Hæstiréttur íslands
Mál nr. 226/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfulýsing
- Kröfulýsingarfrestur
- Réttindaröð
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 226/2012.
|
Ingvar Berndsen (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hlynur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Kröfulýsing. Kröfulýsingarfrestur. Réttindaröð.
I lýsti kröfu við slit S hf. eftir að kröfulýsingarfresti lauk og var krafa hans talin vera fallin niður vegna vanlýsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012, þar sem kröfu sóknaraðila, sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 6.712.073 krónur verði aðallega viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara sem búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laganna en að því frágengnu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna framangreindri kröfu við kröfu sem varnaraðili eignaðist á hendur honum 27. september 2004 með útgáfu hans á skuldabréfi nr. 0398-74-630428 til handa varnaraðila. Að lokum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2012.
I
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., vék Fjármálaeftirlitið stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. frá 21. mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní sama ár var sparisjóðnum skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009. Kröfulýsingarfrestur var sex mánuðir og lauk því 22. janúar 2010. Frestdagur var 30. október 2008, sbr. 4. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einnig 5. mgr. 101. gr. sömu laga.
Sóknaraðili, Ingvar Berndsen, lýsti kröfu á hendur varnaraðila 6. júní 2011 að fjárhæð 6.712.073 krónur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar við kröfulýsingu. Kröfunni var lýst sem endurgreiðslukröfu vegna ofgreidds fjár, en sóknaraðili hafði 10. nóvember 2008 greitt upp erlent lán hjá varnaraðila að fjárhæð 23.727.503 krónur, auk svokallaðs umframgreiðslugjalds að fjárhæð 237.275 krónur, eða samtals 23.964.778 krónur. Kröfunni til stuðnings var vísað til 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var kröfunni lýst sem búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kröfu um vexti og innheimtukostnað var lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga. Samhliða lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnuði á ofangreindri kröfu sinni og kröfu Dróma hf. á hendur sér, byggðri á skuldabréfi útgefnu 27. september 2004. Hinn 26. maí 2011 voru eftirstöðvar þeirrar skuldar 2.867.264 krónur. Til stuðnings skuldajafnaðarkröfunni vísaði sóknaraðili til almennra reglna kröfuréttar og 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila með þeim rökum að þeim hefði verið lýst eftir lok kröfulýsingarfrests og yrði ekki séð að undantekningar 118. gr. laga nr. 21/1991 ættu við. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 14. nóvember 2011.
Endanlegar kröfur sóknaraðila eru þessar:
Aðallega að krafa hans, að fjárhæð 6.712.073 krónur, verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., til vara að krafan verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. sömu laga, en til þrautavara að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Að ofangreindri kröfu verði skuldajafnað við kröfu sem varnaraðili eignaðist á hendur honum 27. september 2004 með útgáfu sóknaraðila á skuldabréfi til handa varnaraðila sama dag, nr. 0398-74-630428, upphaflega að fjárhæð 10.880.000 krónur.
Þá krefst hann vaxta af kröfufjárhæðinni, 6.712.073 krónum, samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 3. gr. sömu laga, frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags, og að sú krafa verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Loks er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Endanleg krafa varnaraðila er að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Málið var tekið til úrskurðar 21. febrúar sl.
II
Helstu atvik eru þau að 27. september 2004 tók sóknaraðili íbúðalán hjá varnaraðila að fjárhæð 10.880.000 krónur. Lánið var í formi skuldabréfs, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs, og skyldi endurgreiðast með 480 afborgunum á eins mánaðar fresti. Eftirstöðvar skuldarinnar 16. nóvember sl. voru 2.940.226 krónur. Með útgáfu skuldabréfs 27. mars 2008 tók sóknaraðili annað lán hjá varnaraðila, upphaflega að jafnvirði 17.000.000 króna, bundið við gengi danskrar krónu. Lánið bar svonefnda LIBOR-vexti, auk 9% vaxtaálags, og skyldi endurgreiðast í einu lagi, ásamt vöxtum, 1. október 2008. Skilmálum skuldabréfsins var breytt 30. september 2008 og nýr gjalddagi þá ákveðinn 1. apríl 2009. Sóknaraðili greiddi lánið upp 10. nóvember 2008 með 23.727.503 krónum, auk svokallaðs umframgreiðslugjalds að fjárhæð 237.275 krónur, eða samtals 23.964.778 krónum.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 var mælt fyrir um stofnun sérstaks hlutafélags í eigu varnaraðila sem tæki við öllum hans eignum og réttindum. Með vísan til þessa var í kjölfarið stofnað hlutafélagið Drómi. Meðal þeirra eigna sem Drómi hf. tók þannig við frá varnaraðila var fyrrnefnt skuldabréf, útgefið af sóknaraðila 27. september 2004.
Hinn 16. júní 2010 voru kveðnir upp í Hæstarétti Íslands dómar í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Í málunum reyndi á það hvort samningur um kaupleigu á bifreið væri um skuldbindingu í erlendri mynt eða í íslenskum krónum, og jafnframt hvort gengistrygging, væri um hana að ræða, væri heimil samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þeir samningar sem þar reyndi á væru lánssamningar um skuldbindingu í íslenskum krónum og að lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010, sem kveðinn var upp 16. september 2010, reyndi á hvort og þá hvaða áhrif niðurstaða réttarins í framangreindum málum hefði á vexti af láni aðila, sem var veitt samkvæmt samningi, hliðstæðum þeim sem fjallað var um í fyrrgreindum dómum. Niðurstaða réttarins í því máli var sú að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis um gengistryggingu og ákvæðis um LIBOR-vexti, þannig að óhjákvæmilegt væri að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Atvik málsins svöruðu því til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru, og skyldu þeir þá samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.
Með lögum nr. 151/2010, sem tóku gildi 22. desember 2010, var veigamikil breyting gerð á 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, um leið og bætt var við lögin sex nýjum bráðabirgðaákvæðum, nr. X - XV. Fram kemur í 5. mgr. 18. gr. að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar, um leið og mælt er fyrir um hvernig ákvörðun um endurgreiðslu og útreikning skuldar skuli hagað. Þá segir í 1. málslið bráðabirgðaákvæðis X að hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum sé hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðist að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fari um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greini í 18. gr. laganna. Samkvæmt 1. málslið bráðabirgðaákvæðis XI skal fjármálafyrirtæki, sem veitt hefur lán er fellur undir bráðabirgðaákvæði X, eigi síðar en 60 dögum eftir gildistöku laganna senda skuldara útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár sem af uppgjörinu leiði.
Lögmaður sóknaraðila sendi varnaraðila bréf 9. maí 2011, þar sem annars vegar var óskað eftir endurútreikningi á láni sóknaraðila frá 27. mars 2008, en hins vegar staðfestingar á því að slitastjórn varnaraðila myndi endurgreiða sóknaraðila þá ofgreiðslu sem endurútreikningurinn kynni að leiða í ljós. Varnaraðili svaraði bréfi sóknaraðila 13. maí sama ár. Með bréfinu fylgdi endurútreikningur á stöðu uppgreidds láns sóknaraðila miðað við 10. nóvember 2008. Samkvæmt honum var staða lánsins á þeim degi 17.252.705 krónur. Kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu var hins vegar hafnað, og lýsti sóknaraðili kröfu sinni formlega fyrir slitastjórn varnaraðila 6. júní 2011. Höfuðstóll kröfunnar er mismunur uppgreiðslufjárhæðar framangreinds skuldabréfs 10. nóvember 2008 og stöðu bréfsins sama dag eftir endurútreikning, eða 6.712.073 krónur (23.964.778 - 17.252.705). Eins og áður greinir hafnaði slitastjórn varnaraðila kröfu sóknaraðila og reyndist ekki unnt að jafna ágreining aðila á síðari fundi þeirra.
III
Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi tekið svokallað erlent lán til íbúðakaupa í mars 2008. Lánið hafi hann tekið eftir mat á þeim kostum sem varnaraðili hafi á þessum tíma boðið viðskiptavinum sínum. Síðar hafi komið í ljós að lánið hafi verið ólögmætt. Sóknaraðili hafi tekið lánið í góðri trú um lögmæti þess, enda enginn fyrirvari um annað af hálfu varnaraðila, sem hafi verið fjármálafyrirtæki og starfað samkvæmt lögum nr. 161/2002.
Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi kveðið skýrt upp úr um ólögmæti sambærilegra lánssamninga með dómum 16. júní 2010, og síðari dóm réttarins frá 16. september 2010 um rétta vaxtaákvörðun vegna þeirra lána sem áður höfðu verið dæmd ólögmæt, hafi löggjafinn talið að Hæstiréttur hefði ekki leyst úr lagalegum álitaefnum sem óhjákvæmilega hafi komið upp í kjölfar dómanna. Þvert á móti hafi löggjafinn talið að dómarnir leiddu í ljós verulega annmarka á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum að því er varðaði reglur um uppgjör í þeim tilvikum þegar stuðst hafi verið við ólögmæta skilmála um verðtryggingu. Þá hafi löggjafinn talið að dómarnir vektu upp sérstakt álitaefni um jafnræði skuldara á neytendalánamarkaði. Í þessu ljósi hafi lögum nr. 38/2001 verið breytt með lögum nr. 151/2010.
Sóknaraðili byggir á því að þau ákvæði laga nr. 151/2010, sem varði breytingu á lögum nr. 38/2001, miði ótvírætt að því að þær greiðslur sem inntar hafi verið af hendi til fjármálafyrirtækja, og byggi á ólögmætum gengistryggðum lánum, komi til uppgjörs til hagsbóta fyrir skuldara. Þannig kveði núgildandi 18. gr. laga nr. 38/2001 skýrt á um að endurgreiða beri skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega greitt vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Skipti engu hvenær skuldari hafi greitt af hinu ólöglega láni. Þá taki lögin jafnt til endurgreiðslu ofgreiddra afborgana af lánum sem enn séu í gildi, sem og lána sem hafi verið gerð upp. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 sé ítarlega farið yfir forsendur lagasetningarinnar, sem einkum hafi lotið að mikilvægi þess að tryggja að sambærileg mál skuldara á neytendamarkaði fengju sambærilega niðurstöðu við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun. Sérstaklega sé áréttað í greinargerð með lögunum að lagasetningin sé forsenda þess að skuldarar verði ekki skildir eftir í mismunandi stöðu eftir því við hvaða fjármálastofnun þeir hafi átt viðskipti með hin ólögmætu gengistryggðu lán. Því hafi það verið sérstakt markmið með lögunum að jafna stöðu skuldara hinna ólöglegu lána, óháð því við hvaða fjármálastofnun þeir hefðu átt viðskipti. Í frumvarpinu sé ekki kveðið á um hversu langt aftur í tímann lögunum sé ætlað að ná varðandi endurútreikning. Í áliti meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis segi að um það fari því eftir almennum lögum, en um leið sé bent á að talsmenn lánafyrirtækja hafi lýst því fyrir nefndinni að ekki stæði til að taka slík mál upp skuldurum í óhag. Ljóst sé af nefndaráliti meirihluta nefndarinnar að vilji löggjafans hafi ekki staðið til annars en að hagsmunir skuldara, jafnt þeirra sem enn skuldi gengistryggð lán og þeirra sem gert hafi lán sín upp, yrðu hafðir í fyrirrúmi við ákvörðun endurgreiðslu. Þetta megi líka leiða af ákvæði laganna um fyrningarfrest vegna hinnar ólögmætu verðtryggingar, þar sem kveðið sé á um að fyrning vegna hinna ólögmætu lána teljist hafa hafist 16. júní 2010.
Af hálfu sóknaraðila er einnig á því byggt að bersýnilega ósanngjarnt sé, með tilliti til forsendna, sjónarmiða og markmiða laga nr. 151/2010, að endurgreiðsluákvæði 5. mgr. 1. gr. laganna (núgildandi 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001) nái ekki til kröfu hans á hendur varnaraðila. Hafa verði í huga að lög nr. 151/2010 hafi verið sett með hliðsjón af afar sérstökum aðstæðum í þjóðfélaginu og fordæmalausum dómum Hæstaréttar. Andi laganna hverfist um réttlætis- og sanngirnissjónarmið og séu lögin sérlög sem gangi öðrum lögum framar þar sem þau kunni að stangast á. Ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., standi þannig ekki í vegi fyrir skýrum vilja löggjafans um uppgjör vegna ofgreiðslu ólögmætra lána. Skýra verði ákvæði þeirra laga um vanlýsingu með hliðsjón af tilgangi og markmiði laga nr. 151/2010.
Sóknaraðili leggur áherslu á að varnaraðili hafi starfað eins og ekkert hefði í skorist fram á vor 2009, þrátt fyrir að önnur helstu fjármálafyrirtæki hefðu með lögum nr. 125/2008, og ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins í kjölfarið, verið tekin yfir af íslenska ríkinu í byrjun október 2008. Gagnvart viðskiptavinum sínum hafi varnaraðili komið fram eins og gjaldfær lögaðili. Það hafi ekki verið fyrr en með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 29. mars 2009 um að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd, sem í ljós hafi komið að starfsemi varnaraðila hafi að minnsta kosti frá 30. október 2008 verið í andstöðu við lög nr. 161/2002, þar sem eiginfjárgrunnur varnaraðila hafi verið kominn niður fyrir lögmælt lágmark. Með þeirri ákvörðun hafi jafnframt formlega verið upplýst að varnaraðili hefði fengið sérstakt leyfi Fjármálaeftirlitsins 30. október 2008 til þess að starfa, þrátt fyrir að þetta skilyrði væri ekki uppfyllt. Hefðu upplýsingar um eiginfjárstöðu varnaraðila legið fyrir á þessum tíma, fullyrðir sóknaraðili að hann hefði ekki greitt upp hið ólögmæta lán, án þess að vega og meta heildarskuldastöðu sína gagnvart varnaraðila, enda hafi á sama tíma verið uppi háværar kröfur um endurskoðun hinna svokölluðu erlendu lána í ljósi forsendubrests, og jafnvel með hliðsjón af 36. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili hefði því látið sig varða upplýsingar um mögulegt greiðsluþrot varnaraðila, sem og möguleika hans til þess að endurgreiða hugsanlega ofgreiðslu.
Sóknaraðili byggir enn fremur á því að varnaraðili hafi auðgast með ólögmætum hætti er hann greiddi upp hið ólögmæta erlenda lán 10. nóvember 2008. Sú ólögmæta auðgun hafi numið 6.712.073 krónum, eins og endurútreikningur slitastjórnar varnaraðila sýni að hafi verið ofgreiddar miðað við áðurnefnda dóma Hæstaréttar. Því eigi sóknaraðili skaðabótakröfu á hendur varnaraðila sem þessari fjárhæð nemi. Réttur til þeirra skaðabóta hafi stofnast með gerð hins ólöglega lánssamnings 27. mars 2008, þótt krafan hafi ekki orðið virk fyrr en 16. júní 2010. Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til meginreglu kröfuréttar um stofnun skaðabótakrafna innan samninga.
Í ljósi þeirra sjónarmiða sem búi að baki fyrrnefndum breytingum á lögum nr. 38/2001 telur sóknaraðili að slitastjórn varnaraðila sé ekki rétt að bera fyrir sig áhrif vanlýsingar gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki fengið vitneskju um kröfu sína fyrr en 16. júní 2010 af ástæðum sem séu honum að vítalausu. Sóknaraðili hafi að því leyti ekki verið í annarri stöðu en aðrir skuldarar gengistryggðra lána, sem þó hafi fengið leiðréttingu sinna lána. Kröfulýsingarfrestur í þrotabú varnaraðila hafi þá verið liðinn. Það leiði af eðli máls að sóknaraðili hafi ekki getað lýst kröfu sinni fyrr gagnvart slitastjórn varnaraðila. Krefst sóknaraðili þess að staða hans gagnvart slitastjórn varnaraðila verði ekki lakari en staða skuldara almennt gagnvart hinum nýju fjármálafyrirtækjum sem ríkið hafi stofnað. Sanngirnisrök leiði til þessarar niðurstöðu, en einnig vilji löggjafans og eðli máls.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Telur hann að greiðsla hans til varnaraðila sé sérgreind, eða að varnaraðila hafi verið í lófa lagið að halda henni sérgreindri frá öðru fé varnaraðila, hvort sem það hafi verið gert eða ekki. Til vara er þess krafist að krafan verði tekin til greina sem forgangskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Er þá á því byggt að ákvæðinu verði beitt með lögjöfnun um kröfu sóknaraðila, með vísan til þeirra sjónarmiða sem 3. og 4. tl. 110 gr. laga nr. 21/1991 byggi á, svo og með vísan til tilgangs laga nr. 151/2010. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú varnaraðila. Því til stuðnings er vísað til sömu málsástæðna og að ofan greinir.
Sóknaraðili krefst þess jafnframt að kröfu hans verði skuldajafnað við kröfu sem varnaraðili eignaðist á hendur honum 27. september 2004 með útgáfu sóknaraðila á skuldabréfi til handa varnaraðila. Tekur sóknaraðili fram að sú krafa standi óhögguð, komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að réttaráhrif vanlýsingar hafi áhrif á kröfu hans. Byggir sóknaraðili á því að krafa hans á hendur varnaraðila hafi orðið til 27. mars 2008 og sé því tæk til skuldajafnaðar á móti kröfu sem varnaraðili eignaðist á hendur honum á árinu 2004, sbr. 5. tl. 118. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Vísar sóknaraðili til þess að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila hafi eignir varnaraðila verið færðar yfir til Dróma hf., sem sé dótturfélag varnaraðila og alfarið í eigu hans. Sóknaraðili fallist ekki á að við slíkt framsal kröfuréttinda varnaraðila hafi viðskiptamenn varnaraðila verið sviptir rétti til skuldajafnaðar sem þeir kynnu að hafa átt gagnvart varnaraðila eða þrotabúi hans. Það leiði af meginreglum kröfuréttar að framsalshafi öðlist ekki meiri rétt við framsal kröfuréttinda en framseljandi hafi átt. Engu skipti þótt um sé að ræða framsal á skuldabréfi. Framsal, byggt á nefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, verði ekki talið framsal inter vivos í skilningi viðskiptabréfaréttar. Í ljósi aðstæðna og tilgangs ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi hér verið um að ræða framsal til innheimtu og við slíkt framsal glati skuldari ekki rétti sínum til skuldajafnaðar. Engu breyti heldur þótt í ákvörðuninni hafi ekki sérstaklega verið kveðið á um að réttur skuldara til skuldajafnaðar héldist þrátt fyrir framsalið. Enda þótt Fjármálaeftirlitið hafi kveðið á um slíkt í þeim tilvikum þegar nýir, óskyldir lögaðilar hafi tekið við eignum föllnu bankanna, verði ákvörðunin í tilviki Dróma hf. ekki túlkuð sem svo að annað eigi við um skuldara varnaraðila. Skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 um skuldajöfnuð séu því uppfyllt, bæði hvað varðar gagnkvæmni krafna til skuldajafnaðar sem og um tímamark stofnunar kröfu. Þegar af þeirri ástæðu eigi réttaráhrif vanlýsingar ekki við í máli þessu.
Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991, einkum 3.-5. tl. 118. gr., 109. gr., 3. tl. 110. gr. með lögjöfnun, 113. gr. og loks 114. gr. sömu laga. Einnig er byggt á meginreglum og vilja löggjafans að baki lögum nr. 151/2010, ásamt því að þau lög séu sérlög. Þá er vísað til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 5. mgr. 18. gr. og bráðabirgðarákvæðis X og XI. Kröfu um skuldajöfnuð styður sóknaraðili við meginreglur kröfuréttar um stofnun skaðabótakröfu innan samninga og 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 100. gr. sömu laga. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Varnaraðili telur að hafna beri kröfu sóknaraðila vegna vanlýsingar, enda hafi kröfulýsingafrestur vegna slitameðferðar varnaraðila runnið út 22. janúar 2010, en sóknaraðili lýst kröfu sinni 6. júní 2011. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 teljist kröfur fallnar niður gagnvart þrotabúi berist þær að liðnum kröfulýsingarfresti, en sama regla gildi um fjármálafyrirtæki í slitameðferð, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Meginreglan gildi nema ákvæði 1.-6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, sem varði undantekningar frá vanlýsingaráhrifum, eigi við. Með hliðsjón af meginreglunni beri því að túlka undantekningarákvæðin þröngt. Er því mótmælt að ákvæði 3.-5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfu sóknaraðila. Af því leiði að krafan sé fallin niður vegna vanlýsingar.
Varnaraðili byggir á því að engin skilyrði séu fyrir hendi til þess að unnt sé að fallast á aðalkröfu sóknaraðila, þess efnis að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Er þá sérstaklega vísað til þess að fjármunir sóknaraðila hafi aldrei verið sérgreindir í vörslum varnaraðila.
Að því er varðar varakröfu sóknaraðila, um að krafa hans verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, byggir varnaraðili einnig á því að ekki séu skilyrði til þess að verða við kröfunni. Samkvæmt fyrri málslið 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 séu búskröfur samkvæmt 1.-3. tl. 110. gr. undanskildar vanlýsingaráhrifum, en sóknaraðili byggi kröfu sína á 3. tl. með lögjöfnun. Þar sem varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar 23. júní 2009 taki ákvæðið til krafna sem hafi stofnast eftir þann dag, að þeim skilyrðum uppfylltum sem greini í ákvæðinu. Ákvæðið taki þannig aðeins til krafna sem stofnist vegna athafna skiptastjóra þrotabús, í þessu tilviki slitastjórnar. Reglunni sé ekki ætlað að ná til krafna sem stofnast hafi í rekstri þess félags sem sé undir skiptum eða slitum áður en skiptastjórar komi að málefnum þess. Því séu tímamörk reglunnar með skýrum hætti bundin við þær kröfur sem stofnist eftir uppkvaðningu úrskurðar um skipti eða slitameðferð félags. Krafa sóknaraðila falli utan þessa tímamarks, og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna henni.
Varnaraðili telur einnig ljóst að endurgreiðslukrafa sóknaraðila, sem sóknaraðili kveðst m.a. byggja á ólögfestum reglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, hafi í fyrsta lagi stofnast 10. nóvember 2008 þegar meint ofgreiðsla var innt af hendi, eða rúmum sjö mánuðum áður en varnaraðili var tekinn til slitameðferðar. Sóknaraðili haldi því hins vegar fram að krafa hans hafi ekki orðið virk fyrr en 16. júní 2010. Þótt dagsetningin sé ekki rökstudd nánar telur varnaraðili að leiða megi líkum að því að sóknaraðili miði upphafsdag „virkni“ kröfunnar við þann dag er Hæstiréttur hafi fellt fordæmisgefandi dóma í málum nr. 153/2010 og 92/2010, án þess að sóknaraðili hafi verið aðili að þeim málum. Engar réttarheimildir standi þó til þess að krafa sóknaraðila teljist hafa stofnast þennan dag eða að krafan hafi fyrst orðið „virk“ þann dag. Þá hafnar varnaraðili því að slitastjórn hans hafi gert samninga við sóknaraðila og/eða að varnaraðili hafi bakað sóknaraðila tjón eftir 23. júní 2009.
Að dómi varnaraðila verður lögjöfnun frá 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 ekki beitt eins og atvikum er hér háttað. Lögjöfnun felist í því að lagareglu sé beitt um ólögákveðið tilfelli sem samsvari efnislega til þess sem rúmist innan lagareglunnar. Efnisregla 3. tl. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé skýr og verði henni ekki lögjafnað þannig að hún taki til tilviks þegar krafa hafi sannanlega stofnast löngu fyrir úrskurðardag slitabús varnaraðila, enda yrði þá til ný og gjörbreytt efnisregla. Slík niðurstaða yrði auk þess í andstöðu við meginreglur gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa við slitameðferðina. Heimildir til að koma kröfu að eftir lok kröfulýsingarfrests séu tæmandi taldar í 118. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili bendir á að lög nr. 151/2010, sem fólu í sér breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafi tekið gildi 29. desember 2010. Þar sem atvik þessa máls hafi átt sér stað fyrir þann tíma beri samkvæmt lagaskilareglum að miða við lögin eins og þau voru fyrir breytingu. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, fyrir gildistöku breytingalaganna, hafi kröfuhafa borið að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði ranglega haft af honum ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teldist ógildur. Byggir varnaraðili á því að þessi lagaregla, sem kröfugerð sóknaraðila styðjist öðrum þræði við, leysi hann ekki undan þeirri grundvallarskyldu að lýsa kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila. Lögskýringarreglur geti ekki leitt til þess að horft verði fram hjá vanlýsingaráhrifum, enda gangi reglur gjaldþrotaskiptalaga, svo sem um vanlýsingaráhrif, framar í þessu tilviki.
Telji dómurinn að lög nr. 151/2010 hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins bendir varnaraðili einnig á að bráðabirgðaákvæðum X og XI hafi fyrst og fremst verið ætlað að taka til endurútreiknings á stöðu lána og hugsanlegrar endurgreiðslu hjá starfandi fjármálafyrirtækjum. Þar sem varnaraðili hafi ekki lengur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki falli hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir gildissvið bráðabirgðaákvæðis XI.
Varnaraðili mótmælir því að fyrir hendi séu skilyrði fyrir skuldajöfnuði, enda séu þær kröfur sem sóknaraðili krefjist að verði skuldajafnað ekki gagnkvæmar. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins um skuldajöfnuð verði gagnkrafan, þ.e. krafa sóknaraðila, og aðalkrafan, þ.e. krafa varnaraðila, að vera gagnkvæmar á því tímamarki sem skuldajöfnuði er lýst yfir, í þessu tilviki 6. júní 2011. Drómi hf. hafi tekið við öllum eignum varnaraðila á grundvelli 4. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila, frá 21. mars 2009. Ákvörðunin hafi að fullu verið komin til framkvæmda fyrir upphaf slitameðferðar varnaraðila 23. júní 2009. Af því leiði að kröfurnar hafi ekki verið gagnkvæmar á því tímamarki sem skuldajöfnuðinum hafi verið lýst yfir, enda hafi aðalkrafan þá verið í eigu Dróma hf. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna skuldajafnaðarkröfu sóknaraðila, sbr. einnig 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Fallist dómurinn ekki á framangreind rök er einnig á því byggt að sóknaraðili geti ekki nýtt kröfu sína til skuldajafnaðar þar sem skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt. Samkvæmt ákvæðinu geti sá sem skuldi þrotabúi lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart því hafi hann eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Endurgreiðslukrafa sóknaraðila hafi stofnast 10. nóvember 2008, þegar meint ofgreiðsla hafi verið innt af hendi. Stofndagur kröfunnar ætti að teljast óumdeildur í málinu, enda geri sóknaraðili kröfu um viðurkenningu vaxta af kröfunni frá þeim degi. Frestdagur við slitameðferð varnaraðila sé hins vegar 30. október 2008, og því ljóst að krafa sóknaraðila hafi stofnast eftir frestdag. Þegar af þeirri ástæðu geti sóknaraðili ekki átt skuldajafnaðarrétt í málinu. Um leið mótmælir varnaraðili þeim rökum sóknaraðila að endurgreiðslukrafan hafi stofnast 27. mars 2008, þ.e. við útgáfu skuldabréfs nr. 0398-74-630428. Telur varnaraðili ljóst að staða aðila hafi þá verið sú að varnaraðili hafi átt kröfu á sóknaraðila um endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar, en sóknaraðili hafi enga kröfu átt á hendur varnaraðila.
Varnaraðili byggir loks á því að aðrar málsástæður sóknaraðila geti ekki leitt til þess að kröfur hans verði teknar til greina við slitameðferð varnaraðila. Eðli máls, sanngirnisrök eða dómar Hæstaréttar í svokölluðum gengislánamálum, nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu.
Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila um að honum hafi verið ókunnugt um kröfu sína fyrr en dómar Hæstaréttar hafi verið kveðnir upp 16. júní 2010, telur varnaraðili ástæðu til að benda á að umræða um hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána hafi skotið upp kollinum þó nokkru fyrir lok kröfulýsingarfrests varnaraðila. Varnaraðili mótmælir einnig staðhæfingum sóknaraðila um að aðrir í sambærilegri stöðu gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum hafi ekki þurft að sækja rétt sinn til slitastjórnar viðkomandi fjármálafyrirtækja. Eftir því sem varnaraðili best viti hafi enginn sem greitt hafi upp lán hjá fjármálafyrirtæki fyrir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á rekstri þess, fengið endurgreitt það sem kunni að hafa verið ofgreitt eða fengið viðurkennda kröfu vegna þess, án þess að hafa lýst slíkri kröfu innan kröfulýsingarfrests. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir öðru.
Að endingu hafnar varnaraðili því að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafan byggist á 5. tl. 118. gr. sömu laga, en það ákvæði eigi þó ekki við um slíkar kröfur.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 86. gr., 110. gr., 113. gr. og 118. gr. Einnig er vísað til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum XII. kafla. Þá vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 16. gr.
V
Fram er komið að sóknaraðili greiddi upp lán við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. 10. nóvember 2008, alls að fjárhæð 23.964.778 krónur. Lánið var upphaflega að jafnvirði 17.000.000 króna, en bundið við gengi danskrar krónu. Samkvæmt skilmálabreytingu 30. september 2008 var svo um samið að lánið skyldi endurgreiða með einni afborgun 1. apríl 2009. Með bréfi 9. maí 2011 óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því að varnaraðili endurreiknaði lánið með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sem kveðnir voru upp 16. júní 2010, svo og vegna breytinga sem gerðar höfðu verið á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með lögum nr. 151/2010. Varnaraðili varð við ósk sóknaraðila og endurreiknaði uppgreiðsluvirði lánsins miðað við fyrrnefnda dóma og dóm réttarins í málinu nr. 604/2010, sem kveðinn var upp 14. febrúar 2011. Niðurstaða endurútreiknings var sú að uppgreiðsluvirði lánsins 10. nóvember 2088 var 17.252.705 krónur. Í kjölfarið, 6. júní 2011, lýsti sóknaraðili kröfu sinni fyrir slitastjórn varnaraðila, að fjárhæð 6.712.073 krónur. Er kröfufjárhæðin mismunur þeirrar fjárhæðar sem sóknaraðili greiddi varnaraðila 10. nóvember 2008 og stöðu lánsins sama dag eftir endurútreikning varnaraðila. Deila aðila lýtur annars vegar að því hvort krafa sóknaraðila sé niður fallin vegna vanlýsingar, en hins vegar hverrar stöðu hún eigi að njóta í skuldaröð, komist hún að við slitameðferð varnaraðila. Fyrir liggur að frestur til kröfulýsinga við slitameðferð varnaraðila rann út 22. janúar 2010.
Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gilda við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Fram kemur í 3. mgr. sömu greinar að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, með þeirri undantekningu að kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta teljist jafnframt til krafna sem njóti rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í 4. mgr. 102. gr. segir að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst.
Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi verður að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Samkvæmt 118. gr. sömu laga fellur krafa niður gagnvart búinu, ef henni er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur, nema við eigi undantekningar sem þar eru taldar upp í sex töluliðum. Samkvæmt 3. tl. fellur krafa þannig ekki niður sé hún höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins að fullnægðum skilyrðum 100. gr. laganna. Samkvæmt 4. tl. fellur krafa heldur ekki niður ef um kröfu samkvæmt 109. gr. laganna er að ræða, og samkvæmt 5. tl. fellur krafa ekki niður ef um kröfu samkvæmt 1.-3. tl. 110. gr. er að ræða, eða hún hefur annars fyrst orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og henni er lýst án ástæðulausra tafa, og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Af þessu leiðir að taka þarf afstöðu til þess hvort umrædd undantekningarákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfu sóknaraðila áður en kveðið verður upp úr um hvort krafan sé niður fallin vegna vanlýsingar.
Eins og áður greinir byggir sóknaraðili aðallega á því að viðurkenna beri kröfu hans sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu segir að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Í dómaframkvæmd hafa verið sett tiltölulega þröng hlutlæg skilyrði fyrir afhendingu eignar úr þrotabúi á grundvelli þessa ákvæðis. Þegar um peningafjárhæðir er að ræða hefur þannig verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til að ákvæðið eigi við. Í fyrsta lagi þarf sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sýna fram á eignarrétt að henni. Í öðru lagi þarf féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Síðari áskilnaðurinn hefur þó ekki verið gerður þegar atvikum hefur verið þannig háttað að peningar hafi ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 441/2011, sem kveðinn var upp 28. nóvember 2011, og nr. 226/1987, sem birtur er í dómasafni réttarins 1988, bls. 358.
Fyrir liggur að varnaraðili tók við peningagreiðslu frá sóknaraðila 10. nóvember 2008, sem fullnaðagreiðslu á láni að fjárhæð 23.964.778 krónur. Við endurútreikning varnaraðila á uppgreiðsluvirði lánsins kom í ljós að greiðslan var 6.712.073 krónum hærri en staða lánsins á sama degi, að teknu tilliti til niðurstaðna Hæstaréttar í áðurnefndum málum, nr. 92/2010, 153/2010 og 604/2010. Það breytir þó engu um þá staðreynd að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að féð liggi sérgreint í vörslum varnaraðila, né að fyrir hendi séu önnur skilyrði svo fallast megi á kröfu hans. Minnt er á að umrædd greiðsla fór fram rúmum fjórum mánuðum áður en Fjármálaeftirlitið vék stjórn varnaraðila frá og skipaði honum skilanefnd, og rúmum sjö mánuðum áður en slitastjórn var skipuð. Á þeim tíma var varnaraðili enn undir stjórn stjórnar og hluthafa, en starfaði samkvæmt undanþáguheimild 4. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002. Sú undanþága þjónar því hlutverki að gefa stjórn og hluthöfum félags tækifæri til að auka eiginfjárgrunn upp í lögbundið lágmark samkvæmt 84. gr. sömu laga og takist það, mun félagið halda áfram starfsemi. Er því engan veginn hægt að jafna slíkri stöðu við stöðu félags, þar sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn félagsins og skipað því skilanefnd. Í þessu ljósi verður að hafna aðalkröfu sóknaraðila um að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir á því til vara að kröfu hans beri að viðurkenna sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu kemur fram að um sé að ræða kröfur sem hafi orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum. Sóknaraðili byggir ekki á því að ákvæðið eigi við um kröfu hans eftir orðanna hljóðan, heldur beri að beita því með lögjöfnun um kröfuna. Lögjöfnun felst í því að lagareglu er beitt um ólögákveðið tilvik, sem samsvarar efnislega til þeirra tilvika, sem rúmast innan lagareglunnar. Um leið er það meginskilyrði lögjöfnunar að engin lagaregla taki á viðkomandi tilviki. Reglur 109.-114. gr. laga nr. 21/1991 mæla fyrir um réttindaröð krafna á hendur þrotabúi, með þeim réttaráhrifum að kröfur eru greiddar í ákveðinni röð. Af 113. gr. laganna leiðir að allar kröfur, aðrar en þær sem taldar eru upp í 109.-112. gr. og 114. gr., falla undir það ákvæði og teljast almennar kröfur á hendur þrotabúi. Samkvæmt því eru engin skilyrði til að fella kröfu sóknaraðila undir 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 með lögjöfnun. Verður varakröfu hans því einnig hafnað.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Verður málatilbúnaður hans helst skilinn þannig að á því sé byggt að krafa hans sé ekki niður fallin vegna vanlýsingar, enda sé hún höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu Dróma hf. á hendur honum, sbr. 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.Við munnlegan flutning málsins kom fram í máli lögmanns varnaraðila að krafa sóknaraðila gæti aðeins talist almenn krafa, yrði sú niðurstaðan að krafan teldist tæk til skuldajafnaðar og ekki niður fallin vegna vanlýsingar.
Fram er komið að samkvæmt 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 fellur krafa ekki niður gagnvart þrotabúi sé hún höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins að fullnægðum skilyrðum 100. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 getur hver sá sem skuldar þrotabúi dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið, ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
Eins og áður segir greiddi sóknaraðili upp skuld sína samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi 10. nóvember 2008, og því eftir frestdag við slitameðferð varnaraðila, sem var 30. október sama ár. Þegar af þeirri ástæðu er krafan ekki tæk til skuldajafnaðar. Sóknaraðili byggir að vísu á því að krafa hans hafi stofnast við útgáfu skuldabréfsins 27. mars 2008, þar sem skilmálar skuldabréfsins hafi síðar verið dæmdir ólögmætir. Á þessa málsástæðu verður þó ekki fallist, enda er hún bæði órökstudd og á sér enga stoð í meginreglum kröfuréttar um stofnun kröfu. Þar sem krafa sóknaraðila fullnægir þannig ekki skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991, þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort kröfurnar séu gagnkvæmar eða að öðru leyti hæfar til að mætast. Hins vegar er því hafnað að ákvæði 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við kröfuna.
Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila vegna vanlýsingar, enda geti kröfurnar ekki fallið undir þær undantekningar frá vanlýsingaráhrifum, sem mælt er fyrir um í 118. gr. laga nr. 21/1991. Tilvísun sóknaraðila til 18. gr. laga nr. 38/2001 og brábirgðaákvæða X og XI í þeim lögum, sbr. lög nr. 151/2010, getur að mati dómsins ekki breytt þeirri niðurstöðu, enda er í þessum ákvæðum hvergi kveðið á um undantekningu frá ákvæðum 117. og 118. gr. laga nr. 21/1991 um nauðsyn kröfulýsingar og afleiðingar þess ef kröfu er ekki lýst. Ekki verður heldur ráðið af lögskýringargögnum með frumvarpi til laga nr. 151/2010 að til hafi staðið að lögfesta slíka undantekningu. Þá er að mati dómsins ekki hægt að líta á lög nr. 151/2010 sem sérlög, sem gangi framar lögum nr. 21/1991.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll varnaraðili frá kröfu sinni um málskostnað, og verður hann því ekki ákveðinn úr hendi sóknaraðila.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, Ingvars Berndsen, sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., með kröfulýsingu 6. júní 2011, er hafnað.