Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2007
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2007. |
|
Nr. 118/2007. |
Íslensk erfðagreining ehf. (Jóhannes B. Björnsson hrl. Sigurbjörn Þorbergsson hdl.) gegn Gildi lífeyrissjóði(Atli Gíslason hrl. Karl Ó. Karlsson hdl.) |
Lífeyrissjóður. Kjarasamningur. Ráðningarsamningur.
Árið 2004 gerðu Samtök atvinnulífsins kjarasamning við nokkur verkalýðsfélög, þar á meðal E, þar sem kveðið var á um að frá 1. janúar 2005 skyldi framlag launagreiðenda í samtryggingarlífeyrissjóð hækka úr 6% í 7% og frá sama degi 2007 í 8%. Félagsmenn í E, sem þessi kjarasamningur tók til voru almennt sjóðsfélagar í lífeyrissjóðnum G. Fyrirtækið Í taldi sér ekki skylt að standa skil á þessum hækkuðu iðgjöldum til G vegna starfsmanna sinna, sem þar voru sjóðfélagar, þar sem það væri ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins og væri því einungis skylt að greiða 6% iðgjald eins og lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kváðu á um. Höfðaði G mál á hendur Í þar sem þar sem krafist var viðurkenningar á að Í bæri að greiða iðgjöld samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi vegna þeirra starfsmanna er völdu að borga í lífeyrissjóð G. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu, þar sem kveðið er á um að kjarasamningur ráði lágmarkskjörum fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein, yrði ekki skýrt svo að það, eitt út af fyrir sig, gæti bundið hendur launagreiðenda og starfsmanns um sérhvert atriði ráðningarsamnings, heldur yrðu starfskjör, metin í einni heild, að nema því lágmarki sem kjarasamningur tryggir. Þar sem G hefði ekki hnekkt staðhæfingum Í um að með ráðningarsamningum hefðu starfsmennirnir búið við talsvert hagstæðari starfskjör en þeim hefði borið samkvæmt kjarasamningnum, gæti Í ekki verið bundið af þessu eina afmarkaða atriði kjarasamningsins vegna ákvæða laga nr. 55/1980. Ennfremur sagði að um ráðningarkjör starfsmanna Í giltu hvorki sérlög né væru þau byggð á kjarasamningi, heldur væru þau ákveðin með ráðningarsamningum, sem gætu ráðið atriðum varðandi þátttöku launamanna í lífeyrissjóðum, eins og skýrt væri kveðið á um í 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Í ráðningarsamningum starfsmanna Í var skýrlega kveðið á um að iðgjald í lífeyrissjóð skyldi vera 10%, þar af 6% úr hendi Í. Gat kjarasamningur, sem Í var ekki aðili að og varðaði ekki af öðrum ástæðum ráðningarkjör starfsmanna þess, engu þar breytt. Var Í sýknað af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu Samtök atvinnulífsins kjarasamning 7. mars 2004 við Eflingu - stéttarfélag og tvö önnur verkalýðsfélög, sem gilda átti frá 1. sama mánaðar til 31. desember 2007. Í grein 10.4. í kjarasamningnum voru ákvæði um lífeyrissjóði, þar sem meðal annars var vísað til þess að samningar tiltekinna samtaka launþega og vinnuveitenda um lífeyrissjóði frá 19. maí 1969 og um lífeyrismál frá 12. desember 1995 skyldu gilda milli aðila kjarasamningsins eftir því, sem við ætti. Skyldi starfsmaður greiða iðgjald til lífeyrissjóðs, sem næmi 4% af öllum launum, en atvinnurekandi með sama hætti 6%. Frá 1. janúar 2005 skyldi framlag launagreiðenda „í samtryggingarlífeyrissjóði“ hækka í 7% og frá sama degi 2007 í 8%, en samhliða því yrði létt af þeim tilteknum skyldum, sem ekki er ástæða til að geta hér nánar.
Við gerð framangreinds kjarasamnings var starfandi Lífeyrissjóðurinn Framsýn, en samkvæmt samþykktum hans 23. apríl 2002, sem staðfestar voru af fjármálaráðherra 21. júní sama ár, áttu aðild að honum þeir launamenn, sem náð höfðu 16 ára aldri og byggðu starfskjör sín eða ráðningarkjör á kjarasamningum Eflingar stéttarfélags eða þriggja annarra nafngreindra verkalýðsfélaga, án tillits til þess hvort þeir væru þar félagsmenn, ef þeir ættu ekki rétt á að velja aðild að öðrum lífeyrissjóði. Í 9. kafla samþykktanna var mælt svo fyrir að iðgjöld til lífeyrissjóðsins skyldu vera 10% af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir vinnu sjóðfélaga á tilteknu aldursbili og ættu þau að mynda rétt til samtryggingarverndar eftir ákvæðum samþykktanna. Væri um launamann að ræða ætti hann að greiða þessi iðgjöld að 4/10 hlutum, en launagreiðandi að 6/10. Þess var þó getið að með samþykki stjórnar sjóðsins mætti í kjarasamningi „semja um hærra iðgjald og fer um það og réttindaávinnslu þess með sama hætti, nema öðru vísi sé ákveðið í viðkomandi kjarasamningi.“ Lífeyrissjóðurinn Framsýn starfaði enn eftir óbreyttum samþykktum að þessu leyti 1. janúar 2005 og allt þar til stefndi, Gildi lífeyrissjóður, tók til starfa samkvæmt samþykktum 1. júní sama ár við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna. Í 9. kafla þessara samþykkta stefnda voru ákvæði um iðgjöld, þar sem sagði að til samtryggingardeildar hans skyldu þau vera samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi, þó ekki lægri en 12% og ekki hærri en 15,5% af launatekjum sjóðfélaga á aldursbilinu 16 til 70 ára. Sett var það ákvæði til bráðabirgða að lágmarksiðgjald yrði 11% til 31. desember 2006. Tekið var fram að sjóðfélaga væri heimilt að hækka eða lækka iðgjaldið innan framangreindra marka með skriflegum samningi við stefnda. Þá var mælt svo fyrir að við innheimtu iðgjalda skyldi miðað við að iðgjaldahluti launamanns væri 4%, en launagreiðanda það, sem umfram væri, þó að lágmarki 6%, ef annað lægi ekki fyrir.
Þegar fyrrgreind ákvæði kjarasamnings um iðgjöld til lífeyrissjóða komu til framkvæmdar 1. janúar 2005 gilti sú regla samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að lágmarksiðgjald skyldi vera 10%, en að öðru leyti yrði það ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar var mælt svo fyrir að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu iðgjalds og skiptingu þess milli launamanns og launagreiðanda færi eftir þeim kjarasamningi, sem réði lágmarkskjörum í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við ætti. Tæki kjarasamningur ekki til starfssviðs eða væru ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi kæmi í hlut viðkomanda að velja sér lífeyrissjóð eftir því, sem reglur einstakra sjóða leyfðu. Aðild að lífeyrissjóði skyldi tiltekin í skriflegum ráðningarsamningi. Með 1. gr. laga nr. 167/2006, sem tóku gildi 1. janúar 2007, var áðurnefnt lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 hækkað úr 10% í 12% af iðgjaldsstofni.
Á tímabilinu frá ágúst 1998 til ársloka 2004 gerði áfrýjandi, sem stendur utan Samtaka atvinnulífsins og óumdeilt er að eigi ekki af öðrum sökum aðild að kjarasamningum við einstök stéttarfélög, sem hér skipta máli, skriflega ráðningarsamninga meðal annars við tíu starfsmenn. Í þessum samningum var kveðið á um tiltekna fjárhæð mánaðarlauna, sem fæli í sér fullnaðargreiðslu fyrir vinnu, sem starfsmaður innti af hendi, þar á meðal utan reglulegs vinnutíma og fyrir hvers kyns verkefni í tengslum við vinnu. Þá voru efnislega sams konar fyrirmæli í þessum samningum um að starfsmaður greiddi 4% iðgjald af heildarlaunum í lífeyrissjóð „að eigin vali“, en áfrýjandi 6% af sömu fjárhæð. Í ráðningarsamningunum var í engu vísað til kjarasamnings, en fyrir liggur að meðal þessara tíu starfsmanna voru einhverjir félagsmenn í Eflingu - stéttarfélagi. Óumdeilt er að starfsmennirnir, sem hér um ræðir, völdu eftir ákvæðum ráðningarsamninga sinna Lífeyrissjóðinn Framsýn til að greiða iðgjöld í, þótt ekkert hafi verið tiltekið um það í samningunum, svo og að áfrýjandi hafi til ársloka 2004 staðið full skil á iðgjöldum vegna þessara starfsmanna til sjóðsins, bæði iðgjaldahluta þeirra og sínum. Frá ársbyrjun 2005 greiddi áfrýjandi á hinn bóginn sama umsamda hundraðshluta launa þessara starfsmanna til lífeyrissjóðsins án tillits til þeirrar hækkunar, sem kveðið var á um í kjarasamningi og síðar í samþykktum stefnda. Í apríl og júlí 2005 gerði áfrýjandi jafnframt ráðningarsamninga við tvo nýja starfsmenn, þar sem voru sams konar ákvæði og áður var getið um heildarlaun og þátttöku í lífeyrissjóði, og völdu þessir starfsmenn að greitt yrði í þeirra þágu í Lífeyrissjóðinn Framsýn eða eftir atvikum til stefnda. Gegndi sama máli og áður getur um greiðslu áfrýjanda á iðgjöldum til sjóðanna vegna þessara tveggja starfsmanna. Lífeyrissjóðurinn Framsýn, sem sent hafði iðgjaldagreiðendum dreifibréf 20. janúar 2005 til að vekja athygli á hækkun iðgjalda frá 1. sama mánaðar, krafði áfrýjanda 10. mars 2005 um iðgjöld, sem hann taldi vangoldin vegna janúar á því ári og svöruðu til 1% af iðgjaldsstofni þeirra tíu starfsmanna áfrýjanda, sem þá voru sjóðfélagar þar. Þessu hafnaði áfrýjandi 6. apríl 2005. Að undangengnum frekari bréfaskiptum höfðaði stefndi mál þetta 23. nóvember 2005 til viðurkenningar á því að áfrýjanda bæri að standa sér skil á 4% iðgjaldahluta starfsmanna sinna, sem áður er getið, ásamt 7% mótframlagi sínu á starfstímabili hvers þeirra frá byrjun árs til og með september 2005, sem nánar er getið í héraðsdómsstefnu. Ekki er ágreiningur um að stefndi sé réttur aðili til að gera þessa kröfu vegna þess tímabils á árinu 2005, sem iðgjöld vegna umræddra starfsmanna voru greidd til Lífeyrissjóðsins Framsýnar.
II.
Á þeim tíma, sem dómkrafa stefnda tekur til, var lögbundið lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða 10% af iðgjaldsstofni, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Þá er sem fyrr segir óumdeilt að áfrýjandi standi utan samtaka atvinnurekenda og hafi ekki á annan hátt gengist undir kjarasamninga, sem geta varðað stefnda eða snúið að kjörum launþega í starfsstéttum þeirra starfsmanna hans, sem dómkrafa stefnda tekur til. Ræðst þannig niðurstaða málsins af því hvort áfrýjandi geti allt að einu verið bundinn að lögum af þeirri ákvörðun um hækkun iðgjalda til lífeyrissjóða, sem tekin var með kjarasamningi 7. mars 2004 og leidd var í samþykktir stefnda 1. júní 2005.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði, sem samningurinn tekur til. Ákvæði þetta verður ekki skýrt svo að það bindi hendur launagreiðanda og starfsmanns um sérhvert atriði ráðningarsamnings eitt út af fyrir sig, heldur verði starfskjör metin í einni heild að nema því lágmarki, sem kjarasamningur tryggir, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. febrúar 2000 í máli nr. 351/1999, sem birtur er í dómasafni 2000 bls. 423. Áfrýjandi heldur því fram að með þeim heildarlaunum, sem kveðið var á um í ráðningarsamningum starfsmanna hans sem dómkrafa stefnda varðar, hafi þeir búið við talsvert hagstæðari starfskjör en þeim hefðu borið eftir kjarasamningum, sem ella hefðu tekið til starfa þeirra. Breyti þar engu þótt starfskjör samkvæmt þeim kjarasamningum hafi verið bætt sem svarar þeirri hækkun á framlagi launagreiðenda í lífeyrissjóði, sem kjarasamningur mælti fyrir um frá 1. janúar 2005 að telja. Þessum staðhæfingum hefur stefndi ekki hnekkt. Samkvæmt þessu getur áfrýjandi ekki verið bundinn af þessu eina afmarkaða atriði kjarasamningsins frá 7. mars 2004 vegna ákvæða laga nr. 55/1980.
Eins og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 hljóðaði fyrir gildistöku 1. gr. laga nr. 167/2006 var lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs sem áður segir 10% af iðgjaldsstofni, en að öðru leyti átti iðgjaldið að ráðast af sérlögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi eða á annan sambærilegan hátt. Um starfsmenn áfrýjanda, sem málið varðar, giltu ekki sérlög og voru ráðningarkjör þeirra ekki byggð á kjarasamningi, heldur ráðningarsamningum, sem einnig geta ráðið öðrum atriðum varðandi þátttöku launamanna í lífeyrissjóðum, svo sem berum orðum kemur fram í 2. málslið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Í ráðningarsamningunum var skýrlega kveðið á um að iðgjald vegna starfsmannanna í lífeyrissjóð skyldu vera 10%, þar af 6% úr hendi áfrýjanda. Gat kjarasamningur, sem varðaði ekki ráðningarkjör þeirra, engu þar breytt. Þótt samþykktum stefnda hafi verið breytt frá 1. júní 2005 á þann veg að lágmarksiðgjald varð 11% af iðgjaldsstofni gat sú ákvörðun ekki bundið áfrýjanda, sem var ekki samningsbundinn stefnda um aðild starfsmanna sinna, enda voru þeir þar sjóðfélagar eftir eigin vali, svo sem leiddi af orðalagi ráðningarsamninga þeirra. Stefnda var í sjálfsvald sett að neita að taka við iðgjöldum vegna starfsmanna áfrýjanda frá þeim tíma, sem stefndi taldi þau orðin lægri en nam tilskildu lágmarki samkvæmt ákvörðun hans eða samþykktum, en sú afstaða hans að telja starfsmenn þessa áfram til sjóðfélaga gat ekki lagt skuldbindingu á áfrýjanda til að greiða hærri iðgjöld fyrir sitt leyti. Getur dómkrafa stefnda því heldur ekki sótt stoð til laga nr. 129/1997.
Samkvæmt framangreindu verður áfrýjandi sýknaður af dómkröfu stefnda, sem dæmdur verður til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Íslensk erfðagreining ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Gildis - lífeyrissjóðs.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 7. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gildi lífeyrissjóði, kt. 561195-2779, Sætúni 1, Reykjavík, með stefnu birtri 23. nóvember 2005 á hendur Íslenzkri erfðagreiningu ehf., kt. 691295-3549, Sturlugötu 8, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði dómi, að stefnda sé skylt að halda eftir af launum 4% iðgjöldum launamanna og standa stefnanda skil á þeim ásamt eigin iðgjaldahluta, 7% mótframlagi, vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda eftirtalinna starfsmanna stefnda á þeim iðgjaldatímabilum sem hér greinir:
Unnar Rósar Jóhannesdóttur, kt. 020753-5609, janúar til og með september 2005,
Málfríðar Önnu Gunnlaugsdóttur, kt. 031175-3139, janúar t.o.m. september 2005,
Svandísar Jeremíasdóttur, kt. 070442-4939, janúar t.o.m. september 2005,
Katrínar Óskarsdóttur, kt. 100775-4689, janúar t.o.m. september 2005,
Dagbjartar Guðmundsdóttur, kt. 110243-4489, janúar t.o.m. september 2005,
Hákonar Aðalsteinssonar, kt. 171279-3569, janúar og febrúar 2005,
Hrafnhildar Helgu Antonsdóttur, kt. 200569-3349, janúar t.o.m. september 2005,
Ólínu Ingibjargar Jóhannesdóttur, kt. 221280-4749, janúar t.o.m. september 2005,
Theodóru Thorlacíus, kt. 240574-4119, janúar t.o.m. september 2005,
Önnu Birnu Jónsdóttur, kt. 260479-5989, september 2005,
Gínu B. Cuizon, kt. 310765-2449, janúar t.o.m. september 2005 og
Stellu Ingibjargar Sverrisdóttur, kt. 310775-3129, apríl t.o.m. september 2005.
Þá er þess krafizt, að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda um, að mótframlag stefnda á iðgjaldahluta hans sem vinnuveitanda í lífeyrissjóð vegna tilgreindra starfsmanna stefnda hækki úr 6% í 7% fyrir tímabilið frá 1. janúar 2005 til og með 31. maí 2005. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að með undirritun nýs kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (Flóabandalagsins) við Samtök atvinnulífsins (SA), þann 7. marz 2004 með gildistíma til 31. desember 2007, var samið um hækkun mótframlags atvinnurekanda í samtryggingarsjóð úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og í 8% frá og með 1. janúar 2007, sbr. gr. 10.4. Frá 1. janúar 2005 féll um leið niður ákvæði um skyldu atvinnurekanda til þess að greiða 1% mótframlag til séreignarsjóðs óháð framlagi starfsmanns. Fleiri stéttarfélög innan vébanda ASÍ sömdu á sama hátt.
Með bréfi Lífeyrissjóðsins Framsýnar til allra atvinnurekenda, sem greiða til sjóðsins, þ.á m. stefnda, dags. 20. janúar 2005, var athygli vakin á því, að frá 1. janúar 2005 hefði mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkað úr 6% í 7%, og að frá sama tíma næmi lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðsins þannig 11%.
Þann 15. febrúar 2005 barst Lífeyrissjóðnum Framsýn skilagrein frá stefnda vegna iðgjalda til lífeyrissjóðsins tímabilið janúar 2005, samtals að fjárhæð kr. 179.303, ásamt greiðslu. Á skilagreininni komu fram sundurliðaðar upplýsingar um iðgjaldagreiðslur vegna 10 nafngreindra starfsmanna stefnda. Á skilagreininni gat að finna sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð 4% framlags starfsmanna og 6% mótframlags stefnda til lífeyrissjóðsins. Samhliða greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda stóð stefndi enn fremur skil á greiðslu til Lífeyrissjóðsins Framsýnar vegna sjóðagjalda Eflingar-stéttarfélags fyrir janúarmánuð 2005, sem innheimtuaðila sjóðagjaldanna samkvæmt samningi þar um.
Með bréfi Lífeyrissjóðsins Framsýnar til stefnda, dags. 10. marz 2005, var stefnda gert viðvart um, að framkomin skilagrein vegna janúar 2005 væri í ósamræmi við útreikninga lífeyrissjóðsins og að vantað hefði upp á greiðslu stefnda til lífeyrissjóðsins. Forsendur útreiknings lífeyrissjóðsins voru þær, að stefnda hefði borið frá 1. janúar 2005 að standa skil á samtals 11% iðgjaldi í lífeyrissjóð, eða 4% framlagi starfsmanna og 7% mótframlagi atvinnurekanda, sbr. kjarasamning Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis við Samtök atvinnulífsins frá því í marz 2004 um hækkun mótframlags atvinnurekanda í samtryggingasjóð úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005.
Með bréfi stefnda til Lífeyrissjóðsins Framsýnar, dags. 6. apríl 2005, var því mótmælt af hálfu stefnda, að honum bæri skylda til þess að inna af hendi 7% mótframlag atvinnurekanda. Vísaði stefndi m.a. til þess, að hann væri ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins, og þar með væri hann ekki bundinn af ákvæðum kjarasamninga stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Gerðir hefðu verið einstaklingsbundnir ráðningarsamningar við starfsmenn, sem uppfylltu ákvæði laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Stefndi hefði boðið starfsmönnum sínum að greiða 1% viðbótarframlag í lífeyrissjóð, og væri það á valdi starfsmanna að velja, hvert framlagið rynni. Var í bréfinu enn fremur skorað á lífeyrissjóðinn að draga til baka skuldajöfnun á greiðslum stefnda upp í meinta skuld stefnda við sjóðinn.
Bréfi stefnda var svarað með bréfi Lífeyrissjóðsins Framsýnar, dags. 22. apríl 2005. Voru í bréfinu færð fram rök af hálfu lífeyrissjóðsins fyrir greiðsluskyldu stefnda og þeim tilmælum beint til stefnda að standa skil á 7% mótframlagi til lífeyrissjóðsins af þeim starfsmönnum stefnda, sem greitt væri af til sjóðsins.
Tilmælum lífeyrissjóðsins var hafnað af stefnda með bréfi, dags. 2. júní 2005, og ítrekuð sú afstaða stefnda, að hann teldi sig óbundinn af því að greiða 7% mótframlag í lífeyrissjóð.
Frá janúar 2005 að telja til og með september 2005 hefur stefndi sent inn skilagreinar vegna lífeyrisiðgjalda til Lífeyrissjóðsins Framsýnar og síðar stefnanda, sem allar byggja á sömu forsendum, þ.e. 4% iðgjaldahluta launamanna og 6% mótframlagi stefnda, og hefur fjöldi starfsmanna, sem greitt er fyrir, verið mismunandi eftir mánuðum eða á bilinu 9-12.
Ágreiningur aðila stendur um, hvort stefndi beri skyldur samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (Flóabandalagsins) umfram það, sem hann telur sér skylt samkvæmt lögum. Þannig mótmælir stefndi því, að ákvæði ofangreindra kjarasamninga um hækkun á mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 séu skuldbindandi fyrir stefnda. Stefndi viðurkennir skyldu sína til að halda eftir af launum 4% iðgjöldum launamanna og standa stefnanda skil á þeim, ásamt eigin iðgjaldahluta, 6% mótframlagi, vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda starfsmanna stefnda, og er ekki ágreiningur um, að stefndi hafi staðið stefnanda skil á þeim greiðslum að fullu.
Stefndi kveðst gera einstaklingsbundna ráðningarsamninga við alla starfsmenn sína og í þeim samningum sé með tæmandi hætti kveðið á um gagnkvæmar skyldur og réttindi stefnda og starfsmanna stefnda. Stefndi kveðst ekki vera aðili að Samtökum atvinnulífsins eða öðrum samtökum á almennum vinnumarkaði og því ekki vera bundinn af ákvæðum kjarasamninga Eflingar-stéttarfélags eða annarra stéttarfélaga umfram það, sem ákveðið sé í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980. Í ráðningarsamningum stefnda við viðkomandi starfsmenn sé kveðið á um greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð að eigin vali starfsmanns, þannig að stefndi greiði 6%, en starfsmaður 4%. Þá hafi starfsmönnum verið gefinn kostur á að leggja til viðbótarframlag í séreignarsjóð, þannig að stefndi leggi fram allt að 2% framlag gegn a.m.k. 2% framlagi starfsmanns. Þessu til viðbótar hafi fastráðnum starfsmönnum frá og með árinu 2005 verið gefinn kostur á að undirrita nýja ráðningarsamninga, sem kveði á um rétt starfsmanns til að vinnuveitandi greiði 1% viðbótarframlag, annað hvort í lífeyrissjóð eða séreignarsjóð, að vali starfsmanns.
III
Málsástæður stefnanda
Aðild stefnanda er byggð á því, að þann 1. júní 2005 hafi Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna sameinazt, og til hafi orðið stefnandi, Gildi-lífeyrissjóður, sem hafi tekið yfir réttindi og skyldur hinna sameinuðu sjóða, þar með taldar kröfur samkvæmt stefnu þessari. Nýjar samþykktir hafi tekið gildi fyrir stefnanda þann 1. júní 2005.
Stefnandi styður kröfur sínar eftirgreindum rökum:
Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hafi verið sett almenn lög um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra. Á sama tíma hafi verið felld úr gildi ákvæði um lífeyrissjóði, sem verið höfðu í lögum 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ákvæði laganna um lágmarkskjör hafi þó haldið fullu gildi, þ.m.t. um kjarasamningsbundin lágmarksiðgjöld til lífeyrissjóða.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997, skuli ákveða iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Sé jafnframt kveðið á um, að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera a.m.k. 10% af iðgjaldastofni. Unnt sé að kveða á um hærra iðgjald í kjarasamningi, sbr. nánar gr. 9.1 í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar og samþykktum stefnanda. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 komi fram, að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir þeim kjarasamningi, sem ákvarði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við eigi. Segi enn fremur að tiltaka skuli aðild að lífeyrissjóði í skriflegum ráðningarsamningi.
Í 2. kafla samþykkta Lífeyrissjóðsins Framsýnar komi fram, að sjóðurinn starfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda á grundvelli samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995, og tryggi sjóðurinn þau lágmarksréttindi, sem þar greini. Um aðild að sjóðnum sé fjallað í 3. kafla samþykktanna. Samsvarandi ákvæði gefi að finna í 2. og 3. kafla samþykkta stefnanda, sem tekið hafi gildi þann 1. júní 2005. Í 9. kafla samþykkta Lífeyrissjóðsins Framsýnar, gr. 9.1, komi fram, að lágmarksiðgjald til sjóðsins sé 10% af launum sjóðfélaga. Með samþykki stjórnar sjóðsins sé hægt að semja um hærra iðgjald í kjarasamningi. Í gr. 9.1 í samþykktum stefnanda sé að finna nýtt ákvæði um lágmarksiðgjaldaprósentu til stefnanda. Þar komi fram, að iðgjald til samtryggingardeildar stefnanda skuli vera, samkvæmt kjara- eða ráðningarsamningi, ekki lægra en 12% og ekki hærra en 15,5% af launatekjum sjóðfélaga. Heimilt sé að hækka eða lækka iðgjald til samtryggingaverndar innan framangreindra marka samkvæmt sérstökum samningi. Í gr. 9.1 í samþykktum stefnanda sé enn fremur bráðabirgðaákvæði, sem kveði á um, að lágmarksiðgjald skuli þó vera 11% til 31. desember 2006.
Eins og áður sé rakið, hafi verið samið um hækkum mótframlags atvinnurekanda í samtryggingarsjóð úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og í 8% frá og með 1. janúar 2007 í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (Flóabandalagsins) við Samtök atvinnulífsins (SA), sem undirritaður hafi verið 7. marz 2004, með gildistíma til 31. desember 2007, gr. 10.4. Frá 1. janúar 2005 hafi um leið fallið niður ákvæði um skyldu atvinnurekanda til þess að greiða 1% mótframlag til séreignarsjóðs, óháð framlagi starfsmanns. Lífeyrissjóðurinn Framsýn og stefnandi, Gildi - lífeyrissjóður, hafi samþykkt hækkun iðgjaldsins í samræmi við gr. 9.1 í samþykktum sínum.
Í 2. gr. laga Eflingar-stéttarfélags komi fram, að félagið fari með kjarasamningsfyrirsvar fyrir verkafólk á samningssvæði félagsins, sem starfi í eftirtöldum starfsgreinum, sem og öðrum hliðstæðum starfsgreinum:
a) við fermingu og affermingu skipa og hvers konar annarra flutningstækja svo og móttöku og afhendingu farms,
b) við húsbyggingar og efnisflutninga vegna byggingaframkvæmda,
c) við hafnargerð, vegagerð, skurðgröft, landbúnaðarstörf og efnisflutninga, sem tengist áðurnefndum starfsgreinum,
d) í þjónustu ríkis og sveitarfélaga,
e) í heimaþjónustu, á leikskólum, við umönnun á sjúkrahúsum og stofnunum, í þvottahúsum og saumastofum sjúkrastofnana,
f) við ræstingar, hreinlætisstörf, efnalaugar og þvottahús,
g) við mötuneytisstörf,
h) við varðstörf, öryggisvörzlu og fjármunaflutninga,
i) á veitinga- og gististöðum,
j) við vinnslu og sölu sjávarafurða og landbúnaðarafurða,
k) í iðnaði og í verksmiðjum, svo sem járnsmíði, skipasmíði, blikksmíði (tunnugerð), garðyrkju, byggingar- og þungaiðnaði,
1) við móttöku og afhendingu vara, þ.m.t. bifreiðastjórar,
m) við olíu-, bensín-, smur-, bón- og ryðvarnarstöðvar og hjólbarðaverkstæði,
n) við stjórn vöruflutningabifreiða í þjónustu annarra og við stjórn á stórvirkum vinnutækjum, svo sem ýtum, vélskóflum og vélkrönum,
o) við orkufrekan iðnað, jarðgangagerð, virkjanir og aðrar stórframkvæmdir, sem séu sambærilegar við hliðstæðar nýjar starfsgreinar og
p) við hvers konar önnur framleiðslu- og flutningastörf. Um réttindi Eflingar-stéttarfélags og afstöðu félagsins til atvinnurekenda fer samkvæmt I. kafla laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Samkvæmt fyrirliggjandi skilagreinum frá stefnda vegna iðgjalda í lífeyrissjóð fyrir árið 2005 og upplýsingum frá starfsmannahaldi stefnda hafi stefndi greitt iðgjöld til Lífeyrissjóðsins Framsýnar vegna janúar til og með maí 2005 og til stefnanda vegna júní til og með september 2005 af samtals 13 starfsmönnum, sem taldir séu upp í dómkröfum. Undir rekstri málsins hafi stefnandi fallið frá kröfum vegna starfsmannsins, Sigrúnar Birnu Sigurðardóttur, og breytt dómkröfum vegna starfsmannsins, Hákonar Aðalsteinssonar. Starfsmennirnir gegni, og hafa gegnt, mismunandi störfum og á mismunandi tímabili, sbr. sundurliðun hér að neðan:
starfstímabil árið 2005 x = unnir mánuðir starfstímabil árið 2005 x = unnir mánuðir
|
Nafn |
starfsheiti |
jan |
feb |
mar |
apr |
mai |
jún |
júl |
ágú |
sep |
|
Unnur Rós Jóhannesdóttir |
ræsting |
X |
X |
X |
y |
Y |
X |
X |
X |
X |
|
MálfríðurAnna Gunnlaugsdóttir |
aðstm. á ranns.stofu |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Sigrún Birna Sigurðardóttir |
ræsting |
|
|
|
|
X |
X |
X |
X |
|
|
Svandís Jeremíasdóttir |
ræsting |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Katrín Óskarsdóttir |
aðstm. á ranns.stofu |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Dagbjört Guðmundsdóttir |
ræsting |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Hákon Aðalsteinsson |
aðstm. á ranns.stofu |
X |
X |
|
|
X |
X |
X |
X |
|
|
Hrafnhildur Helga Antonsdóttir |
hópstjórn |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir |
aðstm. á ranns.stofu |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Theodóra Thoralcius |
sérfræðingur |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Anna Birna Jónsdóttir |
móttaka |
|
|
|
|
|
|
|
|
X |
|
Gína B. Cuizon |
ræsting |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
X |
|
Stella Ingibjörg Sverrisdóttir |
aðstm. á ranns.stofu |
|
|
|
X |
X |
x |
X |
X |
X |
Sé tekið mið af starfssviði framangreindra starfsmanna, sé ljóst, að kjarasamningur Flóabandalagsins (Eflingar-stéttarfélags o.fl.) við SA ákvarði lágmarkskjör við ræstingastörf. Efling-stéttarfélag fari sömuleiðis með kjarasamningafyrirsvar fyrir ófaglært verkafólk, sem sinni störfum við móttöku hjá fyrirtækjum og stofnunum og á rannsóknarstofum, hvort heldur sé hjá ríki eða á almenna vinnumarkaðinum, og megi þar nefna sem dæmi starfsfólk á rannsóknarstofum í iðnaði, s.s. lyfjaframleiðslu, málningariðnaði o.fl., starfsfólk og hópstjóra á spítölum, s.s. á slysa- og bráðasviði, skurðstofum o.fl. Séu þau störf sambærileg störfum aðstoðarmanna á rannsóknarstofum, hópstjóra og starfsfólks í móttöku hjá stefnda.
Af hálfu stefnanda sé á því byggt, að af ákvæðum kjarasamninga framangreindra stéttarfélaga, lögum stéttarfélaganna, samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar og samþykktum stefnanda, ráðningarsamningum þeirra 13 starfsmanna stefnanda, sem mál þetta varði, ákvæðum laga nr. 129/1997 og 1. gr. laga nr. 55/1980, leiði, að lágmarkskjör í þeim starfsgreinum, sem framangreindir starfsmenn starfi við, feli í sér skyldu fyrir stefnda sem atvinnurekanda að inna af hendi 7% mótframlag í lífeyrissjóð frá og með 1. janúar 2005 að telja gegn 4% framlagi starfsmanns, sem stefnda beri að halda eftir af launum starfsmanna sinna og skila til stefnanda. Stefndi sé þannig bundinn af því að greiða a.m.k. samtals 11% til samtryggingarsjóðs stefnanda á árinu 2005 fyrir það starfsfólk, sem mál þetta varði, þ.e. 7% mótframlag gegn 4% framlagi starfsmanns. Að mati stefnanda hafi dómur Hæstaréttar í málinu nr. 107:2005: Mýflug hf. gegn Eftirlaunasjóði atvinnuflugmanna, fordæmisgildi í þessu máli. Með samningi stefnda við starfsmenn sína og skilum á skilagreinum ásamt greiðslum til stefnanda sé stefndi skuldbundinn til þess að fara að samþykktum stefnanda, þ.á.m. um greiðslu 11% iðgjalds til lágmarkstryggingaverndar. Með skilum stefnda samkvæmt skilagreinum á árinu 2005 hafi hann staðfest skuldbindingu sína í verki.
Vegna fullyrðinga stefnda um, að hann hafi gert einstaklingsbundna ráðningarsamninga við alla starfsmenn sína, þ.á m. þá starfsmenn, sem greitt sé fyrir til stefnanda, og að starfskjör starfsmanna stefnda byggist ekki á kjarasamningi, sé þeim fullyrðingum stefnda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Að mati stefnanda breyti það engu fyrir úrlausn máls þessa, þó svo að stefndi kunni að yfirborga starfsmenn sína að einhverju leyti, hvað varði mánaðarlegar launagreiðslur, eins og fullyrt sé af hálfu stefnda. Iðgjöldum beri að skila af heildarfjárhæð greiddra launa samkvæmt 3. gr. laga nr. 129/1997. Þá sé því og mótmælt, að kjör starfsmannanna samkvæmt heildarmati, eins og stefndi hafi komizt að orði, geti að lögum leitt til annarrar niðurstöðu en krafizt sé í málinu af hálfu stefnanda gegn skýlausum ákvæðum 2. gr. laga nr. 129/1997, sbr. og 1. gr. laga nr. 55/1980 og samþykktum stefnanda. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því, að kjör starfsmanna hans fái staðizt ákvæði kjarasamninga aðildarsamtaka vinnumarkaðarins og laga um lágmarkskjör. Vegna ummæla stefnda um, að stefnandi hafi viðhaft óheimilan skuldajöfnuð gagnvart stefnda, liggi fyrir, að ráðstöfun þeirra greiðslna, sem stefnanda hafi borizt frá stefnda, hafi í einu og öllu verið samkvæmt samþykktum stefnanda, gr. 9.10, og Lífeyrissjóðsins Framsýnar, gr. 9.10, sem settar séu á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og staðfestar af fjármálaráðherra.
Um lagarök vísi stefnandi til ákvæða laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, einkum 1. og 2. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, einkum 1. gr., laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum I. kafla, samþykkta stefnanda og Lífeyrissjóðsins Framsýnar, kjarasamnings Flóabandalagsins (Eflingar-stéttarfélags o.fl.) við Samtök atvinnulífsins og laga Eflingar-stéttarfélags. Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt sé gerð á grundvelli laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur.
Málsástæður stefnda
Stefndi mótmælir málsástæðum og lagarökum stefnanda, sem fram komi í dskj. nr. 1 og byggir sýknukröfu sína annars vegar á aðildarskorti stefnanda og hins vegar á því, að engin greiðsluskylda hvíli á stefnda umfram það, sem hann hafi þegar greitt stefnanda samkvæmt ráðningarsamningum viðkomandi launþega, þ.e. 4% iðgjaldi launamanna og 6% mótframlagi stefnda sem vinnuveitanda.
Um aðild málsins láti stefnandi nægja að vísa til sameiningar lífeyrissjóða á árinu 2005. Stefndi mótmæli því, að stefnandi eigi aðild að kröfu þeirri, sem hér um ræði, þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hvorki hafi hann umboð neins þeirra einstaklinga, sem upp séu taldir í stefnu til málssóknar þessarar, né hafi neinn þeirra kvartað til stefnanda eða farið fram á aðgerðir stefnanda gagnvart stefnda. Stefndi haldi því fram, að aðild máls þessa, sem rekið sé sem viðurkenningarmál, geti ekki byggzt á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991, þar sem stefnandi sé ekki rétthafi greiðslna þeirra, sem stefndi sé krafinn um, heldur viðkomandi einstaklingur, sem með inngreiðslum ávinni sér réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóði. Þá geti sóknaraðild málsins að mati stefnda ekki byggzt á 3. mgr. ofangreindrar 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem krafa stefnanda fullnægi ekki því lagaskilyrði að gæta hagsmuna viðkomandi sjóðfélaga. Sé það ljóst af þeirri staðreynd, að stefndi hafi boðið öllum starfsmönnum sínum á starfsmannafundi í janúar 2005 og ítrekað hafi verið í byrjun júní, sbr. dskj. nr. 19, að fyrirtækið greiddi 1% framlag í lífeyrissjóð til viðbótar við 6% mótframlag atvinnurekanda, og sé það innifalið í nýju formi stefnda að ráðningarsamningum, og hafi hver einstakur starfsmaður stefnda val um, hvort það viðbótarframlag renni í séreignarsjóð eða sameignarsjóð. Enginn starfsmaður stefnda hafi kosið að láta þá greiðslu renna til stefnanda. Hagsmunaráð ÍE, sem í eigi sæti 6 fulltrúar, kosnir af starfsmönnum stefnda ásamt fulltrúum stefnda, hafi hvatt starfsmenn á fundi sínum hinn 19. maí 2005 til að undirrita nýjan ráðningarsamning og nýta sér þessi viðbótarréttindi. Öllum starfsmönnum stefnda hafi verið send ofangreind fundargerð í tölvupósti, sbr. dskj. nr. 19. Með því að hafa frjálst val um ráðstöfun 1% viðbótarframlags í lífeyrissjóð, hafi starfsmenn stefnda því að þessu leyti betri kjör en gert sé ráð fyrir samkvæmt kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags eða samþykktum stefnanda.
Stefnandi telji í stefnu sinni, að lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 geri stefnda bundinn af kjarasamningi milli Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, er kveði á um tiltekin lágmarkskjör, jafnvel þótt stefndi sé ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins. Stefnandi virðist í málatilbúnaði sínum ganga út frá því, að ákvæði kjarasamninga á almennum markaði skapi stefnanda rétt til að krefja alla launagreiðendur um framlög í lífeyrissjóð í samræmi við þá samninga, óháð heildarlaunum viðkomandi starfsmanna og umfram þá skyldu, sem lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveði á um.
Stefndi byggi á því, að hann sé ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins og því ekki samningsaðili að kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, sem stefnandi byggi kröfu sína á, um að mótframlag stefnda í lífeyrissjóð skuli hækka úr 6% í 7%. Stefnandi geti þannig ekki gert neinar kröfur á hendur stefnda umfram það, sem sé tryggt í lögum nr. 55/1980 og lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefndi sé ekki skyldugur til að vera aðili að samtökum atvinnurekenda, m.a. samkvæmt 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Réttur stefnda sem atvinnurekanda til þess að standa utan við almenn samtök á vinnumarkaði sé skýr og megi m.a. sjá þess merki í 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Þá byggi stefndi á því, að í ráðningarsamningum milli stefnda og starfsmanna stefnda á dskj. nr. 18 sé hvergi að finna skuldbindingu af hálfu stefnda, um að hann sé bundinn af efni eða ákvæðum kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags. Í ráðningarsamningi milli stefnanda og stefnda á dskj. nr. 18 sé fjallað um réttindi og skyldur aðila hans með tæmandi hætti. Þann samning hafi stefndi efnt að fullu við starfsmenn sína.
Stefndi byggi á því, að í 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé ákvarðað lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs, sem sé 10% af iðgjaldsstofni. Stefndi hafi að fullu uppfyllt ofangreinda lagaskyldu með greiðslum til stefnanda og hafni því, að á honum hvíli frekari greiðsluskylda.
Stefndi mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda, að ákvæði kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins um viðbótargreiðslur í lífeyrissjóð séu skuldbindandi fyrir stefnda, sem ekki sé aðili að Samtökum atvinnulífsins eða nokkrum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Að mati stefnda skipti þar engu máli, hvort starfsmenn stefnda vinni störf, sem fallið geti undir almennt fyrirsvar viðkomandi stéttarfélags, enda sé skýrt í 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að heimilt sé að ákveða iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda með ráðningarsamningi. Þá sé einnig ljóst af 2. ml. 2. mgr. 2. gr. sömu laga, að launþega sé heimilt að velja sér lífeyrissjóð, ef ráðningarbundin starfskjör séu ekki byggð á kjarasamningi. Stefndi selji starfsmönnum sínum algjört sjálfdæmi um, í hvaða lífeyrissjóð þeir kjósi að greiða iðgjald, og stefndi hafni alfarið fullyrðingu stefnanda um, að með því að skila lögbundnum skilagreinum og greiðslum til stefnanda felist viðurkenning stefnda á samþykktum stefnanda, sem kveði á um greiðsluskyldu umfram lögákveðið lágmark.
Því haldi stefndi því fram, að ofangreindar samþykktir stefnda og ákvæði kjarasamninga Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins eigi sér ekki lagastoð og séu því ekki skuldbindandi fyrir stefnda, sbr. ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ljóst sé, að stjórnvöld í landinu séu sömu skoðunar, sem sjáist bezt á því, að fjármálaráðherra, í umboði ríkisstjórnar Íslands, hafi, hinn 25. nóvember 2005, lagt fram frumvarp til breytinga á ofangreindum 2. ml. 1. mgr. 2. gr. ofangreindra laga nr. 129/1997, sem kveði á um breytingu á núgildandi lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs, úr 10% í 12%, en frumvarpið sé nú til meðferðar á Alþingi. Breyting sú, sem lögð sé til í ofangreindu lagafrumvarpi, sé samhljóða efnislegri niðurstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, þar á meðal kjarasamninga þeirra, sem stefnandi byggi málssókn sína á, sbr. almennar athugasemdir við lagafrumvarpið og athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins á dskj. nr. 22. Að mati stefnda felist í framlagningu frumvarpsins viðurkenning á því, að gildandi lagaskylda um lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð sé óbreytt 10%, þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga, sem kveði á um viðbótargreiðslur í lífeyrissjóði.
Stefnandi haldi því fram, að viðbótarframlag í lífeyrissjóð, sem samið sé um í kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins, sé lágmarksgreiðsla, sem sé óháð launakjörum að öðru leyti og falli þannig undir ákvæði laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980. Stefndi mótmæli þessari staðhæfingu og byggi á því, að viðbótargreiðslan sé ekki lagaskylda, sem hvíli á stefnda samkvæmt lögum nr. 55/1980 eða lögum nr. 129/1997, þar sem greiðslan sé utan sviðs lágmarkskjara, sem stefnanda séu tryggð með heildarlaunum samkvæmt ráðningarsamningi við starfsmenn stefnda. Um þetta skuli bent á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 114/2004: Íslensk erfðagreining ehf. gegn Rafiðnaðarsambandi Íslands og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 351 /1999: Valgerður Björg Jónsdóttir gegn G. Torfasyni ehf.
Ofangreindu til viðbótar hafi stefndi boðið öllum starfsmönnum sínum, sbr. dskj. nr. 19, að fyrirtækið greiddi 1% framlag í lífeyrissjóð til viðbótar við 6% mótframlag atvinnurekanda, sem sé innifalið í nýju formi stefnda að ráðningarsamningum, og hafi hver einstakur starfsmaður stefnda val um, hvort það viðbótarframlag renni í séreignarsjóð eða sameignarsjóð. Enginn starfsmaður stefnda hafi kosið að láta þá greiðslu renna til stefnanda. Stefndi hafi boðið öllum starfsmönnum sínum á starfsmannafundi í janúar 2005, sem ítrekað hafi verið í byrjun júní, sbr. dskj. nr. 19, þar sem fram komi, að Hagsmunaráð ÍE, sem í eigi sæti 6 fulltrúar, kosnir af starfsmönnum stefnda, ásamt fulltrúum stefnda, hafi hvatt starfsmenn á fundi sínum hinn 19. maí 2005 til að undirrita nýjan ráðningarsamning og nýta sér þessi viðbótarréttindi. Öllum starfsmönnum stefnda hafi verið send fundargerð þess fundar í tölvupósti, sbr. dskj. nr. 19. Með því að hafa frjálst val um ráðstöfun 1% viðbótarframlags í lífeyrissjóð, hafi starfsmenn stefnda því að þessu leyti betri kjör en gert sér ráð fyrir samkvæmt kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags eða samþykktum stefnanda.
Stefndi telji, að tilvitnaður dómur Hæstaréttar í málinu nr. 107/2005: Mýflug hf. gegn Eftirlaunasjóði atvinnuflugmanna, hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu, þar sem stefndi hafi aldrei, öndvert við aðstæður í því dómsmáli, skuldbundið sig til að fara að reglum stefnanda um lágmarkslífeyrisgreiðslur, og starfsmenn stefnda ráði því alfarið, í hvaða lífeyrissjóð greiðslur vegna þeirra renni, og iðgjaldagreiðslur séu skýrt skilgreindar í viðkomandi ráðningarsamningum. Þá sé sá grundvallarmunur á aðstöðu varnaraðila í ofangreindu dómsmáli og stefnda í máli þessu, að stefndi sé ekki, og hafi aldrei verið, aðili að Samtökum atvinnulífsins eða öðrum samtökum atvinnurekenda, og þannig hefur stefndi aldrei undirgengizt þær skuldbindingar, sem felist í kjarasamningum aðila á vinnumarkaði. Þá bendi stefndi einnig á, að þeir aðilar, sem hér um ræði, séu allir ráðnir áður en stefnandi hafi, hinn 1. júní 2005, breytt einhliða samþykktum sínum til hækkunar á lágmarksiðgjaldi, að einum starfsmanni undanskildum, sem ráðinn sé samkvæmt nýju ráðningarsamningsformi stefnda, og njóti viðkomandi einstaklingur því 1% viðbótarframlags í lífeyrissjóð, sem starfsmaðurinn hafi ákveðið að láta renna til séreignarsjóðs. Því hafni stefndi því alfarið, að inntak greiðsluskyldu hans hafi breytzt með einhliða ákvörðun stefnanda, enda kveði gildir ráðningarsamningar skýrt á um skyldur stefnda gagnvart starfsmönnum sínum. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á, að neinn starfsmaður stefnda, sem mál þetta varði, hafi kvartað eða óskað eftir því, að stefnandi innheimti hækkaðar greiðslur í lífeyrissjóð frá stefnda.
Stefndi haldi því fram, að hann uppfylli að fullu lagaskyldur um greiðslu launa, sem ekki séu lægri en lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 skuli laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningurinn taki til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði, skuli samkvæmt lögunum vera ógildir.
Verði ekki annað ráðið af þessari málsástæðu stefnanda, en að hann telji, að teknu tilliti til heildarlaunagreiðslna stefnda samkvæmt ráðningarsamningum viðkomandi einstaklinga, að kjör þeirra séu lakari en lágmarkskjör samkvæmt almennum kjarasamningum og skorti þannig á greiðslur í lífeyrissjóð til að þeir njóti lögbundinna lágmarkskjara samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi.
Þessu mótmæli stefndi og bendi á, að laun, er stefndi hafi greitt viðkomandi starfsmönnum, hafi verið a.m.k. 47% hærri heildarlaun en ef miðað sé við lágmarkskjör samkvæmt launakjörum kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags. Samanburður á launum, sem stefnandi hafi greitt stefnda samkvæmt launaseðlum á dskj. nr. 17, við laun, sem viðkomandi einstaklingar gætu átt rétt á samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, sbr. dskj. nr. 11, beri þetta með sér:
Laun, sem stefndi hafi greitt stefnanda:
|
|
Heildarlaun |
Orlofs-uppbót |
Vakta- álag |
Annað |
Meðal- laun á mán |
Fj. á mán |
Akstur |
Orlof |
|
Unnur Rós Jóhannesd. |
1.800.000 |
8.400 |
18.000 |
2.088 |
203.165 |
9.00 |
21.762 |
|
|
Málfríður Anna Gunnlaugsd. |
1.380.000 |
|
|
|
153.333 |
9.00 |
|
|
|
Sigrún Birna Sigurðard. |
516.800 |
|
|
|
160.000 |
3.23 |
|
48.000 |
|
Svandís Jeremíasdóttir |
1.680.000 |
8.400 |
|
|
187.600 |
9.00 |
|
|
|
Katrín Óskarsdóttir |
1.848.000 |
8.400 |
82.581 |
8.398 |
216.375 |
9.00 |
|
|
|
Dagbjört Guðmundsd. |
1.800.000 |
8.400 |
114.000 |
13.224 |
215.069 |
9.00 |
|
|
|
Hákon Aðalsteinss. |
670.000 |
|
|
153.137 |
245.713 |
3.35 |
|
52.000 |
|
Hrafnhildur Helga Antonsd. |
2.795.960 |
8.400 |
|
|
328.764 |
8.53 |
|
|
|
Ólína Ingibjörg Jóhannesd. |
1.435.000 |
|
|
|
159.444 |
9.00 |
|
|
|
Theodóra Torlacius |
2.400.000 |
8.400 |
|
|
267.600 |
9.00 |
|
|
|
Anna Birna Jónsd. |
180.000 |
|
|
|
180.000 |
1.00 |
|
|
|
Gina B. Cuzion |
1.455.000 |
|
|
|
161.667 |
9.00 |
|
|
|
Stella Ingibjörg Sverrisd. |
843.000 |
|
|
|
154.679 |
5.45 |
|
|
Lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningi Eflingar - stéttarfélags:
Heildarlaun Orlofsuppb. Desemberuppb. Meðallaun á mán
Árslaun 1.186.848 21.800 39.700 104.029
Af ofangreindum samanburði sé ljóst, að fullyrðing stefnanda fái ekki staðizt. Laun, sem stefndi hafi greitt starfsmönnum sínum, séu langt yfir því lágmarki, sem launþegum séu tryggð með kjarasamningi.
Starfsmenn stefnda hafi, auk launakjara, sem hafi verið verulega betri en þau kjör, sem þeir hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags, notið ýmissa annarra starfstengdra réttinda og fríðinda, sem stefndi veiti starfsmönnum sínum, til dæmis aðgangs að svonefndum Háskóla Íslenzkrar erfðargreiningar, sem bjóði starfsmönnum stefnda sí- og endurmenntun innan fyrirtækisins á ýmsum sviðum, og Þekkingarsjóði Íslenzkrar erfðagreiningar, sem veiti starfsmönnum styrki til að sækja námskeið og ráðstefnur innan lands og utan, auk styrkja til fjarnáms.
Stefndi byggi á því, að svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkist við það eitt, að starfskjör séu launþega jafn hagstæð eða betri en kveðið sé á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Ráðningarsamningar starfsmanna við stefnda hafi ekki rýrt rétt þeirra í heild samkvæmt kjarasamningi, heldur þvert á móti. Þeir hafi notið verulega betri launakjara samkvæmt ráðningarsamningi við stefnda en þeir hefðu notið samkvæmt kjarasamningi. Þar sem stefndi hafi þannig greitt starfsmönnum sínum hærri laun en kjarasamningur tryggi þeim, sé með slíkri yfirborgun komið út fyrir svið kjarasamnings, þar sem ákveðin séu lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein. Stefndi uppfylli þannig allar lagaskyldur sínar samkvæmt lögum nr. 55/1980.
Þá byggi stefndi einnig á því, að hömlur á samningsfrelsi þurfi að vera skýrar, svo heimilt sé að víkja samningi um laun eða önnur starfskjör til hliðar. Ljóst sé, að stefndi hafi uppfyllt allar skuldbindingar sínar að lögum við starfsmenn sína, og hvorki séu forsendur til að víkja samningi milli þeirra til hliðar né að leggja aðrar samningsbyrðar á stefnda en hann beri samkvæmt löglegum samningi við starfsmenn.
Varðandi rökstuðning fyrir varakröfu stefnda sé bent á, að röksemdir stefnanda fyrir greiðsluskyldu á grundvelli samþykkta stefnanda geti ekki átt við tímamarkið fyrir 1. júní 2005, þegar stefnandi hafi tekið yfir réttindi og skyldur Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, þar sem í grein 9.1 í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar hafi einungis verið áskilnaður um greiðslu lágmarksiðgjalds, sem hafi numið 4% framlagi launamanns og 6% framlagi launagreiðanda. Krafa um hærra iðgjald í lífeyrissjóð eigi sér því ekki stoð í samþykktum stefnanda fyrr en eftir 1. júní 2005.
Stefndi vilji einnig ítreka athugasemdir sínar við framkvæmd stefnanda á skuldajöfnun, þar sem skýrt sé af samanburði á skilagreinum stefnda á dskj. nr. 21 við innheimtubréf stefnanda á dskj. nr. 5 og dskj. nr. 6, að stefnandi hafi ítrekað skuldajafnað skýrt skilgreindum greiðslum á iðgjöldum til stéttarfélaga, sem stefnandi annist innheimtu á f.h. viðkomandi stéttarfélaga, til greiðslna á meintri vangreiðslu stefnda á iðgjöldum til stefnanda. Þá hafi stefnandi einnig, samkvæmt samanburði á skilagreinum stefnda á dskj. nr. 21 við innheimtubréf stefnanda á dskj. nr. 5 og dskj. nr. 6, skuldajafnað greiðslu á stéttarfélagsiðgjaldi vegna tveggja einstaklinga, sem ekki séu aðilar að stefnanda, upp í meinta vangreiðslu á lífeyrissjóðsgreiðslum annarra einstaklinga til stefnanda. Stefndi telji ofangreinda skuldajöfnun, sem stefnandi hafi framkvæmt á milli tveggja lögaðila, stéttarfélags annars vegar og lífeyrissjóðs hins vegar, vera alfarið ólögmæta og m.a brjóta í bága við 20. gr. laga nr. 129/1997, grundvallarreglur kröfuréttar, og getur hún, að mati stefnda, einnig varðað við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Stefndi vísi einnig til grundvallarreglna kröfuréttar og samningalaga nr. 7/1936 um skuldbindingargildi samninga og stofnun fjárskuldbindinga. Um málskostnaðarkröfu stefnda vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins.
Samkvæmt 1. gr. l. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem tekur til allra atvinnurekenda, skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði, sem samningurinn tekur til. Skulu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða, vera ógildir.
Samkvæmt 1. gr. l. nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er öllum launamönnum og þeim, sem stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi, rétt og skylt að vera í lífeyrissjóði. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga segir, að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan, að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir þeim kjarasamningi, sem ákvarði lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum, ef við eigi. Séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi, velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því, sem reglur einstakra sjóða leyfa. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. l. nr. 129/1997 ber stefnda að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum. Stefnandi er þannig réttur aðili máls þessa, en óumdeilt er, að starfsmenn þeir, sem kröfur stefnanda lúta að, gegna störfum hjá stefnda, sem kjarasamningar Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins ná yfir, en jafnframt er ágreiningslaust, að stefndi er ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins.
Í annan stað byggir stefndi á því, að engin greiðsluskylda hvíli á honum umfram það, sem hann hafi þegar greitt.
Þau 10% af iðgjaldsstofni, sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. gr. l. nr. 129/1997, eru lágmarksiðgjöld, og er aðildarsamtökum vinnumarkaðarins óheimilt að semja um lægri kjör. Aðilar vinnumarkaðarins geta hins vegar samið um hærri hlutfallstölu, enda segir í greininni, að lágmarkskjör skuli vera að minnsta kosti 10%.
Svo sem fram er komið, var, með undirritun kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og fleiri félaga við Samtök atvinnulífsins þann 7. marz 2004 samið um hækkun mótframlags atvinnurekenda í samtryggingarsjóð úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005. Með vísan til framanritaðs er stefndi bundinn af þessum samningi og ber að standa stefnanda skil á iðgjaldi í samræmi við það vegna tilgreindra starfsmanna. Stefndi hefur borið því við, að hann hafi samið um eða boðið starfsmönnum sínum að greiða 1% viðbótarframlag í lífeyrissjóð að eigin vali þeirra. Er ekki fallizt á, að stefndi geti leysti sig undan þeirri skyldu að standa stefnanda skil á 11% lágmarksiðgjaldi með því að bjóða starfsmönnum sínum viðbótartryggingu í nýjum ráðningarsamningi. Þá er ekki fallizt á röksemdir stefnda um, að samþykktir stefnanda og ákvæði kjarasamninga eigi sér ekki lagastoð með vísan til þess, sem fyrr er rakið.
Varakrafa stefnda byggist á því, að í gr. 9.1 í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar, sem stefnandi yfirtók þann 1. júní 2005, hafi einungis verið áskilnaður um greiðslu lágmarksiðgjalds, samtals 10%. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar greinar segir, að heimilt sé að kveða á um hærra iðgjald í kjarasamningi, og er því ekki fallizt á varakröfuna.
Samkvæmt framansögðu ber að taka kröfu stefnanda til greina eins og hún er endanlega fram sett á dskj. nr. 24.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 500.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, Íslenzkri erfðagreiningu ehf., er skylt að halda eftir af launum 4% iðgjöldum eftirtalinna starfsmanna stefnda og standa stefnanda, Gildi lífeyrissjóði, skil á þeim ásamt eigin iðgjaldahluta, 7% mótframlagi, vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda á þeim iðgjaldatímabilum sem hér greinir:
Unnar Rósar Jóhannesdóttur, kt. 020753-5609, janúar til og með september 2005,
Málfríðar Önnu Gunnlaugsdóttur, kt. 031175-3139, janúar til og með september 2005,
Svandísar Jeremíasdóttur, kt. 070442-4939, janúar til og með september 2005,
Katrínar Óskarsdóttur, kt. 100775-4689, janúar til og með september 2005,
Dagbjartar Guðmundsdóttur, kt. 110243-4489, janúar til og með september 2005,
Hákonar Aðalsteinssonar, kt. 171279-3569, janúar og febrúar 2005,
Hrafnhildar Helgu Antonsdóttur, kt. 200569-3349, janúar til og með september 2005,
Ólínu Ingibjargar Jóhannesdóttur, kt. 221280-4749, janúar til og með september 2005,
Theodóru Thorlacíus, kt. 240574-4119, janúar til og með september 2005,
Önnu Birnu Jónsdóttur, kt. 260479-5989, september 2005,
Gínu B. Cuizon, kt. 310765-2449, janúar til og með september 2005 og
Stellu Ingibjargar Sverrisdóttur, kt. 310775-3129, apríl til og með september 2005.
Stefndi greiði stefnanda kr. 500.000 í málskostnað.