganna í tengslum við ráðstafanir á undirvirði sem gerðar eru með það að markmiði að koma eignum undan kröfuhöfum eða skerða rétt þeirra á annan hátt.

Stefndu vísa enn fremur til meginreglu ensks venjuréttar. Fram kom hjá matsmanni fyrir dóminum að fordæmisrétti sé beitt ef skilyrði gjaldþrotalaga eru ekki uppfyllt, til dæmis ef krafa kemur fram þegar tímafrestur er liðinn. Ef ákvæði gjaldþrotalaganna eiga við um gerning myndi ekki reyna á heimildir ensks venjuréttar til að hnekkja honum eða hafna því að ógilda hann. Í matsgerð er fjallað frekar um fordæmisrétt og fram kemur að við mat á því hvort greiðsla feli í sér brot á trúnaðarskyldu, þannig að henni verði rift á grundvelli fordæmisréttar, reyni á heimildir þess sem ákveður greiðslu, auk huglægrar afstöðu greiðanda og viðtakanda. Hafa þurfi m.a. í huga í því sambandi að ekkert fordæmi sé fyrir því að verknaður, sem ekki er ívilnun sökum þess að hin tilskilda löngun var ekki fyrir hendi, hafi verið talinn brot á skyldu, og það séu einhver fordæmi fyrir því sjónarmiði að sú geti aldrei verið raunin.

                        Af framburði matsmannsins fyrir dóminum verður ráðið að af þeim úrræðum sem til greina koma sé líklegast að 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna um ívilnun geti átt við um atvik málsins, sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Í matsgerðinni er auk framangreindra skilyrða um tímafrest og ógjaldfærni gerð grein fyrir frekari skilyrðum fyrir því að um ívilnun geti verið að ræða samkvæmt ákvæðinu. Í íslenskri þýðingu matsgerðar segir um þau skilyrði svo:

Aðeins er úrskurðað samkvæmt 239. grein í tengslum við greiðslu til kröfuhafa. RZB er kröfuhafi í samhengi þessa máls.

i. Greiðslan er aðeins ívilnun ef hún hafði þau áhrif að setja RZB í betri stöðu við slitameðferð Kaupþings en ef hún hefði ekki verið innt af hendi: það er hlutlægt skilyrði og er ákvarðað með því að bera saman hina eiginlegu stöðu við ímyndaða slitameðferð sem hefst strax eftir að greiðslan er framkvæmd.

ii. Sömuleiðis er hún aðeins ívilnun ef löngun til að ná fram þeim áhrifum að RZB yrði í betri stöðu en ella ef félagið hefði verið tekið til slitameðferðar hafði áhrif á ákvörðun Kaupþings um að veita ívilnunina. Þótt slík löngun þurfi ekki að vera eina ástæða greiðslunnar, þá þarf það að hafa verið áhrifavaldur, og það er yfirleitt ekki raunin ef venjuleg viðskiptaleg sjónarmið lágu til grundvallar greiðslunni.

iii. Sú löngun sem miðað er við er löngun einstaklings með nægilega víðtækar heimildir til að hugarástand hans verði talið endurspegla hugarástand félagsins.

iv. Sá tími sem félagið verður að hafa búið yfir tilskilinni löngun er sá tími sem ákvörðunin var tekin: það ræðst af málavöxtum hverju sinni hver sá tími sé, en það er ekki endilega sá tími þegar greiðslan er framkvæmd eða sá tími þegar Kaupþing varð skylt samkvæmt samningi að framkvæma greiðsluna.

v. Ef greiðslan er ívilnun má búast við úrskurði um að hún skuli endurgreidd í heild sinni.

Grundvöllur greinar 239 í ensku gjaldþrotalögunum er samkvæmt því sem fram kom hjá matsmanni fyrir dóminum, sá að tryggja jafnræði kröfuhafa. Ekki er sýnt fram á annað í málinu en að framangreint hlutlægt skilyrði, um betri stöðu stefnda RZB en annarra kröfuhafa eftir greiðsluna, sé fyrir hendi. Fyrir liggur að kröfuhöfunum HVB og Fortis stóð ekki til boða uppgreiðsla á sínum hlut í brúarláninu fyrir gjalddaga og að aflað var samþykkis þeirra til greiðslunnar, án þess að séð verði að þeim hafi verið kynnt að stefnda RZB yrði greitt umfram endurfjármögnun. Samkvæmt vitnisburði starfsmanns stefndu fyrir dóminum var stefnandi stór viðskiptavinur stefnda RZB. Af þeim samskiptum sem fyrr er greint frá milli starfsmanns stefnanda og yfirmanns hans, sem hafði víðtækar heimildir til að samþykkja greiðsluna, má ráða vilja þeirra til þess að gera hlut stefnda RZB betri en hlut þeirra banka sem ekki vildu taka þátt í lánveitingu til lengri tíma. Virðist vilji stefnanda til þess að ívilna stefnda RZB, sem stefnandi átti í umtalsverðum viðskiptum við, hafa haft áhrif, fremur en venjulegir viðskiptalegir hagsmunir, á þá ákvörðun að ráðstafa lánsfé sem veitt var í almennu fjármögnunarskyni til að greiða stefnda RZB skuld fyrir gjalddaga að fullu, umfram endurfjármögnun, og gera þar með hlut stefndu betri en annarra kröfuhafa. Að mati dómsins þykir, svo sem fram er komið, sýnt að stefnandi hafi átt í vandræðum með að afla sér lánsfjár, m.a. vegna þverrandi trausts á fjárhag hans, og að sú staða hafi skipt máli við lántöku og greiðslu. Ætla verður að atvikum málsins virtum að ekki sé ólíklegt að um geti verið að ræða ívilnun í skilningi þessa ákvæðis ensku laganna, eins og það hefur verið skýrt fyrir réttinum, og teljast stefndu því ekki hafa sannað að umrædd greiðsla yrði ekki talin ívilnun í skilningi 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna.

Það er samkvæmt framangreindu mat dómsins að stefndu hafi ekki tekist, eins og atvikum er háttað í máli þessu, að sýna fram á að greiðslunni yrði ekki rift á grundvelli tiltækra réttarheimilda í enskum rétti. Er því ósannað að engin úrræði séu í enskum lögum tiltæk til að vefengja hana. Þegar af þeirri ástæðu er ekki uppfyllt skilyrðið sem leiðir af síðari málslið í n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, um að stefndu leggi fram fullnægjandi sönnun um að í enskum lögum sé ekki að finna ógildingarreglu sem eigi við um atvik málsins, sem nauðsynlegt er að uppfyllt sé til að víkja megi frá þeirri meginreglu að um riftun greiðslunnar fari að íslenskum lögum. Verður því fallist á kröfu stefnanda um riftun greiðslunnar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991.

Endurgreiðslukrafa, dráttarvextir og málskostnaður

Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotabúsins hefur komið honum að notum. Krefst stefnandi endurgreiðslu 25 milljóna evra úr hendi stefndu sameiginlega á þessum grundvelli. Skilyrði ákvæðisins til að stefndu verði gert að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð eru fyrir hendi, enda er ekki sýnt fram á annað en að peningagreiðslan hafi komið stefnda RZB að notum að fullu.

Stefndu krefjast þess til vara að fjárhæðin verði lækkuð verulega og vísa í því sambandi til 145. gr. laga nr. 21/1991. Þar segir að ef sérstaklega standi á megi lækka eða fella niður kröfu á þann sem hafði hag af ráðstöfun ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði til þess sama. Stefndu hafa ekki með haldbærum rökum eða gögnum sýnt fram á að svo standi sérstaklega á í þessu máli að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði þessu og verða að bera hallann af því. Því verður fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu.

Stefnandi krefst þess að fjárhæðin beri dráttarvexti frá þeim degi er greiðslan var innt af hendi, 20. júní 2008. Stefndu andmæla því að dráttarvextir samkvæmt lögum nr. 38/2001 reiknist á fjárhæð sem umkrafin sé í evrum og mótmæla upphafstíma kröfu um dráttarvexti með þeim rökum að ekki sé lagastoð til að reikna dráttarvexti frá því riftanleg ráðstöfun átti sér stað. Engin sérregla er nú í vaxtalögum um vaxtafót fyrir dráttarvexti af kröfum í erlendri mynt og verða dráttarvextir því reiknaðir samkvæmt hinni almennu reglu 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, sem gildir nema um annað sé samið, sem ekki á við hér. Á hinn bóginn er fallist á það með stefndu að lagastoð skortir til að reikna dráttarvexti á kröfuna frá þeim degi sem greiðslan var innt af hendi.

Stefndu verður samkvæmt framangreindu gert að greiða stefnanda sameiginlega 25.000.000 evra. Fjárhæðin skal bera dráttarvexti frá 7. mars 2012 , sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en þá var liðinn mánuður frá þeim degi sem stefnandi krafðist riftunar á greiðslunni.

Að virtum úrslitum málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað, sem með hliðsjón af umfangi málsins er ákveðinn 5.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.

D Ó M S O R Ð

Rift er greiðslu stefnanda, Kaupþings hf., á skuld við stefnda, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, að fjárhæð 25.000.000 evra sem fram fór 20. júní 2008.

Stefndu, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og Raiffaisen Bank International AG, greiði stefnanda sameiginlega (in solidum) 25.000.000 evra, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. mars 2012 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda sameiginlega (in solidum) 5.000.000 króna í málskostnað.