Hæstiréttur íslands
Mál nr. 330/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarslys
- Manndráp af gáleysi
- Líkamstjón
- Svipting ökuréttar
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 330/2001. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Steingrími Guðjónssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarslys. Manndráp af gáleysi. Líkamstjón. Svipting ökuréttar.
S var gefið að sök að hafa í júlí 2000 ekið hópbifreið, sem var 2,49 m breið, með 30 farþega innanborðs, of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu, inn á einbreiða brú, sem er 2,60 m á breidd, yfir ána Hólsselskíl á Hólsfjöllum með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af brúnni og valt ofan í ána. Við þetta köstuðust farþegarnir til inni í bifreiðinni og urðu 11 þeirra fyrir líkamstjóni og einn lést af völdum áverka. Talið var að S hefði verið á um 43-54 km hraða þegar hann fór inn á brúna. Veður var gott og sást brúin og allar aðstæður langt að. Litið var til þess að vegurinn að brúnni var nýheflaður og laus í sér og hefði því þurft að gæta sérstakrar varúðar vegna þess. Þá kom fram í málinu að S hafði ekki mikla reynslu í akstri hópferðabifreiða þegar slysið varð og þekkti ekki veginn eða umrædda brú. Var litið svo á að þetta hefði kallað á aukna aðgæslu af hans hálfu. Í ljós var leitt að bifreiðin kom skökk inn á brúna og að hægri afturhjólbarðinn lenti á brúarstólpa þannig að hún kastaðist til og valt út af brúnni. Ljóst þótti að S hefði ekki haft fullt vald á bifreiðinni er hann kom að brúnni, og þótti sannað að hann hefði ekið of hratt og ógætilega miðað við aðstæður svo varðaði við umferðarlög. Þar sem mannsbani og líkamstjón hlaust af akstri ákærða var hann einnig talinn hafa unnið til refsingar samkvæmt 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga. Var S dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til sviptingar almenns ökuréttar í 6 mánuði. Áður hafði Sýslumaðurinn á Akranesi afturkallað aukin ökuréttindi S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. ágúst 2001. Hann krefst þess, að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I.
Ákærða er gefið að sök að hafa 16. júlí 2000 ekið hópbifreið, sem er 2,49 metra breið, með 30 farþega innanborðs, of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu, inn á einbreiða brú, sem er 2,60 metrar á breidd, á þjóðvegi 864 yfir ána Hólsselskíl á Hólsfjöllum með þeim afleiðingum, að bifreiðin fór út af brúnni og valt ofan í ána. Við þetta köstuðust farþegarnir til inni í bifreiðinni og urðu 11 þeirra fyrir líkamstjóni og einn lést af völdum áverka.
Þegar slysið varð, hafði ákærði verið á ferðalagi með 29 þýska ferðamenn og leiðsögumann í fimm daga. Nóttina fyrir slysið var gist í Neskaupstað. Þann 16. júlí var ákveðið að aka að Dettifossi og Ásbyrgi, og fór ákærði því af þjóðvegi 1 og ók að Dettifossi eftir þjóðvegi 864, sem er malarvegur. Frá þjóðvegi 1 að brúnni á Hólsselskíl eru um 7 km og var komið að brúnni um kl. 13.20. Veður var bjart, yfirborð vegar slétt, laust og þurrt og var vegur nýlega heflaður. Ákærði kom sunnan að brúnni eftir aflíðandi vinstri beygju. Að henni lokinni er umferðarmerki í hægri vegarkanti, sem varar við hættu og að vegur þrengist. Þá tekur við um 200 metra langur beinn og sléttur vegarkafli inn að brúnni. Samkvæmt lýsingu í frumskýrslu lögreglunnar á Húsavík er brúin staðsett nokkuð vestan við miðlínu vegarins, þannig að ökumaður, sem kemur að brúnni að sunnan, þarf heldur að færa sig til vesturs eða vinstri á veginum, áður en ekið er inn á brúna, en sá, sem kemur að norðan, er í nokkuð beinni stefnu á brúna, þegar ekið er inn á hana. Handriðum brúarinnar hallar út að ofan og sýnist hún því breiðari en hún er, en eins og að framan greinir er hún 2,6 metrar á breidd.
Samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna bendir ekkert til þess, að ástand bifreiðarinnar fyrir slysið hafi valdið því, heldur hafi skemmdir þær, sem á henni fundust, átt sér stað við snöggt og mikið högg.
Fallast má á það með héraðsdómi, að hægri afturhjólbarði hafi lent á brúarstöplinum, er ákærði ók inn á brúna, og að rútan hafi tekist á loft að aftan, afturhluti hennar kastast til við höggið og hún oltið til hægri út af brúnni með framangreindum afleiðingum.
II.
Ákærði hefur borið, að hann hafi ekki verið á miklum hraða, er hann fór inn á brúna, hann hafi verið búinn að hemla og verið kominn í þriðja gír, en bifreiðin er sex gíra. Fallist er á með héraðsdómi, að líklegt sé að hraði hennar hafi þá verið á bilinu 4354 km/klst., og byggist það á upplýsingum þjónustudeildar Vegagerðarinnar, sem fór yfir skráningarblöð ökurita bifreiðarinnar, og vætti deildarstjóra Vegagerðarinnar.
Fram er komið í málinu, að ákærði hafði ekki mikla reynslu í akstri hópferðabifreiða. Hann fékk skírteini til aksturs slíkra bifreiða 11. apríl 2000 og hafði ekið umræddri bifreið í rúma tvo mánuði, áður en hin örlagaríka ferð hófst. Hann þekkti ekki aðstæður og hafði aldrei ekið stórri bifreið yfir Hólsselskíl og hafði raunar aðeins einu sinni áður áratugum fyrr farið þessa leið sem farþegi.
Fyrir liggur, að ákærði lenti í slysi, er hann var 10 ára gamall, með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega sjónskerðingu og mikið skert sjónsvið á hægra auga. Ekki voru því skilyrði til að gefa út skírteini til aukinna ökuréttinda honum til handa. Var þar um mistök að ræða, sem ákærða verður ekki um kennt, þar sem hann leyndi ekki sjónskerðingu sinni í umsókn um ökuleyfið. Ákærði telur sjónskerðinguna ekki há sér við akstur.
III.
Eins og að framan greinir ók ákærði stórri hópferðabifreið með 30 farþegum innanborðs á malarvegi að einbreiðri brú. Veður var gott og hann sá brúna og allar aðstæður langt að og hafði tök á að meta hvernig aka skyldi. Einbreiðar brýr eru alltaf varasamar og gera verður þær kröfur til ökumanna, sérstaklega ökumanna stórra hópferðabifreiða, að þeir dragi svo úr hraða, er þeir nálgast þær, að þeir hafi fullt vald á ökutækinu og gæti ítrustu varkárni. Líta verður til þess, að hér var vegurinn að brúnni nýheflaður og laus í sér og þurfti því að gæta sérstakrar varúðar vegna þess. Reynsluleysi ákærða í akstri hópferðabifreiða og það, að hann þekkti ekki veginn og brúna, kallaði á aukna aðgæslu af hans hálfu.
Eins og að framan greinir er lagt til grundvallar, að hraði bifreiðarinnar hafi verið 43-54 km/klst. Í ljós er leitt, að bifreiðin kom skökk inn á brúna og lenti hægri afturhjólbarðinn á brúarstólpa og kastaðist hún til og valt út af brúnni. Þegar þetta er virt í ljósi aðstæðna er ljóst, að ákærði hefur ekki haft fullt vald á bifreiðinni, er hann kom að brúnni, og þykir sannað, að hann hafi ekið of hratt og ógætilega miðað við aðstæður svo að varði við 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þar sem mannsbani og líkamstjón hlaust af akstri ákærða hefur hann einnig unnið til refsingar samkvæmt 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fullnustu hennar skal fresta og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Sýslumaðurinn á Akranesi afturkallaði 22. júní 2001 ökuréttindi ákærða, með samþykki hans, það er ökuréttindi C, CE, D og DE, svo og réttindi B til að flytja farþega í atvinnuskyni. Með vísan til þessa og 101. gr. umferðarlaga þykir hæfilegt að ákveða ákærða sviptingu almenns ökuréttar í 6 mánuði frá birtingu dóms þessa.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins svo og áfrýjunarkostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Steingrímur Guðjónsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur rétti til að stjórna vélknúnu ökutæki í 6 mánuði frá birtingu dóms þessa.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Tryggva Bjarnasonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. júlí 2001.
I. Ákæra
Mál þetta sem dómtekið var hinn 26. júní 2001 er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 24. apríl 2001, birtri 3 maí sama ár og þingfestri sama mánaðar fyrir á hendur Steingrími Guðjónssyni, kennitala 100656-2569, Skólabraut 33, Akranesi, “fyrir brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum, með því að hafa sunnudaginn 16. júlí 2000, ekið hópbifreiðinni FM-695, sem er 2,49 metra breið, með 30 farþega innanborðs, of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu, inn á einbreiða brú, sem er 2,60 metrar á breidd, á þjóðvegi 864 yfir ána Hólsselskíl á Hólsfjöllum í Öxarfjarðarhreppi, með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af brúnni og valt ofan í ána. Við þetta köstuðust farþegarnir til inni í bifreiðinni og urðu 11 þeirra fyrir líkamstjóni og einn farþegi, Shiesches Detlef, fæddur 6. ágúst 1934, lést af völdum áverka á brjóstholi og andnauðar sem hann varð fyrir er aðrir farþegar köstuðust ofan á hann. Áverkar annarra farþega voru sem hér greinir:
1) Wolfgang Mueller, fæddur 30. mars 1941, fékk talsvert mar á hrygg og samfallsbrot á neðsta hryggjarlið brjósthryggs.
2) Marianne Pleitner, fædd 20. febrúar 1937, hlaut brot á tveimur rifbeinum og loftbrjóst efst í báðum lungum.
3) Wolfgang Pfannemuller, fæddur 27. janúar 1949, hlaut brot á hægri upphandlegg.
4) Sigelinde Meisegeier, fædd 18. apríl 1930, hlaut brot á vinstri upphandlegg og mölbrot á vinstri úlnlið.
5) Ursula Helmle, fædd 23. janúar 1929, hlaut samfallsbrot á tveimur mjóhryggjarliðbolum.
6) Ingrid Schaller, fædd 28. mars 1930, hlaut brot á þremur rifbeinum.
7) Anne Marie Gruschka, fædd 12. febrúar 1929, fékk margúl á hnakka, verulegan heilahristing, heilamar á litla heila og framan til í stóra heila beggja vegna, mar á hægri hljóðhimnu og tognun á liðböndum í hægra viðbeini.
8) Wolfgang Schiesches, fæddur 25. nóvember 1931, fékk stórt illa tætt sár á hægra ytra eyra svo eyrað var næstum af, litla skurði í andlit og á háls og brot á bátsbeini í vinstri úlnlið.
9) Else Glöckle, fædd 16. mars 1926, hlaut brot á rifbeini og liðhlaup á viðbeini.
10) Brigitta Klieber, fædd 5. maí 1956, hlaut mölbrot á neðsta hluta framhandleggbeina við úlnlið og margar smáskrámur í andlit.
11) Klaus Grassler, fæddur 12. ágúst 1939, fékk nokkur smásár á hvirfil og við vinstra eyra, stórt fleiður yfir hægri augabrún, tvö sár yfir vinstri augabrún og brot á fremsta hluta ölnarbeins í vinstri úlnlið.
Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101 gr. umferðarlaga.” Þannig hljóðar ákæra.
Við aðalmeðferð krafðist sækjandi þess að ákærði yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins; til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ekki er ágreiningur um þær afleiðingar slyssins sem lýst er í ákæru.
II. Rannsókn lögreglu, frumskýrsla
Frumskýrsla lögreglunnar á Húsavík er tímasett 16. júlí 2000 kl. 13:50. Skýrsluna skráði Hreiðar Hreiðarsson varðstjóri. Segir þar að á þeim tíma hafi lögreglunni á Húsavík borist útkall frá neyðarlínunni um að alvarlegt hópslys hefði átt sér stað, þar sem rútubifreið með allt að 50 manns hefði oltið á þjóðvegi 864 á Hólsfjöllum um 7 km norðan við Grímsstaði á fjöllum, svokallaðri austari Dettifossleið, á einbreiðri brú yfir ána Hólsselskíl. Hefði rútan hafnað í ánni.
,,Tilkynningin hljóðaði upp á að flestir væru slasaðir og margir mjög alvarlega og einn einstaklingur væri í hjartastoppi og hefði sá lent undir rútunni en þó náðst undan og væru hafnar lífgunartilraunir.”
Hreiðar varðstjóri fór af stað á lögreglubifreið við annan lögreglumann, ,,eftir að búnaður hafði verið tekinn til um 5 mínútum síðar, og mundi neyðarlínan hefja útkallsaðgerðir vegna slyssins á læknum sjúkraliði björgunarsveitum ofl í sýslunni.” Þá segir að þrír aðrir lögreglumenn hafi farið á vettvang í annarri lögreglubifreið
Á leið á slysstað hafi verið haft samband við 112 og óskað eftir búnaði og mönnum á vettvang, s.s. þyrlu með mönnum og búnaði, flugvél til að lenda á Grímsstaðaflugvelli, sjúkrabílum með áhöfnum frá Akureyri, lögreglumönnum frá Akureyri, björgunarsveitum frá Húsavík, Aðaldal og Mývatni og rútubifreið á staðinn.
,,Unnið var að eins miklum undirbúningi og hægt var á leiðinni að slysstað þar sem ljóst var að allan tíma yrði að nýta til útkalls björgunaraðila og undirbúa sjúkrahús þar sem svo langt var á vettvang eða um 110-120 km frá Húsavík.”
Í frumskýrslu lögreglu er næst fjallað um vettvang. Þar segir:
,,Þegar komið var að vettvangi að sunnan var ljóst að rútubifreið hafði verið ekið í norðurátt eftir þjóðvegi 864 þarna á Hólsfjöllum. Rútan var norðan við ána Hólsselskíl en ljóst að rútan hafði farið útaf brúnni austan verðri eða hægra megin miðað við akstursstefnu. Stærstur hluti brúarhandriðs að austan var horfinn eða mjög illa farinn og ljóst að rútan hafði farið útaf brúnni frekar sunnarlega og farið eftir austari kanti brúarinnar og nánast komist yfir en brotið nyrðri stólpa brúarinnar að austan og oltið austur af veginum og brúnni til austurs. Aftasti hluti rútunnar lá ofan í ánni en framendi uppávið upp á árbakkann. Á þessari stundu var ekkert hugað frekar að tildrögum slyssins.”
Um aðgerðir á slysstað segir því næst í skýrslunni að á móti lögreglumönnunum hafi tekið kl. 14:40 vegfarendur sem komið höfðu að vettvangi, þar á meðal fólk frá Húsavík, hjúkrunarfræðinemi og björgunarsveitarmaður. Fólk þetta hefði strax hafið aðgerðir. Allir farþegar hefðu komist úr rútunni og búið hefði verið að flokka hina slösuðu gróflega eftir alvarleika áverka og verið að hlúa að þeim sem mest væru slasaðir. Þar sem ljóst væri að mjög stutt var í að fleiri lögreglumenn, fyrstu sjúkrabílar og hjúkrunarlið kæmi á vettvang, hefði lögregluvarðstjórinn ákveðið að einbeita sér að ástandi þess sem væri í hjartastoppi. Hefði hann ásamt öðrum, lögreglumanni leyst af við lífgunartilraunir. Viðkomandi farþegi hefði verið úrskurðaður látinn af lækni á vettvangi kl. 14:55, og er vísað til sérstakrar meðfylgjandi skýrslu um hinn látna.
Þá segir að kl. 14:50 hafi farið að drífa að lögreglulið, sjúkrabílar með læknum svo og björgunarsveitafólk. Varðstjórinn Hreiðar hafi tekið við vettvangsstjórnun og haft með höndum heildaryfirsýn og samskipti út á við til aðgerðastjórnar utan svæðis.
Læknarnir, þeir Jón Kristjánsson og Valur Helgi, hafi tekið að sér stjórnun á umönnun slasaðra og forgangsröðun til flutnings.
Mjög gott skipulag hefði komist á alla þætti aðgerða á slysstað. Allur sá búnaður, tæki og mannafli sem óskað hefði verið eftir á vettvang hefði skilað sér til starfa. Þau tæki sem flytja áttu slasaða á brott hefðu öll verið komin á vettvang upp úr kl. 16:00 og þá strax hefði hafist flutningur enda búið að undirbúa þá fyrstu til flutnings. ,,Sjúkrabílar fluttu 4 slasaða um borð í flugvél á Grímsstaðaflugvöll í um 7 km fjarlægð sem fluttir voru á Sjúkrahúsið í Fossvogi í Reykjavík, þyrla Landhelgisgæslunnar flutti 2 slasaða á FSA á Akureyri, sjúkrabílar fluttu 9 slasaða á FSA á Akureyri, hópferðabifreið R-390 flutti 14 lítið/ekkert-slasaða til skoðunar á FSA á Akureyri, ökumaður rútunnar var fluttur í einkabifreið NV-895 á FSA á Akureyri, hinn látni fluttur með sjúkrabifreið í líkhús á Akureyri. Þá var nær allur farangur ferðamannanna fluttur í rútubifreið til Akureyrar.
Kl. 17:20 gaf undirritaður yfirlýsingu um að björgunarstörfum væri formlega lokið, þegar hinn látni var fluttur á brott en um kl 17:10 voru síðustu 3 farþeganna fluttir á brott af vettvangi í sjúkrabifreið.
Samtals farþegar í slysi þessu voru 29 auk fararstjóra og ökumanns, og því heildarfjöldi 31.”
Næsti kafli frumskýrslunnar er um rannsókn á vettvangi. Hann ítarlegur og verður hér tekinn upp í heild:
,,Rútubifreiðinni M-2700 hafði verið ekið að sunnan til norðurs eftir þjóðvegi 864 þarna á vettvangi. Vegurinn var að heildarbreidd um 5.40 metrar. Vegurinn var nýheflaður og ofaníburður vegarins ekkert farinn að troðast eftir þessa heflun. Vegurinn var því mjög laus og duftkenndur, þó sléttur og holulaus. Aðdragandi vegar að slysstað er með þeim hætti að ökumaður rútunnar hefur komið að sunnan og ekið um víða og þægilega aflíðandi vinstri beygju. Þegar beygju þessari er lokið er í hægra vegarkanti umferðarmerki sem varar við hættu og að vegur þrengist. Þá tekur við um 200 metra langur beinn og sléttur vegarkafli inn að brúnni á Hólsselskíl. [Vísað er til mynda sem fylgja frumskýrslu.]
Innkeyrslan á brúna er nokkuð slétt og ekki um það að ræða að hæðarmismunur sé á veginum sjálfum með malarslitlaginu og brúnni sjálfri. Þá er ekki um að ræða að skörp brún sé á brúargólfinu þar sem ofaníburður vegarins mætir steinsteypunni og enginn stallur eða nokkuð slíkt til staðar á þessum mótum vegar og brúar sem valdið gæti höggi eða nokkrum hnykk þegar inná brúna væri ekið, [Vísað til mynda].
Það sem nokkuð óvenjulegt er við staðsetningu brúarinnar er, að miðað við breidd vegarins og stefnu hans virðist brúin vera staðsett nokkuð vestan við miðlínu vegarins, þannig að ökumaður sem kemur að brúnni að sunnan þarf heldur að færa sig vil vesturs eða vinstri á veginum áður en ekið er inn á brúna, en sá sem hugsanlega kæmi að norðan er í nokkuð beinni stefnu á brúna þegar ekið er inn á hana [Vísað til mynda].
Nokkur lausamöl var inni [á] steyptu brúargólfinu og var mest við hvorn brúarendann en miðbik brúarinnar var að mestu laust við lausamöl, [Vísað til mynda].
Engin för var hægt að merkja eftir rútuna á veginum sunnan við brúna í aðdraganda slyssins. Ekki var hægt að sjá nein för utan hefðbundinna dekkjafara á veginum sem gátu gefið til kynna leið rútunnar. Þá var ekki heldur hægt að greina nein önnur för, sem hefðu getað myndast í veginum ef hugsanlega stýrisbúnaður hefði verið úr lagi og ökumaðurinn hefði verið búinn að missa vald á rútunni áður en að brúnni kom, eða ef loft hafði verið farið úr afturdekkjum og felga hefði skemmst á því að ekið hafi verið á loftlausu eftir veginum.
Ljóst er af ummerkjum, að hjólbarði á hægri hlið rútunnar hefur snert hægri brúarstólpa á suðurenda brúarinnar, þegar rútunni var ekið inn á brúna. Við skoðun á hjólbörðum og felgum hægra megin á rútunni má ljóst vera að hægra afturhjól hefur rekist í brúarstólpann af miklu afli og hefur þá framhluti rútunnar verið kominn tæpa 7 metra inn á brúna. Svo virðist sem hægra framhorn rútunnar [hafi] rekist í vegrið brúarinnar hægra megin þarna um 8 metrum frá brúarstólpanum, á svipuðum tíma og hægri afturhjól snertu brúarstólpann. Loft var í öllum hjólbörðum rútunnar eftir slysið nema afturhjólbörðum hægra megin og felga hægra megin var skemmd og gagnkvæmur ákomustaður á felgunni og umræddum brúarstólpa.
Brúarstólpinn sem hægra afturhjóli var ekið utan í var markaður af nýju gúmmíi og var hægt að dusta svartar gúmmíflygsur af stólpanum, [Vísað til myndar].
Telja má víst, að þegar rútunni hafði verið ekið inn á brúna og framendi hennar kominn tæpa 7 metra inná brúargólfið, hafa aðstæður verið þannig að afturhluti rútunnar hefur verið staðsettur lítið eitt meira til hægri og því hægri afturhjólbarði snert brúarstólpann. Þá má einnig geta þess að afturhjólbarðar rútunnar eru um 6-8 sm utar heldur en framhjólbarðarnir, og því elta afturhjólin ekki alveg slóð framdekkjanna. Þar sem brúarstólpinn hallar útaf brúnni til austurs hefur hægri hjólbarðinn að aftan lent örlítið uppá stöpulinn en ekki bara utan í hann og er ljóst að rútan hefur tekist á loft að aftan og afturhluti rútunnar kastast við höggið til vinstri til vesturs inn á brúna. Við þetta hefur rútan skekkst á brúnni og ekki verið í beinni akstursstefnu út af henni að norðan, heldur stefnt til norðausturs á brúnni í stefnu á brúarhandriðið og í sömu mund hafi hægra framhorn rútunnar snert brúarhandriðið þarna um 8 metrum inn á brúnni, mælt frá brúarstöpli. Ökuriti rútunnar gefur til kynna að rútunni hafi verið ekið á um 75 km. hraða á klst. og má ljóst vera að ökumaður fær við ekkert ráðið eftir að rútan rekur hægra framhorn í brúarhandriðið.
Handriðið þarna á brúnni austanverðri er rofið eftir rútuna. Handrið brúarinnar er fest með steyptum stólpa í hvorum enda, en á milli stólpanna er handriðinu haldið af 13 stálbitum steyptum í brúarkantinn. Syðstu 3 stálbitarnir að austan voru enn til staðar eftir slysið en þeir 10 bitar sem halda höfðu átt handriðinu þar fyrir norðan voru annaðhvort með nýjum brotsárum eða beygðir til austurs og ljóst að þar hafði rútan farið eftir austari kanti brúarinnar eftir að atburðarás slyssins hófst.
Af ummerkjum á slysstað og ákomu á rútubifreiðinni er ljóst að hægra framhjól hefur farið út í gegnum brúarhandriðið austanvert þar sem sjá má á framdregara (framhásingu) rútunnar við hægra framhjól að hluti brúarhandriðsins var enn fastur í hjólabúnaði við hægra framhjól. Miðað við styrkleika handriðsins má ljóst vera að fjöðrunarbúnaður hægra megin að framan hefur brotnað við þau átök og jafnframt hefur rútan þá verið orðin flækt með hægri framhjólabúnað í handriðið þannig að bifreiðin hefur orðið algjörlega stjórnlaus á þeim 75 km hraða sem um var að ræða, og því runnið eftir austurkanti brúarinnar til norðurs 13-14 metra og slitið niður allt rekkverkið en þá fyrir rest komið að endastólpa brúarinnar að norðan og brotið hann af í heilu lagi.
Augljósir gagnkvæmir ákomustaðir voru á nyrðri brúarstólpanum þar sem var blár litur og trefjaflísar úr framstuðara rútunnar bílstjóramegin mátti sjá, og á sama hátt var augljóst hvar stólpinn hafði gengið í gegnum framstuðarann og skilið eftir skarð í hann og grófar rispur á rauðmálaðri stýristogstönginni (sjá mynd X). Má af því draga þá ályktun að rútan hafi verið nokkuð skásett til norðausturs meðan hún fór stjórnlaust eftir brúarhandriðinu og fyrir rest eins og fram kom að ofan lent með vinstra framhorn (bílstjóramegin) á nyrðri brúarstólpanum, þannig að ákomustaður er einnig eftir brúarstólpann á framdregaranum innan við vinstra framhjól og þá hafi fjöðrunarbúnaður bílstjóramegin slitnað nánast undan rútunni þannig að aðeins hékk eftir á stýristogstönginni og einni bremsuslöngu, (sjá mynd X).
Við það að lenda á þessum nyrðri brúarstólpa hefur rútan nánast verið komin norður yfir brúna en þá oltið til austurs útaf brúnni og hafnaði rútan á nyrðri árbakkanum austan við brúna þó með þeim hætti að aftasti hluti rútunnar vísaði niður á við ofan í ána, og fór um 50 sm undir vatnsborð aftast. Rútan hafði oltið út á hægri hlið og lá í þeim skorðum á vettvangi.
Þannig háttaði til þegar rútan hafði staðnæmst utan vegar að aftasti partur hægri hliðar rútunnar hafnaði í ánni og var um að ræða að vatn lék um þrjár öftustu sætaraðirnar hægra megin í rútunni, en sætaraðir voru tólf að meðtöldu bílstjóra og leiðsögumannssæti. Þá fór aftasta hliðarrúða rútunnar, hægra megin, úr karmi sínum svo og afturrúðan. Þess má geta að fjórar stórar rúður eru á hvorri hlið rútunnar. Afturpartur rútunnar vísaði nokkuð niður á við ofan í ána en framhlutinn uppá við upp á árbakkann. Vatnsdýpt inni í rútunni aftast þar sem dýpst var, var um 50 sm og færði aftasta sætið hægra megin alveg í kaf, þar sem hinn látni hafði setið.
Þá er það ljóst að í slysi þessu eftir að atburðarás hefst við þann brúarstólpa við suðurenda brúarinnar þar sem afturhjól snerti fyrst, að rútan hefur aldrei lent það vestarlega á brúnni eða til vinstri mv. aksturstefnu að rútubifreiðin hafi lent utan í vestara brúarhandriðinu, og þó hugsanlega rútan hafi sveiflast mikið til á leið sinni yfir brúna eins og fram kemur hjá sjónarvottum er þó ekki um að ræða að rútan hafi kastast af vestara brúarhandriðinu yfir á það austara og það hafi verið orsök þess að hún lenti útaf brúnni austanverðri. Þessu til sönnunar er, að engar skemmdir eða för var að finna á vestara brúarhandriðinu og ekki heldur á vinstri hlið rútunnar.
Heildarlengd brúarinnar er 21 metrar, heildarbreidd brúargólfs 3.3 metrar og ökubreidd brúar 2,6 metrar, hæð handriða 0,68 metrar og hæð frá brúargólfi að vatnsborði árinnar 3,7 metrar.”
Í síðasta kafla frumskýrslu lögreglu er fjallað um bifreiðina M-2700, og verður sá kafli felldur inn í næsta kafla dómsins.
III. Bifreiðin
Í þessum kafla verður frá því greint sem um bifreiðina segir í frumskýrslu lögreglu, tekin upp skýrsla skoðunarmanna Frumherja hf. um skoðun á rútunni á slysstað og gerð grein fyrir greinargerð, þ.e. matsgerð, tveggja dómkvaddra matsmanna, sem skoðuðu rútuna í Reykjavík um 1 ½ mánuði eftir slysið.
Í frumskýrslu lögreglu eru skráð helstu mál rútubifreiðarinnar: lengd 9,63 metrar, breidd 2,49 metrar, mæld lengd frá framenda í naf á afturhjóli 6,70 metrar.
Þá segir þar: ,,Við skoðun á rútubifreiðinni bæði þar sem hún lá utan vegar á hægri hlið og eftir rútan hafði verið reist við kom í ljós að yfirbygging rútunnar var mjög lítið skemmd, þ.e. hafði ekkert aflagast eða fallið saman. Afturrúða rútunnar hafði farið úr í heilu lagi og lá óbrotin á árbotninum, aftasta hliðarrúða hægri hliðar var brotin og fengust upplýsingar um að farþegar og vegfarendur hefðu rofið gat á hægri framrúðu rútubifreiðarinnar eftir slysið. Ljóst var að farþegar höfðu farið eða verið hjálpað út um lúgu á þaki rútunnar sem vísaði til austurs þar sem rútan lá á hliðinni.
Ástand hjólbarða hvað varðaði mynstur og mynsturdýpt virtist eðlilegt.
Fjöðrunarbúnaður rútunnar að framan var mölbrotinn og nánast slitinn frá rútubifreiðinni og þá jafnframt framdregari (framhásing) ásamt framhjólum. Búnaður þessi hékk einungis við bifreiðina á stýristogstöng og einni bremsuslöngu. Fjöðrunarbúnaður að aftan virtist óskemmdur svo og drifbúnaður.
Við skoðun á stýrisbúnaði var ljóst að stýrissnekkja og stýrisstöng svöruðu hreyfingu á stýrishjóli þannig að sannað er að stýrisbúnaður var ekki úr sambandi eða aftengdur.
Hægri afturhjól voru loftlaus á vettvangi en loft var í öllum öðrum hjólbörðum bifreiðarinnar. Felga á hægra ytra afturhjóli var beygluð eftir ákomu en engar skemmdir voru á öðrum felgum, bifreiðarinnar.
Ökuritaskífa var fjarlægð úr rútubifreiðinni á vettvangi og jafnframt fékk lögregla í vörslu sína allar aðrar skífur sem geymdar höfðu verið í rútunni.
Við skoðun í bifreiðaskrá hafði bifreiðin M-2700 komið til skoðunar þann 08.02.2000. Var um að ræða aðalskoðun fyrra árs. Bifreiðin fékk eina athugasemd (hemlun stöðuhemils).
. . .
Rútan var flutt á brott frá vettvangi til Reykjavíkur af fyrirtækinu Sniðli í Mývatnssveit.”
Frammi liggur í málin skýrsla tveggja starfsmanna Frumherja hf., Þorsteins Friðrikssonar og Rafns Vatnsdal, um skoðun á rútunni FM-695 (sem er fastanúmer rútunar M-2700) á slysstað. Segir í upphafi hennar að rútan hafi verið skoðuð 16. júlí 2000 kl. 22:00 að beiðni lögreglunnar á Húsavík. Meginefni skýrslunnar er handskrifað, á þessa leið:
,,Áhersla lögð á stýris og hjólabúnað. Við skoðun kom í ljós að stýrisvél og stýrisstangir voru í lagi og í sambandi, öll fjaðrahengsli að framan voru brotin, fjaðrahengsli framan hm, fremra, hafði klippst frá grind og var brúnt í sárið eins og um gamla sprungu væri að ræða, en það hafði farið ofan í vatn og gæti hafa fallið á það eftir að það var tekið upp úr vatninu. Önnur fjaðarhengsli að framan voru brotin í tvennt, ný brot. Augablað vm. framan var brotið, hemlaslanga hm. framan slitin. Hjólbarðar framan góðir, lítið slitnir og hm. aftan einnig en loftlausir, hjólbarðar vm aftan voru nokkuð slitnir mynsturdýpt ca 2-3 mm, var ekki mælt.”
Hinn 14. ágúst 2000 voru í Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni sýslumannsins á Húsavík til kvaddir tveir matsmenn til að meta ástand bifreiðarinnar M-2700 og búnað hennar eftir slysið og ástand fyrir slysið eins og mögulegt er, eins og segir í matsbeiðni. Þar segir einnig: ,,Sérstök áhersla er lögð á skoðun hjóla-, hemla-, fjöðrunar- og stýrisbúnaðar og í því sambandi verði eftirgreind atriði könnuð:
a) Sprungið var á báðum aftari hjólbörðum hægra megin. Er unnt að sjá á hvorum sprakk fyrst og þá hvort annar eða báðir hjólbarðarnir sprungu fyrir slysið?
b) Hvort augablað eða krókblað í fjöðrunarbúnaði að framan hafi verið brotið fyrir slysið.”
Til matsins voru kvaddir Lárus Sveinsson, meistari í bifvélavirkjun, og Bergur Helgason vélaverkfræðingur.
Skoðun matsmanna hófst 1. september 2000, en matsgerð er dagsett 20. sama mán.
Í matsgerð er lýsing á bifreiðinni fyrir skoðun. Þar segir að bifreiðin hafi verið skoðuð á útisvæði E.T. ehf. að Klettagörðum 11 Reykjavík. Hún hafi staðið á tréklossum að framan en í hjólin að aftan. Framás hennar hafi verið í heilu lagi við hlið hennar. Á honum hafi verið hjólbarðar, fjaðrir, millibilsstöng, togstöng, bremsukútar og vinstri dempari. ,,Hægri fjöður var heil og ekkert í hvorugu auga hennar. Af vinstri fjöður var fremra auga brotið og var það fast í bíl. Í aftara auga var fjaðrahengsli en efra auga fjaðrahengslisins var brotið í sundur. ”Síðar segir að bæði hjól hægra megin að aftan hafi verið vindlaus. Nokkrar skemmdir hafi verið á yfirbyggingu. ,,Inni í bifreiðinni voru eftirtaldir hlutir í plastpoka sem hafði verið safnað saman á slysstað: a) Fremri fjaðraklossi fyrir hægri fjöður (mynd 1) b)Brot (neðri hluti) af fjaðrahengsli fyrir hægri fjöður. (mynd 2)”
Síðan segir í matsgerð: ,,Skoðunin fór fram á þann hátt að þeir þættir sem beðið var um að yrðu sérstaklega kannaðir voru skoðaðir hver og einn fyrir sig. Teknir voru þeir hlutir út bifreiðinni sem ástæða þótti til. Brotnir og skemmdir hlutir voru hreinsaðir, myndaðir og bornir saman við mótstæða hluti til að raða upp heilstæðri mynd þannig að hægt væri að greina frá ástandi viðkomandi hluta og meta hugsanlegt ástand fyrir slysið.”
Í þeim kafla matsgerðar þar sem fjallað er um fjöðrunarbúnað, segir:
,,Við skoðun á fjaðrabúnaði kemur eftirfarandi í ljós:
a) Fjaðraklossi hægra megin að framan var brotinn frá bifreiðinni (mynd 1) Klossinn er festur með 4 hnoðum. Klossinn er brotinn og hnoð jafnframt slitin. Við skoðun á klossa og grind þar sem hann hafði setið sáust engin ummerki að los hafi verið komið á klossa heldur að hann hafi brotnað við mikið og snöggt högg.
b) Gagnstæð brot af fjaðrahengsli hægra megin að aftan voru í bifreið og í poka í bifreið (fannst á vettvangi) (myndir 2,3). Fjaðrahengslið er brotið í tvennt. Nokkuð ryð var farið að falla á brotin en engin ummerki um gamalt brot eða nudd sást á brotsárum heldur virðist sem hengslið hafi brotnað við mikið og snöggt högg.
c) Fremra auga í vinstri fjöður var brotið af fjöður og sat í fjaðraklossa í bíl (myndir 4,5). Brot í fjöður er á móti (mynd 6). Við skoðun á broti sjást engin ummerki um sprungu eða þreytu heldur að fjaðraaugað hafi brotnað við mikið og snöggt högg.
d) Fjaðrahengsli vinstra megin að aftan er brotið við eftri [svo] festingu. Engin ummerki eru um gamalt brot eða nudd á brotsárum heldur virðist sem hengslið hafi brotnað við mikið og snöggt högg.
Í heild sinni virðist því sem framhjólabúnaðurinn hafi orðið fyrir það miklu höggi að bæði fjaðrahengsli brotna, fjaðraklossi hægra megin brotnar frá grind bifreiðar og fjaðrauga [svo] brotnar af vinstri fjöður. Við skoðun sáust engin ummerki sem bentu til þess að los hafi verið á fjöðrum eða hjólabúnaði eða brot í augablaði áður en þetta högg á sér stað. Ekki verður séð að það hafi haft nein áhrif að krókblað vinstri fjöður náði ekki uppfyrir auga því það nær alveg fram fyrir augað á fjöðrinni.”
Í kafla um hjólabúnað segir að mynsturdýpt í vinstra, ytra afturhjóli hafi verið 3 mm, en í vinstra, innra hjóli 4 mm; í hægra afturhjóli, innra, 8 mm. Í öðrum hjólum var mynsturdýptin 6 mm. ,, Við skoðun á hjólabúnað kemur eftirfarandi í ljós: a) Beygla er á ytri brún á ytri felgu (mynd 9) b) Rifa er á innri hlið innri hjólbarða (mynd 10).” Er hér eflaust átt við hægri afturhjól. ,,Við skoðun á felgum og hjólbörðum sjást engar aðrar ástæður til að loft hafi farið úr hjólbörðum en skemmdin á felgunni (ytra hjól) og rifan á hjólbarðanum (innra hjól). Við skoðun innan í báða hjólbarða og á hliðum þeirra sjást engin ummerki um að þeim hafi verið ekið einhverja vegalengd án lofts (myndir 11,12). [. . .] Virðast þeir því báðir hafa orðið loftlausir við slysið.”
Um stýrisbúnað er niðurstaða matsmanna: ,,Ekkert bendir til að virkni stýris hafi verið ábótavant.”
Og niðurstaða um hemlabúnað er þessi: ,,Ekkert fannst því sem benti til að virkni hemla hefði verið ábótavant.”
Fjórði og síðasti kafli matsgerðar er Samantekt. Þar segir að matsmenn hafi skoða hópbifreiðina M-2700 ítarlega og ýmsa ,,íhluti” hennar. ,,Við skoðunin fundust ýmsar skemmdir á bifreiðinni, aðallega á fjaðra- og hjólabúnaði hennar. Engin ummerki fundust sem bentu til þess að ástandi bifreiðarinnar hafi verið ábótavant varðandi þau atriði fyrir slysið. Miðað við þessa skoðun á bifreiðinni og þeirra hluta [svo] hennar sem eru brotnir eða skemmdir á annan hátt virðist sem þær skemmdir sem á henni finnast hafi átt sér stað við snöggt og mikið högg sem fátt myndi þola.”
IV. Ökuréttindi ákærða, sjónskerðing hans
Frammi liggur í málinu upplýsingaskýrsla Sigurðar Brynjólfssonar yfirlögregluþjóns á Húsavík, dags. 20. júlí 2000. Segir þar fyrst að vegna orðróms um að ökumaður M-2700, ákærði, hafi verulega skerta sjón á öðru auga hafi verið ákveðið að kanna það nánar með tilliti til þess að það gæti hugsanlega verið þáttur í orsök slyssins.
Því næst segir í upplýsingaskýrslu þessari að ákærði hafi framvísað gildu ökuskírteini með réttindum til aksturs hópferðabifreiða, útgefnu hjá lögreglustjóranum á Akranesi 11. apríl 2000. Þessu næst segir:
,,Í símaviðtali sem undirritaður átti við Steingrím í dag (20.07.2000) staðfesti hann verulega sjónskerðingu á hægra auga og kvaðst hafa haft þessa sjónskerðingu frá 10 ára aldri. Hann kvaðst hafa haft ökuleyfi frá 17 ára aldri og aldrei fundið til þess að sjónskerðingin háði honum við akstur bifreiðar.”
Í II. viðauka reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini er fjallað um lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi til að stjórna vélknúnu ökutæki. Þar segir um ökumenn í flokki C, CE, D og DE, svo og ökumenn í flokki B sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni: Sá sem sækir um útgáfu eða endurnýjun ökuskírteinis skal hafa sjónskerpu, eftir atvikum með sjónglerjum, sem nemur a.m.k. 0,8 á öðru auga og a.m.k. 0,5 á hinu. Ef sjóngler eru notuð til að ná þessari sjónskerpu skal óleiðrétt sjónskerpa á hvoru auga vera a.m.k. 0,05, að öðrum kosti verður lágmarkssjónskerpan (0,8 og 0,5) að nást annað hvort með því að leiðrétta með gleraugum sem eru ekki sterkari en plús og mínus átta ljósbrotseiningar eða með snertilinsum (óleiðrétt sjón=0,05). Sjónglerin mega ekki valda óþægindum. Hvorki má gefa út né endurnýja ökuskírteini ef umsækjandinn eða ökumaðurinn hefur ekki eðlilegt sjónsvið með báðum augum saman eða ef viðkomandi er haldinn tvísýni.”
Frammi liggur læknisvottorð Guðrúnar Guðm[undsdóttur] læknir ,,vegna veitingar eða endurnýjunar ökuleyfis, dags. 2. febrúar 2000. Þar segir að sjón ákærða án gleraugna sé á hægra auga =,05 og á vinstra auga 1,2. Sjónsvið sé eðlilegt með gleraugum.
Önnur upplýsingaskýrsla um símtal Hreiðars Hreiðarssonar varðstjóra við ákærða um þennan þátt málsins liggur frammi, dags. 26. febrúar 2001. Þar segir m.a.:
,,Steingrímur kvaðst hafa verið búinn að afla sér allra gagna og vottorða vegna sjónskerðingar sinnar og kvaðst hafa í upphafi ökuréttindanámsins verið búinn að kanna það hjá þeim sem ökuprófunum stýrðu að ekkert væri þannig að sjón sinni sem kæmi í veg fyrir að Steingrímur hlyti aukin ökuréttindi. Kvaðst því Steingrímur hafa verið í góðri trú og lokið námskeiði sínu, enda aldrei farið í prófið eða hafið námið ef hann hefði vitað að hann gæti ekki fengið útgefið ökuskírteini vegna meiraprófs.
Steingrímur kvaðst hafa fengið afhent gögn til útfyllingar (Umsókn um ökuskírteini) en þau hafi verið fyllt út á þeim stað þar sem ökunámið fór fram en ekki á sýsluskrifstofunni á Akranesi. Þá hafi gögnunum verið skilað inn til sýslumannsins á Akranesi að ökuprófum loknum og hafi gögnin verið útfyllt á réttan og samviskusamlegan hátt og ekkert hafi þar verið falið eða um einhverjar blekkingar að ræða, svo og hafi gögnum þessum fylgt öll þau vottorð um heilbrigði, sjón ofl. þ.e. alls sem krafist var og hafi þar allt komið fram um heilbrigði mætta svo og sjóngalla.”
Frammi liggur ljósrit af umsókn ákærða um aukin ökuréttindi, dags. 21. febrúar 2000. Hann sækir þar m.a. um réttindi til að stjórna fólksbifreið og hópbifreið í atvinnuskyni. Ýmsar spurningar eru þar lagðar fyrir umsækjanda um heilbrigði, þ. á m. þessi: ,,Hefur þú skert sjónsvið til annarrar hliðar eða beggja?” Ákærði svaraði spurningunni með jái.
Að ósk ríkissaksóknara rannsakaði Gunnar Ás Vilhjálmsson augnlæknir sjón ákærða. Liggur fyrir greinargerð hans um þá rannsókn, dags. 10. apríl 2001. Þar segir í inngangi m.a.: ,, Í dag tjáir sjúklingur mér að sjón á hægra auga sé fyrir sig svo til gagnslaus. Þetta álit sjúklings kemur nokkuð vel heim og saman við niðurstöður skoðunar minnar . . .” Í greinargerðinni kemur fram að sjón ákærða án gleraugna reyndist vera ,,hægra megin = 0,05” og ,,vinstra meginn = 1,5”. ,,Dýptarskynspróf sýnir eins og búast má við mjög skert dýptarskyn . . .” Greinargerðinni lýkur þannig:
,,Niðurstaðan sýnir útbreidda skerðingu á sjónsviði hægra auga og má segja að sjúklingur hafi mjög lítið sjónsvið til beggja hliða og upp og niður á hægra auga [. . .] Er enn með sæmilega eðlilega sjónsviðs ,,eyju” miðlægt í hægra sjónsviði. Vinstra sjónsvið reynist eðlilegt. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við útlit sjóntaugarinnar sem bendir til glákuskaða á háu stigi.
Eftir að hafa skoðað og lesið vettvangslýsingu á umræddu umferðarslysi þann 16. júlí 2000 má færa mjög sterk rök fyrir því að hin alvarlega sjónskerðing og ekki síður hið mikið skerta sjónsvið á hægra auga hafi átt stóran þátt í áðurnefndu slysi. Þegar sjúklingurinn ekur yfir brúna á tiltölulega miklum hraða miðað við aðstæður þarf hann nær samtímis að huga að því sem gerist beint fyrir framan sig en einnig að því sem er að gerast í hliðarspeglum ökutækisins. Þegar um slíkt er að ræða má telja víst að hin mikla sjón- og sjónsviðsskerðing stuðli að því að hann hafi átt erfitt með að meta fjarlægðir og það sem var að gerast til hægri og í hægri hliðarspegli.
Þegar að einstaklingar missa sjón á öðru auga snemma í æsku eins og gerðist hjá ofangreindum sjúkling er aðlögunarhæfileiki taugakerfisins það mikill að sjúklingurinn upplifir sig ekki sem sjónskertan og þá um leið telja [svo] sig vera jafnhæfan til allra verka svo sem að stjórna stórum ökutækjum eins og sá sem er með fulla og eðlilega sjón á báðum augum. Þetta þýðir að ef Steingrímur hefur verið í góðri trú með að vera með löglega sjón til þess að keyra áætlunarbifreið er ekki eðlilegt að gera meiri kröfur til hans en annarra hvað varðar aðgæslu og varkárni. Hafi honum aftur á móti verið ljóst að hans sjón væri ekki nægilega góð til þess að fá hið svokallaða meirapróf er eðlilegt að gera þá kröfu til hans að hann sýndi enn meiri aðgæslu og varkárni sérstaklega við óvenjulegar og hættulegar aðstæður eins og umræddur slysastaður var.”
Frammi liggur afrit af bréflegri ákvörðun sýslumannsins á Akranesi, dags. 22. júní 2001, um að afturkalla aukin ökuréttindi ákærða, ,,þ.e. ökuréttindi C, CE, D og DE svo og réttindi B til að flytja farþega í atvinnuskyni.” Ákærði samþykkti þessa ákvörðun með áritun á skjalið. Rökstuðningur sýslumanns fyrir þessari ákvörðun var að ákærði uppfyllti ekki ,,sjónskilyrði sem skilgreind eru fyrir ökumenn í hópi 2” í II. viðauka við reglugerð nr. 501/1997.
V. Hraði bifreiðarinnar M-2700. Upplýsingaskýrsla Vegagerðarinnar
Að beiðni lögreglu rannsökuðu tveir starfsmenn þjónustudeildar Vegargerðarinnar, Sævar Ingi Jónsson og Sigurður Hauksson, skráningarblöð (skífur) úr ökurita rútunnar M-2700. Upplýsingaskýrsla sem Sævar Ingi undirritar, er ódagsett. Þar segir:
,,Innsend skráningarblöð hafa nú verið yfirfarin. Ekki komu fram nein brot ökumanns á þeim reglum sem í gildi eru varðandi aksturs- og hvíldartíma ökumanna. á skráningarblöðum kemur fram að bifreiðinni hafi í nokkrum tilfellum verið ekið á um og yfir 100 km. hraða.
Á skráningarblaði dagsettu 16.07.00 kemur fram að akstur bifreiðarinnar hófst kl. 08:31. Um kl. 13:17 til 13:18 sést að hraði bifreiðarinnar er um 75 km/klst. Næstu 50 til 60 sek. verður hraðaminnkun úr 75 km í um 49 km en þá stöðvast ökutækið skyndilega. Akstursskráningu lýkur um 13:19. Bifreiðinni hafði þá verið ekið um 210 km frá upphafi akstursdags. Skráningarblaðið hefur síðan verið tekið úr ökurita um klukkan 18:13 sama dag.”
Rétt er að taka hér fram að ákærði telur sig hafa verið á minni hraða en 49 km/klst. þegar hann ók inn á brúna. Sjá skýrslu hans fyrir dómi. Sjá einnig skýrslu Sigurðar Haukssonar.
VI. Afstaða ákærða til ákæru, skýrslur
Við þingfestingu málsins, 15. maí 2001, neitaði ákærði sakargiftum.
Ákærði gaf fyrst skýrslu fyrir lögreglunni á Akureyri 17. júlí 2000. Hann var þá yfirheyrður sem vitni. Þykir ekki ástæða til að rekja þá skýrslu sérstaklega, en síðar verður til hennar vitnað.
Hinn 31. júlí 2000 tók Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi á Akranesi skýrslu af ákærða, og naut hann nú réttarstöðu sakbornings. Þar kemur m.a. þetta fram:
Ákærði sagði að vegurinn sunnan að brúnni yfir Hólsselskíl hefði verið tiltölulega sléttur og vegmerkingar hefðu verið eins og vænta mátti við brúna, þ.e. merki um einbreiða brú. Vegurinn hefði verið þurr og mjög rykugur.
Spurður um hraða sagðist ákærði ekki hafa horft á hraðamælinn, en hann hefði hægt á ferð er hann kom að brúnni og gírað bílinn niður. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hraðann, en sagði rangt það sem fram kemur í lögregluskýrslu (frumskýrslu lögreglu) að hann hefði verið á 75 km/klst. hraða, en tók fram að sá hraði hefði getað verið á bifreiðinn áður en hann kom að brúnni. Einnig sagði hann að bíllinn væri 6 gíra og að hann hafði verið í þriðja gír er hann ók inn á brúna. Hann kvaðst hafa notað fótbremsu og gírað bílinn niður.
Ákærði var spurður hvort hann hefði orðið var við eitthvað óeðlilegt er hann ók inn á brúna, eitthvað er benti til bilunar í bifreiðinni. Hann kvaðst hafa ,,upplifað” þetta þannig að hann hefði fundið högg sem leiddi upp í stýrið þegar hann ók inn á brúna, og eftir það hafi bíllinn orðið stjórnlaus. Hann kvaðst hafa reynt að stöðva bílinn, sem hafi þá skrönglast eftir handariðinu og síðan lagst á hægri hliðina. Hann taldi sig hafa fundið fyrir högginu áður en afturhjólin kom inn á brúna. Hann var spurður hvort hann hefði fundið fyrir höggi á afturhásinguna er hann ók inn á brúna. Svar: ,,Ég geri mér ekki grein fyrir því. Ég get ekki greint á milli högga eftir að bifreiðin fór að skrönglast utan í handriðið.”
Ákærði var spurður hvort hann hefði áður orðið var við að hemlar tækju skakkt í. Hann vísaði þá til svars síns við sömu spurningu í skýrslu, sem hann gaf fyrir lögreglu á Akureyri 17. júlí 2000. Í því svari segir m.a. ,,að hann hafi orðið var við stundum, ekki alltaf, að honum fannst að bifreiðin leitaði aðeins til hægri þegar hemlað væri.”
Ákærði sagði aðspurður að hann hefði ekki ekið þessa leið (864) áður sem atvinnubílstjóri, en fyrir löngu á einkabíl.
Í lögregluskýrslunni tjáir ákærði sig síðan um slys á fólkinu og hvað hann aðhafðist til að koma því til hjálpar. Síðan segir:
,, Steingrímur er spurður um hvort hann hafi einhverju við að bæta. Hann segir svo ekki vera, en skýrir frá því að hann hafi reynt að síma [svo, á eflaust að vera sýna] ábyrgð í starfi sínu og nefnir dæmi um að hann hafi leitað eftir aðstoð og ráðleggingum, þegar honum hafi fundist eitthvað vera að. M.a. hafi hann tvisvar sinnum í þessari ferð hringt í eiganda bifreiðarinnar og borið undir hann hluti s.s. hvað varðaði hjólbarða og hemla. Þeir hafi reyndar talað saman nánast daglega.”
Ákærði var í upphafi skýrslu sinnar fyrir dómi beðinn að gera grein fyrri reynslu sinni af akstri hópferðarbifreiða og þó sérstaklega bifreiðarinnar M-2700. Hann kvaðst ekki hafa haft langa reynslu af þessari bifreið. Hann hefði tekið [rútu]prófið í apríl 2000. Í framhaldi af því hefði hann ekið þessari bifreið sem starfsmannarútu bæði í ,,Járnblendið og Norðurál á Grundartanga”. Hann hefði líka farið á henni norður í Skagafjörð í þriggja daga túr með skólabörn og ekið henni sætaferð á dansleik upp í Borgarfjörð. Ferðin sem hann hefði verið í þegar slysið varð, hefði hafist 10. júlí. Hann sagðist hafa verið með ,,gamla minna prófið” og hafa unnið við að aka minni vörubílum. Hann hefði ekki haft neina reynslu af akstri stærri vörubifreiða.
Hann kvaðst aldrei áður hafa ekið stórri bifreið yfir brúna á Hólsselskíl. Sem farþegi í bifreið hefði hann farið yfir hana áður, einu sinni, líklega árið 1976, en brúin hefði verið gjörsamlega fyrnd í minningu hans.
Ákærði var beðinn að lýsa sjónskerðingu sinni, og hvernig hann ,,upplifði” hana við akstur. Hann kvaðst sem 10 ára gamalt barn hafa orðið fyrir slysi, fengið ör úr boga í hægra auga, sem hefði valdið því að hann hefði misst sjón svo til alfarið fram að þrítugs aldri. Þá hefði hann farið í aðgerð, sem hefði staðið í þrjú ár; tekinn hefði verið úr augasteinn og annar græddur í, úr plasti. Þeirri sjón sem hann þá hefði fengið hefði farið mjög snöggt aftur, og nú greindi hann með hægra auga birtu og sæi móta fyrir hlutum, en sjónin nýttist í raun ekki. Þess bæri þó að geta, að hann héldi að hann fyndi meira fyrir því sem ökumaður ef hann hefði misst vinstra auga, einkum þegar hann væri að mæta bílum. Honum hefði ekki fundist þessi sjónskerðing á hægra auganu há sér í akstri.
Sækjandi vitnaði til umsóknar ákærða um aukin ökuréttindi, þar sem ákærði hafði merkt já við spurninguna: Hefur þú skert sjónsvið til annarrar hliðar eða beggja? Ákærði var spurður hvað í þessu hefði falist af hans hálfu. Hann kvaðst hafa verið að vísa til skerts sjónsviðs á hægra auga sínu. Vinstra augað væri í góðu lagi.
Ákærði var þá spurður um reynslu sína af sjónskerðingunni, hvernig hann ,,upplifði” hana. Hann kvaðst vissulega vita að hann væri með skerta sjón, væri allt að því eineygður, en ,,dagsdaglega upplifi ég mig ekki sem fatlaðan mann. Ég geng í öll störf og tel mig að öllu leyti geta gert alla hluti, nema helst að þræða nálar.”
Í fram lagðri greinargerð Gunnars Áss Vilhjálmssonar augnlæknis, dags. 10. apríl 2001, sem síðar verður gerð grein fyrir, segir á einum stað: ,,Í dag tjáir sjúklingur [þ.e. ákærði] mér að sjón á hægra auga sé fyrir sig svo til gagnslaus.” Þessi ummæli staðfesti ákærði.
Ákærði var spurður hvenær honum hefði orðið ljóst að vegna sjónskerðingarinnar uppfyllti hann ekki skilyrði til að fá aukin ökuréttindi (meirapróf). Hann sagði að sér hefði verið gerð grein fyrir því eftir slysið. Það hefði sér þótt merkilegt, því að þegar hann hefði byrjað á námskeiði til aukinna ökuréttinda, hefði hann gert grein fyrir þessu og spurt sérstaklega námskeiðhaldarana, hvort þarna væri meinbugur á. Þeir hefðu neitað því.
Ákærði var beðinn að lýsa atvikum frá því að hann var að koma að brúnni yfir Hólsselskíl. Hann sagði að hann gæti ekki rifjað upp slysið ,,skref fyrir skref”, og hefði ekki getað þegar hann gaf skýrslu fyrir lögreglu. Hann kvaðst hafa beygt af þjóðvegi 1 inn á þennan veg [864], sem hefði verið nokkuð rykugur og grýttur, en nokkuð sléttur og þokkalegur. Veður hefði verið gott, sólarlaust, skýjað. Hann kvaðst haf séð brúna fram undan áður en hann hefði séð skiltið um einbreiða brú. Hann hefði hemlað og gírað bílinn niður, ,,ég hef væntanlega verið kominn niður í þriðja gír”, en þeir væru 6, og á þessum bíl væri tekið af stað í öðrum gír. Nánar spurður um þetta sagði ákærði að þegar bíllinn væri gíraður upp, færi hann upp í 30 km/klst. og þar yfir á þriðja gír. Hann kvaðst hafa reynt að vanda sig að fara inn á brúna. Hann gæti ekki svarað því á hvaða hraða hann hefði verið, því að hann hefði ekki verið með augun á hraðamælinum, heldur hefði hann verið að horfa á hvað hann hefði verið að gera. En hann kvaðst telja að hann hefði verið á hóflegum hraða miðað við aðstæður. Hann kvaðst hafa fundið fyrir höggi sem komið hefði undir bílinn. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á hvorum megin höggið hefði komi. Aðspurður sagði hann að hann hefði við höggið fundið kipp upp í stýrið. Sér hefði fundist að framhjólin kæmu rétt inn á brúna. ,,Að mínu mati kemur það strax þarna undir að framan, og eftir það gerist þetta ákaflega hratt, að ég er að reyna að hafa stjórn á bílnum, sem ég hef ekki, því stýrið er hrokkið úr sambandi. Ég upplifi það þannig að það svarar ekki, það snýst en það gerist ekkert.” Þannig hefði það orðið strax og kom inn á brúna. ,,Síðan skríður bíllinn yfir þar til hann fer að velta. Nú hann kastast svo þarna yfir og fellur yfir, og ég hangi í stýrinu.” Eftir þetta sagði ákærði að það fyrsta sem hann hefði gert hefði verið að rjúfa rafmagnið á þar til gerðum skilrofa, og síðan hefði hann farið að reyna að koma fólki út.
Sækjandi bar undir ákærða upplýsingaskýrslu Þjónustudeildar Vegargerðarinnar, sbr. hér að framan, um það sem þar kemur fram um hraða bifreiðarinnar skv. skráningarblaði ökurita, og að samkvæmt þessari skýrslu mætti ætla að bifreiðin hefði verið á 49 km/klst. hraða þegar hún fór inn á brúna. Ákærði var spurður hvort hann teldi þetta rétt ályktun. Hann kvað nei við. Ökuritinn væri ekki 100% mælitæki á hraða; tækið væri nokkuð gróft. Hann kvaðst telja sig hafa verið á minni hraða. Hann taldi að mjög erfitt væri að átta sig á hraðaminnkun á ökuritanum á mjög stuttum ferli.
Ákærði var spurður hvort honum hefði fundist bifreiðin leita til hægri, þegar hann hemlaði. Hann neitaði því.
Ákærði var þá spurður hvort hann hefði gert sér grein fyrir, þegar hann kom að brúnni, að hún væri einkar mjó. Hann sagði að hún væri mjög blekkjandi. Handriðum hallaði út að ofanverðu. Brúin væri eins og trekt. Hún liti út fyrir að vera breiðari en hún væri. Eftir á að hyggja þá þyrfti hreinlega að stöðva rútu þegar komið væri að henni.
Ákærði sagði aðspurður að honum skildist að hann hefði ekið yfir 76 einbreiðar brýr í ferðinni, áður en hann kom að brúnni yfir Hólsselskíl. Hún hefði víst kallað á aðgæslu, en honum hefði ekki fundist að neitt kallaði á aukna aðgæslu við þessa brú miðað við margar aðrar. Engin umferð hefði verið á móti.
Ákærði var spurður um rútuna M-2700. Hann sagði að þetta væri 27 ára gömul rúta á vörubílsgrind, dæmigerð háfjallarúta. Ekkert frábrugðin mörgum öðrum.
Ákærði sagði aðspurður að hann hefði skoðað rútuna eftir að um hægðist og búið var að flytja fólk af slysstað. Þarna hefði komið að bifvélavirki, vitnið Bjarni Sigurjónsson, og hann hefði haft ákveðnar meiningar um hvað hefði verið að gerast þarna.
Persónulegir hagir: Hann er lærður vélvirki og vinnur sem slíkur hjá Íslenska járnblendifélaginu og hefur gert í 20 ár. Hann er einstæður faðir, býr með einum fjögurra sona sinna. Hann kvaðst hafa farið út í að aka bifreiðinni M-2700 í sumarfríinu sínu til að reyna að ná endum saman í heimilisrekstri.
VII. Skýrslur vitna
Helmut Lugmayr, f. 1964, var leiðsögumaður í hópferðabílnum M-2700 og sat fremst í honum hægra megin, í sæti leiðsögumanns.
Hann var beðinn að lýsa aksturslagi ákærða almennt í ferðinni. Hann sagði að slysið hefði orðið 6. eða 7. dag ferðarinnar. Alla þessa daga hefði hann kynnst ákærða sem varkárum og ábyrgum bílstjóra. Hann hefði aldrei orðið var við gáleysi hjá honum eða að hann æki of hratt. Vitnið Helmut var nánar spurður um hraða rútunnar þegar hún kom að brúnni, hvort dregið hefði verið úr honum. Hann sagði að erfitt væri fyrir sig að gera sér grein fyrir þessu, því að hann hefði ekki horft út. Hann sagði þó að hann hefði ekki haft á tilfinningunni að ekið væri mjög hratt, enda aldrei orðið var við það alla ferðina.
Vitnið Helmut sagði aðspurður að hann hefði ekki orðið var við neitt óvenjulegt þegar rútan var að koma að brúnni yfir Hólsselskíl. Hann hefði verið að tala við fólkið í rútunni í hljóðnemann og snúið sér til hálfs í sæti sínu til að geta horft aftur í bílinn. Hann kvaðst ekki hafa verið í öryggisbelti. Hann myndi ekki hvort slík belti væru í leiðsögumannssætinu. Hann væri ekki vanur að nota belti. Hann hefði ekki horft út úr bílnum og gæti ekki borið um hvort ekið hefði verið of hratt eða af óvarkárni. Hann hefði ekki séð brúna beint, kannski með öðru auga. Þegar bíllinn hefði verið að koma inn á brúna kvaðst hann hafa fundið högg ,,einhvern veginn og skell, og bíllinn haggaðist og kastaðist til [. . .] Við vorum ekki komin inn á brúna þegar þetta gerist, eða um það bil að koma inn á brúna [. . .] Það hlýtur að hafa gerst rétt áður eða við það að fara inn á brúna.” Vitnið hafði þann fyrirvara við þennan framburð að hann hefði ekki verið að horfa fram. ,,Þegar ég finn þennan skell undir sætinu og sneri mér við, þá vorum við að fara inn á brúna, það er það eina sem ég get sagt með vissu.”
Vitnið Helmut var beðinn að lýsa nánar högginu sem hann gat um, hvorum megin það hefði verið. Hann sagði að það hefði verið sín megin, þ.e. hægra megin. Hann sagði að honum hefði fundist það vera framarlega. Við höggið hefði hann litið fram og þá hefði rútan verið að koma inn á brúna. Nánar spurður kvaðst hann telja ólíklegt að afturhjólin hefðu verið komin inn á hana. Vitninu var í framhaldi af þessu kynnt að fram kæmi í frumskýrslu lögreglu að hægra afturhjól hefði lent á syðri brúarstólpa, og hann var spurður hvort hann hefði fundið fyrir fleiri en einu höggi áður en rútan hefði kastast til vinstri. Hann svaraði að eftir sinni tilfinningu hefði það frekar verið hægra framhjól sem hefði orðið fyrir því höggi sem hann fann. Hann hefði ekki fundið fyrir öðru höggi.
Vitnið sagði að í framhaldinu hefði bíllinn kastast til vinstri og lent á vinstra handriðinu ,,sem kýldi okkur inn á brúna”. Handriðið vinstra megin hefði haldið og af því hefði bíllinn kastast til hægri. Bíllinn hefði hallast meira og meira til hægri, lagst upp á hægra handriðið. Þegar fremri endi bílsins hefði nærri því verið kominn yfir brúna, þá hefði hægra handriðið gefið sig og bíllinn byrjað að velta. Hann kvaðst hafa öskrað í hljóðnemann: ,,Haldið ykkur fast, haldið ykkur fast.” Og svo hefði bíllinn oltið. Honum hefði einhvern veginn tekist að standa upp úr sæti sínu og standa af sér veltinginn, hefði stigið með hægra fæti í hliðarglugga. Bíllinn hefði fallið af brúnni, fremri parturinn lent á árbakkanum, en aftasti hlutinn í ánni.
Vitnið lýsti síðan afleiðingum bílveltunnar, hvernig fólk kastaðist til og hvernig mannslátið varð; hvernig hann hefði tekið þátt í björgunaraðgerðum.
Micael Steinbeck, f. 1966, ók yfir brúna á Hólsselskíl rétt á undan rútunni M-2700. Hann bar fyrir dómi að hann hefði ekið á u.þ.b. 50 km/klst. hraða þegar hann varð var við rútuna á eftir sér. Hann kvaðst hafa séð í baksýnisspegli að rútan var komin út á brúna og hefði þá farið að rása og síðan velta yfir brúarhandriðið. Nánar spurður kvaðst hann ekki geta gert sér grein fyrir hvort hún byrjaði að rása áður en eða eftir að hún var komin inn á brúna; hann hefði ekki tekið eftir að hún rásaði fyrr en hún var kominn inn á brúna. Hann var spurður um hraða rútunnar miðað við hraða hans bíls. Hann kvaðst ekki getað metið það nákvæmlega, en taldi að rútan hefði verið á svipaðri ferð og hann sjálfur.
Ingrid Schaller, f. 1940, var farþegi í rútunni og sat um miðjan bíl hægra megin. Hún var fyrir dómi beðin að lýsa almennt aksturslagi ákærða í ferðinni. Hún sagði að hann hefði verið gætinn og athugull og prýðisökumaður og að henni hefði fundist hún ávallt vera vel geymd í bíl með honum. Hún tók sérstaklega fram að hann hefði vikið vel og fúslega fyrir bílum sem komu á móti. Um aksturslag og hraða rútunnar þegar að brúnni kom, sagði vitnið að ákærði hefði ekið eins og endranær gætilega og eftir aðstæðum. En hún kvaðst ekki treysta sér til að meta hraða rútunnar, kannski hefði hann verið 20-25 km/klst. Hún kvaðst aðspurð hafa heyrt hvell eða smell um það bil er rútan kom á brúna, hélt helst það hefði verið þegar framhjólin komu inn á hana. Hún kvaðst ekki vera alveg viss, en sagði að sér hefði fundist hún heyra annan hvell, þegar rútan var komin inn á brúna. Hún kvaðst hafa setið aftarlega í rútunni hægra megin og ekki getað gert sér grein fyrir hvorri hlið rútunnar hvellirnir komu.
Peter Effmert, f. 1940, var farþegi í rútunni M-2700. Hann sat í næstöftustu sætaröð vinstra megin. Hann sagði um aksturslag ákærða almennt í ferðinni, að sér hefði fundist hann aka ákaflega varlega og gætilega. Hann kvaðst oft ferðast sem farþegi í hópferðabíl, og hann væri fljótur að átta sig á hvort honum fyndist bílstjóri hafa vald á rútu eða ekki. Ákærði hefði ávallt ekið með gát og haft fulla stjórn á rútunni þangað til hann hefði verið kominn á brúna. Hann sagði að hann hefði ekki orðið var við neitt óvenjulegt í aksturslagi ákærða þegar hann kom að brúnni. Hann sagði að sig minnti að hann hefði heyrt tvo hvelli rétt í þann mund sem rútan kom upp á brúna. Þeir hefðu virst koma undan bifreiðinni, en hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir hvort þeir hefðu komið frá vinstri eða hægri hlið bílsins. Hann kvaðst hafa tekið eftir því að ákærði hefði barist við að hafa stjórn á rútunni, sem hann virtist ekki hafa, eftir að hann heyrði hvellina. Hann gæti ekki gert sér grein fyrir því hvort ákærði missti stjórn á bílnum eftir fyrri hvellinn eða þann síðari, það hefði verið svo stutt á milli þeirra. Hann kvaðst nú ekki treysta sér til að segja til um hraða bílsins.
Um viðtalskýrslur sem lögregla tók af farþegum.
Lögregla tók skýrslur af farþegum rútunnar M-2700 17. júlí 2000. Ætlun sækjanda og verjanda var að fleiri vitni yrðu leidd fyrir dóm úr þeirra hópi en þau Helmut Lugmayr, Ingrid Schaller og Peter Effmert og tekin af þeim skýrsla í síma. Af lagatæknilegum ástæðum í Þýskalandi, að því er virtist, reyndist það ekki unnt.
Í skýrslum þessum kemur fram að farþegar gefa ákærða almennt jákvæða umsögn fyrir akstur hans, segja að hann hafði verið varkár og tillitssamur.
Nokkuð er mismunandi hvernig farþegar lýsa atburðum á brúnni. Sumir segjast hafa fundið eitt högg, aðrir tvö. Mismunandi er einnig hvar farþegar töldu högg koma á rútuna, sumir sögðu á hana aftanverða, aðrir á hana framanverða, jafnvel áður en hún kæmi upp á brúna. Sem dæmi má taka að farþegi sem sat vinstra megin í rútunni aftan við miðju, Wolfgang Schiesches, kvaðst hafa skynjað högg sem komið hefði á framanverða rútuna, að því er hann hélt, en farþegi sem sat við hlið hans hinum megin gangsins, Harald Deutschwitz, sagðist hafa heyrt mikið högg þegar afturhluti rútunnar hefði komið upp á brúna.
Ekki þykir dómendum ástæða til að rekja viðtalsskýrslur nánar.
Bjarni Sigurjónsson, f. 1947, er bifvélavirkjameistari. Hann sagði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið staddur ásamt konu sinni í bíl í Námaskarði á leið til Akureyrar, þegar hann fékk vitneskju um slysið við Hólsselskíl. Hann sagði að þau bæði væru flokksstjórar hjá Rauða krossinum í stórslysahjálp. Hann hefði haft samband við lögreglu og hún beðið þau að fara á slysstað.
Vitnið Bjarni bar að einn hjálparsveitarbíll hefði verið kominn á slysstað þegar þau hjónin komu þangað og einn sjúkrabíll. Annar þeirra hefði farið yfir brúna og svo hefði hann ekið yfir hana. Fyrstu mínúturnar hefðu farið í að sinna fólkinu og koma því til hjálpar. Eftir drykklanga stund hefði hann skoðað rútuna, þegar um fór að hægjast. Hann kvaðst hafa farið að skoða bílinn, því að fólkið hefði talað um að það hefði heyrt högg þegar bíllinn fór upp á brúna.
Vitnið sagðist hafa séð mjög skýr bremsuför á brúnni, sem hefðu verið nákvæmlega inni á milli stólpanna, þar sem rútan hefði komið inn á brúna. Þar hefði hún byrjað að bremsa á brúnni. Þá hefðu bara tveir bílar farið yfir brúna, bíll vitnisins og sjúkrabíll. ,,Seinna meir þá fóru þeir að tala um að hún hefði lent á hægri stólpanum. Það að mínu viti stenst ekki, af því að það voru svo skýr bremsuför eftir bílinn.” Bremsuförin hefðu legið milli stólpanna, ,,þannig að hún rakst aldrei í stólpana þar sem hún kom inn”. Þessi hemlunarför hefðu síðan máðst út og verið horfin, þegar búið hefði verið að koma fólki af svæðinu. Vitnið Bjarni var spurður hvernig hann hefði getað merkt það að hemlunarför þessi hefðu verið eftir rútuna. Svar: ,,Þau hefðu ekki verið þarna ef það hefðu margir bílar verið búnir að fara yfir brúna. Það er möl í brúnni, og þetta voru alveg skýr skafin för í brúnni. Ég sá þau þegar ég fór yfir hana sjálfur á mínum bíl.” Enn spurður um þetta sagði vitnið að hugsanlegt væri að förin hefðu verið eftir bíl sem farið hefði yfir brúna á undan rútunni, en hann kvaðst álíta að rútan hefði eyðilagt för eftir næsta bíl undan. Förin hefðu verið alveg úti við stólpa, svona 5-6 sm frá þeim, þannig að þetta hefðu verið rútuför, nákvæmlega jafnlangt frá stólpunum báðum megin. Þessi för hefðu verið eftir rútuna, þau hefðu legið inn á brúna, fyrst til vinstri og síðan til hægri. Þau hefðu verið eftir tvöföld afturhjól. Hann hefði ekki séð för eftir framhjól, því ,,það var svo mikil möl inni á brúnni þar, inni á miðri brúnni.” Förin hefðu náð svona 6-7 m inn á brúna.
Vitnið Bjarni sagðist hafa skoðað mjög gaumgæfilega hægri syðri stólpann og ekki séð þar ummerki nein eftir gúmmí, ,,nema það eru gúmmí för á öllum stólpum á svona brúm, en ekkert nýtt.” Þá var borið undir vitnið það sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, að á stólpanum hefði verið gúmmí sem mátt hefði dusta af. Vitnið sagði: ,,Þessi stólpar eru vaðandi í gúmmíi eftir bíla, bæði fólksbíla og jeppa og allra handa bíla. Þú sérð ekki svona stólpa á svona þröngum brúm öðruvísi en útataða í gúmmíi. Hvaðan gúmmíið kom, það er engin leið að sanna.” Vitnið taldi ennfremur að skemmdir á felgu og hjólbarða hægra megin að aftan hefðu orðið þegar rútan fór yfir brúarhandriðið. ,,Svona skýr bremsuför koma ekki eftir skemmdan hjólbarða.” Afturhjólið hefði farið í styttu í brúarhandriðinu þegar bíllinn hefði verið að detta fram af.
Vitnið sagðist hafa farið að skoða fjaðrirnar undir bílnum þar sem hann lá. Hann kvaðst hafa séð að augablað hefði verið brotið, vinstra megin að framan. ,,Það var gamalt brot í því, nema rétt svona einn og hálfan sm í miðjunni.” Vitnið Bjarni kvaðst hafa unnið við bílaviðgerðir í nær 40 ár. Neðan í rútunni kvaðst hann hafa séð glögg merki þess hvað gerst hefði á brúnni. Það hefði verið stallur frá mölinni og upp steininn í brúnni. Að hans viti hefði krókblaðið, sem heldur utan um augablaðið, húkkast af auganu þegar bíllinn fór inn á brúna. Þetta væri reyndar mjög eðlilegt, þar sem brennt hefði verið af krókblaðinu, eins og sýnt væri á mynd (nr. 6), sem fylgir matsgerð. Það hefði verið klór eftir fjaðrablaðið neðan í grindinni, þar sem það hefði lent upp í henni og rifið hana aftur. Stýrissnekkjan hefði verið uppi í grindinni vinstra megin og togstöng frá stýrinu í spindilhúsið. Þegar dregarinn hefði gengið aftur hefði hann togað í stýrisstöngina og lagt á hjólið til vinstri. Hjólabúnaðurinn hefði gengið aftur við það að fjaðrabúnaðurinn hefði gefið sig. ,,Hann brýtur undan sér vinstra megin á brúnni, en hægra megin þegar hann fer út af handriðinu hægra megin.” Dekkið hefði rekist í handriðið vinstra megin og kastað bílnum yfir til hægri. Þegar þetta hefði gerst hefði aftara fjaðraeyrað brotnað. Það hefðu verið klór og rispur eftir það neðan í grindinni alveg aftur að olíutank. Þessar rispur hefðu ekki komið, ,, ef að þetta losnar undan bílnum þegar hann er búinn að losa hjólin. Þetta skeður ekki nema bíllinn standi í hjólin, þessi ákoma neðan í grindina.” Hann kvaðst hafa sýnt lögreglunni þessi brot og áverka eftir fjaðrirnar. Hann var spurður hvort hann hefði séð ummerki eftir ákomu á handriðinu vinstra megin. ,,Ekkert sem ég gat áttað mig á,” sagði vitnið.
Vitnið Bjarni var nánar spurður um gamla brotið, sem hann taldi sig hafa séð í vinstra augablaði. Hann sagði að útilokað hefði verið að ryð hefði fallið á það áður en hann skoðaði það. Fjaðrabúnaðurinn hefði ekki lent í vatn. Það hefði verið um eins og hálfs sm hreint brot í miðju blaðinu. Blaðið væri 8 10 sm breitt. Hann var spurður um hvernig hann hefði séð að gamalt brot væri í augablaðinu. Hann sagði að það hefði verið ,,svart eða ljósgrátt akkúrat þar sem það brotnar, ljósgrátt í sárið þar sem það er nýtt.” Hann sagði að þetta ryðgaði ekki, því að þetta væri fullt af feiti. Engin leið væri að sjá þetta við eftirlit, því að þetta væri inni í krókblaðinu.
Vitnið Bjarni kvaðst ekki hafa verið viðstaddur þegar bíllinn var tekinn upp. Hann hefði ekki séð hægri hlið bílsins nema á mynd á eftir.
Bjarni kvaðst aðspurður hafa oftar en einu sinni verið til kvaddur sem matsmaður af Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Sigurður Hauksson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, f. 1944, rannsakaði ásamt Sævari Inga Jónssyni skráningarblöð (skífur) úr ökurita rútunnar M-2700. Hann kvaðst hafa farið á námskeið í meðferð ökurita 1996. Hann hefði unnið með ökurita frá 1995. Hann sagði að skífan sem sýndi aksturshraða að brúnni væri mjög auðlesin. Ökuritar væru löggilt tæki og frá þeim gengið á faggiltu verkstæði. Undir vitnið var borið fram lagt skoðunarkort fyrir ökurita bifreiðarinnar M-2700, dags. 2. ágúst 1996. Ökuritinn var þá skoðaður af faggiltu verkstæði, Ökumælaþjónustunni, Eldhöfða 18 Reykjavík. Vitnið sagði að um væri að ræða skoðunarkort sem hið faggilta verkstæði fyllti út og sendi síða Vegagerðinni til varðveislu. Ekkert væri athugavert við kortið. Ökuritann bæri að skoða á 6 ára fresti. Þess á milli bæri eiganda eða umráðamanni bifreiða að sjá um að hann væri í lagi. Frammi liggur í málinu stækkuð mynd af skífu (skráningarblaði) úr ökurita rútunnar. Vitnið Sigurður kvaðst hafa unnið að því blaði, stækkað myndina. Á þessu blaði sæist greinilega að bifreiðin hefði verið á 75 km/klst. hraða. á u.þ.b. mínútu hefði hraðinn farið niður í 49 km/klst., en þá hefði eitthvað gerst svo að bifreiðin hefði stöðvast snögglega. Hann staðfesti óbreyttar upplýsingar sem Sævar Ingi Jónson hafði skráð um tíma og hraðaminnkun bifreiðarinnar. Aðspurður sagði vitnið Sigurður að ekki hefði verið unnt að aka bifreiðinn neitt eftir 40 km/klst. hraða mörkin.
Vitnið Sigurður staðfesti að tilgangur ökurita væri að fylgjast með akstri og hvíldartíma ökumanns, sbr. rg. 136/1995. Réttar upplýsingar skráningarblaða væru að sjálfsögðu háðar því að ökuritinn sjálfur væri í lagi.
Sigurður var spurður um vikmörk hraðatalna skv. skráningarblöðum. Hann upplýsti að þau væru skv. reglugerð. Þegar faggilt verkstæði setti ökurita í bíl, hefði það,,ákveðna möguleika á vikmörkum.” Vikmörkin væru 6 km/klst. til eða frá raunverulegum hraða. Þannig væri hugsanlegt að raunverulegur hraði væri 43 km/klst. eða 55 km/klst., þegar ökuritinn sýndi 49. Vikmörkin væru óháð hraðanum. En vitnið tók fram að hann vissi ekki hvort þessi tiltekni ökuriti væri stilltur með þessum tilteknu vikmörkum eða hvort hann væri nákvæmlega stilltur.
Vitnið Sigurður sagði aðspurður að ekkert benti til að ökuritinn hefði ekki verið í lagi. Skráningarblöðin úr honum væru eðlileg. Þau væru rétt fyllt út af ökumanni. Klukkan í honum virtist vera í lagi. Í sjálfu sér væri ekki mikið mál að taka ökurita úr bíl og rannsaka hvort hann væri í lagi. Vegagerðin hefði ekki verið beðin um að annast slíka rannsókn á ökurita rútunnar.
Hreiðar Hreiðarsson, lögregluvarðstjóri, f. 1966, stjórnaði rannsókn lögreglunnar á Húsavík á slysinu við Hólsselskíl.
Vitnið Hreiðar lýsti skoðun á aðstæðum á slysstað, á brúnni og bifreiðinni. Vitnið sagði um aðdraganda slyssins að vegur hefði verið nýheflaður og mjög þurr, duftkenndur, ,,en samt sléttur og þægilegur þannig; lausleiki yfirborðsins var svona nokkur flotkenndur.” Hann sagðist hafa ekið sömu leið og rútan á slysstað. Yfirborð vegarins hefði verið eins og ryksalli. Þegar kemur að brúnni, væri vegurinn nokkuð breiður og góður að aka á, en brúin nokkuð mikil hindrun miðað við veginn sjálfan. Miðað við akstursstefnu að sunnan hefði brúin verið nokkuð vestarlega miðað við miðju vegar. Sá sem kæmi að sunnan þyrfti að færa sig til vesturs (til vinstri) á veginum í aðkeyrslunni að brúnni.
Þegar lögregla hefði komið á vettvang hefði rútan legið á hliðinni austan við brúna, verið komin langleiðina yfir hana, með aftasta hlutann niðri í ánni. Mikil ákoma hefði verið á brúnni austanverðri, hægra handriði, alveg frá syðra brúarstólpanum. Rannsókn lögreglu hefði miðað að því að finna orsakir þess að svona fór.
Lögreglan hefði þarna hitt á vettvangi Bjarna Sigurjónsson sem hefði fljótlega lýst þeirri skoðun sinni að það hlyti að hafa orðið bilun í fjöðrunarbúnaði, sérstaklega á vinstri fjöður framanverðri. Þetta hefði lögreglan haft til hliðsjónar, ,,en eftir því sem við skoðuðum þarna vettvang nánar, þá fundum við ekkert sem gat bent til þess að eitthvað slíkt væri þessi orsök.” Vitnið sagði að lögregla hefði tekið sér rúman tíma, eftir að fólki hafði verið komið af slysstað, til að rannsaka vettvang, í 6-7 klst. M.a. hefði vinstra (vestara) handriðið verið skoðað gaumgæfilega. Þar hefði ekkert fundist, engin ákoma. Á rútunni vinstra megin hefðu heldur ekki sést neinar rispur. Engin merki hefðu verið um að rútan hefði snert þetta handrið. Þá hefði verið farið í að skoða hinn hluta brúarinnar. Þá hefði fundist ákoma á syðri brúarstöplinum eftir hjólbarða. Ekki hefði verið um það að ræða að margir bílar hefðu nuddað dekki utan í stólpann, að þarna væri gamalt svarf, heldur hefði það verið svo duftkennt, að við það að snerta það aðeins með pennaoddi hefðu gúmmíflygsurnar hrunið af stólpanum. Þetta hefði verið alveg glænýtt. Stólpinn væri ekki lóðréttur, heldur hallaði honum út að ofan. Sýnilegt hefði verið að hjólbarðanum hefði verið ekið upp á neðsta hluta stólpans. Síðan hefðu öll atriði verið borin saman. Mæld hefði verið breidd rútunnar og akstursbreidd brúargólfsins, og þar hefði munað 11 sm. Hægt hefði verið að sjá með hliðsjón af lengd rútunnar, að hægra (eystra) handriðið hefði rofnað á svipuðum tíma og hægra afturhjól rekst á syðri stólpann. Vitnið skýrði þetta nánar þannig: ,,Frá framenda rútunnar í mitt afturhjól eru tæpir 8 m. Frá þessum stólpa,umræddum, að þeim fyrsta stað á handriðinu, þar sem ljóst er að það rofnar það voru þar greinilega rispur eftir rútuna sjálfa - það voru rétt um 8 m líka.”
Vitnið Hreiðar kvaðst hafa skoðað undirvagn rútunnar á vettvangi, aftan að og fram úr. ,, Við sáum strax í hvaða hjólbörðum var loft. Við sáum að afturhásing virtist algjörlega óskemmd, þannig lagað að hún hafði ekkert hreyfst úr stað, drifskaft, drifbúnaður og mótor og slíkt virtist vera rétt staðsett. Síðan þarna fram eftir bílnum þá kom í ljós að framhjólastell í heild sinni, sem sagt þverbiti framan sem kallast dregari, sem síðan er festur neðan í fjaðrirnar, hann er slitinn - þetta er fest á fjórum stöðum við bílinn, hvor fjöður á tveimur stöðum, framan og aftan [. . .] að þessi búnaður var algerlega laus frá bílnum, sem sagt fjaðralega séð, það var allt saman brotið frá, á öllum þessum fjórum stöðum [. . .] Vinstra megin að framan var auga brotið, en á flestum hinum stöðum voru stólarnir brotnir líka. Og þessi framhjólabúnaður hékk á stýrisstöng [. . .] og einni bremsuslöngu.”
Vitnið Hreiðar sagði að lögregla hefði skoðað brotna fjaðraaugað sérstaklega vegna álits Bjarna Sigurjónssonar, sem hefði kynnt sig sem bifvélavirkja, og hann hefði talið að þarna væri um gamalt brot að ræða og þar af leiðandi orsök slyssins. ,,Við gátum ekki séð á þessu broti í sjálfu sér, að það sem hann sá eða taldi að þar hefði verið um gamalt brot að ræða og síðan nýrra brot; við sáum raunverulega engan mun á þessu broti.” Í framhaldi af þessu sagði vitnið að lögreglan hefði talið að ekki væri glóra í öðru en að láta sérfræðinga skoða þetta sérstaklega.
Vitnið Hreiðar var spurður hvort hann gæti lýst rispum á undirvagni. Hann sagði að lögregla hefði séð að handriðið að austan hefði verið flækt í og þrætt í gegnum dregarann meira eða minna og setið þar fast. Bíllinn hefði dregið handriðið með sér til norðurs og austur af brúnni. Önnur dekk er hægra megin að aftan hefðu verið slétt og fín. Ekki hefðu verið skemmdir á felgum og hjólkoppum nema örlítið mar. Á vinstri stuðara hefði verið skarð, framstuðara vinstraverðum. Það hefði verið fullljóst að það skarð væri eftir brúarstólpann nyrðri. Þarna hefði verið gul málning á rútunni eftir stólpann , en á stólpanum hefði verið blá málning eftir rútuna. Sýnilega hefði þessi stólpi rekist í togstöngina miðja. Hún hefði verið rústrauð á lit, og á framdregaranum hefði verið málning eftir þennan stólpa líka. Ekki hefði farið milli mála að þessi hluti rútunnar hefði lent á nyrðri stólpanum.
Undir vitnið Hreiðar var borinn framburður vitnisins Bjarna Sigurjónssonar um rispur á undirvagni, sem hann hefði talið að stöfuðu af því að fjaðrabúnaður hefði dregist eftir honum. Vitnið sagði að þar væri um að ræða rispur, ,, sem hann hefur séð, en við sáum ekki.” Og hann bætti við að rútan hefði ,,skrollað eftir þessu járnadóti,” og átti þar við handrið brúarinnar að austan. Brúin hefði væri 20 m á lengd, og rútan hefði slitið niður 10 bita (styttur) af 13. Þetta hefðu verið bitar af vinkiljárni eða u-járni, sennilega um 2 ½ tomma frá horni út á kant. Síðan hefðu verið þrædd í þetta tommu eða 1 ½ tommu rör.
Vitnið sagði að athugað hefði verið á vettvangi í hvaða gír rútan var; hún hefði verið í frígír.
Vitnið Hreiðar var spurður, með tilliti til framburðar farþega og ákærða um eitt högg eða tvö, hvort hann teldi útilokað að hægra framhjól hefði rekist á syðri brúarstólpann. Hann sagði að þetta væri atriði sem lögregla hefði ákveðið að skoða gaumgæfilega á vettvangi. Enginn áverki hefði fundist á hjólbörðum nema á hægra afturhjóli. Niðurstaðan hefði orðið að framhjólið hefði ekki snert stólpann. Vitnið kvaðst hafa reiknað þetta dæmi: Miðað við að rútu sé ekið á 49 km/klst. hraða, þá fer hún 860 m á mínútu og 13,6 m á einni sekúndu. Ef afturhjól rútunnar rekst í syðri stólpann þá ætti hún að vera kominn u.þ.b. 7 m inn á brúna með framendann. Þá eru ekki nema 14 m eftir af brúnni fyrir framendann að fara að nyrðri stólpanum, og það tæki rétt um eina sekúndu fyrir bílinn að fara þennan spotta. Miðað við þetta taldi vitnið að slysið gerðist í einni hendingu.
Hreiðar var spurður hvort rútan hefði að hans áliti verið orðin ferðlaus þegar hún valt út af brúnni. Hann vildi ekki fullyrða um það, en sagði að við hægra framhorn hennar hefði mátt sjá að hún hefði ýtt frá sér jarðvegi, þannig að hún hefði getað verið á örlítilli ferð.
Vitnið Hreiðar var spurður hvenær rannsókn á vettvangi hefði hafist og hvernig vettvangur hefði verið varðveittur áður en rannsókn hófst. Hann svaraði að eftir að lögregla kom á vettvang hefði engum bifreiðum verið hleypt yfir brúna nema sjúkraflutningstækjum. Sum þeirra hefðu farið yfir brúna en önnur ekki. Umferð um veginn hefði þó verið svo mikil frá því slys var tilkynnt þangað til fyrstu lögreglubílar komu á vettvang, að ekki hefði verið að merkja nein augljós för eftir rútuna. Vitnið sagðist hafa verið í fyrsta lögreglubíl á vettvang og komið sunnan að. Flestir bílar hefðu síðan komið þá leið. Síðasti slasaði maður hefði verið fluttur af vettvangi um kl. 17, en vettvangsrannsókn hefði hafist um kl. 16, en litið hefði veri lauslega á alla þætti þegar í stað, eins og unnt hefði verið. Vitnið staðfesti að vettvangur hefði litið út eins og sjá má á framlögðum myndum lögreglu.
Vitnið upplýsti að hámarkshraði á vegi 864 væri venjulegur hraði á malarvegi, 80 km/klst.
Þá greindi vitnið Hreiðar frá því, aðspurður, að lögreglan hefði mælt bæði aksturbreidd brúar, 2,60 m, og breidd rútunnar. Hún hefði reynst vera 2,49 m breið, og ætti það jafnt við um boddíbreidd og breidd afturhjóla (utanmál). Ytri afturhjólin væru utar en framhjólin, þannig að þau eltu ekki framjólin. Um það bil sem ökumaður rútu af þessar breidd hefur upp á að hlaupa, þ.e. 5,5 sm til hvorrar hliðar, sagði ákærði að það væri svo þröngt, að það væri í raun ekki breiðara en blýantsstrikið á uppdrætti í mælikvarða 1:200. Um leið og rútan skekktist, þá væri rútan svo löng og svigrúmið svo lítið, að hún snerti hægra handriðið með framenda um leið og hægra afturhjól kæmi í stólpa. Í framhaldi af þessi sagði vitnið að hann teldi víst að rútan hefði farið rétt með framhjólin inn á brúna.
Um flutning rútunnar af vettvangi til Reykjavíkur sagði vitnið að fengið hefði verið flutningafyrirtækið Sniðill í Mývatnssveit til að flytja bílinn. Rútan hefði fyrst verið dregin til á hliðinni, en síðan á hjólum með hjólaskóflu, og síðan hefði hún verið sett á bíl og ekið suður. Í Reykjavík hefði hann verið geymdur í porti niður við höfn og þeir lausir partar sem hirtir hefðu verið á vettvangi. Yfir bílinn hefði verið tjaldað. Vitnið sagði að rútan hefði ekki verið ,,rosalega mikið skemmd”. Eitthvað ,,tildrag á málningu” á hægri hlið.
Um skoðun Frumherja á vettvangi sagði vitnið að hún hefði ekki verið ítarleg, meira almenn skoðun.
Ökuriti hefði ekki verið tekinn úr rútunni til rannsóknar. Lögreglan hefði tekið úr honum skífur (skráningarblöð), og hefði óskað eftir við Vegagerð að lesið yrði úr þeim.
Vitnið Hreiðar kvaðst hafa lesið úr ökuritaskífu hraðann á bifreiðinni þegar hún kom að brúnni, 75 km/klst. Önnur niðurstaða hefði komið frá Vegagerðinni þegar skífan hefði verið stækkuð. Þá hefði verið hægt að greina hraðaminnkun, sem ekki hefði verið unnt á skífunni óstækkaðri. ,,Mér fannst eðlilegt að ég mundi skrifa mína skýrslu eins og þetta leit við okkur og láta þá sérfræðinga kanna málið til hlítar, heldur að ég væri að rita mína skýrslu og bíða eftir öllum gögnum og sníða mína skýrslu í samræmi við það.”
Vitnið staðfesti frumskýrslu lögreglu, þar á meðal sérstaklega það atriði, að kannað hefði verið á vettvangi að stýri hefði ekki farið úr sambandi. Staðfesti einnig meðfylgjandi teikningu; ennfremur skýrslu um mannslát.
Gunnar Ás Vilhjálmsson augnlæknir, f. 1961, rannsakaði sjón ákærða og gerði um þá rannsókn greinargerð, dags. 10. apríl 2001, sem frammi liggur í málinu.
Vitnið lýsti fyrir dóminum sjónskerðingu ákærða. Hann sagði að ákærði sæi fremur illa á hægra auga. Besta sjón hans með bestu gleraugum væri ekki nema 10% á því auga. Á vinstra auga væri sjónin fullkomlega eðlileg. 10% sjón á hægra auga næði ákærði einungis með gleraugum, en það væru gleraugu sem væru illnotanleg, þar sem þau væru svo sterk og mikil. Þau hefði því lítið praktískt gildi fyrir hann, gögnuðust honum ekki. Sjón ákærða á hægra auga væri bundin við miðju sjónsviðsins, þetta væri eins og eyja í miðju sjónsviðinu. Samkvæmt sjónsviðsmælingu væri sjónsviðið út til hliðanna á hægra auga mjög skert; mikið til horfið. Hliðarsjónin væri mjög skert á þessu auga og þá líka heildarsjónsviðið skert til hægri hliðar, þrátt fyrir eðlilega sjón á vinstra auga.
Vitnið Gunnar Ás var sérstaklega spurður um það sem fram kemur í greinargerð hans undir lokin: ,,Eftir að hafa skoðað og lesið vattvangslýsingu á umræddu umferðarslysi þann 16. júlí 2000 má færa mjög sterk rök fyrir því að hin alvarlega sjónskerðing og ekki síður hið mikið skert sjónsvið á hægra auga hafi átt stóran þátt í áðurnefndu slysi. Þegar sjúklingurinn ekur yfir brúna á tiltölulega miklum hraða miðað við aðstæður þar hann nær samtímis að hug að því sem gerist beint fyrir framan sig en einnig að því sem er að gerast í hliðarspeglum ökutækisins. Þegar um slíkt er að ræða má telja víst að hin mikla sjón- og sjónsviðsskerðing stuðli að því að hann hafi átt erfitt með að meta fjarlægðir og það sem var að gerast til hægri og í hægri hliðarspegli.” Vitnið sagðist telja að færa mætti rök fyrir þeirri ályktun sem þarna kemur fram. Vitnið var þá spurt hvort harði bílsins skipti þarna máli, þ.e.a.s. fyrir getu ökumanns til að meta fjarlægðir. Vitnið svaraði því játandi. ,,Því hraðar sem hlutirnir ganga fyrir sig, því meira máli skiptir að öll skynjun á umhverfinu sé sem allra best og eðlilegust.” Gunnar Ás sagði aðspurður að þar sem hann talar um að bifreiðin hafi verið á ,,tiltölulega miklum hraða”, hafi hann haft í huga 49 km/klst., en tók fram um leið að hann væri augnlæknir en ekki umferðarsérfræðingur.
Vitnið Gunnar Ás lagði áherslu á að sjónskertur maður vendist fötluninni, ekki síst ef sjónskerðingin hefði gerst á ungum aldri, hann ,,upplifði sig ekki sem fatlaðan, upplifði sig ekki sem verri að fást við verkefni eða [að hann] hafi verri sjón en næsti maður.” Undir öllum venjulegum kringumstæðum og í daglegu lífi hæði sjónskerðingin manni ekki. Það væru viss verkefni sem eineygður maður réði ekki við, hann hefði ekki eðlilegt dýptarskyn, hann yrði að treysta meira á lært dýptarskyn. Þegar maður þyrfti að hafa sem allra besta hliðarsjón gæti þetta skipt máli, enda virtist löggjafinn leggja mikið upp úr því að þegar menn stjórnuðu ökutækjum til fólksflutninga að sjónsviðið væri í lagi, þótt það væri talið í lagi að eineygður maður æki einkabíl. Og í flestum tilvikum virtist það ekki koma að sök.
Vitnið Gunnar Ás bætti við að flest benti til að sjónsvið ákærða hefði versnað frá því að slysið varð þangað til hann skoðaði ákærða.
Bergur Helgason vélaverkfræðingur, f. 1965, er annar tveggja dómkvaddra matsmanna sem skoðuðu bifreiðina M-2700. Hann var fyrst spurður hvort skoðun matsmanna hefði leitt í ljós að einhverju hefði verið ábótavant, verið einhverjar skemmdir í stýrisbúnaði, hjólabúnaði eða fjöðrunarbúnaði rútunnar M-2700, sem ekki væri unnt að rekja til slyssins, og hefðu getað valdið slysinu. Vitnið kvað nei við. Við skoðun matsmanna á bifreiðinni og þeim hlutum sem henni fylgdu, ,,þá gátum við ekki fundið neitt sem benti til þess að um væri að ræða einhverjar eldri skemmdir eða ágalla.”
Bergur var sérstaklega spurður um fremra auga í vinstri fjöður að framan, hvort við skoðun hefðu komið í ljós einhver þau ummerki sem bentu til að verið hefði þar skemmd fyrir. ,,Það var ekki að sjá,” svaraði vitnið, ,,það var alveg hreint brotsár. Ef ég man rétt þá var þarna bæði augablað og krókblað, sem kallað er, og á endanum á krókblaðinu sáust merki um að það hefði verið brennt af því endi. Þar var óhreint sár þannig, sem var fyrir.” Hann tók fram að þetta sár á krókblaðinu hefði ekki orðið við slysið. Um augað í augablaðinu tók vitnið fram, aðspurður, að ekki hefði verið farið að falla ryð á sárið. Þeir matsmenn hefðu hreinsað sárið og þeir hefði skoðað það fyrir og eftir hreinsun og þeir hefðu ekki séð neitt sem benti til að þar væri að hluta til um eldra sár að ræða. Það hefði átt að sjást ef um eldra sár hefði verið að ræða, þá ætti að sjást ryð eða eitthvert nudd. Matsmaðurinn var spurður hvort einhver óþrifnaður, t.d. olía, hefði verið í sárinu á auganu. ,,Ekkert að ráði, ef ég man rétt,” var svarið. Olíuhreinsir hefði verið notaður til að hreinsa sárið. Hann hreinsaði ekki burt ryð. Fyrir dóminum voru bornar undir vitnið Berg ljósmyndir, sem fylgja matsgerð, einkum myndir af auga af vinstri fjöður af framan (nr. 4 og 5). Hann sagði aðspurður að sár hefðu veri hreinsuð áður en myndir voru teknar.
Bifreiðin, sagði vitnið Bergur, að hefði verið skoðuð í porti við Sundagarða í Reykjavík. Hlutir sem hefðu brotnað hefðu verið teknir upp á slysstað og settir í plastpoka sem hefði verið í bílnum. Einstakir hlutir hefðu verið teknir inn í hús og skoðaðir þar. Vitnið Bergur sagði aðspurður að æskilegt væri að skoða bifreið við slys á vettvangi, en nauðsynlegt að geta skoðað hana við betri aðstæður, án þess að langur tími liði frá slysi. Hann taldi að sá tími sem leið frá slysi þangað til matsmenn skoðuðu rútuna, um hálfur annar mánuður, hefði ekki orðið til að torvelda skoðunina, þar sem öll brotsár voru hrein, þegar þau voru skoðuð.
Vitnið Bergur var spurður hvort rútan hefði verið mikið ,,dregin” á hægri hlið. Hann svaraði að matsmenn hefðu ekki skoðað þetta sérstaklega, skoðun þeirra hefði beinst að búnaði hemla, stýris, hjóla og dekkja. Um hjólabúnað að aftan sagði hann að hann hefði verið eðlilegur að öðru leyti en því að hjólbarði hefði verið sprunginn. Ennfremur kom fram hjá vitninu að matsmenn hefðu ekkert skoðað bílinn að innan, gætu ekki borið neitt um hvort komið hefðu högg á sætisbök. Ennfremur sagði hann að matsmenn hefðu ekki skoðað undirvagninn sérstaklega.
Vitnið kvaðst ekki hafa séð skýrslu Frumherja um skoðun á rútunni á vettvangi.
Vitnið staðfesti matsgerð, sem ber heitið Greinargerð vegna skoðunar á ástandi hópbifreiðarinnar M 2700. Hann staðfesti sérstaklega spurður niðurstöðu matsmanna sem fram kemur í 4. kafla, Samantekt.
Lárus Sveinsson bifvélavirkjameistari, f. 1942, var dómkvaddur ásamt Bergi Helgasyni til að skoða bifreiðina M-2700. Hann kvaðst hafa starfað við bifvélavirkjun lengst af í rúm 40 ár og unnið mikið við hópferðabíla. Hann var á svipaðan hátt og vitnið Bergur spurður í fyrstu hvort skoðun matsmanna hefði leitt í ljós einhverjar skemmdir í búnaði stýris, hjóla eða fjöðrunar rútubifreiðarinnar, sem hefði getað valdið slysinu. Vitnið svaraði að matsmenn hefðu ekki fundið neitt slíkt.
Þá var vitnið Lárus spurður um fremra auga af vinstri fjöður, hvort eitthvað hefði verið í brotsárinu sem bent hefði til eldra brots og að augað hefði á slysstað hrokkið endanlega í sundur. ,,Nei, ekkert að mínu mati,” svaraði vitnið. Vitnið staðfesti það sem fram kemur í matsgerð, að augað hefði brotnað við mikið högg.
Vitnið Lárus gerði aðspurður grein fyrir hvar rútubíllinn hefði verið skoðaður á sama veg og vitnið Bergur hafði fyrr gert. Hann sagði að fyrr á árum hefði verið talsvert um það að bifreiðar hefðu eftir slys verið skoðaðar á slysstað og síðan nánar annars staðar. Þetta hefði þó ekki verið gert sér vitanlega síðustu 10-12 ár. Vitnið taldi að ekki hefðu farið forgörðum nein ummerki um ástæður slyssins á þeim tíma sem leið frá slysi þangað til matsmenn skoðuðu rútuna, ekki að því er varðaði þau atriði sem þeir skoðuðu.
Vitninu Lárusi var kunnugt um skoðun Frumherja á rútunni á slysstað, en sagði að matsmenn hefði ekki haft undir höndum skýrslu um þá skoðun. Verjandi vitnaði til þeirrar skýrslu, þar sem fram kemur að fjaðrahengsli hafi klippst frá grind og verið brúnt í sárið eins og um gamla sprungu væri að ræða (sbr. framlögð ljósmynd með matsgerð, nr. 3, með textanum ,,Brot (efri hluti) af fjaðrahengsli fyrir hægri fjöður.”). Lárus kvaðst ekki hafa metið að svo hefði verið. Hann sagði að það hefði verið ,,aðeins orðin ryðlitur á þessum flötum öllum, en venjulega þegar sprungur myndast í svona hlutum, þá myndast sléttur flötur þar sem sprungan byrjar, því það myndast núningur í efninu þegar sprungan er að hreyfast, ef það er eitthvað sem er byrjað að láta sig, þannig að það sker sig töluvert frá þar sem brotið verður síðan endanlega í restina.” Hann taldi að þarna hefði ekki verið merki um neinn núning. Yfir flötinn hefði verið fallið örlítið ljóst ryð, að hans mati greinilega ekki gamalt.
Vitnið Lárus staðfesti þann skilning á matsgerðinni að allir þeir hlutir sem brotnir væru úr framfjaðrabúnaði rútunnar hefðu brotnað við mikið högg.
Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað hægri hlið bílsins og gat ekki borið um hvort hún hefði verið ,,dregin”. Þeir matsmenn hefðu skoðað þær skemmdir sem verið hefðu undir rútunni að framan, litið lauslega yfir grindina á henni, eins og aðstæður buðu upp á, farið yfir fjaðrabúnað að aftan (sem hefði verið í lagi), litið yfir bremsurnar, að útíherslur og annað væru innan eðlilegra marka, eins og fram kæmi í matsgerð.
Undir vitnið Lárus var borinn sá framburður vitnisins Bjarna Sigurjónssonar að í brotsári fremra auga af vinstri fjöður að framan mætti sjá, að hluti af sárinu væri gamalt brot. Lárus kvaðst ekki meta þetta svo. Matsmenn hefðu skoðað þetta vandlega, einmitt þetta brot, því að hann, Lárus, hefði haft spurnir af yfirlýsingu sem Bjarni hafði gefið um þetta.
Vitnið Lárus staðfesti matsgerð, sem ber heitið Greinargerð vegna skoðunar á ástandi hópbifreiðarinnar M 2700. Hann staðfesti sérstaklega spurður niðurstöðu matsmanna sem fram kemur í 4. kafla, Samantekt.
Þorsteinn Friðriksson bifvélavirkjameistari, f. 1946, var annar tveggja manna sem skoðuðu rútuna M-2700 á slysstað á vegum Frumherja hf. Akureyri. Skrifaði hann um þá skoðun stutta skýrslu sem frammi liggur í málinu.
Vitnið kynnti sig fyrir dóminum sem skoðunarmann hjá Frumherja. Vitnið sagði að rútan hefði legið á hliðinni, að hluta niðri í á, þegar skoðunarmenn komu að. Framöxull hefði verið slitinn undan henni. Þeir skoðunarmenn hefðu skoðað hólbarða og stýrisgang, það sem hægt var. Stýrið hefði virst vera í sambandi frá stýrishjóli niður í stýrisarm. Fjaðrirnar og fjaðrahengslin hefðu verið brotin undan, þannig að ekki hefði mikið verið hægt að skoða, ,,ekki bremsur eða neitt”. Vitnið taldi að fjaðrabúnaður að framan hefði brotnað undan við högg á brúarhandriði ,,eða þá þegar hann skall niður í farveginn, ég veit ekki hvort heldur var.”
Vitnið var spurt um fjaðrahengsli að framan. Hluti af því hefði farið í vatn, Lögregla hefði sagt sér að hún hefði tekið hann upp í vatninu. Það gæti hafa fallið á þetta ryð. Nokkrar klukkustundir hefðu liðið frá slysi þangað til skoðunarmenn komu á staðinn.
Vitnið sagði að skoðunin hefði staðið eina klukkustund eða eina og hálfa.
Vitnið minntist þess ekki að þeir Frumherjamenn hefðu ekki skoðað brotsár í auga á vinstri fjöður.
Vitnið kvaðst hafa skrifað skýrslu Frumherja og staðfesti hana.
VIII. Niðurstöður
Það er álit dómsins að langlíklegast sé að réttar séu skýringar og ályktanir Hreiðars Hreiðarssonar lögregluvarðstjóra um það hvernig slysið gerðist. Í frumskýrslu lögreglu er þessu lýst þannig:
,,Telja má víst, að þegar rútunni hafði verið ekið inn á brúna og framendi hennar kominn tæpa 7 metra inná brúargólfið, hafa aðstæður verið þannig að afturhluti rútunnar hefur verið staðsettur lítið eitt meira til hægri og því hægri afturhjólbarði snert brúarstólpann. Þá má einnig geta þess að afturhjólbarðar rútunnar eru um 6-8 sm utar heldur en framhjólbarðarnir, og því elta afturhjólin ekki alveg slóð framdekkjanna. Þar sem brúarstólpinn hallar útaf brúnni til austurs hefur hægri hjólbarðinn að aftan lent örlítið uppá stöpulinn en ekki bara utan í hann og er ljóst að rútan hefur tekist á loft að aftan og afturhluti rútunnar kastast við höggið til vinstri til vesturs inn á brúna. Við þetta hefur rútan skekkst á brúnni og ekki verið í beinni akstursstefnu út af henni að norðan, heldur stefnt til norðausturs á brúnni í stefnu á brúarhandriðið og í sömu mund hafi hægra framhorn rútunnar snert brúarhandriðið þarna um 8 metrum inn á brúnni, mælt frá brúarstöpli.” Vætti Hreiðars Hreiðarssonar ber að sama brunni.
Dómkvaddir matsmenn segja í samantekt í lok matsgerðar sinnar: ,,Við skoðunin fundust ýmsar skemmdir á bifreiðinni, aðallega á fjaðra- og hjólabúnaði hennar. Engin ummerki fundust sem bentu til þess að ástandi bifreiðarinnar hafi verið ábótavant varðandi þau atriði fyrir slysið. Miðað við þessa skoðun á bifreiðinni og þeirra hluta [svo] hennar sem eru brotnir eða skemmdir á annan hátt virðist sem þær skemmdir sem á henni finnast hafi átt sér stað við snöggt og mikið högg sem fátt myndi þola.” Niðurstöðu matsmanna hefur ekki verið hnekkt, og verður á henni byggt.
Að mati dómenda standast ályktanir vitnisins Bjarna Sigurjónssonar ekki í veigamiklum atriðum: Hann er einn um að greina gamalt brot í auga vinstri framfjöður gegn áliti matsmanna og skoðun vitnisins Hreiðars Hreiðarssonar. Skoðun hans um að gúmmí á syðri brúarstólpa hafi verið gamalt telja dómendur að standist ekki gegn mjög greinargóðri lýsingu í frumskýrslu lögreglu og vætti vitnisins Hreiðars. Víst er að engin ákoma var á vestara handriði brúar. Hann er einn til vitnis um hemlaför afturhjóla rútunnar á brúnni. Samkvæmt vætti Bjarna kom hann með fyrstu hjálparmönnum á vettvang. Vafalaust hefur orka hans og einbeitni farið til að hjálpa slösuðu fólki á staðnum. Er vant að sjá hvernig hann mátti gera svo umfangsmikla og nákvæma vettvangsrannsókn þegar í stað, sem vætti hans ber með sér.
Slysið á brúnni gerist svo snöggt að varasamt þykir dómendum að leggja mikið upp úr framburði farþega í rútunni um það hvar og hvenær högg, eitt eða tvö komu á rútuna, enda voru farþegar með öllu óviðbúnir árekstri. Framburður farþega um þetta er sem vænta má mjög misvísandi.
Dómendur telja að í ljós sé leitt að samverkandi orsakir slyssins hafi verið sem hér segir:
Vegna þess hvernig vegurinn liggur að brúnni að sunnan hefur rútubifreiðin komið skökk inn á brúna, þ.e. aka hefði þurft rútunni nær vinstri brún vegar til þess að hún kæmi rétt á brúna. Þetta má glöggt sjá af uppdrætti þeim sem lögregla gerði af slysstað og fram lögðum ljósmyndum sem teknar voru af honum. Svigrúmið til að rétta rútuna af eftir að framendi hennar kemur inn á brúna er nánast ekkert; akstursbreidd brúar 2,60 m, breidd rútu 2,49 m.
Fallast má á það sem ákærði bar fyrir dómi að brúin blekkti. Stöplum hennar og handriðum hallar út að ofan, og því sýnist hún breiðari en hún er.
Brúin er óvenjulega mjó af einbreiðri brú að vera. Samkvæmt brúaskrá Vegagerðarinnar 1999 eru t.a.m. 158 brýr á Norðurlandi eystra; 9 þeirra eru 2,6 m breiðar eða mjórri og eru sumar á afvegum. Ákærði er að fara veginn (864, Dettifossveg eystri) í fyrsta sinn. Hann gat því ekki af reynslu sinni gert sér grein fyrir hversu varasöm brúin var. Rútan er 30 ára gömul og ekki óvenjulega breið.
Dómurinn telur ekki útilokað að sjónskerðing ákærða á vinstra auga eigi einhvern þátt í slysinu, sbr. greinargerð Gunnars Áss Vilhjálmssonar augnlæknis og vætti hans fyrir dóminum. Ekki er ágreiningur um að skilyrði voru ekki til að gefa út skírteini til aukinna ökuréttinda ákærða 11. apríl 2000, eins og fram kemur í bréflegri afturköllun sýslumannsins á Akranesi á þeim réttindum 22. júní 2001. Ekki verður ákærða gefið þetta að sök, því að hann stóð að öllu leyti löglega og heiðarlega að umsókn um ökuréttindin. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga niðurlag greinargerðar augnlæknisins um það að maður sem býr við sjónskerðingu frá ungum aldri, veit að jafnaði ekki af henni. Sbr. og framburð ákærða fyrir dómi um þetta.
Um hraða rútunnar þegar hún kom inn á brúna er ekki við annað að styðjast en þær upplýsingar sem þjónustudeild Vegagerðarinnar hefur lesið af skráningarblöðum ökuritans. Samkvæmt þeim verður að telja líklegt að hraði rútunnar, þegar hún kom inn á brúna hafi verið á bilinu 43 54 km/klst., sbr. og vætti Sigurðar Haukssonar. Þetta er þó ekki öruggt. Ákærði taldi að hann hefði ekið hægar og bar brigður á nákvæmni ökuritans. Ökuritinn var ekki tekinn úr bifreiðinni og kannað hvort hann væri réttur. Auðvelt er fyrir mann sem þekkir brúna að átta sig á því að ökuhraði á bilinu 43-54 km/klst. er of mikill, en það liggur ekki í augum uppi fyrir mann sem er að fara veginn í fyrsta sinn.
Þá er rétt að hér sé þess getið að þau vitni sem voru í rútunni, leiðsögumaður og tveir farþegar, bera að ákærði hafi almennt verið gætinn, varkár og ábyrgur ökumaður.
Að öllu þessu athuguðu verður það niðurstaða dómsins að slysið við Hólsselskíl hafi að langmestu leyti orðið vegna aðstæðna sem ákærði sá ekki fyrir og mátti ekki gera sér grein fyrir og að ósannað sé að ákærði hafi ekið svo gáleysislega inn á brúna yfir Hólsselskíl 16. júlí 2000, að varði við 215. gr. eða 219. gr . almennra hengingarlaga. Hann verður því sýknaður af ákæru fyrir brot á þessum greinum. Þá telur dómur einnig að ekki hafi verið sannað að ákærði hafi brotið gegn varúðarreglum 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og beri því einnig að sýkna hann af ákæru fyrir brot á þeim ákvæðum og ennfremur af kröfu ákæruvaldsins um sviptingu ökuréttar.
Eftir úrslitum máls er rétt að sakarkostnaður allur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva Bjarnasonar hdl., sem skulu vera 250.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari sótti málið.
Dóm þennan kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómendurnir Gísli V. Halldórsson bifvélavirkjameistara og Steinn Hermann Sigurðsson leigubílstjóra og bifreiðasmiður.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Steingrímur Guðjónsson, á að vera sýkn saka í þessu máli.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tryggva Bjarnasonar hdl., 250.000 krónur auk virðisaukaskatts.