Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2009. |
|
Nr. 141/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Jóhannesi Eggertssyni (Sigmundur Hannesson hrl. (Dögg Pálsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
J var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við A, gegn vilja hennar, með því að nudda kynfæri konunnar með kynlífstæki og setja tækið inn í leggöng hennar, en við kynferðismökin notfærði J sér það að A gat ekki spornað við þeim sökum andlegra annmarka. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var sannað að J hefði nuddað kynfæri A en hins vegar taldist sönnun ekki komin fram um að J hefði beitt kynlífstæki í því skyni eða stungið því eða fingri inn í kynfæri hennar. Samkvæmt fyrirliggjandi álitsgerðum sálfræðinga sýndu niðurstöður greindarprófs A að greind hennar væri neðarlega á stigi vægrar þroskahömlunar. Þá var ekki um það ágreiningur að J og A hefðu þekkst í langan tíma þegar umrætt atvik átti sér stað. Var því talið að J hefði ekki getað dulist að A ætti við andlega annmarka að stríða og að hann hefði notfært sér andlega fötlun A í því skyni að hafa við hana kynferðismök. Var héraðsdómur staðfestur um annað en sakarkostnað og J gert að sæta fangelsi í 15 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 600.000 krónur auk vaxta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, en til vara að sakfelling samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði staðfest. Í báðum tilvikum er gerð krafa um að refsing verði þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann ómerkingar héraðsdóms, en ella að refsing verði milduð og skaðabótakrafa lækkuð.
Kröfur ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi og ómerkingu hins áfrýjaða dóms eru ekki studdar haldbærum rökum og verður þeim því hafnað.
Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið krafist ómerkingar héraðsdóms, en í ljósi röksemda fyrir niðurstöðu hans getur ekki komið til álita að sakfella ákærða fyrir háttsemi, sem þar taldist ósönnuð, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað, en um hann fer samkvæmt því sem segir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Jóhannesar Eggertssonar, svo og skaðabætur.
Ákærði greiði þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, 249.000 krónur. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, samtals 1.025.844 krónur, skulu að öðru leyti vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 541.609 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Steinunnar Guðbjartsdóttur og Daggar Pálsdóttur, 62.250 krónur í hlut hvorrar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. maí 2008 á hendur Jóhannesi Eggertssyni, Lyngheiði 10, Hveragerði, fyrir nauðgun, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 22. júní 2007, á skrifstofu ákærða að Síðumúla 13 í Reykjavík, haft önnur kynferðismök en samræði við A, gegn vilja hennar, með því að nudda kynfæri konunnar með kynlífstæki og setja tækið inn í leggöng hennar, eða með því að nudda með fingrum og setja fingur inn í leggöng konunnar, en við kynferðismökin notfærði ákærði sér það að A gat ekki spornað við þeim sökum andlegra annmarka sinna.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 króna auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. júní 2007 til 23. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Að öðrum kosti er þess krafist að ákærði verði sýknaður af ákæru og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun og þóknun fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi verði ákvörðuð samkvæmt mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði.
I.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að sunnudaginn 24. júní 2007, kl. 20.30, hafi verið óskað eftir því að lögreglan færi á neyðarmóttöku Landspítala til að ræða þar við A, kæranda máls þessa, vegna kynferðisbrots er hún teldi sig hafa orðið fyrir. Hafi hún þar gert lögreglumönnum stuttlega grein fyrir málavöxtum og lýst meintu kynferðisbroti sem átt hefði sér stað tveimur dögum áður á skrifstofu ákærða í Síðumúla 13 í Reykjavík. Hafi kærandi sagst staðráðin í því að leggja fram kæru á hendur ákærða.
Þriðjudaginn 3. júlí 2007 kom kærandi til lögreglu og óskaði eftir að kæra ákærða fyrir kynferðisbrot. Í kæruskýrslu sem tekin var af henni greinir hún frá því að ákærði hafi haft samband við hana símleiðis að kvöldi föstudagsins 22. júní og boðið henni að hitta sig á skrifstofu hans í Síðumúla 13 í Reykjavík. Hafi hún haldið á fund við hans í leigubíl, sem ákærði hafi svo greitt fyrir. Er inn var komið hafi ákærði sagt henni að fara úr buxunum. Hafi hún þá hugsað með sér að best væri að gera það ,,til þess að gera ekki uppreisn, því hann var jú fyllri og á einhverjum töflum“. Hafi ákærði beðið hana um að leggjast upp í sófa inni á skrifstofu hans og hún gert það. Því næst hafi ákærði farið inn í eldhús og þaðan hafi hún svo heyrt hvell. Hafi ákærði sagt henni að leggjast niður og hún ,,þorði ekki öðru“. Hafi ákærði svo komið inn með ,,ljós glennt svona rautt og mjótt“ og hún ekki vitað hvað það gæti verið. Lýsir hún síðar í skýrslunni hlutnum sem grænum. Hafi ákærði ýtt græna stykkinu ,,inn á milli fóta“ henni, hálfa leið inn í leggöngin, og hafi hún við það orðið öll rauð inni í klofinu. Hafi þetta staðið yfir í um fimm mínútur og hún ,,grenjað inni í sér“ á meðan. Aðspurð sagðist hún hafa mótmælt háttsemi ákærða með orðunum ,,þú gerir þetta ekki“. Hafi hún rétt hafa sloppið undan ákærða og náð að hringja í eiginmann sinn sem hafi sótt hana og ekið henni á heimili þeirra.
Á sunnudeginum á eftir hafi hún fundið fyrir miklum kláða í klofinu og séð að hún var öll rauð. Hafi hún þá hringt í lögregluna sem hafi ekið henni á slysavarðstofu. Kvaðst kærandi þekkja ákærða og gat þess að þau hefðu unnið saman í fiski fyrir mörgum árum. Kvaðst hún jafnframt hafa átt í kynferðislegu samneyti við hann og þá hefði það verið ,,allt í góðu“. A kvaðst ekki hafa getað lifað eðlilegu kynlífi með eiginmanni sínum eftir atvikið. Hefði hún ekki þorað að segja honum frá því sem gerðist.
Miðvikudaginn 11. júlí 2007 var ákærði yfirheyrður hjá lögreglu. Kannaðist hann þá við að kærandi hefði heimsótt sig á skrifstofu hans í Síðumúla 13. Hefði hún komið til hans í leigubíl sem hann hefði greitt. Hefðu þau þekkst í um tíu ár og hist af og til. Ákærði sagði kæranda hafa beðið um að fara í ,,einhvern leik“ en hann sagst ekki geta staðið í því. Er eftir ákærða haft að ,,þegar maður er búinn að fá sér einhvern bjór að maður er ekki það burðugur að geta staðið í einhverju“. Því hefði lítið orðið um leik. Nánar skýrði hann leikinn þannig að kærandi hefði boðið honum upp á að hafa mök við sig. Hefði hún gert það með því að draga niður sófa á skrifstofunni og afklæðst. Hefði hann í fyrstu verið hálftregur en svo reynt en ,,það bara dugði ekkert“. Ákærði kannaðist ekki við að hafa haft grænt tæki, en kvaðst hins vegar hafa reynt að nota græna verju en það hefði ekki gengið. Hefði kærandi verið „mjög svona eitthvað svona sár út af því að ég skyldi ekkert geta gert“. Kvaðst hann þá hafa sett verjuna upp á puttann og verið eitthvað að reyna að „hjálpa henni með puttanum svona eitthvað smotterí“. Hefði kærandi svo rætt um það að hún hefði gleymt að taka sykursýkistöflurnar og eiginmaður hennar hringt í sífellu. Hefði hann því sagt við kæranda að hún skyldi bara fara út. Kvaðst ákærði halda að eiginmaður hennar hefði sótt hana á bíl.
Aðspurður hvort hann hefði áður átt kynferðislegt samneyti við kæranda kvað ákærði svarið við því vera já og nei, hann hefði verið ,,hálflélegur til þess“. Þá lagði ákærði fram yfirlýsingu, sem hann sagði undirritaða af kæranda, þess efnis að hún drægi kæruna á hendur honum tilbaka.
II.
Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa þekkt kæranda í um sjö til átta ár. Væru þau kunningjar og hefðu hist af og til og drukkið saman kaffi. Kvaðst hann ekki muna hvernig kynni þeirra hófust og ekki væri rétt að þau hefðu unnið saman. Hins vegar kannaðist hann við að kærandi hefði unnið í fiski og taldi að þau hefðu kynnst ,,eitthvað í kringum það“. Ákærði sagðist hafa verið búinn að nefna það við kæranda umrætt kvöld að henni væri óhætt að kíkja í heimsókn til hans á skrifstofuna. Kvaðst hann ekki muna hvort hann hringdi í hana eða hún í hann og ekkert sérstakt hefði legið fyrir um tilgang heimsóknarinnar. Hann hefði sagt henni að taka leigubíl ef hún kæmi og hann hefði svo greitt fyrir bílinn. Þegar hún svo kom hefðu þau spjallað saman um ,,gamla tíma“ og ,,daginn og veginn“. Hefði ekkert illt verið á milli þeirra og hefði aldrei verið. Aðspurður hvort eitthvað kynferðislegt hefði gerst á milli þeirra sagði ákærði ,,nei, það gerðist ekki neitt“. Kærandi hefði eitthvað verið að impra á því en hann hefði sagt henni að hann hefði engan áhuga á því, enda hefði hann aldrei haft neinar kynferðislegar hvatir til hennar. Hann hefði því ekki haft í frammi neina kynferðislega tilburði gagnvart konunni.
Spurður um frásögn hans hjá lögreglu um að græna verju sagðist ákærði hafa verið eitthvað að ,,fíflast“ með puttann í verju sem þarna hefði verið. Það hefði ekki verið til að ,,brúka til eins eða neins“ og hefði hann ekki snert kynfæri konunnar. Það hefði ekki staðið til. Aðspurður hvað hann hefði átt við með því hjá lögreglu að hann hefði ,,eitthvað reynt að hjálpa henni með puttunum, eitthvað smotterí“, sagði hann að það hefði ekki verið neitt, þetta hefði bara verið vitleysa. Hann hefði eitthvað mismælt sig og gæti hann ekki skýrt þessi ummæli frekar. Hann hefði ekki gert henni neitt og það hefði aldrei hvarflað að honum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa keypt smokkinn einhvern tímann á Spáni og verið með hann í skúffu hjá sér. Sagði hann að á meðan á heimsókn kæranda stóð hefði eiginmaður hennar hringt í sífellu. Þá hefði hún stöðugt talað um að hún hefði gleymt að taka lyfin sín. Í framhaldi hefði eiginmaður hennar svo komið og sótt hana.
Spurður um framburð sinn hjá lögreglu að því er kynferðislegt samneyti varðar, þar sem ákærði sagði að svara mætti því með ,,já og nei“, sagði ákærði að hann hefði bara ,,almennt ekki“ staðið í því. Sagðist hann nánar spurður ekki hafa átt nein kynferðisleg samskipti við kæranda. Hefði hann einhverju sinni heimsótt hana og skoðað listaverk eftir hana en hana hlyti að misminna að þau hefðu áður átt kynferðislegt samneyti heima hjá henni. Varðandi þann framburð sinn hjá lögreglu að kærandi hefði verið kynferðislega ágeng í hans garð og að hún hefði skellt niður sófa á skrifstofunni sagði ákærði að um svefnsófa hefði verið að ræða sem kærandi hefði tekið niður. Hefði hún kunnað að leggja sófann niður. Sjálfur kynni hann það ekki. Ákærði kvað málsatvik ,,ekkert frekar“ hafa verið sér í fersku minni er hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann hefði verið búinn að drekka einn til tvo bjóra á staðnum en taldi minni sitt ekki hafa verið skert vegna áfengisneyslu. Það væri því ,,kjaftæði“ að hann hefði verið mjög ölvaður. Hann drykki einu sinni til tvisvar á ári núorðið og hefði dregið úr því.
Ákærði sagðist ekki hafa verið í sérstöku sambandi við kæranda eftir að kæran kom fram. Hins vegar hefði hann hringt í hana eftir að hann fékk vitneskju um að hún hefði kært, enda þætti honum málið ,,stórundarlegt“. Hefði hann sagt kæranda að þetta ,,gengi ekki svona og að hún yrði að taka svona lagað tilbaka, þetta væri bara vitleysa og bull“. Hann væri kvæntur og hún væri gift líka. Hann hefði ekki lagt sérstaklega að henni að draga kæruna til baka en spurt hvort hún vildi ekki bara gera það. Hann myndi þá ,,rissa upp blað“ sem þau gætu farið með. Hefði kærandi samþykkt það og sagt að hann skyldi ekki hafa neinar áhyggjur af þessu meira, hún myndi afturkalla kæruna. Sagðist ákærði hafa skrifað yfirlýsinguna en kærandi vitað hvað í henni stóð. Bæði hefði hún lesið yfirlýsinguna yfir og ákærði lesið hana fyrir hana.
Spurður um hvað hann hefði vitað um þroska konunnar sagði ákærði að það væri allt í lagi að tala við hana og hún gæti verið skemmtileg að tala við. Hún kæmi ,,skrýtin fyrir fyrst“ og hefði sérstakan talanda, en þegar maður færi að ræða við hana væri hún ekki vitlaus. Spurður um mat dr. Tryggva Sigurðssonar þess efnis að kærandi bæri með sér augljósa greindarskerðingu sagði ákærði að hún væri ekki vitlaus. Fólk væri misjafnt en hún vissi sínu viti.
Spurður um símtöl milli hans og kæranda, sem sjá má í gögnum málsins, sagði ákærði að hún hefði hringt í hann mjög oft. Hefði hún þá verið að biðja hann fyrirgefningar en hann hefði ekkert viljað ræða við hana. Hann hefði í einhverjum tilvikum hringt tilbaka eftir að hún hefði reynt að hringja í hann. Hefði hún beðið hann um aura og hefði komið fyrir að hann hefði aðstoðað hana við að kaupa sykursýkislyf. Kærandi hefði hins vegar farið að hringja í hann nokkuð ört og hefði hann þá lagt saman tvo og tvo eftir að hafa séð hana fara inn í Háspennuna. Teldi hann líklegast að hún væri spilafíkill. Hefði hún verið ágeng í hans garð um fjármagn og talað um að afturkalla yfirlýsingu sína ef ákærði myndi ekki hjálpa sér. Hefði hann upplifað það sem hótun í sinn garð. Kvaðst hann ekki hafa hitt kæranda eftir þennan atburð, að því undanskildu að hann hafi einu sinni hitt hana í versluninni Góða hirðinum og hafi hún þá verið á tveimur hækjum. Hefði hann spurt hana hvað hefði komið fyrir en að öðru leyti hefðu þau ekki rætt saman. Hann hefði aldrei hótað henni.
Ákærði kvað mál þetta hafa haft mikil áhrif á sig andlega og hefði hann sótt sér sálgæslu sökum þessa. Þá hefði málið haft slæm áhrif á heimilislíf hans og ættu margir um sárt að binda vegna þess.
Kærandi máls þessa, A, kvaðst fyrst hafa hitt ákærða þegar hún vann í fiski, en það hafi verið nokkrum árum áður en þau fóru að eiga kynferðisleg samskipti. Þegar það gerðist hefði ákærði líklega fengið símanúmer hennar hjá kunningja hennar og hringt í hana til að ,,fá það hjá henni“. Hefði þau hist fyrst á Skúlagötu þar sem hún hefði þá átt heima. Hefði ákærði komið til að spjalla við hana og síðan ,,viljað fá það“ hjá henni. Hún væri gift kona og hann hefði borgað fyrir og ,,allt í góðu með það“. Hefðu þau haft samfarir heima hjá henni í fjögur skipti fyrir um fimm árum síðan. Síðar hefði hann svo komið aftur í þrígang og haft við hana samfarir. Hefði ákærði oftast greitt henni fyrir samfarirnar.
Ákærði hefði svo hringt í hana umrætt kvöld og sagst ætla að sýna henni skrifstofu sína í Síðumúla 13. Hefði hún farið, enda ekki vitað að það ,,væri svona ruglað“. Hefði hann ekki minnst á það í símtalinu að hann vildi kynlíf. Þau hefðu í fyrstu rætt saman en ákærði svo skyndilega sagt að hún færi ekkert heim fyrr en næsta dag. Hefði hann talað um að hún færi með honum til útlanda og myndi þar selja fyrir hann kvóta. Kvaðst hún þá hafa svarað því til að það gæti hún ekki því hún væri með sykursýki. Þá hefði ákærði og talað um að hún myndi vera hjá honum um nóttina og hann myndi síðan fara með hana á hótel og leggja milljón inn á kortið hennar. Hefði ákærði verið með Gullkort og Landsbankakort. Hefði hún verið orðlaus þegar ákærði sýndi henni öll kortin sín. Svo hefði vinur hans úr Borgarfirði hringt og hefði ákærði þá talað um að fara með hana þangað. Hefði hún þá orðið hálfsmeyk, enda ákærði verið fullur og ruglaður og öðruvísi en venjulega. Hefði hún viljað koma sér út sem allra fyrst, enda ætlaði hún sér ekki að standa í ,,neinni vitleysu“. Spurð hvað ákærði hefði viljað í Borgarfjörð sagði hún að hann hefði sagst ætla að láta ,,þá alla fara á mig“.
Kærandi sagði að ekkert kynferðislegt hefði gerst á milli hennar og ákærða í Síðumúlanum enda hefði ákærði ekkert getað. Ákærði hefði sagt að hann ætlaði ,,eitthvað að gera fyrir mig” og hún þá háttað sig eins og ,,ég var vön að gera fyrir hann“. Hefði ákærði hins vegar ekki afklæðst sjálfur, heldur sagt henni að hún ætti að sofa á skrifstofunni í nótt. Kvaðst hún hafa legið í sófanum eftir að ákærði hefði tekið hann í sundur. Ákærði hefði svo ekki getað neitt og farið inn í eldhús. Þaðan hefði hann komið með það sem ákærði hefði kallað,,gervitittling” en hún hefði ekkert botnað í því. Kvaðst hún hafa verið að drepast í afturendanum eftir aðfarirnar. Tækið hefði verið mjótt og hávært þannig að hún hefði haldið að höfuðið á henni myndi klofna. Hefði ákærði komið inn með tækið, en það hefði ekki verið „gervitittlingur“. Hefði hann sett tækið í klofið á henni. Hefði hún þá sagt við ákærða ,,í guðsbænum farðu með þetta í burtu”.
Hún kvaðst hafa haft mikinn kláða og óþægindi, bæði í klofinu og afturendanum, eftir atvikið og aldrei á ævi sinni fundið fyrir öðru eins. Hefði hún síðar farið til heimilislæknis og fengið krem hjá honum. Spurð hvort ákærði hefði sett tækið inn í leggöng hennar taldi hún svo vera vegna þess að hún hefði verið mikið kvalin á eftir og hefði ekki getað stundað kynlíf með manni sínum í marga mánuði á eftir. Hefði eiginmaður hennar ekkert skilið í hvað væri að henni. Vegna þessa væri hún hætt að sofa hjá manninum sínum. Hefði það aldrei gerst áður, en þau hefðu verið gift í 30 ár. Sagði brotaþoli það rugl að ákærði hefði verið með smokk sem hann hefði sett á fingur sér. Það hefði verið dolla sem ákærði notaði á kynfæri hennar. Hefði hún stöðugt ýtt tækinu frá sér og hugsað um það eitt að komast út.
Hefði hún aldrei séð sófa sem þennan áður. Hefði hún í lokin farið út og sagðist hafa ,,komist undan” án þess að segja eitt einasta orð. Hefði hún hringt í manninn sinn er hún var komin út og hefði hann sótt hana. Hefði hann enga vitneskju haft um það að hún hefði áður haft samfarir við ákærða, og hefði hún sagt honum áður en hún fór á staðinn að ákærði ætlaði að sýna henni skrifstofu sína.
Hún kvaðst hafa hitt ákærða eftir atvikið og hefði hann þá beðið hana um að afturkalla kæruna. Spurð hvort hún hefði skrifað undir bréf hjá ákærða sagði hún að sonur hans hefði skrifað bréfið en ákærði afhent henni það án þess að lesa það fyrir hana. Hefði hún farið sjálf með skjalið til lögreglunnar. Hefði ákærði hótað henni og meðal annars sagt að hann ætlaði að fara niður á ,,þing og dæma hana vitlausa“. Skildi hún ekki af hverju ákærði hefði hótað henni því hún hefði ekki gert honum neitt. Brotaþoli kvaðst spurð minnast þess að hafa hitt ákærða í versluninni Góða hirðinum. Þar hefði ákærði sagt að þau ættu að ræða málið saman en hún kvaðst ekkert hafa um málið að segja.
Vitninu var sýnt skjal þar sem fram kemur að hún afturkalli kæru á hendur ákærða. Kvaðst hún aðspurð eiga ,,gott með að lesa“. Hefði hún sagt lögreglumanninum að ákærði hefði beðið hana um að taka kæruna tilbaka. Hefði lögreglumaðurinn þá sagt henni að hún skyldi ekki láta ákærða komast upp með það. Spurð um hvað hún hefði sjálf viljað gera kvaðst vitnið ekki hafa vitað hvað hún ætti að gera og hefði hún verið ,,villt”. Hefði ákærði sagt henni að hún ætti að fara með plaggið og tekið í hana.
Spurð um símtöl sem fóru á milli hennar og ákærða sagði vitnið að ákærði hefði hringt í hana ,,taugaveiklaður”. Hefði ákærði margbeðið hana um að taka kæruna tilbaka. Þá hefði ákærði ráðið sig í vinnu fyrir eina milljón. Hún hefði hringt í ákærða og sagt honum að játa. Kvaðst hún muna eftir því að hafa hringt oft í ákærða sakir þessa. Hefði hún ekki viljað draga málið í svona langan tíma. Kvaðst vitnið ekki hrædd við ákærða en kvaðst ekki vilja yrða á hann, því hún vissi ekki hvar hún hefði hann. Hefði ákærði þó hótað henni.
Sagði brotaþoli að hún væri sár út í ákærða og kvaðst ekki hafa ,,liðið neitt vel“ eftir atvikið í Síðumúlanum. Kvað hún atvikið sitja í henni en sagðist ekki hugsa oft um það. Hefði hún verið hálfhrædd. Hefði hún ekki ætlað sér að sofa hjá ákærða, en kvaðst hafa afklæðst vegna þess að ákærði bað hana um það. Kvaðst vitnið hafa verið samþykk því ef ákærði hefði gert eins og þau hefðu gert áður. Hún hefði hins vegar ekki vitað af tækinu sem ákærði var með. Hefði hún vitað að ákærði væri ekki með ,,gervitittling“ því þá hefði hún séð oft í ,,blöðunum”. Auk þess væri ekki svona mikill hávaði í þeim. Ákærði hefði verið með græna dós. Kvaðst hún hvorki fyrr né síðar hafa séð slíkt tæki. Vitnið kvaðst hafa legið með ákærða í sófanum og kvað hann ekki hafa snert á henni kynfærin, fyrr en hann snerti hana með dósinni. Hefði hann ekki komið við hana með höndum sínum.
Vitnið kvaðst hafa verið gift manni sínum í 29 ár. Áður hefði hún verið gift öðrum manni en það hjónaband hefði aðeins staðið í sex mánuði. Hefði hún orðið sjúklingur eftir fyrri mann sinn því hann hefði kýlt hana og barið. Kvaðst hún vera 75% öryrki og hefði hætt að vinna um þrítugt. Kvað hún ákærða ekki hafa látið hana hafa peninga eftir atvikið. Spurð um skólagöngu kvaðst vitnið hafa lokið barnaskóla. Hefði henni gengið vel í skóla og fengið 10 í lestri þegar hún var 7 ára.
Lögreglumaðurinn Sigurður Sigurbjörnsson lýsti aðkomu sinni að málinu með svipuðum hætti og fram kemur í upplýsingaskýrslu sem hann ritaði. Aðspurður um líðan og framkomu kæranda sagði hann að þeirri hugsun hefði ,,skotið upp“ að hún væri einhverjum annmörkum háð, andlega, og hefði það verið hans mat eftir að hafa talað við hana. Hefði honum raunar fundist það mjög fljótlega eftir að hann fór að tala við hana.
III.
Í málinu liggur fyrir skýrsla Arnars Haukssonar fæðingar- og kvensjúkdómalæknis, um skoðun á kæranda á neyðarmóttöku. Kemur þar fram að á kæranda hafi sést núnings- og afrifusár, innanvert á báðum lærum við nára. Þá hafi hún einnig verið rauð. Á meðal rannsóknargagna í málinu eru einnig ljósmyndir af áverkum hennar sem teknar voru á neyðarmóttökunni.
Í símaskýrslu sem tekin var af lækninum við aðalmeðferð málsins sagði hann kæranda hafa verið skýra í frásögn við komu, en eirðarlausa. Hefði hún sagt að sér liði illa en einnig hefði hún verið með verki. Hefði hún haft áhyggjur af því sem gerðist umrætt kvöld. Hefði hún talað um að ákærði hefði fengið hana til að hátta og notað áhald eða tæki til að nudda í kringum kynfæri og innanvert á lærum hennar. Hefði skoðun leitt í ljós að hún væri með roða við barma og afrifur innan á lærum, sem gætu passað við þá lýsingu sem konan gaf. Eftir að hafa rætt við hana, og heyrt lýsingu hennar á atburðarásinni, hefði honum fundist konan vera ,,talsvert á eftir“.
Við rannsókn tæknideildar lögreglu á sýnum sem tekin höfðu verið á neyðarmóttöku af innanverðum börmum kæranda fundust engin lífsýni sem nothæf gátu talist til DNA-kennslagreiningar. Meðal gagna málsins eru einnig ljósmyndir af skrifstofuhúsnæði ákærða.
Fyrir liggur í málinu skýrsla dr. Tryggva Sigurðssonar sálfræðings, dags. 5. desember 2007, sem unnin var að beiðni lögreglustjórans í höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar máls þessa. Kemur þar fram að markmiðið með athuguninni hafi verið að meta andlegan þroska kæranda og heilbrigðisástand, einkum með tilliti til þess hvort hún eigi við andlega fötlun eða geðsjúkdóm að stríða. Segir í skýrslunni að kærandi beri með sér augljósa greindarskerðingu, að hún eigi erfitt með að orða hugsanir sínar, hafi lágt sjálfsmat og afsaki sig stöðugt. Þá er frásögn hennar sögð almennt ruglingsleg. Hún sé öryrki og sykursjúk. Þá segir: ,,Niðurstöður greindarprófunar (WAIS-III) sýna heildarútkomu neðarlega á stigi vægrar þroskahömlunar og útkomu marktækt undir meðallagi á öllum prófþáttum, bæði máltengdum, verklegum og óyrtum.“ Síðar segir svo: ,,Alvarlegir erfiðleikar koma fram hjá A á prófþáttum, sem meta almenna þekkingu, skilning, orðskilning, myndun yfirhugtaka, færni í hugarreikningi og heyrnrænt skammtímaminni á tölur. A á til dæmis mjög erfitt með að útskýra merkingu einfaldra orða og hugtaka, segir að 24 vikur séu í einu ári og að sólin rísi í norðri. Hugsun er hlutbundin og A skilur illa fyrirmæli, jafnvel þó þau séu einföld. Hún hefur aðeins vald á einfaldasta hugarreikningi.“
Einnig er þess getið að kærandi sé mjög stirðlæs og geti alls ekki skrifað einfaldan texta eftir upplestri. Kemst Tryggvi að þeirri niðurstöðu að kærandi sé ótvírætt greind á stigi vægrar þroskahömlunar (mild mental retardation). Fötlun hennar sé því umtalsverð og augljós. Hvorki sé unnt að leggja fyrir hana persónuleikapróf, né spurningalista yfir hegðun og líðan vegna greindarskerðingar. Þá sýni hún alvarlega hræðslu og einkenni áfallastreitu vegna hins meinta kynferðisbrots.
Tryggvi staðfesti skýrslu sína fyrir dómi. Kvaðst hann vera sérfræðimenntaður á sviði fatlana og starfa sem sviðsstjóri á greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins á sviði þroskahamlana. Sagði hann þroskahömlun vera skilgreinda fötlun og hefði hún víðtæk áhrif á nám, aðlögun að samfélaginu, hegðun og líðan. Kvaðst Tryggvi hafa hitt kæranda í þrígang og rætt ítarlega við hana. Hefði honum fundist það mikilvægt í ljósi þess að ekki reyndist unnt að leggja fyrir hana hefðbundin próf vegna skerðingar hennar. Sagði hann mælda greind kæranda vera neðarlega á stigi vægrar þroskahömlunar. Kærandi væri af þeirri kynslóð að hún hefði takmarkaða aðstoð fengið. Spurður um mat hans á því hvort kærandi bæri með sér augljósa greindarskerðingu og hvort fötlun hennar væri umtalsverð og augljós kvaðst hann telja að það hlyti að vera hverjum manni augljóst sem við hana talaði að hún væri greindarskert. Kvað hann innbyggt í eðli þessarar fötlunar að auðvelt væri að misnota sér traust. Rökhugsunin og ályktunarhæfnin væri ekki eins og hjá fólki almennt. Hefði honum fundist þetta koma skýrt fram í kynnum hans af brotaþola.
Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur hefur unnið matsgerð, dags. 27. október 2008, þar sem andlegur þroski kæranda var metinn. Í niðurstöðukafla matsins segir svo: „Í matsbeiðni er óskað eftir að matsmaður segi til um hvort A sé haldin einkennum um alvarlega hræðslu og einkenni áfallastreitu og ef svo sé hvort rekja megi þau til hins meinta kynferðisbrots. Einnig hvort hún teljist haldin andlegri fötlun, og hvort hún hafi vegna andlegs ástands síns ekki getað spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“ Síðar segir: „A telst ekki vera með áfallaröskun nú í október 2008, að því marki sem hægt er að leggja mat á það án formlegra sálfræðiprófana. En hún sýnir enn umtalsverð merki kvíða og vanlíðunar sem rekja má til atburðarrásarinnar að Síðumúla 13 þann 22. júní 2007, þannig að atburður þessi hefur sett mark sitt á líf hennar.“ Að síðustu er þess getið í matsgerðinni að niðurstöður greindarprófs hafi gefið kæranda greindarvísitöluna 57 sem sýni að þroskahömlun hennar sé á stigi vægrar þroskahömlunar. Þeir sem séu með þroskahömlun af þessu tagi eigi erfitt með að bera ábyrgð á daglegu lífi og þurfi margvíslegan stuðning frá öðrum ef vel eigi að vera. Auðvelt sé að misnota traust þeirra og trúnað og leiða þá inn í atburðarás sem þeir ráði ekki við.
Valgerður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Kvaðst hún geta tekið undir það mat dr. Tryggva Sigurðssonar að kærandi væri með augljósa greindarskerðingu. Væri hún „á ystu mörkum lágrar greindar“. Þætti henni sjálfri ,,dálítið undur“ að kærandi gæti búið sjálf . Kvað hún allar upplýsingar sem hún hefði haft í höndunum við mat á þroska kæranda benda til að hún væri mjög þroskaheft. Almennt væri við það miðað að töluleg meðalgreind væri 100 stig. Brotaþoli hefði mælst með 57 stig sem teljist mjög lág greind. Mjög fáir mælist á bilinu 50-60 stig. Gera þurfi ráð fyrir því að þeir sem mælist niður undir 70 stigum þurfi einhverja þjónustu. Þeir sem mælist með greind undir 50 stigum búi á sambýlum eða fái mikla þjónustu. Slíkt fólk sé ekki á almennum vinnumarkaði heldur í svokallaðri verndaðri vinnu. Þegar kærandi hafi verið að alast upp hefðu aðstæður í þjóðfélaginu hins vegar verið allt aðrar og hún hefði farið í gegnum skólakerfi líkt og jafnaldrar hennar. Hefði kærandi sjálf sagt að hún hefði verið ,,tossi“ í skóla. Hún væri ekki almennilega læs auk þess sem hún skrifaði eigið nafn mjög illa. Hefði kærandi einhvern veginn ,,flotið með“. Hefði hún hætt í skóla áður en skyldunámi lauk.
Kvaðst hún telja að þroskahömlun kæranda væri ,,býsna augljós“ en þó gæti hún ímyndað sér að farið gæti framhjá fólki hversu skert hún væri vegna þess hve geðgóð og ljúf hún væri og ræðin við fólk.
IV.
Ákærði krafðist þess í þinghaldi 27. maí 2008 að málinu yrði vísað frá dómi þar eð það hefði ekki verið rannsakað nægilega. Kröfu ákærða var hafnað með úrskurði uppkveðnum 10. júlí 2008 á þeim forsendum að ekki væru slíkir meinbugir á rannsókn málsins að efni væru til að fallast á að kröfuna. Ákærði hefur nú á ný krafist þess að málinu verði vísað frá dómi og vísar í því sambandi til þess að engin skýrsla hafi verið tekin af eiginmanni kæranda við rannsókn málsins hjá lögreglu og úr því hafi ekki verið bætt við aðalmeðferð málsins. Á þetta verður ekki fallist. Eiginmaðurinn mætti ekki til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir kvaðningu þar um. Var að ósk sækjanda ákveðið að taka málið til dóms til að tefja ekki frekar framgang þess og telur dómurinn að vöntun þessa vitnisburðar geti ekki varðað frávísun málsins frá dómi.
Ákærði hefur neitað sök. Byggir hann sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki haft nein kynferðismök við kæranda umrætt kvöld né hafi honum verið um það kunnugt að hún væri haldin andlegum annmörkum.
Eins og rakið hefur verið hefur kærandi borið á þann veg, bæði við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, að ákærði hafi stungið einhvers konar tæki í klofið á henni og nuddað kynfæri hennar með því. Lýsti hún því fyrir dóminum að aðdragandi þessa hefði verið sá að ákærði hefði sagst ætla ,,eitthvað að gera fyrir“ hana og hún þá háttað sig eins og hún væri „vön að gera fyrir hann“. Framburður ákærða hvað þetta varðar hefur á hinn bóginn verið nokkuð á reiki. Þannig lýsti hann því hjá lögreglu að kærandi hefði afklæðst og boðið honum að hafa mök við sig. Hefði hann í fyrstu verið hálftregur en svo reynt en ,,það bara dugði ekkert“. Hins vegar kannaðist hann aðspurður ekkert við græna tækið, en kvaðst hafa reynt að nota græna verju sem hann hefði sett upp á puttann og verið eitthvað að reyna að „hjálpa henni með puttanum“. Væri þessi græna verja hugsanlega tækið sem kærandi hefði talað um. Þegar ákærði var spurður fyrir dómi út í frásögn sína hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa snert kynfæri hennar heldur hefði hann eitthvað hafa verið að „fíflast“ með puttann í verju sem þarna hefði verið og að það hefði ekki verið til að ,,brúka til eins eða neins“. Hefði hann ekki haft í frammi neina kynferðislega tilburði gagnvart konunni í greint sinn. Þegar hann var svo spurður hvað hann hefði átt við þegar hann sagðist hafa ,,eitthvað reynt að hjálpa henni með puttunum, eitthvað smotterí“, sagði hann að það hefði ekki verið neitt, þetta hefði bara verið vitleysa. Hann hefði eitthvað mismælt sig og gæti hann ekki skýrt þessi ummæli frekar.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og þeim núningsáverkum sem greindust á kæranda við skoðun á neyðarmóttöku er það mat dómsins að skýringar ákærða á breyttum framburði sínum fyrir dómi séu ekki trúverðugar. Framburður kæranda hefur á hinn bóginn verið staðfastur og um flest skýr og greinargóður. Að þessu virtu telur dómurinn sannað að ákærði hafi í greint sinn nuddað kynfæri kæranda og að það hafi hann gert með fingrum eins og ráða má af framburði hans sjálfs. Hins vegar telst sönnun ekki komin fram um að ákærði hafi beitt kynlífstæki í því skyni eða stungið því eða fingri inn í kynfæri hennar.
Samkvæmt fyrirliggjandi álitsgerðum sálfræðinganna Valgerðar Magnúsdóttur og dr. Tryggva Sigurðssonar gáfu niðurstöður greindarprófs kæranda greindartöluna 57, sem sýni að greind hennar sé neðarlega á stigi vægrar þroskahömlunar. Segir í álitsgerð Tryggva að fötlun hennar sé umtalsverð og augljós. Erfiðleikar komi fram hjá henni í mállegri, verklegri og óyrtri rökhugsun og ályktunarhæfni. Þá kemur fram í vitnisburði hans fyrir dómi að hann telji að það hljóti að vera hverjum manni augljóst sem við hana tali að hún sé greindarskert. Kveður hann innbyggt í eðli þessarar fötlunar að auðvelt sé að misnota sér traust viðkomandi. Rökhugsun og ályktunarhæfni sé ekki eins og hjá fólki almennt. Þá lýsir Valgerður því svo að kærandi sé með augljósa greindarskerðingu og í raun „á ystu mörkum lágrar greindar“. Bendi allar upplýsingar sem hún hafi haft í höndunum við mat á þroska kæranda til þess að hún sé mjög þroskaheft. Þá segir hún að þeir sem hafi þroskahömlun af þessu tagi eigi erfitt með að bera ábyrgð á daglegu lífi sínu vegna andlegrar fötlunar sinnar. Auðvelt sé að misnota traust þeirra og trúnað og leiða þá inn í atburðarás sem þeir ráði ekki við.
Auk framangreinds ber hér til þess að líta að ekki er um það ágreiningur að ákærði og kærandi höfðu þekkst í alllangan tíma þegar umrætt atvik átti sér stað og talar ákærði í því sambandi um sjö til átta ár.
Þegar allt framangreint er virt, og eftir að hafa heyrt kæranda bera vitni, telur dómurinn að ákærða hafi ekki getað dulist að kærandi ætti við andlega annmarka að stríða.
Samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga telst það nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. 194. gr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Kemur því hér til skoðunar hvort ákærði hafi í greint sinn notað sér hina andlegu fötlun kæranda til að hafa við hana þau kynferðismök sem að framan hefur verið lýst. Verjandi ákærða hefur hvað þetta varðar vísað til þess að kærandi hafi verið samþykk kynferðismökum þeirra allt þar til hið meinta kynlífstæki kom til sögunnar en þá hafi afstaða hennar breyst. Þá sé hún tvígift kona og ætti því að vera vel meðvituð um eðli slíkra athafna.
Enda þótt kærandi hafi sjálf skýrt svo frá að hún hafi áður haft kynferðisleg samskipti við ákærða, oftast gegn borgun, lýsti hún því að þegar ákærði hringdi og bauð henni að skoða skrifstofu hans hefði hann ekkert minnst á kynlíf í því sambandi. Hefði hún farið, enda ekki vitað að það ,,væri svona ruglað“. Hefði hann ekki minnst á það í símtalinu að hann vildi kynlíf. Þau hefðu í fyrstu rætt saman en ákærði svo skyndilega sagt að hún færi ekkert heim fyrr en næsta dag. Ákærði hefði sagt að hann ætlaði ,,eitthvað að gera fyrir mig” og hún þá háttað sig eins og ,,ég var vön að gera fyrir hann“. Kvaðst hún ekki hafa ætlað sér að sofa hjá ákærða, en hafi afklæðst vegna þess að hann bað hana um það. Hefði hún verið samþykk því ef ákærði hefði gert eins og þau hefðu gert áður. Hún hefði hins vegar ekki vitað af tækinu sem ákærði var með.
Þegar til þessa er litið, og í því sambandi hafðar í huga umsagnir sálfræðinganna Valgerðar Magnúsdóttur og Tryggva Sigurðssonar um að auðvelt sé að misnota traust og trúnað þeirra einstaklinga sem séu með þroskahömlun eins og kærandi og leiða þá inn í atburðarás sem þeir ráði ekki við, verður að telja að ákærði hafi notfært sér andlega fötlun kæranda í því skyni að hafa við hana þau kynferðismök sem áður hefur verið lýst. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir réttilega færð til refsiákvæða.
V.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað sem áhrif getur haft á ákvörðun refsingar. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi.
Af hálfu kæranda hefur verið gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af sakfellingu ákærða á hún rétt á bótum úr hendi hans á grundvelli tilvitnaðrar lagagreinar. Ljóst er að kynferðisbrot eru almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum. Samkvæmt tilvitnaðri athugun dr. Tryggva Sigurðssonar sýndi kærandi í viðtölum við hann í árslok 2007 alvarlega hræðslu og einkenni áfallastreitu vegna kynferðisbrots ákærða. Þá kemur fram í matsgerð Valgerðar Magnúsdóttur í október 2008 að hún sýndi þá enn umtalverð merki kvíða og vanlíðunar vegna atburðarins en teldist þó ekki vera með áfallaröskun. Að þessu virtu þykja bætur til kæranda hæfilega ákveðnar 600.000 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði.
Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu að fjárhæð 137.000 krónur, vegna matsgerðar 173.375 krónur og vegna símaathugunar 18.269 krónur. Þá verður ákærða gert að greiða réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 697.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, 327.684 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði Friðjónsdóttur vararíkissaksóknara.
Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Guðjón St. Marteinsson og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómarar.
Dómsorð:
Ákærði, Jóhannes Eggertsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði A 600.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 37/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. júní 2007 til 23. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.353.528 krónur í sakarkostnað þar af 697.200 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, og 327.684 krónur í réttargæsluþóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.