Hæstiréttur íslands
Mál nr. 370/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Fjarskipti
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er svofelldur úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. júní 2017: „A hf., B hf., C ehf., D ehf., E ehf. og F ehf., er skylt að veita lögreglustjóranum á Vestfjörðum upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], svo og önnur símanúmer og símtæki sem kærða, X, kennitala [...], hefur haft í eigu sinni eða umráðum frá og með 1. maí 2017 til og með 6. júní 2017, og IMEI-númer sem framangreind símanúmer hafa notað á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar SMS-sendingar, sem og samtöl við talhólf greindra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengdust greindum númerum og símtækjum á sama tíma og um hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna símtöl úr og í ofangreind númer og símtæki X sem hún hefur haft í umráðum á sama tíma hafa farið.“ Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að „framangreindur úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða verði staðfestur. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti.“
Samkvæmt 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurður héraðsdómara ekki kærður til Hæstaréttar ef athöfn, sem kveðið er á um í úrskurðinum, hefur þegar farið fram eða ástand, sem leitt hefur af ákvæðum hans, er þegar um garð gengið. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi þegar fengið hinar umkröfðu upplýsingar afhentar og lögregla hafist handa við að vinna úr þeim. Þegar af þeirri ástæðu brestur heimild til að kæra úrskurðinn og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 6. júní 2017.
I
Með bréfi er barst héraðsdómi í dag, 6. júní 2017, hefur lögreglustjórinn á Vestfjörðum gert þá kröfu að héraðsdómur úrskurði að A hf., B hf., C ehf., D ehf., E ehf. og F ehf., verði gert skylt að veita lögreglustjóranum á Vestfjörðum upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], svo og önnur símanúmer og símtæki sem X, kennitala [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 1. maí 2017 til og með 6. júní 2017, og IMEI-númer sem framangreind símanúmer nota á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar SMS-sendingar, sem og samtöl við talhólf greindra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindum númerum og símtækjum á sama tíma. Þá er krafist upplýsinga um hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna símtöl úr og í ofangreind númer og símtæki X sem hún hefur haft í umráðum á sama tíma hafa farið.
Af hálfu kærðu er kröfu lögreglustjóra mótmælt.
II
Samkvæmt greinargerð með kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum hefur lögregla til rannsóknar meint fíkniefnamisferli kærðu, X, sem handtekinn var 30. maí sl. við lögreglustöðina á Ísafirði eftir að lögregla fann við líkamsleit á henni um eitt gramm af hvítu efni, sem kærða segir vera kókaín. Í kjölfarið var framkvæmd húsleit í herbergi sem hún og unnusti hennar G, hafði afnot af að [...] á [...] og var þar lagt hald á nokkurt magn sterkra fíkniefna. Við frekari leit í húsnæðinu að [...] fannst um 20 grömm af hvítu efni, sem kærða segir vera amfetamín og eign hennar, þá fannst í ruslatunnu fyrir utan húsnæðið um 70 grömm af maríhúana og um 80 grömm af hvítu efni, sem lögregla ætlar að sé amfetamín. Í skýrslutöku hjá lögreglu hefur kærða viðurkennt að eiga hluta af hinum haldlögðu efnum. Um miðnætti daginn eftir var kærða handtekin í bifreiðinni [...] við [...] með um 70 grömm af maríhúana, sem hún framvísaði og viðurkenndi að eiga. H, húsráðandi að [...], kannaðist, í skýrslutöku hjá lögreglu, ekki við að eiga umrædd efni, heldur taldi þau vera á vegum G og kærðu.
Í ljósi ofangreinds hefur lögregla rökstuddan grun um að kærða hafi brotið gegn fíkniefnalöggjöfinni og í ljósi þess magns fíkniefna og hvernig búið var um þau er það jafnframt grunur lögreglu að kærða hafi haft efnin til söludreifingar.
Það er mat lögreglustjóra að umbeðnar símaupplýsingar geti skipt miklu fyrir rannsókn málsins og því afar brýnt að lögreglu verði fengin heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu í því skyni að afla sönnunargagna um hið ætlaða brot. Kærða hefur í skýrslutökum hjá lögreglu neitað að veita lögreglu aðgang að umbeðnum símaupplýsingum.
Til stuðnings kröfunni er af hálfu lögreglustjóra vísað er til framangreinds, framlagðra gagna og 80., sbr. 83. og 84. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
III
Lögregla er með til rannsóknar ætluð fíkniefnabrot kærðu sem varðað geta við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um meðferð ávana- og fíkniefna. Samkvæmt rannsóknargögnum er uppi grunur um að kærða hafi brotið gegn lögunum. Af hálfu kærðu er kröfu lögreglustjóra mótmælt og vísað sérstaklega til þess að hvorki efnismagn né annað sem fram er komið í málinu bendi til þess að efnið hafi verið ætlað til dreifingar. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er það skilyrði fyrir aðgerðum m.a. samkvæmt 80. gr. laganna að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem skipt geta miklu fyrir rannsókn tiltekins máls fáist með þeim hætti. Fallist er á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 83. gr. laganna tímabilið frá 1. maí sl. til dagsins í dag. Er krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
A hf., B hf., C ehf., D ehf., E ehf. og F ehf., er skylt að veita lögreglustjóranum á Vestfjörðum upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], svo og önnur símanúmer og símtæki sem kærða, X, kennitala [...], hefur haft í eigu sinni eða umráðum frá og með 1. maí 2017 til og með 6. júní 2017, og IMEI-númer sem framangreind símanúmer hafa notað á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar SMS-sendingar, sem og samtöl við talhólf greindra númera, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengdust greindum númerum og símtækjum á sama tíma og um hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum fyrirtækjanna símtöl úr og í ofangreind númer og símtæki X sem hún hefur haft í umráðum á sama tíma hafa farið.