Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Lögskilnaður
- Dómstóll
- Lögsaga
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili gerir sömu kröfu og sóknaraðili, en krefst að auki kærumálskostnaðar.
Málsaðilar sem eru erlendir ríkisborgarar gengu í hjónaband á Íslandi 5. desember 2011. Þeir eru ekki búsettir hér á landi og falla að öðru leyti ekki undir neitt það tilvik sem gerð er grein fyrir í 114. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um lögsögu íslenskra dómstóla í hjúskaparmálum. Þá verður af þeirra hálfu ekki byggt á lögsögu hér á landi á undantekningarreglu 4. mgr. 141. gr. sömu laga, enda tekur sú regla samkvæmt efni sínu aðeins til staðfestrar samvistar. Málsaðilar lúta því hvorugur lögsögu íslenskra dómstóla og mál til hjónaskilnaðar þeirra í milli verður ekki höfðað hér á landi. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2016.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M1, [...],[...],[...] á hendur M2, til heimilis að [...],[...],[...], með stefnu birtri 7. september 2015.
Stefnandi krefst lögskilnaðar við stefnda skv. 37. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 4. mgr. 41. gr. sömu laga. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi samþykkir allar kröfur stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Stefnandi málsins er [...] ríkisborgari og kom til Íslands árið 2011 ásamt stefnda, sambýlismanni sínum, frá [...]. Tilgangur þeirra var að ganga í hjónaband. Hjónavígslan fór fram hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík 5. desember 2011 og sneru þeir svo aftur til [...]. Árið 2012 flutti stefndi út af heimili þeirra. Stefnandi sóttist eftir lögskilnaði hjá Sýslumanni Reykjavíkur en beiðninni var hafnað þar sem stefnandi uppfyllti hvorki skilyrði XV. kafla né XVI. kafla hjúskaparlaga um lögheimili né heimilisfesti hér á landi.
Stefnandi telur að samkvæmt meginreglum alþjóðlegs einkamálaréttar gildi sú regla að skilnaður fari fram í því landi þar sem aðilar séu búsettir. Málið horfir þannig við að hjónaband samkynhneigðra sé ólöglegt bæði í [...] og [...] sem leiðir til þess að aðilar geta ekki leitað skilnaðar í heimalöndum sínum. Krefst stefnandi því að honum verði veittur lögskilnaður við stefnda hér á landi og byggir kröfur sínar á 37. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og krefst skilnaðar sér til handa. Stefnandi og stefndi hafa ekki búið saman í 3 ár og fullnægja því skilyrðum greinarinnar. Stefndi samþykkir kröfu stefnanda.
II
Málsaðilar eru báðir erlendir ríkisborgara og komu hingað til lands í því skyni að ganga í hjónaband. Þeir hafa engin tengsl við landið. Til þess að unnt sé að höfða mál hér á landi verður skilyrðum V. kafla um varnarþing, í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að vera fullnægt.
Samkvæmt V. kafla laga nr. 91/1991 er meginreglan sú, að ekki er unnt að höfða mál hér á landi gegn manni sem á heimili í öðru landi. Undantekningar frá þessari meginreglu er að finna í 3. og 4. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð einkamála en þær eiga ekki við hér.
Stefnandi kveðst í málatilbúnaði sínum vísa um varnarþing til 2. mgr. 115. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Ákvæði 115. gr. er svohljóðandi:
„Mál skal höfða á heimilisvarnarþingi stefnda. Ef stefndi á ekki heimilisvarnarþing hér á landi skal mál höfða þar sem stefnandi á heimilisvarnarþing. Aðilar geta samið um annað varnarþing en að framan greinir.
Nú er eigi til að dreifa varnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er ráðuneytið kveður á um.“
Ekki liggur fyrir í málinu að ráðuneytið hafi kveðið á um varnarþing í Reykjavík. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki séð að stefndi eigi varnarþing hér og geti ekki samið um að eiga varnarþing hér á landi. Verður því ekki hjá því komist, þegar af þessari ástæðu, að vísa málinu frá dómi
Eins og mál þetta liggur fyrir þykir rétt að hvor aðili um sig bera sinn kostnað af málinu.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður er felldur niður.