Hæstiréttur íslands
Mál nr. 537/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Aðfinnslur
|
Miðvikudaginn 15. september 2010. |
|
|
Nr. 537/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aðfinnslur.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. september 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er þess krafist að kröfu um einangrunarvist verði hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn lögreglu á frumstigi og eru líkur á að fleiri en varnaraðili hafi komið að hinum meintu brotum. Má ætla að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins fái hann kost á að hafa samskipti við þá sem málinu kunna að tengjast. Því verður fallist á framkomna kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald varnaraðila og jafnframt að rétt sé að hann sæti einangrun svo að gæslan komi að gagni. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Það athugast að í forsendum hins kærða úrskurðar telur héraðsdómur rökstuddan grun standa til þess að varnaraðili geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Hins vegar er ekki vikið að rökstuddum grun um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, en slíkur grunur er forsenda þess að taka megi kröfu um gæsluvarðhald hans til greina, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ekki í forsendum úrskurðarins að finna sérstakan rökstuðning fyrir því að varnaraðila sé gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu. Þessir annmarkar á úrskurðinum eru aðfinnsluverðir, þó að þeir þyki ekki, eins og á stendur, eiga að valda ómerkingu hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 17. september 2010 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að skömmu fyrir klukkan 18 laugardaginn 11. september sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík, en þar hafi verið tilkynnt um 8 til 10 manna hóp af unglingum ganga frá húsinu og væru þeir bæði með hafnaboltakylfur og golfkylfur. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi enga verið að sjá en vegfarandi hafi gefið sig á tal við lögreglu og sagði að hópurinn hafi gengið frá húsinu norður [...] og síðan austur [...]. Hafi verið leitað í nágrenninu en án árangurs. Á íbúðarhúsinu við [...] hefði mátt sjá að búið hafi verið að brjóta þrjár rúður sem tilheyri íbúð A, föður B.
Skömmu áður, eða um kl. 17:50, höfðu B og C komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu og tilkynnt um hótanir. C sem sé nemandi í Menntaskólanum í [...] hafi nýlega orðið fyrir einelti af hendi nokkurra bekkjafélaga sem hafi verið á móti því að hún væri með B þar sem hann væri dökkur á hörund. Í kjölfarið hafi B fengið hótanir. Þetta mál hafi farið til skólastjóra og hafi þau talið að það væri búið. En einn strákur í bekknum, D, hafi ekki verið sáttur við það og haft samband við frænda sinn, X „stóra“, kærða í þessu máli. Eftir fundinn með skólastjóranum hefði ekkert breyst, hótanirnar höfðu bara aukist og núna væri kærði farinn að hringja í B og hóta honum barsmíðum. E, bróðir B, sagðist einnig hafa orðið fyrir hótunum því hann hefði reynt að aðstoða bróður sinn og C. Á meðan þau hafi verið á lögreglustöðinni hafi oft verið hringt í B og eitt sinn hafi hann sett hátalarakerfi á símann og þar hafi maður verið að hóta honum barsmíðum. Maðurinn vildi vita hvar B væri svo að hann gæti komið og gengið frá honum. B sagði að þetta hefði verið „þessi X stóri“. B hafi einnig verið með talsvert af SMS skilaboðum í farsíma sínum þar sem honum hafi verið hótað.
Fyrr um daginn mun hafi verið hringt nokkrum sinnum í gsm síma B og honum send sms skilaboð með hótunum, m.a. líkamsmeiðingar á hann sjálfan og aðra í fjölskyldunni. Meðal annars sagðist B hafa fengið skilaboð frá X úr síma [...] klukkan 14:49, en í því hafi staðið "[...] sjáumst". Kvaðst B hafa náð að taka upp tvö símtöl frá X og geyma þau á gsm síma sínum. B sagði að X hafi einnig hringt í E, eldri bróðir sinn, og hótað honum líkamsmeiðingum sem og eiginkonu hans og 1 og 7 ára gömlum börnum þeirra. Hringi X stóri úr síma [...] og einnig úr síma sem væri með leyninúmer. B kvaðst einnig hafa fengið sms hótanir frá D, bekkjafélaga C, og hafi þau verið send úr síma [...]. Einnig komi fram hjá B að vinur hans, F, hafi fengið símtal frá X og hafi X sagt honum hvernig hann hafi m.a. ætlað að rukka B um peninga.
Aðfaranótt sunnudagsins 12. september um klukkan 02:00 hafi A orðið var við brothljóð á heimili sínu við [...] og í kjölfarið hafi hurðin á íbúðinni verið brotin upp, en til verksins hafi verið notað slökkvitæki.
Í kjölfar atvikanna á [...] hafi B mætt ásamt föður sínum, A, á lögreglustöðina við Hverfisgötu til þess að leggja fram kæru vegna hótana, eignarspjalla og húsbrots. B og A segjast verulega hræddir um líf sitt og fjölskyldumeðlima. Hafi þeir m.a. leitað á þau ráð að flýja heimilið eftir seinna atvikið og ætli þeir svo að flýja land vegna málsins. B og A séu nú farnir af landi brott.
Kærði X hafi viðurkennt að hafa hringt í B en neiti að um hótanir hafi verið að ræða. Kærði hafi neitað að tjá sig að öðru leyti um þetta mál.
D, frændi kærða, hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa talað við kærða og beðið hann um hjálp. Kærði hafi svarað svo til að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur, málið yrði afgreitt. D hafi jafnframt talað um að hann vissi til þess að kærði hefði sett sig í samband við mann að nafni G og nefndur G hefði jafnframt haft samband við mann sem kallaður væri H.
Í málinu liggi fyrir að hringt hafi verið í síma B laugardaginn 11. september 2010 úr símanúmerinu [...] sem skráð sé á X skv. símaskrá og lögreglukerfinu. Í símtæki B, sem hafi símanúmerið [...], séu sms - skilaboð úr símanúmerinu [...]. Eftirfarandi skilaboð úr símanúmerinu séu sjáanleg í símtækinu:
Sent þann 11.9.2010 kl: 14:49 -„[...] sjáumst“
Sent þann 11.9.2010 kl: 16:31 -„Get ekki beðið eftir að sjúga á þér tittlinginn“
Sent þann 11.9.2010 kl: 20:10 -„Viltu enþá að ég sjúgi á þér tittlinginn ? Er spá að gera það á eftir :-*“
Í símtæki D sem hafi símanúmerið [...] sé að finna sms - skilaboð sem sent hafi verið úr símanum. Hafi eftirfarandi skilaboð verið send á símanúmerið [...] þann 11.9.2010 kl: 20:37: „Bara vesen med kærastan hennar .. bara svo eg seigi var eg og Xstori og fullt af folki.. Ad leita af theim. That a ad lemja C,B kærastann hennar og sidan alla vini hans. Bara that eina :) ekki vera seigja neinum, god birjun a trausti milli min og thin :)“
Rannsókn málsins sé enn á frumstigi. Nauðsynlegt sé að hafa uppi á öðrum sakborningum málsins og vinni lögregla að því. Þá þurfi einnig að rannsaka önnur gögn, svo sem símagögn o.fl., sem varpað geti skýrari ljósi á atvik. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína og/eða vitni í málinu og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð. Þá kunni hann að reyna að koma undan gögnum í málinu. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn málsins.
Sakarefni málsins er talið varða við 231. gr., 233. gr., 233. gr. a. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn ákvæðunum geti varðað allt að 2 ára fangelsi. Að mati lögreglu sé framkominn rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að umræddu máli og þar með gerst sekur um háttsemi sem geti varðað fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Í kæru er lýst alvarlegum brotum sem varða við 231. gr., 233. gr., 233. gr. a. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi. Fallist er á að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði geti torveldað rannsókn málsins, gangi hann laus. Með vísan til þess sem að framan greinir svo og til rannsóknargagna málsins er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo sem krafist er.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. september 2010 kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.