Hæstiréttur íslands

Mál nr. 293/2015

A (Kristján B. Thorlacius lögmaður)
gegn
B og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.)

Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Ökutæki
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Stórkostlegt gáleysi


Dómsatkvæði

 

Umferðarlög. Ökutæki. Skaðabætur. Líkamstjón. Stórkostlegt gáleysi.

A krafðist þess að B og S hf. bættu honum að fullu líkamstjón sem hann varð fyrir er hann fór á hlaupahjóli yfir götu við gatnamót og varð fyrir bifreið í eigu B. Héldu B og S hf. því fram að A hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara yfir götuna gegn rauðu ljósi fyrir gangandi umferð og ætti því að bera hluta tjónsins sjálfur, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eins og atvikum var háttað hefði mátt misskilja aðstæður á gatnamótunum þannig að óhætt hefði verið að fara yfir götuna. Þá væri til þess að líta að A hefði einungis verið 14 ára þegar slysið varð. Talið var að þegar þessa væri gætt við sakarmatið yrði það gáleysi sem A hefði sýnt af sér með því að fara yfir götuna gegn rauðu ljósi ekki virt sem stórkostlegt í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2015. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 3.280.165 krónur með 4,5% ársvöxtum af 869.700 krónum frá 9. júlí 2009 til 24. júlí 2011, af fyrrgreindu fjárhæðinni frá þeim degi til 27. september 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. 12. september 2012 að fjárhæð 2.644.446 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi 9. júlí 2009 þegar hann fór á hlaupahjóli yfir Höfðabakka í Reykjavík við gatnamót þeirrar götu, Strengs og Bæjarháls. Var áfrýjandi ásamt eldri bróður sínum á leið heim frá vinnu þegar slysið varð um klukkan 16. Fór áfrýjandi yfir Höfðabakka til vesturs rétt norðan við gatnamótin, en rautt ljós logaði fyrir gangandi umferð yfir götuna. Til suðurs eftir Höfðabakka eru þrjár akreinar. Tvær þeirra eru fyrir umferð til austurs inn Bæjarháls en þriðja akreinin lengst til vesturs er fyrir umferð beint yfir gatnamótin. Þegar slysið varð logaði rautt ljós fyrir umferð inn Bæjarháls en grænt fyrir umferð beint yfir gatnamótin. Er áfrýjandi var kominn yfir götuna, þar sem umferð hafði stöðvast á tveimur akreinum, og fór yfir akreinina lengst til vesturs varð hann fyrir bifreiðinni […] sem var ekið beint eftir Höfðabakka til suðurs. Stefnda B var skráður eigandi bifreiðarinnar sem var ábyrgðartryggð hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Áfrýjandi krefst þess að stefndu bæti sér tjónið að fullu. Stefndu halda því hins vegar fram að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara yfir götuna á rauðu ljósi og því eigi hann sjálfur að bera hluta tjónsins, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga skulu vegfarendur fara eftir leiðbeiningum um umferð sem gefnar eru með umferðarljósum. Um gangandi vegfarendur segir síðan í 3. mgr. 12. gr. laganna að einungis megi ganga yfir akbraut þegar grænt ljós er fyrir þá umferð. Ákvæði laganna um gangandi vegfarendur áttu við um áfrýjanda þegar hann fór yfir götuna á hlaupahjóli, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.

Áfrýjandi hefur borið því við að hann hafi í umrætt sinn ekki fylgst með umferðarljósunum heldur metið aðstæður eftir umferðinni og talið sér óhætt að fara yfir götuna þar sem raðir bifreiða hafi verið kyrrstæðar á beygjuakreinunum fyrir umferð austur Bæjarháls. Eins og áður greinir eru tvær akreinar eftir Höfðabakka til suðurs fyrir umferð á leið austur Bæjarháls en þangað liggur mestur þungi hennar eftir götunni. Þegar áfrýjandi fór yfir Höfðabakka hafði umferð stöðvast gegn rauðu ljósi á þeim akreinum. Því mátti misskilja aðstæður á gatnamótunum þannig að óhætt væri að fara yfir götuna, en þá var ekki gætt að umferð eftir akreininni lengst til vesturs á leið beint yfir gatnamótin. Þá ber að hafa í huga að bílaröð á akreinunum fyrir umferð til austurs byrgði sýn fyrir þeirri akrein. Jafnframt verður að líta til þess að áfrýjandi var einungis 14 ára þegar slysið varð. Þegar alls þessa er gætt við sakarmatið verður það gáleysi sem áfrýjandi sýndi af sér með því að fara yfir götuna gegn rauðu ljósi fyrir gangandi umferð ekki virt sem stórkostlegt í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Á hann því rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu og verður krafa hans tekin til greina, en ekki er ágreiningur um fjárhæð hennar.    

Eftir þessum úrslitum verður stefndu gert að greiða málskostnað á báðum dómstigum sem rennur í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, B og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, A, 3.280.165 krónur með 4,5% ársvöxtum af 869.700 krónum frá 9. júlí 2009 til 24. júlí 2011 og af 3.280.165 krónum frá þeim degi til 27. september 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.644.446 krónum miðað við 12. september 2012.

Stefndu greiði óskipt samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti er renna í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2015 í máli nr. E-3223/2014:

Mál þetta var höfðað 9. september 2014 og dómtekið 20. janúar 2015.

Stefnandi er A, […].

Stefndu eru B, […] og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík. 

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða honum 3.280.165 kr. með 4,5% ársvöxtum af 869.700 kr. frá 9. júlí 2009 til 24. júlí 2011, af 3.280.165 kr. frá þeim degi til 27. sept. 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.644.446 kr. sem stefnda greiddi þann 12. sept. 2012.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt málskostnað allt eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I.

Málavextir

Stefnandi lenti í slysi þann 9. júlí 2009 um kl. 16:00, er hann var á leið heim ásamt eldri bróður sínum úr vinnu hjá […]. Stefnandi sem var þá á 15. aldursári var umrætt sinn á hlaupahjóli. Slysið varð á gatnamótum Höfðabakka, Strengs og Bæjarháls í Reykjavík, þegar stefnandi fór yfir götu á gangbraut en ætlun bræðranna var að taka strætisvagn heim til sín í […]. Þegar stefnandi fór yfir götuna var bifreiðinni […], sem var í eigu stefndu á slysdegi, ekið á stefnanda.

Í skýrslu lögreglu frá 10. júlí 2009 segir að ekið hafi verið á dreng á hlaupahjóli, drengurinn hafi verið með meðvitund en ekki væri vitað um meiðsl hans. Fram kom að hann hefði verið fluttur á slysadeild í sjúkrabifreið. Rætt var við ökumann bifreiðarinnar sem kvaðst hafa ekið Höfðabakkann í suður í átt að gatnamótum Höfðabakka og Strengs. Með honum í bifreiðinni voru eiginkona hans og börn. Hafi hann verið á akrein lengst til hægri, en þrjár akreinar væru með þessa akstursstefnu að umferðarljósunum á umræddum gatnamótum. Ökumaðurinn hafi verið kominn að umferðarmerki sem segi til um hámarkshraða er hann hafi tekið eftir því að rautt ljós hafi komið á beygjurein til vinstri á umræddum gatnamótum en grænt ljós hafi logað enn fyrir akstursstefnu hans. Talsverð umferð hafi verið á gatnamótunum. Hafi hann séð stefnanda sekúndubroti áður en hann skall á vinstri hlið bifreiðarinnar, framarlega við stuðara, á hliðarspegil vinstra megin og utan í hurð ökumannsmegin á bifreiðinni. Segir í skýrslunni að verksummerki staðfesti framburð ökumanns. Ökumaður kvaðst hafa ekið á um 55-60 km/klst. er slysið varð en hámarkshraði þarna væri 60 km/klst. Aðspurður kvaðst ökumaður vera fullviss um að grænt ljós hafi logað á götuvita fyrir hans akstursstefnu og að „rauður kall“ hafi verið fyrir gangandi umferð sem stefnanda hafi borið að fara eftir.

Rætt var við C bróður stefnanda. sem kvaðst hafa komið að umræddum gatnamótum á eftir stefnanda.. Hafi „rauður kall“ komið á götuvita er þeim bar að fara eftir og því hafi hann stöðvað en stefnandi hafi haldið áfram. Kvaðst C ekki hafa séð slysið en séð bróður sinn liggjandi í götunni.

Skýrsla var tekin af B, eiginkonu ökumanns bifreiðarinnar þann 14. júlí 2009, sem kvað þau hafa verið á leið upp í Breiðholt. Umferðin hafi verið stopp á beygjurein til vinstri en grænt ljós verið fyrir þeirra akstursstefnu. Þau hafi verið á ágætisferð eða um 60 km/klst. því að þau hafi verið að reyna að ná græna ljósinu. Allt í einu hafi stefnandi komið á hlaupahjólinu út á götuna. Eiginmaður hennar hafi náð að beygja frá en ekki nógu mikið og stefnandi hafi skollið á bílnum.

Þann 15. júlí 2009 var tekin lögregluskýrsla af vitninu D. Kvaðst hann hafa ekið Höfðabakkann til suðurs og verið á ytri beygjurein er hann hafi komið að gatnamótum Höfðabakka og Strengs. Ætlunin hafi verið að beygja til vinstri inn í Árbæinn. Rautt ljós hafi logað á umferðarljósunum fyrir akstursstefnu hans og hafi hann því verið kyrrstæður. Grænt ljós hafi logað á umferðarljósum fyrir umferð með akstursstefnu beint áfram. Hafi hann þá séð út undan sér hvar stefnandi kom á hlaupahjólinu. Hann hafi komið vinstra megin við bifreið hans og farið út á götuna. Hægra megin hafi D jafnframt séð út undan sér að bifreiðin sem drengurinn skall á hafi ekið fram hjá á grænu ljósi. Hann hafi ekki séð slysið sjálft en taldi stefnanda hafa misreiknað ljósin. Aðspurður taldi hann bifreiðina hafa verið á eðlilegum hraða en hann hafi ekki heyrt bremsuhljóð eða ískur.

                Í læknisvottorði E, læknis á Landspítala ‒ háskólasjúkrahúsi segir að stefnandi hafi þeyst frá bílnum og rotast stutta stund. Eftir að hann hafi vaknað hafi hann kvartað um verk í hægri síðu, verk í bakinu hægra megin og kvið auk eymsla hægra megin yfir lifur og/eða nýra. Stefnandi hafi verið óbrotinn, engir ytri áverkar hafi verið á honum fyrir utan rispur. Maráverki hafi verið hliðlægt á hægra lunga. Áverki hafi verið á hægra nýra og blæðing aftan lífhimnu. Greining stefnanda var heilahristingur, lungnamar og áverki á hægra nýra. Allar rannsóknir reyndust eðlilegar við endurkomur. Var stefnanda ráðlagt að taka því rólega fram til ágústloka en eftir það mætti hann sinna áhugamálum sínum sem fyrr.

                Á meðal gagna málsins er jafnframt læknisvottorð F en í samantekt hennar segir að stefnandi hafi verið lagður inn á Barnaspítala Hringsins 9. júlí 2009 með litla rifu á hægra nýra, blæðingu í kring og blóð í þvagi. Meðferð hans hafi fyrst og fremst verið fólgin í eftirliti en hann hafi verið rúmliggjandi fyrstu þrjá sólarhringana til að minnka á líkur á endurblæðingu frá nýra. Ómskoðun af nýra þann 14. júlí 2009 hafi bent til þess að sprunga í nýra hafi verið mjög lítil og gróið hratt og vel enda hafi hún ekki sést. Batahorfur stefnanda hafi því verið mjög góðar og ráð gert fyrir að hann næði sér fullkomlega eftir slysið. Hann var útskrifaður af spítalanum 15. júlí 2009.

                Í ársbyrjun 2011 leitaði stefnandi til G heimilislæknis vegna einkenna sem hugsanlega mátti að rekja til slyssins. Fram kemur í vottorði hans að stefnandi hafi haft verki ofarlega „lumbalt“ í mjóbaki, en ekki hafi verið að finna brottfallseinkenni eða skekkjur. Var stefnanda ráðlagt að vera virkur og hreyfa sig. Fram kemur í niðurlagi vottorðsins að stoðkerfiseinkenni hafi ekki borið á góma eftir þessar skoðun.

                Stefnandi leitaði til H, læknis á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, 28. mars og 6. apríl 2011. Í vottorði læknisins kemur fram að rannsókn á heyrn hans hafi verið eðlileg og innan eðlilegra marka með tilliti til eyrnahljóðs. Ekki væri unnt að útiloka að eyrnasuð er hann kvartaði undan gæti tengst slysinu 2009. Hann hafi fengið heyrnartæki sem ætlað sé að „maksera“ eigið eyrnahljóð. Við endurkomu 10. maí 2011 hafi komið fram að tækið gerði gagn og hafi því verið ákveðið að reyna meðferðina áfram. Stefnandi hafi ekki komið með tækið í frekari stillingu og því sé ekki unnt að segja til um gagnsemi þess síðan. Þá hafi hann boðað forföll í endurkomutíma 24. og 31. maí 2011. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi og móðir hans hafi sagt frá viðvarandi bakverkjum en stoðkerfisvandi geti einnig átt þátt í því að einstaklingar fái eyrnahljóð.

Stefnandi tilkynnti vátryggjanda bifreiðarinnar […], stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (hér eftir Sjóvá), um slysið með tjónstilkynningu dags. 10. janúar 2012. Þann 23. mars 2012 tilkynnti stefndi með tölvubréfi að hann teldi rétt að skerða bótarétt stefnanda um ¼ vegna stórkostlegs gáleysis af hans hálfu. Vísaði stefndi til þess að stefnandi hafi verið 14 ára í mikilli umferð og staðfest sé að hann hafi farið yfir götu á rauðu gönguljósi. Stefnda var tilkynnt með tölvubréfi þann sama dag að stefnandi setti fyrirvara við þessa afstöðu félagsins.

Í kjölfar þessa óskaði stefnandi eftir mati á afleiðingum slyssins. Lá matsgerð matsmannanna, I bæklunarlæknis og J hrl., fyrir þann 24. ágúst 2012. en niðurstöður hennar voru að stefnandi hefði orðið fyrir varanlegum miska og varanlegri örorku vegna slyssins. Fram kemur í matsgerðinni að við mat á því hvort rekja megi eyrnasuð og bakverki til slyssins líti matsmenn fyrst og fremst til þess hvort slysið sem slíkt sé líklegt til að valda slíkum einkennum. Um hafi verið að ræða háorkuslys og stefnandi hafi ekki haft stoðkerfissögu fyrir slysið. Frásögn A um að einkenni hafi komið til fljótlega eftir slysið geti vel rímað við þróun mála eftir slysið. Við mat á varanlegum miska var lagt til grundvallar að um væri að ræða væga mjóbakstognun og eyrnasuð. Var varanlegur miski metinn til 8 stiga og þar af væru 3 stig vegna eyrnasuðs. Að því er varðar mat á varanlegri örorku sé litið til afleiðinga slyssins og aðstæðna tjónþola. Telja matsmenn engar líkur vera á því að eyrnasuðið eigi eftir að skerða vinnugetu stefnanda en stoðkerfisvandi sem slíkur sé hins vegar líklegur til þess. Í ljósi þessa og þar sem um sé að ræða lítils háttar stoðkerfisvanda töldu matsmenn örorku stefnanda vera 5%.

Með bréfi dagsettu 27. ágúst 2012 krafði stefnandi stefnda Sjóvá um greiðslu bóta að upphæð samtals 3.530.128 kr. og byggði hana á ofangreindri matsgerð. Þá var gerð krafa um greiðslu lögmannsþóknunar. Í kröfubréfinu var jafnframt ítrekað að stefnandi teldi skerðingu sína um ¼ hluta ekki réttmæta og að hann hygðist því leita réttar síns.

Með tölvubréfi stefnda, dagsettu 7. september 2012, hafnaði stefndi bótaskyldu að ¼ hluta með vísan til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Uppgjör málsaðila fór fram þennan dag og tók stefnandi við greiðslu að fjárhæð 2.644.446 kr. auk hluta lögmannsþóknunar þann 12. sept. 2012, samtals 2.888.754 kr., með fyrirvara um þá skerðingu bóta sem uppgjörið gerði ráð fyrir vegna eigin sakar hans.

Þann 3. desember 2012, skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða nefndarinnar lá fyrir 8. janúar 2013 en talið var að bótaskylda væri fyrir hendi en þó rétt að skerða bótarétt stefnanda um ¼ hluta sakar.

Stefnandi telur að afstaða stefndu í málinu sé ekki rétt og höfðaði hann því mál þetta. 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að stefndu beri að greiða honum fullar skaðabætur vegna þess tjóns sem hann hlaut í umferðarslysinu 9. júlí 2009. Kröfu sína byggir hann á því að tjón hans skuli bæta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einkum 88. gr. og 91. gr., enda megi rekja slysið til notkunar hennar. Um bætur og bótafjárhæðir fari eftir ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Hvað sameiginlega aðild stefndu varðar vísast til 90. og 97. gr. umferðarlaga. Stefnda B sé eigandi bifreiðarinnar […] og stefndi Sjóvá ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar.

Stefnandi telur ranga þá ákvörðun stefnda Sjóvár að skerða skaðabætur til stefnanda um ¼ hluta.

Í 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið á um hlutlæga ábyrgð skráningarskylds eiganda bifreiðar. Stefnandi telur skýrt að þar sem bifreiðinni […] hafi verið ekið á hann, er hann fór yfir götu sem gangandi vegfarandi, þá eigi hann skýlausan bótarétt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar.

Stefnandi telur ljóst að hann hafi hvorki sýnt af sér ásetning né stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins og því séu skilyrði 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga fyrir bótaskerðingu ekki uppfyllt.

Af dómaframkvæmd um 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga sé ljóst að stefndu bera í fyrsta lagi sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins og í öðru lagi fyrir því að orsakasamband sé á milli hinnar gáleysislegu háttsemi og tjónsins. Stefnandi telur að stefndu hafi ekki staðið undir þeirri sönnunarbyrði sem á þeim hvíli.

Stefnandi byggir á því að hann hafi misreiknað sig umræddan dag sökum ungs aldurs og reynsluleysis. Hann hafi talið að rautt ljós logaði á alla umferð suður gatnamótin. Þá hafi hann ekki séð neina umferð koma að sér og því talið óhætt að fara yfir götuna en hann hafi aðeins haft grunnþekkingu á umferðarreglum. Þar að auki hafi hann haft litla reynslu af því að lesa í umferð og skilja virkni gatnamóta. Ekki hafi verið um að ræða háskaleik af hans hálfu auk þess sem ekkert liggi fyrir um að hann hafi verið annars hugar eða annað í þá veru. Vegna þessa telur stefnandi ljóst að hann hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn.

Stefnandi byggir á því að réttarframkvæmd um bótaskerðingu vegna eigin sakar tjónþola í aðdraganda umferðarslyss hafi breyst með setningu umferðarlaga nr. 50/1987. Með þeim lögum hafi fyrst verið lögfest í 2. mgr. 88. gr. að ekki væri heimilt að skerða bætur tjónþola vegna meðábyrgðar nema hann hefði sýnt af sér ásetning eða stórkostlegt gáleysi. Fræðimenn hafi talið að af þessari breytingu leiði að sakarskipting væri að miklu leyti úr sögunni vegna slysa sem fótgangandi vegfarendur, hjólreiðamenn, ríðandi menn eða farþegar yrðu fyrir af notkun bifreiða. Stefnandi telur dómaframkvæmd eftir setningu laga nr. 50/1987 sýna að þessi túlkun fræðimanna sé rétt. Vegna þessa sé ekki heimilt að skerða skaðabætur til stefnanda vegna tjónsins sem hlaust af slysinu 9. júlí 2009.

Fræðimenn hafi talið rök fyrir því að líta fram hjá meðábyrgð barns, t.d. í umferðarslysum, þegar ábyrgðartrygging ökutækis bæti tjón, sérstaklega ef slysið hefur í för með sér varanlegar afleiðingar eins og í hans tilviki. Hann hafi vegna aldurs ekki getað metið aðstæður á gatnamótunum með sama hætti og fullorðinn einstaklingur með bílpróf. Þá sé ljóst samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð að slysið hafi valdið honum töluverðu tjóni, bæði tímabundnu og varanlegu, og muni koma til með að hafa áhrif á alla hans framtíð. Meta verði háttsemi hans umræddan dag með hliðsjón af þessu. Krafa stefnanda um skaðabætur byggir á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar og sundurliðist á eftirfarandi hátt:

1. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.                                                                         kr.                99.420.-

2. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl.                                               kr.              770.280.-

3. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl.                                     kr.           2.410.465.-

Samtals                                                                                                                     kr.          3.280.165.-

Krafa stefnanda um þjáningabætur er byggð á 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé tímabil þjáningabóta frá 9.7.2009 til 1.9.2009 en þar af hafi stefnandi verið rúmfastur tímabilið 9. júlí 2009 til 15. júlí 2009. Stefnandi hafi því verið veikur í 54 daga, þar af rúmfastur í sex daga. Þjáningabætur nemi 3.130 kr. á dag fyrir þann tíma sem stefnandi hafi verið rúmfastur en 1.680 kr. fyrir þann tíma sem hann hafi verið veikur án rúmlegu, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu samkvæmt 15. gr. laganna. Með vísan til framangreinds krefst stefnandi 99.420 kr. í bætur fyrir þjáningar (6 x 3.130 og 48 x 1.680).

Varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska vísar stefnandi til 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð er miski stefnanda vegna slyssins 8 stig. Vegna þessa þáttar er því krafist 770.280 kr. (9.628.500 x 8%) með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi.

Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 5%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins hafi taldist stöðugt þann 24. júlí 2011, sé margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 17,685. Varðandi tekjuviðmið vísar stefnandi til lágmarkslaunaviðmiðs 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem tekjur stefnanda á viðmiðunartímabilinu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu lægri en lágmarkslaunaviðmiðið taki krafa stefnanda mið af því. Lágmarkslaunaviðmiðið sé samtals 2.726.000 kr. þegar það hefur verið uppreiknað samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Verði bætur fyrir varanlega örorku því samtals 2.410.465 kr. (2.726.000 x 17,685 x 5%) og er gerð krafa þar um.

                Varðandi vaxtakröfu sína af bótum fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku vísar stefnandi til 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Bætur vegna þjáninga og miska beri vexti frá tjónsdegi, 9. júlí 2009 en bætur vegna varanlegrar örorku frá þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins telst stöðugt, eða frá 24. júlí 2011.

Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag er mánuður var liðinn frá því að kröfubréf var sent stefnda, eða við 27. sept. 2012, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Stefnda Sjóvá greiddi stefnanda bætur að fjárhæð 2.644.446 kr. þann 12. sept. 2012. Bótakrafa stefnanda taki mið af því.

Stefnandi styður kröfur sínar fyrst og fremst við umferðarlög nr. 50/1987, sérstaklega við XIII. kafla laganna og þá einkum við 88. og 91. gr. Þá er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 3.-7. gr. og 15.-16. gr., og til meginreglna skaðabótaréttar.

Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32., 33. og 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varðandi málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Krafa stefndu um sýknu byggist á því að hinu stefnda vátryggingafélagi hafi verið heimilt að beita lækkunarheimild 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og skerða bótagreiðslu til handa stefnanda að ¼ hluta. Gögn málsins ásamt framburði aðila og vitna hjá lögreglu staðfesti að stefnandi hafi farið yfir mikla umferðargötu gegn rauðu ljósi og án þess að huga að umferð. Telur stefndi að tjón stefnanda hafi verið að fullu bætt og að hann eigi því ekki tilkall til frekari bóta úr hendi stefndu.

Stefnandi hafi verið meðvaldur að tjóni sínu vegna stórkostlegs gáleysis. Í fyrsta lagi hafi stefnandi brotið alvarlega gegn ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum III. kafla laganna og þá sérstaklega gegn 3., 5., og 2. mgr. 12. gr. Af lögregluskýrslum og framburði aðila og vitna sé óumdeilt að stefnandi hafi farið yfir mikla umferðargötu við gatnamót Höfðabakka, Strengs og Bæjarháls gegn rauðu ljósi fyrir umferð gangandi vegfarenda. Sé það andstætt síðastgreindu ákvæði.

Í öðru lagi hafi stefnandi farið yfir götuna á hlaupahjóli sem gerði ökumanni erfiðara um vik en ella að greina þá hættu sem stefnandi hafði sett sig í með athöfnum sínum.

Í þriðja lagi beri gögn málsins með sér að stefnandi hafi farið yfir akbrautina við Höfðabakka (umferð í norður) á rauðu ljósi fyrir gangandi vegfarendur og haldið för sinni áfram yfir beygjuakbrautir og akbraut í suður þrátt fyrir að enn logaði rautt ljós fyrir gangandi umferð með þeim afleiðingum að slysið varð. Hafi stefnandi því haft bæði nægan tíma og raunhæfan kost á að afstýra slysinu.

Í fjórða lagi liggi fyrir að umrædd gatnamót séu fjölfarin og þar sé jafnan þung umferð. Gangandi vegfarendur þurfi þar af leiðandi að sýna þar sérstaka aðgæslu. Með því að fara yfir götuna gegn rauðu umferðarljósi hafi stefnandi ekki sýnt af sér slíka aðgæslu.

Í fimmta lagi telja stefndu að gögn málsins beri það með sér að bifreiðinni […], sem stefnandi skall á umrætt sinn, hafi ekki verið ekið of hratt eða umfram leyfilegan hámarkshraða. Ökumaður bifreiðarinnar hafi borið að bifreiðinni hefði verið ekið á 55-60 km/klst. og fái það stoð í framburði vitnisins D í lögregluskýrslu. Leyfilegur hámarkshraði á umræddum stað sé 60 km/klst.

Stefndu telji því að stefnandi hafi í umrætt sinn sýnt af sér svo alvarleg frávik frá þeirri háttsemi sem honum hafi borið að viðhafa að slíkt teljist stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987.

Þá telja stefndu augljóst orsakasamband á milli framangreindrar háttsemi stefnanda og slyssins. Slysið verði í raun eingöngu rakið til stórfellds gáleysis stefnanda.

Stefndu mótmæli því að ungur aldur stefnanda dragi úr alvarleika háttsemi hans eins og haldið sé fram í stefnu. Stefnandi hafi verið á 15 aldursári þegar slysið varð og verði því talinn hafa verið fullfær um að leggja mat á þá hættu sem geti stafað af því að fara yfir götu gegn rauðu ljósi yfir fjölfarin gatnamót og hættulega umferðargötu. Umferðarfræðsla eigi sér stað í leik- og grunnskólum og þá megi ætla að stefnandi hafi haft aldur og þroska til að skilja mikilvægi leiðbeininga sem gefnar eru með umferðarljósum sem og hættuna sem getur hlotist af því að fara gegn slíkum leiðbeiningum. Almennt kynnist börn umferð og umferðarreglum af eigin raun við 6-7 ára aldur. Stefndu telja því að almennt megi álykta sem svo að stefnandi og aðrir sem séu á sama aldri hafi talsverða reynslu af því að vera í umferð. Að minnsta kosti megi almennt gera ráð fyrir því að börn á 15 aldursári hafi þekkingu á þeim umferðarljósum sem gildi fyrir gangandi vegfarendur og hvernig þau virki.

Stefndu telji því að stefnandi hafi haft full tök á að leggja mat á aðstæður á umræddum gatnamótum í umrætt sinn og sé því mótmælt að aðrar kröfur skuli gilda um börn á 15 aldursári við slíkar aðstæður eins og stefnandi haldi fram.

Þá mótmæla stefndu því sem haldið sé fram í stefnu að sú staðreynd að stefnandi hafi ekki verið kominn með bílpróf þegar slysið varð leiði til þess að athafnir hans geti ekki talist stórkostlegt gáleysi. Slík staðreynd geti ekki leyst stefnanda frá því að gæta eðlilegrar varúðar og fylgja leiðbeiningum sem umferðarljós veiti gangandi vegfarendum. Að sama skapi telji stefndu að meint reynsluleysi stefnanda af því að lesa í umferð og skilja virkni gatnamóta geti ekki dregið úr þeim kröfum sem almennt verði að gera til gangandi vegfarenda og þeirri skyldu að fylgja þeim leiðbeiningum sem umferðarljós gefi.

Stefndu mótmæla þeirri málsástæðu sem fram komi í stefnu að stefnandi hafi ekki þekkt aðstæður á vettvangi sérlega vel þar sem hann hafi ekki búið í því hverfi sem slysið varð. Hér bendi stefndu á að umferðarreglur fyrir gangandi vegfarendur séu eins hvar sem þeir búa. Stefndu telji því að almennt sé hægt að gera þá kröfu til stefnanda að hann fylgi leiðbeiningum umferðarljósa hvort sem hann fari um götur í Reykjavík eða Kópavogi. Þá sé rétt að benda á að stefnandi hafi stundað vinnu í námunda við þau gatnamót sem slysið varð og megi því allt eins álykta að hann hafi þekkt til umræddra gatnamóta eða farið þar um áður.

Að lokum mótmæla stefndu því sem röngu að óheimilt sé að skerða skaðabætur til stefnanda með vísan til dómaframkvæmdar eftir setningu laga nr. 50/1987.

Verði ekki fallist á sýknu stefndu telja stefndu að lækka skuli dómkröfur stefnanda. Þá mótmæla stefndu alfarið kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök vísar stefndi einkum til umferðarlaga nr. 50/1987, ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, sem og til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum reglunnar um meðábyrgð tjónþola. Þá vísa stefndu til almennra reglna vátryggingaréttar og ákvæða laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að stefnandi hlaut líkamstjón er hann, á leið sinni yfir fjölfarna umferðargötu við Höfðabakka í Reykjavík í júlí 2009, varð fyrir bifreiðinni […]. Eins og fram hefur komið voru tvær samliggjandi beygjuakreinar næstar stefnanda þar sem bifreiðar voru kyrrstæðar á rauðu ljósi. Bifreiðinni sem stefnandi varð fyrir, var ekið á þriðju akreininni á grænu umferðarljósi.

Stefnda B er eigandi bifreiðarinnar sem er tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá, sbr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hvorki er deilt um skaðabótaskyldu stefndu samkvæmt 1. mgr. 88. gr. né uppgjör bóta.

                Aðila greinir á um hvort stefnda Sjóvá hafi verið rétt að lækka bætur til stefnanda um ¼ á grundvelli 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987. Telur stefnandi að með því hafi tjón hans eigi verið bætt að fullu.

                Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 er heimilt að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur af því af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Fyrrgreind lækkun bóta var byggð á því að stefnandi hefði sýnt stórkostlegt gáleysi er hann fór yfir umferðargötuna umrætt sinn gegn rauðu ljósi fyrir gangandi vegfarendur. Fyrir þeirri málsástæðu bera stefndu sönnunarbyrði.

Í III. kafla umferðarlaga, sem ber yfirskriftina umferðarreglur fyrir gangandi vegfarendur, segir í 3. gr. að ákvæði þeirra um gangandi vegfarendur gildi einnig um þá sem eru á skíðum, hjólaskíðum, skautum eða svipuðum tækjum. Í 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að vegfarandi skuli sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli umferð að óþörfu. Í 5. gr. segir að vegfarandi skuli fara eftir leiðbeiningum um umferð sem gefnar eru með umferðarmerkjum, umferðarljósum eða hljóðmerkjum eða öðrum merkjum á eða við veg og að slíkar leiðbeiningar skuli gilda framar almennum umferðarreglum. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að gangandi vegfarandi, sem ætli yfir akbraut, skuli hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum, sem nálgast. Hann skuli fara yfir akbrautina án óþarfrar tafar. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að nota skuli gangbraut, sé hún nálæg, þegar farið er yfir akbraut. Sama eigi við um göng og brú fyrir gangandi vegfarendur. Að öðrum kosti skuli ganga þvert yfir akbraut og að jafnaði sem næst vegamótum. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að þar sem umferð sé stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum megi einungis ganga yfir akbraut á grænu ljósi fyrir umferð gangandi vegfarenda eða lögreglan gefi til kynna með merkjagjöf að umferð gangandi sé heimil. 

Stefnandi fellur undir ofangreinda skilgreiningu á gangandi vegfaranda þó að hann hafi farið ferða sinna á hlaupahjóli umrætt sinn.

                Stefnandi lýsti tildrögum slyssins fyrir dómi. Hann kvað þá bræður hafa farið á gangbraut yfir fyrstu akreinina við umrædd gatnamót og staðið við þá næstu. Kvaðst hann hafa séð kyrrstæðar bifreiðar á tveimur akreinum á beygjuljósunum. Hafi ekki komið bíll sem ók beint áfram í svolítinn tíma og því hafi hann gert ráð fyrir að óhætt væri að fara yfir götuna. Hann kvaðst ekki hafa sérstaklega fylgst með umferðarljósunum heldur athugað hvort hann sæi bifreiðar koma akandi. Hann hafi haldið áfram yfir en ekki fylgst með bróður sínum. Kvaðst hann fyrst muna eftir sér þegar lögreglan var komin á vettvang. Aðspurður kvaðst stefnandi oft hafa farið þessa sömu leið þegar þeir bræður tækju strætó heim eftir vinnu. Því hafi hann þekkt akstursstefnu bifreiðanna. Á þessum tíma hafi hann hins vegar ekki gert sér fulla grein fyrir virkni ökuljósanna fyrir akandi umferð og því ekki áttað sig er hann sá kyrrstæðu bifreiðarnar á beygjuakreininni.

                C, bróðir stefnanda, kvaðst hafa fylgst með umferðarljósunum fyrir gangandi vegfarendur og séð að rautt ljós hafi logað fyrir vegfarendur. Þá hafi kyrrstæðar bílaraðir verið á tveimur af þremur akreinum og ein hafi „verið í gangi“ en þó hafi hann ekki séð bifreið þar. Hann hafi tekið eftir því þegar stefnandi fór yfir götuna en að öðru leyti ekki fylgst með honum heldur eingöngu ljósunum. Hafi hann beðið eftir því að komast yfir götuna á grænu ljósi fyrir gangandi vegfarendur. Rautt ljós hafi logað fyrir umferð á beygjuakreinunum tveimur en grænt fyrir þá þriðju. Aðspurður kvað C þá bræður oft hafa farið yfir þessi gatnamót frá því að þeir byrjuðu í sumarvinnu sinni en þeir hafi þá annaðhvort verið að koma eða fara með strætisvagninum.

                Þegar litið er til framburðar stefnanda, C og þeirra lögregluskýrslna sem eru á meðal gagna málsins, liggur fyrir að stefnandi fór yfir umferðargötu á gangbraut er rautt ljós logaði fyrir gangandi vegfarendur. Eins og fram kom hjá stefnanda fór hann yfir akbrautina án þess að huga að ljósunum. Braut stefnandi því gegn ofangreindu ákvæði 3. mgr. 12. gr. umferðarlaga, en þá reglu þekkja allir vegfarendur vel frá ungaaldri. Með hegðun sinni umræddan dag sýndi stefnandi að mati dómsins af sér gáleysi.

                Við mat á því hvort gáleysi stefnanda teljist stórkostlegt verður að líta til sakar stefnanda, hvernig atburðinn bar að og atvika að öðru leyti. Eins og áður segir fór stefnandi yfir á gangbraut við fjölfarin gatnamót, þar sem umferð er jafnan þung, ekki síst síðla dags um það leyti er stefnandi var á heimleið. Var því fullt tilefni til sérstakrar aðgæslu og til að fylgja ofangreindri umferðarreglu. Stefnandi byggir á því að hann hafi misreiknað umferðarljósin. Að mati dómsins vegur þungt að stefnandi hafði oft áður farið ásamt eldri bróður sínum yfir umrædd gatnamót á sömu gangbraut. Mátti hann því vera vel kunnugur aðstæðum þar. Hafi hann verið í vafa hafði hann eldri bróður sinn sem fyrirmynd í þessum efnum en skýrt kom fram fyrir dómi að hann þekkti virkni umferðarljósa vel og fylgdi umferðarreglum. Þá er einnig til þess að líta að stefnandi fór ferða sinna á hlaupahjóli. Þrátt fyrir að því sé ekki haldið fram að hann hafi farið of geyst má ætla að á slíkum fararskjóta hafi hann farið hraðar yfir en fótgangandi vegfarandi. Verður þannig að telja útilokað fyrir ökumann að bregðast við slíku eins og ráðið er af skýrslum ökumanns og vitna hjá lögreglu. Einnig er til þess að líta að vegna staðsetningar kyrrstæðu bifreiðanna við beygjuljós gatnamótanna var stefnanda að nokkru byrgð sýn og því sérstök ástæða til að gæta varúðar. Engu að síður hélt hann áfram för sinni yfir götuna. Af ljósmyndum af vettvangi má glögglega sjá að vegur hallar, sem eðli máls samkvæmt gerir gangandi vegfaranda sem staðsettur er á þeim stað er stefnandi stóð, áður en hann hélt áfram, erfiðara að glöggva sig á aðvífandi umferð úr þeirri átt er bifreiðin […] kom. Verður að ætla að enn erfiðara sé fyrir ökumann sem ekur þá leið að sjá gangandi vegfarendur sem þar standa og er honum því einnig ákveðin hætta búin.

                Því er ekki haldið fram að ökumaður bifreiðarinnar […] hafi ekið á ólöglegum hraða, aksturslag hans hafi verið óeðlilegt eða búnaði bílsins á einhvern hátt ábótavant er slysið varð. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að útilokað hafi verið fyrir ökumann við þessar aðstæður að bregðast við því er vegfarandi á hlaupahjóli kemur skyndilega út á akbrautina. Er þannig ljóst að ökumaður bifreiðarinnar gat ekki afstýrt slysinu.

                Við flutning málsins fyrir dómi vísaði lögmaður stefnanda til dómafordæma í málum þar sem ágreiningur stóð um hvort eigin sök tjónþola ætti að hafa áhrif á fjárhæð bóta, m.a. mála þar sem gangandi vegfarendur hafa farið yfir akbraut án nægilegrar aðgæslu og án þess að nýta sér nærliggjandi gangbrautir. Í nokkrum málum hafa tjónþolar auk þess verið undir áhrifum áfengis. Dómurinn fær ekki annað séð en að í málum þessum hafi sérstaklega verið metin þau atvik önnur og aðstæður sem vegið hafa á móti saknæmri hegðun tjónþola, svo sem saknæm hegðun ökumanns og óvissa um ölvunarstig tjónþola. Heildstætt mat hefur þá leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki hafi verið um stórfellt gáleysi að ræða.

Það er hins vegar niðurstaða dómsins, að öllu ofangreindu virtu, að hegðun stefnanda hafi í veigamiklum atriðum vikið svo frá því sem telst forsvaranlegt eða venjulegt við þær aðstæður sem voru uppi er slysið varð að gáleysi stefnanda telst hafa verið stórkostlegt. Var stefnda Sjóvá því rétt að taka tillit til þess við ákvörðun bóta, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Með uppgjöri stefnanda og stefnda Sjóvár var tjón stefnanda að fullu bætt.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins 15. ágúst 2014, sem takmarkað er við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og við ágreining um bótaskyldu. Greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 450.000 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

      Stefndu, B og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

      Málskostnaður milli aðila fellur niður.

      Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 450.000 krónur.